Hvað er að frétta af álastofnum í ám á Íslandi?

ÁlarEins og allir vita þá hefur ríkisstjórnin lagt höfuðáherslu á að slá skjaldborg um hag heimilanna. En það er flókið mál sem tekur til margra þátta sem ekki blasa kannski við svona við fyrstu sýn.

Núna sitja til dæmis „sveitir“ starfsmanna Stjórnarráðsins (svo orðalag ættað frá Ólafi Ragnari Grímssyni sé notað) við að ráða í krossaprófin sem Brussel hefur sent hingað til lands til úrlausnar. Enginn skyldi gera lítið úr þýðingu þess. Við munum að hinir vænstu menn úr Samfylkingunni sögðu okkur að ákvörðunin ein um að sækja um ESB aðild væri snar og mikilvægur þáttur í að kippa efnahagslífinu, fyrirtækjunum og efnahag heimilanna í lag. Enginn efast um sannleiksgildi þeirra orða.

Það er þess vegna ástæða til þess að hvetja alla til að lesa krossaprófið mikla frá Brussel. Spurningarnar komast fyrir á tæplega 400 blaðsíðum. Og þar getur nefnilega heldur betur að líta. Það er ljóst að þegar í þær rúnir hefur verið ráðið mun blasa við okkur ítarleg haglýsing á Íslandi. Spurningarnar eru svo fjölþættar að fátt mannlegt hér á landi lætur Brussel sér óviðkomandi.

Þetta á við í stóru sem smáu. Skrifari þessara orða hefur t.d rennt yfir spurningar um landbúnað og sjávarútveg, sem er ótrúlega fróðleg – og  hvað skal segja – athyglisverð lesning !

Á sviði landbúnaðar er spurt ítarlega um hvaðeina sem snertir landbúnað, neysluvenjur, umfang, einstakar búgreinar, styrki, lífræna ræktun og áfram mætti telja. Og síðan snúa menn sér að aðalatriðunum. Þá er spurt  um stöðu landbúnaðar sem fram fer ofan 800 metra fyrir ofan sjávarmál, landbúnað í bröttum hlíðum, landbúnað þar sem hallinn í landslaginu er innan við 15% svo fátt eitt sé nefnt. Í Brussel vilja menn líka vita hversu margir til sveita hafi ekki aðgang að rennandi vatni, síma í fastlínukerfi, eða rafmagni. Og svo vilja þeir líka vita um þau landsvæði þar sem grasspretta er minna en 80% af meðal sprettu í landinu.

Og ekki eru þeir í Brussel minna forvitnir um sjávarútveginn. Þeir spyrja til dæmis grundvallarspurninga um fiskneyslu Íslendinga, enda skiptir það auðvitað meginmáli fyrir sjávarútvegsþjóð sem flytur nánast út alla sína framleiðslu. Beðið er um útlistun á flotastjórn og stjórn auðlinda, því smámáli - í hnitmiðuðu formi.

Og síðan snúa menn sér að kjarna málsins. Sem er auðvitað töluliður 26 í B lið 1. kafla um Auðlinda og flotastjórn – helstu einkenni íslensks sjávarútvegs. Og þar spyrja þeir í Brussel um það hvernig við stjórnum nýtingu á álastofnum, hvernig við mælum afleiðingarnar af mannvirkjagerð í ám á stöðu álastofna og hvernig háttað sé stjórnuninni á þessu þýðingarmikla málasviði.

Manni verður strax mikið rórra við að vita að stjórnsýslan okkar sé nú önnum kafin við slík verkefni. Öll vitum við að tímanum verður örugglega ekki betur varið. Það eru örugglega þessi verkefni sem almenningur í þessu landi er að kalla eftir. Við vitum að núna getum við öll andað léttar, vitandi að ekkert er gefið eftir að ljúka þessu þýðingarmikla verkefni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband