Nú er komið að leiðarlokum

Nú er komið að leiðarlokum á þessari síðu; í bili amk. Ég hef ákveðið að láta staðar numið, hætta færslum á síðunni og loka henni amk. að sinni. Tíminn einn leiðir í ljóst hvort einhvern tímann verður framhald á og þá hvernig.

Ég var með fyrstu stjórnmálamönnum til þess að opna heimasíðu af þessu tagi. Lengstum skrifaði ég efni á síðuna nokkrum sinnum í viku og tjáði mig um alla heima og geyma. Síðan hefur ekg.is hefur verið mitt málgagn. Ég hef skrifað efnið, ráðið efnistökum og haft fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði.

Mér hefur fundist þetta gríðarlega mikilvægt og óskaplega skemmtilegt. Ég hef fengið útrás fyrir tjáningarþörf og möguleika á að setja fram skoðanir mínar, eins og mér hefur hentað og þegar mér hefur hentað.

Sjálfum hefur mér fundist þetta skipta máli. Bæði fyrir sjálfa mig og aðra. Stjórnmálamenn eiga að tjá sjónarmið sín og fólkið í landinu á rétt á að vita skoðanir stjórnmálmannanna. Heimasíðan hefur verið fyrir mig vettvangur til þess.

Upp á síðkastið hef ég haldið mig til hlés í þjóðmálaumræðunni og hefur þessa gætt hér á heimasíðunni minni. Eftir að ég varð þingforseti hef ég sparað mig í almennri pólitískri umræðu. Það hef ég talið eðlilegt og fundið viðspyrnu minna krafta annars staðar. Meðal annars auk þingforsetastarfanna, í verkum fyrir kjördæmið mitt.

Nú er því komið að leiðarlokum á þessari síðu. Ég þakka lesendum mínum góða og trygga samfylgd.


Stuðningur við knæpur í þágu byggðamála?!!

Þorp og smábæir í Bretlandi, sem hafa krá innan sinna marka  eru félagslega sterkari og atvinnulífið er þar öflugra en í bæjarfélögum sem eru án þeirra. Þetta er niðurstaðan í umfangsmikilli hagfræðilegri athugunsem unnin var af dr. Ignazio Cabras, hagfræðingi sem starfar hjá háskólunum í Northumbria og York.

 Þessi athyglisverðu tíðindi eru flutt í Daily Telegraph í dag, þriðjudaginn 15. október. Rannsóknin sem um ræðir stóð í eitt og hálft ár, 18 mánuði. Þetta er ein fyrsta vísindalega athugunin sem leiðir í ljós að knæpur efla bæjarbraginn og eykur samheldni.

Athugunin nær til bæjarbragsins í nær 2.800 smábæjum. Hún leiddi í ljós að þar sem knæpur fyrirfundust voru íbúarnir  40 til 50% líklegri til þess að taka þátt í bæjarhátíðum, fara á íþróttaleiki, sækja menningarviðburði og þess háttar auk þess sem atvinnulífið var öflugra.

Þetta er athyglisvert. Bæði út frá áfengispólitísku sjónarhorni, en einnig byggðarlegu. Fræðimenn hafa bent á að það sé ekki síst félagslegi þátturinn sem ráði miklu um framvindu bæjarfélaga á landsbyggðinni. Þar sem vistin er daufleg una íbúarnir sér verr. Svar okkar hefur þá ekki síst verið að tengja hinar minni byggðir, til þess að skapa forsendur fyrir eflingu hins félagslega hluta.

Þessi breska könnun bregður eiginlega nýju ljósi á þetta mál. Kráin, pöbbinn, er ekki lengur aðeins hluti af bæjarbragnum; partur af því mósíaki sem samfélag manna er. Hann getur verið forsenda fyrir því að búa til eftirsóknarverðan bæjarbrag.

Fræðimaðurinn sem stóð fyrir rannsókninni vakti athygli á að fækkun íbúa í bresku landsbyggðunum, ásamt versnandi samgöngumöguleikum,  gerðu þær minna aðlaðandi en stórbæina. Við þessar aðstæður gegna pöbbarnir stærra hlutverki. Þarna verður miðstöð mannlífsins, eins konar klakstöð sem getur af sér aukna virkni og þátttöku íbúanna, jafnframt því að skapa störf ( á pöbbunum) og fyrir viðskiptamenn þeirra.

Pöbbunum í Bretlandi hefur fækkað úr 69 þúsundum árið 1980 í 49 þúsund.Fræðimaðurinn hvetur til þess að stjórnvöld stuðli að því að þeir lifi áfram, í þágu dreifbýlisins.

Og nú vakna hinar íslensku spurningar:

1. Er hægt að heimfæra þetta upp á Ísland?

2. Nú er ljóst að pöbbar auka aðgengi að áfengi? Á þá að torvelda starfsemi þeirra til þess að draga úr aðgengi að áfengi?

3. Er ástæða til þess að hafa þessi mál í huga við mótun byggðastefnu?

4. Ætlum við sem aðhyllumst virka og skynsamlega byggðastefnu að hvetja stjórnvöld á sama veg og breski fræðimaðurinn, sem styður ákall sitt með fræðilegum rökum?

5. Eða væri þetta – eins og mig grunar satt best að segja – fullkomið tabú, bannhelgi í byggðaumræðunni eða svo sem í hvaða umræðu sem væri?


Einhverjir mikilvægustu samtímaviðburðir í Evrópu

 

Alveg fram undir þetta trúðu því fæstir, að sá möguleiki væri fyrir hendi að Bretland myndi klofna. Sú staða er hins vegar komin upp og mat flestra er að helmingslíkur séu núna á því að innan skammst verði  Bretland ekki til í núverandi mynd. Hugmyndin um sjálfstætt Skotlands gæti ræst eftir viku; eða öllu heldur að um þetta leyti í næstu viku hefðu Skotar ákveðið að slíta sig ú túr Bretlandi.

Kosningarnar þann 18. september nk. eru því einhver mikilvægasti samtímaviðburðurinn í Evrópu.

United kingdom, Sameinaða konungsríkið er heiti þess þjóðfélags sem samanstendur af Englandi, Wales, Skotlandi og Norður Írlandi. Þetta stolta heiti, Sameinaða konungsdæmið, vísar til upplifunar breska samfélagsins á ríkinu sem eitt sinn var svo stórt, að sagt var að sólin hnigi þar aldrei til viðar; enda teygði það sig um öld og álfur, austan hafs og vestan, í Evrópu, Afríku, Ameríku og Asíu. Nú er öldin þó önnur. En þegar Bretland varð til í núverandi mynd eftir að nýlendutímanum lauk, datt örugglega engum í hug að enn ætti eftir að flísast út úr hinu stolta heimsveldi .

Þetta er gríðarlega mikil tíðindi og geta dregið á eftir sér mikinn dilk. Þetta eru líka á margan hátt mótsagnakennd tíðindi í okkar heimshluta. Því að á sama tíma og þessir atburðir eru að eiga sér stað á Bretlandseyjum, er uppi krafa um ennþá nánara samruna innan Evrópusambandsins, en Bretar hafa verið aðilar að því í um 40 ár.

Sannarlega eru einnig mótsagnir þegar kemur að þróuninni í Evrópu. Þeir sem vilja viðhalda Evrópusambandinu gera sér grein fyrir að forsendan er miklu nánara pólitískt og efnahagslegt samstarf. Flestir gera sér nú ljóst að til þess að evrusamstarfið, - hryggjarstykkið í ESB,-  standist -  þarf ekki bara samhæfingu á peningamálasviðinu, heldur líka á ríkisfjármálasviðinu. Ákvarðanir sem núna eru teknar af einstökum aðildarríkjum þurfa því að verða miðlægari og þær þarf því að taka utan lögsögu einstakra ríkja; á vettvangi ESB sjálfs.  Á sama tíma eykst andstaðan innan Evrópusambandsins við þessa þróun, eins og þingkosningarnar í Evrópusambandinu sýndu í vor.

En þjóðernisvakningin í Skotlandi á þó ekki margt skylt við þjóðernisvakninguna í ríkjum ESB. Flokkarnir sem náðu mestum árangri í ESB ríkjunum á grundvelli andstöðu við evrópusamrunann eru gjörólíkir sjálfstæðissinnunum í Skotlandi.  Þeir síðarnefndu eru sannarlega þjóðernissinnaðir. En þeir eru hins vegar alþjóðlegir þjóðernissinnar. Þeir vilja vera í Evrópusambandinu, þeir eru hliðhollir Bandaríkjunum, þeir eru stuðningsmenn NATO og vilja nota breska pundið og hafa Elísabetu englandsdrottningu sem sinn þjóðhöfðingja. Sem sagt gjörólíkir þeim þjóðernissinnum sem nú hafa skapað sér sess í Evrópu, þar með talið í Bretlandi ( UKIP)

En hvað sem því líður þá munu kosningarnar um sjálfstæði  Skotlands gjörbreyta Sameinaða konungsdæminu. Allir stjórnmálaflokkar á breska þinginu hafa heitið Skotum auknu sjálfsforræði í eign málum, felli þeir tillöguna um sjálfstæði. Bretland mun því ekki verða samt á eftir. Hvernig sem  allt fer verður Bretland kjörbreytt ríki, jafnvel þó svo að Skotland verði ekki sjálfstætt.

Þetta eru því  ákaflega mikilvægar kosningar og einhver mikilvægasti atburðurinn í samtímasögu Evrópu.  Og fari svo að Sameinaða konungsdæmið breska haldi velli verður það því gjörbreytt. Þegar eru hafnar umræður um að rökrétt verði þá að svipta skoska kjósendur réttinum til þess að hlutast til um innanlandsákvarðanir í Bretlandi að öðru leyti. Hvaða réttlæti er í því, spyrja menn, að skoskir kjósendur hafi annars vegar er rétt til að stjórna stórum málaflokkum í Skotlandi sem aðrir þegnar ríkisins hafi ekki íhlutarrétt um og ráði svo líka málum Englendinga, Walesverja eða íbúa Norður Írlands? – Þetta eru skiljanlegar spurningar en varpa einnig ljósi á þá miklu atburði sem verða 18. september nk. Sama á hvorn veginn atkvæðagreiðslan fer.


Komandi kynslóðum verði menningararfurinn ljós

Kæra kollega Stortingpresident Olemic Thommessen, fyrrverandi forseti frú Vigdís Finnbogadóttir, Ambassadör Dag Wernö Holter og aðrir góðir gestir.

Ég vil byrja á að fagna því frumkvæði sem skipuleggjendur þessa viðburðar höfðu að Sturluhátið í minningu 800 ára fæðingarafmælis sagnaritarans Sturlu Þórðarsonar hins merka lögsögumanns og rithöfundar.

Þá ber að fagna sérstaklega að Vigdís Finnbogadóttir er með okkur í dag, sem og að norskur starfsbróðir minn, Olemic Thommessen forseti Stórþingsins gat sótt þennan viðburð en tenging Sturlu við Noreg var mikil; hann var höfundur Hákonar sögu Noregskonungs og sonar hans Magnúsar lagabætis.

Enn er sagan lifandi í samtíð okkar. Og þó nær átta aldir séu liðnar frá vígi Snorra Sturlusonar  og við séum hér komin saman til þess að minnast þess að 800 ár eru liðin frá fæðingu sagnarritarans mikla Sturlu Þórðarsonar, er öld Sturlungu lifandi fyrir hugskotssjónum margra Íslendinga og ýmsa þekki ég, bæði leika og lærða sem án nokkurs hiks skipa sér í fylkingar Sturlunga, Ásbirninga, Oddaverja, Vatnsfirðinga eða Haukdæla.

Góður vinur minn sagði gömlum frænda sínum fyrir margt löngu af vináttu okkar og  sá gamli svaraði alvörugefinn en ánægður: Já, hann Einar er Vestfirðingur. Vestfirðingar eru góðir menn. Þeir studdu Þórð kakala í Flóabardaga. – Þar með hafði ég fengið heilbrigðisvottorðið.

Upp  í hugann kemur morgun fyrir fáeinum árum uppi á Silfrastaðaafrétt í Skagafirði. Ég var þangað kominn í göngur, að undirlagi míns góða vinar Agnars H. Gunnarssonar bónda á Miklabæ og oddvita Akrahrepps. Við þurftum að hefja göngurnar árla morguns og gangnaforinginn Þórarinn á Frostastöðum hafði skipað okkur til verka. Eftir hafragrautinn, batt ég á mig gönguskóna og bjó mig til átaka dagsins. Með mér í för var Þorkell bóndi á Víðivöllum, frændi minn í föðurætt,  ættaður frá Vöglum.  Sem við strituðum upp bratta fjallshlíðina bar margt á góma. Eins og gengur varð einhver uppstytta í samtali okkar, en þá rauf Keli þögnina og sagði. – Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja hversu Gissur  Þorvaldsson var svona gjörsamlega grandalaus og lét koma sér að óvörum, þegar fjandmenn hans fóru að honum og brenndu Flugumýri, með öllum þeim afleiðingum, sem það hafði.

Mér varð hálf orða vant. Nema ég skildi, að til undirbúnings fjárleita og gangna að hausti í Blönduhlíðinni í Skagafirði dygði ekki líkamlegt atgervi eða karlmennska í viðureign við brattar hlíðar og óþekkar kindur. Í göngur þar um slóðir væru menn óbrúklegir nema að kunna einhver skil á 800 ára atburðum og vera lesnir í Sturlungu. 

Þegar ég kom heim settist ég niður með bækur Einars Kárasonar og dró fram Sturlungu til þess að kunna skil á atburðum sem voru á hraðbergi hjá bændum í Skagafirði og greinilega forsenda þess að vera viðræðuhæfur í hversdagslegu spjalli við fjárleitir á fjöllum uppi.

Sturlungaöldin er mesti ófriðartími Íslandssögunnar. Í raun má segja að á þeim rífu 40 árum sem hún er talin hafa staðið hafi í raun verið nokkur konar borgarastyrjöld á Íslandi. Eins konar ættbálkahernaður, svo orðfæri nútímans sé notuð, með skammti af hæfilegri einföldun.  Þetta er auðvitað alveg óskapleg saga. Fólk var brennt inni, eins og í Flugumýrarbardaga, jafnt karlar, konur og börn. Eða Haugsnesbardaginn, þar sem börðust um 1100 manns og um eitt hundrað féllu. Mannskæðasti bardaginn í sögu lands og þjóðar. Og svo má nefna Flóabardagann, einu alvöru sjóorustuna sem fram hefur farið á Íslandi þar sem um átta hundruð manns á 35 skipum börðust á Húnaflóa.

En þó sagan sé blóði drifin og mörkuð óheilindum og grimmd, má finna hljóðlát, falleg dæmi um hið gagnstæða, um manngæsku, sem rís sem tindur upp úr blóðbaðinu og þau dæmi verða manni minnisstæð.

Minn góði vinur Sigurður Hansen á  Kringlumýri í Skagafirði,  er einlægur stuðningsmaður Þórðar kakala, þó sjálfur búi hann í hinu forna ríki Ásbirninga miðju. Hann hefur af einstökum myndarskap gert það í senn að reisa skála til heiðurs Kakala og stillt upp í túnfæti sínum af ótrúlegri elju og hugkvæmni Haugsnesbardaganum nákvæmlega þar sem hann fór fram fyrir átta öldum. Oft hefur minn góði vinur vakið máls á kunnri frásögn úr Flugumýrarbrennunni, sem hrærir við hverjum þeim sem rifjar hana upp.  Bakgrunnur þessar miklu atburða á Flugumýri var pólitískur að því leiti að ætlunin var að leita sátta stríðandi afla. Gissur Þorvaldsson, sem þá bjó á Flugumýri vildi sættast við Sturlunga og hluti af þeirri sáttagerð var gifting Halls, elsta sonar Gissurar og konu hans, Gróu Álfsdóttur, og Ingibjargar, 13 ára dóttur  Sturlu Þórðarsonar af ætt Sturlunga. Var brúðkaup þeirra haldið á Flugumýri um haustið með mikilli viðhöfn. Ekki voru þó allir Sturlungar sáttir við þetta og  Eyjólfur ofsi tengdasonur Sturlu Sighvatssonar  safnaði liði í  Eyjafirði, fór með á fimmta tug vel vopnaðra manna yfir Öxnadalsheiði  og var kominn að Flugumýri seint að kvöldi 21. október, þegar flestir voru gengnir til náða. Réðust þeir til inngöngu en varð lítið ágengt og þegar Eyjólfur ofsi sá um nóttina að hætt var við að menn úr héraðinu kæmu til liðs við Gissur og menn hans brá hann á það ráð að kveikja í húsunum. 25 manns fórust í eldinum, þar á meðal Gróa kona Gissurar og synir hans þrír, en Gissur sjálfur bjargaðist með því að leynast í sýrukeri í búrinu, eins og frægt er.

En það er sagan af henni Ingibjörgu litlu Sturludóttur, sem hrærir  hjarta manns. Þessi 13 ára brúður,  var bjargarlaus á heimili tengdaforeldranna í miðjum eldsvoðanum og dauðinn henni vís.  Í hópi brennumanna var frændi hennar, Kolbeinn grön Dufgusson. Og skyndilega kom upp hugsun í höfuð hans. - Inni í brennunni var saklaus frænka hans, dóttir vinar hans Sturlu Þórðarsonar. Og þá vék vígamaðurinn fyrir manngæskunni. Kolbeinn grön, braust inn í eldinn, stofnaði lífi sínu í voða og bjargaði Ingibjörgu út úr eldinum.

Þetta er einstaklega falleg saga um manngæsku innan um alla vonskuna, sígild saga sem á sér ábyggilega hliðstæður við háskalegar aðstæður, jafnt þá sem nú. En svo skulum við aðeins íhuga aðra hlið þessarar sögu. Hvað hefði gerst ef Ingibjörg litla Sturludóttir hefði ekki bjargast úr brennunni? Hverjar hefðu orðið hinar pólitísku afleiðingar, áhrifin á gang sögunnar, ef Dufgussonurinn Kolbeinn grön hefði ekki lagt sig í lífshættu, brennumaðurinn sjálfur og bjargað hinni ungu höfðingsdóttur frá bráðum bana? Dóttur sjálfs Sturlu Þórðarsonar.

Sturlungaöldin var sannlega öld mikilla átaka. En hún var einnig mótsagnakennd í þeim skilningi að hún var enn fremur öld glæstrar menningar og öld sagnaritunar sem vart á sér líka. Þetta er tíminn sem þeir voru á dögum uppi, frændurnir Sturla Þórðarson og Snorri Sturluson, Heimskringla var fest á blað og Íslendingasaga einnig, svo fátt eitt sé nefnt af bókmenntalegum og sagnfræðilegum afrekum þessa umbrotatíma. Þessara margslungnu tíma minnumst við þess vegna jafnt með skírskotun til þeirra vofveiflegu atburða einkenndu þá og hinna menningarlegu afreka sem þá voru unnin og óbrotgjörn hafa verið.

Af sögunni má læra margt. Og þó  átökum Sturlungaaldar megi fráleitt  jafna við hérlenda atburði  í samtímanum eru þeir engu að síður áminning.  Innanlandsófriðurinn veikti stoðir samfélagsins og minnir okkur því á hættuna sem skapast í þjóðfélagi þar sem lögin og friðurinn eru slitin í sundur.

Fullveldi þjóðarinnar er helgur réttur en útilokar alls ekki samskipti við aðrar þjóðir. Öðru nær. Samskipti fullvalda ríkis á jafnréttisgrundvelli við aðrar þjóðir er forsenda sjálfstæðisins. Við höfum borið gæfu til að eiga mikil samskipti og viðskipti við aðrar þjóðir og það hefur dugað okkur vel.

Kæru  hátíðargestir.

Það er mér mikill heiður að standa í þessum sporum, nú þegar við minnumst 800 ára fæðingarafmælis Dalamannsins Sturlu Þórðarsonar. Allir þeir sem að þessu máli hafa komið eiga miklar þakkir skildar. Fyrir okkur nútímamenn er það brýnt að minnast svo merkra tímamóta. Og umfram allt er það mikilvægt að komandi kynslóðum verði þessi mikli menningararfur ljós, þannig að þegar gangnamenn framtíðarinnar, vitja fjár á afréttum, ræði þeir álitamál Sturlungaaldarinnar  um leið og þeir skyggnast eftir fé á heiðum uppi.

 


Nú þarf að svara alvöru spurningunum

Umræður um skattlagningu fjármálafyrirtækja síðustu daga ættu að vekja spurningar um  stöðuna á fjármálamarkaði og samþjöppun á þeim sviðum hér á landi. Mikilvægt er að við hugum að þeirri þróun sem hefur orðið og að við ræðum spurninguna um hvernig við viljum sjá skipulag fjármálamarkaðarins. Teljum við nauðsynlegt að svigrúm skapist fyrir fjölbreytni í fjármálaþjónustu? Teljum við eftirsóknarvert að hér geti sprottið upp smærri fyrirtæki  við hlið þeirra stóru til þess að skapa samkeppnislegt aðhald? Erum við sátt við að samþjöppun í þessum geira sé  miklu meiri  hér á landi, en í löndunum í kring um okkur?

bigstock_Falling_Money_669153 Umræður um skipulag fjármálamarkaðarins eru fyrirferðarmiklar erlendis. Þurfum við ekki að ræða svipaðar spurningar hér á landi?

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins flutti ræðu  á málþingi um framtíð sparisjóðanna 4. maí 2012 og sagði þá meðal annars:

„Það þarf því ekki að hafa um það mörg orð að íslenskur fjármálamarkaður er fákeppnismarkaður. Á slíkum markaði er hætta á því að stærstu fyrirtækin myndi sameiginlega markaðsráðandi stöðu. Við þær aðstæður geta viðkomandi fyrirtæki séð sér hag í því að verða samstíga í markaðshegðun og hámarka þannig sameiginlegan hagnað. Slík hegðun fyrirtækja er skaðleg.“

Í ræðunni sagði hann meðal annars einnig: „Samþjöppun á markaðinum mælist vera rúmlega 3.000 stig eftir samruna Landsbankans og SpKef annars vegar og Íslandsbanka og Byrs hins vegar á hinum svonefnda Herfindahl-Hirschman kvarða, sem notaður eru í samkeppnisrétti til að mæla samþjöppun. Fram að hruni var mældist samþjöppunarstuðullinn hins vegar undir 2.000 stigum en almennt telst markaður mjög samþjappaður ef stuðullinn er hærri en 1.800 stig.“

Þessar staðreyndir þarf að ræða. Það er til dæmis ljóst að skattlagning hins opinbera getur haft mikil áhrif á þessa þróun. Stóru bankarnir hafa fengið mikið samkeppnislegt forskot. Þeir yfirtóku skuldir og eignir gömlu föllnu bankanna á  tilteknum verðum. Með því að árangur af innheimtu bankanna hefur orðið betri en verðlagning eignanna gaf til kynna, hefur hagnaður nýju bankanna hefur orðið mjög mikill. Þetta má sjá í ársuppgjörum þeirra, jafnt á tekju-  sem og eignahlið. Litlu fjármálafyrirtækin búa ekki við neitt slíkt.

Samkeppni litlu fjármálafyrirtækjanna við þessar aðstæður verður mjög erfið. Skattlagning fjármálafyrirtækja verður því að taka mið af þessum aðstæðum.

Umræður um skipulag fjármálamarkaðarins hefur orðið áberandi í pólitískri umræðu í öðrum löndum. Það á til dæmis við um Bretland. Þar hefur gengið fram fyrir skjöldu, forystumaður jafnaðarmanna þar í landi, Ed Milliband, sem hefur meðal annars lagt til að brjóta upp stærstu bankana og tryggja að markaðshlutdeild þeirra hvers um sig fari ekki yfir 25%. Það er róttæk tillaga, sem hefur fengið mjög blendnar viðtökur. Talið er að ummæli hans – sem gæti miðað við skoðanakannanir orðið næsti forsætisráðherra Breta, - hafi valdið því að hlutabréf í stóru bönkunum lækkuðu myndarlega, sem skaðaði breska ríkissjóðinn, sem á stóran hlut í fjármálastofnunum þar í landi.

Hvað sem þessu líður er ljóst að spurningarnar stendur eftir. Hvernig vilja menn sjá fyrirkomulag bankaþjónustunnar hér á landi? Vilja menn að hún þróist í átt til frekari samruna? Vilja menn stuðla að frekari fjölbreytni? Sé svarið við síðari spurningunni jákvætt, verður ríkið væntanlega að haga skattlagningu í samræmi við það, meðal annars með frítekju/ frískuldamarki. Undan þeirri umræðu verður ekki vikist, hver svo sem niðurstaða hennar verður.

 


Heimur batnandi fer

Ein af snilldarþýðingum Magnúsar Ásgeirssonar er kvæði þýska 19. aldar skáldsins Heinrichs Heine, Heimur versnandi fer. Flest höfum við örugglega líka tekið okkur þessi orð í munn; heimur versnandi fer. Ef ekki í fullri alvöru, þá að minnsta kosti í hálfkæringi.

En er það svo? Fer heimurinn versnandi? Ekki er það svo, segir Allister Heath ritstjóri City AM sem er viðskiptavefur í Bretlandi, en hann skrifar athyglisverða grein í Daily Telegraph um þessi mál. Það er ómaksins vert að rekja niðurstöður hans.

1earth[1] Margt bjátar á í henni veröld og heimsgæðunum misskipt, en sterk rök má samt færa fyrir því að heimur batnandi fari.

1.  Eðlileg viðbrögð okkar sem fylgjumst með fréttum frá víðri veröld af stríðum og hörmungum, eru væntanlega þau að hernaðarátök séu meiri og hörmulegri en nokkurn tíma áður. En þessu er einmitt öfugt farið. Á fyrsta áratug okkar aldar hafa færri  látist í stríðsátökum en nokkru sinni, frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Undantekningin er síðasta ár vegna ástandsins í Sýrlandi. Það breytir þó ekki þróuninni. Stríð eru færri en nokkru sinni og færri láta lífið.

Markaðsbúskapur og aukin alþjóðavæðing viðskiptalífsins á þarna hlut að máli. Samskipti, viðskipti, fjárfestingar og ferðalög stuðla að auknum friði.

2. Þrátt fyrir allt hefur líka dregið úr mengun í heiminum. Árið 1900 lést einn af hverjum 500 úr kvillum sem rekja mátti til mengunar andrúmsloftsins af völdum opins bruna, svo sem við húshitun, eldamennsku og þess háttar. 0.18% líkur voru á að fólk létist af þessum völdum árið 1900. Í dag er áhættan 0.04%, eða einn af hverjum 2.500 og um miðja þessa öld verða samsvarandi tölur 0.02%, eða einn af hverjum 5.000.

3. Lífslíkur manna hafa líka vaxið mikið. Í vanþróuðustu heimsálfunni, Afríku hafa lífslíkur aukist úr 50 árum í 56 ár, frá árinu 2000 til ársins 2011. Á hverjum áratug frá árinu 1960 hafa lífslíkur á Indlandi, næst fjölmennasta ríki heims, aukist um fjögur og hálft prósent á hverjum áratug. Í löndunum fyrir sunnan Sahara, þar sem barnadauði er þó hvað hæstur, er hann þrátt fyrir allt „aðeins“ þriðjungur þess sem hann var í Liverpool  árið 1870, þó þjóðarframleiðsla á mann sé einvörðungu helmingur þess sem hann var í Liverpool á 19. öldinni. Og dánarlíkur nýfæddra barna í heiminum hafa lækkað úr 23%  á sjötta áratug síðustu aldar í 6% núna og spár ganga út á að þær minnki um helming til ársins 2050. Þarna veldur mestu að fæðan sem menn neyta er betri sem og frárennsli og aðrar hreinlætisaðgerðir.

4. Menntunarstig hefur líka aukist á síðustu árum. Ástandið er auðvitað fráleitt gott alls staðar, eins og kunnugt er. Meðaltalstölur sem taka til allrar heimsbyggðarinns sýna okkur þó að í dag eru um 24% ólæsir, en voru um 70% í byrjun 20. aldar. Í Bretlandi, gamla heimsveldinu, er þróunin hins vegar í senn athyglisverð og kvíðvænleg. Lestrarkunnátta og lesskilningur er þannig lakari hjá yngra fólkinu en því sem komið er yfir miðjan aldur.

5. Þó margt þurfi að bæta þegar kemur að kynjajafnrétti og ástandið sé hörmulegt í einstökum ríkjum er það athyglisvert að atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist úr því að vera 12% alls vinnuafls árið 1900 í 40% núna og fer vaxandi.

6. Jafnvel þegar kemur að hinum umræddu loftslagsbreytingum þá hefur því verið haldið fram að enn sem komið er hafi þær í heild sinni verið til góðs. Gallinn er hins vegar sá að þegar fram í sækir og líður á þessa öldina mun þetta snúast við.

En þegar allt er samantekið verður ekki annað séð en að við höfum gengið til góðs götuna fram á veg, eins og listaskáldið Jónas kvað.  Heimsósóminn sem gamli Heinrich Heine orti um og Magnús Ásgeirsson veitti okkur löndum sínum aðgengi að með þýðingu sinni, virðist því ekki vera í samræmi við þróunina á síðustu 100 árum eða svo. En af því að kvæðið er svo áhugavert og þýðingin svo góð er rétt að ljúka þessum pistli á þessu kvæði.

Heimur versnandi fer

 

Ég er hryggur. Hérna fyrrum

hafði veröldin annað snið.

Þá var allt með kyrrum kjörum

og kumpánlegt að eiga við.

 

Nú er heimur heillasnauður

hverskyns eymd og plága skæð.

Á efsta lofti er Drottinn dauður

og djöfullinn á neðstu hæð.

 

Nú er ei til neins að vinna,

nú er heimsins forsjón slök.

Og væri ekki ögn af ást að finna

allt væri lífið frágangssök.

 


Fyrirkomulag sem kallar fram átök

Mjög alvarleg staða er uppi í stjórnmálum öflugasta ríkis heims, Bandaríkjunum. Eftir rúma viku verður ríkissjóður Bandaríkjanna kominn upp í skuldaþak og stjórnvöld hafa þá ekki lengur heimild til þess að greiða fjármuni til lánadrottna sinna.  Þá verða til vanskil. Lánadrottnar sem hafa lánað fé fá ekki borgað.

20131005_cna400[2]

Það er gríðarlega alvarlegt þegar það gerist að fullvalda ríki getur ekki efnt skuldbindingar sínar. Og þegar í hlut á eimvagninn sjálfur sem knýr hagkerfi heimsins, sjá allir hvaða afleiðingar þetta getur haft.

Um þetta mál er fjallað í hinu virta breska tímariti The Economist.

Mjög fá dæmi þekkjast um vanskil af þessu tagi. Argentína gat á sínum tíma ekki borgað og er enn að bíta úr nálinni af því. Hamagangurinn við að aðstoða Grikkland hafði það að markmiði meðal annars að afstýra slíku. Þrátt fyrir fjármálhrunið hér haustið 2008 gat íslenska ríkið staðið við skuldbindingar sína.

En á þessu máli er önnur hlið, stjórnskipunarlegs eðlis, sem er hollt fyrir okkur að velta aðeins fyrir okkur.

Í Bandaríkjunum og raunar í ýmsum ríkjum Suður Ameríku og víðar er sú stjórnskipun við lýði  sem veldur í eðli sínu togstreytu þingsins, löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Framkvæmdavaldið í slíkum ríkjum er ekki á ábyrgð kjörins löggjafarþings. Fyrir þessu eru tiltekin rök, sem má segja að sé grundvallaratriði í bandarískri stjórnskipan.  „Checks and balances“, er þetta kallað í Bandaríkjunum og hefur meðal annars þann tilgang að stuðla að valddreifingu og eftirliti eins stjórnvald með öðru.

Í Bandaríkjunum þar sem lýðræðisleg hefð stendur styrkum fótum, hefur þetta fyrirkomulag ekki almennt valdið vandræðum. Í Suður Ameríku á hinn bóginn þar sem lýðræðislegar hefðir eru ekki jafn djúpstæðar hefur þetta kallað fram átök og því hefur verið haldið fram að eigi sinn þátt í miklum pólitískum átökum og sem hafi stuðlað að því að lýðræðisfyrirkomulagið hafi oft verið ofurliði borið.

Það er hollt fyrir okkur að velta þessu atriði fyrir okkur.

Í þeirri upplausn sem hér ríkti komu nefnilega fram býsna skýrar hugmyndir um að kollvarpa okkar stjórnskipan og taka upp svipað fyrirkomulag, þar sem forseti hefði álíka stöðu og við þekkjum í Bandaríkjunum og víðar.

Sem betur fer náðu þessar hugmyndir ekki því flugi hér á landi, að þær birtust í formlegum tillögum. En þetta var rætt og fékk talsverðan hljómgrunn um tíma. Við getum svo velt því fyrir okkur hvernig slíkt fyrirkomulag hefði reynst, þar sem átök hefðu staðið á  milli framkvæmdavaldsins og kjörins Alþingis. Þar sem framkvæmdavaldið vildi ganga eina leið en þjóðþingið aðra. Ætli það hefði auðveldað okkur að ná tökum á viðfangsefni okkar?


17. júní ávarp í Búðardal

En hvaða landsvæði er ég að tala um?


Hér er ég á grundvelli talnalegra staðreynda að vísa til eftirfarandi landsvæða:
Norðvestursvæðið, Snæfellsnes, Dalir, Vestfirðir, Strandir og Húnavatnssýslur. Þetta er landsvæði sem er í of mikilli hnignun. Ástandið er þó mjög mismunandi, ekki síst hvað samgöngur varðar þar sem t.d. sunnanverðir Vestfirðir eru öfgakennt dæmi um einangrun en Húnavatnssýslurnar í alfaraleið. Sömu sögu er að segja af norðaustursvæðinu,Norður-Þingeyjarsýslu og ennfremur suðaustursvæðinu Austur- og Vestur-Skaftafellssýsla.
Á þessum svæðum þarf sértækar aðgerðir. Við verðum að viðurkenna að kostnaður við opinbera þjónustu sé eðlilega hærri og margvíslegar sértækar aðgerðir því réttlætanlegar. Sú fjárfesting skilar sér margfalt til baka þegar þessi svæði hafa komið undir sig fótunum að nýju.

IMG_2466 Þessa mynd tók Sigurður Bogi Sævarsson á Austrurvelli á 17. júní


Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er einmitt vikið að þessum málum. Þar segir:
„Ljóst er að ákveðnar byggðir eiga við meiri erfiðleika að etja en aðrar. Gera þarf úttekt á þeim svæðum og móta tillögur um hvernig mæta má aðsteðjandi vanda“.


Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing og hana ber að taka bókstaflega. Þarna er viðurkennt að ákveðnar byggðir eigi við meiri erfiðleika að etja en aðrar. Þarna er skýlaust verið að vísa til þeirra staðreynda sem ég gerði að umtalsefni. En jafnframt segir að úttekt eigi að gera á þessum svæðum og móta síðan tillögur um aðsteðjandi vanda. Vandinn er með öðrum orðum viðurkenndur og einnig að grípa eigi til aðgerða til þess að sigrast á honum. Mikil greiningarvinna liggur þegar fyrir. Og nú er það okkar stóra verkefni að móta tillögur til úrbóta og hrinda þeim í framkvæmd.


Góðir Dalamenn.
Framundan er sumar, tími gróandans. Nú er dagur langur og birta yfir landi og lýð. Því skulum við segja og taka undir með skáldinu Tómasi Guðmundssyni: Nú er veður til að skapa.

Sjá ávarpið í heild:


Ávarp þingforseta við setningu Alþingis

Við setningu Alþingis 6. júní sl. flutti ég ávarp þar sem ég gerði grein fyrir nokkrum viðhorfum mínum. Þar sagði ég meðal annars:

"Á síðasta kjörtímabili jókst sú tilhneiging að þingmál stjórnarmeirihlutans væru lögð fram fáeinum dögum fyrir lögbundinn frest og jafnvel í stórum stíl eftir það. Á 139. löggjafarþingi voru alls lögð fram 139 stjórnarfrumvörp. 29 þeirra komu fram rétt fyrir eða við lok framlagningarfests og 37 voru lögð fram eftir að fresturinn var liðinn. 47% stjórnarfrumvarpa var því dreift rétt fyrir framlagningarfrest eða að honum liðnum. Á næsta löggjafarþingi, eða því 140. voru lögð fram 132 stjórnarfrumvörp. 77 þeirra komu fram rétt fyrir eða við lok framlagningarfrestsins og sex að honum liðnum, eða alls 63% stjórnarfrumvarpa. Það sjá allir að þetta getur ekki gengið svona. Tími Alþingis nýtist illa og svona háttalag kallar beinlínis fram ónauðsynleg átök hér á Alþingi á aðventunni og á vordögum ár hvert. Þetta er plagsiður sem er klár uppskrift að vandræðum og verður að leggja af.

941929_162414920604823_1783147230_n  

Við verðum að sjá breytingu á þessu strax á nýju kjörtímabili. Óhjákvæmilegt er að þau þingmál sem stjórnarmeirihlutinn hyggst leggja fram líti sem fyrst dagsins ljós, annars vegar á haustþingi og síðan eftir áramótin. Ekki nokkrum dögum fyrir framlagningarfrest, eða eftir að hann er liðinn, heldur í tæka tíð með skikkanlegum hætti. Þetta á að vera meginregla — og ófrávíkjanleg regla þegar um er að ræða viðurhlutamikil mál, svo ekki sé talað um stórpólitísk ágreiningsefni. Það veitir þingmönnum tækifæri til að ræða þau mál innan eðlilegra tímamarka og hafa áhrif á útkomu þeirra í umræðum og með störfum í þingnefndum. Þegar mál koma seint fram á stjórnarandstaða á hverjum tíma ekki margra kosta völ. Í stað þess að umræða og nefndarvinna eigi sér stað eins og við flest kjósum kalla slík vinnubrögð á langar umræður, málþóf og átök af því tagi sem vel má komast hjá. Nýtt háttalag, eins og ég kalla nú eftir, er því forsenda þess að Alþingi geti ástundað vinnubrögð sem ég fullyrði að vilji alþingismanna stendur til."

Ávarpið í heild má lesa og sjá, hér:

http://www.althingi.is/vefur/frett.html?nfrettnr=1989

Það þarf samstöðu um verkefnin framundan


Nú er flestum orðið ljóst að ríkisstjórninni mistókst í meginatriðum ætlunarverk sitt. Í stað þess að glíma viðaðsteðjandi vanda og reyna að skapa breiða sátt um verkefni sín, var  áhersla lögð á átök, sem báru stjórnvöld af leið. Þetta var ekki  óafvitandi. Þvert á móti. Ríkisstjórnin leit á það sem verkefni sitt,að jafna um pólitíska andstæðinga, hefna, gera grundvallarbreytingar á mikilvægum sviðum og vinna hugmyndafræðilegra sigra.

samstada Það þarf samstöðu um mikilvæg mál. Kallað er eftir því í þjóðfélaginu. En eru stjórnmálaflokkarnir tilbúnir til slíks?

Flest þau mál, sem ríkisstjórnin flutti af þessum toga voru illa undirbúin og vanhugsuð. Stjórnarskráin var auðvitað stærsta málið.. En sama átti við um sjávarútvegsmálin, vernd og nýtingu  náttúruauðlinda og skattabreytingar. Þá má nefna stanslausarr breytingar á skipan stjórnarráðsins, sem stóðu yfir allt kjörtímabilið. Enn má nefna til sögunnar aðildarumsóknina að ESB. Og síðast en ekki síst samskiptin við stjórnarandstöðu og aðila úti í samfélaginu.  Framansagt eru bara nokkur – en vissulega stór – dæmi um vinnubrögðin.

Liðið kjörtímabil einkenndist fyrir vikið af miklum átökum.  Þau átök voru alls ekki óumflýjanleg. En þau  urðu vegna þeirra vinnubragða sem voru innleidd í meiri mæli á þessu kjörtímabili, en nokkur dæmi eru um.

Það blasti til dæmis við öllum að þegar mál af framangreindum toga, voru keyrð inn í þingið án samráðs og án minnstu tilraunar til þess að skapa um þau skilning eða samstöðu, þá var ekki von á öðru en að átök hlytust af.

Þetta voru ekki bara hefðbundin átök stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta voru bókstaflega átök við allt og alla. Þetta voru átök við alla þá sem við áttu að búa í sjávarútvegsmálunum. Þetta urðu átök við launþegahreyfinguna og atvinnurekendur. Þetta urðu átök við fræðasamfélagið á ótrúlegustu sviðum. Þetta urðu síðan að lokum átök við þjóðina.

Á nýju kjörtímabili þurfum við að kveðja svona vinnubrögð. Verkefnin framundan eru risavaxin og kalla á samstöðu. Mál þarf að undirbúa vel og vandlega. Leita þarf samstöðu eftir því sem framast er unnt. Það þarf að efla skilning á viðfangsefnunum, jafnt á stjórnmálasviðinu, hjá hagsmunaaðilum og þjóðinni allri; og undirbúa mál með vandlegum hætti.

Þetta þarf ekki bara að gera til þess að byggja upp traust á Alþingi og stjórnvöldum. Þetta er nauðsynlegt til þess að árangur náist. Við erum þjóðfélag í miklum vanda. Ríkisfjármálin eru öll í skötulíki. Dulinn vandi, sem hefur verið falinn með margvíslegum hætti, mun koma upp á yfirborðið. Stórskuldug heimili eru í gríðarlegum vanda. Þjóðfélagið er í fullkominni kyrrstöðu og ef fram heldur sem horfir verður hér enginn lífskjarabati, ríkissjóður mun ekki ráða við verkefnin sín, atvinnusköpun svo bágborin að fólk mun flýja úr landi og flykkjast inn á atvinnuleysisskrárnar. Þarna blasa við gríðarleg verkefni, óumflýjanleg verkefni, sem við verðum að taka á.

Við vinnum ekki á þessu nema með samstöðu. Fyrir liggur ákall um slíkt víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Munu vinstri flokkarnir, sem að hluta til koma særðir, bláir og marðir út úr kosningunum, treysta sér til slíkra verka?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband