Störf MEÐ staðsetningu

ÍslandÁ síðasta kjörtímabili var reynt að leggja grunn að því sem kallað hefur verið störf án staðsetningar. Sú hugmynd gengur út á að ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf sem vinna megi í raun hvar sem er, með tilstyrk nútíma tækni. Þegar slík störf losni skuli þau auglýst og fólki boðið að vinna þau utan stofnana, eða að minnsta kosti utan aðalstarfsstöðvanna. Að þessu var unnið vendilega á þeim tíma.

En hvað svo?

Því svaraði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í gær. Og hvað kom í ljós?

Jú. Á daginn kom að lítið sem ekkert hefði gerst. Núverandi ríkisstjórn hafði greinilega sett þetta mál aftarlega í sína goggunarröð.  Þessari tilraun til atvinnusköpunar á landsbyggðinni  hafði bersýnilega ekkert verið sinnt af viti og árangurinn í samræmi við það. Lítið hafði sem sé verið gert með það sem við höfðum undirbúið á síðasta kjörtímabili undir ágætri verkstjórn þáverandi iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar.

Ég benti hins vegar á að ríkisstjórnin ynni núna hörðum höndum að öðru verkefni. Starf með staðsetningu. Þar vísaði ég til þess að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og með frumvörpum sem nú berast sem óðast inn í þingið, er mótuð skýr stefna gagnvart landsbyggðinni og hún heldur fjandsamlegri.

Þessi stefnumörkun er öll sama markinu brennd. Undir blekkingar yfirskyni hagræðingar er verið að sameina stofnanir, færa verkefnin suður og eyðileggja þann árangur sem þrátt fyrir allt hefur þó náðst í því að auka hlut opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Í stað starfa án staðsetningar er mottóið störf með staðsetningu og staðsetningin er utan landsbyggðarinnar.

Varla líður sá dagur að ekki glitti í þessa áráttu ríkisstjórnarinnar, sem hefur fengið umboð frá þingmönnum sínum til athæfisins. Og gráleit eru örlögin, því einmitt daginn áður en forsætisráðherra svaraði spurningunni um störf án staðsetningar, ræddum við þingmenn um frumvarp sem felur í sér hreina atlögu að því vel heppnaða fyrirkomulagi héraðsdómstóla sem við lýði hefur verið í hálfan annan áratug.

Þar er yfirskynið hagræðing og sparnaður. En við bentum mörg hver á að af þessu myndi enginn sparnaður hljótast og hagræðingu sem stefnt sé að mætti vel ná með öðrum leiðum.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort þessi áform og önnur álíka gangi eftir. Það mun ráðast af því hvort þingmenn stjórnarliðsins  af landsbyggðinni gangi þennan ógæfuveg með ríkisstjórninni sem  þeir veita stuðning.

 




McDonalds á ríkisstjórnarfundum?

McDonaldsÞað breyttist allt við hrunið segja menn. Ekkert verður sem fyrr. Og sjálfsagt er mikið til í því. En eitt hefur þó ekki breyst. Skammdegisumræðan er söm við sig. Skemmtileg mál grípa hugi manna og við liggur að þau ryðji stórmálunum út úr sálartetri þjóðarsálarinnar.

Að því leyti má kannski segja að nú sé að minnsta kosti sumt að komast í sama horf. Kannski erum við að byrja að jafna okkur á áfallinu. En líklegra er einfaldlega, að það sé að koma á daginn, að lífið sé þrátt fyrir allt svo margbreytilegt, að jafnvel kreppa og hrun megni ekki að skyggja á það í fjölbreytileika sínum.

Þetta sjáum við á umræðunni sem hefur tekið flest annað yfir. Menn fóru í smalamennsku vestur í Tálknanum, til þess að sækja fé sem þar hafði gengið sjálfala um árabil. Og sjá. Þetta atvik tók þjóðina líkt og heljartökum og sagt er að bloggheimar hafi logað. Það eru skrifaðar greinar í blöðin og heilu útvarpsþættirnir eru undirlagðir af frásögnum af þessari smalamennsku fyrir vestan.

Þar undrast menn þó ekki síst að þetta sé helst talið fréttnæmt af öllu því sem gerist í byggðunum fyrir vestan. Það eru ekki sagðar fréttir af afrekum í lífi og starfi fólksins. Varla er tæpt á stundar- ósigrunum sem við erum að bíða í einu stærsta hagsmunamáli byggðanna þar, vegagerð um Vestfjarðaveg. En smalamennska í Tálkna, já?

Meira að segja ríkisstjórnin tekur þetta á dagskrá sína. Segir þó fátt af ráðum hennar í þessu máli frekar en öðrum.

Hitt málið er lokun skyndibitastaðar eins, McDonalds, sem kendur er við ameríska bræður frá síðustu öld. Það hefur verið afskaplega áhugavert að sjá umræðuna og þær heitu tilfinningar sem hafa brotist fram. Er lokun keðjunnar þó fyrst og fremst að sýna að krónan okkar gerir sitt gagn. Útlend aðföng eru orðin dýr, menn eru ekki samkeppnishæfir hér á þessum markaði nema að nota íslenskra framleiðsluvöru. Fyrir vikið dregur úr umsvifum þeirra sem skaffað hafa kjöt, kartöflur, brauð og grænmeti frá útlöndum. Það dregur sem sagt  úr vinnu í útlöndum sem þessu nemur. En hún vex á Íslandi að sama skapi. Flóknara er það ekki.

En menn hafa taugar – neikvæðar og jákvæðar – til skyndibitastaðar gömlu amerísku bræðranna. Sveitir fólks  ( svo ég noti, sem oft áður, orðalag frá Bessastöðum) út um víða veröld komast í strítt andlegt ástand við það eitt að hugsa um þessa miklu stofnun McDonalds. Það er því ekki að undra að hér heima á Fróni rofni umræðuflóðgáttirnar við önnur eins tíðindi og að komið sé að þessum miklu kaflaskilum í lífi þjóðarinnar. McDonalds tímabilinu í sögu Íslands sé lokið – amk í bili.

Einni spurningu er þó ósvarað. Skyldi þetta líka hafa verið rætt á ríkisstjórnarfundi?




Tvær greinar um ólíkt efni

Vegagerð í ÍsafjarðardjúpiÍ dag setti ég tvær blaðagreinar af ólíkum toga sem ég hef nýverið skrifað hér inn á heimasíðuna.

Er annars vegar um að ræða grein um vegamál á Vestfjörðum í tilefni af þeim miklu áföngum sem náðust þegar vegagerð var lokið um Ísafjarðardjúp og síðan með veginum um Arnkötludal og Gautsdal. Í greininni rek ég hversu mikilvægir áfangar þetta eru og set þessa baráttu fyrir vegabótum í eðlilegt sögulegt samhengi.

En síðan vík ég að öðru máli, sem er til mikils vansa, en það er hvernig mál hafa þróast á Vestfjarðavegi; vegtengingunni frá Vestur Barðastrandasýslu um Austur brðastrandasýslu að aðalþjóðvegakerfi landsins. Það er skelfilegt og því miður er nýfallinn hæstaréttardómur síst til þess fallinn að vekja með manni aukna bjartsýni.

Hin greinin fjallar um þau viðhorf sem eru uppi þegar við ræðum endurskoðun fiskveiðistefnunnar. Þar hvet ég til þess að menn fari gætilega. Það sé mikið í húfi og jafnvel mál sem virðast einföld og borðleggjandi séu það ekki þegar betur er að gáð. Þar er ég meðal annars að vísa til þeirrar umfjöllunar sem einatt á sér stað um framsal og kvótaleigu.

Báðar þessar greinar má lesa hér neðar á síðunni. Greinin um sjávarútvegsmálin, sem birtist í Fiskifréttum heitir Vöndum okkur við vandasamt verk. Greinin um vegamálin, sem birtist í Morgunblaðinu, á bb.is og reykholar.is heitir Langþráður draumur rætist.




Allt í fullkomnu skralli

Allt í skralliRíkisstjórnin virðist vera þannig náttúruð, sem er óvenjulegt, að það er sama hvort hún gerir ekkert eða aðhefst eiithvað; hún er alltaf til vandræða. Þannig er það með stöðugleikasáttmálann og aðkomu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin virðist allt gera sem er í hennar valdi til þess að svíkja hann. Ýmist með aðgerðum eða aðgerðarleysi sínu. Vinnuveitendur og launþegar reyna sitt ítrasta til þess að bjarga stöðugleikasáttmálanum.

Sumir ráðherrarnir sjá það helst til ráða að rífa bara kjaft. Nægir þar að nefna félagsmála og umhverfisráðherann í því sambandi. En forsætisráðherra og fjármálaráðherra láta sem ekkert sé, allt sé í himna lagi. Þau eru sem sé annað hvort í fullkominni afneitun, eða svona hrikalega forhert.

Það er eiginlega allt í fullkomnu skralli þegar kemur að hlut ríkisstjórnarinnar. Nefnum dæmin:

1. Það er ágreiningur um skattamálin og ofurskattheimtuleiðir ríkisstjórnarinnar.

2. Það er ekki búið að ljúka málum sem snúa að aðgerðum vegna stöðu heimilanna.

3. Ríkisstjórnin þarf að hætta að þvælast fyrrir uppbyggingu í orkufrekum iðnaði og stóriðju.

4. Vanhugsaðir orkuskattar sem ríkisstjórnin boðar hleypir öllu í fár þegar kemur að erlendri fjárfestingu í stóriðju.

5. Ríkisstjórnin dregur lappirnar í viðræðum við lífeyrissjóðina um þátttöku þeirra í fjárfestingu vegna samgöngumála.

6. Ríkisstjórnin slær úr og í varðandi gjaldeyrishöftin. Þau eru greinilega að þvælast fyrir og ná ekki yfirlýstum tilgangi. Það er því eðlilegt að hraða afnámi þeirra.

7. Ríkisstjórnin hefur leikið tóma blekkingarleiki þegar kemur að vaxtamálum, eins og hér hefur verið skrifað um. Stýrivextina þarf að lækka. Ekkert bólar á því og fram undir þetta hafa menn rætt um hækkun þeirra.

8. Þetta eru sjö dæmi; sjö grundvallaratriði um það hvernig ríkisstjórnin svíkur sáttmálann sem hún er sjálf aðili að. Slíkum stjórnvöldum er ekki hægt að treysta.




Samfylkingarmenn fá málið

Fjarri vettvangi fylgist ég með umræðum um Icesavemálið. Margt vekur athygli séð svona úr fjarlægðinni. Meðal annars að nú virðast vinir vorir úr Samfylkingunni hafa fengið málið að nýju þegar þetta mál er á dagskrá. Þeir verða seint sakaðir um að hafa haldið uppi vörnum fyrir málið á fyrri stigum. Nú er hins vegar greinilegt að þeir hafa fengið herútboð frá generálum sínum og hlýða herskyldunni.

Í sjálfu sér er það ekki að undra að talsmenn úr Samfylkingunni tali á þann veg sem þeir gera. Munum að þar á bæ heyrðist hvorki gagnrýnishósti né stuna þegar samninganefnd Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur kom heim úr sneypuför sinni í sumar með samning undir hendinni sem Alþingi tætti í sundur. Línan sem þá var fetuð var sú að samninginn ætti að samþykkja, tafarlaust og óbreyttan.

Alþingi tók svo til sinna ráða og breytti málinu með fyrirvörum og skilmálum sem gjörbreytti eðli hans.

Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar lagt fram plagg sem felur í sér fullkomna uppgjöf í málinu. Fyrirvarar Alþingis eru að litlu orðnir og málið allt orðið hið versta að nýju.

Þá gerist það að þingmenn Samfylkingarinnar beita sér af alefli fyrir því að svoleiðis sé samningurinn samþykktur. Það er merkilegt.

Rétt er það að við tókum um það ákvörðun fyrir tæpu ári að reyna að leita pólitísks samkomulags um Icesavemálið. En með þröngum skilyrðum, svo kölluðum Brusselviðmðum. Alþingi samþykkti hins vegar aldrei að semja ætti hvað sem það kostaði og upp á hvaða býtti sem væri. Það er eins og sumir virðist ekki hafa skilið þetta einfalda en þýðingarmikla atriði.

Það sem við ræðum núna er hins vegar samningsniðurstaða sem er óviðunandi. Það er með öðrum orðum efni samningins sem er til umræðu.

Það er þess vegna til marks um veruleikaflótta þegar stjórnarliðar reyna að leiða umræðuna frá þessum kjarna málsins. Því það sem nú er í boði er miklu slakara mál en það frumvarp sem Alþingi gerði að lögum með hinum efnismiklu breytingum. Fyrir Icesavesamninginn í hinum nýja búningi verða ábyrgðarmenn hans að svara -  og engir aðrir. Og ábyrgðarmennirnir eru stjórnarliðarnir sem ljáðu málinu stuðning í þingflokkum sínum fyrr í þessum mánuði og heimiluðu þar með ríkisstjórninni að staðfesta samninginn.

Frá þessu geta þeir ekki hlaupið, hversu fegnir sem þeir vildu.




Virkjun hugarafls og mannauðs

Háskólasetur VestfjarðaÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi menntamálaráðherra fjallar um háskólamálin á Vestfjörðum í dálkinum Önnur sjónarmið hér á síðunni. Þar rekur hún meðal annars tilurðina að stofnun Háskólasetursins á Vestfjörðum og fjallar almennt um starfsemi þess. Í grein hennar segir meðal annars:

"Í mars árið 2005 var Háskólasetur Vestfjarða formlega stofnað en stofnfélagar eru meðal annars allir háskólar landsins. Í því felst bæði styrkur og tækifæri. Hugsunin var fyrst og fremst að bæta aðgengi Vestfirðinga að háskólanámi og nýta styrkleika svæðisins til rannsóknar og þróunar á ákveðnum sviðum. Lengi vel voru háværar raddir um að stofna þyrfti sérstakan háskóla, þær raddir voru skiljanlegar en fyrst og fremst voru þær ákall um að styrkja innviði vestfirsks samfélags sem hefur átt á brattann að sækja. Metnaður og raunsæi flestra lá í því að koma háskólastarfsemi af stað sem raunverulega gæti fest rætur. Það er að gerast, hægt og sígandi en markvisst hefur Háskólasetur Vestfjarða fest sig í sessi. Þótt einhverjar úrtöluraddir hafi heyrst að sunnan og einnig meðal þeirra sem eru sérfræðingar í yfirboðum hvers konar og lýðskrumi, þá voru menn innan þess tíma ríkisstjórnar sammála um mikilvægi þess að taka ákvörðun um að fara af stað í verkefnið á grundvelli raunsæis, faglegrar þekkingar og metnaðar. Um þetta náðist gott samkomulag og einstök samvinna var við bæjaryfirvöld á Ísafirði."

Greininni lýkur Þorgerður katrín með þessum orðum:

"Ef svigrúm fæst munu fleiri tækifæri gefast fyrir Vestan. Við skulum forðast að draga úr þeim krafti sem þegar er farinn af stað í gegnum Háskólasetur Vestfjarða. Þótt ríkisstjórnin sjái virkjunum allt til foráttu er óskandi að hún leyfi þeirri virkjun hugarafls og mannsauðs að njóta sín áfram í gegnum skynsama uppbyggingu á háskólastarfsemi á Vestfjörðum.

Möguleikarnir eru margir. Við vitum af viskunni fyrir Vestan. Nýtum hana."

 




Hvorttveggja er jafn slæmt; verk og verkleysi ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn Jóhönnu SigurðardótturVandinn við ríkisstjórnina er tvenns konar. Annars vegar það að aðgerðarleysi hennar er að bitna harkalega á fólki og fyrirtækjum. Hins vegar virðist hún hafa eitthvað sérstakt lag á því að skapa vandræði og koma öllu til verri vegar þegar hún sýnir lífsmark. Það er því vandséð hvort er verra verk  hennar eða aðgerðarleysið.

Fjármálaráðherra afsakaði  óútfært fjárlagafrumvarp með því að menn hefðu verið svo uppteknir í stjórnsýslunni  við önnur verk að ekki hefði unnist tími til þess að ganga almennilega frá ýmsum endum fjárlagafrumvarpsins.

Þetta er ábyggilega rétt. Stjórnsýslan hefur til dæmis meira og minna verið á hvolfi í spurningaleik við ESB. Þar er verið að framleiða mörg hundruð blaðsíðna doðranta í hverju ráðuneyti með svörum handa Brussel. Síðan hefur ríkisstjórnin verið upptekinn með allt sitt starfsfólk við alls konar önnur mál, sem ekkert liggur á.

Ríkisstjórnin er maklega sökuð um aðgerðarleysi þegar kemur að þeim málum sem almenning og atvinnulífið  varðar mestu.

Félagsmálaráðherrann kynnir tillögur til hagsbóta fyrir heimilin í landinu, sem hann sinnti ekkert um fyrr en nú seint í haust. Þar með fór dýrmætur tími  og þar með hrundu óþarfa erfiðleikar yfir fjölskyldurnar í landinu vegna þess að forgangsröðunin var ekki í þágu heimilanna. Þannig birtist sem sé pólitísk stefnumótun. Það voru aðrir hlutir sem gengu fyrir. Flóknara er það ekki og ekkert þýðir fyrir ráðherra að þræta fyrir það.

Þetta gildir um verkleysi ríkisstjórnarinnar.

En svo kastar nú fyrst tólfunum þegar ríkisstjórnin gengur til verka. Þar er eins og allt gangi út á að búa til flækjustig og þvælast fyrir, til að mynda þegar kemur að atvinnumálunum. 

Eða er hægt að nefna eitthvað sérstakt sem gert hefur verið til þess að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu af hálfu ríkisstjórnarinnar?

Það er kallað eftir erlendri fjárfestingu. Launþegum og vinnuveitendum heitið að ekki verði lagðir steinar í götu slíks. En hvað gerist?  Ríkisstjórnin leggur ekki bara stein í götu atvinnuuppbyggingarinnar, heldur kemur af stað hreinni grjótskriðu til þess að þvælast fyrir. Og Skattmann sjálfur hótar ofurskattheimtu sem er á góðri leið með að hrekja burtu alla þá atvinnustarfsemi sem byggir á orkunotkuninni.

Það þarf einstaka hæfileika að geta í senn með aðgerðum og aðgerðarleysi bakað svona mikið tjón. Að þessu leyti  stendur ekkert ríkisstjórninni samjöfnuð. Hún er að þessu leyti alveg einstök.




Ekki er hægt að skaða það sem er ekki til

OECDDavid Carey sem er sérfræðingur hjá Efnahgs og framfarastofnuninni OECD, hefur misskilið eitthvað þegar hann tjáir sig um efnahagsmálin, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ríkisstjórnina. Sérfræðingurinn varar við því að við hættum samstarfi við sjóðinn, sem er efnislegt sjónarmið sjónarmið í sjálfu sér. En honum skýst að öðru leyti, þótt skýr sé.

Carey segir að slík ákvörðun myndi skaða trúverðugleika ríkisstjórnarinnar og tiltrú á að henni takist að koma efnahag landsins á réttan kjöl, eins og eftir honum er haft í fréttum Ríkisútvarpsins.

Ekki gengur þetta upp. Einfaldlega vegna þess að tiltrú ríkisstjórnarinnar er engin. Það er því ekki hægt að skaða það sem er ekki til. Og hér með er auglýst eftir einhverjum þeim sem hefur trú á því að henni takist að koma efnahag okkar á réttan kjöl. Sú auglýsing mun engan árangur bera, því hver segir það nema í gríni að ríkisstjórnin sé líkleg til afreka á efnahagssviðinu?

Ríkisstjórnin hefur komið fram með fjárlagafrumvarp sem helst mun leiða til þess að ofurbyrðar eru lagðar á landsmenn, atvinnulífið sligað, fæti brugðið fyrir alla viðleitni til atvinnuuppbyggingar, níðst sérstaklega á landsbyggðinni og skellt fram fyrirætlunum um skattahækkanir og nýja skattheimtu, sem ráðherrar vita ekki um en allir sjá að eru gjörsamlega óraunhæfar.

Ríkisstjórnin hefur klifað á því lungann úr árinu að uppbygging bankakerfisins sé á næsta leyti. Ekkert gerist. Ríkisstjórnin gerir Stöðugleikasáttmála við launafólkið og atvinnulífið og svíkur hann svo í hvert skipti sem hún kemur því við. Ríkisstjórnin gengur frá samningum um Icesave sem eru svo lélegir að hún er gerð afturreka. Ríkisstjórnin sinnir ekki þeirri frumskyldu sinni að koma til móts við almenning og fjölskyldurnar í landinu. Ríkisstjórnin kærir sig kollótta um þó að atvinnulífið riði til falls og heilar atvinnugreinar séu að hruni komnar.

Síðast en ekki síst er ríkisstjórnin óstarfhæf vegna innbyrðis sundurlyndis og logar nú stafnana á milli. Þessa dagana snúast allar hennar aðgerðir og ákvarðanir um að tryggja að líf hennar framlengist, hvað sem það kostar. Hagsmunir ríkisstjórnarinnar róa í fyrirrúmi, en allt annað rekur á reiðanum.

Það er þess vegna ekki hægt að skaða trúverðugleika ríkisstjórnarinnar af því að hann er ekki fyrir hendi. Ekki er heldur  hægt að veikja tiltrú manna á að henni takist að koma efnahag okkar á réttan kjöl, því slík tiltrú fyrirfinnst hvergi. Ekki einu sinni lengur í kolli ráðherranna.




Það tók þrjá tíma að ákveða að vera vinir

Vinstri grænirÞað tók þingflokk Vinstri grænna þrjá tíma að komast að því að þau ætluðu að gera eins og dýrin í Hálsaskógi, að vera vinir. Það hafði magnast upp mikil spenna. Steingrímur var sagður vera á heimleið úr sinni miklu Miklagarðsför, með kraftaverkið í vasanum. En ekkert gerðist. Nákvæmlega ekkert.

Nema ef vera skyldi faðmlögin í lyftu gamla Morgunblaðshússins, þar sem Vinstri grænir funduðu í gærkvöldi.

Vinstri græn hafa ekki þokast nær neinni niðurstöðu varðandi Icesavemálið. Um það snerist þó allur ágreiningurinn. Það var þess vegna sem Ögmundur Jónasson yfirgaf heilbrigðisráðuneytið.

Þess vegna er það í besta falli hlægilegt þegar því er lýst sem meiriháttar niðurstöðu að nú ætli allir að vera vinir í VG. Hvernig er þetta: Voru uppi einhverjar hugmyndir í þeim flokki um að allir ætluðu að vera óvinir?  Í hverju felast tíðindin af þessum fundi? Jú svarið er einfalt. Tíðindin felast í því að flokkurinn er jafn mikið úti í mýri og áður.

Það geta heldur ekki talist til tíðinda að flokkur sem myndaði ríkisstjórn í maí ætli nú í október byrjun að halda sig við þá ákvörðun. Sérstaklega vegna þess að allir sem þar geta valdið vettlingi hafa verið með stöðuga svardaga um tryggð sína við ríkisstjórnarsamstarfið við Samfylkinguna.  Auk þess sem heilli breiðsíðu hefur verið hrundið af stað til þess að þrengja að uppreisnarliðinu í VG og fá það til þess að hætta öllu múðri. Á það benti ég í gær hér á blogginu.

En þetta stendur þá eftir. Fundurinn í gær var greinilega árangurslaus þar sem árangurs var þó þörf;  fyrir flokkinn og fyrir ríkisstjórnina. Umboðið til formanns flokksins varðandi Icesave nær til þess að hann fær fararleyfi til funda við Hollendinga og Breta. Annað ekki. Deilan sem öllu hleypti í bál og brand – ágreiningurinn um Icesave – er alveg jafn óleyst sem fyrr.  Ríkisstjórnin mun skrölta áfram, lifandi dauð og enn síður fær en nokkru sinni áður til að taka á því sem máli skiptir í þjóðfélaginu og aðstæður kalla á.




Breiðsíðan gegn Ögmundi

Ögmundur JónassonÞeir eru komnir af stað með hræðsluáróðurinn. Þegar Ögmundi Jónassyni er þrýst út úr ríkisstjórninni, þá fara þeir á kreik sem reyna að gera hann tortryggilegan. Fyrst formaður VG, sem lætur í veðri vaka að verkefnin í Heilbrigðisráðuneytinu hafi verið Ögmundi  ofviða. Hann hafi gefist upp fyrir viðfangsefninu. Það er ekki að undra þó Ögmundi Jónassyni sárni, eins og hann segir í Morgunblaðinu í dag.

Og í dag er heil breiðsíða lögð af stað til þess að leiða fráfarandi heilbrigðisráðherra  frá villu hans vegar,  með  lítt dulbúnum hótunum .

Bara í dag eru þau fjögur sem skrifa í þessa veru í dagblöðunum.

Jóhann Hauksson fréttaskýrandi, verður seint  af nokkurri sanngirni,  sakaður um velvild í garð Sjálfstæðisflokksins. Hann skrifar mikla frasagrein um háskann sem hlotist geti af því að víkja af vegi ríkistjórnarinnar, af því að það kunni að efla  Sjálfstæðisflokkinn. Og hans tónn er:þessi: Ætlar Ögmundur Jónasson að varpa á glæ sögulegu tækifæri til samstarfs vinstri flokkanna, með því að láta samviskuna þvælast fyrir sér í Icesavemálinu.

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og rithöfundur skrifar pistil í Fréttablaðið  í dag og kallar ákvörðun Ögmundar  „hégómafulla  píslarvættistilhneigingu“ , - „sem kunni að koma í veg fyrir að landsmenn eigi til hnífs og skeiðar næstu árin“,; það má ekki minna vera.

Og áhrifamaður í Vinstrihreyfingunni grænu framboði,  Sverrir Jakobsson skrifar síðan grein í sama blað í dag og víkur að málflutningi forystumanna Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna og fer um hann mjög hörðum orðum. En segir síðan Ögmund nánast orðið handbendi þessa máflutnings og segir svo: „Það sem er þó furðulegast af öllu er að þessi þjóðrembumálflutningur hafi nú glapið hinn ágæta mann Ögmund Jónasson og hann taki nú þátt í vitleysunni“.

Og loks er á baksíðu Fréttablaðsins pistill eftir gamlan frambjóðanda VG, Kolbein Óttarsson Proppé, sem klappar þann steininn sem drýgstur er talinn verða í í hræðsluáróðrinum gegn öllum sem ekki lúta því almætti sem ríkisstjórninni ræður.  Tónninn er þessi. Ef menn hlýða ekki foringjunum er þessi merka tilraun til myndunar vinstri stjórnar farin út um þúfur og það er mikill skaði. Því segir pistlahöfundurinn: „Hún er því mikil ábyrgðin sem hvílir á herðum þeirra stjórnarliða sem véla um framtíð stjórnarinnar. Vonandi bera þeir gæfu til að setja eigin persónu til hliðar og horfa á hugsjónirnar. Annars eru þeir ekki merkilegir stjórnarmálamenn.“

Það er augljóst að þessum skrifum er ætlað að veikja stöðu Ögmundar Jónassonar og hræða menn frá því að andmæla nokkru sem máli skiptir og kemur frá ríkisstjórninni. Menn eiga að ganga í takt, í þágu hins mikla málstaðar; í samræmdu göngulagi fornu.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband