26.5.2009 | 08:41
Eru kosningar tæknilegt úrlausnarefni?
Tafir á afgreiðslu láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er farið að valda skaða í efnahagsmálum okkar. Þessar tafir vekja spurningar um trúverðugleika efnahagsstefnu stjórnvalda, þær valda þrýstingi á krónuna og munu spila inn í ákvörðun um stýrivexti nú eftir hálfan mánuð.
Það er marg búið að gera atrennu að stjórnvöldum og krefjast skýringa á þessum töfum. Og stjórnarliðar hafa komið sér upp frasa til þess að nota til þess að breiða yfir alvöru málsins. - Það eru svo kölluð "tæknileg atriði" sem tefja dulítið afgreiðsluna, segja þeir og gera lítið úr vandræðum sínum. Fyrir tveimur og hálfum mánuði sagði svo Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að úr þessum tæknilegu vanköntum myndi rætast á næstu dögum.
Enn bólar ekkert á láninu svo ég spurði forsætisráðherrann sjálfan um málið í gær. Jóhanna Sigurðardóttir viðurkenndi að ekki bólaði enn á láninu en vænti þess einhvern tímann í júlí; það er fjórum mánuðum eftir að fjármálaráðherrann sagði bara dagaspursmál hvernær málið væri í höfn !
En hver eru þessi tæknilegu atriði sem eru að þvælast fyrir ykkur, Jóhanna, spurði ég í gær og fékk svarið.
Það er svona eitt og annað. Tæknilegu atriðin sagði forsætisráðherrann eru smáatriði eins og alþingiskosningarnar, þær hafa tafið þetta. Nú svo auðvitað ríkisstjórnarmyndunin, þá vorum við upptekin við annað. Já, ekki má heldur gleyma því að það þarf að endurreisa bankakerfið. Og síðan þurfum við að leggja fram áætlun um ríkisfjármál sagði forsætisráðherran aðspurð um tæknilegu atriðin.
Þetta eru sem sagt "tæknilegu atriðin", sem greiða átti úr í mars; kosningar, stjórnarmyndun, mörkun ríkisfjármálastefnu og endurreisn hrunins bankakerfis.
Þá vitum við það.
25.5.2009 | 11:23
Í tilefni af 80 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins
Í tilefni af 80 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins sem er í dag, skrifar Bjarni Benediktsson formaður flokksins athyglisverða grein í Morgunblaðið. Í greininni ræðir hann meðal annars hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins í ljósi þeirra efnahagsvandræða sem við glímum nú við. Þetta er tímabær umræða. Í grein Bjarna segir meðal annars:
"Um þessar mundir eru þrengingar í efnahagslífinu. Orsakanna er að leita í mörgum samverkandi þáttum og Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur gegnt forystu við stjórn landsmála því sem næst samfellt síðastliðin 18 ár, hefur ekki skorast undan sinni ábyrgð á því hvernig komið er.
Við þessar viðkvæmu aðstæður hefur verið mynduð hrein vinstristjórn. Sú hætta er raunveruleg að hér færist sífellt meiri starfsemi undir hatt ríkisins og að stöðugt þrengi að kosti þeirra sem vilja opið og frjálst samfélag þar sem hver og einn getur sótt fram á eigin forsendum. Það er því mikilvægara nú en lengi áður að halda hátt á lofti merki þeirra sem vilja að hér verði áfram byggt á frjálsu framtaki, markaðsbúskap og að opinberum umsvifum verði sett skynsamleg mörk. Geta okkar til að standa að öflugu velferðarkerfi og veita þeim fjölskyldum sem á þurfa að halda stuðning mun áfram haldast í hendur við þróttinn í atvinnulífinu og verðmætasköpun í landinu. "
Þetta eru orð í tíma töluð. Við aðstæður eins og þær sem við búum við, skapast óneitanlega hætta á því að menn bregðist við með ríkisvæðingu og höftum. Það var sú reynsla sem menn fengu í heimskreppunni miklu og flestir eru sammála um að dýpkaði þá kreppu og framlengdi.
Af þeirri reynslu eigum við að læra. Því þótt margt hafi misfarist á undanförnum árum og ýmislegt brugðist sem við treystum á, þá færum við úr öskunni í eldinn ef við fetuðum refilstigu ríkisvæðingar í atvinnulífinu til þess að leita að lausnum við aðsteðjandi vanda núna.
22.5.2009 | 10:04
Engin sátt um hina pólitísku hrákasmíð
Tvennt bar einkum til tíðinda í utandagskrárumræðunni sem ég efndi til í fyrradag um fyrningarleið í sjávarútvegi.
Hið fyrra var að ríkisstjórnin hefur sett fyrningartillögur sínar inn í stjórnarsáttmálann algjörlega undirbúningslaust. Ég spurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvaða athuganir lægju að baki hugmyndunum um að fyrna aflaheimildir útgerða eins og áformað er. Ekkert svar fékkst, frekar en við nokkrum þeim spurningum sem fyrir ráðherrann voru lagðar. Minnist ég ekki eins snautlegra viðbragða við spurningum í utandagskrárumræðu. Engin minnsta tilraun var gerð til að svara einu né neinu, en aðeins lesið upp úr stjórnarsáttmálanum ! Alveg makalaust.
Það kom fram að ætlunin væri að láta fara fram athugun síðar á afleiðingum fyrningarinnar. Sem sagt fyrst er stefnan mörkuð og svo er athugað til hvers hún muni leiða. Þetta er dæmi um pólitíska hrákasmíð í stórmáli og því fullkomið ábyrgðarleysi.
Hitt sem til tíðinda má telja, var sú staðreynd að Samfylkingin er algjörlega úti á köldum klaka í þessu fyrningarmáli. Flokkurinn stendur alveg einn. Talsmenn hans í umræðunni röktu stefnu sína með kunnuglegum frösum og voru þeir einu sem í umræðunni á miðvikudaginn sem héldu málstað fyrningarinnar á lofti.
Það eru í sjálfu sér all mikil tíðindi.
Öðrum eru ljósir annmarkar þessarar stefnumótunar og sem birtist okkur í áliti fólks í sjávarbyggðunum sem gjalda mjög varhug við þessari leið. Því verður ekki trúað að stjórnvöld skelli skollaeyrum við þessum aðvörunarorðum fólksins í sjávarútvegi og sveitarstjórnum úti um allt land. Ríkisstjórnin hlýtur að sjá að sér. Viðbrögð Vinstri grænna, ráðherrans jafnt og formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, í umræðunum um fyrningarleiðina gefa okkur það til kynna.
18.5.2009 | 22:50
Málflutningi forsætisráðherrans afneitað
Það er greinilega farið að styttast í kveikiþræðinum í ríkisstjórnarsamstarfinu þegar kemur að ESB málum.
Óskoraða athygli vakti, að burðarásinn í stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, var áherslan á ESB aðild. Þar var málflutningurinn einfaldur: Engin vandamál fylgja aðildinni, allt er þar blúndulagt og rósrautt. Samningsstaðan vegna sjávarútvegsmála er sterk og í landbúnaðarmálum felast eintóm tækifæri með ESB aðild, þótt allar úttektir sem gerðar hafi verið sýni hið gagnstæða. Ráðherrann lofaði lækkun matvælaverðs með aðild að ESB en sagði að matmvælaframleiðslugreinin landbúnaður myndi lifa góðu lífi með styrkjum frá Brussel ! Þetta er fögur framtíðarsýn.
Það var því ekki að furða að samstarfsfólk Jóhönnu Sigurðardóttur i samstarfsflokknum kynni henni litlar þakkir. Steingrímur J. Sigfússon svaraði henni að mestu með þögninni um þetta mál; helst þó að hann gerði lítið úr þýðingu málsins gagnstætt forsætisráðherranum sínum. En báðir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem í umræðunum töluðu, lögðu sig í framkróka við að afneita ESB dekri Samfylkingarinnar.
Lengst gekk Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sjálfur þingflokksformaður VG og leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi. Hennar ræða verður ekki skilin öðruvísi en þannig að hún hafi beinlínis svarið af sér þann hluta stefnuræðu forsætisráðherra sem laut að ESB málum. Hvorki meira né minna. Hún hvatti Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til að tala eingöngu fyrir hönd Samfylkingar en ekki "okkur hin þegar hún talar um aðild okkar að ESB".
Skýrara getur þetta ekki verið. Þeim fjölgar sem sagt dag frá degi í ríkisstjórnarliðinu sem hafna málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar í því máli sem forsætisráðherrann gefur mest vægi í stefnuræðu sinni.
Þarna var svo rækilega sett ofan í við forsætisráðherrann og formann Samfylkingarinnar að eftir er tekið. Þetta er eins skýr höfnun á stefnumiði ríkisstjórnarinnar og hægt er að hugsa sér; eða er ESB tillaga Össurar Skarphéðinssonar kannski bara einkamál Samfylkingarinnar sem samstarfsflokknum kemur ekki við?
15.5.2009 | 17:08
Klækjarefirnir komnir á kreik
Borgarahreyfingin lét klækjarefina í Samfylkingu og hjá Vinstri grænum plata sig strax á fyrsta degi. Með því að ganga til liðs við ríkisstjórnarflokkana við kjör i nefndir má segja að hreyfingin hafi brotið tvö megin prinsipp sín.
Í fyrsta lagi er ljóst að með þessu tekur hreyfingin stöðu með ríkisstjórninni og ákvörðun þingmanna hennar veldur því að hér eftir má ljóst vera að þeir starfa í nefndum í skjóli ríkisstjórnarflokkanna. Andófshópur sem tekur sér stöðu undir pilsfaldi ríkisstjórnar á fyrsta þingdegi brýtur óneitanlega í blað!
Í annan stað veldur þessi ákvörðun því að styrkleikahlutföll stjórnmálaflokkana sem leiddu af kosningunum bjagast. Hlutur stjórnarflokkanna tveggja og fylgihnattar þeirra verður sterkari á kostnað stjórnarandstöðunnar. Þessi styrkleikahlutföll eru ekki í samræmi við úrslit þingkosninganna.
Þetta eru sem sagt fyrstu skrefin sem Vinstri hreyfingin grænt framboð, Samfylkingin og Borgarahreyfingin stíga í átt að því sem þau hafa kallað lýðræðisumbætur. Vonandi markar þetta skref ekki vegferðina að öðru leyti. En ljóst er að þetta segir okkur allt um það hver er raunverulegur vilji ríkisstjórnarinnar til samstarfs. Hann er bersýnilega ekki mikill. Tilskipana- og ofríkisstjórnin sem mynduð var 1. febrúar sl. er enn á ferðinni.
Það er ljóst hverjir eru gerendur og hverjir eru þolendur í þessum bellibrögðum. Það er verið að nota sér reynsluleysi og hrekkleysi þingmanna Borgarahreyfingarinnar, til þess að veikja stöðu stjórnarandstöðunnar í nefndum og til þess að skaffa ríkisstjórninni fleiri þingmenn í þingnefndum,en kosningaúrslit gáfu tilefni til. Flóknara er það ekki !
13.5.2009 | 10:42
Hreinræktaða útgáfan

En hin óblandaða og hreinræktaða vinstristjórn er þegar farin að sýna eiginleika sína, sem ekki hafa sést áður; ekki einu sinni í vinstriblendingunum sem áttu þó ýmislegt kostulegt til.
Hér er átt við hið makalausa verklag við mótun stefnu í ESB-málum, sem ekki á sér hliðstæðu. Gætum að því að hér erum við að tala um stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Þar standa fylkingar ríkisstjórnarliðanna sem gráar fyrir járnum hver gegn annarri; ekki endilega hvor gegn annarri, því ekki vitum enn hve þessar fylkingar eru margar.
Einkenni þeirra vinstristjórna sem ekki voru hreinræktaðar var sundurlyndið. Vinstriblendingarnir áttu þó jafnan sína hveitibrauðsdaga þar sem sæmilegur friður ríkti framan af. Í hinni hreinræktuðu útgáfu fáum við ríkisstjórn sem hefur vegferð sína á því að kynna þjóðinni sundurlyndisfjandann í eigin herbúðum, alveg frá fyrsta degi. Nú fáum við að kynnast sundurlyndinu í óblönduðum skömmtum, þar sem áhrifin verða þess vegna ennþá sterkari og koma þar af leiðandi fram strax á fyrsta degi.
Okkur er sagt að þetta sé lýðræðisleg leið við að leysa ágreiningsmál. Megum við þá ekki búast við slíku í öðrum málum? Er þess kannski að vænta að fjárlagafrumvarpið í haust verði afgreitt í andstöðu við einhverja ráðherra og í blóra við vilja tiltekinna þingmanna? Spurningarnar hljóma kannski fráleitar, en gleymum því ekki að við lifum óvenjulega tíma. Við erum komin með hreinræktaða vinstristjórn. Hún hefur þegar kynnt okkur ný vinnubrögð, svo nú er við öllu að búast.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 12. maí. 2009.
11.5.2009 | 09:46
Nú verður hlegið hátt í Brussel
Það fór svo að ríkisstjórnin magalenti í sínu stærsta máli, ESB málinu. Þessi makalausa lending, að annar stjórnarflokkurinn styður niðurstöðu málsins, en hinn er klofinn í guðveit hvað marga parta, er ótrúlegt klúður sem veikir ríkisstjórnina frá fyrsta degi.
Það er ekki einu sinni svo að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu sammála um þetta mikla mál. Amk. einn þeirra er á móti og næstu dagar eiga eftir að leiða í ljós hvort þeir séu fleiri og hvernig þingflokkur Vinstri grænna skiptist nákvæmlega í afstöðu sinni.
Gagnstætt því sem aðstæður gefa tilefni til, þá voru efnahagsmálin ekki fyrirhafnarmesta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Þegar kemur að heimilum og fjölskyldum þá segja ríkisstjórnarsinnar helst að eitthvað vanti upp á kynningu á þeim fínu málum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lét vinna. Það vantar því ekki aðgerðir að þeirra sögn, heldur meiri atbeina almannatengla og auglýsingastofa. Þetta er ótrúleg óskammfeilni.
Stóra ESB málið hefur þess vegna meira vægi í hugum ríkisstjórnarinnar en nokkuð annað, þó fylgismennirnir séu allir út um víðan völl.
Og hugsum okkur svo framhaldið. Nái vilji Samfylkingarinnar og þess hluta ríkisstjórnarliðsins sem beygður hefur verið til fylgilags, fram að ganga, þá mun verða send ósk um aðild að ESB, þar sem hugur fylgir ekki máli, enda liggur fyrir andstaða umtalsverðs hluta stuðningsliðs ríkisstjórnarinnar. Fyrir vikið verða samningsmarkmiðin óljós og algjörlega ótrúverðug. Enda segir fátt af þeim málum í stjórnarsáttmálanum.
Svörin suður í Brussel verða þess vegna alveg fyrirsjáanleg. Þar verður rekinn upp skellihlátur, svo undir mun taka í fjöllunum hér norður á Íslandi. Því þó margt kostulegt hafi nú átt sér stað úti í ESB, þá mun vandræðagangur ríkisstjórnarinnar á Íslandi slá öll met.
Ríkisstjórninni er þess vegna alls ekki alls varnað. Hún hefur að minnsta kosti skemmtanagildi; að henni má hlægja. Það er þó allaveg einhvers virði.
5.5.2009 | 08:41
Út og suður pólitíkin
Lending ríkisstjórnarflokkanna í ESB málinu var alltaf fyrirsjáanleg. Þetta var bara spurning um aðferðafræði. Markmiðið var alltaf skýrt. Að koma málum þannig fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir gætu sem mest fjarlægt sig frá ákvörðuninni, þannig að ekki þyrfti að steyta á ágreiningnum sem uppi er í málinu. Ég vakti athygli á þessu strax daginn eftir kosningar, í grein hér á síðunni.
Til þess voru tveir kostir færir. Að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og Samfylkingin gerði í Hafnarfirði af því að flokkurinn var innbyrðis ósammála um stækkun álversins þar. Hinn kosturinn var að leggja málið fyrir Alþingi, eins lítt búið og hægt væri. Þar fengju flokkarnir óbundnar hendur. Nú er sagt að síðari lendingin sé kosturinn sem hafi orðið ofan á.
Í greininni hér á síðunni 26. september orðaði ég þetta svona og það virðist ætla að ganga eftir: "Þannig verður ESB málinu vísað hráu í atkvæðagreiðslu, þar sem ekkert kjöt verður á beinunum og átökunum þannig vísað frá ríkisstjórninni".
Og jæja. Þá vitum við það. Þetta er að verða raunin.
Kannski sé þá hægt að ætlast til að ríkisstjórnarflokkarnir fari þá að sinna þeim málum sem mestu varða heimilin og fjölskyldurnar, svo ekki sé talað um ríkisfjármálin, úr því að þeir hafa dottið ofan á reddingu í ESB málinu mikla; málinu sem allan forgang hefur haft umfram allt annað.
Og þarna er komin úrvalsleið fyrir ríkisstjórn, sem fyrirsjánlega verður innbyrðis sundruð og sundurþykk. Tökum tvö dæmi af handahófi.
Vinstri grænir og hluti Samfylkingar eru eins og eintrjáningar þegar kemur að nýtingu á orku og uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Stundum er iðnaðarráðherrann okkar blessaður hins vegar vel náttúraður fyrir stóriðju. Til dæmis þegar hann er á Húsavík. Standi þann veg á hjá honum, þá getur hann lagt fram þingsályktunartillögu, án tillits til sjónarmiða annarra félaga sinna í ríkisstjórninni. Alþingi tekur þá afstöðu til málsins.
Við vitum líka að Samfylkingin er alltaf eins og snúið roð í hund, þegar kemur að landbúnaðarmálum. Vinstri grænir hafa á hinn bóginn gert hosur sínar grænar fyrir bændum og vilja kannski leggja fram þingmál til hagsbóta fyrir landbúnaðinn. Þá geta þeir gert það alveg án tillits til hvernig málum er háttað á stjórnarheimilinu.
Fyrirmyndin að þessu háttalagi er til staðar hjá ríkisstjórninni. Þar má nefna þingmálið um fjárfestingarsamning vegna álversins í Helguvík. Þar voru flestir ( ekki allir) samfylkingarmenn með, en Vinstri grænir á móti. Ósköp þægileg leið !!
Sem sagt. Ríkisstjórnin getur fylgt svona út og suður pólitík, en engri heildstæðir stefnu í meginmálum. Leiðin hefur nú verið vörðuð í helsta forgangsmáli ríkisstjórnarinnar. ESB málinu. Hin smærri mál hljóta því að fylgja á eftir.
3.5.2009 | 23:00
Það liggur ekkert á !
Stjórnarmyndunarleikritið er eingöngu illa ófyndinn farsi. Eða hvað er hægt að segja um stjórnarmyndunar-viðræður sem standa í heila viku áður en fyrsti starfshópurinn, um þau mál sem mest eru knýjandi, kemst á koppinn. Það blasir við risaverkefni í ríkisfjármálum, málefnum heimila og atvinnulífs. En að sögn ríkisstjórnarforkólfanna hefur fyrsta vikan aðallega farið í að pússa saman ágreining um ESB ! - Eins og það sé málið sem mest liggur á.
Á meðan segja fyrirtækin upp starfsfólki. Almenningur hrópar eftir raunverulegum aðgerðum í skuldamálum heimilanna. Forsætisráðherrann og viðskiptaráðherrann þræta við fólkið í landinu og vísa því á aðgerðir sem allir vita að mæta alls ekki þörfum fjölskyldnanna. Jafnvel helsta krúnudjásnið í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er óbrúklegt af því að reglugerðina vantar sem vinna á eftir. - Þetta er ótrúlegt framtaksleysi - ótrúlegt skilningsleysi.
Þegar þörfin er himinhrópandi setjast Steingrímur J. Og Jóhanna niður og reyna að fá botn í ágreining sinn um furður Evrópusambandsins. Þetta staðfestir hversu óralangt þau hafa færst frá raunverulegum vandamálum samfélagsins.
Og síðan er það enn eitt dæmið til marks um verkleysið og skilningsleysið, að heilum tveimur mánuðum eftir að samþykkt voru lög sem heimila fullan frádrátt á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað ( sem vel að merkja hafði verið undirbúið í tíð síðustu ríkisstjórnar) er enn ekki búið að setja reglugerð til þess að því máli yrði hrint í framkvæmd. Var þessum lögum þó ætlað að hrinda af stað verkefnum í byggingariðnaði, þar sem ástandinu nú er líkt við alkul, drepa niður svarta atvinnustarfsemi og auðvelda almenningi fjárfestingar. - En þá erum við svo stálheppin að hafa við völd, svo verklausa ríkisstjórn að hún kemur ekki einu sinni frá sér reglugerð um málið til að vinna eftir!
Nú skilur maður loksins hvað þau Jóhanna og Steingrímur J. eiga við þegar þau segja að ekkert liggi á. Það er greinilega ekki bara í stjórnarmyndunarviðræðum sem ekkert liggur á. Það liggur heldur ekki á að hrinda í framkvæmd þeim málum sem Alþingi hefur samþykkt og horfa til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. Ekkert liggur á, allt má bíða og allt er látið danka.
30.4.2009 | 09:32
Tvöfalt kjaftshögg frá ríkisstjórninni
Nýjar verðbólgumælingar valda vonbrigðum. Vegna veikingar á gengi krónunnar hækkar verðlag, á þeim tíma sem ella væru forsendur fyrir afar lítilli verðbólgu og jafnvel tímabundinni verðhjöðnun. Þessa ólánsþróun er eingöngu hægt að skrifa á syndaregistur tveggja aðila; ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.
Erfitt er í rauninni að sjá hvert ríkisstjórnin ætlar sér við efnahagsstjórnina. Stefnumörkunin er öll í skötulíki. Öllu er vísað inn í framtíðina og miklar efasemdir eru um getu stjórnarinnar til þess að takast á við sitt stóra verkefni; ríkisfjármálastefnuna sjálfa.
Seðlabankinn sendir út misvísandi skilaboð. Það er til dæmis fáum ljóst hvert bankinn ætlar varðandi jöklabréfin, sem hanga yfir okkur eins og Damoklesarsverð, sem getur fallið yfir okkur hvenær sem er. Gjaldeyrishöftin eru farin að valda hér geysilegum skaða og yfirlýsingar norska seðlabankastjórans um þau mál eru lítt traustvekjandi.
Það er þessi óvissa sem er þess vegna svo þrúgandi og er í rauninni orðið sjálfstætt efnahagslegt vandamál.
Vegna þessa ráðleysis húrrar nú krónan okkar niður rússibanabrautina og enginn getur sagt hvar hún endar. Fyrir vikið æðir innflutningsverðlagið upp og vinnur á móti þeirri verðlækkun sem er orðin á öðrum sviðum.
Húsnæðisverð var einu sinni aðal aflvaki verðbólgunnar. Nú dregur lægra verð á húsnæði, verðbólguna niður. Á sama tíma þrýstir innflutningsverðlagið verðbólgunni upp. Í kjölfarið hækka síðan lán almennings og fyrirtækja. Og ríkisstjórn og Seðlabanki yppta bara öxlum. Þetta dúó efnahagsstjórnarinnar kærir sig kollótt um vandamálin sem hrannast upp hjá fólkinu í landinu. - Það er nógur tími segja Jóhanna og Steingrímur J. í boði Ólafs Ragnars Grímssonar.
Sem sagt. Unga fólkið og aðrir húsnæðiseigendur í landinu sjá eigur sínar lækka í verði, en skuldirnar hækka á sama tíma. Ríkisstjórnin greiðir almenningi í landinu með þessu tvöfalt kjaftshögg og slappar svo af við ríkisstjórnarleikritið.