30.12.2009 | 13:04
Leyndarhyggju-ríkisstjórnin
Er nokkur búinn að gleyma þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin lagði upp með; að ástunda gagnsæja stjórnsýslu og draga ekkert undan? Þessi loforð eru í fersku minni flestra, enda stutt síðan að þau voru gefin. En ríkisstjórnin er undantekningin. Hana brestur minni þegar kemur að efndum þessara fyrirheita og svo sem í samræmi við annað þegar kemur að því að standa við gefin loforð.
Staðan í Icesavemálinu er einsdæmi og til marks um þá leyndarhyggju, pukur og leyniskjalaáráttu sem plagar ríkisstjórnina.
Gróin og virt bresk lögmannsstofa hefur greint frá því í bréfi til formanns fjárlaganefndar Alþingis að haldið hafi verið gögnum frá sjálfum utanríkisráðherranum, sem varðaði þetta mikla mál. Utanríkisráðherranum hafi verið kynnt tiltekið efni Icesavemálsins, en sú kynning hafi verið ritskoðuð, að ósk formanns íslensku samninganefndarinnar.
Utanríkisráðherrann segir að engin slík kynning hafi farið fram og að hann hafi ekki setið slíkan upplýsingafund. Ég spurði því á Alþingi í gærkveldi hvort um einhvers konar skyggnilýsingar- eða miðilsfund, þar sem utanríkisráðherrann hafi ekki verið mættur eiginlega, heldur bara birst með yfirskilvitlegum hætti.
Væri málið ekki svona grafalvarlegt, þá væri það sprenghlægilegt. En mál af þessari stærðargráðu, sem er löðrandi af pukri ríkisstjórnarinnar er einsdæmi. Það er óforsvaranlegt og það er skammarlegt, en í samræmi við annað.
Gleymum því ekki, að æ ofan í æ, hefur þurft að slíta upplýsingar út úr stjórnvöldum með töngum. Leyndarhyggjan er orðinn algjör plagsiður í störfum og verkum ríkisstjórnarinnar.
20.12.2009 | 18:53
Hættulegt lesefni?
Það vekur nokkra undrun að sá mikilvirki álitsgjafi Egill Helgason skuli ekki fylgjast með skrifum í Viðskiptablaðinu. Hann segir frá því sjálfur að hann sé nær hættur að sjá blaðið. Og syrgir raunar þau örlög sín. Úr þessu á hann örugglega hægt með að bæta. Með því að gerast áskrifandi gæti hann tryggt sér að eiga þess kost að lesa þetta ágæta vikurit.
Af skrifum Egils má glögglega ráða að hann hafi ekki kært sig um að lesa blaðið vegna þeirra sjónarmiða sem þar gat að líta. Segir það all nokkuð um hinn þrönga sjónarhól þessa ágæta manns. Fróðleik sinn um skrif blaðsins virðist hann svo sækja í DV og skrif Jóhanns Haukssonar blaðamanns á því blaði. Verða þó hvorugur af sanngirni sakaðir um hlutlægni í frásögnum eða nokkuð af því taginu; hvorki DV eða Jóhann. Bæði Jóhann og DV eru með klára "agendu", svo vitnað sé í orðalag téðs Egils Helgasonar. Það leynir sér hvorki í skrifum né efnistökum.
Viðskiptablaðið er á hinn bóginn gríðarlega mikilvægur þáttur í fjölmiðlaflóru okkar. Þar eru ýmis viðtekin sjónarmið skoruð á hólm og margar helgimyndir úr pólitískum rétttrúnaði brotnar. Fréttaskýringar eru góðar, bryddað upp á efni sem aðrir fjölmiðlar hafa fremur hljótt um. Og svo er óaðskiljanlegur hluti Viðskiptablaðsins yfirburða blað; Fiskifréttir, sem enginn getur látið framhjá sér fara sem vill fylgjast með sjávarútvegi.
Og loks fylgja hinu ágæta Viðskiptablaði blöð um golf og hestamennsku; tvær af vinsælustu íþróttum landsins. Og hestamennskan í viðbót vaxandi atvinnugrein, útflutningsatvinnuvegur sem ber hróður íslenska hestsins um lönd og álfur.
Þeir eru auðvitað til sem hræðast það að lesa um annað en það sem fellur sem flís við sjónarmiðarassinn sinn. Varla er Egill Helgason í þeim hópi?
16.12.2009 | 09:57
Ríkisstjórnin hlýðir rödd að handan
Þegar við i þingflokki Sjálfstæðisflokksins settum fram hugmyndir okkar um skattlagningu lífeyris með nýjum hætti fékk það blendnar móttökur. Talsmenn sumra lífeyrissjóða - en alls ekki allra mótmæltu. En aðrir tóku þessu vel. Þar á meðal sumir ráðherrar úr ríkisstjórninni. Mér er þar minnisstæðastur Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem fór einkar jákvæðum orðum um tillöguna.
Það var því tilefni til að ætla að ríkisstjórnin tæki málið upp á arma sína, þó í breyttri mynd yrði. En allt fór það á annan veg.
Það hefur bögglast dálítið fyrir manni að skilja ástæður þessa. En í gær blasti hún við. Var eins og rödd að handan. Það er að segja röddin kom að handan; handan yfir hafið, frá sjálfum aðalstöðvum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ( sem skammstafaður er IMF upp á ensku, AGS upp á okkar ylhýra mál) Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, var þetta ekki rödd þess manns sem Ögmundur Jónasson festi við nafngiftina landsstjóra. Nei þetta var boðskapur sjálfs erkibiskupsins. Sjálfur Mark Flanagan talaði. Hvorki meira né minna.
Þetta eru engir smá kallar, að því er virðist og í mjög elskulegum samskiptum við ríkisstjórnina. Munum að Indriði H Þorláksson pólitískur aðstoðarmaður fjármálaráðherra kallaði þá svo kumpánlega, Kæra Mark og Kæra Franek, í hinum frægu tölvupóstum sem láku úr leyndarhjúpi ríkisstjórnarinnar í Icesavemálinu.
Og nú þegar hún hefur hljómað röddin, handan yfir hafið þá verður þetta strax allt skiljanlegra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talaði. Og ríkisstjórnin hlýddi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi ekki aðferð sem forðaði okkur í nauðum frá harkalegum sköttum og sársaukafullum niðurskurði . Og ríkisstjórnin hlýddi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir borgið Icesave og ríkisstjórnin hlýðir.
Þetta er verklagið. - Og ríkisstjórnin gleðst.
15.12.2009 | 13:22
Gamlar en samt grafalvarlegar fréttir
Nýverið hefur verið vakin athygli á því að ríkisstjórnin gekk frá Icesavesamningunum hinum fyrri þó það lægi fyrir að þingmeirihluti væri ekki fyrir hendi til þess. Þetta eru ekki ný tíðindi. Ég vakti til dæmis athygli á þessu í ræðu um Icesavemálið á Alþingi 20. ágúst sl, sem lesa má hér.
Í ræðu minni um þetta segi ég:
"Það er líka mjög sérkennilegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skyldi láta sig hafa það að undirrita þennan samning vitandi að ekki var pólitískur þingmeirihluti fyrir málinu á Alþingi. Það kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan að þrír þingmenn Vinstri grænna hefðu lýst því yfir að ríkisstjórnin hefði ekki umboð þeirra til að undirrita þennan samning. Þar með lá það fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti í þessu máli var ekki til staðar.
Það er mjög alvarlegur hlutur þegar ein ríkisstjórn gerir það að ganga frá samningi af þessu taginu við aðrar þjóðir, ég tala nú ekki um samning af þessari stærðargráðu, vitandi að ekki væri pólitískur meiri hluti fyrir málinu. Það var ekki álitamál hvort það væri pólitískur meiri hluti, það lá fyrir að hann var ekki fyrir hendi. Engu að síður ákvað hæstv. ríkisstjórn að ganga til samninga og undirrita samninga í blóra við ætlaðan vilja meiri hluta Alþingis Íslendinga. Á sama tíma og þetta gerist er verið að tala um að ná þurfi breiðri pólitískri samstöðu í málinu þegar það liggur fyrir að sú samstaða var ekki einu sinni til í hópi stjórnarliða sjálfra."
En svo skrítið var andrúmsloftið þessa dagana í samfélaginu að þetta vakti enga athygli - þá. Látið var eins og það skipti engu máli hvort ríkisstjórn hefði þingmeirihluta á bak við sig eður , ei til þess að skuldbinda okkur til að axla ábyrgð á milljarða hundraða fjárhæð, eða yfirhöfuð gera nokkra samninga við aðrar þjóðir í blóra við vilja meirihluta þingmanna.
Svona var nú andrúmsloftið einkennilegt að það þótti nokkurs konar gamaldags fortíðarhygja að hafa áhyggjur af svona smáatriði. En gott er þó að málið hefur fengið athygli; jafnvel þó seint sé.
10.12.2009 | 15:23
Upplogna strútsaðferðin
Margt er aðfinnsluvert við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það fer til dæmis ekkert á milli mála að ráðherrar hafa tileinkað sér tilskipanastjórnun. Hugmyndin um að deila og drottna hefur tekið sér bólfestu í hugarheimi ráðamanna. Nokkuð sem þeir gagnrýndu hér fyrrmeir og sögðust ekki ætla að viðhafa.
Mál eru rifin út úr nefndum Alþingis án þess að þau séu unnin. Fyrirheit um tilteknar breytingar á einstökum málum fara fyrir lítið af því að svo mikið liggur við að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið hverjir ráði. Svoleiðis ofríkistilburðir hefna sín og greiða síst fyrir þingstörfum.
En sennilega er ríkisstjórnin að gera sín mestu mistök með óvönduðum vinnubrögðum og skorti á framtíðarsýn og forgangsröðun.
Ærið er nú starfið að koma saman fjárlögum við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. Fjárhagsleg staða margra heimila er í hreinu uppnámi. Atvinnulífið stynur undan stjórnarstefnunni og uppsagnir og launalækkanir eru daglegt brauð. Á meðan aðhyllist ríkisstjórnin aðferðina sem logið hefur verið upp á strútfuglana; stingur haus sínum í sandinn.
Ríkisstjórnin teygir sig í verkefnum út um víðan völl í stað þess að einbeita sér að þeim verkefnum sem mest eru áríðandi. Sem er að hyggja að hagsmunum heimilanna, rekstrarskilyrðum atvinnulífsins og koma saman almennilegum fjárlögum. Tilburðir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum eru í skötulíki. Enginn hefur trú á því sem ríkisstjórnin er að gera og fyrir vikið tefjast þær nauðsynlegu umbætur sem grípa þarf til, alveg von úr viti.
8.12.2009 | 17:07
Ég segi því nei !
Það fjölgaði dálítið í hópi stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar í þinghúsinu í dag við Icesave afgreiðsluna. Þar voru mættir í hliðarsali, spunameistararnir úr Samfylkingunni, sem alltaf eru álengdar, þegar mikið liggur við og hugsjónamál Samfylkingarinnar, ESB og Icesave eru til umræðu. Þarna voru amk. mættir Hrannar B. Arnarson aðstoðarmaður forsætisráðherra og Einar Karl Haraldsson. Þeir félagar munu fá það hlutverk að setja óhæfuverk ríkisstjórnarinnar í Icesvemálinu í sem þekkilegastan búning, rétt eins og spunameistara er hlutverkið.
Forysta ríkisstjórnarinnar hafði greinilega unnið vinnuna sína fyrir þessa atkvæðagreiðslu eins og við var að búast. Útilokað hefði það verið að ríkisstjórnin hefði verið í minnihluta með þetta Icesave-mál, eins og hún var í sumar með hið fyrra. Tveir og þrír þingmenn stjórnarliða fóru þó gegn frumvarpsgreinunum, en Þráinn Bertelsson, upphaflega úr Borgarhreyfingunni, slefaði síðustu grein frumvarpsins að landi með stjórnarþingmönnum.
Ég gerði grein fyrir atkvæði mínu við afgreiðslu um fyrstu grein frumvarpsins með þessum orðum:
Það hefur aðeins ein ríkisstjórn gert samninga um meintar Icesave skuldbindingar. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Sá samningur var brot á Brusselviðmiðunum; alvarlegt brot á þeim samningsviðmiðunum og því samningsumboði sem ríkisstjórnin fékk frá Alþingi ( 8. desember á síaðsta ári)
Alþingi setti svo í sumar fyrirvara og skilyrði vegna ríkisábyrgðarinnar. Ríkisstjórnin vill nú eyðileggja þetta og brjóta á bak aftur og stórskaða þannig stöðu okkar og hagsmuni Íslands. Þessi samningur er afleitur og ríkisábyrgðin er óverjandi. Ég segi því nei.
4.12.2009 | 11:53
Daglegar morgunheimsóknir stjórnarliða
Ný hefð hefur nú myndast í þingstörfunum. Stjórnarliðar fara í daglegar morgunheimsóknir í þingsali. Ekki til þess að búa sig undir að ræða um eitt stærsta hagsmunamál Íslands, Icesavemálið. Nei. Erindið er að greiða atkvæði til þess að tryggja að haldnir verði kvöldfundir.
Segir svo fátt af þeim, eftir það.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður VG kallaði það eitt sinn að menn væru eins og atkvæðavélar, sem sætu samviskusamlega við atkvæðagreiðslutakkana sína og hlýddu, en forðuðust að taka þátt í málefnalegri umræðu. Þessi orðaleppur ráðherrans smellpassar við félaga hans í hópi stjórnarliða.
Við höfum ítrrekað kallað eftir því að stjórnarliðar kæmu til umræðunnar. Við höfum sagt að það sé hluti af lýðræðislegri umræðu að stjórn og stjórnarliðar geti skipst á skoðunum um ágreiningsmál. Ef ekki er tilefni til þess að stjórn og stjórnarandstaða ræði um þetta ágreiningsmál - mál af þessari stærðargráðu þá hvenær eiginlega?
En til þess hefur nánast ekki komið. Það er eins og stjórnarliðar treysti sér ekki í þessa umræðu; þori ekki. Og þeim er vorkunn. Það þarf sterkan skammt af kjarki og forherðingu til að verja þennan samning. Þess vegna gera þeir það ekki. Þögnin er mestan part þeirra helsta framlag til umræðunnar.
Nú þarf forsætisnefnd Alþingis að velta því fyrir sér hvort ekki eigi beinlínis að gera ráð fyrir þessum dagskrárlið í þingsköpum, daglegar morgunheimsóknir stjórnarliða.
2.12.2009 | 11:49
Höggvið aftur í sama knérunn
Ríkisstjórninni eru mislagðar hendur á ótrúlega mörgum sviðum. Beint ofan í gríðarlega þröngar aðstæður verktakafyrirtækja leggur ríkisstjórnin af stað með hugmyndir um skattahækkanir sem sérstaklega koma illa niður á þessari atvinnugrein. Þetta er kallað að hvöggva tvisvar í sama knérunn og er í þessu sambandi alveg makalaust tiltæki.
Alveg frá síðasta ári hafa fyrirtæki í jarðvegsvinnu verið að fækka starfsfólki. Lítil fyrirtæki á þessu sviði hafa mörg hver einfaldlega lagt up laupana, án þess að það hafi vakið athygli fjölmiðla. Stærri fyrirtækin hafa sagt upp fólki. Ekki er óalgengt að fyrirtækin - sem enn eru starfandi - séu með þriðjung eða fjórðung þess starfsfólks sem þau höfðu fyrir ári og ríflega það.
Hið ágæta fyrirtæki KNH á Vestfjörðum sem hefur staðið sig frábærlega vel í verkum sínum sagði á dögunum upp fjölda starfsmanna og það ekki að ástæðulausu. Er þetta fyrirtæki þó með tiltölulega góða verkefnastöðu. Það varð því hið síðasta í röð margra fyrirtækja í sömu grein sem grípur til þessa óhjákvæmilega úrræðis.
Gáum að því að fyrirtæki sem ekki eru þegar með samningsbundin verkefni á vegum ríkisins fram á næsta ár, geta ekki vænst þess að hafa nokkuð fyrir sig að leggja úr verkefnum frá ríkinu. Einfaldlega vegna þess að engra nýrra útboða er að vænta til dæmis á sviði vegagerðar. Dæmi eru um stór fyrirtæki sem ekki hafa fengið nein ný verkefni til að vinna úr á þessu ári.
Framundan er óvissan ein og vonleysið býr um sig. V iðbrögð ráðamanna eru á þann veg að ekki er stefnubreytingar að vænta. Svarið við erfiðri stöðu þessarar atvinnugreinar er af hálfu ríksistjórnarinnar og stjórnarliða að áfram skuli menn búast við hinu sama. Og til viðbótar verði síðan efnt í stórkarlalega skattlagningu, sem mun bitna sérstaklega á þessari atvinnugrein, sem þó hefur þurft að glíma við hreint hrun á tekjum.
1.12.2009 | 13:58
Matsfyrirtækin treysta ekki ríkisstjórninni
Skörin hefur færst all myndarlega upp í bekkinn þegar ráðherrar segja frá því að erlendu matsfyrirtækin treysti ekki ríkisstjórninni. Sjálfsagt er þetta einsdæmi, en einsdæmin eru núna að verða daglegt brauð í starfsháttum ríkisstjórnarinnr, svo mótsagnakennt sem það hljómar. Vinnubrögðin og ákvarðanirnar eru nefnilega þannig að hvorugt á sér ekki fordæmi.
Þegar fjármálaráðherra segir að afgreiðslan á Icesave sé mikilvæg, ella sé hætta á að matsfyrirtækin flokki okkur í ruslflokk, þá er hann að segja að þessi fyrirtæki treysti ekki ríkisstjórninni.
Það er ríkisstjórnin sem gerði Icesave samningana. Bæði þann fyrri og einnig hinn síðari. Þegar ríkisstjórnir gera slíka samninga er það undantekningarlaust gert í trausti þess að samningasaðilarnir geti staðið við sinn hluta. Það gat ríkisstjórn Íslands ekki í sumar. Hún var gerð afturreka með hinn illræmda Icesavesamning. Nú gerir hún aðra tilraun til þess að koma óbermi sínu í gegn.
Málið er algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það þýðir ekkert fyrir ráðherrana að skýla sér á bak við andstöðu stjórnarandstöðunnar. Annað hvort er þingmeirihluti á bak við málið eður ei. Því verður tæplega trúað að ríkisstjórnin geri samninga í tvígang um sama málið án þess að hafa til þess stuðning meirihluta þingsins. Það væri skandall af verstu sort ef svo væri.
En af orðum fjármálaráðherra má ráða að matsfyritækin treysti ekki ríkisstjórninni. Hún hafi hvorki sannfært þau né aðra um að þau hafi vald á þessu máli. Það kemur okkur Íslendingum ekki á óvart að ríkisstjórninni sé vantreyst. Það blasir við og hún á það skilið. En hitt sætir meiri tíðindum, að forysta ríkisstjórnarinnar sé farin að segja frá því, að þar sem mest ríður á erlendis, sé ríkisstjórninni vantreyst.
30.11.2009 | 09:08
Sannkölluð gleðistund
Hátíðleikinn, gleðin, feginleikinn og tilhlökkunin sem einkenndi Bolungarvík sl. laugardag, hæfði tilefninu. Við vorum saman komin til að fagna því að búið var að slá í gegn. Bolungarvíkurjarðgöng orðin að veruleika. Nú tekur við alls konar frágangsvinna. Loftræstikerfi, rafmagnsverkefni, fjarskipti og annað það sem þarf til að gera nýju jarðgöngin klár. Svo verða þau tekin í notkun um og eftir mitt næsta ár.
Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Ákvörðunin um að ráðast í jarðgöngin, var tekin 27. september 2005 á ríkisstjórnarfundi; þeim fyrsta sem ég sat, þá nýorðinn sjávarútvegsráðherra. Ég hafði á orði í ræðu sem ég flutti á mannfagnaðinum í íþróttahúsinu í Bolungarvík að varla væri hægt að fara fram á betri viðtökur á nýjum starfsvettvangi.
Ég minnist þess frá þessum degi hve margir urðu til að samfagna okkur eftir að ákvörðunin hafði verið tekin. Ótal smáskilaboð bárust mér í símann, tölvupóstar streymdu inn og símhringingar, jafnt frá vinum og frá fólki sem ég þekkti lítt til. Og loks stoppaði mig bláókunnugt fólk úti á götu næstu daga og vikur á eftir sem tók í hendina á mér og samfagnaði. Það leyndi sér ekki að fólki fannst þetta verðskulduð framkvæmd. Mér þótti vænt um þessi viðbrögð
Nú horfum við fram á veginn. Það munu opnast gríðarlega mörg ný tækifæri í byggðalegu tilliti. Við höfum reynsluna af Vestfjarðagöngum sem sýndu gildi sitt strax á fyrsta degi. Þannig verður það einnig núna. Þetta er ómetanleg framkvæmd, sem við íbúar á svæðinu sem best munum njóta hennar erum ákaflega þakklát fyrir öllum þeim sem að þessu verki komu, jafnt á ákvarðanastigi og framkvæmdastigi.