12.4.2009 | 13:46
Þetta voru mistök
Það voru augljós mistök að hafa veitt styrkjum frá Landsbankanum og FL group viðtöku. Það höfum við sjálfstæðismenn viðurkennt með því að ákveða að endurgreiða þessar fjárhæðir. Forysta flokksins hefur síðan lagt sig fram um að varpa ljósi á þetta mál og draga ekkert undan. Það er rétt og heiðarleg ákvörðun sem við flokksmenn virðum og erum ánægð með.
En um hvað snýst þetta mál? Það er ljóst að stjórnmálaflokkarnir fóru í fjársöfnun haustið 2006. Ástæðurnar voru amk. tvenns konar. Að baki voru dýrar sveitarstjórnarkosningar sem flokkarnir komu skuldugir frá. Og framundan voru svo alþingiskosningar með fyrirsjáanlegum kostnaði. Flokkarnir fóru því í að afla fjár, hjá flokksmönnum og fyrirtækjum, eins og menn hafa gert fyrr og síðar. Við sjáum það til dæmis á lista Samfylkingarinnar um styrktaraðila að þar hefur víða verið leitað fanga; skv. listanum hafa samfylkingarmenn borið mun víðar niður en fjáröflunarmenn Sjálfstæðisflokksins. Baugsfyrirtækin styrktu ft.d Samfylkinguna um 11 milljónir samkvæmt því sem kom fram í fjölmiðlum nú um páskana.
Það sem er afleitt við verklag okkar fólks voru þær svimandi upphæðir sem bárust frá tveimur aðilum. Það hefur komið fram að upphæðirnar eru langt umfram það verklag sem hefur verið tíðkað í flokknum. Forysta flokksins gerði rétt í því að endurgreiða upphæðina.
Geir H. Haarde fyrrv. formaður flokksins segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér: "Ég samþykkti að við henni skyldi tekið, enda fylgdi henni sú skýring að hér væri um að ræða framlag margra aðila sem umrætt fyrirtæki sæi um að koma til skila."
Þeir einstaklingar sem höfðu milligöngu um að afla fjárins hafa útskýrt aðkomu sína að málinu. Framkvæmdastjóri flokksins hefur sagt af sér. Bókhald flokksins fyrir árið 2006 var opnað þannig að listi var birtur yfir styrktaraðila.
Með þessum hætti og fyrir atbeina forystu flokksins hefur verið varpað skýru ljósi á málið. Flokkurinn hefur játað mistök með því að endurgreiða upphæðina og menn axlað ábyrgð. Þannig hefur verið tekið heiðarlega á málinu og af myndarskap, rétt eins og okkur ber að gera við svona aðstæður.
Í þessum efnum eins og öðrum ber okkur að virða sannleikann og hafa heiðarleika í hávegum, eins og alltaf. Það hefur og er aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins og því merki höldum við hátt á lofti
3.4.2009 | 15:39
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitir neitunarvaldi
Við Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra vorum um það sammála í utandagskrárumræðum sem ég hóf í þinginu núna áðan, að gjaldeyrishöft væru slæm - og ótæk til langframa. Þau voru sett á sem skammtímaráðstöfun á sínum tíma, nú fyrr í vetur. Ætlunin var svo alltaf að skapa þau skilyrði að við kæmumst út úr þessu ástandi.
Að gefnu tilefni úr umræðunum í dag, er nauðsynlegt að minna á að það var Björgvin G. Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra sem flutti málið á sínum tíma. Samt talaði Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar í einni af sínum gaspursræðum í dag, eins og flokkur hans hefði þar ekki átt neinn hlut að máli.
Þetta er þó ekki aðalatriði. Það er í sjálfu sér aukaatriði þó samfylkingarmenn þori ekki gangast við verkum sínum. Svo alvanalegt er að heyra þá tala með slíkum hætti.
Kjarni málsins er sá að gjaldeyrishöftin voru réttlætanleg á þeim tíma sem þau voru sett á; en einungis sem skammtímalausn, eins og ég hef áður bent á. Það er nauðsynlegt að feta sig út úr þessu fari. Ella gerist það bara áfram sem við höfum séð; að við gröfum okkur dýpra í haftafenið.
Ég spurði eftir því hvað gert hefði verið. Það var ekki uppörvandi að ekkert er handfast í þeim efnum. Svörtin voru óljós og almenn og alls ekki fullnægjandi. Viðskiptaráðherra sagði unnið að málunum. En svo upplýsti hann eitt sem mér er ekki kunnugt um að hafi komið upp á yfirborðið fyrr.
Ráðherrann greindi frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefði lagst gegn þeim lausnum sem helst hefur verið talað um til þess að slaka á spennunni og gera okkur kleyft að ráðast gegn vandamálinu. Þetta bætist við þær upplýsingar sem áður höfðu komið fram, að sjóðurinn vildi ekki fara að ráðum Seðlabankann um gjaldeyrisuppboð sem sett höfðu verið fram fyrr í vetur.
Þegar ég innti viðskiptaráðherra eftir því hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði lagt fram aðrar tillögur svaraði hann neitandi og sagði raunar að sjóðurinn hefði ekki virst hafa miklar áhyggjur af þessu máli, eða gert mikið úr vandanum vegna haftanna.
Þetta eru stórtíðindi. Ríkisstjórn og Seðlabanki leggja fram tillögur til að taka á vanda sem allir eru sammála um að er mikill. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafnar og þar við situr. Sjóðurinn virðist hafa þarna neitunarvald og ráða förinni gagnstætt vilja íslenskra yfirvalda.
Svona getur þetta ekki gengið. Það hlýtur að vera meðal forgangsmála að koma okkur út úr höftunum, þó það muni taka tíma. Það er ekki hægt að una við það að AGS stoppi svona mál, sem Alþingi, ríkisstjórn og Seðlabankinn eru sammála um að séu forgangsatriði
1.4.2009 | 15:30
Ofríkisstjórnin
Þegar núverandi ríkisstjórn fór af stað, nefndi ég hana tilskipanaríkisstjórn, með skírskotun til þess hvernig vinnubrögðum hún beitti. Nú hefur hún haft tvo mánuði til að sýna sitt rétta andlit og það hefur hún gert svo um munar og eftir er tekið. Það er of vægt til orða tekið að kalla ríkisstjórnina tilskipanaríkisstjórn. Nær er sanni er að hún sé fullkomin ofríkis-ríkisstjórn. Í einu orði: Ofríkisstjórn. Þannig eru vinnubrögðin.
Svo lengi sem ég hef setið á Alþingi hafa menn kvartað undan skorti á samstarfi ríkistjórnar og stjórnarandstöðu. Vönustu menn í stjórnarandstöðu, Steingrímur J og Jóhanna Sigurðardóttir hafa hvatt til góðs samstarfs og þannig hafa menn þrátt fyrir ágreining jafnan unnið þegar til stykkisins hefur komið.
Alltaf hafa stjórnmálamenn verið sammála um að eðlilegt svigrúm þurfi að gefa til stjórnmálaumræðna og samskipti við almenning í aðdraganda kosninga. Nú blása hinir þingreyndu þingmenn Steingrímur og Jóhanna á allt slíkt. Gefa fólkinu í landinu langt nef. Kjósendur eiga að vera þiggjendur í kosningabaráttunni. Láta sér duga að meðtaka málflutning þingmanna í gegn um útsendingar frá Alþingi og með því að hlusta á málflutning í gegn um fjölmiðla. Viðræður við almenning í aðdraganda kosninga eiga helst ekki að fá nokkurt rými. Þannig er ekki einasta vaðið yfir þingmenn heldur líka fólkið í landinu.
Stjórnarskrármál, grundvöll stjórnskipunar okkar, er ætlunin að afgreiða á handahlaupum, kortéri fyrir kosningar, án eðlilegs aðdraganda, í fullkomnu ósætti og í ofríkisstíl sem er ekki fáheyrður, heldur einstæður. Allir þeir sem Alþingi kallar til, vara við þessu og mótmæla. Ofríkisstjórnin segir hér ráðum við og lætur viðvörunarorðin öll sem vind um eyru blása.
Ofríkisstjórnin neitar að upplýsa almenning og Alþingi um hvað sé á döfinni í efnahagsmálum. Ráðherrarnir eiga leynifundi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og leggja sín plön fyrir mennina í Washington. Alþingi er neitað um þær upplýsingar. Það er líka látið eins og þjóðinni komi það ekki við. Þetta er ofríki.
Íslenska löggjafarsamkoman fær ekkert að vita, vestur í höfuðborg Bandaríkjanna hafa þeir upplýsingarnar. Málin sem lögð hafa verið fyrir embættismenn vestur í Washington um skattahækkanir og niðurskurð verða falin fyrir almenningi og þinginu, af því að þau eru ekki talin vænleg til pólitísks árangurs hér fyrir kosningar.
Ingibjörg Sólrún er hætt og með henni hafa farið leifarnar af samræðustjórnmálum. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa markað sér nýja slóð. Ofríkisstjórnin hefur kynnt verklagið sitt.
31.3.2009 | 11:11
Formennska til bráðabirgða
Jóhanna Sigurðardóttir gerði það af einni saman flokkshollustinni að leysa forystukreppuna sem Samfylkingin var komin í. Þegar fyrir lá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði ákveðið að stíga til hliðar út stjórnmálunum og láta af formennsku í Samfylkingunni lenti flokkurinn í miklum hnút. Á þann hnút gat bar einn einstaklingur höggvið; Jóhanna Sigurðardóttir.
Það lá fyrir frá fyrsta degi að hún vildi alls ekki verða flokksformaður. Það vildu hins vegar ýmsir aðrir. Gallinn var bara sá að þá vildi enginn í formannssætið! Staðan var vandræðaleg. Sú sem menn vildu að reddaði málunum, vildi alls ekki verða formaður. Þeir sem höfðu löngunina til að bera, höfðu ekki til þess traust.
Vitaskuld var ljóst frá fyrsta degi hvernig þetta myndi enda. Jóhanna myndi nauðug viljug taka að sér starfið. Hún átti ekki undankomuleið. Svo fékk hún rússneskia kosningu á landsfundinum. Allt var þetta fyrirsjáanlegt og allir gátu séð það fyrir.
Rifjast nú upp ummæli endalausra samfylkingarmanna um fánýti þess að leggja áherslu á stöðu formanns í stjórnmálaflokki. Síðast minnist ég sigurvegarans úr prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, Sigríðar Ingibjargar sem geipaði mjög í þeim dúrnum í útvarpsþættinum Sprengisandi fyrir svona hálfum mánuði. Svoleiðis skoðanir verða ábyggilega lagðar í saltpækil næstu vikurnar. Þær henta enda illa um þessar mundir fyrir Samfylkinguna.
Kjör Jóhönnu er hugsað til að fleyta flokknum fram yfir kosningarnar. Alveg sama hvað sagt er þá er það augljóst mál. Svo þegar líður aðeins á kjörtímabilið þá munu þeir taka að spretta fram sem segja, nú get ég. Spurningin er aðeins hvort það muni gerast á fyrsta eða öðrum landsfundinum sem haldinn verður eftir kosningarnar nú í vor. Á þcví nenni ég ekki að hafa skoðun.
30.3.2009 | 08:31
Frá Landsfundi
Vel heppnuðum Landsfundi okkar sjálfstæðismanna er nú lokið. Við höfum markað okkur stefnu í helstu málaflokkum og kosið nýja forystu. Bjarni Benediktsson verður glæsilegur og vinsæll formaður; til þess hefur hann alla burði og allar forsendur. Með kjörinu á Landsfundinum sótti hann óskorað umboð til landsfundarfulltrúa, sem skiptir vitaskuld miklu máli. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fékk afdráttarlausa kosningu, 80% atkvæða, sem segir að sjálfstæðisfólk er ánægt með störf hennar.
Veganesti okkar út í kosningabaráttuna sem er framundan, eru þær ályktanir sem við samþykktum. Stjórnamálaályktunin er á vissan hátt grunnur þess erindis sem við flytjum með okkur nú þegar við göngum til kosninga. Hin yfirgripsmikla vinna Evrópunefndarinnar og Endurreisnarnefndarinnar eru síðan bakfiskur í gríðarlega mikilvæga umræðu sem fram mun fara; annars vegar um evrópumálin og hins vegar um stöðu efnahagsmála, þar sem áherslan verður á lausnir til framtíðar.
Þessi stefnumörkun okkar er skýr og markviss.
Tökum evrópumálin fyrst. Þar segir í ályktun okkar: "Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja. Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins".
Varðandi endurreisnarmálin þá er sú ályktun í all mörgum efnisliðum. Við fórum í gegn um heiðarlegt uppgjör við fortíðina; nokkuð sem aðrir flokkar hafa ekki treyst sér í. En síðan hitt, sem er aðalatriðið; við mörkum ítarlega stefnu um hvernig við getum unnið okkur út úr þeim vanda sem við erum í.
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa einlægt verið öfundarefni okkar pólitísku andstæðinga. Þannig er það núna og þannig verður það líka áfram. Kröftugir, árangursríkir og fjölsóttir fundir eins og landsfundirnir okkar, þar sem fram fara hreinskiptar umræður og lýðræðislegar kosningar, eru skiljanlegt öfundarefni andstæðinga okkar. Við skiljum það og virðum þeim það til vorkunnar
26.3.2009 | 09:07
Til Landsfundar
Landsfundurinn okkar sem hefst í dag er tilhlökkunarefni, eins og alltaf. Þessi fundur er alveg einstakur og hefur fyrir vikið löngum verið öfundarefni annarra stjórnmálaflokka. Fundinn sækja 1700- 1800 manns. Konur og karlar, ungir sem eldri, fólk úr öllum stéttum og alls staðar að af landinu. Þarna hefur maður kynnst fólki sem maður hittir svo einvörðungu á landsfundum og rifjar upp kynnin. Þarna eru vináttuböndin hnýtt og kynnin efld. Þarna birtist okkur það mikla afl sem er í Sjálfstæðisflokknum jafnt í mótlæti sem í meðbyr.
Við göngum til Landsfundarins okkar við sérstakar og erfiðar aðstæður. Þjóðin glímir við óvenju erfiðar efnahagslegar aðstæður í kjölfar bankahrunsins. Skoðanakannanir eru okkur mótdrægar. Við völd er sundurleit vinstri stjórn, ráðalaus í besta falli á hinum góðu dögum sínum og orðlögð fyrir ofríkistilhneigingar og tilskipanatón sem einkennir framgang hennar.
Á Landsfundinum bíða okkar erfið verkefni, sem miklu varðar að vel séu af hendi leyst. Þannig mun það einnig verða núna.
Á vegum flokksins hefur starfað sérstök Evrópustefnunefnd nú í vetur, sem kynna mun afrakstur starfs síns fyrir okkur landsfundarfulltrúum. Þá mun nefnd um endurreisn efnahagslífsins, gera grein fyrir starfi sínu og tillögum. Báðum þessum nefndum var valið erfitt hlutverk. Þær líta til baka, til þess að læra af fortíðinni, en umfram allt hljóta þær að marka okkur vegvísi til framtíðar.
Álíka starf er ekki unnið á vettvangi annarra stjórnmálaflokka. Þar líta menn ekki til baka til þess að læra af fortíðinni. Telja sér nægja að afgreiða þau mál með yfirborðskenndum frösum. Hjá okkur nálgumst við verkefnið með opnum lýðræðislegum hætti og finnum niðurstöðu á gríðarlega fjölmennum Landsfundi okkar.
Á þessum Landsfundi verða líka þau þáttaskil að Geir H. Haarde lætur af formennsku. Hann hefur verið einn áhrifamesti stjórnmálamaður síðari ára og notið mikilla vinsælda og virðingar í okkar röðum. Geir stofnaði til kynna við ótölulegan fjölda fólks út um allt land á meðan hann var þingmaður, varaformaður og formaður. Þessa naut hann ríkulega þegar að flokki okkar - og honum sérstaklega - var sótt með ódrengilegum og á stundum óþverralegum hætti.
Ný forysta verður síðan kosin á lokadegi landsfundar og síðan höldum við ótrauð til móts við kosningarnar þann 25. apríl nk.
24.3.2009 | 11:46
Nú hefst baráttan
Nú að loknu gríðarlega fjölmennu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðvesturkjördæmi vil ég færa alúðarþakkir öllum þeim sem studdu mig og aðstoðuðu á alla lund. Stuðningur alls þess fólks var mér ómetanlegur og sú vinna sem gríðarlega margt fólk vítt og breitt um kjördæmið lagði á sig í mína þágu, verður mér ógleymanlegur. Fyrir það mun ég aldrei fá fullþakkað.
Mér er það ákaflega mikilsvert að vita að ég naut afdráttarlauss stuðnings í forystusætið mjög víða í kjördæminu. Fyrir þingmann eins og mig sem starfað hefur í Norðvesturkjördæmi frá því að það varð til árið 2003 er slíkur trúnaður og traust mikils virði.
Öllum meðframbjóðendum mínum færi ég sömuleiðis kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf í prófkjörsslagnum. Af fyrri reynslu og kynnum við allt þetta fólk vissi ég vel að þar væri á ferðinni afbragðsfólk og í prófkjörinu staðfestist það enn. Sigurvegaranum Ásbirni Óttarssyni færi ég hamingjuóskir og hlakka til samstarfs við hann sem og aðra þá sem framboðslistann munu skipa. Við Ásbjörn hefur þekkst um árabil og unnið mikið og vel saman. Þannig verður það einnig í framtíðinni.
Lýðræðisleg stefnumótun
Nú er prófkjörið að baki. Það var þýðingarmikill þáttur og hafði það hlutverk að leita álits allra flokksbundinna sjálfstæðismanna á skipan framboðslista okkar. Nú höfum við fengið þá niðurstöðu og sem móta mun framboðslistann. Framundan er síðan endanlegur frágangur hans sem verður á Kjördæmisráðsfundi um næstu helgi. Þar með erum við tilbúin í slaginn og munum ekkert gefa eftir.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi kjósum við forystu flokksins og mótum stefnuna í bráð og lengd. Þar með er hinn málefnalegi upptaktur kosningabaráttunnar jafnframt orðinn fullskapaður. Stefnumótun flokksins fer þannig fram í höndum flokksmanna sem sækja umboð sitt til tugþúsunda flokksbundinna manna alls staðar að af landinu. Sérstök stefnumótun verður jafnframt samþykkt á grundvelli vinnu endurreisnarnefndar flokksins og Evrópustefnunefndar hans. Þessar nefndir hafa á umliðnum mánuðum haldið gríðarlegan fjölda funda um allt land til undirbúnings stefnumótunarinnar. Þannig hefur hið mikla afl flokksins verið virkjað með lýðræðislegum hætti og sem kallað hefur fram frjóar og athyglisverðar hugmyndir.
Stöndum vel saman
Hjá okkur í Norðvesturkjördæmi sem og annars staðar verður kosningabaráttan stutt og snörp. Nú er rétt um mánuður til kosninga og inni í því eru páskar. það er því ljóst að eiginleg kosningabarátta verður trauðla nema um þrjár vikur. Framundan er því mikið starf.
Ég heiti á allt sjálfstæðisfólk að standa vel saman og vinna af alefli að góðum árangri flokks okkar hér í Norðvesturkjördæmi. Góð og mikil þátttaka í prófkjörinu sú langbesta sem þekkist hjá flokknum okkar í prófkjörum að þessu sinni segir okkur að í fylkingu flokksins hefur skipað sér mikill fjöldi manna og kvenna sem er tilbúinn til virkrar þátttöku, auk þeirra allra sem vilja leggja okkur lið í því að ná vopnum okkar í þeim mikilvægu kosningum sem eru framundan. Það er okkur ákafalega mikils virði og við frambjóðendur flokksins munum alls ekki láta okkar hlut eftir liggja. Öðru nær. Við heitum því að heyja snarpa og kröftuga baráttu og ekkert gefa eftir. Vikurnar framundan eru því tilhlökkunarefni fyrir svo samstæða og öfluga sveit.
Sameiginlega munum við öll ná þeim árangri sem að er stefnt; að tryggja Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi gott brautargengi í kosningunum 25. apríl næst komandi.
21.3.2009 | 08:24
Reynsla og yfirsýn í öndvegi
Uppbygging samfélags okkar er brýnasta verkefni stjórnmálanna. Þrátt fyrir áföll síðustu mánaða blasa möguleikarnir við ef vel er á málum haldið. Þar mun miklu valda hver á heldur. Í slíku uppbyggingarstarfi verðum við að leiða saman reynslu og þekkingu, nýjar hugmyndir og frjóa hugsun.
Í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi blasir við mikil endurnýjun. Tveir þingmanna okkar hafa ákveðið að láta af störfum eftir farsælt og gott starf. Nú ríður því á að sú reynsla og þekking sem hefur byggst upp skili sér áfram inn í þau mikilvægu verkefni sem sinna þarf í kjördæminu.
Norðvesturkjördæmið er margbrotið á alla lund; ekki einasta landfræðilega vegna stærðar sinnar og stórbrotinnar náttúru, heldur vegna þeirrar fjölbreytni sem einkennir það. Þessu hefur verið lærdómsríkt að kynnast með samstarfi við fólk úr kjördæminu öllu. Þeirra forréttinda hef ég notið í ríkulegum mæli sem þingmaður kjördæmisins frá því að það varð til árið 2003.
Stjórnmálastarfið er margslungið og ögrandi enda eru úrlausnarefnin fjölþætt. Alþingi er líka einstæður vinnustaður sem vettvangur opinnar umræðu lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Hlutverk þingsins verður vaxandi á næstunni, vegna þeirra einstæðu verkefna sem við okkur blasa.
Sú reynsla sem ég hef aflað mér, sem þingmaður og ráðherra þýðingarmikilla málaflokka mun án efa nýtast í þessum uppbyggingarverkefnum. Með skírskotun til alls þessa býð ég mig fram í 1.sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi sem fer fram nú í dag.
Okkar sjálfstæðismanna bíður það verkefni að setja fram skýra stefnu og tafarlaus úrræði vegna þeirra vandamála sem hvarvetna blasa við. Þá gildir að læra af reynslunni; horfast í augu við þau mistök sem hafa verið gerð, viðurkenna þau og umfram allt að læra af þeim. Það minnkar nefnilega enginn af því að viðurkenna það sem miður hefur farið.
En framtíðinni skuldum við fyrst og síðast það að við leggjum fram trúverðugar tillögur um mótun samfélags okkar, setjum fram skýra framtíðarsýn. Ísland er gott samfélag. Unga fólkinu okkar skuldum við að móta samfélag, þar sem allir hafi möguleika og tækifæri, óháð stöðu og búsetu. Þannig viljum við að Ísland framtíðarinnar sé.
19.3.2009 | 15:22
Þegar gjaldeyrishöftin eyða störfum
Gjaldeyrishöftin sem við settum í vetur í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn voru réttlætanleg á þeim tíma. Þeim var ætlað að koma í veg fyrir gjaldeyrisútstreymi sem hefði sett okkur í alvarlega stöðu og veikt krónuna umfram það sem við hefðum þolað.
Nú eru hins vegar breyttir tímar. Alltaf var um það rætt að þetta væri skammtímaráðstöfun. Markmiðið væri að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt form svo fljótt sem verða mætti, svo viðskipti á þeim markaði yrðu snurðulaus og án þess kostnaðar sem núverandi fyrirkomulag hefur í vör með sér.
Tímann á meðan gjaldeyrishöftin myndu vara, hugðust menn nýta til þess að ná samkomulagi við lánardrottnana sem eiga krónubréfin sem hanga yfir okkur sem eins konar Damoklesar sverð sem enginn veit hvenær fellur. Nú berast þær fréttir að lítt miði í þessu verki. Lánardrottnar fái misvíandi skilaboð og tíminn sé illa nýttur.
Þetta er hörmulegt. Því á meðan birtast okkur öll neikvæðu áhrifin af gjaldeyrishöftunum. Það var vitað að slíkt myndi skella á okkur eftir því sem höftin myndu vara lengur. Og nú berast fréttir af slíku, sem grafa undan samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
Skuggaleg dæmi
Fyrir mig hafa verið lögð slík dæmi sem sýna okkur hversu háskalegt það er að viðhalda þessum höftum svona lengi og ættu að vera tilefni til þess að lausn þessa vanda yrði sett í öndvegi og drifið í að komast að niðurstöðu.
En svona lítur ástandið út núna:
Útlendingar kaupa krónur erlendis sem auðvelt er að nálgast og greiða fyrir þær með allt öðru gengi en íslenskir útflytjendur fá hér fyrir gjaldeyrinn sinn. Þar með eru þessir útlendingar búnir að eignast krónur á kannski 50 til 80% lægra verðgildi. Með þessar krónur upp á vasann koma þeir hingað til lands og bjóða til dæmis í fisk eða aðra framleiðsluvöru og geta yfirboðið íslenska keppinauta sína.
Og ekki nóg með það. Þegar út er komið geta þeir undirboðið íslenska útflytjendur og valdið þeim þannig tvöföldum skaða. - Og í leiðinni tortímt störfum.
Svona ástandi verður að ljúka. Þetta er afleiðing langvarandi gjaldeyrisskömmtunar. Það er því ekki að undra að bæði atvinnulífið og launþegasamtökin krefjist þess að ríkisstjórnin láti hendur standa fram úr ermum á þessu sviði. Það er svo sannarlega kominn tími til. Þetta gengur ekki lengur.
18.3.2009 | 07:51
Stjórnlagaþingsvitleysan
Stjórnlagaþingsvitleysan heldur áfram. Enn er reynt að keyra það mál áfram á sama tíma og Alþingi í miklum tímaskorti er að reyna að afgreiða mál sem snúa að heimilum og atvinnulífi. Það er greinilegt að ríkisstjórnarflokkarnir með Framsóknarflokknum vilja forgangsraða málum þannig að stjórnarlagaþingsmálið og breytingar á stjórnarskrá séu sett í forgang. Þar með verður athygli - áherslan á þau mál sem snúa að almenningi og atvinnulífinu minni. Flóknara er það nú ekki.
Það virðist engu breyta þótt stjórnarlagaþingið eigi að kosta tvo milljarða. Ekkert hrín á stjórnarliðum. Þeir hafa bitið þessa dellu í sig og ekkert fær við þeim hruggað. Þetta er auðvitað ömurlegt og maður verður var við mikla hneykslan fólks.
Það er hins vegar næsta víst að tveir milljarðarnir eru örugglega ekki oftaldir. Sérfræðikostnaður er til dæmis varlega talinn og ekki ólíklegt að þingið neyðist til að starfa lengur en tvö ár. Þetta er jú þannig batterí að það kæmi ekki alls á óvart.
Það eru til aðrar leiðir að þessu sama markmiði, sem er endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem eru allt eins lýðræðislegar, en skjótvirkari og ódýrari.
Aðalatriðið er þó það að ekkert hastar að ljúka þessum málum fyrir kosningar núna. Þvert á móti; það ber vitni um flaustursleg vinnubrögð láti menn sér detta í hug slíka vitleysu.
Eðlilegast er að setjast yfir málið eftir kosningar. Koma málinu í fastan farveg, setja sér ákveðin tímamörk og ljúka því með skikkanlegum hætti á tilsettum tíma.
En stjórnlagaþingsvitleysuna, tveggja milljarða bruðlið skulum við leggja til hliðar. Það er nóg annað, betra og skynsamlegra við þessa peninga að gera - ekki síst núna.