13.1.2008 | 14:26
Fiskveiðiréttindi og mannréttindi
Nýlegt álit mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna varðandi íslensk fiskveiðistjórnunarmál hefur kallað á nokkrar umræður, eins og eðlilegt er. Íslensk stjórnvöld taka sjónarmið nefndarinnar vitaskuld alvarlega og hafa þau nú til efnislegrar athugunar.
Það hefur marg komið fram að við erum ekki bundin áliti þessu að þjóðarrétti. Nefndin nýtur heldur ekki stöðu dómstóls né kveður upp dóma. Það breytir því þó ekki að við erum aðilar að þeim sáttmála sem er forsenda nefndarinnar og starfs hennar. Þess vegna erum við að fara yfir álit nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að við höfum allt að hálfu ári til slíks starfs og ræðst það af eðli máls og umfangi þess hvort þörf reynist á að nýta allan þann tíma.
Nefndin klofnaði í afstöðu sinni. Meirihlutinn sem skipaður var 12 af átján nefndarmönnum lagði fram það álit sem því telst í raun skoðun nefndarinnar. Þriðjungur nefndarmanna var algjörlega á öðru máli og gerði raunar mjög alvarlegar athugasemdir við meirihlutaálitið og það sem í því fólst. Fulltrúar meirihlutans voru frá eftirtöldum ríkjum: Kólómbíu, Egyptalands, Tunis, Frakklands, Indlands, Benin, Ekvador, Sviss, Mauritius, Írlands, Suður Afríku og Perú. Þeir sem skipuðu minnihlutann voru tveir af þremur varaformönnum nefndarinnar, fulltrúar Bretlands, Bandaríkjanna, Ástralíu, Japan og Svíþjóðar, en þaðan er eini fulltrúi Norðurlandanna í hópnum.
Vegna þess að við viljum taka fullt mark á áliti nefndarinnar og í ljósi þess að það er hins vegar lítt rökstutt og ekki að öllu leyti skýrt, er ástæða til þess að vanda sig við vinnubrögð. Margir hafa talið sig bæra til þess að skilja álitið til hlítar án þess að hafa legið yfir því lengi. Það er sannarlega gott að slík gáfumenni leynist í hópi vorrar þjóðar. En affararsælla er örugglega að skoða það vel og vandlega. Hér er um að ræða stórt mál, sem skiptir efnahag okkar miklu máli og viðbrögð okkar við áliti þessu getur því haft afleiðingar.
Ekki síst vegna þess að svo virðist sem álitið sé mjög í andstöðu við niðurstöðu Hæstaréttar sem tekið hefur fyrir svipuð úrlausnarefni og mælt á kvarða stjórnarskrár okkar. Við vitum líka að fiskveiðikerfi framseljanlegra fiskveiðiréttinda, líkt og okkar, er algengt víða um heim þar sem sjávarútvegur er þróaður.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook