Veifiskatar og lyddur af alls konar tagi

Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefur lýst því yfir að hann láti sér í léttu rúmi liggja hótanir um viðskiptaþvinganir frá Mariu Damanaki sjáavarútvegsstjóra ESB vegna makríldeilunnar. Þetta er hárrétt afstaða. Við erum í fullum rétti, höfum hegðað veiðum okkar af ábyrgum hætti, en mætt óbilgirni af hálfu Norðmanna og ESB.

Þetta brýndi ég fyrir Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra nú á dögunum og hafði áður rætt þessi mál á Alþingi við utanríkisráðherrann og sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Sjálfur hef ég reynslu af svona kúgunartilburðum. Þegar hvalveiðar hófust þá byrjuðu hótanir vestan frá Ameríku og frá ríkjum ESB. Okkur var purkunarlaust hótað viðskiptaþvingunum og ýmis stórfyrirtæki brugðust við með svipuðum hætti.

Athyglisvert er hve margir voru þá tilbúnir að beygja sig í duftið. Veifiskatar og lyddur af allskonar tagi.

Á þeim tíma voru útrásarvíkingr dáðir mjög og margir viðruðu sig upp við þá. Þeir beittu sér harkalega í þessu máli og réðust að ákvörðun minni um hvalveiðar af mikilli hörku. Sögðu þær skaða þá góðu ímynd sem þeir væru að skapa Íslandi með atorku sinni. Undir jarðarmen þeirra gengust svo hinir aðskiljanlegustu menn. Vinstri menn upp til hópa, náttúruverndarsinnar svo kallaðir, með Árna Finnsson lénsmann Bandaríkjanna í broddi fylkingar, fréttamenn og álitsgjafar í hrönnum og síðast en ekki síst þáverandi ritstjórar Morgunblaðsins, sem skrifuðu dæmalausar bull-ritstjórnargreinar í það góða blað.

Er merkilegt til þess að vita að þrátt fyrir þetta hélt almenningur ró sinni. Reis gegn síbyljunni í fjölmiðlunum og studdi hvalveiðarnar heilshugar; rétt eins og núna

Núna skulum við vona að við þurfum ekki að búa við það eins og í hvaladeilunni að áhrifamiklir landar okkar stigi fram til þess að grafa undan málstað okkar. Við eigum að sameinast þegar ráðist er gegn hagmunum okkar. Við hljótum að sameina kraftana þegar að okkur er sótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband