10.7.2009 | 15:59
Lýðræðisást í meinum
Þegar ríkisstjórnin lagði fram ESB málið sitt á fyrstu dögum þingsins vakti það athygli að stjórnarflokkarnir voru út og suður. Stuðningur við málið var óviss og ekki einu sinni ráðherrarnir stóðu að málinu. Það var fleirum en mér sem þótti það einkennilegt ráðslag að þegar kæmi að þessu einu helsta máli ríkisstjórnarinnar þá væri ekki samstaða um málið í stjórninni. Velti ég því meðal annars upp hvort ekki kæu fram fleiri svipuð mál.
Það hefur síðan orðið raunin. Icesave málið er gleggsta dæmið og alveg ljóst að fleiri eiga eftir að sigla í kjölfarið.
En hverju var svarað svona athugasemdum. Jú svarið var skýrt: Nú eru upp runnir nýjir tímar. Ríkisstjórnir þurfa ekki að vera samstæðar, jafnvel ekki í stærstu málum. Það er á þinginu sem málin eru uppgerð og ríkisstjórnin stendur jafn keik og áður. Einn þeirra sem þessu hélt fram var ofurbloggarinn Egill Helgason.
En nú er skyndilega orðin önnur öld. Ásmundur Einar Daðason þingmaður VG sem hefur alla tíð verið sjálfum sér samkvæmur í ESB málinu hugðist flytja tillögu um svo kallaða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Og hvað skeður þá?
Á hann er lagst með ofurþunga og hann þvingaður til þess að hverfa frá þessum vilja sínum. Honum er gert það ljóst að láti hann verða af ásetningi sínum sé ríkisstjórnin sprungin.
Skýtið. Því okkur var einmitt sagt í upphafi að ESB málið væri ekki þeirrar gerðar. Menn ættu að geta kosið þvert á flokkslínur og að það vitnaði um lýðræðisást ríkisstjórnarinnar.
Nú er hið sanna komið í ljós. Hin meinta lýðræðisást var bara orðin tóm.
9.7.2009 | 09:39
Skýrslan sem jörðin gleypti...
Hvað veldur því eiginlega að ráðherrar reyna að gera sem minnst úr mikilvægi skýrslu bresku lögmannsstofunnar Mischon de Reya. Þar er þó komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki undirgengist skuldbindingar Tryggingasjóðs innistæðueigenda. Þetta er gríðarlega þýðingarmikið og hefði átt að styrkja mjög samningsstöðu okkar í viðræðum við Hollendinga og Breta um Icesave..
En í stað þess að berja á Bretum og Hollendingum með þessari skýrslu, var eins og jörðin hefði gleypt hana. Hún var unnin fyrir utansríkisráðherra en fannst svo loks í fjármálaráðuneytinu - eftir að Morgunbalðið hafði greint frá henni.
Utanríkisráðherra og fjármálaráðherra reyna að gera lítið úr skýrslunni og vísa til að ofangreind niðurstaða hafi verið utan þess sem um var beðið þegar lögfræðistofan fékk tiltekið verkefni frá íslenskum stjórnvöldum. Þetta er aumlegt. Aðalatriðið er auðvitað þessi niðurstaða bresku lögfræðinganna.
Það skýrir hins vegar viðbrögð ráðherranna að verkefni samninganefndarinnar var ekki að halda þessu sjónarmiði til haga heldur að "semja um sem hagstæðasta skilmála", eins og segir í greinargerð frumvarpsins um ríkisábyrgð vegna Icesaveskuldarinnar. Það er því ljóst að álit bresku lögmannanna þjónar ekki áróðri ríkisstjórnarinnar í þessu máli.
Það er þess vegna langsamlega líklegast að sú sé ástæðan fyrir þessu makalausa máli öllu.
En það er fleira sem undrun sætir.
Þetta álit Bretanna lá fyrir 29. mars. Heilum mánuði fyrir alþingiskosningar. Og önnur dagsetning skiptir líka máli í þessu sambandi. Fyrsti formlegi samningafundurinn í Icesave málinu hófst 5. júní, rúmum tveimur mánuðum eftir að skýrslan lá fyrir.
Þegar allt þetta er skoðað og við blasir að þessi skýrsla var þýðingarmikið gagn, vekur það vægast sagt furðu að hún hafi líkt og gufað upp, jörðin hafi gleypt hana, ráðherrum verið ókunnugt um tilvist hennar; og hún svo fundist í allt öðru ráðuneyti en því sem bað um að skýrslan yrði unnin.
Þetta mál er furðulegra og ámælisverðara en orð fá lýst og dregur mjög úr þeim litla trúverðugleika sem ríkisstjórnin hafði í þessu máli öllu. Í stað þess að reyna að gera sem minnst úr þýðingu málsins ættu ráðherrarnir að biðjast velvirðingar og viðurkenna mistök sín.
29.6.2009 | 12:53
Tillaga að nýjum sumarleik
Flestir þekkja hina hefðbundnu verkaskiptingu í stjórnarráðinu, sem markast af ráðuneytunum. En núna hefur hins vegar verið fitjað upp á nýrri tegund af verkaskiptingu, sem er að taka á sig skýrari mynd eftir því sem vikunum í stjórnarsamstarfi Vinstri Grænna og Samfylkingar vindur fram.
Þessi nýja verkaskipting gengur í sem skemmstu máli út á að ráðherrar skiptast á að lýsa yfir andstöðu sinni við helstu mál ríkisstjórnarinnar. Nú þegar hafa tveir tilteknir ráðherrar greint frá andstöðu sinni við tvö af stærstu málum stjórnarinnar og aðeins mánuður að baki í endurnýjuðu stjórnarsamstarfi flokkanna. Þetta er efnilegt og lofar miklu um framhaldið.
Með þessum orðum hefst grein eftir mig sem birtist í Fréttablaðinu á fimmtudaginn var og lesa má hér í heild sinni.
Í greininni ræði ég hið makalausa verklag ríkisstjórnarinnar þar sem ráðherrarnir keppast við að sverja af sér helstu mál þeirrar stjórnar sem þeir ega þó sæti í. Þetta er fordæmalaust og er auðvitað til marks um þá sundurþykkju og þann tætingsbrag sem kominn er á ríkisstjórnina strax á hveitibrauðsdögunum.
Fyrst lýsti Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra andstöðu við fyrsta stórmál ríkisstjórnarinnar, aðildrumsókn að ESB. Svo mætti Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra með andstöðu við næsta stórmál, Ice-save málið, upp á vasann. Og því er eðlilegt að spurt sé, hver sé næstur.
Engu líkara er en að ráðherrarnir hafi komið sér upp eins konar verkaskiptingu, þar sem einn ráðherra er á móti einu máli og svo sá næsti andvígur því næsta og svo framvegis.
Nú bíða menn þess hvað gerist næst. Hvaða ráðherra verði næstur upp á dekk til að lýsa yfir vanþóknun í einhverju máli.
Það gæti síðan verið ágætur sumarleikur að giska á hvaða ráðherra verði næstur til að opinbera andstöðu sína í stórmálum ríkisstjórnarinnar.
22.6.2009 | 20:51
Fyrningin bitnar á landsbyggðinni - segja opinber talnagögn
Engan þarf að undra þó brugðist sé hart við í sjávarbyggðum landsins, þegar hugmyndum um fyrningu veiðiréttar er ýtt á flot. Það er augljóst að fyrning aflaheimilda og skerðing veiðiréttar mun fyrst og fremst valda óvissu í sjávarbyggðum landsins. Aflaheimildirnar eru nefnilega að lang mestu leyti staðsettar á landsbyggðinni og því munu fyrningarhugmyndirnar fyrst og fremst bitna þar.
Þetta kemur í rauninni vel fram í svari sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra sem birt á dögunum vegna fyrirspurnar sem ég lagði fram á Alþingi. Skýrar getur það í rauninni ekki verið. Við vissum svo sem flest að veiðirétturinn væri einkanlega á landbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu, þó stundum sé annað látið í veðri vaka. En svar ráðherrans við fyrirspurn minni tekur af öll tvímæli.
Yfir 90 prósent aflaheimilda í ýsu og þorski er á landbyggðinni, og svipað og þaðan af meira í flestum öðrum tegundum. Þetta geta menn lesið í svarinu. Karfi og grálúða eru þær tegundir sem helst skera sig úr þar sem aflaheimildir í þessum tegundum eru all nokkrar á höfuðborgarsvæðinu; 30 % í grálúðu og 40% í karfa á höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti má segja að nær allur veiðirétturinn sé utan höfuðborgarsvæðisins.
Þegar menn tala um að færa veiðiréttinn út til sjávarbyggðanna þá er væntanlega fremur því verið að tala um að færa veiðirétt á milli þessara byggða. Nema það séu þessi 10% kvótans sem menn vilja taka af höfuðborgarsvæðinu og færa út til sjávarbyggðanna. Sé það svo þá eiga menn að tala skýrt og segja það skorinort. Hingað til hafa menn ekki almennt talað á þann veg.
En fyrningin bitnar óumdeilanlega á þeim byggðum, þar sem aflaheimildir eru helst til staðar. Það er að segja á landsbyggðinni. Þess vegna bregðast menn svo ókvæða við fyrningarhugmyndum, víða um landsins byggðir og það alveg þvert á pólitískar línur eins og fjölmörg dæmi eru um.
17.6.2009 | 10:47
Hverjir hafa séð Icesave samninginn?
Icesave -málið verður æ skrautlegra eftir því sem það tekur á sig fleiri myndir. Nú er það nýjasta að hreinn vafi leiki á hvort þessi fjárhagsskuldbinding upp á 600 til 700 milljarða verði opinber. Frá því máli hefur bersýnilega verið gengið þannig það er á valdi ríkisstjórna Breta og Hollendinga hvernig með þau mál verði farið. Það er semsagt hollvinur okkar, Gordon Brown sem fær þessu ráðið. Er þá ekki rétt að spyrja Alistair Darling líka, svo allt hryðjuverkalagagengið verði með ráðum?
Er nú ekki orðið dapurt hlutskipti Steingríms J. að skrifa bréf til Gordons Brown sem er einhvern veginn svona: Má ég kæri Gordon sýna þjóðinni minni og þinginu samninginn sem við vorum að gera...?
Það er alveg kórrétt hjá Álfheiði Ingadóttur formanni Viðskiptanefndar þingsins; þessi mál verða ekki leidd til lykta nema nauðsynleg gögn liggi fyrir og þar með talið þessi samningur, sem er orðinn að einhvers konar leynisamningi. Og það er auðvitað makalaust að á því leiki einhver vafi hvort þingið, sem ætlað er að taka afstöðu til samningins, fái hann í hendur !
Samningar af þessu tagi eru jafnan óskaplegt torf, skrifaðir á lagaflækjumáli, sem erfitt er að skilja nema með mikilli yfirlegu. Ensk lagahugtök, á sérhæfðu málasviði, munu helst vera á færi innvígðra og þess vegna er alveg ljóst að það er ekki áhlaupsverk að komast til botns í þessu máli. Fyrir utan nú allar þær spurningar sem koma upp um efni samningsins sjálfs.
En meðal annarra orða og þetta er spurning sem ekki hefur verið borin upp: Hvaða Íslendingar hafa þennan samning undir höndum? Jú, klárlega samninganefndin. En ríkisstjórnin? Liggur þessi samningur í 12 ráðuneytum, á meðan þing og þjóð hafa ekki aðgang að gögnunum? Er samningurinn þá í höndunum á þeim tíu þingmönnum sem sitja á ráðherrabekkjunum, en ekki okkur hinum 53, hvað þá almenningi í þessu landi? Var samningurinn við Íslandsvininn Brown upp á þau býti að sumir þingmenn fengju samninginn og alls ekki þjóðin ?
Og svo eitt að lokum. Það er óhugnanlegt en það virðist þó svo. Ríkisstjórnin hefur að því er sýnist skrifað upp á samning við aðrar þjóðir með 6-700 milljarða skuldbindingu, án þess að hafa gengið úr skugga um hvort hún gæti fullnustað samninginn. Málið er núna þannig statt að það er einhvers konar ágiskanakeppni í gangi. Þetta er örugglega einsdæmi í lýðveldissögunni; ríkisstjórn sem skrifar upp á samning sem ekki má kynna opinberlega og sem enginn veit hvort samþykktur verður á þjóðþinginu. Þetta er ótrúlegt, en þetta er hvorki fyndið né hlægilegt.
10.6.2009 | 08:44
Icesave-samningur í hífandi óvissu
Í rauninni er staða Icesave samningsins mun alvarlegri en nokkurn gat órað fyrir. Að loknum gærdeginum er það eina sem liggur fyrir, að fullkominn óvissa virðist ríkja um það hvort samningurinn verði yfirhöfuð staðfestur á Alþingi.
Á þessari síðu var það fullyrt í gær að samningurinn hlyti staðfestingu þings og forseta. Um forsetann þarf ekki að efast, því eins og hér var sagt í gær; hann mun aldrei gera VG og Samfylkingu það að hafna svona stórmáli sem þessir flokkar bera ábyrgð á. Það vita allir.
En hvað með Alþingi? Út frá því var bókstaflega gengið að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hefðu gengið úr skugga um það að samningurinn nyti stuðnings meirihluta Alþingis áður en hann var undirritaður. Nú er það fullkomlega óvíst.
Ég spurði nefnilega Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, formann þingsflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í gær um þetta á Alþingi. Svarið var áhugavert. Meirihluti þingflokksins styður málið. Ekkert um það hvort málið nyti nægjanlegs stuðnings á Alþingi. Því hefur enn ekki verið svarað.
Þessi stóri samningur; fjárskuldbinding um heila 650 milljarða er í hífandi óvissu. Það liggur ekki fyrir hvort ríkisstjórnin geti fullnustað samning sem hún hefur gert.
Það dugir auðvitað ekki að vísa til þess að málið sé í höndum Alþingis að lokum. Málið var unnið á forræði ríkisstjórnarinnar og er á hennar ábyrgð. Samninganefndin var skipuð af ráðherrunum. Stjórnarandstaðan var ekki kölluð til. Eftir hennar stuðningi hefur ekki verið leitað.
Gleymum því ekki að það er búið að undirskrifa samninginn. Í svona máli ber ríkisstjórn að ganga úr skugga um stuðning við hann. Það er forkastanlegt að ekki sé full vissa um stöðu málsins; máls af þessari stærðargráðu. Hér er enn eitt málið á ferðinni þar sem ríkisstjórnin er á furðulegri ferð.
9.6.2009 | 08:55
Verða Icesave samningarnir staðfestir?
Álitsgjafar hafa í fjölmiðlum velt fyrir sér pólitískri stöðu Icesave málsins. Hvort það hafi meirihlutastuðning á Alþingi og hvort Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands muni staðfesta lög sem gefa ríkisstjórninni heimild til að skuldbinda þjóðinna til að ábyrgjast greiðslur upp á 650 milljarða króna.
Þetta eru algjörlega ástæðulausar vangaveltur.
Tökum fyrst spurninguna um þingmeirihlutann og veltum fyrir okkur hvers konar samningar það eru sem ríkisstjórnin vill gera við Hollendinga og Breta.
Hér er um að ræða samninga um mál sem hafa staðið yfir frá því í haust. Í húfi eru 650 milljarðar sem eru afleiðing af Icesave reikningum þeim sem Landsbankinn bjó til á sínum tíma. Þetta er engin smáupphæð. Sjálfsagt einhver stærsta skuldbinding okkar sem þjóðar frá upphafi. Við erum í raun í ábyrg fyrir allri upphæðinni þar til ljóst er hvað inn á hana greiðist.
Slíkan risasamning gerir engin ríkisstjórn sem vill láta taka sig alvarlega nema vera búin að ganga úr skugga um það hvort hún geti fullnustað hann með samþykkt Alþingis. Ríkisstjórnin hefur ekki leitað eftir stuðningi okkar sjálfstæðismanna við þennan samning, né annarra stjórnarandstöðuflokka. Ríkisstjórnin reiðir sig því bersýnilega á stuðning sinna þingmanna, eins og eðlilegt má telja. Út frá því verður þess vegna að ganga að meirihluti sé fyrir þessum samningi með fylgi stjórnarliða; hvað svo sem þeir segja í umræðunni. Annað er algjörlega útilokað.
Eða ímyndum okkur að við Íslendingar gerðum samning af þessari gerð við aðrar þjóðir og að þær kæmu síðan að lokinni undirskrift og segðust ekki geta fullnustað hann. Það er einfaldlega óhugsandi staða sem kemur ekki upp í samskiptum siðaðra þjóða, svo einfalt er það.
Og varðandi spurninguna um hvort Ólafur Ragnar muni haga sér í þessu máli líkt og hann gerði í fjölmiðlamálinu forðum tíð. Stutta svarið við þeim vangaveltum er þetta. Nei, það mun hann ekki gera. Hann mun ekki gera ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna það. Það vita allir sem leiða að því hugann.
4.6.2009 | 22:01
Seðlabankinn fellir áfellisdóm yfir ríkisstjórninni
Peningastefnunefnd Seðlabankans felldi harðan áfellisdóm yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í dag. Sú dapra staðreynd að stýrivextir eru einungis lækkaðir um 1% á rætur sínar að rekja til þess að ríkisstjórnin hefur algjörlega brugðist hlutverki sínu; er ekki vanda sínum vaxinn og með fumi sínu og aðgerðarleysi orðin þess valdandi að kjarasamningar eru komnir í uppnám.
Fyrir mánuði gaf peningarstefnunefndin fyrirheit um umtalsverða vaxtalækkun. Það var þó háð þeim skiyrðum að ríkisstjórnin ynni vinnuna sína. Það hefur hún ekki ekki gert. Þess vegna eru vextirnir ennþá á kyrkingarstiginu og eru smám saman að murka lífið úr atvinnufyrirtækjunum og heimilunum.
Nefndin skrifaði í rökstuðningi sínum fyrir mánuði eftirfarandi: "Verði gengisþróun krónunnar og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir, væntir peningastefnunefndin þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, enda verði þá komin til framkvæmda fleiri skref í efnahagsáætluninni."
Skilyrði nefndarinnar eru sem sé þessi: Aðgerðir í ríkisfjármálum líti dagsins ljós, efnahagsáætlun hafi verið hrint í framkvæmd, skapast hefði tiltrú á gengið. Þetta hefur ekki gengið eftir, ekkert einasta atriði. Gengið hefur fallið, ekkert sést til ríkisfjármálaaðgerða, ef undan eru skildar hækkanir á brennivíni, tóbaki og eldsneyti og efnahagsáætlanir eru hvergi sjáanlegar á sjóndeildarhringnum.
Þess vegna hefur Seðlabankinn sagt skoðun sína. Ríkisstjórnin situr uppi með ábyrgðina. Hún hefur brugðist; hún hefur brugðist þessi vanhæfa ríkisstjórn. Ríkisstjórnin er að verða helsta efnahagsmeinsemdin.
4.6.2009 | 21:55
Seðlabankinn fellir áfellisdóm yfir ríkisstjórninni
Peningastefnunefnd Seðlabankans felldi harðan áfellisdóm yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í dag. Sú dapra staðreynd að stýrivextir eru einungis lækkaðir um 1% á rætur sínar að rekja til þess að ríkisstjórnin hefur algjörlega brugðist hlutverki sínu; er ekki vanda sínum vaxinn og með fumi sínu og aðgerðarleysi orðin þess valdandi að kjarasmningar eru komnir í uppnám.
Fyrir mánuði gaf peningarstefnunefndin fyrirheit um umtalsverða vaxtalækkun. Það var þó háð þeim skiyrðum að ríkisstjórnin ynni vinnuna sína. Það hefur hún ekki ekki gert. Þess vegna eru vextirnir ennþá á kyrkingarstiginu og eru smám saman að murka lífið úr atvinnufyrirtækjunum og heimilunum.
Nefndin skrifaði í rökstuðningi sínum fyrir mánuði eftirfarandi: "Verði gengisþróun krónunnar og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir, væntir peningastefnunefndin þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, enda verði þá komin til framkvæmda fleiri skref í efnahagsáætluninni."
Skilyrði nefndarinnar eru sem sé þessi: Aðgerðir í ríkisfjármálum líti dagsins ljós, efnahagsáætlun hafi verið hrint í framkvæmd, skapast hefði tiltrú á gengið. Þetta hefur ekki gengið eftir, ekkert einasta atriði. Gengið hefur fallið, ekkert sést til ríkisfjármálaaðgerða, ef undan eru skildar hækkanir á brennivíni, tóbaki og eldsneyti og efnahagsáætlanir eru hvergi sjáanlegar á sjóndeildarhringnum.
Þess vegna hefur Seðlabankinn sagt skoðun sína. Ríkisstjórnin situr uppi með ábyrgðina. Hún hefur brugðist; hún hefur brugðist þessi vanhæfa ríkisstjórn. Ríkisstjórnin er að verða helsta efnahagsmeinsemdin.
30.5.2009 | 08:25
Aðgöngumiðinn að ríkisstjórnarborðinu
Þingskjal 38, og 38. mál, er ekki einasta hefðbundið þingmál, í þeim skilningi, heldur ekki síður aðgöngumiði; aðgöngumiði að ríkisstjórnarsamstarfinu. Þetta þingskjal er gjaldið sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs reiddu fram til þess að fá sæti við ríkisstjórnarboðrið. Án þessa gjalds hefði núverandi ríkisstjórn einfaldlega ekki verið mynduð og einhver önnur ríkisstjórn verið mynduð.
Ég vakti athygli á þessu í umræðum um tillöguna sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flytur og enginn veit hvort nýtur fylgis í samstarfsflokknum, VG. Það er eitt best varðveitta leyndarmál Alþingis um þessar mundir. Leyndarhyggja í sinni tærustu mynd.
Tvennt skal hér rifjað upp.
Hið fyrra er þetta. Rétt undir lok kosningabaráttunnar herti Samfylkingin róðurinn mjög í átt að ESB aðild. Þingmenn, frambjóðendur og ýmsir þungaviktarmenn settu hreinlega fram úrslitakosti. Annað hvort sækjum við um aðild að ESB eða við verðum ekki með. Svo einfalt er það.
VG lét undan. Vegna þess að þá langaði svo heitt að ríkisstjórnarborðinu með Samfylkingunni var allt annað lagt í sölurnar.
Þetta eru auðvitað mikil tíðindi. VG menn hafa hingað til verið eindrægnir andstæðingar aðildar að ESB. Þegar við sátum fulltrúar allra stjórnmálaflokka í nefnd um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og skiluðum áliti rétt fyrir kosningar 2007, þá gengu fulltrúar VG lengst. Þeir voru ekki bara gagnrýnir á ESB, heldur vildu þróa sjálfan EES samninginn frá því sem hann er í átt að tvíhliða viðskiptasamningi. Undir þetta rituðu Ragnar Arnalds fyrrv. ráðherra og þingmaður og Katrín Jakobsdóttir varaformaður flokksins.
Nú hefur flokkurinn kúvent gjörsamlega og siglir núna tveimur árum síðar í þveröfuga átt.
Nú skilur maður hvað Steingrímur J. meinti þegar hann sagði fyrir kosningar að um allt mætti semja í ESB málum. Þegar við vöktum athygli á þessu í kosningabaráttunni varð hann alveg vitlaus. Það var auðvitað vegna þess að hann var búinn að ákveða að varpa sinni gömlu stefnu fyrir róða og ganga í félag Samfylkingunni. Það er núna komið í ljós.