14.12.2008 | 17:19
Skítt og laggóstefnunni hafnað
Þegar tekjur ríkisins dragast saman um milljarðatugi og óhjákvæmileg útgjöld aukast sömuleiðis um milljarðatugi, er ekki nema tvennt að gera. Beita auknu aðhaldi og lækka útgjöld. Auka tekjur með hærri sköttum og aukinni gjaldheimtu. Þetta er ekki vinsælt verk, en hins vegar algjörlega óhjákvæmilegt. Eftir því sem aðhaldsstigið er meira verður afkoman betri og tilefni til skattahækkana minna og svo auðvitað öfugt.
Eitt er að minnsta kosti ekki hægt að gera. Stinga hausnum í sandinn og láta sem ekki sé tilefni til aðgerða. Slíkt er raunveruleikaflótti og stórháskálegur fyrir efnahagslífið. Það er hins vegar leiðin sem stjórnarandstaðan, að minnsta kosti Vinstrihreyfingin Grænt framboð, kaus að ráfa eftir.
Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þessa hluti mörg orð. Ríkissjóður varð af miklum tekjum við fall fjármálakerfisins. Veltan í samfélaginu minnkar og þar af leiðandi þær tekjur sem ríkissjóður hafði fengið. Afleiðing fjármálakreppunnar er síðan að til verða ný útgjöld sem ekki voru óhjákvæmileg í betra efnahagsástandi. Þess vegna fór ríkissjóðshallinn úr tæpum 60 milljörðum, eins og hann leit út í fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram í októberbyrjun og upp í 214 milljarða eins og raun hefði orðið á ef ekkert hefði verið aðhafst.
Hvað myndi það kallast ef ekkert væri gert? Ef við myndum fylgja einhverri skítt -og laggóstefnu, líkt og Vinstri Grænir leyfa sér? Það heitir ábyrgðarleysi. VG skammast bæði yfir tekjuöflun og útgjaldasamdrætti. Þeir kjósa að vera ábyrgðarlausir.
Ábyrgðarleysisstefnan hefði leitt yfir okkur aukna skuldasöfnun. Ríkissjóður hefði orðið að sækja stórfé á skuldabréfamarkað hér innanlands. Það hefði kallað á eftirspurn eftir fjármagni í samkepppni við atvinnulífið og ríkisvaldið. Það hefði því haldið uppi háum vöxtum á næsta ári, einmitt þegar þeir þurfa að lækka. Skítt -og -laggóstefna VG hefði því ekki einu sinni verið þægindastefna til skamms tíma. Hún hefði bitið fast í almenning og atvinnulíf. Sem betur fer ræður þessi óábyrga stefna því ekki för núna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook