15.2.2009 | 16:45
Tilraun til að afvegaleiða umræðuna
Ný ríkisstjórn sem ætlar sér fáa daga til verka sinna vandar að sjálfsögðu og velur af kostgæfni þau mál sem hæst eiga að bera í upphafi vegferðarinnar. Frumvarpið um Seðlabankann, átti að vera frumvarpið sem gæfi stjórninni góðan byr í seglin. Búið var að byggja upp andstöðu við stjórnendur bankans. Frá sjónarhóli VG og Samfylkingar var því tilvalið að gera það frumvarp að eins konar vörumerki stjórnarinnar.
Frumvarpið hefur náð þeim tilgangi; en með allt öðum formerkjum en til stóð.
Seðlabankafrumvarpið var illa unnið. Um það deilir enginn lengur. Það var unnið í kjöltu forsætisráðherrans upp úr gömlum breytingartillögum þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri og var svo sótt í gamalt frumvarp úr samfylkingarsmiðjunni. Björgulegra var það nú ekki.
Þetta fletti ofan af auðsæjum tilganginum; sem sé að koma Davíð Oddssyni úr stóli seðlabankastjóra. Aðdragandinn (hið klaufalega og ótrúlega bréf forsætisráðherrans til bankastjóra Seðlabankans), vandræðaleg þögn vegna athugasemda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og krafan um fljótaskrift við afgreiðslu máls sem snýr að skipulagi stjórnsýslu við peningamálastjórnina. Allt var þetta líkt og kennslustund í því að upplýsa okkur um raunverulegan tilgang frumvarpsins.
Þess vegna er það rangnefni að kalla frumvarpið, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Þetta er bara frumvarp um að reka Davíð Oddsson. Svo einfalt er það.
Athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru ekki tæknilegs eðlis, eins og reynt var að skrökva að okkur. Þær lúta að meginefni, fletta upp nýjum álitamálum, vekja athygli á því að ekki er farið í efnisatriði í þessu frumvarpi sem ástæða væri að gefa gaum samhliða.
Þetta er mikið áhyggjuefni. Það er ekki gott þegar ríkisstjórn kastar fram illa búnu frumvarpi sem lýtur að mikilvægum þáttum og sem getur haft áhrif á hvernig til tekst í framtíðinni. Svo ekki sé talað um þegar reynt er að afvegaleiða umræðuna með því að segja okkur að efnismiklar athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu bara tæknilegs eðlis.
Svona geta stjórnvöld ekki komið fram gagnvart þinginu; hvað þá gagnvart þjóðinni.
12.2.2009 | 14:47
Hinir auðsveipu
Þingmenn Samfylkingarinnar tala nú purkunarlaust um að vel gangi að tjónka við þingmenn Vinstri Grænna í Evrópumálum. Þrátt fyrir svardaga þeirra síðarnefndu og yfirlýsta andstöðu þeirra við aðild að ESB eru kollegar þeirra í ríkisstjórninni ekki feimnir við að lýsa hve þeir séu auðsveipir og ágætir við að eiga á ESB - vegferðinni.
Síðast utanríkisráðherrann okkar, sem í morgun taldi það ólíkt auðveldara við að eiga að ræða við VG liða en Sjálfstæðismenn þegar kemur að ESB málum og aðildarviðræðum.
Þetta er í samræmi við það sem sagt hefur verið frá fyrsta degi. Gleymum því ekki að formaður Samfylkingarinnar og fyrrum utanríkisráðherra sagði að meiningin með breytingum á stjórnarskrá væri að auðvelda aðild okkar að ESB. Vinstri Græn, samþykktu þessa túlkun með þögninni.
Í fyrradag fór hinn nýji formaður Utanríkismálanefndar Alþingis, Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG með versið sitt og sagði flokk sinn andsnúinn ESB. Í dag setti utanríkisráðherrann ofan í við þennan trúnaðarmann sinn í utanríkismálanefndinni og talaði glaðlega um hve allt væri nú elskulegra við að eiga við VG en Sjálfstæðisflokkinn þegar kæmi að ESB spurningunni.
Til þess að rifja upp fyrir lesendum þessarar heimasíðu hverjir hinir auðsveipu ESB menn eru, er rétt að birta hér lista yfir þingflokk Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs:
Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.
10.2.2009 | 09:49
Óskaplega fara þau illa af stað
Á óvart kemur hversu nýja ríkisstjórnin fer illa af stað. Yfir henni virðist vera eitthvað lánleysi; vandræðagangur, sem eltir stjórnina uppi í hverju málinu á fætur öðru.
Látum liggja á milli hluta allan vandræðaganginn og ósamstöðuna í hverju málinu á fætur öðru. Hér á þessari síðu voru fyrstu dagar slíkra uppákoma raktir á dögunum og stöðugt bætist í þann sarpinn.
En vandræðin halda sífellt áfram og taka á sig stöðugt nýjar birtingarmyndir; miklu fleiri en maður gat ímyndað sér að væru til. Þetta er áhyggjuefni, af því að ríkisstjórnin hefur vandasömu og ábyrgðarmiklu hlutverki að gegna á svona erfiðleikatímum. Þess vegna veldur það kvíða hjá þjóðinni að upplifa svona vandræðalega hluti.
Tökum dæmi af bréfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirhugaðar breytingar á Seðlabankalögunum. Það mun hafa borist um helgina. Um miðjan mánudag var ekki ennþá búið að greina forsætisráðherranum, þeirri vænu konu Jóhönnu Sigurðardóttur frá tilurð bréfsins. Aðstoðarmaður hennar sagði svo nokkrum klukkustundum eftir að málið hafði komið til tals á Alþingi, að frumkvæði Birgis Ármannssonar, að hann vissi ekki til þess að svona bréf hefði birst. Þetta er alveg makalaust.
Síðan var hins vegar rokið í að greina frá tilurð þess, rétt fyrir sjö fréttir Sjónvarpsins! - Þetta er ofureinfaldlega ekki í lagi.
Annað dæmi. Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingar og fyrrv. umhverfisráðherra talar um hvalamál og lýsir vel þekktum skoðunum sínum. Hennar helsta nýbreytni í röksemdafærslunni var að nú þyrftum við að sýna þeim þjóðum sérstaka tillitssemi, sem eru að pína okkur og kvelja vegna Ice-Save, reikninganna. Eins og það sé brýnast að hverfa frá hvalveiðum af nærgætni við þá herramenn mister Brown og Darling, sem settu á okkur hryðjuverkalögin !
Heyr á endemi !
Og loks má nefna dæmið af henni Kolbrúnu Halldórsdóttur umhverfisráðherra sem lét eins og alþjóðlegar samningsskuldbindingar meinuðu okkur að stunda hvalveiðar, þegar hið gagnstæða liggur fyrir og hefur margoft verið rakið. Ég meina. Hún er ráðherra umhverfismála og á að vita betur.
Svona hrannast dæmin upp og það bara á einum degi sem sannarlega lofar ekki góðu um framtíðina; og það er eiginlega verst.
9.2.2009 | 10:05
Tilskipanaríkisstjórnin kynnir verklagið sitt
Einu sinni var stjórnmálaflokkur sem sagði að árangursríkast væri að stjórnmál byggðust á samræðum en ekki átökum. Þess vegna ætti að leita lausna á grundvelli pólitískra umræðna, en ekki tilskipana. Þessi flokkur hét Samfylking.
Svo var það annar flokkur sem lagði líka í umræðum, áherslu á mikilvægi þess að menn ættu þess kost að ræða málin, undirbúa þau vel og gefa sem flestum kost á aðkomu við undirbúning mála. Þessi flokkur hélt upp á tíu ára afmæli sitt nú um helgina og heitir Vinstrihreyfingin grænt framboð.
Nú vitum við að það var ekki orð að marka þetta. Þessir flokkar eru í ríkisstjórn - í minnihlutaríkisstjórn - og hafa ekkert gert með fyrirheit sín, en stjórna þess í stað í tilskipana og "vér-einir-ráðum" stíl.
Tökum tvö dæmi.
Þegar lögum um Seðlabanka hefur verið breytt, að minnsta kosti í veigamiklum atriðum, þá hefur jafnan verið leitast við að skapa um það góða sátt. Þannig var það síðast til dæmis og þau lög sem þá voru sett, byggðust á starfi þverpólitískrar nefndar. Það var tvímælalaust til góðs.
Nú er hins vegar öldin önnur. Nú er illa unnið frumvarp lagt fram, án nokkurs samráðs, enda er tilgangur þess fyrst og fremst pólitískt sjónarspil. Og það sem verra er. Forsætisráðherrann hefur í hótunum um að þetta þingmál eigi að afgreiðast hratt, svo að samráðið verði sem minnst á vettvangi þingsins.
Hitt er þó jafnvel ennþá verra að nú á sýnilega að hafa sömu háttu varðandi mögulegar breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum. Slíkar breytingar hafa ævinlega haft góðan fyrirvara, þær hafa ævinlega verið undirbúnar af þverpólitískri nefnd, með tilstyrk sérfræðinga og þær hafa ævinlega byggst á pólitískri niðurstöðu í bærilegri sátt.
En ekki núna.
Nú skal hafa sama háttinn á og er orðið aðalsmerki þessarar nýju tilskipana-ríkisstjórnar. Engin tilraun til þverpólitískrar sáttar, engin aðkoma stjórnmálaflokkanna. Undirbúningurinn á að fara fram í hópi þriggja sérfræðinga, algjörlega án aðkomu annarra en þeirra sem ríkisstjórninni stýra.
Þetta er ótrúleg óskammfeilni, en sem er þó að verða daglegt brauð í minnihlutastjórninni.
5.2.2009 | 08:49
Eitt deiluefni á dag
Í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram fór í gærkveldi, var ég einn ræðumanna Sjálfstæðisflokksins. Ég fjallaði um stöðu efnahagsmála, hvalveiðarnar og fór fáeinum orðum um ótrúlegt sundurlyndi sem einkennir hina nýju ríkisstjórn. Sá kafli fer hér á eftir, lítt breyttur.
Fyrstu dagar nýju ríkisstjórnarinnar eru ekki uppörvandi. Málin frá ríkisstjórninni streyma sem á færibandi, - það er að segja ágreiningsmálin. Hingað til hefur enginn dagur liðið án þess að þau birtist í einu eða öðru formi.
Í fyrradag voru það stóriðjumálin. Og enn veit enginn hvort fylgt sé uppbyggingarstefnu Össurar Skarphéðinssonar hæstv. iðnaðarráðherra, eða stoppstefnu Kolbrúnar Halldórsdóttur hæstv. umhverfisráðherra.
Í gær deildu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra um gjaldmiðilsmál frammi fyrir þjóðinni og fullum sal af fréttamönnum.
Og í morgun sáum við glitta í ansi efnilegt rifrildi um evrópusambandsmál, sem ýmist eru sögð úti á köldum klaka, eða á tvíbreiðri hraðbraut, með fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskránni. Eða eru Vinstri græn sammála formanni Samfylkingarinnar um að tilgangurinn með boðuðum breytingum á stjórnarskrá, sé að greiða fyrir ESB aðild. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að flokkurinn svari þessu með skýrum hætti hér í þessari umræðu.
Hinni nýju ríkisstjórn er afmörkuð 80 daga stund, til verka sinna. Haldi hún uppi háttum sínum má búast við að það verði tími 80 ágreiningsefna, einnar deilu á dag.
1.2.2009 | 22:00
Með góðum óskum
Steingrímur J. Sigfússon tók við lyklavöldum í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu nú um kvöldmatarleytið. Ég afhenti honum lyklana að ráðuneytinu. Lyklakippan hangir í myndarlegri skeifu, sem er við hæfi í ráðuneyti grundvallaratvinnuveganna.
Steingrímur þekkir til í þessum málaflokkum. Hann var landbúnaðarráðherra á árunum frá haustdögum 1988 og fram að kosningum árið 1991. Á sínum langa þingferli hefur hann einnig látið sjávarútvegsmálin til sín taka.
Annars erum við Steingrímur jafnaldra, báðir fæddir á árinu 1955. Ég tjáði honum þegar ég afhenti honum skeifuskrýdda lyklakippuna, að hann væri nú að setjast að í afar áhugaverðu ráðuneyti þar sem að mörgu sé að hyggja. Fyrir nú utan það hve lánsamur hann verði að fá að vinna með svo hæfu og ágætu starfsfólki í ráðuneytinu þar sem góður starfsandi ríkir og sömuleiðis með þeim ágætu stofnunum sem undir ráðuneytið heyra og með öll því góða fólki sem í sjávarútvegi og landbúnaði starfar og þarf oft að eiga samskipti við ráðuneytið og stofnanir þess.
Sjálfur hef ég átt þar góða tíma, þó margt hafi á stundum verið á fótinn. Það hefur verið ögrandi verkefni að sameina þessi grónu ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar og nú hillir undir að starfsemin verði öll undir einu þaki.
Nýrri ríkisstjórn sem tók við í dag, fylgja góðar óskir. Þó að til hennar hafi verið stofnað með umdeilanlegum hætti og mörgum spurningum um áform hennar sé enn ósvarað vonum við auðvitað að verk hennar verði til farsældar. Það ríður á. Við lifum mikla háskatíma þar sem minnstu mistök geta orðið okkur dýrkeypt. Efnahagsáætlunin sem við unnum með Alþjóðagjaldeyrissjóðunum, byggir á því að við förum að með mikilli gætni og af ráðdeild.
Það er einmitt á þeim sviðum sem ástæða er til efasemda. Í nýju ríkisstjórninni er hópur fólks sem hefur bókstaflega gert út á aukin ríkisútgjöld, þegar fyrir liggur að þjóðfélag okkar þarf að rifa seglin alls staðar. Líka á ríkisfjármálasviðinu. Útgjaldaloforð við þessar aðstæður eru þess vegna mestan part innistæðulaus.
Nú er því brýnt að við veitum ríkisstjórninni málefnalegt aðhald. Það er gríðarlega mikilvægt að menn fari ekki út um víðan völl í eyðslu og loforðasæg. Nú er tími aðgæslu, ekki útgjaldafárs. Við þurfum að vera óþreytandi að minna á það.
31.1.2009 | 12:59
Jóhanna kallar Framsóknarflokkinn handavinnu
Það hefur komið á óvart hversu hægt stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar og Vinstri Grænna hafa gengið. Sérstaklega í ljósi þess að nú er orðið ljóst að þreifingar á milli flokkanna áttu sér stað löngu áður. Því var almennt ætlað að þess yrði skammt að bíða eftir að viðræðurnar hófust, að ríkisstjórn yrði að veruleika.
Því trúðu líka talsmenn þessara flokka í viðræðunum. Að minnsta kosti tjáðu þau þjóðinni það í gegn um fjölmiðla. Allt gengur svo vel, engar brekkur framundan, engir finnast ásteytingssteinarnir. Ríkisstjórnin er í burðarliðnum og stutt í fæðingu. - Þetta var tónninn, alveg fram á daginn í gær, að þeim var kippt oná veruleikaplanið.
Nú hefur komið í ljós meðgangan er lengri, fæðingin erfiðari og ekki alveg laust við að gleðibragðið hafi vikið fyrir pirringarvotti.
Í gær sagði Jóhanna Sigurðardóttir, í fimmta sinn á jafn mörgum dögum, að skammt yrði nýrrar ríkisstjórnar að bíða. Nú væri handavinnan ein eftir. En bíðum nú við.
Hver reyndist hún vera þessi handavinna Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar? Svar. Framsóknarflokkurinn eins og hann lagði sig, hvorki meira né minna. Framsóknarflokkurinn er eintóm handavinna, að mati Jóhönnu og Steingríms.
Þegar afrakstur erfiðis VG og Samfylkingar var fyrst borinn á borð Framsóknarflokksins, blöstu við þeim óraunhæfar tillögur; samsuða sem hafði það eitt markmið að halda nýrri stjórn við völd fram að næsta kjördegi.
Það var greinilegt að hlutverk Framsóknarflokksins átti að vera það eitt að gefa nýrri stjórn grið í 100 daga. Flokkurinn átti ekki að hafa neina aðkomu og samþykkja ríkisstjórnarvíxil vinstri flokkanna meira og minna óútfylltan.
Það er ekki að ófyrirsynju að Framsóknarflokkurinn uni ekki svona trakteringum. Þessi tilskipanastíll nýrrar ríkisstjórnar boðar ekki gott og því ekki að undra að sá flokkur sem hefur líf stjórnarinnar í hendi sér, láti ekki bjóða sér hvað sem er.
29.1.2009 | 10:55
Sömu rökin eiga við
Ég hafði gaman af því að sjá að forseti Norðurlandaráðs, Svíinn Sinilla Bohlin var að skammast út í hvalveiðar Íslendinga. Ekkert var haft eftir þessari mætu konu um hvalveiðar Norðmanna, enda er það plagsiður ýmissa að gagnrýna fremur verk smærri þjóða en hinna stærri. Afstaða sænskra stjórnvalda kemur ekki á óvart. Hún hefur lengi legið fyrir.
En nú má ég til með að rifja upp afstöðu sænskra stjórnvalda þegar kemur að nýtingu sjávarspendýra á þeirra eigin slóðum.
Ég hef setið eina tvo fundi matvælaráðaherra Norðurlanda á síðustu árum. Þar hafa mjög verið rædd, mikil vandamál sem fiskimönnum við Eystrasalt stafar af mikilli fjölgun sela. Sænsk yfirvöld hafa þess vegna beitt sér mjög fyrir því að við ályktuðum um réttmæti þess að selirnir séu veiddir og nýttir, eins og tilefni er til. Er skemmst frá því að segja að þetta hefur orðið samdóma álit okkar ráðherranna, enda alveg sjálfsagt mál.
Þetta er kannski dálítið ankannalegt vegna þess að þrjú Norðurlandanna eru innan ESB þar sem rætt er núna um að banna verslun með selaafurðir; nokkuð sem gæti orðið stórháskalegt fyrir vini okkar og nágranna í Grænlandi. Og vonandi hugsa því aðrar Norðurlandaþjóðir með sama hug til þess máls, er það kemur til afgreiðslu innan ESB innan tíðar og þeir hugsa um selveiðar í Eystrasalti.
En fróðlegt er að heyra rökin fyrir selveiðum í Eystrasalti. Þau rök eru okkur kunnugleg. Segja má að í stað orðsins selur, gætum við sett orðið hvalur. Rökin eru algjörlega þau sömu.
Við Eystrasalt kvarta sjómenn undan því að selurinn sé í samkeppni við fiskinn um fæðuna, að selurinn éti fiskinn og takmarki þannig veiðina og þess vegna þurfi að veiða sel, til þess að skapa jafnvægi í lífríki hafsins.
Kannast menn ekki við þessi rök ? Þau eru alþekkt hér á landi þegar við ræðum hvalveiðar. Ég er sammála Svíum varðandi selanytjarnar í Eystrasalti á sama hátt (og raunar af fleiri ástæðum) sem ég tel hvalveiðar á grundvelli sjálfbærrar nýtingar vera skynsamlegar og eðlilegar.
28.1.2009 | 13:57
Ákvörðun á valdi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra
Hvalveiðar hafa staðið yfir hér við land samfleytt frá árinu 2003. Fyrstu árin í vísindaskyni, en haustið 2006 var ákveðið að hefja jafnframt veiðar í atvinnuskyni og kvóti gefinn út í langreyði og hrefnu. Hrefnuveiðar í atvinnuskyni hafa staðið yfir öll árin frá 2006. Hlé varð á langreyðarveiðunum vegna þess að vandamál voru á sölu afurðanna til Japan. Veiddir hafa verið á þriðja hundruð hvalir á þessum tíma.
Á þeim tíma kom fram hjá þeim sem andmælt höfðu hvalveiðum að ekki væri ástæða til að gefa út langreyðarkvóta á meðan afurðir seldust ekki. Sú varð og raunin. Nú eru markaðsmálin hins vegar í höfn og hvalveiðar hefjast því að nýju.
Nú er spurt. Var ekki ástæða til að bera þessa ákvörðun undir ríkisstjórn?
Því er til að svara að allir vita að ágreiningur hefur ríkt á milli stjórnarflokkanna í þessu máli. Sjáflstæðisflokkurinn hefur viljað og vill að hvalveiðar séu stundaðar. Í Samfylkingunni eru skoðanir skiptar (og í hvaða máli er það svo sem ekki!!). Þingmenn flokksins hafa þrýst á mig að gefa heimild til veiðanna. Þessi mál voru því rædd á mánuðunum eftir að ríkisstjórnin var mynduð.
Segja má að ráðherrar Samfylkingarinnar hafi höggvið mjög myndarlega á þennan hnút, með því að segja að þetta mál sé á forræði sjávarútvegs og landbúnaðrráðherra, málið sé ekki nýtt af nálinni heldur í samræmi við löngu boðaða og markaða stefnu og að ekki þurfi að fara með það fyrir ríkisstjórn. Þetta geta menn lesið í yfirlýsingu sem formaður Samfylkingarinnar sendi frá sér fyrir hönd ráðherra flokksins.
Þess vegna kemur á óvart að Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra kvartar undan því að hafa ekki fengið þetta mál til efnislegrar meðhöndlunar í ríkisstjórninni. Þótt ég viti það af fenginni reynslu, að minni hans sé sem fílsins, þá hafa annir líðandi daga og vikna og slímusetur með VG fólki líklega máð þessa yfirlýsingu úr hugsun míns gamla félaga.
En svo eitt í lokin.
Mér finnst ekki einu sinni ómaksins vert að velta því fyrir mér hvort ný ríkisstjórn afturkalli hvalveiðiheimildirnar. Gáum að því að nú stefnir í minnihlutastjórn, sem styðst væntanlega við Framsóknarflokkinn. Formaður hans styður hvalveiðar og það gera þingmenn flokksins upp til hópa. Á Alþingi er klár þinglegur meirihluti fyrir halveiðum. Og ef minnihlutastjórnin fer þannig gegn þingviljanum og gegn vilja þeirra flokka sem halda í henni lífi, þá skortir mig orð til að lýsa slíku athæfi.
26.1.2009 | 22:36
Ekki Samfylking í eintölu heldur samfylkingar í fleirtölu
Samfylkinguna þraut örendið. Flóknara er það nú ekki. Þegar á reyndi brast kjarkurinn og síðan var farið í að reyna að búa til einhverjar, eftir-á-skýringar.
Ríkisstjórnin var afar vel verkfær og kom miklu í framkvæmd á verktíma sínum. Eftir bankahrun var gripið til margra og viðurhlutamikilla efnahagsráðstafana. Það getum við kynnt okkur með því að lesa ágæta ræðu Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra á Alþingi sl. fimmtudag. Hans meginstef var lýsing á margháttuðum verkum sem ríkisstjórnin hrinti í framkvæmd og ekki síður lýsing á þeim mörgu tækifærum sem við værum að hrinda úr vör.
En nú mæta vinir hans í Samfylkingunni til leiks með rýtinginn í erminni og hefja verkefni sitt við að tala í þveröfuga átt.
Nú er sagt að verkstjórnin í ríkistjórnarsamstarfinu hefði þurft að vera kröftugri. Ekki rímar það við þau miklu afköst sem ríkisstjórnin hefur sýnt og Össur lýsti af svo mikilli ástríðu. Vandinn var ekki ónóg verkstjórn, það vantaði ekkert upp á hana. En á hina ístöðulitlu samfylkingarmenn, sem fóru út og suður við minnsta tilefni, þurfti allt annað og meira en verkstjórn. Þeir þurftu hreina handleiðslu ættu þeir ekki að fara af límingunum þegar á móti blés.
Þetta sáum við þegar trommuslátturinn jókst nú eftir áramótin. Þá var farið að leita útgönguleiða, sem kom svo ágætlega í ljós nú síðustu dægrin. Þessi öfl náðu undirtökunum og báru þá ágæta samverkamenn okkar úr Samfylkingunni ofurliði þegar til stykkisins kom.
Þess vegna breytti litlu þótt við værum tilbúin til efnislegs samkomulags, hvort sem var um aðgerðir í þágu heimila eða atvinnulífs eða uppstokkun í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti eða ríkisstjórn. Þá voru einfaldlega búin til ný efnisatriði, í leit að nógu stórum ásteitingarsteinum til að hlaupa frá ábyrgð sinni.
Vandi Samfylkingarinnar er nefnilega fyrst og síðast sú að hún er ekki Samfylking í eintölu, heldur samfylkingar í fleirtölu. Ólík öfl sem erfitt er að skipa í heild eða skipulega fylkingu.
Þess vegna þraut flokkinn örendið, leitaði sér útgönguleiðar og hætti ekki þeirri leit fyrr en að hún bar árangur. Það var ekki efnislegur, pólitískur ágreiningur sem grandaði ríkisstjórninni, heldur innri vandamál samstarfsflokks okkar.