Yðar einlægur, Gordon

Gordon BrownLeyndarhyggjan í forsætisráðuneytinu ríður ekki við einteyming. Ríkisstjórnin sem lofaði gagnsærri stjórnsýslu lúrir á mikilvægum bréfaskiptum forsætisráðherra við kollega sinn í Bretlandi, Gordon Brown. Allt er þetta mál eitt reginhneyksli og sýnir svart á hvítu fyrirlitningu breska forsætisráðherrans á stjórnvöldum okkar og íslenskri þjóð. Hann telur sér væntanlega stætt á þessu viðmóti,  í ljósi þess makalausa gunguskapar og lítilþægni sem stjórnvöld hér á landi hafa sýnt í samskiptum sínum við Breta og er þar af ýmsum dæmum að taka.

En þá að bréfaskriftum forsætisráðherranna tveggja.

Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði bréf sitt til bresku og hollensku forsætisráðherranna  þann 28. ágúst sl. Tveimur og hálfum mánuði síðar skrifaði sá breski svarbréf sitt. Og þunnt var það á vangann. Fjórar örstuttar málsgreinar. Sýnir bréfið með öðru,  fyrirlitningu hans gagnvart stjórnvöldum okkar.

Bréfið úr Downing  stræti hefst með orðunum. Kæri forsætisráðherra. 

 Í fyrstu málsgrein er almennt þakkarsnakk. Í þeirri næstu er Jóhanna Sigurðardóttir upplýst um að undirsátar hans og hins hollenska starfsbróður vinni með íslenskum embættismönnum að frágangi lánsskjala vegna Icesave. Í þriðju málsgrein lýsir Brown yfir gleði sinni yfir Icesave lyktunum. Liggur það þá fyrir að íslenska ríkisstjórnin á sér einn stuðningsmann. Godon Brown. Er þess þá að vænta að skammt undan muni Alistair Darling, hinn breski fjármálaráðherra lulla á eftir inn í stuðningsmannahóp Steingríms J. og Jóhönnu í þessu umdeilda máli. Og að lokum lætur breski forsætisráðherrann í ljósi óskir um að vel og fljótt megi ljúka málinu.

En bréfi sínu – sem hann hóf með elskulegum ávarpsorðum, -  lýkur hinn breski Brown með athyglisverðum hætti; og gerist nú óvenju persónulegur, við sinn góða félaga í  Alþjóðasambandi sósíalista..

- Yðar einlægur, Gordon.




Stjórnin lítilsvirðir þingið

JóhannaStjórnarliðarnir stritast við að þegja í umræðum um Icesave. Þetta er merkilegt. Af því að í sumar var svo mikið látið með að vinnubrögðin í kring um málið á Alþingi væri sérstök táknmynd lýðræðis, opinnar umræðu og nýrra tíma. Það hefði því mátt við því búast að stjórnarliðar myndu ómaka sig á mælendaskrána. Svo er þó ekki.

Forsætisráðherrann talar eins og það sé einhver sérstök nauðung að eiga orðastað við okkur aðra þingmenn um þetta mikilsverða mál. Og sá mikli garpur fjármálaráðherrann situr óvenju þegjandalegur í sæti sínu og lætur ergelsi sitt í ljósi í fyrirspurnatímum á Alþingi þegar hann á ekki undankomu auðið.

Það er því bersýnilegt að í hugum stjórnarliða er þingið orðið frekar ill nauðsyn sem best væri að þvældist ekki fyrir, með umræðum um mál sem eru óþægileg ríkisstjórninni.

Horfin eru stóru orðin um breytta tíma og nýtt verklag. Enginn í stjórnarliðinu minnist lengur á að þingið gegni veigamiklu hlutverki. Enda sjáum við að Icesave -ið var afgreitt umræðulaust úr Fjárlaganefnd og ekkert gert með álit Efnahags og skattanefndar, þar sem finna mátti mjög krítíska umfjöllun jafnt frá stjórnarliðum og stjórnarsinnum. Ekki þótti taka því að breyta stafkróki, eða kommusetningu í frumvarpinu. Og það þrátt fyrir að frumvarpið boði algjöra uppgjöf og undanslátt frá því sem Alþingi ákvað í sumar.

Semsé. Ríkisstjórnin vill ekki lýðræðislega umræðu. Það er ekkert að marka skrúðmælgina um breytta tíma og virkara hlutverk Alþingis. Það var bara hentugleikatal í sumar, þegar ríkisstjórnin hafði ekki vald á sínu eigin þingmáli, rétt eins og ítrekað var bent á hér á þessari síðu.




Skattablekkingarumræðan í boði Samfylkingarinnar

peningarÞað er greinilegt að helst haldreipi stjórnarliða í umræðunni um skattamál núna á að vera vonin um að minni almennings nái skammt. Þetta eru örþrifaráð rökþrota fólks sem hefur lagt fram skattatillögur sem ofbjóða flestum.

Þess vegna er því svo purrkunarlaust haldið fram að skattabreytingar og skattalækkun síðari ára hafi ekki komið nema þeim ríkustu til góða. Þetta var svo sem svipað og reynt var að halda fram í mikilli skatttaumræðu sem fór fram fyrir kosningarnar árið 2007. Þá voru falsrök vinstri manna hrakin og það er auðvelt að gera það einnig núna.

Í bloggi sem ég skrifaði 22. mars 2007 vitnaði ég til greinar sem háskólakennararnir og hagfræðingarnri Axel Hall og Ragnar Árnason skrifuðu þar sem eftirfarandi kom fram:

1. Drefing ráðstöfunartekna var með því jafnasta árið 2004 - gagnstætt því sem haldið hefur verið fram.

2. Hlutfall þeirra sem er undir lágtekjumörkum er með því lægsta sem þekkist í Evrópu - gagnstætt því sem hefur verið haldið fram.

3. Gini stuðullinn sem á að mæla efnahagslegan jöfnuð, er lægri hjá okkur en vel flestum öðrum þjóðum. Við erum á svipuðu róli og Norðurlandaþjóðirnar og einungis þrjár þjóðir í Evrópu eru með meiri jöfnuð mælt á þennan kvarða. - Allt er þetta í hróplegu ósamræmi við það sem haldið hefur verið fram.

4. Aðeins ein þjóð, Svíar, hafa lægra lágtekjuhlutfall en við. 29 þjóðir eru með hlutfallslega stærri lágtekjuhóp en við Íslendingar. Þetta bendir til að fátækt sé minni hér en nánast alls staðar annars staðar í Evrópu. - Einnig þetta stangast á við hinar röngu fullyrðingar sem reynt hefur verið að þyrla upp.

Þetta eru staðreyndir sem hentar ekki ríkisstjórninni að vitna til. Þess vegna er gripið til blekkinga, eins og þeirra sem heyra mátti af vörum forsætisráðherrans núna á flokksfundi Samfylkingarinnar um helgina. Raunar í sömu ræðu og gerði Vinstri græna kolvitlausa vegna ummæla ráðherrans um Suðvesturlínu.




Forherðing ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn Jóhönnu SigurðardótturSennilega eru forystumenn ríkisstjórnarinnar ónæmir fyrir hugmyndum um aðrar leiðir í skattamálum, en þeim sem þau ætla að demba á þjóðina varnarlausa. Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar benda til þess að þau séu algjörleg forstokkuð í þeirri ætlan sinni sem birtist skattatillögum þeirra.

Ríkisstjórnin skellir skollaeyrum við öðrum tillögum og afgreiðir þær út af borði sínu umhugsunarlaust. Nýjir kostir í skattamálum fást ekki almennilega ræddir. Ríkisstjórnin er svo innhverf að hún hlustar helst á sjálfa sig og forherðist bara þegar að fram eru réttir aðrir möguleikar.

Forsætisráðherranum verður það helst til ráða að ræða um tillögur ungra sjálfstæðismanna. Ráðherrann sneiðir á hinn bóginn hjá því að taka til umræðu þær útfærðu hugmyndir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram. Þetta er átakanlegt og segir okkur hvílík eymdarbú ríkisstjórnin er orðin.

Af hverjur ræðir hún ekki það sem fyrir liggur í þjóðmálaumræðunni? Af hverjur tekst hún ekki á við það í málefnalegri umræðu sem aðrir flokkar hafa lagt fram. Getur hún það ekki? Vill hún það ekki? Þorir hún það ekki? Eða telur hún sig komast undan umræðunni með því að beina athyglinni að öðru eins og fyrri daginn.

Stjórnin er einangruð í forstokkun sinni og algjörlega ónæm fyrir því að takast á við umræðu um þá valkosti sem eru til staðar nú í þjóðmálaumræðunni. Það er ekki að furða þó að sérfræðingar hennar á borð við Mats Josefsson hneykslist yfir forystuleysinu og verkleysinu. Þau orð hans staðfesta það sem blasir við öllum, nema þeim sem sitja við ríkisstjórnarborðið í Stjórnarráðinu tvisvar í viku. Ríkisstjórnin er forstokkuð og ónæm fyrir nýjum hugmyndum




Hann ætti að hafa áhyggjur af áhyggjuleysi sínu

Árni Páll ÁrnasonOrðheppinn vinur minn sagðist einu sinni hafa helst áhyggjur af því hversu áhyggjulaus hann væri. Þetta var á alvörutímum og hann var að svara spurningum um hvort hann hefði ekki áhyggjur af stöðu mála og framtíðinni. Miðað við þá alvarlegu stöðu sem margir húsnæðiseigendur eru í núna, var þessi vinur minn bara að fást við smámál. Og örugglega hefði hann orðið áhyggjufullur í sæti félagsmálaráðherra við þessar grafalvarlegu aðstæður.

En okkar félagsmálaráðherra er eins og hann vinur minn forðum. Áhyggjulaus vegna ástandsins. Og er að því leytinu ennþá bágari; hann hefur ekki einsu sinni áhyggjur af áhyggjuleysi sínu.

Í morgun spurðu tveir þingmenn hann út í afleita stöðu húsnæðismarkaðarins á Alþingi. Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðmundur Steingrímsson vildu heyra sjónarmið ábyrgðarmanns húsnæðismálanna í Stjórnarráðinu.  Ráðherrann svaraði ýmist með gömlu og margnýttu frösunum sínum um vonsku stjórnvalda ( gleymdi vitaskuld flokki sínum)  og síðan með óljósum fyrirheitum.

Þetta rifjaði upp fyrir mér svar ráðherrans við spurningu minni um háa vexti og sligandi íbúðalán einhvern tíma í haust..Ráðherrann áhyggjulausi svaraði með tómu kjaftbrúki og sýndi tómlæti sitt gagnvart alvarlegri stöðu íbúðaeigenda, einkanlega unga fólkinu í verki.

Það er kominn tími til þess að félagsmálaráðherrann geri eins og hann vinur minn; fari að hafa áhyggjur af áhyggjuleysi sínu.




Víst er fyrningarleiðin vond

Sjógangur í höfninniEkki er alveg gott að átta sig á því hvað efnahags- og viðskiptaráðherra á við þegar hann segir að sjávarútvegur verði hér blómlegur þrátt fyrir fyrningarleið. Því hélt hann fram á Alþingi í dag og eins og lesa má um í frásögn hér.

Afkoma sjávarútvegsins ræðst ekki bara af aflaheimildunum, heldur ekki síður því fyrirkomulagi sem ríkir við fiskveiðistjórnina, hvort stjórnvöld auki á óvissu og hvort upp verði sett kerfi sem setji fiskveiðihlutdeildarkerfið í uppnám. Óvissan er kostnaður í öllum rekstri og við vitum að sú óvissa sem stjórnvöld hafa búið til í kring um sjávarútveginn er farið að skaða greinina og þær atvinnugreinar sem eiga við hann mest samskipti.

Sú hugmynd að rýra tekjumöguleika sjávarútvegsfyrirtækja en láta þau sitja eftir með skuldirnar er í sjálfu sér ótrúleg, en alveg sérstaklega óskiljanleg núna þegar starfsumhverfi atvinnulífsins er svo erfitt sem nú. Lækkun gengis hefur sannarlega bætt tekjuhlið útflutningsgreinanna og þar með talið sjávarútvegsins. En hrun fjármálakerfisins hefur laskað þau fyrirtæki eins og önnur, þó örugglega sé það rétt hjá efnahags og viðskiptaráðherra að bankarnir meti sjávarútvegsfyrirtækin almennt lífvænleg vegna þess að innlendar tekjur hans aukast með lægra gengi.

Þegar hefur verið sýnt fram á skaðsemi fyrningarleiðarinnar með óyggjandi hætti. Þar er nærtækast að vitna í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og Touche.




Statistahlutverk í skrautsýningunni

AlþingiEfnahags og skattanefnd Alþingis hefur sagt álit sitt á Icesavemáli ríkisstjórnarinar. Um það mál eru stjórnarflokkarnir út og suður og telja það til sérstaks styrkleika fyrir lýðræðið, málið sjálft og stjórnmálin almennt. Þetta segja þeir þó það blasi við að í þessu máli séu þeir einfaldlega ósammála og það sé af þeim ástæðum sem þeir tali ekki einni röddu. Í skattamálunum gengur maður undir manns hönd að slípa burtu misfellurnar á skoðunum manna. Þá er hins vegar minna talað um að pólitískur ágreiningur sé sérstakt hraustleikamerki fyrir stjórnarsamstarfið.

Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir skrifuðu nefndarálit um Icesavemálið sem fulltrúar í  Efnahags og skattanefnd. Þetta átti að vera innlegg í vinnu Fjárlaganefndar Alþingis sem er með málið á sínu forræði. Skemmst er frá því að segja að meirihluti VG og Samfylkingar hirti ekkert um skoðanir þeirra Ögmundar og Lilju. Tók innlegg þeirra ekki einu sinni til umfjöllunar og  lýsti þannig frati á framlag þingmannanna tveggja.

Þetta heitir niðurlæging á manna máli. Í umræðum okkar Ögmundar Jónassonar á Alþingi í dag, kom ekki annað fram en að hann yndi þessu vel. Þeim Lilju er ætlað statistahlutverk í skrautsýningu ríkisstjórnarinnar og hafa greinilega yfir engu að kvarta undan þessu dapurlega hlutskipti.




Hlustum ekki á skapstyggan sérfræðinginnn !

Mats JosefssonÞegar Mats Josefsson fellir áfellisdóm yfir ríkisstjórninni vegna dæmalauss sleifarlags hennar við endurreisn bankanna, svo ekki sé talað um sparisjóðanna, hefði mátt búast við að ráðherrar tækju það alvarlega. En ekki ríkisstjórnin okkar. Er Josepsson þó sérlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki, enda sérfróður á þessu sviði.

Fjármálaráðherra kom í sjónvarpsfréttir í gær og hvað hafði hann um málið að segja? - Jú, þetta.

"Það hefur nú hvinið í Mats vini okkar áður".

Sem sagt. Boðskapur ríkisstjórnarinnar er þá þessi: Það er lítið að marka þennan útlenska sérfræðing. Þó eitthvað hvíni í tálknum hans, þá erum við vön því í ríkisstjórninni og kippum okkur ekki upp við gagnrýnina.

Þannig er sérfræðingurinn einfaldlega veginn og léttvægur fundinn. Þau eru klárari í þessu hún Jóhanna og hann Steingrímur og hlusta ekki á nein ráð eða gagnrýni, passi hún ekki við hagsmuni þeirra heilagleika. Enda gefið kurteislega í skyn að sá útlenski sérfræðingur kunni lítt skap sitt að stilla - það hafi hvinið í honum áður - og engin ástæða til að láta sér bregða þó það gerist líka núna.




Svört lýsing Seðlabankans á veruleika ríkisstjórnarinnar

SeðlabankinnRíkisstjórnin lætur sem hún sé að ná tökum á verkefni sínu. Ekkert er jafn víðs fjarri. Ríkisstjórnin er í gíslingu græningjahluta stjórnarliðanna og þvælist fyrir allri uppbyggingu sem mest hún má. Það er að verða okkur dýrkeypt. Því eins og Seðlabankinn bendir á munu þessar tafir valda því  að hagvöxtur verði minni, atvinnuleysi meira, efnahagsbatinn verði seinna á ferðinni, gengi krónunnar veikara og lífskjörin verri.  Þetta er skuggaleg lýsing á því sem nú er að eiga sér stað, með fullri ábyrgð Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þó svo að lágt gengi sé að hjálpa útflutningsgreinum og stuðli að skarpara jafnvægi í viðskiptum okkar við útlönd hefur það á sér skuggahliðar. Flestir eru þess vegna sammála um að við þurfum að sjá gengið styrkjast. Það getur vel gerst án þess að það valdi búsifjum útflutningsgreina. Þær þola sterkara gengi  frá því sem nú er.

Enda blasir við að gengi krónunnar er langt fyrir neðan jafnvægisgengið.  Gengisvísitalan er óðum að nálgast 240. Þegar það var sterkast var gengisvísitalan um 100. Það var hins vegar fáránlega sterkt gengi. Fyrir því var engin innistæða. Gjaldeyririnn var á útsölu og útflutningsgreinarnar blæddu. Milljarðatugirnir runnu út úr útflutnings og samkeppnisgreinum. Það var því eins konar auðlindaskattur á sjávarútveg af verstu sort, svo dæmi sé tekið.

Hins vegar segir Seðlabankinn okkur að ekki sé tilefni til bjartsýni. Í nýju mati Seðlabankans kemur fram það mat bankans að krónan verði veikari en áður var talið, svo langt sem augað eygir. Bankinn endurskoðaði nokkurra mánaða gamla spá sína og er svartsýnni á styrkingu krónunnar.

Talið var að evran, sem nú er  186 króna verði rúmlega 170 krónur að jafnaði á þessu ári; munum að krónan var mun sterkari fyrr á þessu ári. Spáin er sú að krónan verði enn veikari á næsta ári, eða 176 krónur og styrkist örlítið árið 2011 og ögn til viðbótar árið 2012.

Allt er þetta mikilli óvissu háð. Og meðal annars vegna þess að enginn veit í hvaða átt ríkisstjórnin muni stefna. Seðlabankinn segir að ef stóriðjuframkvæmdir frestist, aukist atvinnuleysi og gengið lækki. Gangi það eftir lítur dæmið enn ver út en í spá bankans.

Þetta er hins vegar veruleikinn sem græningjastefna ríkisstjórnarinnar er að kalla yfir okkur. Lægra gengi, minni hagvöxtur og meira atvinnuleysi. Það er framtíðarsýnin sem ríkisstjórnin býður upp á.




Þingmeirihlutinn situr á brýnu hagsmunamáli

Kauphöll ÍslandsÞað hafa birst tvær greinar á bloggsíðum nú nýverið, um nauðsyn þess að styrkja stöðu minni hluthafa í fyrirtækjum. Í báðum þessum færslum er kallað eftir því að lagaumgjörðin sé styrkt í þessu skyni. Höfundar þessara greina eru annars vegar Jón Steinsson hagfræðingur og hins vegar Egill Helgason - Silfur Egils. Þeir hafa á réttu að standa. Það er knýjandi nauðsyn að taka á þessum málum.

Ríkisstjórnin á næsta leik. En hún er skeytingarlaus. Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sem ég er fyrsti flutningsmaður að og hefur þetta að markmiði; að styrkja stöðu minni hluthafa. Hún fæst ekki afgreidd úr þingnefnd. Ríkisstjórnarflokkarnir, sem á stjórnarandstöðuskeiði sínu þóttust vilja styrkja stöðu þingsins og taka málefnalega á þingmálum stjórnarandstöðunnar, koma í veg fyrir að þessi tillaga fáist afgreidd. Þeir sýna þannig hug sinn í verki.

Ég hafði frumkvæði að því á sínum tíma að flytja frumvörp sem höfðu þann yfirllýsta tilgang að styrkja stöðu litlu hluthafanna. Ekki hafði ég þá árangur sem erfiði. Frumvörpin urðu ekki að lögum, en umræðan sem þau sköpuðu, hafði örugglega sitt að segja um að sitthvað var aðhafst til bóta.

Og með mér á þessu máli voru engir aukvisar. Meðflutningsmenn mínir voru þingmennirnir, Halldór Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir,Hjálmar Árnason, Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson. Sem sagt forseti Alþingis, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, tveir þáverandi flokksformenn og einn sem varð flokksformaður síðar. Tveir þessara þingmanna sitja nú í ríkisstjórn og eru forsætis og fjármálaráðherrar. Í þingsályktunartillögunni er einmitt vísað í þessi frumvörp og þau fylgja með sem fylgiskjal.

Þó þessi mál hafi ekki á sínum tíma ratað í heila höfn kostaði ég kapps um að fylgja málinu eftir; einfaldlega af því að hagsmunir almennings eru svo augljósir í svona málum. Í sem skemmstu máli; það er varla til það heimili sem ekki á eða hefur átt hlutabréf í meira eða minna mæli. Það eru hagsmunir slíks fólks sem voru fyrir borð bornir, það blasir við öllum eftir hrunið og ég óttaðist það einmitt að á því væri hætta og það varð kveikjan að málatilbúnaði mínum.

Vonandi verða þessar umræður núna til þess að Alþingi afgreiði málið í þetta sinn, eða að hugað verði betur að hagsmunum minni hluthafa. Það er mikilvægt og er brýnt hagsmunamál almennings í landinu.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband