Af hverju þessar tafir á vegagerðarútboðum?

Vegaframkvæmdir framundanÞað er gjörsamlega óskiljanlegt hversu hægt miðar við að bjóða út verkefni í vegagerð. Alls staðar hrópar þörfin, fjármunir eru til staðar, tæknilegum undirbúningi lokið, en ekkert bólar á útboðum í vegamálum. Mér satt að segja dauðbrá þegar ég gerði mér grein fyrir því að núna á tveimur og hálfum mánuði, það er þessu ári, er einungis búið að bjóða út þrjú verkefni og opna tvö tilboð. Síðasta vegagerðarverkefnið sem boðið var út, var auglýst 23. febrúar og síðan ekki söguna meir.

Þetta er auðvitað gjörsamlega ólíðandi og verður að breytast. Þess vegna tók ég þetta upp á Alþingi sl. fimmtudag og hvatti Kristján L. Möller samgönguráðherra og mikinn áhugamann um samgöngubætur,  til þess að sjá til þess að úr þessu verði bætt snarlega.

Við sjáum líka að verktakar eru í mikilli þörf fyrir verkefni. Tilboðin sem hafa komið í verkefnin sem út hafa verið boðin, eru í kring um 60%, sem segir okkur allt sem segja þarf um stöðuna á verktakamarkaðnum.

Verkefni í vegagerð eru líka mjög vel til þess fallin að draga úr atvinnuleysi. Og hér fyrrmeir var oft gripið til slíkra aðgerða. Og því er spurt: Af hverju ekki núna líka ? Ríkisstjórnin hreykti sér af ýmsum áformum sínum til þess að slá á atvinnuleysi, með aðgerðum eins og þeim að fjölga listamönnum sem fá listamannalaun frá ríkinu.

Á meðan er setið á útboðsverkefnum í vegagerð, sem er himinhrópandi þörf fyrir. Samgönguráðherra nefndi töluna 6 milljarða þegar hann vék að fjármagni til nýframkvæmda sem nota mætti til útboðs núna. Það eru peningar sem myndi muna um inn í gaddfreðið hagkerfi okkar. Það myndi tafarlaust skapa hundruð starfa að minnsta kosti með beinum hætti, örva efnahagsstarfsemina og búa þannig til enn fleiri störf.

Ég trúi ekki öðru en að samgönguráðherra taki mig á orðinu og sjái til þess að Vegagerðinni verði heimilað að setja fullan kraft í útboð vegagerðarverkefna. Það standa öll rök til þess.




Rannsóknunum verður að hraða

RannsóknÉg sat á Sprengisandi Bylgjunnar undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar nú í morgun. Ásamt mér voru alþingismennirnir Siv Friðleifsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Umræðuefnið var staðan í stjórnmálum eftir prófkjörshrinuna þau stóru mál sem verið er að rannsaka í kjölfar bankahrunsins.

Það var samdóma skoðun okkar, eins og mér hefur fundist koma mjög vel fram í viðræðum við almenning á síðustu dögum, að samfara endurnýjunarkröfu þá sé uppi mjög ríkur vilji til þess að þingið skipi einnig reynslumikið fólk. Ekki síst við þessar aðstæður.

Björgvin benti til dæmis á að leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna séu reynslumestu þingmenn okkar. Og í prófkjörum helgarinnar endurspeglast þetta. Hjá Sjálfstæðisflokknum fengu þingmennirnir almennt brautargengi í Reykjavík, í Suður og Suðvesturkjördæmi má segja að úrslitin hafi verið sambland af endurkjöri þingmanna og endurnýjun.

Umræðan snerist síðan að bankamálunum og fjármalakreppunni. Í máli mínu lagði ég mjög mikla áherslu á nauðsyn þess að allir þeir sem fást við rannsókn á bankahruninu, orsökum og afleiðingum fái ríkulegar heimildir. Til þess hefur alltaf staðið vilji okkar sjálfstæðismanna og því erum við tilbúin að styrkja enn þennan grundvöll með lagasetningu gerist þess þörf. Mörgum óaði við þegar Björn Bjarnason þáv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir umfangi þess verks sem hinn sérstaki saksóknari stæði frammi fyrir. Núna gagnrýnir það enginn; miklu frekar að kallað sé eftir frekari rannsóknum, meiri mannafla og þess háttar.

Svo má ekki gleyma því að málefni tengd bankahruninu eru víða til skoðunar. Til dæmis hjá Fjármálaeftirlitinu. Mjög mikilvægt er að þar sé málum hraðað. Óþægilega oft heyrir maður að hin og þessi mál séu þar til skoðunar, en færra segir af lyktum þeirra athugana. Þetta kallar fram tortryggni og óánægju.

Allra hluta vegna verðum við að fara sjá niðurstöður einhverra þessara mála. Þjóðin krefst þess og jafnframt að allar slíkar niðurstöður séu gerðar heyrum kunnar, líkt eins og gerist hjá öðrum eftirlitsstofnunum okkar. Leyndarhjúpurinn mengar andrúmsloftið og spillir umræðunni. Þess vegna er svo mikilvægt að málum fari að ljúka og að þau séu útskýrð.




Þetta eru staðreyndirnar !

DilkakjötÉg rek nokkrar staðreyndir um búvörusamningana og matvælafrumvarpið svo kallaða í grein sem ég skrifaði í Bændablaðið sem kom út í gær fimmtudag. Þessi mál hafa hvorutveggja verið til all mikillar umræðu og því nauðsynlegt að árétta helstu atriði þeirra mála.

Um búvörusamningana segi ég: "Vilji minn stóð vitaskuld til þess verja búvörusamningana og gerði ég það í lengstu lög. En þegar svo var komið að ekki yrði hægt að ljúka fjárlagagerðinni með sæmilegum hætti nema að verðbæta greiðslur ríkisvaldsins ekki að fullu, þá hlaut það að gilda um búvörusamningana eins og annað. Þetta var mjög miður en undan varð ekki vikist við þessar einstöku aðstæður. Því varð niðurstaðan sú að búvörusamningar og bætur almannatrygginga (til dæmis örorku og ellilífeyris) lutu sams konar reglu. – Ég fullyrði að í ljósi ástandsins var ekki hægt að ná betri árangri hvað snerti búvörusamningana."

Síðan vek ég athygli á því að eftirmaður minn á stóli sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, sem einnig er fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon er búinn að kveða upp úr um að hann ætli ekki að taka skerðinguna til baka og bætir um betur og boðar að hún muni einnig gilda á næsta ári. Þetta segir hann þó hann hafi gagnrýnt skerðinguna áður en hann varð ráðherra.

Varðandi matvælafrumvarpið þá vek ég athygli á því að ég kom sem næst að orðnum hlut. Málið hafði verið lengi í undirbúningi. Mitt hlutverk var að reisa eins miklar varnir fyrir landbúnaðinn og kostur var. Þannig hafnaði ég þráfelldum kröfum ekki síst úr Samfylkingunni um að lækka tolla. Þeir verða því óbreyttir og skapa landbúnaðinum vörn.

Nýtt matvælafrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi hefur tekið miklum breytingum í þágu landbúnaðarins enda var það í anda þess sem ég hafði alltaf sagt. Ég vek svo athygli á því í greininni í Bændablaðinu að formaður Bændasamtakanna Haraldur Benediktsson telur að hægt sé að ná samkomulagi um þetta mál á grundvelli frumvarpsins og með tilteknum breytingum.

Um þetta erum við algjörlega sammála og undir þetta tek ég.




Forystukreppan í Samfylkingunni

ForystukreppaÞað ríkir forystukreppa í Samfylkingunni. Og hún er einhvern veginn svona.

Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir að hún drægi sig út úr stjórnmálum af heilsufarsástæðum upphófst ótrúlegur og fordæmalítill vandræðagangur. Það leynir sér ekki að ýmsir gætu hugsað sér að setjast í formannsstólinn á flokksþinginu í lok þessa mánaðar. Vandinn er bara sá að það vilja svo fjarskalega fáir sjá þá í þeim stóli.

Innanbúðarmenn í Samfylkingunni segja að mikil bylgja stuðnings sé við það að Jóhanna Sigurðardóttir verði formaður flokksins, enda sé hún forsætisráðherra og vel látin. Vandinn er sá að það vill Jóhanna bara alls ekki sjálf.

Þess vegna staðan svo vandræðaleg og sem sé svona: Þeir sem vilja verða formenn hafa ekki til þess stuðning. Það vill þá eiginlega enginn og ekki er gott að fara af stað með formann í farteskinu sem enginn vill sjá. Og þó sagt sé að Jóhanna njóti stuðnings í starfið, þá er sá galli á gjöf Njarðar, að hún vill ekki sjá það.

Með öðrum orðum; það eru ýmis formannsefni sem enginn vill, en formannsefnið sem nýtur stuðnings, vill sjálf ekki sjá jobbið!

Forvitnilegt verður að sjálfsögðu að sjá hvernig úr þessu leysist. En eitt er ljóst. Það er sama hvernig fer. Málið verður allt hið vandræðalegasta og versta fyrir Samfylkinguna. Kostirnir sem flokkurinn mun geta boðið upp á er annað hvort formaður, valinn í einhverju hallæri, ef Jóhanna Sigurðardóttir lætur ekki undan þrýstingnum. Eða þá. Jóhanna Sigurðardóttir í einhvers konar nauðungarvist í formannsstólnum, sem allir sjá að verður hugsað sem biðleikur þar til fús formannskandídat finnst, sem menn telja brúklegan í Samfylkingunni.

 

 

 

 

 




Vextirnir eru hengingaról almennings og atvinnulífs

MyllusteinnUmræðurnar í þinginu í gær um endurreisn efnahagslífsins ollu miklum vonbrigðum. Innlegg forsætisráðherra og fjármálaráðherra var eins konar endurtekið efni frá blaðamannafundum. Steingrímur J. barmaði sér yfir erfiðu starfi sínu ( eins og vanalega) og Jóhanna sagði okkur að lítið hafi gerst í ríkisstjórninni sem hún sat í fram í febrúar ( eins og vanalega) þótt staðreyndir segi aðra sögu. Stefnumótunin sem glitti í var sjálfhælin og óljós skírskotun til fyrirheita, sem öngva hönd mátti festa á.

Það var fyrst eftir að við höfðum, all nokkrir þingmenn, gert að forsætisráðherra harða hríð varðandi hina svimandi háu stýrivexti að talið varð ögn skýrara. Við fengum hana til að segja nánast að stýrivextir yrðu lækkaðir eftir viku. Það er vonum seinna.

Verðbólgan er á hraðri niðurleið, líkt eins og við höfðum sagt fyrir áramótin að yrði raunin. Gengið er að styrkjast, í samræmi við þær efnahagsáætlanir sem við höfðum lagt upp með fyrir áramótin; og Steingrímur J og félagar hans í VG höfðu gagnrýnt hvað harðast vel að merkja. Sterkara gengi í bland við lækkandi innflutningsverðlag á mörgum sviðum, lægra húsnæðisverð, horfin eftirspurnarspenna, samdráttur og svo framvegis og svo framvegis. Allt mun þetta leiða til skarprar lækkunar á verðbólgu.

Eftir hverju er þá verið að bíða með vaxtalækkun?

Og þegar við bætist síðan að vextir allt í kring um okkur eru að fara niður að núllpunkti, þá sjá allir að þetta vaxtastig sem er núna er algjörlega galið.

Sérstaklega af því að það er stórskaðlegt. Núna er það eins og myllusteinn eða hengingaról fyrir heimilin og atvinnulífið. Bændur sem fara til dæmis í bankann sinn til að fá lán fyrir áburðakaupum fyrir vorið, fá slík lán ekki nema á amk. 25% vöxtum. Fólkið sem vill dytta að húsunum sínum fær sömu trakteringar. Og atvinnulífið úti um allt land sem þarf eðlilegt rekstrarfé, til þess að fjármagna birgðahald eða aðra hluti sem rekstrinum fylgja, fær einungis slíka fjármagnsfyrirgreiðslu á sama tíma og arðsemin í atvinnulífinu minnkar og þar með getan til þess að standa undir fjármagnskostnaði.

Við svona aðstæður er þessi pengingamálastefna stórháskaleg og algjörlega tilefnislaus. Og það sem meira er. Samkvæmt áliti Samtaka ativnnulífsins myndu lægri vextir skapa 7 þúsund störf; lækka atvinnuleysið um nær helming.




Laun stuðningsins eru vanþakklæti

FramsóknMjög skrýtin staða er komin upp á Alþingi og almennt í stjórnmálunum. Fyrir liggur að Framsóknarflokkurinn hefur skuldbundið sig til að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna. Sú skuldbinding felur ekki í sér nein fyrirheit um að styðja einstök mál hennar. Um það ber að semja. Framsóknarflokkurinn er greinilega í huga ríkisstjórnarflokkanna eins konar þriðja hjól á vagninum.

Við ríkisstjórnarmyndunina um mánaðarmnótin janúar/febrúar kom glögglega í ljós hvert hlutverk Framsóknarflokkurinn átti að leika, að mati VG og Samfylkingar. Hann átti að vera einhvers konar gefin stærð, sem hægt væri að grípa til eftir hentugleikum. Þetta mislíkaði Framsóknarflokknum - eðlilega og mótmæltu. Því dróst ríkisstjórnarmyndunin, eins og kunnugt er.

Nú er hafinn nýr kafli í þessu leikriti. Nú er sem sé komið á daginn að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að kasta Framsóknarflokknum út í ystu myrkur, strax og þeir fá til þess færi.

Þetta sést á þeim lítt dulbúnum yfirlýsingum um að koma á nýrri ríkisstjórn, bak kosninga þar sem Samfylking og Vinstri grænir koma einir að verki; fái þeir til þess nægjanlegan þingstyrk. Það er greinilega ekki gert ráð fyrir Framsóknarflokknum í þeim áformum.

Ráðherrastólarnir fjórir, sem nú eru geymdir og ætlaðir til ráðstöfunar eftir kosningar, eiga samkvæmt hinum nýju áformum að falla VG og Samfylkingu í skaut. Ekki framsóknarmönnum, eins og sennilega var hugsunin í upphafi. Þetta er nú að renna upp fyrir öllum sem fylgjast með.

Þakklætisvotturinn fyrir vel unnin störf að stuðningi við ríkisstjórnina er sem sagt þessi. Að Framsóknarflokkurinn fái ekki aðild að ríkisstjórn.

Oft er sagt að laun heimsins séu vanþakklæti. Nú er greinilegt að ætlunin er að Framsóknarflokkurinn fái að reyna það á eigin skinni.

 




Landbúnaðarmálin rædd á Alþingi

Mynd bbl.isVið ræddum landbúnaðarmálin og vandamálin sem þar er við að glíma á Alþingi í gær. Það var fullt tilefni til þess vegna mikilla kostnaðarhækkana sem hafa hellst yfir greinina. Þyngst vega áburðaverðshækkanir. Ofan í 70-80% verðhækkun í fyrra kemur 50% áburðaverðshækkun á þessu ári. Þetta er hroðalegt. Bændasamtökin telja enda að þessi kostanaðarauki nemi allt að tveimur milljörðum króna.

Ég vakti athygli á því í ræðu minni að ég hefði haft að því frumkvæði með Bændasmtökunum að ræða við fulltrúa viðskiptabankana um málefni landbúnaðarins, strax eftir bankahrunið. Það voru árangursríkar viðræður og leiddu meðal annars til þess að bankarnir tóku á því að frysta lán og bregðast við aðstæðum á margan hátt.

Því fer auðvitað víðs fjarri að það leysti allan vanda, en það gaf þó mönnum nokkur grið og það skipti máli, eins og allir sjá. Landbúnaðurinn hefur enda mikla sérstöðu. Almennt er um að ræða blöndu búrekstrar og heimilisrekstrar og því þarf að taka málefni bænda sérsstökum tökum.

Ég hvatti nýjan landbúnaðarráðherra að efna til annarra slíkra viðræðna við bankana. Nú er sérstakt tilefni. Framundan er mikil rekstrarfjárþörf í landbúnaði og áburðarkaupin verða mörgum þung í skauti. Það er alvarlegt ef menn neyðast til að draga úr eðlilegri áburðargjöf. Áhrifa þessa mun gæta í lakari uppskeru og minni afurðum. Nokkuð sem þekkist líka í öðrum löndum, vegna óhagstæðrar verðþróunar á áburði.

Það er athyglisvert að í umræðunni kom fram, líkt eins og ráðherra greindi frá á Búnaðarþingi á sunnudaginn, að hann hygðist ekki láta verðbótaskerðingar á búvörusamningum ganga til baka. Vísaði hann til örðugleika í efnahagsmálum. Þarna kveður við nýjan tón frá því fyrir áramótin. Þá sögðu VG liðar að ekki ætti að skerða verðbæturnar. Nú þegar þeir þurfa að vera ábyrgir gerða sinna treysta þeir sér ekki til þess að standa við þær yfirlýsingar.

Þannig hafa vistaskipti frá stjórn í stjórnarandstöðu oft áhrif á menn.

 

 




Forgangsröðum rétt

SáttahöndÞví verður ekki að óreyndu trúað að ríkisstjórnin taki ekki í útrétta sáttahönd og leggi kapp á að sinna fyrst og fremst þeim málum á Alþingi sem snúa að efnahagsmálum, atvinnuuppbyggingu og hagsmunum heimilanna. Það var það sem forystumenn okkar þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lögðu áherslu á, á Alþingi nú síðdegis.

Það olli óneitanlega vonbrigðum að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra daufheyrast við þessu, en vonandi skiptir hún um skoðun.

Við getum ekki leyft okkur við þessar aðstæður að dreifa athyglinni og kröftunum. Það blasir við að verkefnin eru þau sem ég nefndi hér að framan, atvinnu og efnahagsmál og hagsmunir heimilanna. Það hlýtur að vera forgangsröðunin.

Vissulega er það áhyggjuefni að verkstjórnin er þannig við ríkisstjórnarborðið að mál koma seint og illa fram og forgangsröðunin er eins og hún er. Nú er bara búið að afgreiða eitt þingmál ríkisstjórnarinnar. Lögin um Seðlabanka; sem var í grunninn illa undirbúið og flausturslegt. Fáein mál eru komin til þings og eru í þingnefndum, önnur og margboðuð mál sem sögð eru skipta tugum, eru á einhverri óskilgreindri siglingu, en hafa ekki litið dagsins ljós.

Samt sem áður er vel hægt að ljúka áríðandi málum á þeim fáu dögum sem þingið hefur til umráða að öllu óbreyttu. En þá verður ríkisstjórnin vitaskuld að láta af þeirri þrákelkni sinni að vilja afgreiða mál sem ekki lúta að þeim meginverkefnum sem blasa við stjórnvöldum.

Það getur hreinlega ekki verið að stjórnvöld séu svo heillum horfin að ætla að stritast við mál sem vel geta beðið nýs þings nú um mitt þetta ár eða þá haustsins. Menn verða að kunna að forgangsraða og slá af tildurslegum metnaði sínum.

Þjóðin á það ekki skilið að brýnustu hagsmunum sé vikið til hliðar fyrir málum sem þola bið og krefjast mikillar samfélagslegrar umræðu áður en þau verða afgreidd.




Snúum okkur að því sem mestu máli skiptir

AlþingiÖllum að óvörum impruðu stjórnarflokkarnir á því að seinka kosningum, frá því sem áður hafði verið um rætt. Sérkennilegt í ljósi þess að Samfylkingin lagði á það áherslu að flýta kosningum í síðustu ríkisstjórn og Vinstri grænir lögðu á það ofuráheerslu að kosningar yrðu sem fyrst og fluttu um það sérstakt þingmál.

Þeir segja nú að tíminn sé ekki nægur til þess að hrinda í framkvæmd verkefnum ríkisstjórnarinnar. En er það svo?

Kjarni málsins er þessi. Nú blasa við þjóðinni gríðarleg verkefni, bæði til lengri og skemmri tíma. Nú ríður á að fara í þau verk en leggja aðrar hugmyndir til hliðar. Menn verða einfaldlega að forgangsraða og leggja áherslu á þau úrlausnarefni sem snúa að heimilunum og endurreisn atvinnulífsins. Þar er um skilgreind tiltekin viðfangsefni að ræða sem menn eiga að einbeita sér að. Flóknari er sú dagskrá ekki.

Við þingmenn - úr öllum flokkum fullyrði ég, - erum tilbúnir til slíkrar vinnu. Við Sjálfstæðismenn höfum enda sýnt það að við nálgumst verkefnun út frá efni máls og viljum þoka góðum málum áfram. Við hljótum að sinna þeirri lýðræðislegu skyldu okkar sem minnihluti á Alþingi að veita eðlilegt aðhald. En við viljum gjarnan vinna að skynsamlegum málum með öðrum stjórnmálaflokkum.

En þá verða menn að kunna að takmarka sig. Við getum ekki tekið dýrmætan tíma okkar frá lífsnauðsynlegum viðfangsefnum til þess að sinna verkefnum sem geta beðið næsta kjörtímabils. Þjóðin unir því ekki að menn dvelji dögum og vikum saman við verkefni sem ekki lúta að því treysta hag heimilanna og byggja stoðir undir atvinnulífið.

Þetta hljóta allir að skilja.

Við finnum kröfuna út um allt samfélagið um að áfram sé tekið á málum. Brugðist við þeim vanda sem steðjar að fólki og fyrirtækjum og mörkuð framtíðarstefna, sem unnt sé að hrinda í framkvæmd. Það er ærið starf, sem menn hljóta að geta sammælst um, en fullkomlega er ástæðulaust að taka dýrmætan tíma þingsins til stórmála sem ekki lúta að þeim brýnu verkefnum dagsins sem allir vita hver eru.

Svo skulum við ekki gleyma því að nú situr minnihlutastjórn á Alþingi, sem verður að semja sig í gegn um afgreiðslu allra mála. Allir sjá að slík stjórn hefur ekki pólitískt umboð til þess að marka línur um aðskiljanleg mál sem vel geta beðið nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar.




Hvalveiðarnar eru komnar til að vera

HvalveidarÞað var í sjálfu sér vandséð hvað Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra gat annað gert en að láta reglugerðina mína frá 27. janúar um hvalveiðar standa. Með því að afturkalla hana hefði hann verið kominn í stríð við Alþingi; og því hefði hann tapað. Þetta lá fyrir, vegna þess að meirihluti þingheims stóð að þingsályktunartillögu, þar sem ég var fyrsti flutningsmaður, um að halda áfram hvalveiðum með þeim hætti sem reglugerðin umrædda mælti fyrir um.

Þeir voru sumir sem reyndu að bera kápuna á báðum öxlum í þessu máli. Sögðust svo sem fylgjandi hvalveiðum en gagnrýndu hvenig að ákvörðuninni var staðið. Nú liggur fyrir frá lögmanni sem starfaði á vegum Steingríms að ákvörðun mín var í samræmi við lög og reglur og henni verður ekki breytt. Þetta sagði ég vitaskuld allan tímann, en vissulega er ágætt að fá þetta sjónarmið fram úr ólíkri átt.

Steingrímur J. segist ætla að vinna að nýrri lagasetningu um hvalveiðar. Það er gott. Ég lét í minni tíð undirbúa slíkt í ráðuneytinu. Sú lagasetning þarf ekki að vera flókin. Vegna óvissunnar um hvalveiðar taldi ég ekki tilefni til að leggja fram frumvarp um þessi mál, en það er rétt að nú er það sannarlega tímabært.

Það að Steingrímur vilji láta endurskoða gömlu hvalveiðilögin segir okkur líka að hann gerir sér grein fyrir að hvalveiðarnar eru komnar til með að vera. Þær munu halda áfram, enda blasir við hverjum manni að enginn lætur sér detta í hug að stöðva atvinnurekstur eftir að hann er kominn af stað. Atvinnurekstur sem lýtur lögmálum sjálfbærrar nýtingar, er í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar og eftir að fyrir liggur að sala afurða er trygg. það á við um hvalveiðar.

Og svo til viðbótar. Hvalveiðar munu veita fjölda fólks vinnu nú strax þegar mikil þörf er á.. Þær örva fjárfestingar og skapa gjaldeyri. Það veit hvert mannsbarn að hvorki Steingrímur J. né neinir aðrir fara að taka upp á því að banna slíkt með lögum.

Það er því ástæða til að fagna niðurstöðunni frá í gær.  Eitthvað orðaskak frá síðustu dögum og stóryrði einstakra ráðherra í minn garð út af hvalveiðiákvörðun minni eru nú grafin og gleymd.  Það er eins og gerist í lífinu . Stundum hafa menn rétt fyrir sér og stundum skjöplast mönnum. Það er aukaatriði þegar niðurstaðan er fundin og hún er farsæl. Það var í þessu tilefni og nú er bara að gleðjast og horfa fram á veginn.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband