Önnur sjónarmið

SkríbentDálkurinn Önnur sjónarmið hefur löngum verið vanræktur hér á þessari heimasíðu. Það er mjög miður, því hann hefur verið mjög góð viðbót við efni síðunnar. Satt að segja jafnan tekið mjög fram, efni því sem hrotið hefur úr pennastöng síðuritara. Slóðaskapur ritara einn, hefur valdið því að ekki hefur verið nægjanleg rækt verið lögð við þennan ágæta þátt heimasíðunnar, með því að kalla til fleiri skrifara.

En nú er bætt úr því. Sá ágæti borgarfulltrúi í Reykjavík, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var svo elskuleg að skrifa í dálkinn að þessu sinni. Grein hennar er mjög góð og vel rökstudd, eins og vænta mátti. Fjallar hún um stöðu sveitarfélaga í þeirri alvarlegu krepputíð sem nú gengur yfir þjóðfélag okkar. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessari áhugaverðu grein.

Þorbjörg Helga leysir nú af hólmi ágætan Framsóknarmann, (eða hann var það amk.síðast þegar ég vissi) Bjarna Harðarson, sem skrifaði snöfurmannlega grein hér á síðuna. Skömmu fyrir brotthvarf Bjarna af þingi sagði ég við hann að enn trjónaði hann efst í þessum dálki svo óafvitandi væri ég líklega að leggja málstað framsóknarmanna lið, með því framferði mínu. Honum líkaði það ekki illa.

Á undan honum skrifaði minn góðir vinur Hlynur Þór Magnússon á Reykhólum einhver snjallasti penni Eyjunnar og ótrúlega fær um að sjá óvæntar og frumlegar hliðar mála í snarpri þjóðfélagsrýni sinni; eða þá bara í mannlegum og þekkilegum skrifum um hversdagslega hluti sem hann kann að glæða lífi með eftirminnilegum hætti. Mér þótti mjög vænt um það þegar hann þekktist boð mitt um að skrifa á síðuna. Nú heldur Hlynur úti gríðarlega góðri síðu, www.reykholar.is þar sem efnið er sótt í Reykhólasveit og nágrenni og ratar oft inn á aðra fjölmiðla, sakir snilldartakta ritarans.

Ég gæti talið þá fleiri upp. Nefni þó að sinni bara gamla vini, pólitíska andstæðinga og baráttujaxla af Alþingi. Ögmund Jónasson sem reið á vaðið með mikilli árásargrein á okkur í íhaldinu, Össur Skarphéðinsson núverandi iðnaðarráðherra sá eitursnjalli og víðfrægi bloggari og svo Hjálmar Árnason sem var á þeim tíma þingflokksformaður framsóknarmanna, en við höfðum mikið saman að sælda þegar ég gegndi sama starfi í Sjálfstæðisflokknum

Og nú lofa ég að herða mig við umsjón þessa dálks. Nú verður þessum dálki haldið úti með fleiri skríbentum og því fer svo vel á því að hefjast handa með ágætum skrifum flokkssystur minnar Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband