10.6.2009 | 08:44
Icesave-samningur í hífandi óvissu
Í rauninni er staða Icesave samningsins mun alvarlegri en nokkurn gat órað fyrir. Að loknum gærdeginum er það eina sem liggur fyrir, að fullkominn óvissa virðist ríkja um það hvort samningurinn verði yfirhöfuð staðfestur á Alþingi.
Á þessari síðu var það fullyrt í gær að samningurinn hlyti staðfestingu þings og forseta. Um forsetann þarf ekki að efast, því eins og hér var sagt í gær; hann mun aldrei gera VG og Samfylkingu það að hafna svona stórmáli sem þessir flokkar bera ábyrgð á. Það vita allir.
En hvað með Alþingi? Út frá því var bókstaflega gengið að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hefðu gengið úr skugga um það að samningurinn nyti stuðnings meirihluta Alþingis áður en hann var undirritaður. Nú er það fullkomlega óvíst.
Ég spurði nefnilega Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, formann þingsflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í gær um þetta á Alþingi. Svarið var áhugavert. Meirihluti þingflokksins styður málið. Ekkert um það hvort málið nyti nægjanlegs stuðnings á Alþingi. Því hefur enn ekki verið svarað.
Þessi stóri samningur; fjárskuldbinding um heila 650 milljarða er í hífandi óvissu. Það liggur ekki fyrir hvort ríkisstjórnin geti fullnustað samning sem hún hefur gert.
Það dugir auðvitað ekki að vísa til þess að málið sé í höndum Alþingis að lokum. Málið var unnið á forræði ríkisstjórnarinnar og er á hennar ábyrgð. Samninganefndin var skipuð af ráðherrunum. Stjórnarandstaðan var ekki kölluð til. Eftir hennar stuðningi hefur ekki verið leitað.
Gleymum því ekki að það er búið að undirskrifa samninginn. Í svona máli ber ríkisstjórn að ganga úr skugga um stuðning við hann. Það er forkastanlegt að ekki sé full vissa um stöðu málsins; máls af þessari stærðargráðu. Hér er enn eitt málið á ferðinni þar sem ríkisstjórnin er á furðulegri ferð.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook