9.3.2010 | 09:04
Samstaða, já sjálfsagt mál - en um hvað?
Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave- samninginn er krafa um eindrægni. Þjóðin hafnar þeim úrtölum sem ríkisstjórnin hefur alltaf verið með á vörunum þegar kemur að því að verja þjóðarhagsmuni. Enda er svo komið að einungis brotabrot þjóðarinnar treystir því afdráttarlaust að ríkisstjórnin gæti þjóðarhagsmuna.
Málaleitan um nýja samninga verða þess vegna að hafa einn efnislegan útgangspunkt. Að tryggja íslenska hagsmuni. Hér er annars vegar vísað til þess að lækka þarf samningsskuldbindinguna svo um munar frá samningnum sem þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna samþykktu nú fyrir áramótin. Á hinn bóginn þarf með lagalegum tryggingum að færa þá áhættu af herðum okkar, sem óþurftarsamningur Samfylkingar og VG fól í sér og sem þjóðin hefur hafnað.
Það er einfaldlega rangt sem ríkisstjórnarliðar héldu fram í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar að í höfn hafi verið svo óskaplega góð niðurstaða í samningum við Hollendinga og Breta. Satt var það. Bretar og Hollendingar ákváðu að falla frá ákvæði sem hefði fært þeim um 100 milljarða í vaxtaálag, sem tryggði þeim stórgróða á samningunum við okkur. Fleira var það nú ekki, eins og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins benti á í kröftugri ræðu á Alþingi í gær.
Ríkisstjórnin og þingmenn hennar verða að skilja að þjóðaratkvæðagreiðslan setti málið í alveg nýja stöðu. Það þýðir ekkert að láta eins og ekkert hafi gerst. Þjóðin talaði, hún hafnaði undalátssemi Samfylkingar og VG við Breta og Hollendinga. Hún krefst niðurstöðu sem tryggir þjóðarhagsmuni okkar. En vandinn er bara sá að fyrir liggur nú að þjóðin treystir ekki ríkisstjórninni til þess að gæta þessara hagsmuna.
7.3.2010 | 19:18
Þjóðin vann - stjórnin tapaði
Sigurvegari þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn var íslenska þjóðin. Kosningaþátttakan var ágæt og úrslitin afgerandi. En það var ríkisstjórnin sem tapaði. Rétt rúmlega tvö þúsund manns ljáðu Icesavesamningi ríkisstjórnarinnar atkvæði sitt. Er þetta eins konar innsigli á því hvernig þetta mál hefur þróast í höndum ríkisstjórnarinnar. Forystumenn hennar treystu sér ekki einu sinni til að styðja sitt eigið sköpunarverk.
Það er rétt. Málið hefur verið í miklu þófi. Þar er aðalsökudólgurinn ríkisstjórnin. Hún sýndi ótrúlega þrákelkni og þvergirðingshátt . Ríkisstjórnin þverneitaði að taka þátt í því að ná almennilegri samningsniðurstöðu fyrir land og þjóð líkt eins og við stjórnarandstæðingar kröfðumst mánuðum saman og beittum öllu okkar afli til að ná fram.
Ráðherrarnir sögðu líka að þjóðatkvæðagreiðslan myndi veikja samningsstöðu okkar í Icesavemálinu. Hið gagnstæða gerðist, eins og ráðherrarnir viðurkenna nú einnig. Þar með átu þeir ofan í sig hræðsluáróðurinn frá því í janúar og er lítið nýnæmi af slíku í lífi ríkisstjórnarinnar. Engin ríkisstjórn hefur étið jafn mikið ofan í sig eins og sú sem nú situr.
En áfram skröltir hún þó. Enginn efast um vilja forystumanna hennar til að sitja áfram. Það er helsta erindi stjórnarinnar; að sitja og verma ráðherrabekkina.
Dag hvern þurfa ráðherrar að svara fyrir það hvort líf ríkisstjórnarinnar sé að fjara út. Þessarar spurningar spyrja fréttamenn og þjóðin spyr þess sama. Og það mega ráðherrarnir vita, að það er ekki spurt að ástæðulausu. Hvert mannsbarn sér feigðarmerkin yfir höfði stjórnarinnar. Það er helst að það fari framhjá ráðherrunum 12.
2.3.2010 | 08:49
Hvernig endar sá útreiðartúr?
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna flutti mjög góða og kröftuga ræðu við upphaf Búnaðarþings, þann 28. febrúar sl.. Hann greindi meðal annars frá afar athyglisverðri skoðanakönnun sem leiðir í ljós að einungis um fjórðungur landsmanna treystir ríkisstjórninni til þess að gæta hagsmuna okkar í samningum við ESB. Um þetta fjallaði ég á bloggi í gær, sem hér má lesa.
Þetta er eitt mesta kjaftshögg sem nokkur ríkisstjórn getur fengið. Ríkisstjórn sem fær þann dóm þjóðarinnar að henni sé ekki treystandi fyrir þjóðarhagsmunum í samskiptum við aðrar þjóðir, á ekki lengur trúnað þjóðarinnar. Og þegar hann er farinn er lífsneistinn slokknaður.
Í ræðu sinni greip formaður Bændasamtakanna til myndlíkingar, sem vakti mikla athygli fundarmenna. Þar sagði:
"Sáttmáli stjórnarflokkanna um aðildarumsókn líkist því helst að ákveðið hafi verið að tvímenna í útreiðartúr til ESB-girðingarinnar. Annar snýr aftur og hinn fram í hnakknum og síðan hotta þeir á klárinn í sitt hvora áttina. Meðan aðildarsinninn horfir yfir taglið sér hann fyrirheitnu girðinguna fjarlægjast en streðar þó enn. Hinn þorir ekki að taka almennilega í tauminn og stöðva. Ekki get ég hugsað þá hugsun til enda, eins og sagt er nú á tímum, hvernig útreiðartúrinn endar. "
28.2.2010 | 22:11
Þeim er ekki treystandi fyrir þjóðarhag
Ríkisstjórnin er trausti rúin í hugum almennings þegar kemur að spurningunni um hvort henni sé treystandi til að gæta hagsmuna okkar í samningum við ESB. Skoðanakönnun sem Capacent vann og Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna gerði grein fyrir í mjög kröftugri ræðu við setningu Búnaðarþings leiðir þetta í ljós.
Einungis 26,7 prósent landsmanna treysta ríkisstjórninni til þess að gæta hagsmuna okkar í samningum við ESB. Sem þýðir að nær 75% landsmanna svara því ekki ekki játandi hvort stjórninni sé treystandi til að gæta þjóðarhags.
Þetta er algjört kjaftshögg fyrir ríkisstjórnina. Þetta er kjaftshögg greitt bæði Samfylkingu og Vinstri grænum. Báðir þessi flokkar bera sameiginlega ábyrgð og hvorugur getur vikið sér undan henni. VG sem kýs að bera kápuna á báðum öxlum í ESB málinu er ekki frekar en Samfylking talin gæta þjóðarhags.
Ríkisstjórn sem að mati þjóðarinnar gætir ekki þjóðarhags, er eins trausti rúin og nokkur ríkisstjórn getur verið. Menn geta haft ýmsar skoðanir á einstökum stefnumálum ríkisstjórna. En þegar allur almenningur telur ekki að ríkisstjórn landsins gæti hagsmuna þjóðarinnar í flóknum og afdrifaríkum samningaviðræðum, er staðan orðin heldur betur alvarlegri.
Í samningum um ESB er sjálft fjöregg þjóðarinnar undir. Það er tekist á um grundvallarhagsmuni. Mat manna á afleiðingum ESB aðildar er að sönnu misjafnt. En það er ekki það sem þetta mál snýst um. Niðurstaða könnunarinnar leiðir bara einfaldlega það í ljós almenningur treystir ekki ráðherrunum, - hvaða nafni sem þeir nefnast, úr hvorum stjórnarflokknum sem þeir koma, - einfaldlega ekki til að trygga hagsmuni okkar. Svo skelfilegt er það.
Alvara ESB málsins er líka stöðugt að verða augljósari. Framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram sjónarmið sín. Samningsgrundvöllurinn sem þeir leggja fram, sýnir að hagsmunir sjávarútvegs og landbúnaðar verða bornir fyrir borð í aðild að Evrópusambandinu. Samt sem áður vaða menn af stað til þessara viðræðna.
Það er rétt sem Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna segir. Aðildarumsóknin að ESB er best heppnaða brella seinni ára. Og brellumeistararnir er ráðherrarnir og þingmenn stjórnvarflokkanna. Gildir þar engu hvort þeir heita Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, eða Jón Bjarnason. Öll eru þau þátttakendur í þessum klækjabrögðum sem þjóðin fyrirlítur svo mjög.
26.2.2010 | 09:13
Frestun á kostnað almennings
Þeir fara nú brátt að telja 400 dagarnir sem eru liðnir frá ríkisstjórnarmynduninni. Enn er allt í hers höndum í atvinnulífinu, málefnum heimilanna, ríkisfjármálum og efnahagslífinu almennt. Helsta mál ríkisstjórnarinnar í skuldavanda heimilanna var svo afgreitt í gær á Alþingi. Frestun á nauðungaruppboðum í þriðja sinn.
Þetta er sem sagt SKJALDBORGIN. Frestun á vandanum. því miður er ekki einu sinni hægt að taka sér í munn máltækið um að frestur sé á illu bestur. Því er einmitt þveröfugt farið. Á meðan á frestun stendur þá safnast upp dráttarvextir. Þeir verða smám saman fólki algjörlega ofviða. Þegar fresttímabilinu lýkur eftir þrjá mánuði, þá er vandinn einfaldlega orðinn miklu verri og óviðráðanlegri en áður.
Það sjá allir neyðina nema ríkisstjórnin. Hún er með bundið fyrir bæði augun, heldur fyrir eyrun og lokar sig inni í fílabeinsturni sínum, til þess að komast hjá því að skynja ástandið. Úr þeim mikla turni fílabeins heyrast svo ópin sem hljóma svona:
Þið eruð apakettir, þið eruð spilafífl og ekkert af því sem nú er að gerast er okkur að kenna. En mikið óskaplega eigum við erfitt, því við erum að leggja svo hart að okkur.
Ríkisstjórnin vorkennir sem sagt sjálfri sér og er svo sem vorkunn vegna eigin eymdar. En þegar kemur að því fólki sem í raun ætti að líta til þá er úrræðið bara eitt. Frestun á fullum dráttarvöxtum, sem enginn græðir á nema bankar og fjármálastofnanir. Og svo er ósvífnin kórónuð með því að heimila innheimtuaðilum stór hækkun þóknunar sinnar.
Innheimtumennirnir fá kauphækkanir, bankarnir og fjármálastofnanirnar græða á dráttarvöxtunum, en almenningur og atvinnulífið situr uppi með skaðann. Á meðan kaupir ríkisstjórnin sér stöðugt fleiri fresti og lætur almenning blæða.
24.2.2010 | 08:54
Hljóðlát breyting á utanríkisstefnu okkar
Án þess að nokkur tæki eftir, að heitið getur, er að verða hljóðlát stefnubreyting á tilteknum þáttum utanríkisstefnu okkar vegna aðildarumsóknarinnar að ESB . Ábyrgðarmenn þessarar stefnubreytingar eru þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingar, sem læstu saman höndum við stjórnarmyndun til þess að tryggja aðildarumsókn okkar að ESB.
Ég vakti athygli á þessu í umræðum á Alþingi í gær. En hvað er átt við?
Tvennt má nefna.
Færeyingar hafa lengi haft áhuga á að skoða mögulega aðild að EFTA og gerast þannig aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Þar væru þeir í góðum félagsskap vina sinna eins og okkar. Við erum í raun á sjálfstæðu efnahagssvæði með Færeyingum, á grundvelli svokallaðs Hoyvíkur sáttmála. Hann er ekki bara viðskiptasamningur heldur sáttmáli um efnahagssvæði Íslands og Færeyja. Fyrir Færeyinga gæti því verið rökrétt að skoða aðild að EFTA, sé það þeirra ákvörðun.
En ekki lengur. Nú er komin upp ný staða. Vinstri grænir og Samfylking fengu sínu framgengt. Það standa yfir samningaviðræður við ESB, undir miklum gleðilátum úr íslensku ríkisstjórninni, en óvíða annars staðar. Forsendur fyrir áhuga Færeyinga á mögulegu nánara samstarfi hafa breyst fyrir vikið. Það gefur augaleið. Takist VG og Samfylkingu ætlunarverkið að teyma okkur inn í ESB, þá förum við út úr EFTA. Svo einfalt er það.
Í annan stað liggur fyrir að hinar mikilvægu viðræður við Kínverja um tvíhliða viðskiptasamning eru komnar á ís. Ástæðan er líka aðildarumsóknin að ESB. Kínverjar vildu feta sig inn á slóð tvíhliða viðskiptasamnings við okkur; nánast í tilraunaskyni. Við erum lítið opið þjóðfélag, með náin tengsl við Evrópu. Slíkur samningur við okkur væri því ágæt byrjun að mati Kínverja.
En ekki lengur. Rétt eins og hjá vinum vorum og frændum er komin upp ný staða. Vinstri grænir og Samfylking hafa séð fyrir því með aðildarumsókninni að ESB. Það er þeirra forgangsmál.
Þannig hefur ríkisstjórnin í raun gert hljóðláta breytingu á tilteknum þáttum utanríkisstefnunnar. Allt í þágu draumsins um ESB aðild sem Vinstri grænir bera ekki síður ábyrgð á en Samfylkingin.
23.2.2010 | 11:33
Nýja Ísland - hvenær kemur þú?
Ráðherrar slá úr og í þegar kemur að því að hafa skoðun á einstökum ákvörðunum nýju bankanna. Forsætisráðherra segir á Viðskiptaþingi að ekki eigi að tíðkast bein afskipti stjórnmálamanna af fjármálakerfinu. Umdeildar ákvarðanir bankanna afgreiða viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra þannig að það sé ekki á forræði þeirra að skipta sér af málum.
En er málið alveg svona einfalt?
Alls ekki. Stjórnmálamenn hljóta og eiga að hafa skoðanir á því hvernig við stillum upp þjóðfélaginu, án þess að það feli í sér að þeir séu með nefið oní öllum koppum kyrnum samfélagsins.
Tökum dæmi.
Stjórnmálamenn hljóta að hafa skoðun á því hvort hér þróist að nýju fyrirkomulag krosseignatengsla stórra fjármálafursta, sem aukinheldur verða til í kjölfar stórkostlegra skuldafskrifta þeirra í bönkum og fjármálastofnunum.
Stjórnmálamenn eiga að hafa skoðun á því hvort hér þróist samfélag, þar sem stærsta smásölukeðjan ráði líka lögum og lofum á fjölmiðlamarkaðnum. Fréttin um að hið markaðsráðandi fyrirtæki Hagar sem starfar í skjóli banka sem ríkið kom á laggirnar, beini öllum auglýsingaviðskiptum sínum til fjölmiðlasamsteypu í eigu þeirra sömu er óhugnanleg. Alveg sérstaklega vegna þess að þessir sömu eigendur eru að fá stórfelldar skuldalækkanir, jafnt vegna smásölurekstrar síns og vegna fjölmiðlasamsteypunnar; og það á kostnað banka sem ríkið tók yfir.
Hugsunin er greinilega sú að brjóta undir sig fjölmiðlana í landinu. Hér eru ekki lengur á ferðinni einvörðungu viðskiptalegar spurningar. Hér eiga ekki síður við pólitískar spurningar. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar komast einfaldlega ekki lengur hjá því að segja skoðun sína á málinu.
Verða hin nýju krosseignatengsl í boði Samfylkingar og Vinstri grænna? Hugnast forystumönnum þessara flokka sú tilraun til einokunar sem þarna glittir svo rækilega í og mun valda einsleitni á fjölmiðlamarkaði í ofanálag við markaðsráðandi stöðu á smásölumarkaði, þar sem þeir sömu verða í aðalhlutverkum?
Er þetta virkilega hið Nýja Ísland sem menn hafa verið að tala um?
19.2.2010 | 08:53
Spurningar um viðskiptasiðferði og lýðræði
Það þarf í sjálfu sér ekki frekari vitnanna við. Hinir gjaldþrota Hagar sem öllu ráða á smásölumarkaði okkar misbeita markaðsráðandi valdi sínu til þess að brjóta undir sig fjölmiðlamarkaðinn á landinu. Upplýsingarnar úr athugunum Capacents sýna það svart á hvítu. 96 % auglýsinganna sem risinn á smásölumarkaðnum birtir, eru í fjölmiðlum sem svo kallaðir eigendur Haga eiga. 4% auglýsinganna eru í Morgunblaðinu. Þetta getur eiginlega ekki verið skýrara.
Og tökum eftir þessu. Þetta er á árinu 2009. Þegar Hagar voru í þeiri stöðu að skulda langt umfram eignir. Fyrirtækið var í rauninni komið í fangið á lánadrottnum sínum. Einkum ríkisbankanum Arion, áður Kaupþingi. Í skjóli þess ástands hagaði fyrirtækið viðskiptum sínum þannig á auglýsingasviðinu, að tekjurnar runnu allar til þeirra sömu aðila og skráðir hafa verið sem eigendur Haga; eigenda fjölmiðlaveldisins 365. Til mannanna sem kenndir hafa verið við hinn fallna Baug.
Þetta er auðvitað allt alveg makalaust. Fyrirtæki sem lifir upp á náð og miskunn ríkisbanka beinir viðskiptum sínum nær eingöngu í þá áttina sem færir meintum eigendum tekjur. Auðvitað er þetta liður í því að drepa keppninautinn. Og nota til þess verks, fyrirtæki sem ríkisbanki hefur undir handarjaðri sínum !
Þetta er í rauninni ótrúlegt.
Fjölmiðlalögunum, sem Alþingi setti á sínum tíma, en Vinstri grænir, Samfylkingin og forseti Íslands sameinuðust um að brjóta á bak aftur með dyggum stuðningi Baugs og fjölmiðla þess, var ætlað að koma í veg fyrir svona markaðsmisnotkun. Fyrir löngu hafa menn séð hversu mikilvægt það hefði verið að þessi lög hefðu gilt. Það getur ekki verið hollt lýðræðislegri umræðu að þeir sömu sem ráða megninu af smásölumarkaðnum séu ríkjandi á fjölmiðlamarkaðnum.
Ákvörðunin um að blúnduleggja endurnýjað eignarhald eigenda langstærstu fjölmiðlasamsteypu landsins á markaðsráðandi smásöluaðila landsins, er grafalvarlegt. Svo ekki sé nú talað um að bjóða þeim sömu aðilum að eignast þessar stóru samsteypur, eftir að samfélagið hefur þurft að taka á sig stórkostlegar byrðar af viðskiptunum sem þeir hafa staðið fyrir.
Dæmið er þá svona. Bankar, ríki og lánadrottnar verða fyrir gríðarlegu tjóni á viðskiptum við umrædda kaupsýslumenn. Að því búnu er tekin ákvörðun um að selja þeim með einum eða öðrum hætti fjölmiðla og smásöluveldi. Eftir að búið er að hundahreinsa fyrirtækin af skuldum og gera þau aftur rekstrarhæf. Á sama tíma eru þessi fyrirtæki notuð til þess að brjóta sér leið til einokunar á fjölmiðlamarkaðnum.
Hér eru ekki einasta viðskiptaleg spursmál á ferðinni, heldur spurningar sem lúta að lýðræðinu sjálfu og fjölþættri umræðu í landinu.
15.2.2010 | 21:54
Stjórnin grandar störfunum
Svo mikla trú hafði ríkisstjórnin á hæfileikum sínum í árdaga stjórnarsamstarfsins að ráðherrarnir þóttust geta spáð fyrir um fjölgun starfa með algjörri nákvæmni. Þann 6. mars í fyrra var boðað til blaðamannafundar til þess að greina frá miklum áformum um fjölgun starfa. Þeir fundir áttu eftir að verða fleiri og sá síðasti var haldinn fyrir fáeinum dögum.
Þessir montfundir ganga allir út á að segja að í nánd sé mikil viðreisn atvinnulífsins. Jafn oft hafa þeir verið sem loftkennd fyrirheit sem eiga eitt sameiginlegt. Að hafa engin gengið eftir.
Fyrir tæpu ári voru ráðherrarnir nákvæmir. Spáðu því að störfum myndi fjölga um 4.023 vegna aðgerða sinna. Ekki um 4.022 störf og heldur ekki 4.024 störf. Nei. Hin nákvæma tala var 4.023 störf. Skaði að vísu að ekki var reynt að vera dálítið nákvæmari og mæla starfafjöldann með aukastöfum og öllu klabbinu!
En nú er tæpt ár liðið og hægt að slá máli á árangurinn. Það má segja, svo allrar sanngirni sé gætt, að hinum nákvæmu ráðherrum hafi skjöplast aðeins. Það munar fyrst og fremst einu orði. Í stað þess að störfunum hafi FJÖLGAÐ þá FÆKKAÐI þeim ! Atvinnuleysi hefur aukist. Ríkisstjórnin hefur reynst stórtæk og miðar vel í því að granda störfum. Það verður ekki með nokkurri sanngirni af henni skafið.
Þessi árangur náðist meðal annars með því að hóta fyrningu aflaheimilda, sem dregur úr atvinnusköpun í sjávarútvegi og fælir þessa undirstöðuatvinnugrein frá því að fjárfesta. Það munar um minna en þegar okkar öflugasti atvinnuvegur er settur í þannig stöðu.
Síðan strita ráðherrar við að bregða fæti fyrir orkuuppbyggingu. Væri það ekki fyrir þennan eintrjánungshátt væru hér á fullri ferð ýmis konar fjárfestingar sem við eigum nú ekki kost á.
Síðan eru það auðvitað skattarnir og álögurnar sem eru að íþyngja atvinnulífinu og koma í veg fyrir fjárfestingar sem og þau fótakefli önnur sem ríkisstjórnin notar og tefja atvinnulega uppbyggingu.
Þetta er að valda því mikla frosti og stöðnun sem blasir við alltof víða. Menn hafa lært það að búast ekki við miklu af núverandi stjórnvöldum. En það er illt að búa við stjórnvöld sem tefja endurreisnina í stað þess að stuðla að henni.
14.2.2010 | 17:20
Samfylkingar-heilkennið
Til þess að skilja pólitískan þankagang Samfylkingarinnar þarf maður bara að kunna skil á einu: Stöðu flokksins í skoðanakönnunum. Enginn stjórnmálaflokkur er neitt í námunda við Samfylkinguna þegar kemur að þessu. Flokkurinn stjórnast af útkomu skoðanakannana. Góðar kannanir fyrir flokkinn fylla hann oflátungsbrag. Slæmar kannanir; og talsmenn flokksins fara á óútreiknanleg gönuskeið í allar áttir.
Samfylkingunni vegnar afar illa þessi dægrin. Það eina sem upp gengur hjá flokknum eru svipuslögin sem ganga frá flokknum yfir þvera hrygglengju Vinstri grænna. Annað er allt hið daprasta hjá Samfylkingunni. Og þá sérstaklega það sem ristir næst hjartarótum flokksins; fréttirnar úr skðanakönnunum.
Staða Samfylkingar í skoðanakönnunum er svona: Flokkurinn er orðinn jafnfætis eða stendur tröppunni lægri en hinn vinstri flokkurinn, samstarfsaðillinn í hinni hreinræktuðu vinstri stjórn; Vinstri hreyfingin grænt framboð. Flokkurinn sem Samfylkingin útmálaði og sá fyrir sér sem vinstrið úti í buskanum. Litli öfga flokkurinn, að hætti þeirra vinstri smáflokka sem á Norðurlöndunum finnast og brúklegur gæti orðið sem aum stoð fyrir vinstri stjórnir framtíðarinnar
En nú er raunveruleikinn orðinn annar. Á meðan Samfylkingin skreppur saman, verða Vinstri grænir æ bústnari. Þetta er farið að nísta bæði merginn og beinin í skoðanakannanaflokknum, Samfylkingunni.
Þess vegna er t.d Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra svona jafnvægislaus og sleggjudómakenndur í Fréttablaðinu á laugardaginn. Þess vegna veður hann áfram í tómri endaleysu. Lýgur upp históríum um heilu atvinnugreinarnar og ímyndar sér að hann sé búinn að leysa vanda heimilanna, þó allir aðrir viti að það er vitleysa.
Hann er haldinn Samfylkingar-heilkenninu. Jafnvægisleysinu sem steypist yfir flokkinn þegar skoðanakannanir ganga þeim í mót. Í þessu ljósi á að lesa drottningarviðtalið við ráðherrann. Hann lætur ekki svona alltaf. Bara stundum. Og þetta er ekki alveg honum að kenna. Munum að hann er Samfylkingarmaður og þeir láta svona þegar skoðanakannanir mæla þá litla og laskaða. Sýnum honum því umburðarlyndi og verum nærgætin.