17.1.2009 | 13:09
Nú vandast málin !
Nú eru mál farin að vandast nokkuð hjá okkur Sjálfstæðismönnum og óvíst hvernig við eigum að rata úr þeim vandræðum okkar. Þetta skal nú skýrt með nokkrum orðum.
Hversu oft höfum við ekki mátt sitja undir því að vilja ekki tala um Evrópumál. Ástunda einhvers konar þöggun. Mig rekur til dæmis minni til að hafa skrifað hér á þetta blogg pistil einn þar sem ég sagði framboð af umræðum um ESB væri meiri en eftirspurnin. Vísaði meðal annars til alls þess kynsturs sem um þau mál hefði verið skrifað og talað, meðal annars af okkur Sjálfstæðismönnum. Færði fyrir því rök að umræðan væri meiri en almenningur hefði áhuga á. Talaði kannski svipað og á Heimsýnarfundinum á sunnudaginn var þegar ég sagði:
"Þeir sem síðan segja að einhver þöggun hafi verið í gangi um Evrópumál vaða því í nokkurri villu og svíma. Umræður, rannsóknir, skýrslur og álitsgerðir um þessi mikilvægu mál nægja til þess fylla upp í loftrými lofts og gólfs í flestum venjulegum híbýlum."
Þegar ég skrifaði téð orð á bloggið mitt á sínum tíma reis upp bloggarinn afkastamikli Egill Helgason - Silfur Egils og taldi þetta hina mestu dellu og flutti einhver rök fyrir því.
Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að taka nokkra mánuði í stefnumótun um Ísland í Evrópu; ekki langur tími að sönnu en grunnurinn er nægjanlegur til þess að þetta þurfi ekki meiri tíma.
Kemur þá ekki á vettvang sami Egill Helgason sem fyrir skemmstu sakaði okkur Sjálfstæðismenn um tómlæti í Evrópumálum og gagnrýnir okkur fyrir að taka tíma til þessa verks, þegar við ættum annað þarfara að gera! Er þetta ekki stórfurðulegt.
Það er hins vegar rangt að umræðan um stöðu Íslands innan Evrópu hamli öðrum verkum. Þau verk eru unnin eins og tíunda má í löngu máli og við blasir.
Og hvenær er annars of mikið af Evrópuumræðu og hvenær of lítið? Það er spurningin, eins og eitt sinn var sagt. Egill Helgason hefur svar við því. Evrópuumræðan er aldrei í réttum skömmtum !
8.1.2009 | 09:55
Óravegu frá langtímajafnvægi
Tölur um vöruskiptajöfnuð á síðasta ári sýna svart á hvítu að vöruskipti við útlönd stefna sem óðast í átt að jafnvægi. Tölur Hagstofunnar um útflutning og innflutning gefa okkur til kynna að útflutningsverðmæti séu að verða meiri en kostnaður við innflutning. Þannig varð bæði afgangur í nóvember og desember, sem að öðru jöfnu ætti að leiða til styrkingar krónunnar. Enn eru þó til staðar ýmsir óvissuþættir, sem tefja að krónan styrkist eins og vonir höfðu staðið til. Styrking krónunnar er hins vegar lykilatriði fyrir okkur við viðreisn efnahagslífsins.
Hagfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál hafa einmitt fært rök fyrir þessu.
Skemmst er að minnast sjónarmiða 32 landsþekktra hagfræðinga sem skrifuðu grein í Morgunblaðinu í gær þar sem þeir færðu rök gegn hugmyndum um einhliða upptöku evru. Þeir segja að gengi krónunnar sé núna lægra en langtímajafnvægisgengi. Í greininni segja þeir:
Raungengis krónunnar er afar lágt um þessar mundir og mikilvægt að það færist smám saman nær langtíma jafnvægi.......
Greining Glitnis fjallar ennfremur um þessi mál í fyrradag, en þar segir:
Raungengi krónunnar er, þrátt fyrir að hafa sótt í sig veðrið undanfarið, óravegu frá langtímajafnvægi og meðaltali og flýtir þessi þróun allverulega fyrir aðlögun hagkerfisins að ytra jafnvægi. Ísland er nú í raun ódýrt í alþjóðlegum samanburði sem er mikill viðsnúningur frá fyrri tíð þegar Ísland komst ítrekað ofarlega á blað yfir dýrustu lönd í heimi og óvíða annars staðar en í Reykjavík þóttu peningar ferðmanna duga jafn skammt og raun bar vitni. Þetta lága raungengi er tímabundið ástand enda mun raungengi krónunnar hækka til lengri tíma litið þegar jafnvægi næst á gjaldeyrismarkaði og nafngengi krónunnar tekur að stíga á nýjan leik. Engu að síður býður lágt raungengi upp á ýmis tækifæri enda er samkeppnishæfni hagkerfisins nú með besta móti í alþjóðlegu tilliti og ódýrara er fyrir erlenda ferðmenn að sækja landið heim. Að sama skapi hafa krónur Íslendinga rýrnað verulega að verðgildi í útlöndum eins og þeir landsmenn sem hafa lagt land undir fót undanfarna mánuði hafa fengið að kenna á.
Þetta er athyglisverð umfjöllun, sem segir okkur tvennt. Í lágu gengi felast þrátt fyrir allt líka tækifæri, stuðlar að aðlögun hagkerfisins, en er samt sem áður óravegu frá langtímajafnvægi.
5.1.2009 | 17:06
Evrópumenn geta lært af íslenskri fiskveiðistjórnun
Evrópumenn geta lært mikið af íslenskri fiskveiðistjórnun. Fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem grundvöllurinn er einstaklingsbundinn framseljanlegur fiskveiðiréttur, er aðalatriðið.
Þetta er niðurstaða hins virta breska tímarits The Economist í ítarlegri úttekt á málefnum hafsins, í nýjasta tölublaðinu. Tímritið tekur til gaumgæfilegrar athugunar marga þætti fiskveiðimála og annarra mála sem snerta umgengni um hafið. Í sérstakri umfjöllun blaðsins er talað um íslensku velgengnina (Icelandic success) þegar rætt er um fiskveiðistjórnun. Þar eru rakin helstu atriðin í íslenskri sjávarútvegsstefnu og hún síðan borin saman við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Vakin er athygli á því að þrátt fyrir góðan vilja framkvæmdastjóra ESB í sjávarútvegsmálum sé stefna sambandsins þjökuð af grundvallarvanda sem ekki hafi orðið samkomulag hinna 27 aðildarþjóða að ná utan um.
Leiðin út úr vandanum er að líta til Íslands, segir blaðið. Í umfjölluninni er rifjuð upp ítarleg úttekt þriggja fræðimanna, hagfræðinga og fiskifræðinga, í hinu þekkta vísindariti Science (19. september á síðasta ári) þar sem úttekt er gerð á veiðum út um allan heim. Eindregin niðurstaða þeirrar úttektar er að hrun fiskistofna sé nær óþekkt þar sem beitt er fiskveiðistjórnun á grundvelli einstaklingsbundinna fiskveiðiréttinda, líkt og þekkjast hér við land, í Noregi, Nýja Sjálandi og víðar.
Athyglisvert er að þessi athugun var mjög umrædd í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hér á landi hlaut hún enga athygli og enginn fjölmiðill gerði henni skil. Er það þeim mun furðulegra sem verið var að fjalla um fiskveiðistjórnun sem er viðhöfð hér á landi.
Er það til marks um að lítill áhugi sé á alþjóðlegum fræðilegum úttektum á fiskveiðistjórnarmálum í íslenskum fjölmiðlum? Eða telst það ekki fréttnæmt þegar fræðileg rannsókn leiðir í ljós að kerfi framseljanlegra fiskikvóta stuðli að fiskvernd? Hvert sem svarið er þá vekur það óneitanlega furðu að umfjöllun af þessu tagi veki ekki athygli hér á landi, þar sem sjávarútvegur er grundvallaratvinnuvegur og hann byggir á fyrirkomulagi sem er grundvallarumfjöllunarefni viðkomandi rannsóknar.
PS
Frá því að þetta blogg var skrifað hefur umrædd grein í Economist birst í íslenskri þýðingu á heimasíðu LÍÚ. Þýðinguna má nálgast með því að smella á þessi orð
2.1.2009 | 11:19
Augljós tilgangur, fordæmanleg meðul
Ofbeldisfólkið sem réðist til inngöngu inn á Hótel Borg, í því augnamiði að koma í veg fyrir lýðræðislegar umræður stjórnmálaleiðtoganna og fór fram með ofbeldi gegn lögreglunni, starfsmönnum fjölmiðils og starfsfólki Hótel Borgar, getur ekki réttlætt gjörðir sínar með skírskotun til stjórnmála. Það sem þau gerðu á gamlársdag var ekki pólitísk barátta, heldur hreint ofbeldi; óréttlætanlegt ofbeldi sem ber að fordæma.
Þeir eru margir sem skýla sér á bak við "málstað" og stjórnmálaskoðun, til réttlætingar á líkamlegu ofbeldi. Þetta er alþekkt fyrr og síðar og víða um lönd og álfur. Þangað sækja hinir íslensku ofbeldismenn fyrirmyndir sínar og kenna svo athæfi sitt við mótmæli !
- Þetta er þóðfélaginu að kenna, stjórnvöldum að kenna, er sagt; það er einhverjum öðrum að kenna en sjálfum ofbeldisgerandanum. Ofbeldisfólkið sem hefur farið mikinn síðustu vikurnar, ruðst inn á Alþingi, meinað ráðherrum inngöngu á ríkisstjórnarfundi, ruðst inn á lögreglustöðina í Reykjavík og nú síðast með árásum á fólk sem var að sinna lögmætum störfum sínum, réttlætir athæfi sitt með skírskotun til stjórnmála og tilgangi sem helgi meðalið. Þetta er gamalkunnug réttlæting á óréttlætanlegu athæfi.
Tilgangurinn er jafnan í svona tilvikum að reyna að brjóta niður það sem einkennir frjálst og umburðarlynt bogaralegt samfélag og nota til þess þau meðul sem við höfum séð. Þetta á ekkert skylt við þau lýðræðislegu mótmæli sem við höfum séð undanfarnar vikur, eða þau mótmæli sem íbúar landsins hafa efnt til fyrr og síðar, með friðsamlegum hætti í þágu tiltekins málstaðar.
Hinum fámenna hópi - þeirri litlu ofbeldisklíku - sem við sáum til á gamlársdag mun ekki takast ætlunarverk sitt. Hvorki að laska einkenni okkar opna samfélags né að koma óorði á þá sem mótmæla með lýðræðislegum hætti, í þágu málstaðar sem ekkert á skylt við ofbeldisverk.
Lýðræðislegir innviðir samfélags okkar eru sterkari en svo að litli en harðskeytti ofbeldishópurinn nái að valda því tjóni.
29.12.2008 | 09:41
Hefur stjórnarandstaðan engin spil til að sýna á?
Vandinn sem við glímdum við í fjárlagagerðinni var tvíþættur. Tekjubrestur sem stafaði af minni umsvifum í þjóðarbúinu og snarminnkandi fjármagnstekjum. Hins vegar hafa orðið til umtalsverð útgjöld sem óhjákvæmilega féllu á ríkissjóð vegna falls bankanna. Þess vegna vantaði ríflega 200 milljarða upp á að ríkissjóður gæti staðið undir því þjónustu- og framkvæmdastigi og hann hafði gert fyrir tíma efnahagsáfallsins sem við höfum orðið fyrir.
Þetta er bitur veruleiki; en veruleiki samt, sem enginn getur vikist undan.
Það eru engin ráð einföld eða auðveld við þessar aðstæður. Úrræðin eru satt að segja öll frekar gamalkunn.
Hækkun tekna, með því að auka óbeina tekjuöflun ríkissjóðs. Hækkun áfengisgjalda, tóbaksgjalda, bensín- og olíugjalda eru dæmi um þetta, þó ljóst sé að hækkun þeirra í ýmsum tilvikum amk. fylgi ekki verðlagsþróun. Hækkun tekna með hærri tekjuskattsprósentu og útsvarsprósentu til sveitarfélaga, eru annað dæmi um það hvernig við á tekjuhlið fjárlaga reynum að minnka fjárlagahallann.
Niðurskurður ríkisútgjalda fer fram með þrenns konar hætti. Dregið verður úr framkvæmdaáformum, þó ljóst sé að framkvæmdastigið verði engu að síður hátt á næsta ári. Lækkuð verða framlög til rekstrar. Rekstrarútgjöld stofnana verða almennt lækkuð um 3 til 5%. Og loks má nefna að lækkuð verða svo ölluð tilfærlsuútgjöld. Sett verður þak á vísitöluhækkanir almannatrygginga og búvörusamninga, svo dæmi séu tekin.
Þessar aðgerðir eru óhjákvæmilegar í ljósi aðstæðna. Við verðum að færa útgjaldastig ríkisins niður. Rétt eins og allur almenningur er að gera í sínum búreikningum og atvinnulífið sömuleiðis. Lækkun útgjalda ríkisins verður þó örugglega minni en hjá heimilum og fyrirtækjum, þó stjórnarandstaðan hafi uppi stór orð um vonsku okkar sem að þessum aðhaldsaðgerðum stöndum.
En þá er þess að geta að stjórnarandstaðan er ráðalaus og leggur ekki fram neina trúverðuga valkosti. Við aðstæður sem þessar reynir á burði stjórnarandstöðunnar. Ekki bara á hvort hún kunni að orða gagnrýni sína, heldur einnig hvort hún hafi einhver spil til að sýna á.
14.12.2008 | 17:19
Skítt og laggóstefnunni hafnað
Þegar tekjur ríkisins dragast saman um milljarðatugi og óhjákvæmileg útgjöld aukast sömuleiðis um milljarðatugi, er ekki nema tvennt að gera. Beita auknu aðhaldi og lækka útgjöld. Auka tekjur með hærri sköttum og aukinni gjaldheimtu. Þetta er ekki vinsælt verk, en hins vegar algjörlega óhjákvæmilegt. Eftir því sem aðhaldsstigið er meira verður afkoman betri og tilefni til skattahækkana minna og svo auðvitað öfugt.
Eitt er að minnsta kosti ekki hægt að gera. Stinga hausnum í sandinn og láta sem ekki sé tilefni til aðgerða. Slíkt er raunveruleikaflótti og stórháskálegur fyrir efnahagslífið. Það er hins vegar leiðin sem stjórnarandstaðan, að minnsta kosti Vinstrihreyfingin Grænt framboð, kaus að ráfa eftir.
Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þessa hluti mörg orð. Ríkissjóður varð af miklum tekjum við fall fjármálakerfisins. Veltan í samfélaginu minnkar og þar af leiðandi þær tekjur sem ríkissjóður hafði fengið. Afleiðing fjármálakreppunnar er síðan að til verða ný útgjöld sem ekki voru óhjákvæmileg í betra efnahagsástandi. Þess vegna fór ríkissjóðshallinn úr tæpum 60 milljörðum, eins og hann leit út í fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram í októberbyrjun og upp í 214 milljarða eins og raun hefði orðið á ef ekkert hefði verið aðhafst.
Hvað myndi það kallast ef ekkert væri gert? Ef við myndum fylgja einhverri skítt -og laggóstefnu, líkt og Vinstri Grænir leyfa sér? Það heitir ábyrgðarleysi. VG skammast bæði yfir tekjuöflun og útgjaldasamdrætti. Þeir kjósa að vera ábyrgðarlausir.
Ábyrgðarleysisstefnan hefði leitt yfir okkur aukna skuldasöfnun. Ríkissjóður hefði orðið að sækja stórfé á skuldabréfamarkað hér innanlands. Það hefði kallað á eftirspurn eftir fjármagni í samkepppni við atvinnulífið og ríkisvaldið. Það hefði því haldið uppi háum vöxtum á næsta ári, einmitt þegar þeir þurfa að lækka. Skítt -og -laggóstefna VG hefði því ekki einu sinni verið þægindastefna til skamms tíma. Hún hefði bitið fast í almenning og atvinnulíf. Sem betur fer ræður þessi óábyrga stefna því ekki för núna.
4.12.2008 | 16:12
Ekki veitir af
Það er rétt sem á hefur verið bent, að mikilvægt er að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að snúa hinni kröppu vörn samfélagsins í öfluga sókn. Að undanförnu höfum við brugðist við margvíslegum vanda fyrirtækjanna og heimilanna þó alveg sé ljóst að enn þurfi að gera betur.
Nefna má aðgerðaráætlun þá sem ríkisstjórnin hefur kynnt og verið er að hrinda í framkvæmd fyrir heimilin. Þessi áætlun leit dagsins ljós þann 14. nóvember síðast liðinn. Um þau mál má lesa með því að smella á þessi orð.
Þá sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi atvinnulífsins í tólf tölusettum atriðum. Hana má lesa hér.
Að ýmsu hefur verið unnið sem miðar einnig að því að örva atvinnulífið. Ekki síst að nýta þau tækifæri sem nú eru að verða til fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpun af margs konar tagi. Um þau mál hefur margt verið fjallað og ljóst að nú eru að verða til ákaflega spennandi atvinnutækifæri, sem ekki veitir af við þessar aðstæður.
Ég gerði þessi mál að umræðuefni í ræðu sem ég flutti á Sauðárkróki nú á dögunum og gerði þar grein fyrir ýmsum spennandi hlutum sem væru að eiga sér stað á vettvangi MATÍS. Enn fjallaði ég um þessi mál í pistli sem skrifaður var á þessa heimasíðu nú fyrir skemmstu.
Þá ræddi ég þessi mál all ítarlega við setningu 26. þings Sjómannasambands Íslands nú í morgun. Þar fjallaði ég meðal annars um tvo sjóði á sjávarútvegssviði sem heyra undir Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið. Annars vegar samkeppnisdeild Verkefnasjóðs og hins vegar AVS sjóðinn. Báðir eru þessi sjóðir samkeppnissjóðir og verða þeir sem styrk hljóta að leggja fram amk. jafn há framlög. Með því er hægt að tvöfalda rannsóknarféð.
Hinn fyrri sjóðurinn (Samkepppnisdeildin) hefur það hlutverk að efla hafrannsóknir og auka fjölbreytni þeirra. Varlega má áætla að sá sjóður hafi stuðlað að rannsóknum fyrir amk. 300 milljónir króna, á sviði þar sem ekki var auðvelt um fjármögnun áður og fyrr.
AVS er mun stærri sjóður og hefur víðtækara hlutverk (aukið verðmæti sjávarfangs) Má ætla að vel á fjórða milljarð króna hafa verið leystir úr læðingi til nýsköpunar í sjávarútvegi fyrir tilstilli AVS frá stofnun hans.
Þetta eru dæmi um sóknarhug og að við erum að nýta það fé sem við höfum til rannsóknar og þróunarstarfs til þess að efla atvinnulífið og einkum nýsköpun í landinu. Víst er að ekki mun af veita.
25.11.2008 | 22:44
Önnur sjónarmið
Dálkurinn Önnur sjónarmið hefur löngum verið vanræktur hér á þessari heimasíðu. Það er mjög miður, því hann hefur verið mjög góð viðbót við efni síðunnar. Satt að segja jafnan tekið mjög fram, efni því sem hrotið hefur úr pennastöng síðuritara. Slóðaskapur ritara einn, hefur valdið því að ekki hefur verið nægjanleg rækt verið lögð við þennan ágæta þátt heimasíðunnar, með því að kalla til fleiri skrifara.
En nú er bætt úr því. Sá ágæti borgarfulltrúi í Reykjavík, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var svo elskuleg að skrifa í dálkinn að þessu sinni. Grein hennar er mjög góð og vel rökstudd, eins og vænta mátti. Fjallar hún um stöðu sveitarfélaga í þeirri alvarlegu krepputíð sem nú gengur yfir þjóðfélag okkar. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessari áhugaverðu grein.
Þorbjörg Helga leysir nú af hólmi ágætan Framsóknarmann, (eða hann var það amk.síðast þegar ég vissi) Bjarna Harðarson, sem skrifaði snöfurmannlega grein hér á síðuna. Skömmu fyrir brotthvarf Bjarna af þingi sagði ég við hann að enn trjónaði hann efst í þessum dálki svo óafvitandi væri ég líklega að leggja málstað framsóknarmanna lið, með því framferði mínu. Honum líkaði það ekki illa.
Á undan honum skrifaði minn góðir vinur Hlynur Þór Magnússon á Reykhólum einhver snjallasti penni Eyjunnar og ótrúlega fær um að sjá óvæntar og frumlegar hliðar mála í snarpri þjóðfélagsrýni sinni; eða þá bara í mannlegum og þekkilegum skrifum um hversdagslega hluti sem hann kann að glæða lífi með eftirminnilegum hætti. Mér þótti mjög vænt um það þegar hann þekktist boð mitt um að skrifa á síðuna. Nú heldur Hlynur úti gríðarlega góðri síðu, www.reykholar.is þar sem efnið er sótt í Reykhólasveit og nágrenni og ratar oft inn á aðra fjölmiðla, sakir snilldartakta ritarans.
Ég gæti talið þá fleiri upp. Nefni þó að sinni bara gamla vini, pólitíska andstæðinga og baráttujaxla af Alþingi. Ögmund Jónasson sem reið á vaðið með mikilli árásargrein á okkur í íhaldinu, Össur Skarphéðinsson núverandi iðnaðarráðherra sá eitursnjalli og víðfrægi bloggari og svo Hjálmar Árnason sem var á þeim tíma þingflokksformaður framsóknarmanna, en við höfðum mikið saman að sælda þegar ég gegndi sama starfi í Sjálfstæðisflokknum
Og nú lofa ég að herða mig við umsjón þessa dálks. Nú verður þessum dálki haldið úti með fleiri skríbentum og því fer svo vel á því að hefjast handa með ágætum skrifum flokkssystur minnar Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur.
23.11.2008 | 22:04
Sanngjarnt og skynsamlegt
Niðurstaða ríkisstjórnarinnar sem vonandi fær almennan hljómgrunn á Alþingi um að skerða lífeyriskjör þingmanna, ráðherra og dómara, er útkoman úr mikilli vinnu og umræðum um þessi mál. Margt hefur verið misgáfulega sagt um þetta. Og merkilegt er að vita hve margir hafa misskilið margt í sambandi við lífeyrissjóðamálin.
Niðurstaðan sem lögð verður fram sem frumvarp von bráðar, tekur á þeim þáttum sem helst hafa verið gagnrýndir. Þar vegur einna þyngst að afnumið verður ríflega fjörutíu ára gamalt ákvæði lífeyrislaganna sem felur í sér að þingmenn og ráðherrar sem komnir eru á eftirlaun geti jafnframt þegið laun fyrir störf á vegum ríkisins. Þetta hefur misboðið réttlætiskennd manna og því engin ástæða til annars en að afnema þetta gamla ákvæði. Sömu sögu er að segja um réttindaávinnslu sem hefur verið meiri fyrir ráðherra og þingmenn og ákvæði um að ráðherrar og þingmenn geti farið mun fyrr á eftirlaun en almennt gerist.
Í viðbót við þetta hefur forsætisráðherra beint þeim tilmælum til Kjararáðs að lækka laun okkar þingmanna og ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra. Þetta eru tilmæli í ljósi þeirra alvarlegu aðstæðna sem eru uppi í þjóðfélagi okkar. Á almenna markaðnum er þetta orðið mjög tíðkanlegt. Menn lækka laun þeirra sem betur eru launaðir, til þess að skapa atvinnulífinu svigrúm og draga úr atvinnumissi. Það er sjálfsagt að við gerum eins hjá hinu opinbera. Og út á það gengur þessi hugsun sem forsætisráðherra gerði grein fyrir í bréfinu til Kjararáðs.
Það vekur því undrun og athygli að talsmaður neytenda telur þetta stjórnarskrárbrot og lögbrot. Þetta er aldeilis fráleitt. Dettur einhverjum það í hug í alvöru að forsætisráðherra hvetji til stjórnarskrárbrota og lögbrota og ríkisstjórnin leggi blessun sína yfir slíkt ?
Hér er einvörðungu verið að bregðast við efnahagslegri neyð. Reyna að stuðla að auknu réttlæti, jafnari kjörum og hvetja til þess að þeir sem rýmri kjör hafi í opinbera geiranum geri slíkt hið sama og fólk á almenna vinnumarkaðnum.
Sveigjanleiki er eitt megineinkenni vinnumarkaðar okkar og örugglega einn helsti styrkileiki hans. Hið sveigjanlega fyrirkomulag vinnumarkaðarins mun auðvelda okkur leiðina út úr vandamálum dagsins. Við sem þiggjum laun frá skattborgurum og erum í hópi þeirra sem hærri laun þiggja hjá hinu opinbera, eigum ekki að standa stikkfrí og aðgerðarlaus álengdar. Þess vegna var varfærnislega orðað bréf forsætisráðherra rétt og skynsamlegt
20.11.2008 | 14:29
Miklir erfiðleikar framundan en góðar langtímahorfur
Sú efnahagsáætlun sem við bjuggum út í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, er háð óvanalega mikilli óvissu og umtalsverðri áhættu. En hins vegar eru horfurnar um hagvöxt til lengri tíma góðar, sakir sterkra innviða þjóðfélagsins, góðrar menntunar landsmanna, aðlaðandi fjárfestingaumhverfis og mikilla náttúruauðlinda.
Þetta er í hnotskurn það mat sem IMF leggur á stöðu mála hér á landi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nú afgreitt umsókn okkar með jákvæðum hætti. Fyrir liggja lánsloforð annarra þjóða. Í þessu felst traustsyfirlýsing þessara aðila um þau áform sem við höfum sett fram um viðreisn efnahagslífsins og skýr skilaboð um að unnt sé að hefja hér eðlilegt gjaldeyrisviðskipti á markaðsforsendum. Þetta er afar mikilvægt og ætti að þjóna þeim mikilvæga tilgangi að styrkja krónuna að nýju, ná þannig niður verðbólgu, stuðla að vaxtalækkun og lækka skuldir heimila og fyrirtækja.
IMF færir fyrir því rök í áliti sínu sem kynnt er á heimasíðu sjóðsins að gert sé ráð fyrir að hagkerfi okkar færist tiltölulega skjótt í jafnvægisástand. Framundan sé hins vegar erfiður samdráttartími sem vara muni fram á árið 2010. Snöggur samdráttur í innflutningi geri það á hinn bóginn að verkum að þrálátur halli á viðskiptum við útlönd breytist fljótlega í umtalsverðan afgang. Útflutningsverðmæti verði sem sagt mun meira en kostnaðurinn við innflutning.
Þá segir sjóðurinn í áliti sínu, að jafnskjótt og við höfum byggt upp traust og skapað viðskiptajöfnuð muni einkaneysla taka fljótt við sér og fjárfesting einnig aukast að nýju á árinu 2011. Og vel að merkja. Sjóðurinn telur að bæði vöruskiptajöfnuður og viðskiptajöfnuður verði jákvæður strax á næsta ári.
Með öðrum orðum. Það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þá að segja er þetta: Framundan eru miklir erfiðleikar í efnahagslífinu og miklir óvissutímar. En þjóðin hefur alla möguleika til þess að vinna sig út úr þessum vanda og snúa vörn í sókn; og þeirrar sóknar mun gæta fyrr en síðar.