Ferleg blanda og háskaleg

Kolbrún HalldórsdóttirVið fengum innsýn í hugarheim pólitískra öfga, þegar Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra sagðist vera á móti því að við leituðum að og ynnum olíu á landgrunssvæði okkar. Þetta hljómar fáránlega, enda hváðu ýmsir. En henni er alvara. Og ekki bara henni. Í flokki hennar Vinstri grænum er þetta vinsæl skoðun, svo mikið er víst og studd einarðlega af mörgum áhrifamönnum. Því fer víðs fjarri að hún standi ein. Við fylgdumst með vandræðagangi formanns VG, Steingríms J. Sigfússonar, sem annars vegar var að reyna að halda utan um hagsmuni síns kjördæmis af olíuleit og hins vegar að gæta þess að stugga ekki við öfga-umhverfisverndarsinnunum, sem allt er fullt af í flokki hans.

Kolbrún Halldórsdóttir á ekki einasta marga stuðningsmenn í þessum málflutningi á meðal áhrifamanna í flokki sínum; í Samfylkingu eru til staðar nákvæmlega sömu sjónarmið. Þau sjónarmið komu fram þegar síðasta ríkisstjórn ákvað að leggja fé í olíuleit á Drekasvæðinu. Merkilegt er að fjölmiðlar skuli ekki hafa leitað eftir þeim sjónarmiðum.

Nú ætla Vinstri græn og Samfylking í ríkisstjórn. Þá munu tvinnast saman mestu afturhalds og öfgaöfl landsins þegar kemur að atvinnulegri uppbyggingu. Þau munu ná saman í að draga lappirnar varðandi olíuleit, þau munu gera allt sem þau geta til að koma í veg fyrir stóriðjuuppbyggingu.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sem á Húsavík er mikill stóriðjusinni, lyppast niður í sjónvarpssal í Reykjavík, af ótta við Mörð Árnason og fylgismenn hans í Samfylkingunni. Honum tókst á þremur mínuútum í einum sjónvarpsþætti, að hafa þrjár skoðanir á því hvort reisa ætti álver á Bakka við Húsavík. Þetta er hægt að sjá hér á sprenghlægilegum tengli þar sem iðnaðarráðherrann snýst í marga hringi.  Og Kristján Möller og Örlygur Hnefill fyrir norðan segja ekki eitt einasta orð,  af því þeir eru líka svo hræddir við kaffihúsaliðið í Samfylkingunni fyrir sunnan.

Svo boðar Steingrímur J. nýja skattastefnu til þess að tortíma störfum sem hann hefur ekki velþóknun á. Hann ætlar að prufukeyra þetta á hvalveiðum og svo má þá alltaf beita þessu frekar ef vel tekst til.

Þetta er dauðans alvara. Samfylking og Vinstri græn ætla sér saman í ríkisstjórn og þau munu framfylgja atvinnustefnu, sem einkennast mun af því sem að ofan er lýst.

Öfgastefnur í umhverfis og atvinnumálum eru ekki eitthvað jaðarsjónarmið í einum stjórnmálaflokki. Þessi stefna er greipt í stein í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og á öfluga talsmenn í Samfylkingunni. Samkrull þessara flokka í ríkisstjórn er þess vegna ferleg blanda og háskaleg þegar kemur að atvinnuupbbyggingu.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband