18.9.2009 | 11:52
Frétt úr heimi spunans
Sakleysisleg frétt í Ríkisútvarpinu í gærkveldi opnaði manni örlitla sýn inn í hugaheim hins pólitíska spuna, sem þeir kunna svo vel í Samfylkingunni. Kjarni fréttarinnar var svona: Þingflokkur Samfylkingarinnar vill að nýr Landspítali, Búðarhálsvirkjun og Suðurlandsvegur verði meðal þeirra framkvæmda sem lífeyrissjóðirnir taki þátt í að fjármagna.
Þá vitum við það. Þetta er vilji Samfylkingarinnar. En hvað með hinn stjórnarflokkinn? Hvað vill hann? Og svo kemur hin óhjákvæmilega spurning: Er þetta skoðun ríkisstjórnarinnar?
Því var ekki svarað í þessari frétt, enda tilgangurinn örugglega ekki sá. Tilgangurinn var ósköp einfaldlega sá að stimpla það inn að Samfylkingin vildi þessar framkvæmdir. Þar með næst líka tvíþættur tilgangur.
Í fyrsta lagi að setja pressu á Vinstri græna, enda vita allir að mikil og vaxandi ólga er í samfélaginu vegna þess hve allar ákvarðanir um framkvæmdir eru að dragast. Svo mjög að ASÍ og Samtök atvinnulífsins telja að ríkisstjórnin sé með aðgerðarleysi sínu að setja Stöðugleikasáttmálann í hreint uppnám.
Hitt er það svo auðvitað að geta vísað til þessara frétta þegar og ef þessar framkvæmdir verða að veruleika.
Þessi frétt var spuni af þeirri sort sem við höfum stundum séð og við vitum að þeir kunna vel í Samfylkingunni. Rykti hins gamla spunameistaraþríeykis, sem Framsókn var með forðum tíð og alþekkt var, fölnar nú smám saman í samanburðinum við hið vel smurða teymi í Samfylkingunni.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook