Brotnar helgimyndir ríkisstjórnarinnar

Eva JolyÞegar Eva Joly ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins skrifaði sína frægu grein í Morgunblaðið og þrjú erlend blöð á laugardaginn var, braut hún nokkrar helstu helgimyndir ríkisstjórnarflokkanna. Þess vegna urðu til hins sérstæðu og lærdómsríku viðbrögð pólitísks aðstoðarmanns Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þessi viðbrögð voru enginn vottur um gáleysi, heldur verða þau skýrð með því að ráðgjafinn kom við auman blett hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Gleymum því ekki að Eva Joly er stjórnmálamaður; situr á Evrópuþinginu fyrir vinstri grænan flokk og því er ekki sérlega fréttnæmt að hún skrifi um pólitísk álitamál. Það gera einu sinnu stjórnmálamenn án þess að það teljist til tíðinda.

En hún hnýtti maklega í Evrópusambandið sem er óskaplega viðkvæmt á sumum bæjum hér á landi. Við erum nýlega búin að senda ráðherra yfir hafið í hlutverki bréfbera á fund við forsvarsmenn ESB. Þangað vill ríkisstjórnin að leiðin liggi svo það þykir sjáanlega ekki heppilegt að orðinu sé hallað á það sæmdarfólk. ESB hefur hins vegar sýnt okku reðli sitt með hraklegri og harkalegri meðferð á okkur.

Og síðan sjáum við að frændur vorir á Norðurlöndunum hafa klesst sér hraustlega upp að ESB, þar sem Hollendingar og Bretar ráða lögum og lofum. Hið verðmæta norræna samstarf er skyndilega komið í nýtt ljós sem við áttum tæplega von á. Að minnsta kosti ekki Steingrímur J. Sigfússon sem taldi í fyrra að leið okkar út úr vandanum lægi um hlað Norðurlandanna, sem myndu ekki bregðast okkur í nauðum. Inn í þá mynd kemur því grein Evu Joly sem hrein sprenging, þó hún sé ekki að segja annað en það sem blasir við öllum sem það vilja sjá.

En athyglisvert er að fjölmiðlar hafa ekki gert neina tilraun til þess að kanna viðbrögð forystumanna ríkisstjórnarinnar við grein Evu Joly. Væri þó forvitnilegt að heyra það. Helst frá þeim báðum eða í það minnsta frá öðrum hvorum, forsætisráðherranum , eða helsta talsmanni ríkisstjórnarinnar, sem situr  í fjármálaráðuneytinu.

 




Einn ofurlítill sólardagur

Sólardagur VGÞað kemur á daginn endrum og sinnum þetta sem sagt er; að þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Loksins rann upp dagur þegar VG liðar gátu talað sæmilega einum rómi. Þeim tókst að koma sér upp sameiginlegum óvini sem hægt var að beina spjótum sínum að. Varnarmálastofnun og loftrýmisæfingar, voru sérlega heppileg samsetning sem gjörvöll Vinstri hreyfingin grænt framboð gat sameinast um að mótmæla.

Maður skynjaði gamla herstöðvaandstæðingatakta. Kannski í bland við nostalgískar kenndir gamalla Keflavíkurgöngugarpa, þegar þeir Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og flokksformaður létu andúð sína í ljósi - og það í sæmilegum takti. Maður skynjaði feiginleikann í röddinni á Steingrími. Þarna var þó kominn óvinur sem allir flokksmenn gátu notið þess að lemja á.

Sælir dagar genginna herstöðvaandstöðutíma voru líkt og runnir upp að nýju.

En brátt víkur þetta mál fyrir hinum bitra veruleika sem birtast mun við sjóndeildarhringinn áður en vikan er úti. Icesave-vandræðin gufuðu ekki upp þó menn reyndu að gleyma sér aðeins yfir því að skammast yfir svo sem einni ríkisstofnun, Varnarmálastofnun. Áfram verða þeir VG liðar svo minntir á ábyrgð sína á því að hafa dregið okkur að samningaborðinu við ESB þvert ofan í vilja flokksmanna og í blóra við kosningaloforðin. 

Í Icesave-málinu bíður ríkisstjórnarforystunnar að klára sams konar verkefni og í atkvæðagreiðslunni um ESB. Sem sé að þröngva nógu mörgum að já-takkanum á Alþingi til þess að bjarga þannig Icesave - samningsómyndinni í gegn um þingið, þvert á vilja almennings.

Einn ofurlítill sólardagur í pólitískum skilningi VG rann upp en honum lauk jafn skjótt og hann birtist. Raunveruleikinn - hinn bitri pólitíski veruleiki er enn til staðar.




Búsorgirnar bornar á torg

Jón BjarnasonJóni mínum Bjarnasyni sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra leiðast bersýnilega samvistirnar með Samfylkingunni. Það sést á yfirlýsingu hans í útvarpinu í dag að við ættum að hætta við ESB-umsóknina vegna hótana Hollendinga og Breta út af Icesave. Auðvitað veit Jón að á hans frómu ósk verður ekki hlustað. En hann kýs hins vegar að bera búsorgir sínar á torg. Skiljanlegt er það. Honum eins og fleirum VG-liðum er farið að líða illa vegna ofríkis Samfylkingarinnar í ríkisstjórnarsamstarfinu.

En vitaskuld veit svo reyndur stjórnmálamaður að tveimur eða þremur dögum eftir ferð utanríkisráðherra okkar á fund Carls Bildt starfsbróður síns í Svíþjóð með umsóknareyðublaðið vegna ESB í farteskinu, verður ekki farið að hætta við. Össur nýbúinn að stilla sér upp til myndartöku með Carli Bildt úti í Stokkhólmi og brosa breitt. Og nú er umsóknin orðin tvíheilög. Því fáeinum dögum áður hafði sendiherra okkar í Svíþjóð farið með sams konar bréf til sænska utanríkisráðherrans - en í það skiptið voru ljósmyndarar hvurgi nærstaddir.

Hótanir og ofríki Hollendinga og Breta með tilstyrk ESB stöðva ríkisstjórnina ekki í þeirri fyrirætlan sinni að leita skjóls í náðarfaðminum í Brussel. Þær hótanir lágu allar fyrir þegar utanríkisráðherrann tók flugið til Svíþjóðar með lettersbréf til ESB.

Og svo mun stóri dagurinn að renna upp á morgun. Bréfið tvíheilaga verður þá tekið fyrir hjá ESB sjálfu.

Allt þetta veit Jón Bjarnason. Og einnig það að umsóknin að ESB er í boði Vinstri grænna. Þar á bæ var mikill stuðningur við umsóknina, þegar til stykkisins kom, eins og sést á atkvæðagreiðslunni.  Ferð utanríkisráðherrans til Svíþjóðar var vitaskuld einnig með vitund og vilja VG í ríkisstjórn.

Enda fær félagi Jón á baukinn frá samstarfsfólki sínu í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það unir því illa að ráðherra VG spilli hátíðinni með því að hvetja til að ESB umsókn sé frestað. Undan þessu mun VG svo lyppast, eins og alltaf þegar Samfylkingin reisir burstir.

 

 




Af hverju rukka Bretarnir ekki líka fyrir kaffibollana?

KaffiIcesave málið versnar eftir því sem það vindur meira upp á sig og upplýsingarnar streyma fram. Fréttirnar í gær og í dag eru til marks um þetta. Lögfræðikostnaður eður ei. Það er ekki aðalatriðið. En sú staðreynd að breska ríkisstjórnin hafi reynt að halda til haga við samningagerð, þar sem upphæðirnar hlaupa á tvöföldum fjárlögum okkar, reikningum vegna utanumhalds við Icesave uppgjörið, sýnir hve langt þeir eru tilbúnir að seilast til þess að sýna mátt sinn og megin.

Og það er síðan táknrænt um hvernig samningarnir hafa verið höndlaðir okkar megin frá að við skulum hafa unað slíku. Þetta er niðurlægjandi fyrir okkur og sýnir í verki álit breskra tjórnvalda og samningamanna þeirra á þeim sem þeir voru að semja við; íslenska ríkið.

Það munar kannski ekki um kepp í sláturtíðinni. Og kannski munar ekki mikið um tvo milljarða hér og þar í öllu þessu Icesave móverki. En þetta er táknrænt fyrir ofbeldið frá hlið Breta og undanlátssemina frá okkar hlið að svona geti verið hluti af þessum samningi.

Málið versnar eiginlega við það, ef ekki er um lögfræðikostnað að ræða. Breskir lögfræðingar af þeirri sortinni sem fást við alþjóðlega samningi eru ekki beinlínis billegir þegar kemur að reikningsgerð. En ef ekki er hægt að réttlæta þessa samninga með hliðsjón af ofurháum lögfræðikostnaði heldur einhvers konar utanumhaldi um uppgjör, þá fyrst verður þessi upphæð óskiljanleg. Alveg fáránleg.

Ólöf Nordal alþingismaður setti málið í athyglisvert samhengi í þinginu í dag. Tveir milljarðar. Það er reikningur frá dýrum íslenskum lögfræðingi upp á 20 þúsund vinnustundir. Og reiknum dæmið áfram. Þetta svarar til vinnu 50 lögræðinga í fullu starfi í heilt ár. Eða vinna fyrir einn lögfræðing í hálfa öld.

Svo láta þeir sig ekki muna um að verja þennan skandal stjórnarliðarnir og fjármálaráðherrann. Ætlar þessu aldrei að linna? Telja þeir sig endalaust geta haldið áfram? Er öllum farið að blöskra þessi samningur nema þeim?

Ætli það eigi eftir að dúkka upp einhverjir fleiri "kostnaðarreikningar" af þessari sort. Leigubílareikningar, stöðumælasektir, samlokur á fundunum, gosdrykkir eða kaffibollar. - Eða drukku þeir kannski te; english tea, please!

Allt örugglega útlagður kostnaður hjá Bretum vegna Icesave umstangsins. Með röksemdafærslu ráðherra og þingmanna stjórnarliðsins, ætti fátt að vera því til fyrirstöðu að við öxluðum svoleiðis útgjöld, stór og smá, í Icesave samningnum.




Er til eitthvað annað Evrópusamband ?

ESB löndEr mögulegt að umsókn íslands í ESB hafi verið ætluð einhverju allt öðru Evrópusambandi en við erum vön að tala um? Er hugsanlegt að ríkisstjórnin og fylgismenn hennar hafi uppgötvað eitthvað allt annað Evrópusamband en það sem byggir á Rómarsáttmálanum?

Þetta virðast fjarstæðukenndar spurningar, en þær eru ekki settar fram af tilefnislausu.

Þannig er nefnilega mál með vexti að þegar lesin eru þau meginsjónarmið sem lögð eru til grundvallar umsókninni um aðild Íslands að ESB þá blasir við að lýsingin passar alls ekki við það Evrópsusamband sem hefur höfuðstöðvar sínar úti í brussel og við erum vön að tala um. Þarna er ég að vísa til þeirrar umfjöllunar um meginhagsmuni okkar í væntanlegum samningaviðræðum við ESB og fjallað er um í meirihlutaáliti Utanríkismálanefndar Alþingis.

Sanmnleikurinn er sá að lýsingin á meginsamningsmarkmiðunum er víðs fjarri þeim veruleika sem mun mæta samningamönnum okkar úti í Brussel. Það er nær að segja að samantektin í meirihlutaáliti Utanríkimálasnefndar Alþingis sé eins konar tilraun til þess að halda til haga flestu því sem fundið hefur verið aðild okkar að Evrópusambandinu til foráttu. Kannski má segja að þarna séu menn að hugsa upphátt um það sem menn verði að hafa í huga þegar sest er niður í Brussel. En fráleitt lýsing á því sem okkar bíður.

Nema menn hyggist sveigja og beygja ESB frá sínum meginsjónarmiðum. Kannski það?

Um þessi mál skrifa ég í grein í  Morgunblaðinu í dag og má lesa þá grein hér á heimasíðunni undir dálknum Greinar/ræður hér að neðan. Greininni lýk ég með þessum orðum:

"Því læðist sá illi grunur að manni að líklega sé umsóknarbeiðni þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar ranglega stíluð á forystumenn þess Evrópusambands sem hefur höfuðstöðvar Framkvæmdastjórnar sinnar í stórbyggingunni Berlaymont við Lagagötu í Brussel. Umsóknin hefur sannarlega farið af stað, en í ljósi þeirra forsendna sem hún byggir á, hlýtur það að vera ætlunin að sækja um eitthvað allt annað Evrópusamband."




Stóri einkavæðingardagurinn

Einkavæðing bankannaNiðurstaðan varðandi fjármögnun bankanna með þátttöku erlendra lánardrottna er almennt séð jákvæð. Það má segja að þarna sé komið á áfangastað það mál sem lengi hefur verið burðast með á langri vegferð. Það blasir við að þær tafir sem hafa orðið á fjármögnun bankanna hömluðu viðreisn efnahagslífsins og gera enn. Til viðbótar gróf það undan trúverðugleikanum að ekki var búið að stilla upp efnahagsreikningi bankanna 10 mánuðum eftir að þeir voru settir á laggirnar eftir bankahrunið í október í fyrra.

Niðurstaðan sem var kynnt í gær er því áfangi sem skiptir máli.

Flestir sem hafa tjáð sig ,hafa mælt með því að reyna að fá lánardrottna bankanna til þess að breyta kröfum sínum í hlutabréf í þeim, með einhverju móti. Þar með gæti sú upphæð lækkað sem ríkið þyrfti að reiða fram. Slíkt hefði jákvæð áhrif á ríkissjóð og veitti ekki af. Hitt skiptir ekki síður máli, að með þessu fáum við betri aðgang að fjármögnun, vegna þess að hagsmunir bankanna og erlendu lánadrottnanna munu liggja saman.

Óvissan liggur hins vegar í eignarhaldinu. Það er ekki gott. Það er  illt að við höfum ekki glögga mynd af því hvert raunverulegt eignarhald bankanna verður. Sú  tilhugsun er einfaldlega ekki alltof góð ef örlög bankanna ráðast af hagsmunum vogunarsjóða, sem eru sagðir eiga hluta af þeim kröfum sem nú er verið að höndla með.

Við ættum að skilja það og vita af fenginni reynslu að það skiptir líka máli hverjir fara með eignarhaldið. Ekki síst vegna þess  að bönkunum er ætlað mikið hlutverk í viðreisn heimilanna, endurreisn atvinnulífsins og uppbyggingu efnahagslífsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að eignarhaldið skýrist sem allra fyrst.

Áhyggjurnar snúa að því hvar áhugi og hagsmunir vogunarsjóða liggja  þegar kemur að því að reka íslenska viðskiptabanka við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífi okkar.

Að þessu frátöldu er það þó jákvætt að línur séu að skýrast í kring um bankanna, Það er líka jákvætt að fá erlent eignarhald að íslenskri bankastarfsemi eins og lengi hefur verið talað um, bæði til fjármögnunar og af því að fjárbinding ríkisins verður minni.

Ps

En tækifærið er auðvitað of borðliggjandi til þess að nefna það ekki. Það er vitaskuld  áhugavert að verða vitni að því að með ákvörðuninni í gær fór fram einhver mesta einkavæðing Íslandssögunnar. Ríkisbankarnir voru þrír í fyrradag, en voru seldir með þessum hætti í gær.  Tveir ríkisbankar einkavæddir á einum degi. Og hverjir kvittuðu upp á það; nema auðvitað Steingríkur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir.  Leyfist einum íhaldsmanni ekki að flytja ráðherrunum árnaðaróskir af þessu tilefni?

 




Phyrrosar-sigur VG

Vinstri grænirESB málið hefur reynt mikið á innviði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Afleiðingarnar eru þær sem hver stjórnmálaflokkur óttast alltaf mest. Flokkurinn hefur misst trúverðugleika sinn og trúnað við kjósendur sína. Það blasir við öllum sem það vilja sjá að flokkurinn lagði eitt helsta grundvallarmál sitt, andstöðuna við ESB, í sölurnar. Verðmiðinn var aðgangur að ríkisstjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna.

Þetta viðurkenndi formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon í reynd í þingræðu á Alþingi, 10. júlí sl. þegar hann sagði að núverandi ríkisstjórn hefði ekki verið mynduð án viðlíka yfirlýsingar. Það er örugglega rétt hjá honum, Samfylkingin hefur án efa gert þetta mál að úrslitaatriði.

Með því að fallast á þessa kröfu er VG orðið að ábyrgðaraðila málsins. Það var því ekki bara Samfylkingin sem hrósaði sigri í þessu máli. Það er gerði samstarfsflokkurinn líka sem gaf fyrirheit um að koma þessu máli í höfn.

En þessi sigur er dýrkeyptur. Dapurlegt var að sjá og heyra þingmenn og ráðherra flokksins klæmast á stuðningi sínum við málið. Þeirra ræður voru samansúrruð fordæming á ESB og öllu því sem það bandalag þýðir. En svo var lýst yfir stuðningi við að sótt skyldi um aðild að ESB. Þvílíkt og annað eins! Vilji menn sjá þetta og heyra er hægt að nálgast ósköpin á þessari slóð, ræða Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra og þessari slóð einnig, atkvæðaskýring Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.

VG er núna í sporum  hins gríska Phyrrosar konungs frá Epirus, sem vann svo dýrkeyptan sigur á erkifjendum sínum Rómverjum að hann tapaði sínum helstu bandamönnum og vöskustu hermönnum. Fleyg  urðu svo orð hans um að einn sigur í viðbót af þessu tagi myndi algjörlega gera út af við hann.  Því er slíkur sigur kenndur við hinn gríska konung og er ekki mjög eftirsóknarverður.

Þetta er hins vegar staða VG, sem lagði sitt þunga lóð á vogarskálar blinds flokkspólitísks hagsmunamats, þar sem annars vegar var hugsjónin um ESB andstöðuna og hins vegar lykillinn að ríkisstjórnarherberginu með Samfylkingunni.  Hið síðara lóð vóg  þyngra. VG bar fram ESB tillögu með Samfylkingunni  og vann sigur í atkvæðagreiðslunni á Alþingi; sannkallaðan Phyrrosarsigur




Verður ESB - aðildarumsókn í boði VG?

Ísland - ESBVið skulum tala nákvæmlega eins og það er. Ekki einn einasti þingmaður Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs vill að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Engu að síður stefnir allt í það að einhver hluti þingmanna flokksins ætli að greiða því atkvæði að Ísland sæki um aðild. Ekki vegna sannfæringar þar að að lútandi, heldur til þess að þjóna lund Samfylkingarinnar.

Formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra var svo berorður sl. föstudag í þingræðu að segja að stuðningur við tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að ESB hafi verið skilyrði fyrir því að Samfylkingin hafi verið reiðubúin til stjórnarsamstarfs. Það var með öðrum orðum aðgöngumiðinn að ríkisstjórninni.

Samfylkingin ætlar sér að sýna í verki við meðferð ESB málsins hver það sé sem ræður í stjórnarsamstarfinu. Þess vegna er allt lagt í sölurnar og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er farin að sýna gamla hótunartakta sína. Það gerði hún í gær í þingræðu, þegar hún gerði þingmönnum VG það ljóst að hlýddu þeir ekki, - sætu þeir ekki og stæðu, eins og hún ætlaðist til, - þá gæti það haft sínar afleiðingar fyrir stjórnarsamstarfið.

Skýrara getur það ekki verið.

Við höfum séð hvernig Samfylkingin vinnur í stjórnarsamstarfinu. ESB málið er knúið áfram með offorsi gagnvart samstarfsflokknum. Hið erfiða Ice-save mál er svo skilið eftir í fanginu á formanni Vinstri grænna. Það eru nú öll heilindin.

Í dag fullyrðir einn þingmaður Samfylkingarinnar að það hafi verið flokksmenn VG sem beittu Ásmund Einar Daðason hörðu og hótað, þegar honum var gert það ljóst að atbeini hans að tillöguflutningi með Sjálfstæðisflokknum jafngilti stjórnarslitum. Þannig er gerð tilraun til þess að klína þessu óhæfuverki líka á VG.

Ofríki Samfylkingarinnar gagnvart VG er alveg purkunarlaust. Á morgun kemur það í ljós hverjir þingmanna VG láta undan þessum hótunum og hverjir hlýða ákalli hins almenna flokksmanns um að rísa gegn drottunartilheigingum Samfylkingarinnar. Ábyrgð þeirra er mikil og getur skipt sköpum um hvort vegferðin mikla til Brussel hefjist og verði þannig í boði Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs.




Eru ESB-aðildarviðræður átak til atvinnusköpunar?

AtvinnusköpunSeilst er í allar áttir til þess að tína til rök fyrir aðildarumsókn að ESB. Þetta kemur til dæmis fram í nefndaráliti meirihluta utanríkisnefndar Alþingis. Þar er vitnað til mats Utanríkisráðuneytisins á kostnaði vegna aðildarumsóknarinnar og getur þar margt athyglsivert að líta. Sérstaklega er athyglisvert hve ráðuneytið leggur sig fram um að dylja allan kostnaðinn og gera lítið úr honum.

Þrátt fyrir það metur Fjármálaráðuneytið að útlagður kostnaður verði um 1 milljarður króna sem er dálagleg upphæð á erfiðleikatímum.

En ýmislegt annað er nefnt til þess að gylla þetta mál. Þannig segir í áliti Fjármálaráðuneytisins um kostnaðinn sem leiðir af því að fara í aðildarviðræður: "Utanríkisráðuneytið gerir ráð fyrir að það þurfi að ráða 24 þýðendur til viðbótar og að umfang þýðinga sé samtals um 30–50 þúsund blaðsíður."

Þetta er sem sagt enginn smá doðrantur. 50 þúsund blaðsíður af gerðum, tilskipunum og hvers konar laga og reglugerðarverki er örugglega myndarlegur skógur af pappír. Svarar til 100 til 200 binda ritverki, þó spurning sé hversu áhugaverð slík lesning telst.

En skemmtileg eru rök Utanríkisráðuneytisins, sem telur þessa ráðningu á 24 þýðendum, sérstakt fagnaðarefni og virðist líkja þessu við eins konar átak til atvinnusköpunar. Enda segir í áliti Utanríkisráðuneytisins:

"Í því samhengi er rétt að hafa í huga að með þessu verkefni mun skapast atvinna fyrir háskólamenntaða stétt þýðenda en auk þess má nefna að sú staðreynd að ESB mun við mögulega aðild Íslands þurfa á sérhæfðri túlka- og þýðendaþjónustu að halda á íslensku kallar á það að íslenskir háskólar skipuleggi nám á þeim sviðum sem skapa mun aukin tækifæri fyrir tungumálamenntað fólk."

Þetta orðalag er örugglega komið frá sjálfum utanríkisráðherranum Össuri Skarphéðinssyni. Hann var nefnilega til skamms tíma ráðherra byggðamála. Hann þekkir því vel mikilvægi þess að efla fjölþætta atvinnustarfsemi og sér þarna kjörið tækifæri til að auka atvinnusköpunina - fyrir fólk sem er sæmilega mælt á erlendar tungur.




Dýrasti aðgöngumiði Íslandssögunnar

AtkvæðagreiðslaEvróputillaga ríkisstjórnarinnar sem Alþingi ræðir núna er merkileg fyrir margra hluta sakir. Við vitum auðvitað að hún var tilraun til að bræða saman hin óasmrýmanlegu sjónarmið stjórnarflokkanna. Samfylking vill skilyrðislaust að Ísland verði aðili að ESB. Vinstri græn hafa verið grjóthörð í andstöðu sinni við ESB aðild; - hingað til. Nú hafa þau hins vegar látið Samfylkinguna kúga sig til hlýðni í þessu máli.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður VG orðaði þetta mjög skýrt í umræðum á Alþingi sl. föstudag. Hann sagði ofureinfaldlega að forsenda ríkisstjórnarsamstarfsins hefði verið að ná saman um þetta tiltekna mál. Án hennar, hefði ríkisstjórnin einfaldlega ekki komist á koppinn. Þegar tillagan er lesin er ljóst að hún er í samræmi við vilja Samfylkingar. Hún gengur hins vegar þvert á stefnu VG, sem helst vildi meira að segja að við þróuðum EES samninginn í einhvers konar tvíhliða viðskiptasamning.

En nú er öldin önnur.

Það sem Steingrímur J. var einfaldlega að segja var að ESB lendingin hafi verið eins konar aðgöngumiði VG að ríkisstjórnarborðinu. Án hans hefðu þeir ekki fengið inngöngu í samstarf við Samfylkinguna. Þetta er því örugglega dýrasti aðgöngumiði Íslandssögunnar.

Undir þessum kúgunartilburðum Samfylkingarinnar létu VG liðar undan. Kúventu í afstöðu sinni og fóru inn í prósessíuna með ESB sinnunum í Samfylkingunni.

Ætli það hræri ekki við pólitískri samvisku ESB andstæðinga í VG að sjá hversu Samfylkingunni líkar þessa niðurstaða vel? Við vitum um fimmmenningana í VG sem hafa haft uppi svardaga og undirstrikað andstöðu sína. En ekki verður annað skilið en að í VG láti aðrir sér vel líka að Sanmfylkingin vaði yfir sig, með gleðiópum og húrrahrópum. Verði niðurstaðan sú á Alþingi í vikunni að  ganga til aðildarviðræðna, þá er það gert með tilstyrk Vinstri grænna. Þeir munu því bera fulla ábyrgð á því að þetta örlagaskref verði stigið.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband