Afstaða okkar til Icesavemálsins

 

Ice save málið sem Alþingi afgreiddi nú á dögunum er eitt hið stærsta og versta sem þingið hefur fengist við, mjög lengi. Í húfi eru miklir hagsmunir og málið sjálft er ljótt dæmi um það sem aflaga fór í aðdraganda efnahagshrunsins nú í október sl.

Fyrri kosturinn

Í haust stóðum við frammi fyrir tveimur kostum. Hinn fyrri blasti svona við okkur: Það er fullkomin óvissa í besta falli um það hvort okkur ber nokkur skylda til að standa straum af Icesaveinnlánunum. Fyrir því hafa verið flutt mjög sannfærandi rök að okkur beri engin greiðsluskylda í þessu máli. Því voru og eru Hollendingar, Bretar og raunar ESB þjóðirnar og stjórnvöld Norðurlandaþjóðanna ósammála. Þau telja að okkur beri greiðsluskylda og voru reiðubúin til þess að beita okkur hörðu til þess að sveigja okkur til að fallast á þá skoðun sína. Þar var engum vinum að mæta; þvert á móti. Það var ljóst að þessar þjóðir beittu meðal annars áhrifum sínum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að beygja okkur undir þessa skoðun sína. Stöðugt lágu alls konar hótanir í loftinu frá þessum „vinum“ okkar. Okkur voru eiginlega allar bjargir bannaðar í haust.

Eðlilegt hefði verið að fara dómstólaleiðina til þess að skera úr um hvorir hefðu á réttu að standa; við eða stjórnvöld þeirra þjóða sem lýstu sig ósammála okkur. Ætla hefði mátt að þær þjóðir sem voru okkur ósammála hefðu getað sætt sig við dómstólaúrskurð. Þetta eru jú réttarríki. En því var ekki að heilsa.

Málsástæður okkar voru sterkar og meðal annars studdar skoðunum þekktra lögfræðistofa úti í heimi. En í húfi var sjálft innistæðutryggingakerfi Evrópu og ljóst að hin áhrifamiklu forysturíki innan ESB voru ekki tilbúin til þess að setja það í óvissu. Afleiðingarnar hefðu getað orðið miklar fyrir fjármálakerfi Evrópu og þar með heimsins. Það er bersýnilega aðalástæða þess að stjórnvöld þessara ríkja og ríkjasambanda keyrðu mál þessu svo hart.

 

Síðari kosturinn

Vegna þess hve að okkur var sótt var farið að skoða möguleika á pólitískum úrslausnum málsins. Það var hinn kosturinn í stöðunni Tillaga þess efnis var lögð fyrir Alþingi í haust. Alþingi ákvað síðan að sú leið yrði farin. Með því var dómstólaréttinum ekki varpað frá okkur. Hann var alltaf til staðar og sérstaklega kveðið á um það í nefndaráliti meirihluta þáverandi Utanríkismálanefndar Alþingi. Ákvörðunin um að fara hina pólitísku leið var síðan vörðuð mjög ströngum skilyrðum, sem við, Bretar og Hollendingar höfðum komið okkur saman um. Þetta hafa verið kölluð Brussel viðmið og voru til þess ætluð að verja okkur í samningum við svo sterkar og voldugar þjóðir. Þessi skilyrði voru í rauninni forsenda þess að við vorum tilbúin til að láta á reyna hina pólitísku leið.

Svikist um að virða viðmiðin

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sveikst um að virða þessi viðmið Alþingis. Og á þau var ekki minnst í skipunarbréfi til samninganefndarinnar. Hefur þetta meðal annars komið fram í grein í Morgunblaðinu eftir Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðing og aðstoðarkonu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrrv. utanríkisráðherra.

Heim kom samninganefndin líka með hörmulegan samning. Ef ekki væri vitað betur mætti ætla að samningur þessi hefði verið skrifaður einhliða af Bretum og Hollendingum. Svo mjög voru fyrir borð bornir hagsmunir okkar. Raunar er það svo að eftir því sem samningurinn er betur skoðaður blasir hörmungin við. Við köstum samkvæmt samningnum, öllum rétti okkar frá okkur, skuldbindum okkur til að standa straum af greiðslu upphæðar sem við vitum engan vegin hvað geti orðið há og samþykkjum að lúta nánast í einu og öllu vilja viðsemjenda okkar.

Var unnið þvert á flokkslínur?

Nú er mikið talað um það að í þessu máli hafi verið unnið þvert á flokkspólitískar línur. Rétt er það að sú varð raunin að einhverju leyti í lokin. En þetta vinnulag var þvert á vilja ríkisstjórnarinnar og stjórnarliðsins.

Þar á bæ höfðu menn lagt í hann með nýja samninganefnd og undir  formerkjum ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráðherra sagði sem frægt varð að endemum, að í augsýn væri glæsilegur samningur. Tveimur dögum áður en undir samninginn var skrifað sagði sami ráðherra, engar viðræður vera í gangi, bara óformlegar þreifingar. Formaður samninganefndarinnar sagðist ekki hafa nennt að hanga lengur yfir viðfangsefninu. Og ekki þarf að berja lengi augum ræður fjármála- og utanríkisráðherra við fyrstu umræðu málsins til þess að skilja að fyrir þeim vakti að gera þetta mál að flokkspólitísku máli. Við og þeir, var tónninn á þeim bænum og þeirri stundu.

En þetta átti eftir að breytast. Hrokinn laut í lægra haldi fyrir uppgerðri auðmýkt.

Það var ekki fyrr en þeir höfðu lotið ærlega í gras og komust hvorki lönd né strönd að tónninn breyttist. Þeim var nauðugur einn kosturinn. Þeir réðu ekki ferðinni og gátu sig hvergi hreyft. Stjórnarandstaðan og ögmundararmur VG tók höndum saman og spyrnti fótum, gegn vilja Samfylkingarinnar og steingrímsarms VG.

Skrifað undir í blóra við vilja Alþingis

Alþingi fékk það verkefni  til úrlausnar að taka afstöðu til þess að veita ríkisábyrgð vegna uppgjörs á Icesaveinnlánunum. ( Takið eftir að ég nota vísvitandi aldrei hugtakið skuldbinding, því það er hún ekki) Eftirleikurinn er kunnuglegur. Í ljós kom að ríkisstjórnin samþykkti að skrifa upp á þetta mál vitandi að ekki væri meirihluti fyrir málinu á Alþingi. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál. Ríkisstjórnin skuldbatt  sig meðal annars til þess að reiða fram ríkisábyrgð á gífurlegum fjármunum, þó stjórnarskráin segi að fjárveitingarvaldið sé hjá Alþingi og fyrir hafi legið að meirihluti Alþingis var þessu mótfallinn.

Auðvelt hefði verið einfaldlega að kasta málinu beint í hausinn á ríkisstjórninni aftur. Þar með hefði samningurinn orðið ógildur af því að ríkisábyrgðin var forsenda þess að samningurinn hefði eitthvað gildi. Samningurinn sjálfur kom ekki fyrir þingið og því var verkefni þess ekki að taka í sjálfu sér afstöðu til hans, heldur ríkisábyrgðarinnar.

Stjórnarliðar voru tilbúnir að samþykkja óbreytt Icesavesamkomulag

Höfum nú  eitt á hreinu. Ríkisstjórnin, að frátöldum Ögmundi Jónassyni og þingmenn stjórnarflokkanna að frátöldum nokkrum andófsmönnum úr VG vildu samþykkja ríkisábyrgðina galopna og var raunar tilbúin til þess að ljá þessari niðurstöðu samþykki sitt án þess að hafa nokkurn tímann séð samninginn. Marg oft kom síðan fram hjá þessum stjórnarliðunum að þeir vildu samþykkja Icesavesamninginn í einum grænum hvelli og gáfu í upphafi lítt fyrir allt tal um fyrirvara og skilyrði, sem eitthvað munaði um. Þvert á móti verður að segja þá sögu eins og hún var; stjórnarliðar móuðust við í hvert sinn sem talað var um að setja inn skilyrði í þágu íslenskra hagsmuna. Öllu slíku var troðið oní kok þeirra með illu.

Í þágu þjóðarhags

Í þágu þjóðarhags og til þess að afstýra stórslysi tókum við stjórnarandstæðingar í samvinnu við hóp stjórnarliða það til bragðs að vinna þvert á vilja ríkisstjórnarinnar og móta aðra niðurstöðu en ríkisstjórnin hafði fallist á. Það tókst. Ríkisstjórnin og hennar fylgismenn máttu láta í minnipokann. Niðurstaðan sem fékkst var þvert á yfirlýstan vilja þeirra í upphafi málsins. Niðurstöðuna samþykktu þeir af því þeir gátu ekki annað og reyndu til hinstu stundar að draga úr biti þeirra skilyrða sem Alþingi setti.

Frumvarpið sem við að lokum samþykktum varðandi ríkisábyrgðina var geirneglt með sverum, efnisríkum og afgerandi fyrirvörum. Og þó að forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann legðu sig í framkróka við að gera sem minnst úr gildi þeirra, þá var öllum öðrum málið ljóst.  Árni Þór Sigurðsson helsti talsmaður VGí fjárlaganefnd í þessu máli viðurkenndi þannig í orðaskiptum við mig á Alþingi að þessir fyrirvarar hefðu bein áhrif á samninginn sjálfan.

Afstaða okkar sjálfstæðismanna

Þegar  hér var komið sögu var í rauninni komin upp alveg ný staða í málinu. Annars vegar var þingið að taka afstöðu til frumvarps sem laut að ríkisábyrgð á Icesaveinnistæðunum. Þetta frumvarp var orðið gjörbreytt og ekkert orðið eftir af upphaflegu sköpunarverki ríkisstjórnarinnar nema einhverjar málfræðilegar samtengingar á borð við, en, og – og eða. Hins vegar lúrði í bakgrunninum samningurinn sjálfur, sem ríkisstjórnin hafði gert og hlaut að bera ein ábyrgð á. Samningurinn var enda gerður án nokkurs atbeina þingsins.

Því varð það niðurstaða okkar sjálfstæðismanna að stija hjá við loka afgreiðslu málsins. Við studdum breytingartillögurnar sem meirihluti fjárlaganefndar flutti og við vorum raunar flutningsmenn aðþeim, að hluta. Þær voru til bóta þó við hefðum án efa skrifað þær öðruvísi, hefðum við mátt ráða. En forsenda og ástæða þessarar ríkisábyrgðar var hins vegar hin hraklegi samningur sem við gátum ekki og vildum ekki undir nokkrum kringstæðum bera ábyrgð á. Fyrir þeirri afstöðu okkar fluttum við ítarleg rök í nefndarálitum.

Jafnt  við aðra umræðu málsins http://www.althingi.is/altext/137/s/0337.html

og í þriðju umræðu málsins: http://www.althingi.is/altext/137/s/0350.html

Kjarni málsins

Kjarni málsins er þá þessi. Ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi kolómögulegt mál sem langflestir þingmenn stjórnarliðsins voru þó tilbúnir að samþykkja umyrðalaust. Stjórnarandstaðan og uppreisnarmenn úr VG tóku hins vegar völdin og breyttu málinu til betri vegar; við afstýrðum í raun stórslysi. Eftir stendur hins vegar afleitur samningur sem ríkisstjórnin ein getur borið ábyrgð á. Niðurstaða okkar sjáflstæðismanna var því við þessar aðstæður rökrétt.

 

Þessi grein birtist í vefmiðlum í Norðvesturkjördæmi og AMX

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband