6.9.2009 | 21:51
Sest við krossaprófin á samdráttartíma
Á sama tíma og ráðuneyti og stofnanir þurfa að skera niður útgjöld sín, leggur ríkisstjórnin ofuráherslu á að vinna í umsókn um ESB aðild. Það þýðir ekkert fyrir Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra að skæla yfir örlögum sínum í ESB málinu eins og hann gerir nú í viðtölum. Hann kaus sér þetta hlutskipti sjálfur. ESB umsóknin var aðgöngumiðinn sem hann varð að reiða fram til þess að geta fengið pláss við ríkisstjórnarborðið.
Sé hann svekktur og stynji undan þeim örlögum að standa fyrir umsókn um aðild að ESB, getur hann ekkert snúið sér nema að sjálfum sér. Vinstri grænir eru jafn ábyrgir fyrir ESB umsókninni og Samfylkingin. ESB umsókn er jafnt í boði VG og Samfylkingar.
Á sama tíma og okkar litla stjórnsýsla ætti að einbeita sér að vandanum sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum, mun orkan fara mjög mikið í að svara krossaprófum ESB furstanna. Stjórnsýslunni verður gert að einbeita sér að þessu mikla verkefni. Skjaldborgin víðfræga fær að bíða. Það liggur meira á þessu með ESB.
Til þessa ESB máls er þó ekki ætlaður mannafli. Upplegg ríkisstjórnarinnar er að þetta megi gera með lágmarkstilkostnaði. Við vitum þó öll að það er tóm vitleysa. Á það benti ég í umræðum um málið á Alþingi.
En mikið lá við í þessu máli. Hreinum blekkingum var beitt í því að mylgra málinu í gegn um þingið. Látið eins og hægt væri að taka menn úr öðrum verkum í stjórnsýslunni til þess að sinna þessu mikla verki.
Auðvitað vissu menn betur. Það er allsendis óraunhæft að hægt sé að taka menn úr öðrum verkum í stórum stíl til þessara verka. Síst af öllu á samdráttartímum.
En þetta segir það sem segja þarf um forganginn hjá þessari guðsvoluðu og lánlausu ríkisstjórn. Minna fé í menntun og velferðarmál. Meiri áhersla á krossaprófin frá Brussel. Og það í boði Vinstri grænna.
4.9.2009 | 08:12
Stórkostlegur áfangi
Ísafjarðardjúpið var lengi farartálmi. Baráttan við að klára vegagerð um Djúpið hefur verið hvað efst á forgangslista þeirra verkefna í samgöngumálum sem við Vestfirðingar höfum rætt um. Það er því ekki neinn smá áfangi í höfn, nú þegar við ökum Ísafjarðardjúpið allt á malbikuðum, beinum og breiðum vegi. Við getum auðvitað öll sagt með sanni að nú sé stór draumur loks að rætast.
Brúin yfir Mjóafjörð er glæsilegt og mikið mannvirki. Þverun Reykjafjarðar er hrein bylting. Við erum laus við farartálmann Hestakleif og heilsársleiðin um Djúpið styttist umtalsvert.
Gleymum því ekki að það er í rauninni ótrúlega stutt síðan að Ísafjörður og norðanverðir Vestfirðir komust í raunverulegt akvegasamband við aðal þjóðvegakerfi landsins. Það eru ekki nema 50 ár síðan vegurinn um Dynjandisheiði var tekin í notkun. Þá loks komst á akvegasamband; en aðeins hluta ársins og um afleitan veg á nútímamælikvarða.
Vegurinn um Ísafjarðardjúp var tekinn í notkun fyrir 34 árum, haustið 1975. Fyrir þann tíma fóru menn um Djúpið með gamla Fagranesinu, bílarnir hífðir um borð með klöfum, siglt inn að Arngerðareyri og ekið upp Langadalinn og um Þorskafjarðarheiði. Steingrímsfjarðarheiðin var ekki einu sinni komin á teikniborðið.
En líkt og ég sagði við vígslu Mjóafjarðarbrúar inni í Reykjanesi í gær, þá eru vegir einu sinni þannig að þeir verða strax barn síns tíma. Um leið og einn áfangi næst, förum við að hyggja að næsta skrefi. Eftir að búið var að leggja veg um Djúpið, hófst baráttan fyrir því að bæta hann, breikka, leggja bundið slitlag, færa hann frá snjóaköflum og svo framvegis. Allt kunnuglegt og þannig mun það verða áfram.
Nýi vegurinn um Djúpið er stórkostlegur, en samt þarf að bæta á honum kafla. Yst í Hestfirði er hættulegur og mjór kafli, í Seyðisfirðinum er vegurinn alltof mjór og veikburða. og einnig að hluta í Álftafirði. Þannig höldum við áfram að þoka áfram framfaramálunum.
En í dag gleðjumst við yfir nýjum áfanga og hlökkum til þess að Armkötludalurinn verði tekinn í notkun í lok mánaðarins. Þá sjáum við stórkostlega hluti gerast með því að lokið verði tengingu norðanverðra Vestfjarða og Stranda með alvöru nútímavegi við þjóðvegakerfi landsins.
31.8.2009 | 09:20
Niðurstöðunni troðið þversum ofan í kok ríkisstjórnarinnar
Því má alls ekki gleyma að Samfylkingin og Steingrímsarmur Vinstri grænna vildi alls engar breytingar gera á Icesavemálinu. Þegar frumvarpið um ríkisábyrgð á Icesave, kom fyrir Alþingi læstu þessi stjórnmálaöfl saman örmum sínum til þess að verja Icesavesamninginn óbreyttan og vildu samþykkja galopna, ótakmarkaða ríkisábyrgð á öllu klabbinu; og það án þess að vita hversu sú upphæð yrði há.
Þetta rakti ég í blogg hér á dögunum.
Það voru þessi stjórnmálaöfl sem reyndu að leyna Alþingi upplýsingum. Munum að það þótti fráleitt að Alþingi sem átti þó að taka afstöðu til málsins, fengi einu sinni að sjá samninginn, sem allt þetta byggði á.
Smám saman fjaraði undan Samfylkingunni og Steingrímsarminum. Þegar þau stóðu frammi fyrir töpuðu máli breyttist tónninn. Og niðurstaðan varð síðan lögggjöf sem á ekkert sameiginlegt með upphaflegu frumvarpi þeirra Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, nema nokkrar málfræðilegar samtengingar, á borð við og, en og eða.
Þetta skýrir auðvitað fúllyndi fjármálaráðherrans okkar við atkvæðaskýringu í lok umræðunnar. Hann hafði farið algjöra sneypuför. Hann upplifði sig réttilega sem niðurlægðan mann og allt hans hrós um afrekið með Icesavesamningnum var orðið að háði um hann sjálfan.
Frammistaða ríkisstjórnarinnar í þessu máli var vitaskuld herfileg. Stjórnin ákvað að vinna þetta mál á eigin forsendum og forklúðraði því með ferlegum hætti. Gróflega dapurleg er síðan sú eftiráskýring að málið hafi verið unnið í þverpólitískri sátt.
Sannleikurinn er bara sá að ríkisstjórnin var algjörlega flatreka í þessu máli. Hún réði ekki við það viðfangsefni sem hún var með í fanginu og hafði rekið með það upp á sker. Við þær aðstæður tóku þingmenn úr öðrum flokkum höndum saman um að lappa upp á málið, til þess að afstýra stórslysi og í þágu þjóðarhags.
Ríkisstjórnin, að Ögmundi Jónassyni frátöldum, vildi hins vegar ekki að slíkt vinnulag fengist fram. Ráðherrarnir ólmuðust hver sem betur gat gegn öllum breytingum og voru eins og hundar á roði í að verja hina kolómögulegu samningsniðurstöðu. Frumvarpið eins og það var að lokum samþykkt var sígilt dæmi um mál, sem troðið var þversum ofan í kokið á ríkistjórnarforystunni.
Icesavesamningi að hætti Jóhönnu og Steingríms var hafnað. Þau fengu engu um ráðið. Frumvarpi þeirra var hent út í hafsauga.
19.8.2009 | 09:47
Sporgöngufólk Jóns sterka
Forráðamenn ríkisstjórnarinnar koma fram með reglubundnum hætti til þess að tíunda afrek sín. Í gær brugðu þeir ekki vana sínum og höfðu þetta aðeins hátíðlegra í tilefni af því að ríkisstjórnin fagnar nú 100 daga starfsafmæli sínu.
Athyglisvert er að þegar ríkisstjórnin hrósar sér er það gert með skírskotun til lista nokkurs þar sem tilgreind eru all nokkur verkefni sem ætlunin er að vinna á þessum 100 dögum. Þar er þó ýmislegt heldur losaralegt og laust í böndum. Margt um fyrirheit en færra um eitthvað handfast
Það þykir til dæmis til marks um afrek að hafa lagt fram frumvörp, sem þó eru algjörlega óunnin í þinginu. Að einu og öðru hafa menn hugað, er sagt og öllu dembt svo inn í afrekaskrána miklu. Um þessa ríkisstjórn má því með sanni segja að litlu verður hún fegin. Og ósanngjarnt væri að brigsla forystumönnum hennar um hógværð eða raunsæi þegar afrekaskráin er lesin. Það verður því ekki gert. Ríkisstjórnin verður að eiga það sem hún á; með sanni og skuldlaust.
Miklu raunsærri er lýsing Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra á afrekum ríkisstjórnarinnar sem sagði í orðskiptum við mig á Alþingi í síðustu viku að það væri óvissa um grunvallarforsendur í efnahagslífinu, um allar efnahagsstærðir í hagkerfinu. Það er skaði af því að þessi játning ráðherrans fékk ekki að rata inn í sjálfshólslista ríkisstjórnarinnar. Okkar hógværi félagsmálaráðherra hefði örugglega ekki fundið að því.
Það getur verið gaman að fólki sem er sæmilega ánægt með sig og líki sjálfhælið vel. En ósköp minnir slíkt á þá garpa sögunnar- og bókmenntanna sem lítt hafa verið í hávegum hafðir í gegn um tíðina og meira uppskorið hæðni en hrós. Koma þar m.a upp í hugann þeir Jón sterki úr Skugga- Sveini og Björn hvíti úr Mörk sem Njálssaga greinir frá.
17.8.2009 | 08:58
Ríkisstjórninni var þröngvað til þessarar niðurstöðu
Niðurstöðunni í Icesave málinu var þröngvað upp á stjórnarliða. Samfylking og hluti Vinstri grænna vildu samþykkja hinn kolómögulega Icesave samning óbreyttan. Allt fram á síðustu stundu leituðu Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra allra leiða til þess að tryggja að litlar sem engar breytingar yrðu gerðar á samningnum sem gerður var við Breta og Hollendinga
Þau og fylgismenn þeirra í stjórnarflokkunum vildu gera smávægilegar fegrunaraðgerðir á algjörlega ómögulegri samningsniðurstöðu. Þau nutu stuðnings til þess af frá taglhnýtingum sínum úr háskólasamfélaginu sem höfðu það hlutverk að ljá því eymdartali blæ trúverðugleika.
En sem betur fer voru þingmenn Samfylkingarinnar og Steingrímshluti VG pínd til þess að fallast á miklar breytingar á samkomulaginu. Það voru settir inn lagalegir fyrirvarar, til þess meðal annars að tryggja rétt okkar betur. Það voru settir inn efnahagslegir fyrirvarar til þess að tryggja að við gætum ráðið við klyfjarnar af Icesave.
Hvorugt vildi ríkisstjórnin. Þar var allt reynt til að koma í veg fyrir að sú niðurstaða sem nú er fengin yrði ofan á. Það var ekki fyrr en ráðherrunum var orðið ljóst að þeir hefðu ekki vald á málinu að þeir létu sig. Að því máli þurfti margar atrennur og það er ein skýringin á því að málið hefur nú verið í þinglegri meðferð í einn og hálfan mánuð.
Málið var flókið og afla þurfti alls konar gagna. Þau gögn vísuðu öll til einnar áttar. Málið var alveg gjörsamlega óviðunandi. Það þurfti mikilla breytinga við. Gegn því ólmuðust ábyrgðarmenn málsins; stjórnarflokkarnir. Nauðugir féllu ráðherrarnir frá afstöðu sinni, af því að þingviljinn var annar en afstaða ríkisstjórnarinnar. Segja má í rauninni að Alþingi hafi tekið völdin í þessu máli af ríkisstjórninni.
Niðurstaðan sem fékkst var þrátt fyrir ríkisstjórnina, en ekki vegna hennar. Í raun var Icesavesamningi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafnað. Ríkisstjórnin var gerð afturreka. Svo einfalt er það.
12.8.2009 | 20:50
Óskaplega er þetta öfugsnúið
Einhvern veginn er þetta hálfvegis öfugsnúið. Leiðari í Fréttablaðinu hvetur til þess að drifið sé í að klára Icesavemálið á Alþingi til þess að hægt sé að snúa sér að næsta versi. Ekkert tillit er tekið til þess að samningsómynd Vinstri grænna og Samfylkingar er gjörsamlega óviðunandi. Bara að rusla þeim af og horfa svo fram á veginn, er tónnin sem blaðið slær.
Svo kemur hins vegar leiðari í breska viðskiptadagblaðinu Financial Times í dag, þar sem fram kemur mjög næmur og djúpur skilningur á því hversu afleitur samningur þetta er fyrir okkur Íslendinga. Skilningur á okkar viðhorfum skín í gegn í hverju orði. Það er rakið að skuldbindingarnar svari til tveggja milljóna króna á hvert mannsbarn á Íslandi (10 þúsund sterlingspund) og sé svipuð upphæð og landsframleiðsla okkar á hálfu ári. Blaðið líkir þessu við stöðuna sem kom upp í Chile árið 1982 þegar landið axlaði himinháar skuldir sem einkaaðilar stofnuðu til. Landið var skilið eftir í skuldaklyfjum, sem tók áratug að vinna sig út úr. Það sama gæti komið fyrir á Íslandi.
Athyglisverð er sú röksemdafærsla Financial Times að með því að neyta svona aflsmunar geti það stuðlað að því að Ísland taki upp einangrunarstefnu. Stuðningur við ESB umsókn fari minnkandi og að Rússar muni örugglega fylgjast vel með á hliðarlínunni. Færð eru svo rök fyrir því að Bretar og Hollendingar geti sjálfum sér um kennt. Þeim hefði átt að vera ljóst að Icesaveundrinu, með sínum ofurvöxtum, hefði ekki mátt treysta nema sem svaraði til þeirra trygginga sem Ísland gæti veitt. Því eigi að dreifa byrðunum af Icesave hruninu með sanngjarnari hætti.
Þetta eru athyglisverð sjónarmið. Ekki síst af því að þau hrjóta úr breskum penna. Og fyrir vikið verður ennþá nöturlegra að lesa þá dæmalausu uppgjöf og undirlægjuhátt sem birtist okkur á leiðarasíðu okkar útbreiddasta dagblaðs.
11.8.2009 | 11:45
Frá oflátungshætti að minnimáttarkennd
Það getur verið stutt á milli oflátungsháttar og minnimáttarkenndar. Fylgifiskur útrásarinnar var oft á tíðum oflátungsháttur. Dæmi: Ýmislegt sem var látið flakka þegar íslensk fyrirtæki voru að kaupa upp mörg af helstu djásnum dansks atvinnulífs og svo auðvitað stórfurðulegar yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar út um öll lönd og álfur af ýmsum tilefnum á þessum tíma.
Núna sjáum við hins vegar ýmis merki um minnimáttarkennd. Er það til dæmis ekki alveg makalaust að hvenær sem við þurfum að takast á við einhver verkefni, þá bætir einhver spekingurinn því við að til þess þurfum við erlenda sérfræðinga. Nú síðast að við þurfum erlenda sérfræðinga til þess að meta íslenska þjóðarhagsmuni í viðræðum við ESB. Hvert á svo að sækja þá? Kannski til Hollands eða Bretlands.
Við höfum margt að sækja til útlanda, en þangað sækjum við ekki hinn endanlega sannleik. Það er heimóttarskapur að vilja ekki rækta tengsl okkar við umheiminn. Heimóttarskapur einkennir ríkisstjórnina í samskiptum við forystumenn erlendis í tengslum við Icesave málið og það er auðvitað afleitt og hefur skaðað okkur.
En skrif breska hagfræðingsins Anne Sibert sem hafa verið nokkuð til umræðu, eru dæmi um vanmat á möguleikum okkar til þess að glíma við okkar viðfangsefni á forsendum okkar sjálfra.
Vitaskuld eigum við að leita okkur ráðgjafar og aðstoðar sem víðast. En að tala eins og frú Sibert gerði, á ekkert skylt við það. Þau skrif eru miklu frekar í ætt við þá vanmetakennd sem oft hefur skotið upp kollinum þegar á móti hefur blásið í gegn um aldirnar. 21. aldar útgáfa af þeirri öldnu hugmyndafræði sem taldi íslenskt fullveldi ekki standast vegna smæðarinnar.
Gleymum því ekki að við höfum byggt hér upp gott þjóðfélag, með einhver bestu lífskjör í heimi. Gleymum því ekki að við erum vel menntuð þjóð; sem meðal annars hefur sótt sér þekkingu út um allan heim og aukið þannig víðsýnina. Og gleymum því ekki að margar þær þjóðir sem hafa átt mestri velgengni að fagna eru oft á tíðum smáþjóðir. Raunar eru flestar þjóðir í heiminum smáþjóðir í hefðbundnum skilningi og 76 þeirra telja færri en milljón íbúa, rétt eins og við.
Um þetta má fræðast frekar með því að smella á þessi orð og skoða líka meðfylgjandi yfirlit.
Fjöldi íbúa | Fjöldi landa |
Færri en 1 milljón | 76 |
1 - 10 milljónir | 76 |
10 -25 milljónir | 32 |
25 - 50 milljónir | 22 |
50 - 100 milljónir | 12 |
100 - 1000 milljónir | 9 |
1 milljarður eða fleiri | 2 |
7.8.2009 | 09:05
Alltaf eru þau verst, sjálfskaparvítin
Það er ríkisstjórnin sem ein, óstudd og hjálparlaust ber ábyrgð á því ótrúlega klúðri sem Icesavemálið er í. Ríkisstjórnin ákvað verklagið á samningaviðræðunum. Ríkisstjórnin markaði samninganefndinni umboð. Ríkisstjórnin samþykkti þá niðurstöðu sem fyrir Alþingi var lögð. Ríkisstjórnin hafði ekki umboð þeirra þingmanna sem hún sækir umboð sitt til, til þess að undirrita hinn illræmda samning við Hollendinga og Breta.
Hún kom sér þess vegna í þessi vandræði sjálf, - sem þó er ekki alvarlegast. Hitt er miklu verra að hún hefur flækt þjóðina inn í samningsniðurstöðu sem við getum ekki, megum ekki, eigum ekki og munum ekki samþykkja.
Gleymum ekki hvernig ríkisstjórnin vann að málinu. Hún leysti frá störfum nefnd sem fyrri ríkisstjórn hafði skipað. Þess í stað var sett á laggirnar ný nefnd. Yfirbragð hennar var þannig að greinilegt var að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vildi undirstrika skilin við fyrri ríkisstjórn og hin beinu tengsl nýju samninganefndarinnar við sig prívat og pólitískt. Það er út af fyrir sig sjónarmið sem vel má virða.
Það felur í sér kosti, sé maður sannfærður um að niðurstaðan verði góð. Og enginn vafi er á því að leikurinn var gerður í fullvissu þess. Sbr. yfirlýsingu ráðherrans að glæsileg niðurstaða væri í nánd, löngu áður en fyrsti og eini formlegi samningafundurinn var einu sinni haldinn !
Gallinn við þetta verklag er að það felur líka í sér yfirlýsingu um að málin verði ekki unnin á grundvelli víðtæks samkomulags; þverpólitískrar sáttar. Ástæðan var auðvitað sú að ríkisstjórnin ætlaði ein að uppskera af hinni "glæsilegu niðurstöðu" sem ráðherrararnir sem ábyrgðina báru, voru sannfærðir um að næðist.
Nú er sannleikurinn kominn í ljós. Enginn vill óbreytt Icesave samkomulag. Í raun beinist öll vinnan að því að hafna samkomulaginu með penum hætti. Stjórnarliðar hafa vikum saman sent út hreint neyðarkall og ákall um hjálp úr þeim háska sem þeir komu sér sjálfir í.
Hernaðarlistin mikla sem lagt var af stað með er alveg runnin út í sandinn. Málið er í algjöru klúðri. Klúðrið er í fanginu á ríkisstjórninni, sem þó er þverklofin í málinu sjálfu.
Enn sannast það. Alltaf eru þau verst sjálfskaparvítin.
6.8.2009 | 11:17
Þakkir til senjór Garrido
Það er ástæða til að þakka senjór Diego López Garrido, Evrópumálaráðherra Spánar. Hann sagði okkur kjarna málsins um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins á kjarnyrtu mannamáli og var ekki með neinn blekkingarleik. Honum tókst í einu útvarpsviðtali í RÚV þann 30. júlí sl. að skýra betur þessa umræddu stefnu en maður hefur séð birtast í öllum þeim langhundum sem evrópusambandssinnaðir háskólakennarar hafa birt um umrætt efni.
Og hvað sagði senjór Garrido?
Hann sagði að það væru forréttindi sem við Íslendingar byggjum við að geta ráðið okkar sjávarútvegsmálum sjálfir. Hann sagði líka að með aðild að ESB yrðu þessi meintu forréttindi úr sögunni. Menn gætu ekki valið og pikkað út það sem hentaði úr sjávarútvegsstefnunni. Menn yrðu einfaldlega að taka yfir þessa stefnu eins og hún kæmi af skepnunni.
Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram, segir spænski ráðherrann að sá möguleiki verði að vera til staðar að Spánverjar veiði hér við land og í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB verði að greiða fyrir því. Og síðan sagði hann að það gæfi augaleið að við yrðum að játast sjávarútvegsstefnu ESB með kostum hennar og göllum.
Ég vakti athygli á þessu í grein í Morgunblaðinu í dag og þá grein má lesa hér á heimasíðunni.
Í niðurlagi greinarinnar dró ég stöðuna sem við stöndum frammi fyrir í sjávarútvegsmálunum með þessum orðum:
Frá íslenskum sjónarhóli er réttur okkar til þess að fara með forræði yfir fiskveiðiauðlindinni sjálfsagður réttur fullvalda þjóðar; ekki forréttindi. Frá sjónarhóli ESB er forræði okkar sem fullvalda þjóðar yfir fiskveiðiauðlindinni forréttindi. Það blasir við öllum að þetta eru ósamrýmanleg sjónarmið. En með aðild Íslands að ESB verðum við að horfa á þessi mál með augum Brussel, en ekki okkar eigin. Það eru nefnilega íslensk stjórnvöld sem eru að sækja um aðild að ESB fyrir hönd þjóðarinnar, en ESB hefur ekki sótt um að gerast partur af íslenskri löggjöf.
5.8.2009 | 14:15
Ruglandinn í umræðunni um bankaleynd
Þegar rætt er um lekann úr Kaupþingi á gögnum úr lánabók bankans er nauðsynlegt að gera greinarmun á tvennu. Annars vegar réttmæti þess að lánabækur banka séu sem opnar bækur á netinu; þeim sé lekið út, líkt og við sáum að gerðist í umræddu tilviki Kaupþings. Hins vegar hvort þær upplýsingar sem lánabækurnar bera með sér um einstaka lánveitingar beri vitni um glannalegar og jafnvel ólögmæta lánveitingar.
Þetta er kjarni málsins. Það er hins vegar dæmi um ruglandann í þessari umræðu, að þegar að því er fundið að lánabækur í bönkum séu opnaðar á netinu, þá er reynt að snúa út úr því með öllum tiltækum ráðum og jafnvel látið eins og verið sé að bera í bætifláka fyrir óeðlilegar lánveitingar.
Flestir átta sig á því að bankaleynd er ekki óeðlileg í sjálfu sér. Hún er á vissan hátt grundvöllur þess trausts sem þarf að ríkja á milli viðskiptavinar og banka. Maður sem leggur fram áform sín í viðskiptum fyrir banka þarf að geta treyst því að þær upplýsingar rati ekki fyrir augu keppinautar, svo dæmi sé tekið.
Hins vegar þurfa allar upplýsingar í fjármálastofnunum að vera aðgengilegar fyrir eftirlitsaðila. Meðal annars til þess að geta fylgst með því hvort verið sé að lána eigendum viðkomandi fjármálafyrirtækja stórar upphæðir án veðtrygginga.
Slík ofurlán í bland við flókin krosseignatengsl fara létt með að fella heilt fjármálakerfi, eins og við höfum séð.
Þess vegna er ríkisstjórnin nú að sögn að láta undirbúa frumvarp. Ekki til þess að aflétta bankaleynd. Ekki til þess að gera það löglegt að menn leki heilu lánabókunum úr heilu bankastofnunum. Heldur til þess að marka leikreglur. Í því sambandi hlýtur sérstaklega að verða huga að því að hafa reglur um aðgang að bankaupplýsingum rýmri en núna
Bankaleynd á ekki að vera skjól fyrir óheiðarleika. En um það mál eins og annað á fjármálasviði verða að gilda leikreglur. Upplýsingarnar úr lánabók Kaupþings hafa gengið fram af almenningi; lánveitingar til eigenda upp á eitthvað á annað þúsund milljarða eru ótrúlegar, svo ekki sé meira sagt. En það eru ekki rök fyrir því að ekki eigi að gilda nokkrar reglur á sviði samskipta viðskiptavinar og banka.