29.4.2009 | 11:30
Ráðaleysi fremur en skeytingarleysi?
Samlíking úr síðasta bloggi, um að stjórnarmyndunarviðræður væru líkt nýtt leikrit á fjölunum, verður æ raunverulegri. Það er auðvitað löngu ljóst að ríkisstjórn vinstri flokkanna verður að veruleika. Leikurinn felst í því að setja upp atburðarrás ( sem klisjugerðarmenn Samfylkingar myndu væntanlega kalla ferli) sem líkist sem mest hefðbundinni stjórnarmyndun. Tímasetningin hefur meiri þýðingu í þessum viðræðum en innihaldið. Spuninn blívur !
Nú berast fréttir af tveimur áhersluatriðum sem draga athygli að þeirri leihúsumgjörð sem umlykur viðræður flokkanna.
Viðræðurnar hófust í Norræna húsinu. Þar með er fundin skírskotunin til norræna velferðarmódelsins, sem er hugtak sem nýtur hylli í báðum flokkunum sem nú sitja við samningaborðið. Skaði fyrir Samfylkinguna að ekkert finnst hér Evrópuhúsið, það hefði getað orðið skemmtileg umgjörð viðræðnanna í ljósi umræðna um ESB.
Og svo er það hitt. Mikill vilji er til að ljúka stjórnarmynduninni á 1. maí. Þá væri tengingin fengin við verkalýðsflokka. Verst er að í Samfylkingunni nýtur verkalýðshreyfingin lítils álits, eins og við vitum sem með þeim flokki höfum starfarð. Nafnbótin verkalýðsflokkur er þess vegna eins og glens með upphrópunarmerki, þegar við ræðum um flokka með slík viðhorf.
Annars er það til marks um stórfurðulegt raunveruleikaskyn þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala um að ekkert liggi svo sem á varðandi stjórnarmyndun, af því að flokkarnir hafi góðan meirihluta út úr kosningum og sitji við stjórnvölinn. Þetta segja þeir á sömu stundu og fréttir berast af hækkandi verðlagi innanlands vegna hruns krónunnar, gengi krónunnar er á slíkri ferð að enginn veit hvar það endar, atvinnulausum fjölgaði um 1.100 í mánuðinum, fleiri, fleiri fyrirtæki verða daglega gjaldþrota, skuldir almennings og atvinnulífs hrúgast upp, bankarnir eru ekki komnir í starfshæft ástand, fullkomin óvissa ríkir um sparisjóðakerfið, Seðlabankinn tekur hænuskref til vaxtalækkana á meðan okurvextir umlykja fólk og fyrirtæki og svo framvegis, og svo framvegis.
En kannski er þetta viðhorf forystumanna VG og Samfylkingar vísbending um ráðleysi, frekar en um skeytingarleysi gagnvart þessum alvarlegu tíðindum.
26.4.2009 | 22:06
Það er nýtt leikrit á fjölunum
Nýtt leikrit er nú á fjölunum og við getum fylgst með því í fjölmiðlum í ýmsum útfærslum. Nokkuð langt er síðan að handritið var skrifað. Höfundar þess eru stjórnmálamenn, sem kunna ýmislegt fyrir sér í spunalistinni og hafa því reynt að láta leikverkið líkjast mest raunveruleikasjói. Hlutverkaskipan er hefðbundin og leikararnir kunnir og gamalreyndir á sínu sviði. Endir sýningarinnar er fyrirsjáanlegur. Aðalleikararnir munu fallast í faðma, eftir að hafa gert sér upp fálæti, einstaka reiðiköst og svo ólíkindalæti.
Hér er vitanlega verið að ræða um sýninguna sem okkur er boðið upp á varðandi viðræður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingarinnar. Þetta er allt fyrirsjáanlegt. Fyrir löngu hafa allir vitað að þessir flokkar ætla saman í ríkisstjórn. Það var fyrir löng umrætt og ákveðið þeirra á milli. Leikaraskapurinn núna er bara hluti af því handriti.
Menn velta fyrir sér ágreiningi á milli flokkanna. Þau mál eru endalaus. Evrópa, stóriðja, landbúnaðarmál, skattamál, byggðamál og svo framvegis og svo framvegis. Þessum ágreiningi verður einhvern veginn landað. Viljinn til stjórnarsamstarfs er svo auðsær, að það þarf ekki einu sinni að velta fyrir sér spurningu um hvort stjórnarsamstarfið verður að veruleika. Spurningin er bara hve lengi flokksforingjarnir nenna þeim látalátum sem fylgja leikritinu.
Og svo eitt í lokin. Evrópumálin verða leyst þannig að VG ætlar að gefa eftir. Samfylkingin hefur talað þannig að hún á engrar undankomu auðið. Foringjar flokksins hefðu aldrei talað eins og þeir gerðu, nema vegna þess að þeir vita að VG muni gleypa oní sig fyrri yfirlýsingar. Leiðin verður sú sem Samfylkingin fór í vandræðum sinum í Hafnarfirði út af stækkun álversins hjá Ísal. Málinu var vísað í almenna atkvæðagreiðslu og foringjarnir komust hjá því að taka afstöðu. Þannig verður ESB málinu vísað hráu í atkvæðagreiðslu, þar sem ekkert kjöt verður á beinunum og átökunum þannig vísað frá ríkisstjórninni.
Þetta hafa þeir VG menn marg sagt, en kannski ekki alveg svona afdráttarlaust. Til dæmis á fundum í Norðvesturkjördæmi en endanlega mun þetta koma fram í síðasta þætti sjónleiksins sem nú er á fjölunum og fjallar um stjórnarmyndun sem löngu er búið að ákveða.
25.4.2009 | 08:24
Í þessum kosningum eru kostirnir skýrir
Kosningabaráttan hefur leitt í ljós skýrari kosti í stjórnmálum nú á kjördag, en við blasti. Samfylking og Vinstri græn hóta áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Þó sjáum við að traustið á ríkisstjórninni minnkar með ljóshraða. Almenningur sér það æ betur að ríkisstjórnin hefur ekki tekið á vanda heimilanna almennt og fylgir háskalegri stefnu í atvinnumálum. Þess vegna er stuðningur við ríkisstjórnina svo ört minnkandi; og það einnig hjá kjósendum Vinstri grænna og Samfylkingar.
Svar þess fólks sem er að gefast upp á ríkisstjórninni er stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn.
Til þess að verja hagsmuni heimilanna þurfum við öflugt atvinnulíf. Og hvað sjáum við birtast ? - Svarið er þetta:
Ríkisstjórn sem hótar að veikja sjálfan sjávarútveginn með fyrningarleið sem setur sjávarbyggðirnar í uppnám. Ætlunin er að taka aflaheimildirnar sem að langmestu eru á landsbyggðinni og færa þær eitthvað annað. Ríkisstjórnin vill ekki nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar. Það sjáum við í því að hún er klofin til málsins og það var aðeins með harðfylgi Sjálfstæðisflokks að Helguvíkurmálið var afgreitt rétt fyrir þinglok. Ríkisstjórnin vill ekki einu sinni láta leita að olíu ! Umhverfisráðherrann er á móti því og hún á stuðning til þessarar afstöðu sinnar í eigin flokki og í Samfylkingunni.
Með boðaðri ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna yrði til óvenju afturhaldssöm stjórn; fjandsamleg atvinnulegri uppbyggingu og öfgasinnuð í afstöðu sinni til atvinnulífsins.
Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á uppbyggingu atvinnulífsins. Tafarlaust þarf að ganga þannig frá málum að bankarnir geti farið að gegna hlutverki sínu í þágu atvinnulífs og heimila. Þar hefur ekkert gerst ennþá. Vextina þarf að lækka; ekki í hænuskrefum heldur svo um munar. Við eigum að nýta auðlindirnar til hagsbóta fyrir atvinnulífið, hraða opinberum verklegum framkvæmdum og standa vörð um landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu.
Almennt talað að skapa atvinnulífinu svigrúm til að dafna. Það gerir ríkisstjórnin ekki.
Í stað flækjufótareglna um fjármál heimilanna þurfa úrræðin að vera einföld og taka til hagsmuna venjulegra fjölskyldna. Það hefur ekki verið gert.
Þetta eru því kostirnir sem við stöndum frammi fyrir í dag. Jákvæð stefna okkar gagnvart atvinnulífinu en ekki þær öfgar sem ríkisstjórnin boðar. Hagsmunagæsla fyrir heimilin, en ekki flóknar leiðir sem fáum gagnast, eins og verklítil ríkisstjórnin hefur boðið upp á.
24.4.2009 | 06:45
Ferleg blanda og háskaleg
Við fengum innsýn í hugarheim pólitískra öfga, þegar Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra sagðist vera á móti því að við leituðum að og ynnum olíu á landgrunssvæði okkar. Þetta hljómar fáránlega, enda hváðu ýmsir. En henni er alvara. Og ekki bara henni. Í flokki hennar Vinstri grænum er þetta vinsæl skoðun, svo mikið er víst og studd einarðlega af mörgum áhrifamönnum. Því fer víðs fjarri að hún standi ein. Við fylgdumst með vandræðagangi formanns VG, Steingríms J. Sigfússonar, sem annars vegar var að reyna að halda utan um hagsmuni síns kjördæmis af olíuleit og hins vegar að gæta þess að stugga ekki við öfga-umhverfisverndarsinnunum, sem allt er fullt af í flokki hans.
Kolbrún Halldórsdóttir á ekki einasta marga stuðningsmenn í þessum málflutningi á meðal áhrifamanna í flokki sínum; í Samfylkingu eru til staðar nákvæmlega sömu sjónarmið. Þau sjónarmið komu fram þegar síðasta ríkisstjórn ákvað að leggja fé í olíuleit á Drekasvæðinu. Merkilegt er að fjölmiðlar skuli ekki hafa leitað eftir þeim sjónarmiðum.
Nú ætla Vinstri græn og Samfylking í ríkisstjórn. Þá munu tvinnast saman mestu afturhalds og öfgaöfl landsins þegar kemur að atvinnulegri uppbyggingu. Þau munu ná saman í að draga lappirnar varðandi olíuleit, þau munu gera allt sem þau geta til að koma í veg fyrir stóriðjuuppbyggingu.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sem á Húsavík er mikill stóriðjusinni, lyppast niður í sjónvarpssal í Reykjavík, af ótta við Mörð Árnason og fylgismenn hans í Samfylkingunni. Honum tókst á þremur mínuútum í einum sjónvarpsþætti, að hafa þrjár skoðanir á því hvort reisa ætti álver á Bakka við Húsavík. Þetta er hægt að sjá hér á sprenghlægilegum tengli þar sem iðnaðarráðherrann snýst í marga hringi. Og Kristján Möller og Örlygur Hnefill fyrir norðan segja ekki eitt einasta orð, af því þeir eru líka svo hræddir við kaffihúsaliðið í Samfylkingunni fyrir sunnan.
Svo boðar Steingrímur J. nýja skattastefnu til þess að tortíma störfum sem hann hefur ekki velþóknun á. Hann ætlar að prufukeyra þetta á hvalveiðum og svo má þá alltaf beita þessu frekar ef vel tekst til.
Þetta er dauðans alvara. Samfylking og Vinstri græn ætla sér saman í ríkisstjórn og þau munu framfylgja atvinnustefnu, sem einkennast mun af því sem að ofan er lýst.
Öfgastefnur í umhverfis og atvinnumálum eru ekki eitthvað jaðarsjónarmið í einum stjórnmálaflokki. Þessi stefna er greipt í stein í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og á öfluga talsmenn í Samfylkingunni. Samkrull þessara flokka í ríkisstjórn er þess vegna ferleg blanda og háskaleg þegar kemur að atvinnuupbbyggingu.
21.4.2009 | 09:31
Hvor ætlar að gefa málið sitt upp á bátinn ?
Enn er fátt farið að skýrast um afstöðu Vinstri grænna til evrópumálanna hér i okkar kjördæmi, Norðvesturkjördæminu. Frambjóðendurnir fara með löndum og lesa bara upp stílinn sinn þegar þeir eru beðnir um skýr svör um afstöðu sína.
Þversögnin sem þeir treysta sér ekki til að rjúfa er þessi. Vinstri grænir og Samfylking ætla saman í ríkistjórn eftir kosningar, hvað sem það kostar. Málefni ráða ekki för. Þetta er eins og Þorsteinn Pálsson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag. Það verður ekki valdakreppa eftir kosningar, en það verður hins vegar málefnaleg stjórnarkreppa, af því að flokkarnir sem ætla að starfa saman eru út og suður í fjölmörgum málum.
Landbúnaðarmálum, evrópumálum, atvinnumálum, stóriðjumálum..... Og þannig má lengi áfram telja.
Þrátt fyrir margar atrennur þá vilja hinir meintu stjórnarflokkar ekki svara því hvernig þeir ætla að leysa úr evrópuflækjunni sinni. Það er þó næsta víst að fyrir því hafa þeir hugsað. Annað getur hreinlega ekki verið.
Við vitum að Samfylkingin er alveg skýr á því. Sækjum um aðild strax í júní segir Jóhanna Sigurðardóttir formaður flokksins. Björgvin G Sigurðsson alþingismaður er enn harðari og útilokar einfaldlega stjórnarsamstarf sem ekki lýsir vilja til tafarlausrar inngöngu í ESB. Samfylking gefur ekkert rými til samninga um þetta mál. Það er annað hvort af eða á.
En Vinstri grænir þegja og eða svara óljóst. Allt er umsemjanlegt segir Steingrímur J. Stefna þeirra af landsfundi er hins vegar skýr. Klár andstaða við ESB.
Það liggur fyrir að Samfylking og Vinstri grænir ætla saman í stjórn. Það liggur fyrir að einvörðungu stefna annars flokksins verður ofan á í þeirri ríkisstjórn. Hinn flokkurinn verður því að svíkja kjósendur sína.
Í kosningabaráttunni hefur komið skýrt fram að Samfylkingin ætlar ekki að bakka út úr þessu máli. VG liðar svara óskýrt. Kjósendur geta síðan metið hvor flokkurinn hyggst standa á meiningu sinni og hvor ætlar að gefa málið sitt upp á bátinn.
18.4.2009 | 00:07
Þeim er sama, alveg nákvæmlega sama
Það er örugglega einsdæmi. Frumvarpið sem vorum að samþykkja í kvöld um fjárfestingarsamning til að greiða fyrir uppbyggingu álvers í Helguvík, nefndist stjórnarfrumvarp, en helmingur ríkisstjórnarinnar studdi það ekki ! Ef atkvæði hefðu verið greidd í ríkisstjórn hefð það verið fellt á jöfnu og því ekki komið til kasta Alþingis.
Þannig er staðan þegar kemur að því að samþykkja svo sjálfsagt framfaramál. Vinstri grænir, þverir og endilangir, voru á móti. Það var líka Mörður Árnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir sat svo hjá; tveir samfylkingarþingmenn.
Af þessu sjáum við að þessum flokkum er ekki treystandi til að standa að atvinnuuppbyggingu. Þeir eru flinkari þegar kemur að því að eyðileggja atvinnuuppbyggingu, sbr. áform þeirra um ofurskattlagningu til þess að tortíma hvalveiðum.
Við Sjálfstæðismenn jafnframt fulltrúum Framsóknar og Frjálslyndra björguðum málinu. Þetta frumvarp var samþykkt af okkur í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, eftir miklar innantökur og kvalir í Samfylkingunni. Þar þurfa þeir sífellt að kljást við stóriðjuandstæðinga sem samsama sig Vinstri grænum. Þess vegna áttu þeir í mesta basli að koma málinu í gegn hjá sér.
Þetta fólk, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna, ætti að koma upp á Grundartanga og kynna sér þau glæsilegu fyrirtæki sem þar starfa. Svo gæti leiðin legið á Skagann til þess að læra hvernig starfsemin á Grundartanga hefur stóreflt allt atvinnulífið þar og um héraðið allt. Þá myndu þeir átta sig á margfeldisáhrifum stóriðjunnar, hvernig hún skapar fjölbreytileg störf, eykur umsvif út um allt og er eftirsóttur vinnustaður.
Loks gætu þeir áttað sig á miklum metnaði á umhverfissviðinu, nýtingu vistvænnar orku og að stóriðja skapar nauðsynlegan gjaldeyri.
Sennilega vita þau í Vinstri hreyfingunni grænu framboði þetta allt. - Já þau vita þetta örugglega. En þau halda áfram þvermóðsku sinni. Ef þau hefðu fengið að ráða væri þessi glæsilega atvinnustarfsemi á Grundartanga ekki til, störfin ekki til og atvinnuástandið í sunnanverðu Norðvesturkjördæmi margfalt verra en núna. Þau vita þetta allt, en kæra sig greinilega kollótta um það. Svo ömurlegt sem er til þess að vita.
17.4.2009 | 07:51
Vita ráðherrarnir ekki um hvað stjórnarskrárfrumvarpið snerist?
Stjórnarskrá hvers ríkis ber að umgangast af mikilli virðingu. Breytingar á henni gera menn að vel yfirlögðu ráði og í sem bestri sátt. Hvorugt átti við þegar minnihlutastjórnin með fylgihnetti sínum, Framsóknarflokknum, réðst í það verk, undirbúningslítið og í fullkomnu ósætti í þinginu og nánast við alla þá sem tjáðu sig um málið. Lögmannafélagið, fræðimenn og hagmunaaðilar vöruðu við, en ríkisstjórnin sat fast við sinn keip.
Við Sjálfstæðismenn buðum endalaust upp á sáttaleiðir en því var hafnað. Við vildum hins vegar ekki afgreiða þetta stórmál í óvissu og ósætti. Ríkisstjórnin sá loksins að sér og hætti við fyrirætlan sína. Það kostaði mikla baráttu en hafðist að lokum.
Nú er reynt að segja að við höfum alls ekki viljað setja ákvæði varðandi náttúruauðlindir og þjóðareign inn í stjórnarskrá. Það er rangt. Við vildum hins vegar að það yrði gert þannig að slíkt ákvæði væri skiljanlegt og skapaði ekki réttaróvissu.
Tökum dæmi af umsögnunum sem fyrir liggja. Orkustofnun taldi til dæmis þetta ákvæði "óskiljanlegt". Finnst mönnum ekki ástæða til að doka við, þegar slíkt er sagt? Vilja menn kalla endalaus málaferli yfir okkur varðandi stöðu auðlinda, með tilheyrandi óvissu.? Það er augljóst að ef við afgreiðum stjórnarskrá í slíku ósætti mun það kalla á að ekkert gerist í þeim atvinnugreinum sem nýta auðlindirnar og er sjávarútvegurinn glöggt dæmi um það.
Því verður bara ekki trúað að nokkur maður vilji stuðla að slíku. Sérstaklega ekki núna þegar sjávarútvegurinn mun gegna stærra hlutverki í þjóðarbúskap okkar en áður.
Talsmenn ríkisstjórnarinnar sögðu í umræðunum að þetta ákvæði eins og það var sett fram myndi engu breyta. Það kom fram í nefndaráliti, sem allir fulltrúar ríkisstjórnarinnar auk fulltrúa Framsóknar og Frjálslyndra skrifuðu undir. En Össur Skarphéðinsson iðnaðar og utanríkisráðherra þandi sig og talaði eins og þetta myndi öllu breyta og var með bullyfirlýsingar í þinginu í gær.
Þetta segir okkur bara að ráðherrann hefur ekki minnstu hugmynd um hvað þetta mál snýst um. Hann hefur ekki hlustað á talsmenn stjórnarinnar í þessu máli. Hann hefur ekki nennt að lesa það sem segir um þessi mál í áliti meirihluta sérnefndarinnar í þessu máli. Hann hefur ekki hirt um að kynna sér álit sinnar eigin undirstofnunar,Orkustofnunar. Hann hefði því betur þagað í þinginu í gær, í stað þess að verða sér til skammar og verða ber að því að hafa ekki kynnt sér málið sem hann gaspraði um í gær.
15.4.2009 | 21:29
VG er lagsmaður Samfylkingar í ESB málum
Það er mikill misskilningur hjá Jóni starfsbróður mínum Bjarnasyni að Samfylkingin sé að einangrast í evrópupólitík sinni. Það er að vísu svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB, en innan þess. Og það mun líka vera svo að Vinstri grænir hafi sett álíka texta frá sér af síðasta landsfundi. Við fyrstu sýn virðist Jón hafa eitthvað til síns máls, en það er ekki svo í reynd.
Ljóst er að VG menn hafa alls ekki tekið af skarið um hvort þeir muni fylgja þessari stefnumörkun sinni eftir. Þegar að þeim þætti málsins kemur slá þeir VG - kappar úr og í. Þeir eru bersýnilega tilbúnir að láta undan Samfylkingunni. Það er því ekki rétt hjá Jóni Bjarnasyni að Samfylkingin sé að einangrast í ESB málum. Öðru nær. Samfylkingin hefur eignast lagsmann, sem heitir Vinstri hreyfingin grænt framboð og gleðst yfir því hvurn dag.
Ég reyndi til dæmis um daginn á Alþingi að fá Jón Bjarnason, formann þingsflokks VG til þess að svara því hvort þessi stefna flokksins væri úrslitaatriði, eða umsemjanleg. Hann svaraði engu; hefur hann þó aldrei verið þekktur fyrir feimni við ræðustól þingsins. Steingrímur J. formaður VG segir þetta mál vera samningamál.
Og eitt vitum við. VG og Samfylking ætla saman í ríkisstjórn bak kosningum fái þeir til þess fylgis. Annað vitum við líka. Samfylkingarforystan hefur talað gleiðgosalega um að þeir stefni að því að sótt sé um ESB aðild strax í byrjun nýs kjörtímabils, jafnframt því að segjast ætla í ríkisstjórn með Vinstri grænum.
Þess vegna er myndin að skýrast. Svardagar VG liða vegna ESB aðildar eru bara til heimabrúks fyrir kosningar. Það er augljóslega ætlunin að svíkja fyrirheitin eftir kosningar. Leiðin að pólitísku kjötkötlunum liggur um náðarfaðm Samfylkingarinnar. Og þangað ætlar VG, hvað sem það kostar.
Flokkarnir ætla saman í ríkisstjórn. Skoðanir þeirra í ESB málinu virðast ósamrýmanlegar. Samt er enginn bilbugur á þeim hvað varðar komandi stjórnarsamstarf. Annar hvor flokkurinn ætlar sýnilega að gefa eftir varðandi ESB og við blasir að það verða Vinstri græn sem svíkja munu sinn málstað. Svardagar Samfylkingarinnar eru afdráttarlausir, en ekki hjá VG. Myndin er alveg orðin skýr. VG ætlar að lúta í gras í þessu máli.
14.4.2009 | 19:16
Menntamálaráðherra lætur undan þrýstingi - loksins
Loksins lét menntamálaráðherra undan þeirri kröfu stúdenta, okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins og fleiri að opna á möguleika á háskólastúdentar geti stundað nám á sumarönn nú í sumar. Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst höfðu þegar opnað á slíkar leiðir, en eftir stóð að fjölmargir háskólastúdentar voru í rauninni á köldum klaka, vegna þess að atvinnuleysi blasir við þeim fjölmörgu og ekkert var í höfn um að þeir gætu stundað nám í sumar.
Það væri skelfileg tilhugsun ef þúsundir háskólastúdenta þyrftu að mæla göturnar í sumar. Í ljósi hins vonda atvinnuástands er vitaskuld skynsamlegast að opna möguleika á að nemendur háskólanna geti nýtt tímans til náms.
Þess vegna hófum við að reyna að þrýsta á stjórnvöld að bregðast við. Fyrir lá að háskólarnir höfðu áhuga á að opna á námsleiðir í sumar. Stúdentar kölluðu eftir því, við sjálfstæðismenn gerðum það einnig og sú krafa endurómaði úr þjóðfélaginu.
Ríkisstjórnin sat hins vegar hjá þögul og sagði ekki orð. Ekkert heyrðist frá menntamálaráðherra. Menntamálaráðuneytið hafði engar upplýsingar um þessi mál, sem hönd var á festandi, þegar við kölluðum eftir þeim. Ég beitti mér fyrir því að menntamálanefnd Alþingis yrði kölluð saman til þess að ræða málin og við fengum á okkar fund fulltrúa háskólanna, fulltrúa háskólastúdenta og síðan fulltrúa menntamálaráðuneytisins.
Vandinn var sá að stjórnvöld voru eins og úti á þekju þegar við ræddum þessi mál og engin pólitísk lína fékkst úr ráðuneyti menntamála vegna þessa brýna máls. Fyrst eftir langa mæðu birtist mæðulegur, ungur menntamálaráðherra á tröppum stjórnarráðsins til þess að segja okkur að erfitt væri að verða við þessari kröfu. Það voru skilaboðin til 12 þúsund námsmanna sem nú leita sér að atvinnu.
Því ber hins vegar að fagna að loksins hefur fæðst ákvörðun hjá ríkisstjórninni. Nú bíðum við eftir viðbrögðum háskólanna, en varla er við öðru að búast en þeir bregðist við og opni á sumarnámskeið fyrir háskólastúdenta.
14.4.2009 | 00:05
Sjálfstæðismenn höfnuðu sameiningu við FL fyrirtækið
Það er stórfurðulegt að fjölmiðlar og stjórnmálamenn reyni að tengja saman fjárhagsstyrk FL group til Sjálfstæðisflokksins og þær hugmyndir sem uppi voru um að sameina REI ( dótturfélag Orkuveitu Reykjavikur ) og Geysi Green energy, sem FL group átti stóran hlut í. Þeir sem svoleiðis iðju stunda eru í blekkingarleik. Vísvitandi blekkingarleik þegar í hlut eiga Svandís Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson, sem láta í þessu máli tilganginn helga meðalið og dósera af fullkomnu virðingarleysi fyrir staðreyndum um málið.
Verra er og óskiljanlegra er hins vegar að hlýða á fimbulfamb ágæts prófessors og fréttakonu á RÚV sem setti saman dæmalausa dellu um þetta mál í útvarpinu á páskadagskvöld. Samsæriskenningarnar sem þá dundu á hlustum okkar útvarpshlustenda voru fáránlegar. Skrýtið er að þessi ágæta fréttakona fjallaði um málið á sínum tíma og hefði því átt að vita betur.
Sameining við FL fyrirtæki lofuð og prísuð
Það er eins og það hafi farið framhjá þessu ágæta fólki að það voru sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem stoppuðu þennan samruna dótturfyrirtækis Orkuveitunnar og fyrirtækis á vegum FL group. Þá voru þeir úthrópaðir fyrir tiltækið og Björn Ingi Hrafnsson sleit meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, svo svekktur var hann yfir því að geta ekki sameinað REI og Geysi green.
Svo blindur var hann líka á ágæti samningsins að hann sagði: "Það er stefnt á skráningu á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði um mitt ár 2009 og þá hygg ég að komi í ljós að sú fjárfesting sem að Orkuveitan hefur gert í þessum efnum fyrir hönd íbúanna á suðvesturhorninu hafi enn margfaldast að raungildi og nemi jafnvel 30, 40 milljörðum sem að fari langt með að dekka skuldir Reykjavíkurborgar."
Samfylking gladdist yfir að sameinast fyrirtæki FL group
Vilji Samfylkingarinnar stóð til þessarar sameiningar. Henni fagnaði Össur Skarphéðinsson, með þesum orðum: ": Það sem að mér finnst standa uppúr í þessu er að Reykjavíkurborg leggur bara í beinum verðmætum inn sex milljarða. Mér skilst að hún eigi nú þegar hlut sem að er þá miðað við það sem að þú ert að segja yfir 20 milljarðar því að þeir eiga, Reykjavíkurborg, eitthvað um 35%. Þannig að þá finnst mér það nú mikil viðskiptaleg snilld að hafa tekist að búa þannig úr loftinu nánast til 14 - 15 milljarða verðmæti fyrir okkur sem að erum skattborgarar í Reykjavík og ég vildi bara óska þess að Reykjavíkurborg takist að realísera þessi verðmæti og þá hugsanlega getur hún notað það til þess að lækka orkuverðið til okkar. "
Og nú er spurt...
Vill nú ekki Samfylkingin segja okkur söguna alla af þessari viðskiptalegu snilld.? Hvað var það sem knúði Samfylkingu og Framsóknarflokk til þessara viðskipta við FL fyrirtækið? Er þessi fortíð svo mikið feimnismál að ekki megi rifja hana upp? Og ætla fjölmiðlar landsins ekki að sýna þá döngun að rifja upp þetta mál og hlut Samfylkingar og Framsóknarflokks?