Stöndum vörð um jafnlaunastefnuna

SamiðÞað er ástæða til að rifja upp lykilatriðin í kjaramálastefnunni sem fylgt hefur verið á þessu ári.

Þegar aðilar vinnumarkaðarins settust niður við gerð kjarasamninga fyrr á árinu blöstu augljósar staðreyndir við. Sem sé þær, að ekki yrði mikið til skiptanna, vegna þess einfaldlega að slegið hafði í baksegl þjóðarskútunnar. Menn urðu því að komast að niðurstöðu um hvert beina ætti þeim fjármunum sem ætla mætti að yrðu til skiptanna við samningsborðið. Og niðurstaðan varð skýr.

Menn mótuðu jafnlaunastefnu og ákváðu að beina þessum fjármunum einkum til þeirra sem hefðu lægstu launin. Það þýddi þá að aðrir myndu sætta sig við minni kauphækkanir við þessar aðstæður.

Slíkir samningar voru erfiðir fyrir hluta atvinnulífsins, vegna þess að hlutfallslegur kostnaðarauki kom þungt niður á tilteknum atvinnugreinum. Og augaleið gefur að fyrir launþega sem ekki báru mikið úr býtum úr slíkrum jafnlaunasamningum hefur þessi stefnumótun ekki verið auðveld.

En öllum þessum aðilum til hróss má segja að menn undu þessari stefnumótun og studdu hana. Jafnvel þótt hún þýddi litlar kjarabætur fyrir einstaka starfsstéttir og tæki ekki tillit til menntunar svo dæmi séu tekin.

Nú er full ástæða til að árétta þessa stefnumótun. Hjá ríkinu hafa nú verið gerðir 100 kjarasamningar eða þar um bil þar sem þessi stefnumótun liggur til grundvallar. Það er mjög nauðsynlegt til þess að almennur vinnufriður haldist og launastefnan sé í samræmi við brýn efnahagsmarkmið okkar. Að við höldum áfram á þessari braut hóflegra launahækkana og að tryggt sé að sem mestur hluti mögulegra kjarabóta rati í vasa þeirra sem lökust hafa kjörin.

Einstaka starfsstéttir geta örugglega fært sanngirnisrök fyrir því að lúta ekki jafnlaunastefnunni. Og við heyrum þessi rök mjög þessa dagana. En hversu vel sem þau hljóma, breytir það engu um að við eigum þær skyldur nú að beina mögulegum kjarabótum sem mest til þeirra sem helst þurfa á að halda. Við eigum að standa vörð um jafnlaunastefnuna.




Hið nýja einkennistákn stjórnarandstöðunnar

Þegiðu GuðniÞingið í september var fróðlegt. Einnig fyrir okkur þingreynda, þar sem hér var fitjað upp á nýmæli. Hálfsmánaðarþing í september sem afgreiddi ein níu lög þar af sum hver býsna viðurhlutamikil verður að teljast starfssamt þing. Tilganginum, að minnsta kosti að þessu leyti, virðist hafa verið náð.

Eins og við var að búast varð þingið líka nýr umræðuvettvangur. Það hófst með afar fróðlegri skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál, sem sýndi fram á, - ólíkt öllu röflinu um hið gagnstæða, - að gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana í efnahagsmálum, við erfiðar og óvenju snúnar aðstæður. Um þetta má lesa hér.

En á þessu þingi sem var mikill umræðuvettvangur, mátti líka sjá á spil stjórnarandstöðunnar. Nú hefur hún haft ríft ár til að brýna vopn sín og slípa sig saman; sé einhver vilji til þess.

Og þó maður vilji sýna alla mögulega sanngirnir er ekki hægt að bera það upp á stjórnarandstöðuna að hún sé samstæð. Það væri að minnsta kosti afskaplega ósanngjarnt að gera það.

Þetta kom til dæmis í ljós í atkvæðagreiðslu um veigamesta mál septemberþingsins, lögin um sjúkratryggingar. Þar voru Vinstri grænir algjörlega einangraðir. Þeim fylgdi enginn, nema Framsókn í atkvæðagreiðslu um einn efnisþátt frumvarpsins. VG var sumsé alltaf á móti (hvað annað) Framsókn sat hjá (gat ekki tekið afstöðu) og Frjálslyndir fylgdu frumvarpinu.

Í umræðum um stóriðju neistaði bókstaflega á milli VG og Framsóknar. Viðkvæmnin var svo ofurmikil, að eitt frammíkall frá formanni Framsóknarflokksins þegar formaður VG flutti ræðu, fékk þann síðarnefnda til að hreyta í formann Framsóknarflokksins ónotum.

"Þegiðu Guðni", sagði Steingrímur J. við Guðna. Þannig ganga ávarpsorðin á milli stjórnarandstöðuleiðtoganna.

Hið nýja einkennis og sameiningartákn stjórnarandstöðunnar var þarna orðið að veruleika; þegiðu Guðni !




Vestfirskur sigur í Vesturbænum

BÍ / Bolungarvík. Mynd bb.isMenn létu rigninguna í Vesturbæ Reykjavíkur ekkert á sig fá í kvöld, þegar við sáum BÍ / Bolungarvík bursta vesturbæjarliðið KV. Það var til mikils að vinna. Þessi leikur réði úrslitum um að okkar menn tryggðu sér sæti í 2. deild. Þetta var frábær árangur, að loknum bráðskemmtilegum leik þar sem lið Bolvíkinga og Ísfirðinga hafði algjöra yfirburði. Úrslitin 4 - 0 segir alla söguna. Okkar menn voru einfaldlega mikið betri.

Það var mjög gaman að vera viðstaddur þessi tímamót. Leikurinn var fjörugur og háður af leikglöðum Vestfirðingunum. Sigur þeirra var tæplega nokkurn tímann í hættu, þó aldrei geti verið á vísan að róa; sérstaklega ekki þegar mikið er í húfi.

En hitt var líka gaman; að hitta mikinn fjölda Ísfirðinga og Bolvíkinga sem lagði leið sína á knattspyrnuleikvang KR - inga í Vesturbænum, þar sem leikurinn fór fram. Þarna voru samankomnir hópar fólks að vestan, afar, ömmur, frændur, frænkur og foreldrar, systkini og vinir. Svo sá maður fullt af ungu vestfirsku námsfólki sem fór á leikinn til að hvetja jafnaldra og vini. Síðan var mættur drjúgur hópur brottfluttra Vestfirðinga sem dró heldur ekki af sér í hvatningarhrópunum og vinsamlegum ráðleggingum til leikmanna - og vel að merkja dómara, eins og gengur.

Það fór heldur ekkert á milli mála að vel var fylgst með "strákunum okkar" að vestan og fólk lagði þeim lið í undirbúningnum með ýmsum hætti. Dísa Hjartar í Vikinni bauð þeim upp á orkudrykk, sem lesa má um nánar á hinu góða vefriti Víkara og nálgast með því að smella á þennan bláleita texta. Og Jóhann Torfason lét ekki sinn hlut eftir liggja; bauð strákunum í grill fyrir leikinn gegn Ými fyrir viku. Og auðvitað var Jói mættur galvaskur suður, til þess að hvetja mannskapinn og leggja honum til góð ráð, hins þaulreynda kappa.

En allavega. Þetta var mjög skemmtilegur tími þarna í reykvísku rigningunni, innanum fullt af Vestfirðingum - með regnhlífar.

Og ríkisstjórnin átti tvo fulltrúa þarna í hópi áhorfenda. Okkur Kristján L. Möller, sem vorum mættir til að hvetja BÍ/Bolungarvík. Stuðningur ríkisstjórnarinnar var því algjörlega óskoraður, án þess að það hafi valdið miklu um úrslitin !! - En mikið var þetta sætur sigur og gaman að vera með sigurliðinu á þessari skemmtilegu stundu.

 




Öllu þessu svipar saman

.Það er dálítið merkilegt að sjá hvernig þróun mála hér á landi líkist oft þróuninni í nágrannalöndum okkar. Þessa sér stað á mörgum sviðum. Og þó að hagsveiflan hér sé ekki á sama róli og til að mynda í evrulandinu, dregur þróunin hér oft dám af því sem lesa má um í útlöndum.

Við vitum að hér á landi hefur orðið mikil fjölgun fólks sem er af erlendu bergi brotið. Og þó þessu fólki hafi eitthvað fækkað þá er miklu fleira fólk hér af erlendum uppruna en var fyrir fáeinum árum. Enginn vafi er á því að þetta hefur verið jákvætt fyrir okkur. Vinnumarkaðurinn réði einfaldlega ekki við þá stækkun hagkerfisins sem hér varð. Án þessarar viðbótar á vinnumarkaðnum hefði vöxtur hagkerfisins einfaldlega orðið takmarkaður.

Í Bretlandi sjáum við svipaða þróun. Því er haldið fram af fræðimönnum að aldrei fyrr í sögu Bretlands hafi jafn margir flutt til landsins og á undanförnum árum. Með stækkun ESB opnaðist gríðarlega stór vinnumarkaður, líkt og við þekkjum, sem hluti EES svæðisins. Ein milljón manns hefur komið til Bretlands frá nýju ESB löndunum eftir að þau urðu hluti af vinnumarkaði ESB ríkjanna (og þar með EES svæðisins). Umönnunarstéttir, þjónustugeirinn og byggingariðnaðurinn einkennist af starfsfólki frá gömlu Austur Evrópu. Tveir þriðju þessa fólks hefur komið frá Póllandi.

En nú er þróunin að snúast við. Og ástæðan? Starfstækifærum í þjónustugeiranum og byggingariðnaði fækkar. Á sama tíma er árlegur hagvöxtur í Póllandi 5%. Sterlingspundið hefur veikst og hinn pólski kaupmáttur þeirra tekna sem menn vinna sér inn í Bretlandi hefur minnkað.

Þetta hljómar kunnuglega. Íslenska krónan hefur lækkað. Störfum í verktakabransanum fækkar og ætla má að svipað muni eiga sér stað í þjónustugeiranum, þó atvinnuleysiðsé varla mælanleg stærð hér á landi. Þróunin hér á landi á sér hliðstæðu úti í heimi, af því að þar eins og hér er verið að glíma við afleiðingar alþjóðlegrar fjármálakrísu, sem veldur sams konar búsifjum; einnig í löndum þar sem menn búa við öflugan bakhjarl á gríðarstórum myntsvæðum.




Ofgnóttin kemur mönnum í koll

Sandur af seðlumÞað eru margsönnuð sannindi að eigi menn ofgnótt af einhverju þá fara menn ekki vel með. Það er eins og ráðdeild verði óþörf þurfi menn ekki að spara við sig. Ætli við höfum ekki öll upplifað þetta. Reynsla fólks er jafnan einhvern veginn svona. Þegar menn eru ungir og blankir eyða menn minnu en þegar fjárhagurinn verður rýmri. Þetta er ekki mjög flókið.

Sama á við um fjárfestingar. Það er kunnugt að menn gerðu ekki sömu arðsemiskröfur á þeim áratugum hérlendis þegar raunvextir voru neikvæðir. Þegar lán var virkilegt LÁN - eða gæfa, - í þeim skilningi - að það sem maður fékk að láni sá verðbólgan um að greiða til baka; að minnsta kosti að einhverju marki. Fjárfestingarmistök komu mönnum þá síður í koll.

Í gamla daga þegar ég nam íslenska haglýsingu hjá Jóni Baldvin í Menntaskólanum á Ísafirði sagði hann okkur að þessir neikvæðu raunvextir væru til dæmis ein ástæða þess að menn hefðu fjárfest svona grimmilega í steinsteypu hér á landi, eins og það var kallað þegar menn byggðu on yfir sig.

Nú heyrum við hins vegar tröllasögur af miklum fjárfestingartöpum, erlendis og hérlendis. Eignir íslenskra fjárfesta rýrna stórlega vegna lækkandi hlutabréfaverðs í útlöndum.

Og rifjum þá upp samhengið. Upphaf þeirra þrenginga sem við upplifum núna á alþjóðlegum mörkuðum - og þess vegna líka hér á landi - má rekja til þess að menn höfðu nær takmarkalausan aðgang að ódýru fjármagni. Þess vegna vönduðu menn ekki fjárfestingarnar.

Kannast lesendur ekki við hugtakið "skuldsett yfirtaka", sem þýðir að menn fjárfesti án mikils eða nokkurs eigin fjár. Þetta var oft gert á Íslandi fyrir daga verðtryggingar með góðum árangri. Verðbólgan kom nefnilega til bjargar. En nú gilda önnur lögmál. Nema að því leyti að enn á það við að ofgnóttin leiðir til þess að menn vanda sig síður. Blasir það ekki við að ein ástæða vandræðanna nú er hinn takmarkalausi aðgangur að ódýru lánsfé?




Þetta kalla þeir að gera ekki neitt !!

Geir H. HaardeGeir H. Haarde forsætisráðherra hrakti eftirminnilega síbylju stjórnarandstæðinga um að ekkert væri gert í efnahagsmálum, í skýrslu sem hann flutti Alþingi á fyrsta starfsdegi haustþingsins nú á þriðjudaginn. Meðal þeirra þátta sem forsætisráðherra nefndi voru eftirfarandi:

1. Rýmkaðar hafa verið reglur Seðlabankans um veð í reglum bankans við viðskiptastofnanir, sem hefur auðveldað þeim aðgengi að lánsfé.

2. Seðlabankinn hefur gert gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, sem felur í sér bakstuðning bankanna og styrkir gjadeyrissjóð Seðlabankans um 180 milljarða

3. Nú er verið að nýta heimildina sem Alþingi gaf í vor til að styrkja gjaldeyrisforðann um allt að 500 milljörðum króna.

4. Ráðstafanir voru gerðar í júní, tengdar Íbúðalánasjóði sem bæta lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Þetta kemur einkum hinum minni fyrirtækjum, svo sem sparisjóðum til góða

5. Í lok júní var tilkynnt um 75 milljarða skuldabréfaútgáfu ríkisins. Þetta eykur gengisstöðugleika og laðar að erlenda fjárfesta til Íslands.

6. Felld hafa verið niður stimpilgjöld vegna kaupa á fyrstu íbúð. Þessi ákvörðun glæðir fasteignamarkaðinn og er einkum til hagsbóta fyrir ungt fólk.

7. Gjaldeyrisvarasjóðurinn var aukinn um liðlega 12% með víxlaútgáfu ríkissjóðs.

8. Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir í 15% til þess að styrkja stöðu atvinnulífsins.

9. Nú er verið að ganga frá nýju gjaldeyrisláni upp á 300 milljónir evra, sem svara til um 36 milljörðum króna.

10.  Gjaldeyrisvaraforðinn nam 100 milljörðum um mitt ár 2006. Í lok júní sl. var hann helmingi hærri, eða 200 milljarðar. Núna er gjaldeyrisvaraforðinn 500 milljarðar. Hefur sem sé fimmfaldast á tveimur árum og er þar með orðinn hlutfallslega meiri en í nágrannalöndum okkar.

Flestir aðrir en þeir, sem ævinlega hafa kíkinn fyrir blinda auganu þegar þeir rýna í efnahagsstærðir, sjá að hér er um margvíslegar og markvissar aðgerðir að ræða. Sem sýnir og sannar að allt er það endalausa tal um að ekkert sé gert og ríkisstjórnin aðhafist ekkert, fullkomlega merkingarlaust..

Hér að ofan er vakin athygli á umtalsverðum ákvörðunum í tíu liðum, sem vitaskuld hafa áhrif og eru liður í þeim margháttuðu aðgerðum  sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa tekið. Enda bendir greiningardeild Glitnis á þessa þætti í athyglisverðri úttekt þann 2. september og segir: "Þegar litið er í baksýnisspegilinn kemur á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði."

 

 




Upptökusvæðið er heimurinn allur

Einar Kristinn, Birna Lárusdóttir og Þorgerður Katrín. Mynd: Halldór SveinbjörnssonNýja háskólanámið á Ísafirði sem hófst í gær markar tímamót. Ástæðan er sú að með tilkomu námsleiðarinnar verður í fyrsta sinn boðið upp á staðbundið háskólanám, sem að öllu er kennt á Vestfjörðum.

Það er óneitanlega líka dálítið sérstakt að af þeim tíu nemendum sem hefja námið núna eru bara þrír Íslendingar. Alþjóðlegra getur það því varla orðið. Menn tala um upptökusvæði skóla og í þessu tilviki er upptökusvæði skólans heimurinn allur.

Umhverfið var því óneitanlega alþjóðlegt í Edinborgarhúsinu í gær, þegar námsleiðin var ræst. Og hið metnaðarfulla yfirbragð sem einkenndi upphafið leyndi sér alls ekki.

Áður en námskeiðið hófst flutti ég ræðu og setti ráðstefnu sem efnt var til í tilefni af hinni nýju námsleið. Þar sátu meðal annars væntanlegir nemendur á námskeiðinu og fyrir vikið fór ráðstefnan að mestu fram á ensku. Viðfangsefnið var viðeigandi; Málþing um sjálfbæra nýtingu íslenskra strandsvæða. Meðal annars í ljósi þeirra breytingar sem eru að verða á nýtingu þessara svæða í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á þessum sviðum.

Við vorum öll sammála um það sem sátum þessa ráðstefnu að eftirtektarvert væri að fylgjast með þeirri miklu grósku sem er í rannsóknar og þróunarstarfinu á Vestfjörðum. Margvíslegar rannsóknir eru stundaðar á fjölbreyttum sviðum. Kynntar voru niðurstöður frá MATÍS á Ísafirði og í hinu nýja rannsókna og fræðasetri Háskóla Íslands í Bolungarvík, en þar stunda fjölmargir nemar nám undir handleiðslu forstöðumannsins Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur. Athyglisvert er að enginn hörgull er á nemendum sem vilja koma til náms í hinu nýja setri; gagnstætt mati sumra svartsýnismanna.

Þetta var dagur mikilla vona og heiðríkja í hugum okkar sem þarna vorum saman komin. Vonirnar eru að rætast og enn sjáum við rétt uppbyggingarskref í rannsóknar og þróunarstarfi á háskólastigi á Vestfjörðum.




Gæti stuðlað að lægri fjármagnskostnaði

Fundarmenn í Dalabúð ávarpaðir. Mynd bbl.isSá gríðarlegi fjöldi sem sótti fund sem Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu efndi til í Dalabúð í Búðardal í gærkveldi undirstrikar þann vanda sem nú steðjar að sauðfjárframleiðslunni. Fundurinn var boðaður í skugga mikilla verðhækkana á aðföngum og í kjölfar ákvarðana sláturleyfishafa um verð fyrir næsta ár. Við Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, Jóhannes Sigfússon formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og Sigurður Jóhannesson formaður Landssamtaka sláturleyfishafa vorum frummælendur en Halla Steinólfsdóttir í Fagradal var fundarstjóri.

Fundurinn var afar málefnalegur og tóku margir til máls. Í ræðu minni kom ég víða við, og vil hér einvörðungu vekja athygli á tveimur efnisatriðum sem ég nefndi. Ekki síst vegna þess að þessi bæði efnisatriði voru mjög til umræðu á fundinum. Í fyrsta lagi hinn mikli vaxtakostnaður í þjóðfélaginu sem bitnaði á bændum og afurðastöðvum þeirra og hins vegar spurningar um áhrif hagræðingaraðgerða í sláturhúsaumhverfinu.

Ræðuna má í heild sinni nálgast með því að smella á þessi bláleitu orð

"Það blasir við að ekki bara bændur heldur einnig afurðastöðvar hafa þurft að mæta miklum kostnaðarhækkunum að undanförnu. Síðustu kjarasamningar voru sláturhúsunum dýrir, og háir afurðalánavextir eru mörgum húsunum þungur baggi. Bændasamtökin hafa nú leitað eftir því við mig að geta breytt samningi við sláturleyfishafa um vaxta- og geymslugjöld á þann hátt að greiðslum verði lokið í janúar, þ.e. að flýta til muna greiðslunum frá því sem nú er. Við það háa vaxtastig sem nú er munar þetta þó nokkru fyrir afurðastöðvarnar og ætti að stuðla að því að lækka fjármagnsgjöld. Þetta mun ég skoða jákvæðum huga og svara fljótlega.

Á undanförnum árum hefur verulegum fjármunum verið varið til hagræðingar í rekstri afurðastöðva, þ.e. með úreldingarframlögum. Forsendan fyrir þessum framlögum var að bæta hlut bænda; árangur hagræðingarinnar skyldi skila sér í hærra afurðaverði. Nú tel ég að nægilega langur tími sé liðinn til að unnt eigi að vera að meta árangur þessara aðgerða og vil hvetja til þess að bændur og afurðastöðvar beiti sér fyrir úttekt á því hverju þær hafa skilað. Sé þess óskað lýsi ég ráðuneyti mitt reiðibúið til þess að leggja slíkri úttekt lið. Með þeirri úttekt yrði jafnframt varpað ljósi á hvernig verðmyndun dilkakjöts hefur þróast á undanförnum árum. Þetta er vitneskja sem nauðsynlegt er fyrir alla aðila að hafa til að geta rætt stöðuna og mótað stefnu á skynsamlegum forsendum."




Þegar landsstjórnarfundur vék fyrir handboltanum

Gleðistund. Mynd - Áskell ÞórissonSeint verður nokkuð ofsagt um afrek strákanna okkar í handboltanum á Ólympíuleikunum. Ég fylgdist með Spánverjaleiknum á stórum sjónvarpsskjá sem komið hafði verið fyrir á Landbúnaðarsýningunni á Hellu á dögunum. Það var gríðarleg stemming og nánast ólýsanlegt þegar við tryggðum okkur þátttöku í sjálfum úrslitunum.

Þegar ég kom út af sýningunni biðu mín kveðjur frá tveimur góðum færeyskum vinum mínum. Björn Kalsö fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja sendi mér heillaóskir í smáskilaboðum í símann minn.

Síðan hringdi í mig núverandi starfsbróðir minn í Færeyjum, Thorbjörn Jacobsen, sömu erinda. Ég spurði hann hvort Færeyingar fylgdust almennt með handboltanum. Hann hélt það nú! Ríkisstjórn Færeyja var sest á fund um það leiti sem leikurinn við Spán var að hefjast. Og sá merkisatburður setti allan landsstjórnarfundinn úr skorðum. Menn sóttu sér stóran sjónvarpsskjá, lögðu fundarstörfin til hliðar og stukku hæð sína í loft upp í landsstjórnarherkæðunum þegar sigur Íslands var í höfn.

Sem sannar enn og aftur að Færeyingar eru frændur okkar og vinir.

Nú bíðum við þess að geta tekið á móti hetjunum okkar frá Peking. Það verður gaman að fá að taka þátt í þeim fagnaði með öllum þeim þúsundum - já og örugglega tugþúsundum - sem koma til að fagna. Þeir eiga það skilið að við samfögnum þeim.

Gleymum því ekki að það er í sjálfu sér afrek að komast í gegn um nálaraugað og ná á Ólympíuleikana. En að vinna silfurverðlaun er afrek sem ekki verður lýst með orðum. En við öll, íslenska þjóðin skilur þýðingu þess og hlökkum til að berja hetjurnar okkar augum.

 




Svigrúm nýtt til hins ítrasta

Reiðhöllin Svaðastaðir í SkagafirðiSveitasælan í Skagafirði, sem er í senn landbúnaðarsýning og bændahátíð er orðin föst í sessi. Þátttaka fyrirtækja og almennings er orðin mikil og margir leggja leið sína þangað til þess að skoða áhugaverða hluti og til þess að sýna sig og sjá aðra. Svo var einnig núna. Umfang sýningarinnar núna var meira en í fyrra, eins og sjá mátti í Reiðhöllinni Svaðastöðum þegar þar var gengið um nú um helgina.

Ég fékk það hlutverk að setja sýninguna líkt og í fyrra. Í ræðu sem ég flutti af þessu tilefni á föstudaginn og sem sjá má hér í heild ræddi ég einmitt hlutverk og stöðu landbúnaðarins í breytilegum heimi og lagði áherslu á þau tækifæri sem landbúnaðurinn ætti. Meðal annars vék ég að mikið umræddu matvælafrumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi í ræðu minni sagði ég meðal annars:

Á þeim breytingatímum sem við lifum nú skiptir það hins vegar máli að til staðar sé kjölfesta. Landbúnaðurinn er íslensku þjóðfélagi slík kjölfesta. Þess vegna meðal annars, viljum við tryggja hagsmuni hans í hvívetna. Þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru, til dæmis með nýrri matvælalöggjöf, verða gerðar með hagsmuni íslensks landbúnaðar að leiðarljósi. Við munum gera strangar kröfur um heilbrigði matvæla og öll vitum við að slíkt þjónar hagsmunum landbúnaðarins, enda þótt það sé gert í þágu neytenda. Er þetta enn ein sönnun þess að hagsmunir landbúnaðarins og neytenda fara jafnan saman.

Um þessar mundir fer fram þrotlaus vinna á vegum sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins varðandi nýja matvælalöggjöf. Við viljum kosta kapps að vinna þá hluti í sem mestri sátt við bændur og aðra hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar. Sjálfur er ég sannfærður um að slíkt samstarf getur dugað okkur til þess að ná niðurstöðu sem verður viðunandi landbúnaðinum og færir honum ný tækifæri.

Á undanförnum árum hefur verið lagt mikið fjármagn í uppbyggingu afurðastöðva landbúnaðarins. Ekki síst hér á Norðurlandi vestra. Þrjú af helstu sláturhúsum landins eru til dæmis starfrækt hér í Skagafirði og í Austur- og Vestur- Húnavatnssýslum auk annarrar starfsemi við við úrvinnslu landbúnaðarafurða. Þessi fyrirtæki eru vel í stakk búin til að mæta þeim skilyrðum sem vænta má. Við höfum nefnilega á undanförnum árum undirbúið okkur vel á margan hátt og gerum nú gríðarlega miklar kröfur til matvælaframleiðslu okkar. Nákvæmlega sömu kröfur – og alls ekki minni - verða gerðar til framleiðslu á öllum matvælum sem hér verða seldar. Slíkt er gert í þágu neytenda og tryggir um leið hina sterku stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu, ekki síst framleiðslu á landbúnaðarafurðum.

Það er ljóst að stjórnvöld hafa svigrúm í þá veru að setja skorður við innflutningi á matvælum sem ekki standast ítrustu kröfur. Það er ætlun mín að nýta það svigrúm til hins ítrasta. Ég ætla líka að fullyrða að fáir vilja ganga þannig frá löggjöfinni að hagmunir landbúnaðarins og úrvinnslugreinanna verði fyrir borð bornir. Það er í það minnsta ásetningur stjórnvalda að hagsmuna landbúnaðar okkar sé gætt.

Hér í Skagafirði sjáum við glæsileg dæmi um það hvernig landbúnaðurinn hefur á öllum tímum svarað kalli tímans. Öflugur og fjölþættur búrekstur um allt héraðið, traust menntasetur landbúnaðarins á Hólum, kröftug úrvinnsla landbúnaðarafurða. Allt er þetta til marks um það góða starf sem hér er unnið á landbúnaðarsviðinu. Allt eru þetta dæmi um landbúnað sem við viljum að geti eflst á komandi árum og við vitum að getur eflst enn í framtíðinni.

Þess vegna eigum við ekki að óttast breytingar, heldur takast á við þær. Stjórnvöld hafa þar hlutverki að gegna. Það hlutverk felur í sér varðstöðu um hagsmuni landbúnaðarins. Ekki með því að varðveita kyrrstöðuna, heldur með því að auðvelda okkur að takast á við framtíðina og breytingarnar og nýta okkur þau tækifæri sem í þeim eru falin.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband