29.4.2009 | 11:30
Ráðaleysi fremur en skeytingarleysi?
Samlíking úr síðasta bloggi, um að stjórnarmyndunarviðræður væru líkt nýtt leikrit á fjölunum, verður æ raunverulegri. Það er auðvitað löngu ljóst að ríkisstjórn vinstri flokkanna verður að veruleika. Leikurinn felst í því að setja upp atburðarrás ( sem klisjugerðarmenn Samfylkingar myndu væntanlega kalla ferli) sem líkist sem mest hefðbundinni stjórnarmyndun. Tímasetningin hefur meiri þýðingu í þessum viðræðum en innihaldið. Spuninn blívur !
Nú berast fréttir af tveimur áhersluatriðum sem draga athygli að þeirri leihúsumgjörð sem umlykur viðræður flokkanna.
Viðræðurnar hófust í Norræna húsinu. Þar með er fundin skírskotunin til norræna velferðarmódelsins, sem er hugtak sem nýtur hylli í báðum flokkunum sem nú sitja við samningaborðið. Skaði fyrir Samfylkinguna að ekkert finnst hér Evrópuhúsið, það hefði getað orðið skemmtileg umgjörð viðræðnanna í ljósi umræðna um ESB.
Og svo er það hitt. Mikill vilji er til að ljúka stjórnarmynduninni á 1. maí. Þá væri tengingin fengin við verkalýðsflokka. Verst er að í Samfylkingunni nýtur verkalýðshreyfingin lítils álits, eins og við vitum sem með þeim flokki höfum starfarð. Nafnbótin verkalýðsflokkur er þess vegna eins og glens með upphrópunarmerki, þegar við ræðum um flokka með slík viðhorf.
Annars er það til marks um stórfurðulegt raunveruleikaskyn þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala um að ekkert liggi svo sem á varðandi stjórnarmyndun, af því að flokkarnir hafi góðan meirihluta út úr kosningum og sitji við stjórnvölinn. Þetta segja þeir á sömu stundu og fréttir berast af hækkandi verðlagi innanlands vegna hruns krónunnar, gengi krónunnar er á slíkri ferð að enginn veit hvar það endar, atvinnulausum fjölgaði um 1.100 í mánuðinum, fleiri, fleiri fyrirtæki verða daglega gjaldþrota, skuldir almennings og atvinnulífs hrúgast upp, bankarnir eru ekki komnir í starfshæft ástand, fullkomin óvissa ríkir um sparisjóðakerfið, Seðlabankinn tekur hænuskref til vaxtalækkana á meðan okurvextir umlykja fólk og fyrirtæki og svo framvegis, og svo framvegis.
En kannski er þetta viðhorf forystumanna VG og Samfylkingar vísbending um ráðleysi, frekar en um skeytingarleysi gagnvart þessum alvarlegu tíðindum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook