Hér varð hrun


 

Úrslit alþingiskonsinganna voru mjög afdráttarlaust og sendu skýr skilaboð. Ríkisstjórnarflokkarnir misstu meirihluta sinn og guldu sögulegt afhroð. Hin raunverulega stjórnarandstaða í landinu, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, náðu ríflegum meirihluta; 38 þingsæti af 63. Með þessu var þjóðin auðvitað að senda skilaboð sem engum fær dulist. Stjórnarstefnunni var hafnað. Stjórnarandstaðan fékk traustsyfirlýsingu.

Alþingi að störfum Vinstri flokkarnir fengu innan við fjórðung þingsæta. Á fylgi þeirra varð sem sagt hrun.

Nú er skyndilega farið að reyna að efast um umboð þessara tveggja flokka. Þetta er ekki bara fráleitt tal. Þetta lýsir fyrst og fremst örvæntingu stjórnarsinna og vina þeirra á meðal álitsgjafa og bloggverja. Stjórnarandstaðan fékk einmitt skýrt umboð. 60% þingmanna koma úr hennar röðum.

Og hvað má þá segja um þá stjórnmálaflokka, VG og Samfylkingu sem mynduðu ríkisstjórnina sem nú lifir sína síðustu lífdaga. Þeir fengu 23,8% heildaratkvæðamagnsins. VG missti 10,8% fylgisins og Samfylkingin 16,9% fylgisins frá síðustu kosningum. Þeir skipa 22,2% þingheims; innan við fjórðung. Þetta er ekkert minna  en hrun.

Hér varð sem sagt hrun, svo endurtekinn sé vinsælasti frasi vinstri flokkanna frá síðasa kjörtímabili.

En aðalatriðið er auðvitað að stjórnarandstaðan frá síðasta kjörtímabili, náði vel vopnum sínum, með meirihluta greiddra atkvæða og ríflegan meirihluta þingsæta. Mas um annað er í besta falli vesældarlegt.

Það breytir ekki hinu að vonandi hafa allir lært eitt ( og helst margt fleira ) af mistökum vinstri stjórnarinnar, sem brátt verður sáluga vinstri stjórnin. Sú ríkisstjórn keyrði flest mál í átök. Hún skeytti ekki um neitt samráð og það samráð sem fram fór var ævinlega svikið. Aðalsmerki hennar var átakapólitík. Hún átti mestan þátt í að grafa undan stöðu Alþingis með slíku háttalagi.

Stjórnvöld þess kjörtímabils, sem nú er ný hafið, munu vonandi tileinka sér aðra háttu. Ekki bara vegna virðingar Alþingis. Heldur vegna þess að öðruvísi ráðum við ekki við þau tröllauknu verkefni sem bíða okkar á næstu árum og fráfarandi ríkisstjórn réði ekki við.


Við höfum þetta í hendi okkar

     

Þegar æskuglatt unga fólkið okkar lýkur skólagöngu sinni, bíður þess leit að starfi. Ef sú stöðnun sem er í atvinnulífnu núna, heldur áfram, þá er hætt við að leitin verði alltof oft árangurslaus. Okkar dugmikla unga fólk á annað og betra skilið en að vera sett í  þá aðstöðu. Ella er líka hætt við að við sjáum á eftir þessu fólki úr landi.

528170_480235152044978_429425660_n

Nýverið skilaði  nefnd tillögum sínum um úrbætur í þágu eldri borgara. Þar er gert ráð fyrir margvíslegum kjarabótum þeim til handa sem ég hygg að mikil samstaða sé um,, enda réttlætismál. Ef við búum áfram við þá stöðnun í efnahags og atvinnulífi sem nú er til staðar, er algjörlega borin von um að við getum framkvæmt þessar tillögur. Hversu mjög sem við viljum, hvort sem við erum vinstri menn eða hægri menn. Þau útgjöld sem þessar úrbætur útheimta, verða ríkissjóði um megn, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta sjáum við í tölulegum gögnum sem liggja til grundvallar þeirri vinnu sem unnin var við undirbúning þeirra tillagna sem hér er vísað til.

Við höfum tækifærin í hendi okkar

Við höfum öll væntingar um betra líf, betri kjör, meiri samvistir fjölskyldna, fjölbreyttari tækifæri og um að geta búið okkur gott líf í okkar eigin landi; á Íslandi.

Tækifærin blasa hvarvetna við. Á undaförnum árum höfum við byggt upp gott þjóðfélag, með sterkum innviðum. Við erum tiltölulega ung þjóð, hlutfallslega stór hluti Íslendinga er á vinnualdri og getur þannig lagt sitt af mörkum til verðmætasköpunar á mörgum sviðum. Það er öfundarefni margra annarra þjóða.

Þrátt fyrir áföll undanfarinna ára erum við með öflugt lífeyriskerfi, sem á að geta lagt sitt af mörkum; ekki bara til þess að standa undir lífeyri framtíðarinnar, heldur líka til fjárfestingar og verðmætasköpunar í landinu einmitt núna. En þá þarf viðhorfsbreytingu stjórnvalda. Við þurfum nýja stjórnarstefnu. Sú sem fylgt hefur verið undanfarin 4 ár er fullreynd. Hún mistókst illilega.

En þetta þarf ekki að vera svo erfitt. Við erum svo heppin Íslendingar að eiga góða atvinnuvegi. Við verðum að gefa atvinnulífinu rými til þess að geta vaxið og skapað störf fyrir framtíðarkynslóðir, til þess að standa undir velferð þeirra sem þurfa á stuðningi að halda, svo sem öldruðum og öryrkjum, eins og við viljum örugglega öll. Það gerist ekki ef við festumst í þeirri stöðnun sem einkennir samfélag okkar núna og er afleiðing af algjörlega misheppnaðri stjórnarstefnu.

Sendu skýr jákvæð skilaboð til atvinnulífsins

Við þurfum að skapa frið um sjávarútveginn, þannig að hann geti fjárfest fyrir milljarðatugi strax á þessu ári. Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar á að vera að senda sterk skilaboð til sjávarútvegsins um að honum sé óhætt að hefja miklar og markvissar fjárfestingar, sem skapa munu fjöldamörg störf alveg tafarlaust. Við þurfum að senda sams konar skilaboð til stóriðjufyrirtækjanna, sem bíða þess að óvissu linni svo að hægt verði að auka umsvif og skapa þúsundir starfa á uppbyggingartíma, einmitt núna þegar við þurfum svo sárlega á þeim að halda. Sama á við um ferðaþjónustu, sem þarf nauðsynlega að fjárfesta fyrir stórfé á næstunni til þess að geta tekið á móti þeirri gríðarlegu fjölgun erlendra ferðamanna á allra næstu árum.Og þannig má tína til endalaus dæmi  úr atvinnulífinu.

Lítil og meðalstór fyrirtæki grátt leikin

En umfram allt þurfum við að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleyft að láta fyrir sér finna. Þar verða nefnilega lang flestu störfin til. Það gerum við með því að einfalda regluverk og lækka skatta og álögur sem dembt hefur verið yfir þessi fyrirtæki á síðustu árum. Meira en100 skattabreytingar sem hafa verið gerðar á síðustu fjórum árum, hafa skaðað þessar atvinnugreinar svo ómælanlegt er. Dæmi eru um að lítil skattabreyting hafi kallað á hundruð þúsunda kostnað fyrir lítil fyrirtæki. Og er þá ótalinn kostnaðurinn vegna hærri gjalda og skattstigs. Flækjustigið er orðið slíkt, að lítil fyrirtæki þurfa að ráða dýra sérfræðinga til þess að halda utan um pappírsverkin. Það skapar ekki verðmæti. Það býr til kostnað og flækjustig. Við þurfum að lækka tryggingargjöldin, sem ríkisstjórnin stór hækkaði. Þau leggjast nefnilega á launakostnaðinn og gera það að verkum að dýrt er að ráða fólk til starfa. Þau eru þess vegna til þess fallin að eyðileggja störf, einmitt þegar við þurfum á því að halda að skapa störf.

Vilji er allt sem þarf

Það er ekkert mjög flókið að breyta þessu. Það þarf fyrst og fremst vilja og stefnubreytingu. Vilji er allt sem þarf, eins og einu sinni var kveðið.

Og það er gríðarlega mikið í húfi. Því ef við höldum áfram á sömu braut, heldur fólk áfram að flytja úr landi, unga fólkið okkar sér ekki framtíð í því að búa hér, kjör eldra fólks og öryrkja munu versna áfram, lífskjörin verða ekki  samkeppnisfær við önnur lönd, heilbrigðisþjónustan og menntakerfið munu drabbast niður og Ísland verður ekki lengur eftirsótt til búsetu.

Hér er lykilorðið breyting. Í dag höfum við það í okkar hendi að kalla fram þessar breytingar. Um það snúast alþingiskosningarnar í dag.


 

 


Beðið eftir Godot? - Nei. Beðið eftir kröfuhöfunum

Nú er það boðað af Framsóknarflokknum að skuldavanda heimilanna megi leysa með fjármunum sem ef til vill fáist með samningum við útlenda kröfuhafa í  eignir gömlu bankanna. Það er gott og blessað. En hvenær? Hve mikið? Hvernig? Þessum spurningum getur enginn svarað. Einfaldlega vegna þess að það veit enginn.

9209725-debt-or-debts-concept-with-eraser-showing-finance-or-financial-business-problem-concept Tillögurnar um að nýta samninga við kröfuhafa fyrir heimilin í landinu, er eins og aðferð ríkisstjórnarinnar síðustu fjögur árin gagnvart skuldugum heimilum. Bið og enginn veit hve löng hún verður.


Þetta er mjög ábyrgðarlaust. Fjölmörg heimili  í landinu eru í þvílíkum nauðum, að það er óhugsandi að þau bíði. Þá verða hér fjölda gjaldþrot einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Menn lifa ekki af óljósum fyrirheitum. Menn fá engin grið frá lánadrottnum, út á samninga sem enginn veit hvort eitthvað leiði af sér fyrir heimilin. Enginn veit hvenær slíkra úrlausna gæti verið von, ef til kæmi. Enginn veit hverjar upphæðirnar yrðu.

Getur það eiginlega verið að skuldug heimilin í landinu eigi ennþá að bíða, eftir úrræðum? Kannski í eittt ár, ef til vill tvö ár, kannski lengur, allt eftir því hvernig samningaumleitanir gangi. Já. út á það ganga einmitt tillögur Framsóknarflokksins. Það er forsendan í rauninni fyrir þessum tillögum. Bíða og sjá hvað upp úr pottinum kemur; hvenær sem það verður. Og í því felst einmit hættan ef þetta á að verða úrræðið fyrir skuldug heimili í landinu.

Þeir sem boða þessa leið sem hina einu fyrir skuldug heimili, eru í rauninni að segja þeim að þannig verði það. Bið.

Skuldug heimili hafa beðið í fjögur ár eftir úrræðum frá úrræðalausri ríkisstjórn. Það er bágt til þess að vita að enn sé boðuð bið eftir því að vandi heimilanna verði leystur.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins gengur út á allt annað. Við höfum sýnt fram á að ef heimili skuldi 20 milljónir og sé með meðaltekjur, þá muni skuldirnar á skömmum tíma lækka um 20 prósent. Það er nær jafngildi þess sem menn hafa kallað forsendubrest. Það er að létta af mönnum þær ósanngjörnu verðbætur sem hafa safnast upp vegna verðbólgunnar.

Við höfum síðan sagt, að ef eitthvað svigrúm skapist með samningum við erlenda kröfuhafa þá sé sjálfsagt að nýta þá fjármuni einnig til hagsbóta fyrir heimilin í landinu


Þáttaskil


Viðtalið við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins hefur verið  á allra vörum síðustu dægrin. Það er ljóst að þetta viðtal hefur valdið þáttaskilum. Umræðan ber það einfaldlega með sér. Bjarni hefur augljóslega fengið mikinn byr í seglin. Það verður maður var við hvert sem maður fer.

bjarniben Þeir sem vildu slæma höggi á Bjarna Benediktsson reiddu einfaldlega of hátt til höggs. Fólki ofbauð.

En hvers vegna? Af hverju þessar breytingar og af hverju urðu þessi miklu og jákvæðu viðbrögð.

Bjarni Benediktsson hefur mátt sæta óvenjulega skepnulegum árásum undanfarin misseri. Leitun er að öðru eins á Íslandi undanfarin ár. En svo var eins og stigið hafi verið einu skrefi of langt. Árásir DV voru kannski afgreiddar öðruvísi; þær komu úr ranni þess blaðs. En þegar þessar árásir komu frá blaði sem naut annars álits, þá var eins og fólk hefði fengið nóg.

Þeir sem vildu slæma höggi á Bjarna Benediktsson reiddu einfaldlega of hátt til höggs. Fólki ofbauð.

Og þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, sem enginn hefur nokkurn tímann séð nokkuð hrína á, talaði hispurslaust um þetta í sjónvarpinu,  gerði almenningur sér grein fyrir að einhver takmörk hljóti að teljast fyrir því sem hægt er að gera. Jafnvel þó svo að stjórnmálamenn eigi í hlut.

Ég lýsti þessu strax á föstudaginn á facebook síðunni minni  þar sem ég rakti hvernig  ég  hefði varla komist fótmál vegna þess að ég var ýmist stoppaður á götu eða svaraði símhringingum  frá fólki sem vildi tjá hug sinn formanns Sjálfstæðisflokksins. Það sagði líka frá vinum, frændfólki, vinnufélögum og kunningjum,  sem hingað til hefði ekki ætlað að kjósa flokkinn, hefði nú skipt um skoðun. Skoðun þessa fólks á Sjálfstæðisflokknum og formanni hans hefði sem sagt gjörbreyst.

hannabirna Við sjálfstæðismenn höfum á að skipa glæsilegu forystufólki. Bjarna Benediktssyni og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur

Þetta færir okkur vonandi byr í seglin. Við höfum á að skipa glæsilegu forystufólki. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður  eru glæsileg forysta, sem ég hef mikla trú á. Sefnumörkun flokksins er málefnaleg, öfgalaus og vel undirbúin. Þær tillögur sem við höfum í skuldamálum heimilanna munu virka frá fyrsta degi. Þær fela ekki í sér að við þurfum að bíða jafnvel árum saman eftir því hvort og þá hve mikið samningar við þrotabú gömlu bankanna færa okkur í aðra hönd.

Undir forystu Bjarna og Hönnu Birnu er það verkefni okkar að gera þessi stefnumál okkar aðgengileg fyrir almenningi í landinu.

 


Það stefnir í hrein vandræði


Það sem er svo alvarlegt í íslensku samfélagi í dag, er hin efnahagslega stöðnun, sem hér ríkir. Verði ekki breyting hér á munu engar úrlausnir í skuldamálum heimilanna duga nokkurn skapaðan hlut. Ef fólk fær ekki vinnu, unga fólkið útskrifast úr skólum og beint inn í atvinnuleysi og lífskjör ekki batna, mun verða áframhaldandi landflótti með afleiðingum sem ekkert okkar vill horfast í augu við.

Hefur ríkisstjórnin gert eitthvað til þess að stuðla að auknum hagvexti? Stjórnvöld hafa skapað vandann sem við er að glíma í atvinnumálunum. Þau hafa efnt til stóra stríðs við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið

Þegar verðmætasköpunin er svona  lítil, verða til svo fá störf að það fullnægir ekki þeirri þörf, sem er til staðar. Ungt fólk sem er að hefja lífsbaráttuna er býsna hreyfanlegt. Búferlaflutningur yfir hafið, til austurs eða vesturs, verður engin hindrun. Dæmin hafa sýnt þetta síðustu misserin.

Það er ískyggilegt að fjárfestingar í atvinnulífinu eru svo litlar að þær vega ekki einu sinni upp á móti því sem úreldist í tækjum og tólum, byggingum og öðru því sem þarf til þess að láta atvinnurekstur ganga. Hver vél í verksmiðju, innrétting í verslun, búnaður í skip, tölvur og tæki; allt á þetta sinn líftíma. Smám saman úreldast þessir hlutir. Þess vegna þarf að huga að endurbótum og viðhaldi og nýjum vélum, húsum og þess háttar.

Sú fjárfesting sem við búum við í dag, er svo lítil að það tekst ekki einu sinni að halda í horfinu. Við erum með lakari hluti í höndunum í heild en við vorum fyrir einu ári síðan.

Á meðan svo er, getum við einskis vænst. Við drögumst aftur úr. Fjárfestingu fylgja umsvif, störf og verðmætasköpun. Með nýrri tækni getum við gert hluti sem áður voru okkur ómögulegir.

Auðvitað þarf þetta ástand ekki að vera svona. Þetta eru mannanna verk. Óvissan vegna sjávarútvegsins gerir það að verkum að þar er ekki fjárfest. Á meðan tileinka útlendir samkeppnisaðilar sér íslenska verkþekkingu og stefna fram úr okkur, með sama áframhaldi. Stóriðja hefur mætt hreinum fjandskap. Ferðaþjónusta sem allir kepptust við að lofsyngja, hefur nú verið sett í óvissu með skattahótunum. Landbúnaður býr við óvissu vegna ESB umsóknar og svo má áfram telja.

Og síðan hafa stjórnvöld staðið í stóru stríði við verkalýðshreyfinguna og launþegasamtökin.

Það er því ekki að undra að staðan er eins og raun ber vitni um. Það verður kosið um þessi mál þann 27. apríl.


Verða Indriði og Svavar settir til verka?

Hvernig dettur umboðslausri ríkisstjórninnni, sem rúin er öllu trausti, í hug að véla með einhverja mestu hagsmuni okkar, rétt áður en hún tekur sitt síðasta andvarp? Hvernig hvarflar það að ríkisstjórninni að hún hafi eitthvað traust til þess að ganga frá sölu bankanna, eða nauðsamningum  við þrotabú föllnu bankanna, sem lið í því að losa um snjóhengjuna svo kölluðu?

bigstock_Falling_Money_669153 Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að nokkur maður treysti henni til þess að vinna að skuldauppgjöri gömlu bankanna, eða hefur hún eitthvað umboð til þess að fara að selja nýju bankana?

Þetta er auðvitað ekkert annað en reginhneyksli og ríkisstjórnin hefur ekki leyfi til þess að halda áfram með þetta mál.  Eignarhald bankanna, uppgjör við kröfuhafana,  skuldastaða þjóðarbúsins og afnám gjaldeyrishaftanna er  allt samtvinnað. Þetta heildarsamhengi verða menn að hafa í huga. Ákvarðanir að einu leyti í þessu máli, sem teknar eru í óðagoti, geta þess vegna stórskaðað heildarhagsmuni okkar og haft gríðarleg áhrif á stöðu okkar og möguleika á næstu mörgum árum.

Núverandi ríkisstjórn er minnihlutastjórn. Hún er í rauninni þegar grannt er skoðað nánast eins og starfsstjórn og við þessar aðstæður getur hún ekki leyft sér að vinna áfram að þessu máli. Hennar þætti í málinu er einfaldlega lokið.

Sporin hræða. Ríkisstjórninni er ekki treystandi til þess að standa vörð um hagsmuni okkar í máli af þessu tagi. Við munum öll Icesave og framgöngu ríkisstjórnarinnar  í því máli. Þá eins og nú var pukrast með málið. Miðvikudaginn 3. júní 2009  sagði fjármálaráðherra á Alþingi  að engar formlegar viðræður væru að eiga sér stað, ekki yrði gengið frá samningum næstu dagana og að Alþingi yrði haldið upplýstu með stöðuna. Föstudaginn 5. júní voru íslenskir samningamenn mættir til landsins með fullbúinn og undirritaðan samning.

Það liggur fyrir að ríkisstjórnin blekkti þjóðina og þingið. Þeir sem hafa hegðað sér þannig eru einfaldlega ekki traustsins verðir til þess að vinna að þessu máli núna.

Hverja á eiginlega að senda til þessara viðræðna núna? Kannski Svavar Gestsson eða Indriða H. Þorláksson?

Meginverkefnið er að í komandi nauðasamningum göngum við Íslendingar sameinaðir til verka undir traustri forystu. Trausti rúin ríkisstjórn, á síðustu starfsdögum sínum, er ekki í neinum færum til slíks við þannig aðstæður. Það  þarf öfluga pólitíska forystu og mikla samstöðu til þess að leiða svona vandasamt mál til lykta, svo bragur sé að fyrir okkur Íslendinga.

Kröfuhafarnir verða ekki nein lömb að leika sér að. Vogunarsjóðir og slíkir aðilar munu sækja sitt mál af miklu kappi. Í húfi geta verið hundruðir milljarðar, að mati þeirra sem vel þekkja til.

Ríkisstjórnarflokkar, sem eru innbyrðis klofnir þvers og kruss, geta ekki leitt slíkar viðræður af hálfu okkar Íslendinga.  Ríkisstjórnin verður að láta af tilburðum sínum. Hún hefur ekki traust þjóðarinnar til þess að halda þeim áfram.

 


Norðurál skilar milljörðum í ríkissjóð

 

Fyrirtækið Norðurál hefur mátt sæta mjög ómaklegum ásökunum á undanförnum sólarhringum. Þessar ásakanir hafa einnig ratað inn í þingsali Alþingis. Þar hefur verið látið í veðri vaka að Norðurál, beiti öllum brögðum til þess að skjóta sér undan skattlagningu og legði í rauninni ekkert til samfélagsins.

nordural Ótrúlegt er að vita að alþingismenn skuli reyna að ófrægja fyrirtækið Norðurál. Það er einn stærsti skattgreiðandi landsins og stærsti skattgreiðandi á Vesturlandi.

Þetta er víðs fjarri sannleikanum. Fyrirtækið hefur nú þegar sýnt fram á hversu þessar árásir eru tilhæfulausar. Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem fyrst flutti þessi rangindi, sá sig knúna til þess að biðjast velvirðingar á hinum röngu fréttum og fréttaumfjöllunum. Á Alþingi halda menn hins vegar áfram.

Því tók ég þessi mál upp á Alþingi í morgun og flutti meðfylgjandi ræðu.

"Virðulegi forseti.

Undanfarna sólarhringa hefur  verið vegið mjög ómaklega og af rangsleitni að fyrirtækinu Norðuráli á Grundartanga. Það hefur endurómað hér í umræðum í þinginu, m.a. núna í morgun.  Við vitum öll til hvers refirnir eru skornir í þessu sambandi. Við vitum hvað hér býr að baki.

 Ég ætla að leyfa mér að vitna í formann Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálm Birgisson, sem skrifar pistil í gær og segir, með leyfi virðulegs forseta:

 „Við Akurnesingar gerum okkur algjörlega grein fyrir mikilvægi stóriðjunnar hér á Akranesi enda er nánast morgunljóst að ef að stóriðjunnar nyti ekki við þá væri hægt að slökkva ljósin hér á Akranesi og pakka saman. Svo mikilvæg er þessi starfsemi fyrir samfélagið á Akranesi og það þekkja allir þeir sem búa þar og í nærsveitum. Því biður formaður þá aðila sem tala niður þessa starfsemi að tala af ögn meiri virðingu fyrir þeim störfum sem þetta ágæta fólk sinnir dagsdaglega til að skapa hér gjaldeyristekjur fyrir íslenskt samfélag.  Gjaldeyristekjur sem hjálpa til við að halda úti löggæslu, mennta- og heilbrigðiskerfi hér á landi.“

 Sú umræða sem hefur farið fram um þetta fyrirtæki hefur verið alveg með ólíkindum og er alls ekki í samræmi við neinar staðreyndir málsins. Það hefur verið látið í veðri vaka að þetta fyrirtæki hafi ekki borgað neina skatta.Þó er það þannig að á síðasta ári greiddi Norðurál á Grundartanga hæstu opinberu gjöld nokkurs hefðbundins fyrirtækis fyrir utan ríki og banka og greiddi auðvitað hæstu gjöldin á Vesturlandi. Þar af var  tekjuskatturinn 1,5 milljarðar kr.

Til viðbótar við þetta hefur fyrirtækið greitt eins og fram hefur komið fyrir fram greidda skatta og líka raforkuskatt til íslenska ríkisins. Á síðasta ári greiddi fyrirtækið 4,5 milljarða kr. inn í ríkissjóð. Það hefur verið látið í veðri vaka að fyrirtækið sé með veika eiginfjárstöðu og  byggt á einhverjum brellum. Þó er það þannig að álverið á Grundartanga er með 50% eiginfjárhlutfall og arðurinn af þessu fyrirtæki sem rennur til móðurfyrirtækisins, sem er hér á Íslandi, hefur meðal annars verið notaður til að byggja upp starfsemina í Helguvík þannig að ég vil segja að það er ótrúlega ómerkilegt að ráðast að þessu góða fyrirtæki sem skapar hundruð starfa á Akranesi og fjölmörg afleidd störf. Þetta er ómaklegt, þetta er ósanngjarnt og það á ekki að eiga sér stað að menn haldi áfram með slíkum röngum fullyrðingum eins og voru endurteknar hérna í morgun."


Ofurskattlagning og árásir á grunnstoðirnar gera illt verra

 

Þegar ríkið er farið að taka til sín svona stóran hluta af verðmætasköpuninni sem raun ber vitni, er við blasandi að leiðin út úr vandanum getur ekki verið að hækka skatta. Við þurfum að lækka þá. Það kallar á stífa forgangsröðun, þegar kemur að ríkisútgjöldum, en það er þó ekki nóg.

Investment

Eina leiðin út úr þeim vanda sem við erum í, er að auka verðmætasköpunina. Stækka það sem er til skiptanna. Það gerist ekki með núverandi stjórnarstefnu. Hagvöxturinn í fyrra var ekki nema 1,6 prósent. Við þurfum miklu meiri vöxt til þess eins að halda í horfinu.1,6% hagvöxtur er bara ávísun á frekara atvinnuleysi og léleg lífskjör. Og til þess að sjá einhvern árangur þurfum við að þrefalda þennan hagvöxt.

Leið ríkisstjórnarinnar er fullreynd. Við erum pikkföst í sama farinu. Erum í besta lagi í hlutlausa gírnum og bílstjórarnir hamast í rauninni við að reyna troða faratækinu í bakkgírinn.

Við sjáum síðan öll að mjög hefur verið nærri gengið margs konar grunnþjónustu í landinu. Heilbrigðiskerfið er mjög glöggt dæmi um það. Landsspítalinn, höfuðsjúkrahús landsins, heldur ekki vatni né vindum. Öll þekkjum við niðurskurðinn á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Tæki skortir og heilbrigðisstarfsmenn hafa flúið land. Svipaða sögu er að segja svo víða annars staðar.

Út úr þessu öngstræti er bara ein leið fær. Auknar tekjur fyrir þjóðina, aukin verðmætasköpun og umsvif, sem leysa alla krafta okkar úr læðingi.

Þetta er það sem á mannamáli heitir fjárfesting.

Það er hrollvekjandi staðreynd að fjárfesting í atvinnulífinu er svo lítil að hún dugar ekki á móti því sem úreldist, gamlast  og eyðileggst í atvinnutækjunum okkar. Það er uppskrift að algjörri stöðnun. Atvinnulífið þorir ekki að fjárfesta vegna pólitískrar óvissu. Sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta, þrjár meginstoðir útflutnings okkar eru dæmi um þetta.  Fjárhagsleg úrlausn alltof margra fyrirtækja hefur gengið alltof illa. Alltaf er maður að hitta fyrirsvarsmenn lítilla og meðal stórra fyrirtækja, sem segja manni af þessu. Á meðan fjárfesta þessi fyrirtæki ekki. Og gleymum því ekki að atvinnusköpunin á sér einkanlega stað í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Fyrir vikið er hér þessi stöðnun. Skattahækkanir og frekari árásir á grunnstoðir samfélagsins gera bara illt verra

Það gengur ekki til lengdar að halda svona áfram. Þennan vítahring verðum við að rjúfa. Skapa fyrirtækjunum öruggt rekstrarumhverfi. Hætta ofurskattlagningu. Gefa fólkinu í landinu svigrúm til að bæta kjör sín, fá vinnu og byggja upp þetta þjóðfélag.

Um þetta snúast kosningarnar í vor. Nú fáum við tækifæri til þess að rjúfa þennan vítahring. Með annarri stjórnarstefnu.


Fjórar nýjar greinar um ólík málefni

Nú hef ég sett inn á heimasíðuna mína fjórar greinar sem ég skrifað og fengið birtar í ýmsum fjölmiðlum. Þetta eru greinar um ólík efni.

writing

Í fyrsta lagi er að finna grein um skuldamál heimilanna. Þar er bent á þá staðreynd að skjaldborg heimilanna, varð aldrei að veruleika. Sú skuldalækkun sem heimilin hafa sannarlega notið, stafar að 75% af því að svo kölluð erlend lán voru dæmd ólögleg. Það hafði ekkert með aðgerðir ríkisstjórnarinnar að gera. Aðrar aðgerðir voru ýmist gerðar að frumkvæði lánastofnana, eða með samstarfi þeirra og ríkisvaldsins. Þessi grein heitir Stolnar fjaðrir ríkisstjórnarinar.

Í annan stað skrifaði ég grein um þá ótrúlegu framkomu forystumanna ríkisstjórnarinnar gagnvart sveitarstjórnarmönnum og íbúum á Norðurlandi vestra, sem birtist í því að beiðnum þeirra var ekki ansað. Þeir voru sviknir um fundi og það sem kom frá stjórnvöldum, var eitt stórt núll. Þessir sveitarstjórnarmenn voru að vinna að hagsmunamálum síns landsvæðis, en ríkisstjórnin vildi ekkert við þá tala. Þessi grein heitir Hávær þögn úr stjórnarráðinu.

Þriðja greinin fjallar um fæðingarorlofið og þá forgangsröðun sem þar hefur verið boðuð. Staðreyndirnar eru þessar: Á kjörtímabilinu hafa framlög vegna fæðingarorlofs verið skorin niður um 6 milljarða, sem hefur einkanlega haft þau áhrif að feður hafa ekki farið í fæðingarorlof. Var þó einn tilgangurinn sá að tryggja samvistir barns og beggja foreldra. Núna kortéri fyrir kosningar, er síðan sagt að þessa skerðingu eigi að  afmá og bæta um betur. Lengja fæðingarorlofið um 3 mánuði, sem kostar þrjá milljarða. Nú á sem sagt að bæta í um 130% við fjárveitingar síðasta árs! Og það úr galtómum ríkiskassanum Vandinn er bara sá að þetta á að koma til framkvæmda á næsta kjörtímabili, þegar ríkisstjórnin verður farin frá. Þetta er ávísun inn í framtíðina, á herðar annarra.

Loks skrifa ég grein um það að Alþingi samþykkti - loksins - þingsályktunartillögu frá mér, sem er hugsuð sem valkostur við ESB aðildina. Byggði ég þar á niðurstöðu þverpólitískrar nefndar, sem skilaði áliti 2007 og fól í sér tillögur um aukin áhrif okkar í evrópusamstarfi án þess að ganga í ESB. Því miður hefur lítt verið gert með þessar tillögur, enda stjórnvöld upptekin við að undirbúa ESB umsókn. Sú leið er komin í miklar ógöngur, eins og allir sjá. Þess vegna er brýnt að tefla fram öðrum valkosti, sem tryggir okkur aukin áhrif á grundvelli EES samningsins. Þessi grein heititr einfaldlega Aukin áhrif í evrópusamstarfi.

Þessar greinar má lesa á síðunni minni undir heitinu Greinar/ræður


„Óttalegur bullukollur ertu Bastían minn“

 

Hvernig ætli á því standi að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar kjósi að segja ósatt um stjórnarskrármálið og afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Bæði Össur Skarphéðinsson og  Magnús Orri Schram halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekkert  hafa með auðlindaákvæði  að gera í stjórnarskránni.

bastian_995620 Þegar maður les málflutning samfylkingaarmanna um stjórnarskrármálin, rifjast upp ummælin um Bastían bæjarfógeta í Kardemommubænum: Mikill óttalegur bullukollur ertu Bastían minn.

Þetta er ósatt og það vita þeir félagar báðir. Við höfum á hinn bóginn sagt að það ákvæði sem lagt hefur verið til af stjórnlagaráði og meirihluta stjórnskipunar og eftirlitsnefndar sé ekki brúklegt. Það er allt annað mál, eins og allir sjá. Einnig þeir tvímenningarnir,  þó þeir kjósi að tala öðruvísi.

Tilraun var á sínum tíma gerð á kjörtímabilinu 2003 til 2007 að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarskrána. Þá strandaði það mál. Af hverju skyldi það nú hafa verið? Jú. Fulltrúar Samfylkingarinnar vildu ekki afgreiða málin, af því að einnig stóð til að fjalla um málskotsrétt forseta. Þá höfðu staðið yfir deilur um fjölmiðlafrumvarpið  fræga og  Samfylkingin tók sér stöðu með Baugsmiðlunum í því stríði, eins og allir muna.

En aðeins að auðlindaákvæðinu aftur. Þrjú dæmi um skýran vilja Sjálfstæðisflokksins í þessu máli má tilgreina. Auk marg ítrekaðra ummæla okkar um þessi mál.

1. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að skipan svo kallaðrar auðlindanefndar, sem í áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka, undir forystu Jóhannesar Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra.  Sú nefnd lagði fram tillögu að auðlindaákvæði í nýrri stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þeirri niðurstöðu.

2. Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og Jón Sigurðsson þáverandi formaður  Framsóknarflokksins lögðu fram frumvarp um auðlindaákvæði árið 2007, þegar ljóst var að hælkrókur Samfylkingarinnar var að leiða til þess að ekki yrði niðurstaða í stjórnarskrárendurskoðun á þeim tíma.

3. Sá sem hér stýrir tölvubendli leiddi starfshóp í sáttanefndinn, svo kölluðu, i um fiskveiðilöggjöfina árin 2009 –2010. Við urðum sammála um að auðlindaákvæði yrði sett í stjórnarskrá og vísuðum meðal annars í tillögu auðlindanefndarinnar.

Þetta sýnir með öðru að við höfum fullan vilja til að slíkt ákvæði sé í stjórnarskrá. En þá skiptir máli hvernig það er orðað. Um það stendur efnislega umræðan, en ekki tilraunir einstakra þingmanna og ráðherra til að blekkja og afvegaleiða umræðuna.

En framganga þeirra félaga minnir hins vegar á ummælin sem voru látin falla um þá frægu sögupersónu  Bastían bæjarfógeta í Kardemommubænum, eftir einhver ummæli hans: Mikill óttalegur bullukollur ertu nú Bastían minn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband