13.4.2010 | 16:28
Prívatsparibaukar fyrir eigendurna
Ég var talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um umrædda skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins nú fyrr í dag. Ræðuna má heyra hér. Í ræðunni minni vék ég meðal annars að þeirri ótrúlegu staðreynd að jafnskjótt og tilteknir fjárfestahópar eignuðust banka, hófust makalaus útlán úr þessum sömu bönkum til eigendanna. Í þeim kafla ræðunnar segir meðal annars:
"Það er hrollvekjandi að lesa hvernig tilteknir eigendur bankanna hafa beitt eigendavaldi sínu af ótrúlegri skammfeilni til þess að ryksuga til sín fjármuni úr bönkunum og það án þess að gerð væri krafa um eðlileg veð. Almennum viðskiptavinum var gert að leggja fram ítrustu veðtryggingar, en það var ekki látið gilda um þá sem mestu umsvifin höfðu, rétt eins og við sjáum nú í hinum gríðarlegu útlánatöpum bankanna.
Stærstu eigendurnir virðast hafa litið á bankana sem prívatsparibauka sem eðlilegt væri að nota til þess að fjármagna kaup og yfirtökur á fyrirtækjum og eignum út um allar þorpagrundir. Það eru engar eðlilegar viðskiptalegar skýringar á því að þegar einstakir fjárfestar komu höndum yfir bankana, ruku upp útlánin úr sömu bönkum til fyrirtækja þeirra.
Það er til dæmis ein af hinum ótrúlegu frásögnum úr skýrslunni að einn og sami aðilinn, fyrirtæki Baugs, skuli hafa verið með lán hjá viðskiptabönkunum stóru sem svarar 53% af eiginfjárgrunni þeirra. Og þegar sérstaklega er skoðaður bankinn sem fyrirtækjasamsteypan réði voru þessar tölur um tveir þriðju af eiginfjárgrunninum og nær níutíu prósent þegar við er bætt lánum til nánasta viðskiptafélagans."
11.4.2010 | 14:14
Svipaðar spurningar og svörin eins
Á sama tíma og við búum okkur undir að sjá hvað hin svo kallaða rannsóknarnefnd hefur fram að færa í skýrslu sinni og sem skilað verður á morgun, fer fram sambærileg umræða víðar. Í Bandaríkjunum er athyglisvert að spurt er nákvæmlega sömu spurninganna og hér um efnahagshrunið þar í landi. Sama á við víðar. Í Bretlandi hefur farið fram mikil umræða um þetta sama og alveg á sömu nótum. Og þannig er það miklu víðar.
Hvers vegna sá þetta enginn fyrir? Af hverju gripu bankar og eftirlitsstofnanir ekki til varna til þess að afstýra því versta? Þetta eru spurningarnar sem menn spyrju; rétt eins og hér.
Í Bandaríkjunum fara menn aðrar leiðir en hér. Við ákváðum, í breiðri pólitískri samstöðu, að fela þremur sérfróðum einstaklingum að kafa ofan í álitamálin og þeir nutu margháttaðrar aðstoðar. Niðurstaðan mun birtast á morgun á þúsundum blaðsíðna.
Í Bandaríkjunum fara nú fram opnar yfirheyrslur á vegum þingnefndar um hið sama. Þar kom fyrstur fyrir nefndina Alan Greenspan fyrrv.seðlabankastjóri. Síðar komu fulltrúar bandaríska bankarisans Citibank. Ég sá hrafl úr þessum yfirheyrslum og fannst athyglisvert að heyra sameiginlegt mat begga aðila, sem var einhvern veginn svona:
Þessa miklu atburði var engan veginn hægt að sjá fyrir. Það voru eftirlitstofnanir, matsfyrirtæki, stóð eftirlitsaðila innan bankanna, fjölmiðlar, háskólaakademían og áfram mátti telja á meðal þeirra sem gleggst máttu vita, sem ekki brugðust við. Einsfaldlega af því þeir gerður sér ekki grein fyrir í hvað stefndi. Fæstir uggðu að sér.
Fáeinir vöruðu að sönnu við, en fæstir geta þó sagt með sanni að þetta hrun hafi blasað við þeim eins og opin bók. Spurningarnar eru svipaðar og svörin nánast eins; alls staðar.
23.3.2010 | 11:58
Iðnaðarráðherrann hramsaði til sín peningana
Skötuselslögin sem Alþingi samþykkti illu heilli í gær hafa á sér margar skrautlegar hliðar. Ein snýr að því hvernig verja eigi fjármunum þeim sem fást fyrir sölu á aflaheimildunum í skötusel
Upphafleg ætlun sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra var að verja þeim peningum að meirihluta til byggðamála sérstaklega. Voru höfð um þetta mörg og fögur orð og þýðinguna fyrir byggðirnar. Það gerðist hins vegar að meirihluti sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar þingsins breytti þessu og vildi ráðstafa þessu í gegn um sjóð sem heyrir undir iðnaðaráðherrann og hefur ekkert með byggðamál að gera. Um það skrifaði ég á sínum tíma og lesa má um hér.
Ekkert var sagt til að útskýra þessa stefnubreytingu. Því knúði ég á um að ráðherra málaflokksins, Jón Bjarnason útskýrði sinnaskiptin. Hann svaraði því svona: Síðan geri ég ráð fyrir að sá ráðherra sem fer með byggðamál ( hafi) komið sjónarmiðum sínum varðandi þetta á framfæri við nefndina, a.m.k. var þessu breytt?
Sem sagt. Sjávarútvegs og landbúnaðaráðherra upplýsir að það hafi verið iðnaðarráðherrann ráðherra annars málaflokks, - sem hramsaði þessa fjármuni til sín, á bak við ráðherrann sem málið flutti og var ábyrgðarmaður þess. Þetta er skrautlegt, svo ekki sé nú meira sagt.
Ég flutti breytingartillögu ásamt félögum mínum um að hverfa frá þessu og færa málið í fyrrnefnt horf, ráðstafa peningunum til byggðamála. Átakanlegt var að sjá þingmenn VG hafna þessari byggðaáherslu og kyssa enn einu sinni á vönd Samfylkingarinnar.
Auðmýkt og undirgefni VG í samskiptum við samstarfsflokkinn í ríkisstjórninni eru greinilega fá takmörk sett.
19.3.2010 | 12:38
Fólkið frá Marz
Menn velta fyrir sér skýringum á hraklegri stöðu ríkisstjórnarflokkanna í nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í dag. Sú skýring sem blasir við er auðvitað að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar eru líkt og stödd í allt öðru sólkerfi í málflutningi sínum.
Forsætisráðherrann lýsir því yfir að nú sé búið að gera allt sem gera þurfi fyrir heimilin í landinu, með nýju frumvarpi félagsmálaráðherra. Sem vel að merkja, fáir vita hvað hefur nákvæmlega í för með sér. Þetta er ekki ýkja mikil vísbending um að ráðherrann átti sig á stöðu fjölskyldnanna í landinu. Sú var tíðin að ráðherrann var í bærilegu jarðsambandi við fólkið í landinu. Það er bersýnilega ekki lengur.
Svo koma þeir hver á fætur öðrum ráðherrarnir og láta eins og allt sé í himnalagi í atvinnumálunum á sama tíma og störfum fækkar, atvinnuleysi eykst, fyrirtækin hanga á horriminni og stjórnvöld þvælast fyrir allri uppbyggingu.
Ríkisstjórn sem eru svona algjörlega úti á þekju og ráðherrar og þingmenn hennar sem tala eins og þeir séu staddir á reikistjórninni Marz en ekki á Móður Jörð, eru ekki í miklu sambandi við þjóðina. Ætli það hafi ekki eitthvað að segja um álit þjóðarinnar á ríkisstjórninni og flokkum hennar?
18.3.2010 | 08:55
Ný tegund af Fjórflokki
Hugtakið Fjórflokkur er vel þekkt í stjórnmálaumræðunni. Það er í rauninni samheiti yfir þá fjóru stjórnmálaflokka sem eru stærstir hér á landi. Núna eru það Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og svo vinstri flokkarnir Samfylking og Vinstri grænir, sem leystu af hólmi aðra vinstri flokka sem skipað var í þá virðulegu sveit fjórflokkinn.Er þar auðvitað átt við þá sálugu stjórnmálaflokka, Alþýðuflokk og Alþýðubandalag.
En nú hefur hinn gamli Fjórflokur, með stórum staf, fengið óvænta samkeppni. Það hefur orðið til nýr Fjórflokkur.- Fjórflokkurinn á vinstri væng stjórnmálanna
Það hefur ekki farið framhjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki lengur tveir. Þeir eru amk. fjórir. Það er hin formlega Vinstri hreyfing grænt framboð og svo auðvitað Órólega deildin, sem vel fer á að skrifuð sé með stórum staf og greini. Síðan er það Samfylkingin.Á síðustu dögum hefur þar birst innanborðs, önnur Óróleg deild,(með stórum staf) sem setur skilyrði um stuðning við stjórnina; skilyrði sem eru fyrirsjáanlega óaðgengileg fyrir VG. Þessi nýja deild í Samfylkingunni setur á svið leikrit þar sem félagsmenn spyrja hverjir aðra út úr í þingsölum Alþingis og senda VG dulbúnar pillur.
Það er því í raun svo, eins og alþjóð fylgist með, að við völd í landinu er ekki lengur tveggja flokka ríkisstjórn, heldur fjórflokka ríkisstjórn, með ótöldum sellum af gamla toganum innanborðs.
16.3.2010 | 22:21
Vill Sjálfstæðisflokkurinn standa vörð um skattsvikin?
Varla trúir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vitleysunni úr sjálfum sér. Hún kom fram með þá ósvífnu fullyrðingu á blaðamannafundi í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið áhugalaus um að uppræta skattsvikin í landinu. Sem sagt. Það er skoðun forsætisráðherrans að til sé stjórnmálaflokkur sem vilji sjá í gegn um fingur sér gagnvart skattsvikurum. Sé eins konar skjól fyrir skattsvikara í landinu.
Er nú hægt að rata niður á mikið lægra plan. Eða eins og unga fólkið slettir stundum; how low can you go?
Forsætisráðherra ætti að líta sjálfri sér nær. Ríkisstjórnin undir forsæti hennar hefur linnulaust breytt skattkerfinu og gert það flóknara. Og það er byrjunarlexía í skattamálum að eftir því sem skattkerfin verða flóknari því líklegri verði skattundanskotin.
Það er þó ekki vegna sérstakrar löngunar til þess að opna glufur í skattkerfið að ríkisstjórnarflokkarnir fóru í að flækja það. Aðrar hvatir og pólitísk skammsýni réðu þeirri feigðarför.
Og svo er rétt að rifja það upp að það var árviss viðburður við fjárlagagerð að Jóhanna Sigurðardóttir flutti billegar tillögur um bætt skattaskil með auknu skattaeftirliti. Aldrei neitt rökstutt, aldrei neitt útfært. Allt saman aumt yfirklór til þess að mæta ( í þykjustunni auðvitað) milljarðaútgjaldahugmyndum þingmannsins við fjárlagagerðina.
16.3.2010 | 08:43
Með kápuna á báðum öxlum
Svarið er afdráttarlaust játandi. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja síðan niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar. Þannig svaraði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra spurningu minni á Alþingi í gær, er ég innti hann eftir því hvort ríkisstjórnin væri samstíga þegar kæmi að aðildarumsókninni um ESB.
Svarið er þá eins skýrt og það getur verið. Ríkisstjórnin gengur í takti, er einhuga, þegar rætt er um ESB aðildina.
Gott er að fá þetta skýrt fram. Skilja hefur mátt einstaka stjórnarliða og jafnvel ráðherra svo að um þetta mál væri ágreiningur í ríkisstjórninni. Nú vitum við að svo er ekki.
Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra getur nú hætt að bera kápu sína á báðum öxlum í ESB málum. Hann derrir sig í fjölmiðlum gegn ESB aðildinni. Í ríkisstjórninni fylgir hann taktföstu göngulagi því sem notað er í marsinum til Brussel.
Utanríkisráðherrann kvartar ekki undan göngulagi stallbróður síns í ríkisstjórninni. Þar fer ekkert á milli mála. Þeir eru þar algjörlega samstíga þegar kemur að því að vinna að ESB umsókninni. Rétt eins og aðrir ábyrgðarmenn ríkisstjórnarinnar í VG og Samfylkingu
15.3.2010 | 08:45
Óp úr sýndarveruleikanum
Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeirri sjálfsblekkingu sem virðist einkenna málaflutning ráðherranna um þessar mundir. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra dregur upp glansmynd af ástandinu í landinu og urrar reiðilega um að hann sé orðinn þreyttur á sífri almennings, aðila vinnumarkaðarins og stjórnmálamanna um að ríkisstjórnin sé ekkert að gera.
Iðnaðarráðherrann Katrín Júlíusdóttir svarar fyrir atvinnustefnu stjórnvalda á Alþingi og talar um að störfin séu að verða til í hrönnum í landinu. Og þetta segir ráðherrann kortéri áður en birtar eru nýjar tölur um atvinnuleysi, sem nú slær enn fyrri met.
Ráðherrar sem tala svona eru auðvitað ekki stödd í sama veruleika og hinn hluti þjóðarinnar. Tölurnar um atvinnuleysið, vitnisburður atvinnulífsins, neyðarkall ASÍ, reiði almennings vegna aðgerðarleysisins. Allt talar það sínu máli. Óp ráðherranna úr sýndarveruleikanum breyta engu um þær staðreyndir.
12.3.2010 | 15:45
Breytingar
Nokkrar breytingar verða gerðar á færslum á þessari síðu. Markmiðið er að skerpa skilin á milli bloggsins og pistlanna, sem birtast hér á síðunni með aðskildum hætti. Eins og sjá má á síðunni hafa verið skrifaðir fremur fáir pistlar, en bloggið verið þeim mun virkara. Bloggið hefur á hinn bóginn oft verið all langt og því fremur verið í ætt við pistlasmíð en stutt bloggskrif.
Á þessu verður nú breyting. Framvegis verða bloggpistlarnir stuttir og vonandi snarpir, en pistlasmíðin verður efld og þar mun afurðin birtast oftar en nú upp á síðkastið.
Önnur efnistök verða með svipuðu sniði. Vonandi tekst mér að blása meira lífi í dálkinn Önnur sjónarmið, sem hefur verið vinsælt lestrarefni og ég hef fengið jákvæð viðbrögð við. Þar er ætlunin að fram komi fjölþætt sjónarmið fólks úr öllum áttum, með margvíslega sýn á sem flesta þætti.
Að fenginni vondri reynslu hætti ég fyrir margt löngu við athugasemdadálka sem voru til staðar á síðunni. Stafaði ákvörðun mín af því að ýmsir óvandaðir skríbentar notuðu þennan vettvang minn til skítlegra árása á nafngreint fólk, sem var allsendis saklaust af skrifum á þessari síðu. Það breytir engu um það að mér þætti vænt um að heyra málefnaleg viðbrögð við skrifum mínum á þessa heimasíðu og er það aðgengilegt með tölvupóstfangi síðunnar, ekg@ekg.is
11.3.2010 | 22:23
Reynið ekki að firra ríkisstjórnina ábyrgð
Sinnuleysi stjórnvalda í málefnum atvinnulífs og heimila verður ekki skrifuð á nokkurn annan reikning en ríkisstjórnarinnar. Við Sjálfstæðismenn höfum lagt fram ítarlegar tillögur, barist fyrir þeim á Alþingi og reynt að vekja athygli á þeim hvar sem því hefur verið við komið. Við höfum líka haldið uppi málefnalegri gagnrýni á ríkisstjórnarinnar, rétt eins og ábyrgri stjórnarandstöðu ber að gera.
En það er meirihlutaríkisstjórn í landinu. Þetta er ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Það eru stjórnvöldin sem ferðinni ráða. Þetta þurfa þau að hafa í huga Sigurður Bessason formaður Eflingar stéttarfélags og Margrét Kristmannsdóttir formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Misskilin meðaumkun þeirra gagnvart ríkisstjórnarflokkunum má ekki verða til þess að villa þeim sýn á lýðræðislegar leikreglur, eins og borið hefur á í málflutningi síðustu daga. Það er alveg ástæðulaust að firra ríkisstjórnina ábyrgð á verkum sínum eða verkleysi.
Ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar
Það er ekki stjórnarandstaðan sem hefur lagt stein í götu fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Ríkisstjórnin hefur gert það gegn háværum mótmælum okkar í minnihluta Alþingis. Bankarnir starfa í skjóli ríkisvaldsins: þess sama ríkisvalds sem lýtur nú valdstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar. Ofurskattlagningin sem er að draga úr allri neyslu og umsvifum í samfélaginu var ákveðin gegn hörðum mótmælum okkar Sjálfstæðismanna. Við lögðum til allt aðrar leiðir. Þær leiðir hefðu forðað okkur frá skattastefnu vinstri flokkanna og skapað svigrúm til nauðsynlegrar opinberrar fjárfestingar sem hefðu örvað atvinnulífið og þar með neysluna. Við höfum líka hvatt til þess að auðvelda fjárfestingu einstaklinga á nýjum sviðum, svo sem heilbrigðisþjónustu. Þar hefur ríkisstjórnin verið þversum. Það verður ekki bara skrifað á reikning heilbrigðisráðherrans. Þar ber ríkisstjórnin öll sína ábyrgð.
En niðurstaðan varð sú, sem gerist í lýðræðisríkjum. Hinn pólitíski meirihluti réði. Og þeir sem kusu ríkisstjórnarflokkana geta þá bara nagað sig í sín eigin handarbök.
Áfellisdómur yfir aumingjaskapnum
Frá upphafi þessa ríkisstjórnarsamstarfs höfum við Sjálfstæðismenn ætíð hvatt til samstöðu og lagt okkar af mörkum til þess. En sú samstaða má aldrei verða kostnað almannahagsmuna, eins og gerst hefði til dæmis, ef við hefðum lotið í gras með ríkisstjórnarflokkunum í Icesavesamningnum. Tafirnar í því máli eru algjörlega á kostnað þeirra. Lítilþægni þeirra gagnvart grjóthörðum samningamönnum Breta og Hollendinga hefur auðvitað kallað á hörð viðbrögð okkar í stjórnarandstöðunni.
Og nýleg þjóðaratkvæðagreiðsla er áfellisdómur yfir aumingjaskap íslenskra stjórnvalda í að gæta þjóðarhags. Því verður að minnsta kosti ekki trúað að svo ágætt fólk, sem hér er að ofan vísað til, hafi talið það til tjóns að bregðast til varnar þegar löglega kjörin stjórnvöld voru í þann mund að fórna þjóðarhagsmunum á altari stórháskalegs Icesavesamnings.