VG með skýra stefnu um votlendisfugla

JaðrakaniStóru tíðindin frá flokksstjórnarfundi Vinstri grænna á Akureyri um helgina er ekki hvað þar var sagt, heldur hvað þar var EKKI sagt. Ég las fundarsamþykktir VG fundarins þrim sinnum, áður en ég trúði mínum eigin augum. Þar gat ekki að líta eitt orð um Icesave og þá makalausu stöðu sem ríkisstjórnin hefur teflt því máli í. Þögnin er greinilega af tillitssemi við helsta ábyrgðarmann Icesaveklúðursins, fjármálaráðherrann, Steingrím J. Sigfússon formann VG.

Frá þessum mikla fundi er farið án þess að flokkurinn marki sér stefnu í því máli sem skekur þjóðfélagið og er mikill eldsmatur í flokknum, eins og öllum er ljóst. Flokkurinn hefur hins vegar kosið sér að vera meðvirkur og láta sem ekkert sé, þegar kemur að því máli sem mest er rætt þessi dægrin og hverfist svo mjög í kring um forystu VG.

Það er á hinn bóginn mikill léttir að vita að flokkurinn hefur skýra stefnu um búsetusvæði votlendisfugla og er einarður í því að Ísland verði aðili að „African Eurasian waterbird agreement“ (AEWA). Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum var almenn samstaða um þetta stefnumál flokksins.

Til þess að friða órólegu deildina var svo samþykkt tillaga sem ítrekar flokkssamþykktir um ESB. Eins og allir muna brást þingflokkur VG stefnumótun flokksins í þessu máli og hafa þingmenn hans fengið bágt fyrir víða um landið. Nú er andstaðan ítrekuð og þeirri makalausu kenningu fleytt að þingmenn og ráðherrar flokksins eigi að vinna gegn ESB aðildinni sem þeir gáfu þó grænt ljóst á með samþykkt sinni á Alþingi um mitt síðasta ár!

Þetta er eiginlega of vitlaust til að það sé hægt að taka svona  stefnumótun alvarlega.

Enda gerir það enginn. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar telur þetta mjög eðlilegt allt saman og segir það sína sögu um hversu marklaus þessi flokkssamþykkt er.

Af fundinum var það annars helst talið til tíðinda, að VG styddi ríkisstjórnina sem flokkurinn á aðild að.  Segir það all nokkuð um stöðu ríkisstjórnarinnar að helst er það fréttnæmt talið að annar tveggja aðila að stjórnarsamstarfinu styðji það enn.  Það var greinilega talið mikilvægara að senda þau skilaboð skýr frá fundinum, en að taka afstöðu til þess mikla máls sem er á leiðinni i þjóðaratkvæðagreiðslu.

 




Reddast allt með Icesave-undirskrift?

icesaveÞað er athyglisvert að staðan í Icesavemálinu hefur orðið ríkisstjórninni að allsherjarafsökun fyrir hvaðeina sem úrskeiðis fer. Öllum eru í fersku minni, hótanirnar og hræðsluáróðurinn sem óð uppi eftir að forsetinn synjaði Icesavelögunum staðfestingar. Daglega er reynt að halda því að okkur að flest lagist ef við undirgöngum Icesavesamning Jóhönnu og Steingríms.

Auðvitað er þetta ekki svona. Ríkisstjórnin hefur klárað það hjálparlaust að klúðra málum sínum og hefur ekkert þurft að styðja sig við vandræðin í sambandi við Icesave.

Því er haldið fram að lyktir Icesave muni lækka vexti. Það er ekki þannig.  Rifjum upp vandræðaganginn frá því á síðasta ári þegar forsætis- og fjármálaráðherra gáfu hvert fyrirheitið á fætur öðru um vaxtalækkun en ekkert gerðist. Hvað er líka oft búið að segja okkur að gengið sé um það bil að fara að styrkjast, framkvæmdir að hefjast og þar fram eftir götunum.

Einu sinni átti allt að gerast við breytingar í stjórn Seðlabankans. Það gekk ekki eftir og þá varð ESB umsóknin haldreipið. Og ekkert  breyttist heldur. Þá var okkur sagt að allt myndi  verða með öðrum róm með nýjum fjárlögum. En það var sama sagan.

Og nú á sem sagt allt að fara til betri vegar ef við samþykkjum nauðungina frá Hollandi og Bretlandi.

Þannig halda afsakanirnar  áfram og skálkaskjólin hrúgast upp.  Sannarlega þarf að höggva á Icesavehnútinn. En það verður ekki gert með því að fallast á þau ósköp sem ríkisstjórnin hefur undirritað og ber ábyrgð á.




Er sá franski fífl og lygari?

AlainLipietzÞað kemur á óvart hve stjórnarliðar mæta allri gagnrýni á Icesavsamninginn sinn af mikilli forherðingu, óöryggi og ósvífni. Það bendir ótvírætt til að þeir séu ekki alltof öruggir með sig; hvorki með stöðu sína í Icesavemálinu né heldur með málið yfirleitt. Óöryggi þeirra birtist í hvatskeytislegum svörum við gagnrýni. Og breytir þá engu hvaðan hún kemur.

Ofsafengin viðbrögð við umdeildri ákvörðun forseta Íslands eru auðvitað glöggt dæmi um þetta og nú hefur annað dæmi bæst við.

Vinstri grænn þingmaður af Evrópuþinginu, Frakkinn Alain Lipietz, tók málstað okkar Íslendinga og sagði kröfur Hollendinga og Breta byggðar á sandi. Þingmaðurinn róttæki fékk góðar undirtektir við þessi sjónarmið; nema auðvitað frá stjórnarliðum hér á landi. Þeir brugðust ekki sínum vonda málstað frekar en fyrri daginn og notuðu þekkta baráttutækni sína. Réðust á þingmanninn sjálfan og sökuðu hann um vanþekkingu og lygar. Freistuðu þess sem sagt að gera hann ótrúverðugan.

Honum var brugðið um þekkingarskort, hann var sagður skrökva til um aðkomu sinni að lagasetningu á evrópska þinginu. Hann væri sem sagt ósannindamaður, lygari.Og svo langt var gengið að því var haldið fram af talsmönnum stjórnarliðsins að sá franski hefði ekki einu sinni gert sér grein fyrir að Ísland væri aðili að EES !

Þetta er ótrúleg ósvífini og sýnir hversu langt menn seilast í ófrægingarherferðum sínum. Það hefði allt eins mátt segja að sá vinstri græni frá Frakklandi væri algjört fífl, eins og að halda því fram að hann tjáði sig um stórpólitísk mál hér á landi, sem snertir tilskipanir ESB, án þess að vita að Ísland væri aðili að EES samningnum.

En þetta sýnir auðvitað hversu langt menn seilast í vandræðum sínum og forherðingu. Þessi blanda, forherðing, ósvífni og óöryggi, er ekki gott veganesi í stjórnmálaumræðu, en eykur samt skilning á bágri stöðu varnarliðs Icesavesamningsins hér á landi.




Leikið á veikleika íslenskra stjórnvalda

icesaveÞað kemur ekki á óvart að Hollendingar og Bretar taki fálega hugmyndum um að taka upp samninginn um Icesave að nýju. Hver myndi ekki gera það sem hefði fengið uppáskrifaðan svo einhliða samning frá ríkisstjórn Íslands. Bresk og hollensk stjórnvöld prísa sig sæla með samninginn og vilja því vitaskuld ekki ljá því máls að taka hann upp.

En það er við slíkar aðstæður sem á íslensk stjórnvöld reynir. Við þessar aðstæður að tefla af styrkleika en ekki alltaf eins og staðan sé fyrirfram vonlaus, eins og gert var í Icesavemálinu allt síðasta ár.

Reynsla ríkisstjórna Breta og Hollendinga er sú að forsvarsmenn Íslands beygja sig undan hótunum. Þeir hafa séð það sí og æ. Þess vegna er þeirri herstjórnarlist beitt að láta reyna á þolrifin í ríkisstjórninni. Út á það gengur taktíkin þessa dagana.

Og einmitt þetta er að koma í ljós. Og illu heilli þá virðist herbragðið virka ágætlega. Á meðan upp hrannast rökin úr öllum áttum sem styrkja samningsstöðu okkar, hafa Bretar og Hollendingar uppi hótanir af því að þeir vita að það bítur á ístöðulítil stjórnvöld hér.

Síðan geta viðsemjendur okkar alltaf rifjað upp dómsdagslýsingarnar sem ríkisstjórnin hafði uppi eftir að forsetinn synjaði lögunum staðfestingar. Í þeim sjá þeir stöðumat stjórnvalda okkar. Þeir lesa það skýrt og skilmerkilega, að hér á landi meta stjórnvöldin stöðu sína eins aumkunarverða og hægt er að hugsa sér.

Þess vegna eru menn svona pollrólegur, forhertir og hrokafullir úti í Hollandi og Bretlandi. Þeir vita þar sem er að stjórnvöld sem meta aðstöðu sína svo hraklega, sem hin íslensku,  eru ekki líkleg til nokkurra stórræða. Þess vegna var ekki merkilegra svara að vænta frá yfirvöldum í Hollandi og Bretlandi. Þau eru löngu farin að þekkja samningsaðilann á Íslandi og hvers er að vænta frá honum.




Ég um mig, frá mér, til mín......

Steingrímur J.Oft er sagt að við stjórnmálamenn séum sjálfhverfir í meira lagi og er sjálfsagt sitthvað til í því. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gerði grein fyrir atkvæði sínu við lokaafgreiðslu Icesavemálsins þann 30. desember sl. Til upplýsingar skal það nefnt að atkvæðaskýring getur að hámarki staðið í eina mínútu. Í þessari atkvæðaskýringu tókst honum að nefna sjálfan sig í ein 15 skipti, sem er svo út sé reiknað, svona á fjögurra sekúnda fresti !

Hér á eftir fer atkvæðaskýring ráðherrans í heild sinni:

Frú forseti.

Ég greiði þessu frumvarpi atkvæði og ég mæli með því að það verði samþykkt vegna þess að það er bjargföst sannfæring mín að það sé betri kostur fyrir Ísland og það firri meira tjóni en að gera það ekki. Í krafti þessarar sannfæringar minnar greiði ég atkvæði með góðri samvisku þótt ég viðurkenni um leið að því fylgir þung ábyrgð. Undan þeirri ábyrgð víkst ég ekki. Ég hef ekki eytt tæpum 27 árum ævi minnar hér til að víkjast undan ábyrgð eða flýja það (Gripið fram í: Snýst ekki um þig.) að taka erfiðar ákvarðanir þegar þær eru óumflýjanlegar. Ég hef engan mann beðið og mun engan mann biðja að taka neitt af mínum herðum í þessum efnum. Ég trúi því (Gripið fram í.) að sagan muni sýna að við séum hér að gera rétt, að endurreisn Íslands, sjálfstæðs og velmegandi í samfélagi þjóðanna, muni verða sönnunin. Ég mun reyna að leggja mitt af mörkum til að svo verði (Forseti hringir.) meðan lífsandinn höktir í nösum mér og ég má vinna Íslandi nokkurt gagn. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)




Er Ísland úthrópað?

Steingrímur og Jóhanna stuðuð af forsetaNú hefur það rækilega sýnt sig hvað það er slæmt að vera með veiklundaða, ístöðulitla og kjarklausa ríkisstjórn á örlagatímum. Þegar forsetinn hafði synjað Icesavelögunum staðfestingar, hóf ríkisstjórnin beitta tangarsókn - innávið. Hræðsluáróðurinn dundi á okkur, prýðilega bergmálaður af sumum fjölmiðlanna, ekki síst Ríkisútvarpinu.

Um hitt var lítt hirt, að koma skoðunum okkar á framfæri erlendis. Ríkisstjórnin var meira upptekin af því að skapa sér vígstöðu í áróðri hér innanlands, en að verja málstað okkar erlendis, þar sem mest á reið.

Vitnað var í harkaleg ummæli hollenskra og breska stjórnmálamanna. En við hverju bjuggust menn? Var ekki vitað að hollensk og bresk stjórnvöld studdu ríkisstjórn okkar í Icesavelöggjöfinni? Enda ekki skrýtið, svo hagstæður sem samningurinn var hagsmunum þessara ríkja. Og síðan sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra frá því í Sjónvarpinu í gær að ekkert hefði verið að marka þessar yfirlýsingar ráðherranna útlensku. Þeirra yfirlýsingar hefðu verið til pólitísks heimabrúks í löndum þeirra og annar og mildari tónn væri í þeim í prívatsamtölum.

Og þá vaknar spurningin. Hvers vegna þurfti þá að bregðast við með móðursýkisköstum á borð við þau sem gripu stjórnarliða í kjölfar ákvörðunar forsetans?

Því var skrökvað að okkur látlaust í fjölmiðlum í gær að erlendir fjölmiðlar væru upp til hópa neikvæðir í garð Íslendinga. Allt var það orðum aukið svo ekki sé meira sagt. Mestan part var umfjöllunin býsna yfirveguð og merkilegt nokk þá voru viðbrögð lesenda breskra fjölmiðla ótrúlega jákvæð í okkar garð í fjölmörgum tilvikum. Jafnvel fréttamenn sem þekktir hafa verið að andstyggilegum skrifum um Ísland, gripu frekar til varna fyrir okkur.

Í dag birtast okkur jákvæð skrif frá útlöndum og er skemmst að nefna viðskiptaritstjóra BBC sem segir ofureinfaldlega á bloggi sínu sem birtist á heimasíðu BBC: "Nú erum við allir Íslendingar". og í leiðaraskrifum hins virta breska dagblaðs Financial Times er sagt: "Sendum ekki Íslendinga í skuldafangelsi".

Þrátt fyrir allt þetta létu fjölmiðlar í gær sem að himnarnir væru bókstaflega að hrynja yfir okkur. En eins og Ólafur Ragnar Grímsson forseti benti á í dag á blaðamannafundi sínum þá er sú lýsing langt frá staðreyndum málsins og þvert á móti er fjölmiðlaumfjöllunin stöðugt jákvæðari.

 




Sjálfskaparvíti ríkisstjórnarinnar

UK-EUÞau eru alltaf verst sjálfskaparvítin. Það hefur ríkisstjórnin mátt þola nú síðasta sólarhringinn eða svo. Þess vegna eru ráðherrar svo pirraðir sem raun ber vitni og birtist glöggt á dæmlausum blaðamannafundi sem haldinn var í framhaldi af því að forseti Íslands kaus að vera sjálfum sér samkvæmur og synja illa þokkaðri Icesavelöggjöf staðfestingar. Ráðherrarnir rembast við að ófrægja Ólaf Ragnar Grímsson forseta, þegar það blasir við hverjum manni að sökudólguirinn í málinu er ríkisstjórnin.

Það var ríkisstjórnin og enginn annar sem ber ábyrgð á lyktum þessa máls alls. Það var nefnilega ríkisstjórnin sem kom heim með fráleitan samning við Hollendinga og Breta um mitt síðasta ár eftir að hafa ástundað leynipukur mánuðum saman með viðsemjendum sínum. Sá samningur var enda ekki í samræmi við þau viðmið sem samið hafði verið um við viðsemjendur og ESB. Þessi samningsviðmið (Brusselviðmiðin) hafði Alþingi  fallist á, með samþykkt sinni 5. desember 2008.

Gleymum því ekki að samningi ríkisstjórnarinnar frá síðasta sumri  hafnaði Alþingi í raun og setti inn fyrirvara og skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni, sem var forsenda samningsins

En þá fór ríkisstjórnin enn á stjá að nýju, samdi aftur við Hollendinga og Breta og uppskar gríðarlega andstöðu. Stjórnarandstaðan - mínus einn - fór gegn málinu. Það gerðu líka tveir stjórnarþingmenn. Í skoðanakönnunum birtist massíf andstaða almennings og fjórðungur atkvæðisbærra manna skoraði á forsetann að synja löggjöfinni staðfestingar.

Hvað gat hann þá gert? Hann gat verið sjálfum sér samkvæmur og neitað að skrifa undir, eða fara gegn eigin stefnumótun. Hann valdi fyrri kostinn.

Þá bregður svo við að það er mynduð heil breiðsíða gegn Ólafi Ragnari. Þar fara í fylkingarbrjósti þau stjórnmálaöfl sem lofuðu hann og prísuðu fyrir að taka sér neitunarvald fyrir fimm árum.

Hér á það við að skamma stund verður hönd höggi fegin. Með ákvörðun sinni árið 2004 markaði forsetinn nýja stefnu undir hvatningar- og húrrahrópum Samfylkingar, Vinstri grænna, útrásarvíkinga og gjallarhorna þeirra meðal annarra. Þeir sem þannig létu þegar það hentaði geta ekki kvartað núna.  

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar uppskáru eins og til var sáð með málatilbúnaði sínum í Icesavemálinu. Þeir geta engum kennt um ófarir sínar nema sjálfum sér. Það er lítilmótlegt af þeim að skella allri skuldinni á forsetann.




Darling hótar forsetanum

Alistair DarlingAlistair Darling fjármálaráðherra Bretlands er samur við sig. Frá fyrsta degi hefur hann haft í hótunum og reynt að beita kúgunartilraunum gagnvart okkur Íslendingum. Misbeiting bresku hryðjuverkalaganna felldi að lokum íslensku bankana. Þingnefnd á breska þinginu sem skoðaði málin komst að því að bresk stjórnvöld hafi farið algjörlega offari og  brugðist við langt umfram öll möguleg tilefni.

Og nú heldur breska fjármálaráðherraskömmin hótunum sínum áfram. Að því leyti má treysta á Mr. Darling. Hann bregður aldrei vana sínum.

Nú er greinilega ætlun hans að reyna að hræða forseta Íslands til þess að skrifa upp á Icesavelöggjöfina. Það sýnir viðtalið við hann hjá Dow Jones fréttastofunni, sem hefur birst í íslenskum fjölmiðlum í dag.

Þetta gerir hann þrátt fyrir að hann megi auðvitað vita að Ólafur Ragnar Grímsson verði því aðeins sjálfum sér samkvæmur með því að synja staðfestingu á Icesavelögunum.  Meiri ögrun er varla hægt að ímynda sér frá forystumanni þjóðar  gagnvart forseta fullvalda þjóðríkis, en að hafa í frammi hótanir við þvílíkar aðstæður

Ástæða þess að breski fjármálaráðherrann hegðar sér þannig með svo ósæmilegum hætti er auðsæ. Reynsla hans af samskiptum við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er sú að hún lætur alltaf undan hótunum. Íslensku þjóðina og ríkisstjórnina má alltaf niðurlægja án þess að ráðherrarnir bregðist við. Það virðist sama hvað boðið er upp á; alltaf kyngir ríkisstjórnin. Ríkisstjórnin er alltaf jafn stimamjúk og kyssir sífellt á vöndinn.

Þess vegna telur breski fjármálaráðherrann að best sé til árangurs að halda áfram hótunum. Hann trúir því sennilega að hið sama eigi við úti á Bessastöðum og í Stjórnarráðinu  við Lækjartorg með núverandi húsbændum. Að menn beygi sig í duftið ef hótanir komi úr barka bresks fjármálaráðherra.

 




Tveir skýrir kostir forsetans

Ólafur RagnarÓlafur Ragnar Grímsson forseti Íslands stendur frammi fyrir tveimur skýrum og afdráttarlausum kostum í Icesavemálinu.

Hinn fyrri er sá að fylgja eigin stefnumótun frá árinu 2004 og synja lagasetningunni frá 30 desember staðfestingar. Þar með væri hann einnig að breyta í samræmi við rökstuðning sinn frá því í haust er hann staðfesti lagasetninguna með sérstakri skírkotun til fyrirvaranna sem Alþingi setti gagnvart ríkisábyrgð á Icesaveinnlánunum.

Hinn síðari er að éta ofan í sig fyrri skoðanir og staðfesta lögin með undirskrift sinni. Burtséð frá rökstuðningi fyrir slíku myndi óhjákvæmilega vakna upp sú ábending sem Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor setti fram í útvarpinu í gær: Í fréttum Ríkisútvarpsins segir prófessorinn:

"Skrifi hann ekki undir standi hann uppi vinalaus í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Stór hluti þeirra sem vilja að forsetinn neiti að staðfesta lögin eru litlir vinir hans en þeir sem treysta á að hann skrifi undir eru frekar pólitískir félagar."

Þarna er verið að vísa til þess að forseti kunni að hugleiða stöðu sína í eins konar Machiavellísku ljósi, þar sem pólitísk fortíð hans er ráðandi.

Um þetta er ekki annað hægt að. segja, en það sem sálmaskáldið af Hvalfjarðarströndinn, Hallgrímur Pétursson orti í einum Passíusálminum:

"Vinnur það þó fyrir vinskap manns

að víkja af götu sannleikans."




Sjálfum sér samkvæmur?

BessastaðirMiðað við fyrri yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar forseta ætti enginn vafi að leika á því að hann hyggist EKKI staðfesta lögin sem samþykkt voru á Alþingi þann 30. desember sl. um Icesave. Yfirlýsingar forsetans frá því að hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar 2. júní árið 2004 og áritun hans með skírskotun til fyrirvara Alþingis varðandi hina fyrri Icesvaelöggjöf nú í haust, er svo afdráttarlausar og stefnumarkandi að niðurstaðan ætti að vera augljós.

Ef hann hyggst að minnsta kosti vera sjálfum sér samkvæmur.

En ástæða þess að vangaveltur eru uppi í fjölmiðlum þessi dægrin um þessi mál er augljóslega sú að menn,- fræðimenn jafnt og aðrir -  útiloka ekki að forsetinn láti einhver önnur sjónarmið ráða för að þessu sinni.

Það hlýtur það að vera mikið umhugsunarefni fyrir forsetann að yfirleitt sé verið að efast um að hann nálgist þetta mál út frá öðrum hvötum og rökum en þegar hann mótaði nýja stefnu með því að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar. Í því felst auðvitað mjög alvarlegt vantraust á handhafa þess embættis, sem á að vera sérstakt sameiningartákn þjóðarinnar.

Það gengur auðvitað ekki að það sé eins konar samkvæmisleikur um áramót að velta því fyrir sér hvort forsetinn okkar verði sjálfum sér samkvæmur í svona afdrifaríku máli.

Þegar forsetinn synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar tók hann sér vald sem áður var óþekkt. Yfirlýsing hans nú í haust um Icesavelöggjöfina batt hendur hans. Með þessu reisti hann sér  vegvísa sem nú virðast þvælast fyrir ákvörðuninni.

En eftirfarandi staðreyndir liggja fyrir. Lögin sem Alþingi samþykkti nutu naums meirihluta á þingi, mikill meirihluti þjóðarinnar vill hafna þeim, þeim fjölgar um tíu þúsund á dag sem vilja að forsetinn komi í veg fyrir staðfestingu þeirra, aldrei hafa jafn margir krafist þess að forsetinn synji staðfestingar, ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem segir að ef 30 þúsund manns krefjist þess verði að setja mál í þjóðaratkvæði, það er vaxandi hljómgrunnur fyrir þjóðaratkvæðaleið í stórum málum. Og enn skal minnt á að núerandi forseti hefur markað stefnu sem við lausn þeirrar stöðu sem nú er uppi ætti að þýða að hann synji löggjöfinni staðfestingar.

Sem sagt: Ef  Ólafur Ragnar Grímsson er sjálfum sér samkvæmur staðfestir hann ekki lögin. Liggi aðrar hvatir og ástæður að baki, staðfestir hann þau; og viðurkennir um leið að hann hafi haft á röngu að standa 2. júni árið 2004 varðandi fjölmiðlalögin.

 

 




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband