Í þessum kosningum eru kostirnir skýrir

AtkvæðagreiðslaKosningabaráttan hefur leitt í ljós skýrari kosti í stjórnmálum nú á kjördag, en við blasti. Samfylking og Vinstri græn hóta áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Þó sjáum við að traustið á ríkisstjórninni minnkar með ljóshraða. Almenningur sér það æ betur að ríkisstjórnin hefur ekki tekið á vanda heimilanna almennt og fylgir háskalegri stefnu í atvinnumálum. Þess vegna er stuðningur við ríkisstjórnina svo ört minnkandi; og það einnig hjá kjósendum Vinstri grænna og Samfylkingar.

Svar þess fólks sem er að gefast upp á ríkisstjórninni er stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn.

Til þess að verja hagsmuni heimilanna þurfum við öflugt atvinnulíf. Og hvað sjáum við birtast ? - Svarið er þetta:

Ríkisstjórn sem hótar að veikja sjálfan sjávarútveginn með fyrningarleið sem setur sjávarbyggðirnar í uppnám. Ætlunin er að taka aflaheimildirnar sem að langmestu eru á landsbyggðinni og færa þær eitthvað annað. Ríkisstjórnin vill ekki nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar. Það sjáum við í því að hún er klofin til málsins og það var aðeins með harðfylgi Sjálfstæðisflokks að Helguvíkurmálið var afgreitt rétt fyrir þinglok. Ríkisstjórnin vill ekki einu sinni láta leita að olíu ! Umhverfisráðherrann er á móti því og hún á stuðning til þessarar afstöðu sinnar í eigin flokki og í Samfylkingunni.

Með boðaðri ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna yrði til óvenju afturhaldssöm stjórn; fjandsamleg atvinnulegri uppbyggingu og öfgasinnuð í afstöðu sinni til atvinnulífsins.

Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á uppbyggingu atvinnulífsins. Tafarlaust þarf að ganga þannig frá málum að bankarnir geti farið að gegna hlutverki sínu í þágu atvinnulífs og heimila. Þar hefur ekkert gerst ennþá. Vextina þarf að lækka; ekki í hænuskrefum heldur svo um munar. Við eigum að nýta auðlindirnar til hagsbóta fyrir atvinnulífið, hraða opinberum verklegum framkvæmdum og standa vörð um landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu.

Almennt talað að skapa atvinnulífinu svigrúm til að dafna. Það gerir ríkisstjórnin ekki.

Í stað flækjufótareglna um fjármál heimilanna þurfa úrræðin að vera einföld og taka til hagsmuna venjulegra fjölskyldna. Það hefur ekki verið gert.

Þetta eru því kostirnir sem við stöndum frammi fyrir í dag. Jákvæð stefna okkar gagnvart atvinnulífinu en ekki þær öfgar sem ríkisstjórnin boðar. Hagsmunagæsla fyrir heimilin, en ekki flóknar leiðir sem fáum gagnast, eins og verklítil ríkisstjórnin hefur boðið upp á.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband