5.5.2010 | 23:20
Sögulegar en ekki einstæðar kosningar í Bretlandi
Kosningarnar sem eru framundan í Bretlandi verða væntanlega sögulegar, en fráleitt einstæðar, eins og ráða hefur mátt af umræðum. Sókn Frjálslyndra demókrata er auðvitað markverð, en eins og skoðanakannanir standa núna er ekki ólíklegt að flokkurinn geti verið með ívið meira fylgi en árið 1983, þegar fjórir ráðherrar úr Verkamannaflokknum gengu til liðs við flokkinn. Þá spáðu því margir að varanlegar breytingar yrðu á kosningafyrirkomulaginu í landinu. Það rættist ekki, eins og kunnugt er. Líklegast er að sagan endurtaki sig núna.
Sókn Frjálslyndra demókrata skýrist í fyrsta lagi af þreytu almennings á stóru flokkunum, Verkamannaflokki og Íhaldsflokki, einkum þó gagnvart hinum fyrr nefnda. Þær aðstæður voru kjörnar fyrir hinn geðþekka foringja frjálslyndra, Nick Clegg. Athyglisvert er hins vegar að i skoðanakönnunum kemur í ljós að kjósendum geðjast hins vegar illa að skoðunum flokksins.
Allt bendir til þess að Íhaldsflokkurinn verði sigurvegari kosninganna núna. Þar með lýkur 13 ára niðurlægingartímabili flokksins frá kosningasigri Tony Blair árið 1997. Áður hafði Íhaldsflokkurinn verið við völd frá árinu 1979, lengst af undir forsæti Járnfrúarinnar Margrétar Thatcher. Jafnvel þó að flokkurinn nái ekki að merja meirihluta þingsæta, líkt og skoðanakannanir benda til, þá verður það að teljast sigur fái flokkurinn mest atkvæðamagn.
Með sama hætti verður það ósigur Verkamannaflokksins og þá sérstaklega leiðtoga hans Gordon Brown forsætisráðherra, hljóti hann færri atkvæði en Íhaldsflokkurinn. Og hér skal þá sett fram ein spá. Verði sú raunin er þess skammt að bíða að Brown segi af sér leiðtogahlutverkinu. Og hér kemur svo tilgáta númer tvö; það mun gerast fyrir næstu helgi.
3.5.2010 | 23:35
Hvað koma slík smámál okkur við?
Áherslurnar í þjóðmálaumræðunni eru sérstakar um þessar mundir. Í síðustu viku fóru fram á Alþingi umræður um tvö stórmál sem að jafnaði hefðu hlotið einhverja athygli. En ekki núna. Hvorug þessara mála vöktu nægjanlega athygli svo að þau rötuðu inn í fréttatíma. Fjölmiðlar móta þjóðmálaumræðuna og sjónarhorn þeirra ræður hvað kemst á dagskrá hennar á hverjum tíma.
Iðnaðarráðherra fylgdi úr hlaði liðónýtri byggðaáætlun til fjögurra ára, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Byggðaáætlun segir okkur eitthvað um hver áhersluatriðin eigi að vera í byggðastefnu stjórnvalda til næstu fjögurra ára. Ríkisstjórnin skilar þar auðu. Saman eru tínd einhver sundurlaus atriði, sem hafa svo ekki endilega nokkra byggðalega skírskotun. Áætlun ríkisstjórnarinnar er vitaskuld nokkuð aðhlátursefni. Sérstaklega hin þaulhugsuðu áform um að láta viðarkyndingu leysa hitaveituáformin af hólmi.
Samgönguáætlunin segir okkur frá áformum og fyrirheitum stjórnvalda í vegamálum, flugvallauppbyggingu og hafnargerð í landin. Ekki vöktu þau mál ýkja mikla athygli fjölmiðla. Umræðan um þennan þýðingarmikla þátt sem miklu mun varða fyrir stór landsvæði varð engin úti í þjóðfélaginu, vegna þess að sjónarhorn fjölmiðla náði ekki að þessu máli.
Samgönguáætlun sem er lögð fram við núverandi aðstæður verðskuldar mikla umræðu; gagnrýna umræðu. Nú þarf nefnilega mjög að vanda sig og slíkt kallar á lýðræðislega umræðu.
Þess vegna ber mjög að harma að hvorugt þessara stórmála skuli hafa verið talið eiga erindi til almennings, að mati fjölmiðlanna okkar. Spurningin sem vaknar er einmitt þessi, hvort fjarvistir þessara stóru mála úr þjóðmálaumræðunni sé ekki skýr vitnisburður um þröngan hugarheima þeirra sem fjölmiðlunum stýra?
1.5.2010 | 12:26
Lurkakynding í stað hitaveitna !
Ríkisstjórnin hefur því miður gefið alltof fá tilefni til þess að uppskera hól á þessari bloggsíðu. Það er því mikilvægt að grípa þau færi þegar gefast. Það skal gert hér og nú.
Í gær var hér skrifað um einn anga byggðaáætlunar ríkisstjórnarinnar og hún ekki til margra fiska metin. En eitt er hægt að segja jákvætt um þessa áætlun. Það er þetta:
Það er sanngjarnt að vekja athygli á hugkvæmni í byggðaáætlun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Í ályktunarplagginu segir að ekki verði hægt að ná frekari árangri við lækkun orkukostnaðar á köldum svæðum með frekari hitaveituvæðingu.
Ekkert er hins vegar fjallað um niðurgreiðslur orkuverðs í dreifbýli eða á köldum svæðum til lækkunar húshitunar og raforkukostnaðar. Hefur þó mjög verið kallað eftir slíku á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin skilar auðu og þess er ekki að vænta að húshitunarkostnaður og raforkukostnaður í dreifbýli verði lækkaður, fyrir atbeina stjórnvalda.
Hinu er slegið föstu, að ekkert verði aðhafst frekar í jarðhitaleit. En við skulum samt ekki örvænta. Ríkisstjórnin hefur ráð undir rifi hverju. Lausnin er sú að orkunotendur á köldum svæðum breyti yfir í aðra orkugjafa og fari að kynda hús sín með lurkum !
Og lesendur góðir þetta er ekkert grín. Þeir meina það. Þetta stendur í byggðaáætlun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á bls, 15. í 19 tölulið aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar. Hið nýja slagorð er sem sagt. Lurkakynding í stað hitaveitna !
30.4.2010 | 10:46
Vinstri grænir fjarverandi byggðaumræðuna
Sú var tíðin að þingmenn Vinstri grænna létu sig ekki vanta þegar byggðamál voru rædd á Alþingi. Hér áður og fyrr hefði það verið útilokað að þingmenn flokksins tækju ekki þátt í umræðunni þegar á dagskrá var ný Byggðaáætlun. En nú eru breyttir tímar. Iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, lagði fram Byggðaáætlun og mælti fyrir henni á dögunum. Tveir þingmenn VG sátu yfir umræðunni, að hluta amk. Enginn þingmaður flokksins ómakaði sig hins vegar upp í ræðustól Alþingis til þess að fjalla um málið.
Hvað veldur? Eru þingmenn flokksins áhugalausir um þennan málaflokk? Kæra þeir sig kollóttann þegar þessi mál eru á dagskrá? Er forgangsröðunin þannig að þeim finnist önnur mál brýnni?
Er skýringin kannski sú að þeir sjá það sem blasir við öllum; Byggðaáætlunin er hvorki fugl né fiskur. Hún er ekkert innlegg í byggðamálin. Þetta þingplagg er hins vegar á ábyrgð Vinstri grænna rétt eins og Samfylkingarinnar. Þetta er stjórnartillaga, borin fram á ábyrgð þingflokka Vinstri grænna rétt eins og Samfylkingarinnar.
Fjarvera þingmanna flokksins frá umræðunum bendir því til þess að þeir hafa ekki viljað axla ábyrgð á þessari snautlegu áætlun. Það er hin líklega skýring á fjarveru þeirra. Og hún er vel skiljanleg.
Inni í áætluninni er margs konar samtíningur, sem í mörgum tilvikum á ekkert skylt við byggðamál í sjálfu sér. Greinilegt er að í byggðamálum telur ríkisstjórnin ekki að sjávarútvegur eða landbúnaður gegni nokkru hlutverki. Sjávarútvegs er getið einu sinni og þar er um lítilfjörlegt atriði að ræða. Hvergi er stafkrók að finna um landbúnað. Þetta getur ekki verið að skapi Vinstri grænna. Þeir hafa því séð sitt óvænna og haldið sig fjarri þessum ósköpum.
29.4.2010 | 15:08
Flokkur atvinnulífsins?
Þingmaður Samfylkingarinnar kvað upp úr um það fyrir fáeinum mánuðum að nú væri orðin vík á milli Sjálfstæðisflokksins og atvinnulífsins. Samfylkingin væri hins vegar orðinn hinn eini raunverulegi flokkur atvinnulífsins, allt vegna þess hve sá flokkur væri hallur undir aðild að ESB.
Þetta var á þeim dögum þegar margir töldu helst til bjargar þjóðinni að ganga í Evrópusambandið og þær raddir ómuðu líka úr viðskiptalífinu.
En þetta voru auðvitað bara hinir villtustu draumar. Og eins og allir vita þá rætast ekki allir draumar. Samfylkingin átti ekki þá frekar en nú samleið með atvinnulífinu, né atvinnulegri uppbyggingu.
Viðskiptablaðið birti í dag niðurstöðu skoðanakaönnunar sem segir okkur að 85,9% stjórnenda 300 stærstu fyrirtækja landins styðji ekki ríkisstjórnina og meirihluti þeirra eða 54% væru á móti aðild að ESB.
Þetta þarf engan að undra. Ríkisstjórnin hefur hreinlega reynst fjandsamleg atvinnulífinu.Stuðningur forsvarsmanna í fyrirtækjarekstri við ríkisstjórnina væri því eins og rembingskoss á vöndinn. Skattahækkanir, laga og reglugerðarflækjur, tómlæti gagnvart uppbyggingaráformum, fjandsamleg sjávarútvegsstefna og fjandskapur við orkufrekan iðnað. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum í hnotskurn.
Afstaða stjórnenda í atvinnulífinu er því í rökréttu samhengi við tilefnið sem ríkisstjórnin hefur gefið. Yfirlýsing samfylkingarþingmannsins er því í ljósi skoðanakönnunar Viðskiptablaðsins, alveg eins og einn risastór aulabrandari.
25.4.2010 | 22:11
Ríkisstjórnin í leynibralli með vogunarsjóðum
Nú liggur það fyrir. Ríkisstjórnin er á kafi í leynimakki með erlendum vogunarsjóðum um atriði sem tengjast eignarhaldi á Arion banka og Íslandsbanka. Ráðherrarnir þverneita að upplýsa Alþingi eða þjóðina hverjir eigi núna bankana. Þær upplýsingar eru þó tiltækar, en fást ekki opinberaðar.
Á sama tíma liggur fyrir að vogunarsjóðir sem eru í gróðabralli með skuldabréf á bankana hafa allar þessar upplýsingar undir höndum. Þeim er sem sagt treyst fyrir þessum upplýsingum. Þingmenn fá á hinn bóginn ekki að sjá þær; né eru þær tiltækar öðrum þjóðfélagsþegnum.
Þetta er auðvitað reginhneyksli og ráðherrarnir geta ekki lengur lúrt á þessum upplýsingum.
Vel má það vera rétt að ekki séu tiltækar upplýsingar um eigendur bankana upp á einseyring og krónu. En enginn trúir því að ekki séu til nægjanlega nákvæmar upplýsingar um eigendur stærstu krafnanna á bankanna og þar með helstu eigendur þeirra.
Að öðru leyti lítur myndin þá svona út. Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon, allt ráðherrar í íslensku ríkisstjórninni, fóru í leiðangur til að selja tvo banka. Þetta var 20. júlí í fyrra og síðan hafa ráðherrarnir hælst um yfir snilld sinni. Frá upphafi hefur þess verið krafist að upplýst sé um eigendurn. Þessir ráðherrar neita að svara. Þykjast ekki vita hverjum þeir "seldu " bankana !!
Þetta hlýtur að teljast orðin sú stórfurðulegasta einkavæðing sem nokkru sinni hefur verið staðið fyrir. Nú hljótum við til viðbótar við annað að krefjast þess að sjá verklagsreglurnar við þessa einkavæðingu.
21.4.2010 | 15:08
Nú er öldin önnur
Það er athyglisvert hve vinstri menn skeyta skapi sínu á forsetanum þessa dagana. Úr röðum þingmanna Vinstri grænna mátti heyra afsagnarkröfu á hendur Ólafi Ragnari Grímssyni forseta. Formaður flokksins og fjármálaráðherra, sem er jarðfræðingur að mennt, flutti lítt dulbúna árás á forsetann í þinginu í gær. Þetta gerðist eftir að þjóðhöfðininn fór inn á fræðasvið ráðherrans og hóf að tala um jarðfræði.
Þessi gagnrýni á sér mjög einfalda skýringu. Ólafur Ragnar Grímsson synjaði Icesavelögunum staðfestingar og það verður ekki fyrirgefið svo glatt.
En þá rifjast upp að þegar það var gagnrýnt að Ólafur Ragnar væri að gjörbreyta eðli embættis síns til dæmis með utanríkispólitískum yfirlýsingum. Því var þá afar illa tekið í ranni vinstri manna. Þeir risu upp á afturlappirnar og vörðu gjörðir forsetans.
Ekki mátti heyra á það minnst að nokkrar breytingar væru gerðar á stjórnarskránni sem lutu að stöðu forsetaembættisins, sem þó er þörf á. Í þeirri vörn var öllu til tjaldað og þessi þvergirðingsháttur torveldaði mjög alla vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
En nú er öldin önnur. Icesavesamningurinn er VG liðum sem heilög kýr í tilteknum trúarbrögðum. Við því fyrirbrigði má ekki stugga öðruvísi en að hafa verra af. Það fær Ólafur Ragnar Grímsson að reyna þessi dægrin.
20.4.2010 | 09:59
Þeir hefðu froðufellt
Veltu einu fyrir okkur. Hvað hefði gerst ef einhverjir aðrir stjórnmálaflokkar en VG og Samfylking stæðu fyrir því að afhenda hópi fólks, sem enginn veit hverjir eru, öll yfirráð í tveimur af þremur stærstu bönkum landsins.
Það er auðvelt að geta sér til um svarið. Við hefðum séð froðufellandi stjórnmálamenn úr þessum flokkum í ræðustólum Alþingis vegna slíkrar ósvífni.
Og ósvífni er það. Ríkisstjórnin hefur fyrir löngu afhent óskilgreindum hópi kröfuhafa öll völd í Íslandsbanka og Arion banka. Af þessu stærir stjórnin sig og færir gamalkunnug einkavæðingarrök fyrir ákvörðun sinni. Þetta er að mati fjármála og forsætisráðherrans ein stærsta rósin í hnappagati ríkisstjórnarinnar og mjög haldið á lofti við erlend greiningarfyrirtæki og vinina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
En svo neita þau að upplýsa um eignarhaldið. Svara spurningum um það út úr kú. Það er ótrúlegt en satt. Eða á maður að trúa því að enginn ráðherra í ríkisstjórninni hafi hugmynd um hver á bankana, sem þeir afhentu. Var bönkunum bara hent eitthvað út í buskann.
Sé það svo að ráðherrarnir viti ekki um eignarhaldið, þá er augljóst að þeir hafa orðið berir að vanrækslu. Það er kunnuglegt hugtak þessa dagana.
Viti þeir það en neita að upplýsa, eru þeir ekki bara lengur berir að valdhroka og leyndarhyggju( það er jú hvort sem er daglegt brauð núorðið) heldur fer að verða tilefni til að skoða lögin um upplýsingaskyldu stjórnvalda í lagasafninu.
18.4.2010 | 22:23
Vandræðagangur á heimavígstöðvunum
Afgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðun samkomulagsins við okkur, rifjar fyrst og fremst upp eitt. Það að endurskoðunin hefur tafist von úr viti. Þar er auðvitað við sjóðinn að sakast að hluta til. Sjóðurinn breytti sér í eins konar handrukkara fyrir Icesaveþjóðirnar. En hitt er ekki síður alvarlegt að allt hefur málið dregist vegna vandræðagangs hér á heimavígstöðvunum. Seinagangurinn sem einkennir allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar birtist líka í seinkunum á endurskoðun AGS samningsins.
Pólitíska óvissan sem lagðist yfir þjóðfélagið í ársbyrjun 2009 bætti gráu ofan á það svarta ástand sem var þá í efnahagsmálunum. Reynsla annarra þjóða sýndi að sú blanda er baneitruð; pólitísk óvissa og efnahagsleg vandræði.
Það hefur rækilega sannast hér. Þegar Samfylkingin gugnaði gagnvart verkefnum sínum, var mynduð ný vinstri stjórn. Síðan hefur meira og minna ríkt stjórnarkreppa. Ríkisstjórnin ræður ekki við ætlunarverk sitt. Stjórnarkreppan birtist hvenær sem taka þarf á málum. Í Icesavemálinu, ESB aðildinni, ríkisfjármálum, atvinnumálum, málefnum heimilanna........ Og þannig má endalaust áfram telja.
Þetta í bland við óforsvaranlega afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, skýrir að við erum langt á eftir upphaflegri áætlun. Batamerkin sem menn töldu fyrirsjáanleg um mitt ár, eru enn alltof fjarri.
16.4.2010 | 10:18
Tók enginn eftir þessu?
Þegar skýrsla Rannsókanrnefndarinnar er lesin virðist blasa við að þegar fjárfestahóparnir keyptu bankana hafi þeir ekki haft það að augnamiði að reka banka. Þeir voru bara að "kaupa" sér aðgang að skotsilfri til eigin athafna, eins og hér var vakin athygli á fyrr. Þetta er þeim mun hörmulegra vegna þess að í bönkunum var mjög margt gott fólk, sem vildi vinna og vann af samviskusemi að starfi sínu; að reka banka. Það er ekki við það fólk að sakast.
Bankarnir breyttust úr venjulegum fjármálastofnunum í dælustöð fyrir eigendurna. Fjármunum var pumpað út til eigendanna og skyldra aðila í viðskiptalífinu.
Á bakvið milljarða lánin virðast hafa verið hæpnar veðtryggingar og sem urðu svo enn verri við hrunið og glötuðust í mörgum tilfellum. Eins og ég fjallaði um í ræðu minni sl. þriðjudag á Alþingi er meginniðurstaða skýrslu Rannsóknarnefndarinnar að í stærð bankanna og þessum vafasömu gjörningum hafi fall bankanna verið falið.
Spurningin sem vaknar er auðvitað þessi. Hvernig stóð á því að þeir sem áttu að fylgjast með þessu hringdu ekki viðvörunarbjöllum, sem hægt væri að bregðast við? Gat þetta hafa farið framhjá Fjármálaefltirlitinu? Fámenni eða fjársvelti getur ekki skýrt að þetta hafi ekki vakið athygli þeirra sem höfðu aðgang að bókum bankanna. Vakti það ekki endurskoðendur til umhugsunar að sömu grúppurnar voru kannski með lán sem svaraði öllum eiginfjárgrunni einstakra banka, eins og var í tilviki Baugs og litla bróður hans, honum Fons, í Glitni?