Hve mörg hjól undir bílnum?

Engar áhyggjur við kyrjum á kafi í vatni og leirÞeir sem skáldlegastir eru, vitna gjarnan í stórskáldin í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, líkt og þeirri sem fór fram í gærkveldi. Margt var þar vel mælt og eitthvað um ívitnanir í skáldin okkar. Ég saknaði þó eins ljóðs sem lýsir betur ríkisstjórninni og ástandinu á stjórnarheimilinu en flest annað. Þetta er auðvitað hinn sigildi kveðskapur Ómars Ragnarssonar, Þrjú hjól undir bílnum, sem er eins konar líkingasaga – allegóría – um vesalings ríkisstjórnina.

Þessi tæplega hálfrar aldar kveðskapur á mikið erindi við okkur og er hér með lagt til að ríkisstjórnin hefji fundi sína á þriðjudags og föstudagsmorgnum með því að syngja þetta kvæði. Það er vel viðeigandi þegar í hlut á ríkisstjórn, þar sem allt er á heljarþröm, en  samt er látið sem ekkert sé, sbr. ræður stjórnarliða í gærkveldi.

Þrjú hjól undir bílnum

Þrjú hjól undir bílnum,

en áfram skröltir hann þó.

En öræfaþokan eltir dimm

með kolsvart él, sem kæfir vél,

en við kyrjum samt kát í næði og ró.

 

við syngjum:Hibbidí-hæ og hibbidí-hí,

svo bergmálar fjöllunum í.

Hérna rétt sunnan við hálsinn er sæluhús,

við gætum sofið þar öll,uns birtir á ný.

 

Tvö hjól undir bílnum,

en áfram skröltir hann þó.

Í sumarfrí á fjallaslóð,

fárviðri hvín, dagsljós dvín,

en við kyrjum samt kát í næði og ró.

 

við syngjum:Hibbidí-hæ og hibbidí-hí,

svo bergmálar fjöllunum í.

Hérna rétt sunnan við hálsinn er sæluhús,

við gætum sofið þar öll,uns birtir á ný.

 

Eitt hjól undir bílnum,

en áfram skröltir hann þó.

Yfir grjót og urð, upp í hurð,

með hikst og hóst í hlíðargjóst,

en við kyrjum samt kát í næði og ró.

 

við syngjum:Hibbidí-hæ og hibbidí-hí,

svo bergmálar fjöllunum í.

Hérna rétt sunnan við hálsinn er sæluhús,

við gætum sofið þar öll,uns birtir á ný.

 

Ekkert hjól undir bílnum,

hann áfram skröltir ei meir.

Hann liggur á hlið, í hyldjúpri á,

straumurinn gjálfrar gluggum á.

En við kyrjum á kafi í vatni og leir.

 




Rangt, félagi Ögmundur!

Ögmundur JónassonÖgmundur Jónasson segir að í stórum málum eins og Icesave eigum við að rífa okkur upp úr pólitísku skotgröfunum. Það er ýmislegt til í því. Icesave málið er þeirrar gerðar að þar eigum við að snúa saman bökum sem Íslendingar, í deilu við þá stóru og öflugu; Hollendinga, Breta, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þá aðra sem eru að reyna að þvinga okkur til nauðungar.

En á sama tíma og þingmaðurinn slær þennan sáttatón skrökvar hann því upp á okkur sjálfstæðismenn að í okkar hópi hafi þeir verið til sem vildu láta Icesave samning Steingríms J. og Jóhönnu yfir okkur ganga. Þetta er tilhæfulaust og gerir Ögmund ákaflega ótruverðugan þegar hann hvetur til þess að menn þvert á flokkslínur, snúi bökum saman.

Þegar Ögmundur hefur yfir svona máflutning þá er hann auðvitað bara kominn ofan í kunnuglegar skotgrafir sínar. Hér birtist okkur, VG þingmaður að ráðast að pólitískum andstæðingum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Flóknara er það ekki. Verst er að í þetta skipti fer hann með staðlausa stafi.

Sannleikur málsins er þessi: Ríkisstjórnin vann Icesave samkomulagið á eigin forsendum. Þess var vandlega gætt að hafa ekki samráð við stjórnarandstöðuna. Okkur var sagt að engir formlegir samningafundir hefðu átt sér stað, en tveimur dögum seinna var búið að ljúka samningagerðinni. Forystumenn ríkisstjórnarinnar og þeirra talsmenn lögðu ofuráherslu á að ljúka málinu í einum hvelli og helst að láta þingið fallast á takmarkalitla ríkisábyrgð; helst án þess að hafa fengið svo mikið sem að berja samninginn augum.

Ríkisstjórnin hafði hins vegar ekki vald á málinu. Vegna þess að stjórnarandstaðan var málinu mjög andsnúin ásamt nokkrum þingmönnum úr VG.

Það er þess vegna gróflega dapurlegt að sjá Ögmund Jónasson gera tilraun til þess að endurrita söguna í því skyni að fegra stöðu sína og ríkisstjórnarinnar. Og að minnsta kosti eru slík vinnubrögð lítt til þess fallin til þess að styrkja þverpólitískt samstarf í þessu máli, þar sem þess gerist þó mikil þörf.




Formaðurinn fékk leyfi til að kaupa sér farmiða

Steingrímur J.Staða Icesavemálsins er í rauninni óbreytt frá því sem hún var þegar Alþingi samþykkti fyrirvara við ríkisábyrgðina 28. ágúst síðast liðinn. Samfylkingin samþykkti opna heimild til ríkisstjórnarinnar til þess að ganga frá málinu. En þingmenn VG gáfu ríkisstjórninni í rauninni bara heimild til þess að fara til samninga. Engin trygging er hins vegar fyrir stuðningi úr þeim flokki við mögulega niðurstöðu. Afstaða einstakra þingmanna mun ráðast af efni máls. Líki þeim niðurstaðan ekki munu þeir ekki fallast á hana.

Mjög var látið í veðri vaka að báðir stjórnarflokarnir hefðu gefið ríkisstjórninni lausan tauminn í þessu máli. Það reyndist ekki svo þegar nánar var að gáð. Í rauninni má segja að þingflokkur VG hafi einungis gefið formanni sínum, fjármálaráðherranum, fararleyfi; heimild til þess að kaupa sér farmiða til útlanda til þess að hitta fulltrúa Hollendinga og Breta. Að öðru leyti er málið jafn opið sem fyrr.

Það er ljóst að tilgangur Breta og Hollendinga með viðræðum við okkar stjórnvöld er sá að snúa niður einhvern hluta þeirra fyrirvara sem við málið var settur. Fram hefur komið að þeir eru ósáttir við sitthvað í fyrirvörunum. Meðal annars hefur komið fram að þeir uni því ekki að ríkisábyrgðin falli niður á árinu 2024. Forsætisráðherra hefur síðan sagt að meiri fyrirstaða sé við niðurstöðu Alþingis en upphaflega hafi verið talið.

Það er því ljóst að þrýstingurinn verði á íslensk stjórnvöld að gefa eftir.

Þá er rétt að hafa í huga að mjög var togast á um þessi mál í meðferð Alþingis. Stjórnarliðar margir voru tregir til þess að setja fyrirvara. Er þar skemmst að minnast stórkarlalegra yfirlýsinga um að ganga ætti frá málinu undanbragðalaust og strax. Málið átti að kýla í gegn með látum og helst að samningnum sjálfum óséðum, svo ótrúlegt sem það nú er. Ríkisstjórnin hafði hins vegar ekki vald á þeirri atburðarás og varð þess vegna að lúta þeim vilja Alþingis sem kom fram í lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi hefur sagt skoðun sína. Eigi að breyta þeirri niðurstöðu getur þingið eitt gert það. Því þó ríkisstjórnin hafi mikla löngun til þess að stjórna með tilskipunum í þessu máli eins og öðrum, þá er það ekki á hennar valdi. Flóknara er það nú ekki.




Vígbúumst til varnarbaráttu

ÍslandskortÞað er gömul saga og ný að þegar kemur að því að herða að ríkisrekstrinum, þá birtast alltaf tillögur sem ganga út á að skera niður eins fjarri höfuðstöðvum stofnana og hægt er. Lítil útibú úti á landi, litlar ríkisstofnanir og annað þess háttar verða alltaf efstar á óskalistanum þegar farið er í þessi verk.

Nú höfum við minna úr að spila, það er nauðsynlegt að draga saman seglin og sjá; upp fara að dúkka tillögur sem munu hafa það í för með sér að opinber starfsemi úti á landi verður einkanlega fyrir hnífnum. Fækkun sýslumannsembætta og sameining skattstofa eru klassísk dæmi og þeim dæmum mun fjölga.

Þarna eru þó ekki stóru hagræðingarmöguleikarnir, en þetta eru þægilegustu hugmyndirnar, fyrir þá sem sitja suður í Reykjavík og hafa það verkefni með höndum að lækka útgjöld.

Það þarf ekki að rekja hina löngu raunasögu sem hefur verið í kring um þá eðlilegu viðleitni að efla atvinnustarfsemi á landsbyggðinni með því að ætla henni einhvern skerf af þeriri gríðarlegu þjónustu sem ríkið veitir. Það hefur sannarlega miðað dálítið áleiðis á síðustu árum; en alltof lítið samt. Við vitum að það er vandræðalaust að staðsetja ríkisstörf utan höfuðborgarinnar, en þar hefur af ýmsum ástæðum verið við ramman reip að draga.

Í þenslunni var þessi barátta líka mjög ójöfn Nokkur ríkisstörf á landbyggðinni dugðu lítið til þess að hamla á móti atvinnuuppbyggingunni sem varð til dæmis í bönkunum, þjónustugreinunum og byggingarstarfseminni, á höfuðborgarsvæðinu á velmektardögum þessarar atvinnuuppbyggingar..

En samt skipti þessi opinbera starfsemi á landbyggðinni miklu máli. Þarna urðu til störf sem svöruðu óskum samtímans, unga fólksins sem hafði aflað sér menntunar og krafðist fjölbreytni í starfsvali á heimaslóðum. Nú þegar harðnað hefur á dalnum, sjáum við þýðingu þessarar viðleitni til styrkingar atvinnulífsins á landbyggðinni í nýju ljósi.

Það er þess þess vegna gríðarlega brýnt núna að vera vel á verði. Kerfið malar hægt - en örugglega. Það verður mikil tilhneiging til þess að leggja af opinberu atvinnustarfsemina á landbyggðinni. Við sem erum því andvíg þurfum þess vegna að fara að undirbúa okkur undir það að vígbúast til þeirrar varnarbaráttu; hvar í flokki sem við stöndum. Nú þurfum við að gæta vel að okkur.




Af hverju taka þeir þá ekki völdin af Seðlabankanum?

SeðlabankinnRíkisstjórnin verður æ aumkunarverðari. Nú segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að Peningastefnunefnd Seðlabankans gæti komið saman að nýju til þess að ákvarða lægri vexti. Þessi ummæli lýsa þeirri örvæntingu sem umlykur alla efnahagsstjórn í landinu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eins og það sé nú líklegt að nefndin fari að setjast ótilneydd að fundarborði sínu til þess að breyta nokkurra klukkustunda ákvörðun !

Svona angistarvein hafa svo sem áður heyrst frá ríkisstjórnarborðinu. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði álíka í júníbyrjun, þegar henni varð svarafátt á Alþingi vegna vaxtaákvörðunar Seðlabankans á þeim tíma. Þá var þrautaráðið að ákalla Seðlabankann og biðja hann um aukafund. Þannig slapp forsætisráðherrann í gegn um umræðuna og nú hefur fjármálaráðherrann beitt sama trikkinu.

Skemmst er frá því að segja að í Seðlabankanum kærði hinn norski seðlabankastjóri sig kollóttan og ansaði ákalli forsætisráðherrans í engu. Og þannig verður það auðvitað líka núna.

Er ekki rétt að rifja það upp að það voru þessir hæstvirtu ráðherrar sem bera ábyrgð á því fyrirkomulagi sem nú ríkir við vaxtaákvarðanir.

Munum að þegar ríkisstjórninni lá sem mest á að koma Davíð Oddssyni úr Seðlabankanum var flutt sérstakt frumvarp, sem eftir miklar innantökur í ríkisstjórninni var samþykkt að loknum breytingum, sem lög frá Alþingi. Lögin fólu það í sér að það er sérstök Peningastefnunefnd sem ákveður vextina. Þetta kerfi lofsungu ráðherrarnir þá, undirstrikuðu mikilvægi sjálfstæðis bankans og glöddust yfir faglegum vinnubrögðum sem upp væru tekin.

Mislíki ráðherrunum ákvarðanir bankans og telji þær rangar og skaðlegar eiga þeir einn raunverulegan kost. Þeir geta flutt frumvarp um að taka ráðin af Peningastefnunefndinni. Það stoðar ekkert að kvarta og stynja undan ákvörðunum bankans, eða reyna að bjarga í horn með því að ákalla bankann um aukafund. Ef ráðherrarnir meina eitthvað með tali sínu um að vextirnir séu of háir þá taka þeir völdin af Peningastefnunefndinni með lögum. Geri þeir það ekki er það staðfest sem allir vita ósköp vel, að það er engin alvara á bak við kveinstafi þeirra út af vöxtunum.




Ríkisstjórnarflokkarnir farnir að stunda hópefli - loksins

HópefliÞað kom nokkuð á óvart að menn teldu frétta að vænta af löngum ríkisstjórnarfundi í gær og sameiginlegum fundi þingflokka VG og Samfylkingar. Hvernig datt mönnum í hug að tíðinda væri að vænta? Ríkisstjórninni líður vel í ráðleysi og dáðleysi sínu og ekki frekari tíðinda að vænta. ESB aðildarviðræður eru hafnar og menn komnir á kaf í að mæla grassprettu í 800 metrum ofan sjávarmáls og skoða blessaða álastofnana. Er hægt að ætlast til einhvers meira af sípuðandi ráðherrunum?

Enda kom það á daginn. Spunameistararnir höfðu reynt að blása út vægi þessara funda, en í ljós kom að ekkert var þar að baki. Fréttamenn kvörtuðu sáran yfir því að vera hafðir að fíflum allan liðlangan daginn; yfir engu, bókstaflega engu.

Það vekur helst athygli langminnugra, að ráðherrarnir eru farnir að nota sömu hugtökin og krataráðherrarnir í upphafi tíunda áratugsins þegar þeir voru að segja okkur tíðindi af fyrirhuguðum álverum; sem vel að merkja komu aldrei. Nú tala ráðherrarnir eins og kratarnir þá um "landsýn í málinu". Eiga núna við Icesave, eins og lesa má um á bls 2 í Morgunblaðinu í dag.

Afraksturinn af öllu fréttapúlinu var sá að ríkisstjórnarflokkarnir slógu sér saman um ein salarkynni fyrir þingflokksfundi sína. Þeir fóru semsé í einhvers konar hópefli.

Það er eitt það skynsamlegasta sem ríkisstjórnarþingflokkarnir hafa gert. Ekki veitir af. Við vitum að þeir eru út og suður í öllum málum. ESB, Icesave svo og önnur málin stór og smá. Nú síðast er allt upp í loft vegna orku og iðnaðararframkvæmda. Þótt iðnaðarráðherrann okkar láti eins og allt sé friði og spekt í þessu máli. Annað blasir við öllum þeim sem vilja heyra og sjá.

Það er því svo að sjá að ofan í allt annað heimilisböl á stjórnarheimilinu, sé skollin á meiriháttar meðvirkni, þar sem heimilisfólkið þykist ekki taka eftir því þegar ágreiningur hefur blossað upp í stórmálum. Ætli hópefli nægi til að ráða bót á því?




Ríkisstjórnin þvælist fyrir

Þrautabraut ríkisstjórnarinnarFlestir fögnuðu Stöðugleikasáttmálanum, sem var tilraun stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að búa til endurreisnaráætlun og efnahagsplan fyrir komandi mánuði og misseri. Ekki vantaði fagnaðarópin úr Stjórnarráðinu þegar þessi mikilvægi áfangi var í höfn. Nú þremur mánuðum eftir að hann var undirritaður tala þeir sem að honum stóðu um að hann sé í uppnámi; allir nema ríkisstjórnin okkar lánlausa, sem telur að allt gangi vel.

Þetta er auðvitað til marks um þá firringu sem ríkir í stjórnarherbúðunum. Viðvaranir launþega og atvinnulífs ná greinilega ekki inn í fílabeinsturninn við Lækjartorg. Þar eru allir svo sælir og glaðir við að telja ála í ám landsins og meta grassprettu í 800 metra hæð ofan sjávarmáls.

En hvað er það sem menn telja að úrskeiðis hafi farið hjá ríkisstjórninni við framkvæmd Stöðugleikasáttmálans? Fljótlegra væri kannski að telja það upp sem enn má telja í lagi og snýr að því sem telja má á ábyrgð ríkisvaldsins.

Nefnum fyrst málefni heimilanna. Það vita allir að það mál var lagt til hliðar fyrir ESB málum, Icesave og gæluverkefnum ráðherranna. Núna fyrst þegar pólitíski þrýstingurinn er orðinn óbærilegur er farið að huga að þeim. Þessi vinnubrögð gagnrýna meðal annars launþegasamtökin harðlega. Ríkisstjórnin þrætir og sýnir þar með virðingarleysi sitt gagnvart almenningi í landinu.

Víkjum svo að vöxtunum. Forsætisráðherra sagði í júní að þeir ættu að lækka og kalla mætti saman aukafund peningamálastefnunefndar Seðlabankans til þess arna. Enginn hlustaði á ráðherrann. Síðan hefur nefndin komið þrisvar saman og ekki hreyft við vöxtunum. Enginn býst við því að þeir lækki á næstunni. Þó var um það rætt í Stöðugleikasáttmálanum að vextir skyldu komnir niður í eins stafs tölu um þeta leyti.

Svo átti að spýta í atvinnusköpunina með kröftugum stórframkvæmdum í samgöngumálum, orku og iðnaðarmálum. Þar er veruleikinn sá að ráðherrarnir svara ekki einu sinni spurningum fyrirtækja sem vilja framkvæma, sbr. Spöl og þvælast fyrir öllum orku og iðnaðarframkvæmdum eins og þeir lifandi geta .

Vandi Stöðugleikasáttmálans er þess vegna fólginn í ríkisstjórninni. Hún veldur óstöðugleika, með stórfurðulegri forgangsröðun og aðgerðaleysi  í bland. Þegar hún á að stuðla að stöðugleika ruggar hún bátnum, þegar hún á að greiða fyrir málum flækist hún fyrir. Ríkisstjórnin er þess vegna vandamálið.




Frétt úr heimi spunans

SamfylkinginSakleysisleg frétt í Ríkisútvarpinu í gærkveldi opnaði manni örlitla sýn inn í hugaheim hins pólitíska spuna, sem þeir kunna svo vel í Samfylkingunni. Kjarni fréttarinnar var svona: Þingflokkur Samfylkingarinnar vill að nýr Landspítali, Búðarhálsvirkjun og Suðurlandsvegur verði meðal þeirra framkvæmda sem lífeyrissjóðirnir taki þátt í að fjármagna.

Þá vitum við það. Þetta er vilji Samfylkingarinnar. En hvað með hinn stjórnarflokkinn? Hvað vill hann? Og svo kemur hin óhjákvæmilega spurning: Er þetta skoðun ríkisstjórnarinnar?

Því var ekki svarað í þessari frétt, enda tilgangurinn örugglega ekki sá. Tilgangurinn var ósköp einfaldlega sá að stimpla það inn að Samfylkingin vildi þessar framkvæmdir. Þar með næst líka tvíþættur tilgangur.

Í fyrsta lagi að setja pressu á Vinstri græna, enda vita allir að mikil og vaxandi ólga er í samfélaginu vegna þess hve allar ákvarðanir um framkvæmdir eru að dragast. Svo mjög að ASÍ og Samtök atvinnulífsins telja að ríkisstjórnin sé með aðgerðarleysi sínu að setja Stöðugleikasáttmálann í hreint uppnám.

Hitt er það svo auðvitað að geta vísað til þessara frétta þegar og ef þessar framkvæmdir verða að veruleika.

Þessi frétt var spuni af þeirri sort sem við höfum stundum séð og við vitum að þeir kunna vel í Samfylkingunni. Rykti hins gamla spunameistaraþríeykis, sem Framsókn var með forðum tíð og alþekkt var, fölnar nú smám saman í samanburðinum við hið vel smurða teymi í Samfylkingunni.




Hvað er að frétta af álastofnum í ám á Íslandi?

ÁlarEins og allir vita þá hefur ríkisstjórnin lagt höfuðáherslu á að slá skjaldborg um hag heimilanna. En það er flókið mál sem tekur til margra þátta sem ekki blasa kannski við svona við fyrstu sýn.

Núna sitja til dæmis „sveitir“ starfsmanna Stjórnarráðsins (svo orðalag ættað frá Ólafi Ragnari Grímssyni sé notað) við að ráða í krossaprófin sem Brussel hefur sent hingað til lands til úrlausnar. Enginn skyldi gera lítið úr þýðingu þess. Við munum að hinir vænstu menn úr Samfylkingunni sögðu okkur að ákvörðunin ein um að sækja um ESB aðild væri snar og mikilvægur þáttur í að kippa efnahagslífinu, fyrirtækjunum og efnahag heimilanna í lag. Enginn efast um sannleiksgildi þeirra orða.

Það er þess vegna ástæða til þess að hvetja alla til að lesa krossaprófið mikla frá Brussel. Spurningarnar komast fyrir á tæplega 400 blaðsíðum. Og þar getur nefnilega heldur betur að líta. Það er ljóst að þegar í þær rúnir hefur verið ráðið mun blasa við okkur ítarleg haglýsing á Íslandi. Spurningarnar eru svo fjölþættar að fátt mannlegt hér á landi lætur Brussel sér óviðkomandi.

Þetta á við í stóru sem smáu. Skrifari þessara orða hefur t.d rennt yfir spurningar um landbúnað og sjávarútveg, sem er ótrúlega fróðleg – og  hvað skal segja – athyglisverð lesning !

Á sviði landbúnaðar er spurt ítarlega um hvaðeina sem snertir landbúnað, neysluvenjur, umfang, einstakar búgreinar, styrki, lífræna ræktun og áfram mætti telja. Og síðan snúa menn sér að aðalatriðunum. Þá er spurt  um stöðu landbúnaðar sem fram fer ofan 800 metra fyrir ofan sjávarmál, landbúnað í bröttum hlíðum, landbúnað þar sem hallinn í landslaginu er innan við 15% svo fátt eitt sé nefnt. Í Brussel vilja menn líka vita hversu margir til sveita hafi ekki aðgang að rennandi vatni, síma í fastlínukerfi, eða rafmagni. Og svo vilja þeir líka vita um þau landsvæði þar sem grasspretta er minna en 80% af meðal sprettu í landinu.

Og ekki eru þeir í Brussel minna forvitnir um sjávarútveginn. Þeir spyrja til dæmis grundvallarspurninga um fiskneyslu Íslendinga, enda skiptir það auðvitað meginmáli fyrir sjávarútvegsþjóð sem flytur nánast út alla sína framleiðslu. Beðið er um útlistun á flotastjórn og stjórn auðlinda, því smámáli - í hnitmiðuðu formi.

Og síðan snúa menn sér að kjarna málsins. Sem er auðvitað töluliður 26 í B lið 1. kafla um Auðlinda og flotastjórn – helstu einkenni íslensks sjávarútvegs. Og þar spyrja þeir í Brussel um það hvernig við stjórnum nýtingu á álastofnum, hvernig við mælum afleiðingarnar af mannvirkjagerð í ám á stöðu álastofna og hvernig háttað sé stjórnuninni á þessu þýðingarmikla málasviði.

Manni verður strax mikið rórra við að vita að stjórnsýslan okkar sé nú önnum kafin við slík verkefni. Öll vitum við að tímanum verður örugglega ekki betur varið. Það eru örugglega þessi verkefni sem almenningur í þessu landi er að kalla eftir. Við vitum að núna getum við öll andað léttar, vitandi að ekkert er gefið eftir að ljúka þessu þýðingarmikla verkefni.




Lesið það af vörum mínum....

Skjaldborg!Stundum hitta einstök orð eða setningar svo rækilega í mark að þau fylgja mönnum út ævina og kannski lengur. Ein snjöll setning, eða óheppilegt orð verða eins konar fylginautar til framtíðar. Nefna má margvísleg dæmi frægra og óþekktra einstaklinga, ef út í það er farið.

Jóhönnu Sigurðardóttur fylgir fræg setning sem hún lét falla á flokksþingi Alþýðuflokksins eftir að hafa lotið í lægra haldi í formannskjöri fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni: "Minn tími kemur." Þetta urðu áhrinsorð í ljósi þess sem síðar varð og eru oft rifjuð upp.

En ekki eru allir svona heppnir - og ekki hefur Jóhanna alltaf verið svona heppin.

Fræg urðu að endemum orð Geoge Bush eldri á flokksþingi Republikanaflokksins þegar hann sagði: Lesið það af vörum mínum, enga nýja skatta.

Þá var hann að bjóða sig fram sem forseta Bandaríkjanna, náði því markmiði sínu og hækkaði skatta og lagði á nýja skatta, til að ná fram nauðsynlegum markmiðum um lægri ríkissjóðshalla. Orð gamla Bush hafa síðan fylgt honum sem skugginn og orðið eins konar táknmynd þeirra sem svíkja loforð, sem fólk hefur jafnvel á tilfinningunni að aldrei hafi verið ætlunin að standa við.

Nú erum við íbúar lýðveldisins búin að eignast álíka setningu, sem fylgir höfundinum eins og skugginn alla daga og vekur nú orðið sterk viðbrögð, sem eru í bland:  réttlát reiði, fyrirlitning, hæðnishlátur og sársauki. Þetta eru hin alræmdu orð Jóhönnu Sigurðardóttur: "Við ætlum að slá skjaldborg um heimilin".

Það þarf ekki að hafa um þetta nein fleiri orð. Það vita allir að þetta var merkingarlaust og innantóm hjal; mas án innistæðu. Það trúir þessu enginn lengur. Ríkisstjórnin hefur haft nægan tíma til þess að breyta þessum orðum í verk. En hún gerði það ekki. Annað var brýnna, að hennar mati, eins og má sjá með því að skoða þau mál sem þingið hefur afgreitt nú í sumar. Ríkisstjórninni er slétt sama. Skjaldborgartalið er orðið að lélegum brandara sem enginn sómakær einstaklingur orðar lengur.

Eða hafa menn heyrt forsætisráðherrann eða aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar taka sér þennan úr sér gengna frasa í munn ? Auðvitað ekki. Þessi orðaleppur er kominn á sama stað og orðin hans Bush. Þetta eru orð sem enginn þorir lengur að láta út fyrir sínar varir. Því sá sem það gerir verður að verða þess albúinn að reyna að bjarga sér á flótta; mjög hröðum flótta.

 




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband