Ný þöggunarstefna

Sjalfstadisflokkurinn„Skyndilega er farið að glitta í þöggunarstefnu í umræðunni um Ísland og Evrópu. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn ákveður að efna til vinnu á vegum nefndar sem skoðar stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, ríkjum Evrópu og valkostum Íslands í alþjóðasamstarfinu, þá bregst annar ritstjóra Fréttablaðsins, Jón Kaldal, svo við að hann nefnir það fum og máttleysi. Hans sjónarmið er greinilega það að umræða um Evrópumálin eigi ekki að fara fram með lýðræðislegum og opnum hætti.“

Þetta eru upphafsorð greinar í Fréttablaðinu, sem birtist í fyrradag. Þar segir einnig:

„Er það til marks um máttleysi þegar hrint er af stað skipulegri vinnu við endurmat á stefnu Sjálfstæðisflokksins í stóru máli? Er það til mats um fum að á Landsfundi flokksins í ársbyrjun verði tekin afstaða til þessa máls eftir að það hafi verið skoðað og rætt opinskátt í nýju ljósi?

Auðvitað ekki. Jón Kaldal aðhyllist bersýnilega einhvers konar þöggunarstefnu. Honum finnst greinilega ekki að lýðræðislegur stjórnmálaflokkur eigi að virkja flokksmenn sína í opinni umræðu um mikilvæg mál, þar sem málin eru rædd á grundvelli bestu fáanlegrar þekkingar. Það finnst honum máttlaust. Honum finnst þetta óttalegt fum.

Sannleikurinn er sá að innan Sjálfstæðisflokksins hafa löngum farið fram miklar og kraftmiklar umræður um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Okkar forystumenn hafa alla tíð verið í forystu þeirrar umræðu. Það var á grundvelli slíkrar umræðu sem flokkurinn hafði forystu um EES samninginn, ásamt Alþýðuflokknum. Snemma árs 2007 lauk stefnumótun nefndar í Evrópumálum, sem allir stjórnmálaflokkar komu að og þáverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson hafði forystu um. Núverandi ríkisstjórn hefur síðan skipað  evrópumálunum í tiltekinn farveg undir forystu tveggja öflugra þingmanna.

Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið virkur þátttakandi í umræðunni um stöðu Íslands í evrópsku samhengi. Við höfum ekki staðið í vegi slíkrar umræðu. Þvert á móti. Við höfum hvatt til hennar, við höfum tekið þátt í henni og sett fram sjónarmið okkar. Og við teljum nauðsynlegt að þessari umræðu vindi fram.“




Evrópumálin tekin til endurmats

ESBEinhver lífseigasta lygasaga stjórnmálanna er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið á móti því að evrópumál séu rædd. Það er þvaður. Sjálfstæðismenn hafa þvert á móti tekið virkan og lifandi þátt í evrópuumræðunni og örugglega lagt til hennar meira en flestir aðrir. Við höfum hvatt til þessarar umræðu og við höfum tekið þátt í þessari umræðu og stundum hefur manni fundist að framboð af evrópuumræðu frá okkur stjórnmálamönnunum og álitsgjöfum hafi verið meira en eftirspurnin frá almenningi.

Það er í rauninni óþolandi að þurfa að hlusta á svona bull-síbylju um meinta óbeit okkar á því að tala um Ísland og Evrópusambandið. Og það jafnvel frá vænu og yfirveguðu fólki, eins og honum Baldri Þórhallssyni prófessor sem talaði í þessa veru í útvarpinu á föstudagskvöldið.

Það er ekki nema eitt og hálft ár síðan við mótuðum okkur stefnu í þessum málaflokki í aðdraganda kosninga. Okkar niðurstaða á Landsfundi var sú að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan en innan ESB. Þeir voru sannarlega til á landsfundinum sem þessu voru ekki sammála, en ekki risu miklir úfar með mönnum vegna þess. Með þessa stefnumörkun gengum við til kosningabaráttunnar og fengum góða útkomu í kosningunum.

Það er ekki algengt að stjórnmálaflokkar endurmeti stefnu sína í grundvallarmáli eins og þessu innan við tveimur árum eftir að hún er ákveðiðn í æðstu valdastofnun flokksins. Þetta ætlum við þó núna að gera með vönduðum hætti.

Ekki út frá því þrönga sjónarhorni sem nú tíðkast þar sem aðeins virðist mega ræða um einn anga - stóran anga - evrópumálsins; þ.e evruna. Við ætlum að ræða þetta yfirvegað og skoða málin í heild.

Við ætlum sem sé í hagsmunamat, eins og formaður okkar Geir H. Haarde forsætisráðherra nefnir það. Við ætlum að skoða þessi mál með opnum huga og fordómalaust þar sem við höfum aðeins eitt leiðarljós. Hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Við erum ekki að fara í hugsjónauppgjör, af því að ekkert kallar á það, en við viljum skoða hleypidómalaust hvað þjónar hagsmunum Íslands best. Þessu verkefni ætlum við að ljúka á Landsfundinum í janúarlok.




Í þágu bandarískra hagsmuna

Barack Obama143 árum eftir að þrælahald var afnumið í Bandaríkjunum var blökkumaður kosinn þar forseti. Sigur Baracks Hussein Obama var á allan hátt sögulegur. Sigur hans var í raun staðfesting bandaríska draumsins, árétting þess að þrátt fyrir allt þá eru Bandaríkin vettvangur tækifæra.

Trú á tiltekin megingildi setja svipmót sitt á bandaríska stjórnmálaumræðu. Okkur Evrópumönnum finnst sumt sérkennilegt; eilíf skírskotun til fósturjarðarinnar og almættisins myndi til dæmis hljóma sérkennilega í okkar heimshluta. Þar vestra er það hins vegar sjálfsagt og eðlilegt. Obama er trúr þessum snara þætti bandarískrar stjórnmálaumræðu og er núna skýrasta afsprengi þeirrar hugmyndafræði sem sameinar menn um þvert og endilangt hið pólitíska litróf þar vestra.

Breska blaðið The Times kallar kosningarnar í Bandaríkjunum, afburðalýðræði og það er réttnefni. Ekki bara vegna þess að þær skipta svo miklu máli fyrir heiminn, í voldugasa ríki veraldarinnar. Ekki bara vegna þess að þær marka tímamót. Heldur vegna þess að kjör Obama styrkir hina hefðbundnu ímynd Bandaríkjanna; ímyndina um frjálsborna menn sem geta hafist af sjálfu sér í lýðræðislegu ríki.

Þessi ímynd hefur beðið hnekki. Ekki vegna verka George Bush, eins og stjórnmálaskýrendur með skammtímaminni halda fram. Heldur er þetta þróun sem hefur orðið á lengri tíma.

Sé einhver sá til sem ennþá véfengir að Bandaríkin séu staður þar sem allt er mögulegt, hefur fengið svar við efasemdum sínum nú í kvöld, sagði Obama í áhrifaríkri ræðu á íþróttaleikvanginum í Chicago, eftir að sigur hans var í höfn. Og það er  einmitt þessi einbeitta skírskotun til föðurlandsins og hugsjóna þess sem gengur sem rauður þráður í gegn um málflutning hans og markar honum skýran sess.

Andstæðingur hans, John McCain  var sömuleiðis holdtekja hins bandaríkja draums þó á annan hátt væri. Hann er tiltölulega frjálslyndur, traustur í öryggismálum, en hafði slæman drösul að draga. Hin afkáralega siðgæðishræsni sem plagar Repúblikanaflokkinn - og birtist meðal annars í varaforsetaefni hans - gerði það að verkum kjör hans hefði fært Bandaríkin aftur til fortíðar á margan hátt.

Kjör Baracks Obama þjónaði því bandarískum hagsmunum betur.

PS

Og nú hefur það gerst að Obama hefur valið sér sinn fyrsta samstarfsmann, félaga sinn frá Illinoisfylki, fulltrúadeildarþingmanninn Rahm Israel Emanuel. Hann verður starfsmannastjóri Hvíta Hússins, sem er mjög áhrifamikið starf. Þetta er áhugavert. Emanuel er gyðingur, grjótharður stuðningsmaður Ísraelsmanna, studdi innrásina í Írak og  er frjálslyndur í innanríkismálum. Þetta gæti verið vísbending um það sem koma skal bæði um afsöðu nýju stjórnarinnar í innanríkis og utanríkismálum.

- Og svo má því bæta við að nýi starfsmannastjórinn er þrautþjálfaður balletdansari með prófgráðu í þeim fræðum.




Blákalt hagsmunamat

Ísland - ESB"En þegar allt kemur til alls fela svörin við spurningunum einfaldlega í sér blákalt hagsmunamat að lokum. Hvar eigum við að skipa okkur í sveit svo hagsmunum þjóðarinnar sé sem best borgið? Svörin við þessari og viðlíka spurningum eru ekki einhlít. Það fer auðvitað ekki á milli mála að því geta fylgt kostir fyrir þjóð sem okkar að starfa innan vébanda Evrópusambandsins. Þetta er ekki bara svart eða hvítt. Þjóðir sem telja 400 milljónir manna álíta til dæmis hag sínum betur borgið innan þessa sambands en utan og framhjá því á ekki að líta. Þetta er eins og að bera saman plústölurnar og mínustölurnar. Útkoman af þeim útreikningum ræður því hvar við skipum okkur í sveit."

Í ræðunni sem ég flutti á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna á fimmtudaginn var komst ég meðal annars svona að orði þegar ég fjallaði um þá stöðu sem upp er komin í evrópumálunum. Nánar má lesa um skoðanir mínar með því að smella á þessi bláletruðu orð.

Í ræðunni sagði ég ennfremur:

"Þjóðfélagið okkar er orðið býsna ólíkt því sem það var fyrr á þessu ári. Þær forsendur sem við gáfum okkur í Evrópuumræðunni fyrrmeir, eru einfaldlega ekki til staðar lengur, á því verðum við að átta okkur og umræðan verður að ná yfir víðtækara svið en gjaldmiðilinn einan.

Nú er ljóst að íslenska hagkerfið skreppur mjög mikið saman. Þær áskoranir sem okkar litli - og nú vinasnauði gjaldmiðill - stóð frammi fyrir verða öðruvísi en þegar fjármálakerfið var margföld stærð þjóðarframleiðslu okkar. Í annan stað má ekki gleyma því að í þessu samhengi koma óhjákvæmilega upp spurningar um stöðu okkar sem fullvalda þjóðar. Það er í raun ekki deilt um það að með aðild að Evrópusambandinu þyrftum við að afsala okkur að hluta til fullveldi sem við sannarlega höfum nú. Það er viðtekið sjónarmið, hvar í flokki sem menn skipa sér í þessu deiluefni, að ef við göngum í Evrópusambandið þyrfti að breyta stjórnarskránni til að möguleiki væri á slíku fullveldisafsali. Þetta hlýtur að vera áleitin spurning fyrir þjóð sem fagnaði sjálfstæði sínu fyrir ríflega 60 árum. Í þriðja lagi finnst mér undarlegt í þessari umræðu að svo virðist sem menn hafi lagt til hliðar spurninguna, sem þó var áleitnust þegar Evrópumálin voru mest rædd hér fyrrmeir; þ.e. hvað líður hagsmunum sjávarútvegsins og hvernig yrði þeim borgið innan ESB?"




Gátum við séð þetta allt fyrir?

Aðalfundur LÍÚMargir spyrja hvort við höfum ekki staðið vaktina nægilega vel – hvort við höfum ekki gáð að okkur, hvort ekki hefði mátt sjá alla þessa hluti fyrir? Þeir eru sannarlega margir sem nú stíga fram og segja að allt hafi þetta verið fyrirsjáanlegt. Gott er að vita að við eigum svo skynsamt og framsýnt fólk að það hafi séð alla þessa hluti fyrir. Og þeir eru auðvitað til, eins og við þekkjum svo sem, sem alltaf og alls staðar hafa sagt að allt sé á leið norður og niður. Núna eru þeir auðvitað mættir til leiks og segja; sagði ég ekki, og telja sjálfa sig hafa verið framsýna spámenn. En gleymum þá ekki hinu heldur, að það er ekki ýkja langt síðan, það var raunar langt fram á þetta ár, að fjármálafyrirtækin okkar – og svo ekki sé nú talaða um skuldalausan ríkissjóðinn – fengu fyrstu ágætiseinkunn hjá þeim alþjóðlegu matsfyrirtækjum sem mestrar viðurkenningar njóta.

Þannig kemst ég að orði í ræðu sem ég flutti á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna á fimmtudaginn. Þar vék ég meðal annars þeirri alvarlegu stöðu sem er í efnahagsmálum okkar og velti upp þeirri spurningu hvort hægt hefði verið að sjá þá fyrir, eins og sumir spekingar spjalla um núna. Ennfremur sagði í ræðunni:

"Sannarlega er rétt að það voru ýmsir váboðar sem gáfu okkur til kynna að rifa þyrfti seglin. Ég ætla þó að fullyrða að enginn er sá til í heiminum sem gat með neinum rökum sýnt fram á, til dæmis í ársbyrjun, að það stefndi í þá grafalvarlegu stöðu sem nú er komin upp. Því hefði þetta verið augljóst, þá væri staðan að sjálfsögðu ekki sú sem raun ber vitni. Bandaríkin, Evrópa og lönd um allar heimsins álfur glíma við svipuð vandamál og við. Þar hafa menn því augljóslega verið jafn glámskyggnir og við. Það sem greinir okkur hins vegar frá flestum öðrum er sú staðreynd að hagkerfið óx mjög hratt hér og skuldbindingar fyrirtækja, einkanlega fjármálafyrirtækja, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu voru miklu meiri vegna smæðar þjóðarinnar og stærðar þeirra fyrirtækja sem höfðu vaxið svo mjög á undanförnum árum. 

 

Á næstunni setjast menn yfir þessi mál og reyna að átta sig á því hvers vegna svo fór sem fór. Ástæðurnar eru örugglega margslungnar og ýmislegt á þar eftir að koma í ljós. Þetta mikla endurmat verður ekki bara bundið við okkar litlu þjóð heldur mun það verða í öllum ríkjum heims þegar frá líður.  Það er því ekki ástæða til þess að hrapa að of miklum ályktunum nú sem stendur. Vissulega þurfum við þó að átta okkur á ákveðnum hlutum strax í upphafi og hafa að leiðarljósi þegar farið er í þá nauðsynlegu uppbyggingu sem við blasir."




Ekki bitið úr nálinni - ennþá

Alistair DarlingVið sem fylgjumst með breskum stjórnmálum vitum að fjármálaráðherra Breta er ekki í miklum metum. Jafnvel svo hófstillt blað sem The Economist hefur haft uppi hin stærstu orð um frammistöðu hans. Þegar stjórnmálamaður í slíkri örvæntingarstöðu fær tækifæri til að dreifa athyglinni frá eigin vadræðagangi og efnahagsvandræðum heima fyrir, þá grípur hann það; sé hann maður lítilla sæva og sanda í pólitík.

Þetta er ástæða þess að þeir félagarnir mr. Darling og mr. Brown fóru fram með þeim dæmalausa hætti gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum. Þetta hefðu þeir ekki leyft sér gegn stórþjóðum. Þeir hefðu aldrei þorað í Frakka, Þjóðverja, hvað þá Bandaríkjamenn. Þeir spörkuðu hins vegar í okkur, af því þeir töldu sig eiga í fullu tré við okkur.

Þeim var greinilega sama þótt við værum vinaþjóð. Hefðu þeir brugðist svona við gagnvart stórþjóð, hefðu strax komið fram efasemdir um að hægt væri almennt fyrir aðrar þjóðir að eiga viðskipti í gegnum London, sem þó er alþjóðleg fjármálamiðstöð. Tvímenningarnir úr Downingstræti töldu að spörkin í okkur sköpuðu enga slíka hættu. Þeir hafa þó ekki bitið úr nálinni með það. Að því kemur - fyrr en síðar - að umræður skapast um einmitt þetta. Um það hvort óhætt sé að láta London vera vettvang viðskipta, þegar sýnt er að yfirvöldin beita hryðjuverkalögum tilefnislaust og eftir (pólitískum) hentugleikum.

Og síðan eitt enn. Hinn seinheppni Darling kom fram í fjölmiðlum og laug um samtal sitt við íslenskan starfsbróður sinn. Það vitum við núna eftir að fyrirliggja upptökur af samtölum þeirra Árna M. Mathiesen. Afleiðingarnar af ofsafengnum viðbrögðum breskra stjórnvalda fyrir stærsta fyrirtæki okkar Íslendinga liggja fyrir. Hið óafsakanlega framferði þeirra að setja okkur á bekk með verstu morðhundum heimsins, liggur fyrir. En eitt á þó eftir að koma í ljós.

Breskir fjölmiðlar hafa birt frásagnir af samtölum þeirra Darling og Árna M. Mathiesen. Þeir hafa dregið sínar ályktanir eins og óhjákvæmilegt er. Virðulegustu dagblöð Breta, eins og The Times og Financial Times segja skýrt og skorinort, að Darling hafi sagt ósatt um símtal þeirra Árna.

Þetta eru gríðarlega alvarlegar fullyrðingar. Í Bretlandi er ósannsögli stjórnmálamanna nefnilega litin afar alvarlegum augum og tilefni brottvikningar. Enn situr Darling þó á stól sínum.




Spurningar á erfiðum tímum

UpplýsingarUndanfarnir dagar hafa reynst Íslendingum og þjóðarbúi okkar mjög þungir í skauti svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við þessar aðstæður ríður á að landsmenn standi saman og sýni samtakamátt sinn og æðruleysi á raunastund. Og það er þakkarvert hve einhugurinn hefur verið mikill síðustu dægrin. Stjórnvöld leggja sig öll fram um að greiða úr málum með sem farsælustum hætti og njóta til þess liðsinnis fjölmargra. Við svona aðstæður vakna auðvitað upp ýmsar spurningar sem nauðsynlegt er að svara. Á meðal þess sem hleypt hefur verið af stokkunum undanfarna daga er upplýsingavefur þar sem finna má svör við mörgu því sem á fólki brennur. Þar má einnig senda inn þær spurningar sem ekki hefur þegar verið svarað og eiga netspjall. Slóðin er http://www.felagsmalaraduneyti.is/upplysingar




Miklir erfiðleikar og alvörutímar

Stefnuræða forsætisráðherraNú eru miklir erfiðleika og alvörutímar. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að menn horfist í augu við þann raunveruleika; hversu bitur og erfiður sem hann er. Við slíkar aðstæður leyfist ekki léttúð. Við verðum að takast á við þennan vanda af fullkominni alvöru og með öllum þeim ráðum sem eru okkur tiltæk.

Lækkun gengis íslensku krónunnar er stóralvarlegt mál. Lánsfjárskortur sem bitnar grimmilega á fjármálakerfi okkar eins og annarra er það sömuleiðis. Verkefnið snýr að því að ná tökum á þessu ástandi.

Geir H. Haarde forsætisráðherra fjallaði einmitt um þessi mál í stefnuræðu sinni í gærkveldi. Það er ástæða til að vekja hér athygli á því sem hann sagði:

"Staða efnahagsmála hér á landi hefur á skömmum tíma breyst mjög til hins verra og fullyrða má að íslensk stjórnvöld, íslensk fyrirtæki og heimilin, fólkið, í landinu hafi sjaldan staðið frammi fyrir jafn miklum erfiðleikum og nú blasa við. Eftir blómlega uppgangstíma er skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skellur nú Íslandsströndum af miklu afli. Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.

Við horfum fram á að íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu. Þurrausnar lánalindir gera íslenskum fyrirtækjum afar erfitt fyrir og þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni og uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg. Hagnaður íslenskra fyrirtækja hefur verið ævintýri líkastur og hafa hluthafar notið góðs af. Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.

Það sem mest svíður er þó hin óhjákvæmilega lífskjaraskerðing sem almenningur í landinu stendur frammi fyrir. Á undanförnum árum höfum við Íslendingar notið þess að búa við bestu lífskjör sem fyrirfinnast í heiminum. Við gerum öll kröfu um það besta og þannig á það að vera. En íslenska þjóðin er ekki samansafn af óhófslýð sem heldur að verðmæti og góð lífskjör falli af himnum ofan. Íslenska þjóðin veit að leiðin til velmegunar er vörðuð erfiðum hindrunum og íslenska þjóðin er það sem hún er í dag vegna þess að hún hefur tekist á við erfiða tíma og sigrast á þeim.

Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú. Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stjórsjó sem þjóðarskút siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu."




Staðarskáli er Ísland

StaðarskáliStaðarskáli er Ísland, segir í samnefndu kvæði Þórarins Eldjárns. Þessu augljósu sannindi hafa oft verið rifjuð upp á þessum sólarhring í tilefni af því að hinn gamalgróni söluskáli Staðarskáli er að flytja um set. Söluskálinn hefur þjónað vegfarendum vel og dyggilega frá því að hann var tekinn í notkun en víkur nú fyrir nýrri og glæsilegri byggingu.

Á leið minni af fundi á Hólmavík í gærkveldi kom ég við í nýju byggingunni, sem er stórglæsileg, björt og aðlaðandi. En þarna gerði ég stuttan stans en fór á gamalkunnar slóðir gamla veitingaskálans. Það styttist í að gamla veitingaskálanum yrði lokað fyrir fullt og fast. Og nákvæmlega kl. hálf tólf setti Eiríkur Gíslason lykilinn í skráargatið, eins og hann hafði svo oft gert áður og læsti; en nú í síðasta sinn.

Þetta var áhrifarík stund. Þarna voru þau mætt sem höfðu staðið fyrir rekstrinum og aldrei hvikað af vaktinni. Bára Guðmundsdóttir ekkja Magnúsar Gíslasonar og Eiríkur Gíslason, en þau þrjú stofnuðu til rekstrarins og svo Vilborg Magnúsdóttir og Kristinn Guðmundsson. Öll hafa þau verið í forsvari við rekstur þessarar stofnunar sem Staðarskáli hefur í rauninni verið í veitingaflóru okkar. Og starfsfólkið sem eru kunnugleg andlit, okkur sem oft höfum litið þarna við í áranna rás, lögðu lokahöndina á verk sín við að veita og þjóna þakklátum gestum sem þarna voru komnir á síðustu mínútum opnunartíma Staðarskála.

Vetingarekstur og þjónusta við ferðamenn á sér langa sögu á Stað. Eldsneytissala hófst árið 1929. Þau Bára, Magnús Gíslason maður hennar og bróðir hans Eiríkur ábúendur á Stað hófu veitingasölu árið 1960 í Staðarskála. Byggt var við skálann árið 1971, hótelrekstur hófst á Staðarflöt í glæsilegu hóteli árið 1988, svo fátt eitt sé talið í uppbyggingarsögunni og lesa má um hér.

Margt hefur breyst á langri leið. Eiríkur sagði mér til dæmis að á upphafsárunum hefði Holtavörðuheiðin oft aðeins verið opin tvo daga í viku yfir vetrartímann. Vegir voru slæmir og ferðatíminn milli Norður og Suðurlands því allt annar en nú.

Staðarskálinn hefur hins vegar staðið af sér allar sviptingar og verið fyrir sakir dugnaðar eigenda og ágæts starfsfólks  einhver vinsælasti áningarsstaður sem um getur við þjóðveginn. Varla er til sá Íslendingur sem kominn er til þroska sem ekki hefur lagt leið sína um þennan sögufræga stað.

 




Glöggt er gests augað

Moody´sÓtrúlega lítið hefur farið fyrir þeim tíðindum að alþjóðlega matsfyrirtækið Moodys hefur staðfest lánshæfismat íslenska ríkisins. Þetta eru góðar og jákvæðar fréttir, sem berast okkur mitt í alvarlegum tíðindum af gríðarlegum alþjóðlegum fjármálavanda. Á sama tíma og bandaríski ríkissjóðurinn - stórskuldugur eins og hann er nú fyrir- axlar þúsundir milljarða, fáum við þá einkunn hjá hinu alþjóðlega matsfyrirtæki að horfur séu stöðugar og fyrra lánshæfismat sé staðfest.

Við þær aðstæður sem við búum núna í hinu alþjóðlega umróti eru þetta mikil og góð tíðindi.

Hitt er ekki síður athyglsivert að sjá hvað matsfyrirtækið segir að öðru leyti um stöðu Íslands.

Veikleikarnir sem nefndir eru, koma ekki á á óvart. Mögulegar ábyrgðir ríkisins vegna hins umsvifamikla alþjóðlega bankakerfis okkar Íslendinga. Lítið opið hagkerfi er viðkvæmara fyrir sveiflum segir Moodys. Og jafnframt að hinn opni frjálsi fjármálamarkaður geri það að verkum að erfiðara sé að beita peningamálastjórn til þess að hamla gegn ójafnvægi þjóðarbúsins.

En hitt er kannski ennþá athyglisverðara að lesa þegar Moodys fer yfir önnur einkenni hagkerfis okkar. Þar eru nefnd fimm atriði sem full ástæða er til að vekja athygli á.

1. Þróað efnahagskerfi og stjórnmálalíf, þar sem verg þjóðarframleiðsla á mann er með því hæsta sem fyrirfinnst í heiminum.

2. Jöfn dreifing lífskjara

3. Heilbrigð ríkisfjármál og lágar skuldir hins opinbera

4. Stjórnmálalegur stöðugleiki til langs tíma og þjóðfélag þar sem sátt ríkir um grundvalllaratriði.

5. Efnahagskerfi sem styðst við æ fjölþættara atvinnulíf.

Allt eru þetta athyglisverðar niðurstöður sem Moodys kemst að. En vegna hinnar pólitísku umræðu er áhugavert að nefna tvennt í þessu samhengi.

Í fyrsta lagi blasir það við Moodys, sem við höfum mörg hver haldið fram, gegn háværum mótmælum nokkurra spekinga, að lífskjör á Íslandi eru jöfn í samanburði við önnur lönd.

Og í annan stað að það er einn af styrkleikum okkar samfélags að efnahagsgrunnurinn hvílir á fleiri stoðum en áður. Uppbygging fjármálaþjónustu, stóriðju, margs konar hátækni og ferðaþjónustu eru gott dæmi um þetta. Ýmsir hafa reynt að gera lítið úr þessu atriði, en hér sannast sem fyrr að stundum er gests augað glöggt.

 




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband