Engin sátt um hina pólitísku hrákasmíð

FiskurTvennt bar einkum til tíðinda í utandagskrárumræðunni sem ég efndi til í fyrradag um fyrningarleið í sjávarútvegi.

Hið fyrra var að ríkisstjórnin hefur sett fyrningartillögur sínar inn í stjórnarsáttmálann algjörlega undirbúningslaust. Ég spurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvaða athuganir lægju að baki hugmyndunum um að fyrna aflaheimildir útgerða eins og áformað er. Ekkert svar fékkst, frekar en við nokkrum þeim spurningum sem fyrir ráðherrann voru lagðar. Minnist ég ekki eins snautlegra viðbragða við spurningum í utandagskrárumræðu. Engin minnsta tilraun var gerð til að svara einu né neinu, en aðeins lesið upp úr stjórnarsáttmálanum ! Alveg makalaust.

Það kom fram að ætlunin væri að láta fara fram athugun síðar á afleiðingum fyrningarinnar. Sem sagt fyrst er stefnan mörkuð og svo er athugað til hvers hún muni leiða. Þetta er dæmi um pólitíska hrákasmíð í stórmáli og því fullkomið ábyrgðarleysi.

Hitt sem til tíðinda má telja, var sú staðreynd að Samfylkingin er algjörlega úti á köldum klaka í þessu fyrningarmáli. Flokkurinn stendur alveg einn. Talsmenn hans í umræðunni röktu stefnu sína með kunnuglegum frösum og voru þeir einu sem í umræðunni á miðvikudaginn sem héldu málstað fyrningarinnar á lofti.

Það eru í sjálfu sér all mikil tíðindi.

Öðrum eru ljósir annmarkar þessarar stefnumótunar og sem birtist okkur í áliti fólks í sjávarbyggðunum sem gjalda mjög varhug við þessari leið. Því verður ekki trúað að stjórnvöld skelli skollaeyrum við þessum aðvörunarorðum fólksins í sjávarútvegi og sveitarstjórnum úti um allt land.  Ríkisstjórnin hlýtur að sjá að sér. Viðbrögð Vinstri grænna, ráðherrans jafnt og formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis,  í umræðunum um fyrningarleiðina gefa okkur það til kynna.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband