Málflutningi forsætisráðherrans afneitað

JóhannaÞað er greinilega farið að styttast í kveikiþræðinum í ríkisstjórnarsamstarfinu þegar kemur að ESB málum.

Óskoraða athygli vakti, að burðarásinn í stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, var áherslan á ESB aðild. Þar var málflutningurinn einfaldur: Engin vandamál fylgja aðildinni, allt er þar blúndulagt og rósrautt. Samningsstaðan vegna sjávarútvegsmála er sterk og í landbúnaðarmálum felast eintóm tækifæri með ESB aðild, þótt allar úttektir sem gerðar hafi verið sýni hið gagnstæða. Ráðherrann lofaði lækkun matvælaverðs með aðild að ESB en sagði að matmvælaframleiðslugreinin landbúnaður myndi lifa góðu lífi með styrkjum frá Brussel ! Þetta er fögur framtíðarsýn.

Það var því ekki að furða að samstarfsfólk Jóhönnu Sigurðardóttur i samstarfsflokknum kynni henni litlar þakkir. Steingrímur J. Sigfússon svaraði henni að mestu með þögninni um þetta mál; helst þó að hann gerði lítið úr þýðingu málsins gagnstætt forsætisráðherranum sínum. En báðir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem í umræðunum töluðu,  lögðu sig í framkróka við að afneita ESB dekri Samfylkingarinnar.

Lengst gekk Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sjálfur þingflokksformaður VG og leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi. Hennar ræða verður ekki skilin öðruvísi en þannig að hún hafi beinlínis svarið af sér þann hluta stefnuræðu forsætisráðherra sem laut að ESB málum. Hvorki meira né minna. Hún hvatti Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til að tala eingöngu fyrir hönd Samfylkingar en ekki "okkur hin þegar hún talar um aðild okkar að ESB".

Skýrara getur þetta ekki verið. Þeim fjölgar sem sagt dag frá degi í ríkisstjórnarliðinu sem hafna málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar í því máli sem forsætisráðherrann gefur mest vægi í stefnuræðu sinni.

Þarna var svo rækilega sett ofan í  við forsætisráðherrann og formann Samfylkingarinnar að eftir er tekið. Þetta er eins skýr höfnun á stefnumiði ríkisstjórnarinnar og hægt er að hugsa sér;  eða er ESB tillaga Össurar Skarphéðinssonar  kannski bara einkamál Samfylkingarinnar sem samstarfsflokknum kemur ekki við?




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband