Tvöfalt kjaftshögg frá ríkisstjórninni

StjórnarráðiðNýjar verðbólgumælingar valda vonbrigðum. Vegna veikingar á gengi krónunnar hækkar verðlag, á þeim tíma sem ella væru forsendur fyrir afar lítilli verðbólgu og jafnvel tímabundinni verðhjöðnun. Þessa ólánsþróun er eingöngu hægt að skrifa á syndaregistur tveggja aðila; ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Erfitt er í rauninni að sjá hvert ríkisstjórnin ætlar sér við efnahagsstjórnina. Stefnumörkunin er öll í skötulíki. Öllu er vísað inn í framtíðina og miklar efasemdir eru um getu stjórnarinnar til þess að takast á við sitt stóra verkefni; ríkisfjármálastefnuna sjálfa.

Seðlabankinn sendir út misvísandi skilaboð. Það er til dæmis fáum ljóst hvert bankinn ætlar varðandi jöklabréfin, sem hanga yfir okkur eins og Damoklesarsverð, sem getur fallið yfir okkur hvenær sem er. Gjaldeyrishöftin eru farin að valda hér geysilegum skaða og yfirlýsingar norska seðlabankastjórans um þau mál eru lítt traustvekjandi.

Það er þessi óvissa sem er þess vegna svo þrúgandi og er í rauninni orðið sjálfstætt efnahagslegt vandamál.

Vegna þessa ráðleysis húrrar nú krónan okkar niður rússibanabrautina og enginn getur sagt hvar hún endar. Fyrir vikið æðir innflutningsverðlagið upp og vinnur á móti þeirri verðlækkun sem er orðin á öðrum sviðum.

Húsnæðisverð var einu sinni aðal aflvaki verðbólgunnar. Nú dregur lægra verð á húsnæði, verðbólguna niður. Á sama tíma þrýstir innflutningsverðlagið verðbólgunni upp. Í kjölfarið hækka síðan lán almennings og fyrirtækja. Og ríkisstjórn og Seðlabanki yppta bara öxlum. Þetta dúó efnahagsstjórnarinnar kærir sig kollótt um vandamálin sem hrannast upp hjá fólkinu í landinu. - Það er nógur tími segja Jóhanna og Steingrímur J. í boði Ólafs Ragnars Grímssonar. 

Sem sagt. Unga fólkið og aðrir húsnæðiseigendur í landinu sjá eigur sínar lækka í verði, en skuldirnar hækka á sama tíma. Ríkisstjórnin greiðir almenningi í landinu með þessu tvöfalt kjaftshögg og slappar svo af við ríkisstjórnarleikritið.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband