Sest við krossaprófin á samdráttartíma

KrossaprófÁ sama tíma og ráðuneyti og stofnanir þurfa að skera niður útgjöld sín, leggur ríkisstjórnin ofuráherslu á að vinna í umsókn um ESB aðild. Það þýðir ekkert fyrir Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra að skæla yfir örlögum sínum í ESB málinu eins og hann gerir nú í viðtölum. Hann kaus sér þetta hlutskipti sjálfur. ESB umsóknin var aðgöngumiðinn sem hann varð að reiða fram til þess að geta fengið pláss við ríkisstjórnarborðið.

Sé hann svekktur og stynji undan þeim örlögum að standa fyrir umsókn um aðild að ESB, getur hann ekkert snúið sér nema að sjálfum sér. Vinstri grænir eru jafn ábyrgir fyrir ESB umsókninni og Samfylkingin. ESB umsókn er jafnt í boði VG og Samfylkingar.

Á sama tíma og okkar litla stjórnsýsla ætti að einbeita sér að vandanum sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum, mun orkan fara mjög mikið í að svara krossaprófum ESB furstanna. Stjórnsýslunni verður gert að einbeita sér að þessu mikla verkefni. Skjaldborgin víðfræga fær að bíða. Það liggur meira á þessu með ESB.

Til þessa ESB máls er þó ekki ætlaður mannafli. Upplegg ríkisstjórnarinnar er að þetta megi gera með lágmarkstilkostnaði. Við vitum þó öll að það er tóm vitleysa. Á það benti ég í umræðum um málið á Alþingi.

En mikið lá við í þessu máli. Hreinum blekkingum var beitt í því að mylgra málinu í gegn um þingið. Látið eins og hægt væri að taka menn úr öðrum verkum í stjórnsýslunni til þess að sinna þessu mikla verki.

Auðvitað vissu menn betur. Það er allsendis óraunhæft að hægt sé að taka menn úr öðrum verkum í stórum stíl til þessara verka. Síst af öllu á samdráttartímum.

En þetta segir það sem segja þarf um forganginn hjá þessari guðsvoluðu og lánlausu ríkisstjórn. Minna fé í menntun og velferðarmál. Meiri áhersla á krossaprófin frá Brussel. Og það í boði Vinstri grænna. 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband