Hvaða rétt á að taka af lýðræðislega kjörnum fulltrúum?

RvikÍ tengslum við nýja meirihlutamyndun í Reykjavík hefur enn á ný skotið upp kollinum sú sérkennilega skoðun að meina eigi kjörnum fulltrúum að reyna að ná saman um samstarf. Þess í stað eigi að fara fram kosningar ef pólitískan meirihluta þrýtur örendið. Þetta er skrýtið sjónarmið.

Það er skilyrðislaust hlutverk stjórnmálamanna að tryggja að til staðar verði starfhæfur meirihluti, hvort sem það er á vettvangi sveitarstjórna eða Alþingis. Svo kann hins vegar að fara að forsendur meirihlutasamstarfs bresti og þá gerist það bara að menn freista þess að búa til nýjan pólitískan meirihluta, sem axlar sína ábyrgð. Þetta hefur hvað eftir annað gerst í landsmálum og á vettvangi sveitarstjórna. Nú er það að skilja á formælendum hinna sérkennilegu sjónarmiða um tafarlausar kosningar, að taka eigi þennan rétt af póltitískt kjörnum fulltrúum.

Fjölmörgum spurningum er ósvarað þegar þessi mál eru rædd. Og þá fyrst þessari: Hver á að taka ákvörðun um að boða til þessara kosninga í sveitarstjórnunum? - Væntanlega kjörinn meirihluti. Nú, sé hins vegar til staðar meirihluti kjörinna sveitarstjórnarmanna sem vill starfa saman þá er augljóst að ekki er fyrir hendi meirihlutavilji til að boða til kosninga.

Ástandið í Reykjavík hefur vissulega verið óviðunandi. Það vita allir. Forsendur meirihlutasamstarfs Sjálfstæðismanna með Ólafi F. Magnússyni voru horfnar. Það var hins vegar mat forystumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni að forsendur væru til samstarfs og því eðlilegasti hlutur í heimi að láta á það reyna.

Það eru engin klækjastjórnmál, eins og oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn uppnefndi þetta í Kastljósinu áðan. Hins vegar glitti í það fyrirbrigði þegar sá kvittur komst á kreik að hugmyndir væru uppi um að Ólafur F. Magnússon hyrfi af vettvangi borgarstjórnar og Margréti Sverrisdóttur yrði sjanghæjuð inn í borgarstjórnina í hans stað til þess að berja þrótt í lífvana Tjarnarkvartettinn.




Það er mál að linni

Skálanes, Gufufjörður, Ódrjúgsháls, Djúpifjörður, Hallsteinsnes, Þorskafjörður og ReykjanesÞað lýsir merkilegri þrákelkni að móast stöðugt við vegagerðinni í Gufudalssveitinni, sem ætlað er að bæta vita vonlaust ástand í vegamálum Vestur og Austur Barðstrendinga. Vegurinn um þessar slóðir yfir Hjallháls og Ódrjúgsháls er þvílíkur farartálmi að ekki verður við búið.

Árum saman stóðu yfir umræður um þá kosti sem í boði væru. Heimamenn höfnuðu því að fara með veginn um endurbætta hálsana. Jarðgangaleiðin sem menn ræddu var svo dýr að hún var óraunhæf. Svo kölluð B leið - sem felur í sér vegagerð yfir og síðan út Þorskafjörð að vestan verðu og þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar með vegi og brú frá Hallsteinsnesi í Melanes, varð síðan ofan á.

Það er ekki eins og umhverfisáhrifin hafi ekki verið skoðuð. Það var gert með nákvæmum rannsóknum. Málin fóru í gegn um alla þá ferla sem kveðið er á um í lögum og reglum. Umhverfisráðuneytið átti svo síðasta orðið og kvað upp vandaðan úrskurð sem fól í sér strangar reglur til þess að lágmarka umhverfisáhrifin af þessari vegagerð.

En samt halda menn áfram, nú síðast framkvæmdastjóri Landverndar.

Á meðan dragast lífsnauðsynlegar vegabætur, sem heimamenn hafa kallað eftir, búið er að marka stefnu um í samgönguáætlun og tryggja fjármunina.

Nú hlýtur að vera mál að linni.

Þarna er vel hægt að leggja veg í góðri sátt við náttúruna. Það er augljóst leikmannsauganu, ef gengið er um þessar slóðir, svo sem eins og ég hef gert í tvígang á síðustu tveimur árum. En meira um vert er það að hinn vandaði og efnismikli úrskurður Umhverfisráðuneytisins sem kveðinn var upp í tíð Jónínu Bjartmarz sýnir það svart á hvítu að sú leið er vel fær. Auk þess sem hún opnar fjölda fólks leið að fögru svæði, með góðum og vel lögðum vegi um vestanverðan Þorskafjörðinn




Fjörug bryggjuhátíð

Bryggjuhátíð 2008, mynd Jón HalldórssonBryggjuhátíðin á Drangsnesi er ein þessara skemmtilegu hátíða sem efnt er til víða um land á sumrin. Drangsnesingar hafa haldið úti sinni hátíð árum saman. Hófust fyrst handa árið 1996 og ég hef haft þá ánægju að sækja þá nokkrum sinnum heim á Bryggjuhátíðina. Nú síðast á laugardaginn var.

Það einkennir hátíðina á Drangsnesi hversu heimamenn eru duglegir að vinna að undirbúningi í sjálfboðastarfi. Einn hápunkturinn er svo glæsilegt fiskihlaðborð, þar sem getur að líta alls konar krásir úr djúpum hafsins, sem heimamenn hafa aflað og matreitt.

Athygli vekja meðal annars réttir matreiddir úr sela og hvalkjöti og var ekki annað að sjá en að almennt hafi þvi öllu verið vel tekið; líka þvert á alla pólitík. Engan hitti ég að minnsta kosti sem óttaðist að meiri hagsmunum væri fórnað fyrir minni þó boðið væri upp á þessar miklu kræsingar, sem forboðnar eru á sumum bæjum eins og kunnugt er.

En þýðingarmikill þáttur hátíða eins og þessara er hið gamal kunna, að maður er manns gaman. Það er gaman að hitta fólk víða að, ekki þó síst heimamenn og brottflutta Strandamenn sem drífur þarna að.

Með mikilli samstöðu og góðri þátttöku er enginn vafi á því að Bryggjuhátíðin tókst vel að þessu sinni eins og fyrri árin og er gott tákn um þann samtakamátt sem með fólkinu ríkir.

Sá vinsæli bloggari Jón Halldórsson frá Hrófbergi, var að sjálfsögðu mættur á svæðið, með myndavélina sína með í för. Til þess að fá frekari innsýn inn í það sem fram fór á Drangsnesi er ágætt að skoða síðuna hans, ríkulega myndskreytta að vanda. Síðuna má skoða með því að smella á þessi bláleitu orð.




Ólíku saman að jafna

ESB og sjómennÓlíku er saman að jafna ríkisstyrkjum í landbúnaði og sjávarútvegi. Þess vegna gæti Morgunblaðið allt eins sleppt hótfyndni sinni í leiðaranum í dag um ríkisstuðning í landbúnaði og sjávarútvegi. Tilefni leiðarans eru ummælin hér á þessari heimasíðu, í bloggfærslu sl. miðvikudag. Skoðum því málin aðeins betur.

Þegar það er upplýst að ESB ætli að beita ríkisstyrkjum til sjávarútvegsfyrirtækja fram til ársins 2010 upp á fjórðung árlegrar íslenskrar landsframleiðslu, þá er það alvarlegt. Við og ýmsar þjóðir greiðum nefnilega ekki ríkisstyrki til sjávarútvegsins og engar alvöru umræður fara fram um slíkt hér á landi. Íslenskir útvegsmenn eru til að mynda andsnúnir allri slíkri hugmyndafræði.

Þetta er alvarlegt fyrir tveggja hluta sakir. Annars vegar vegna þess að slíkt skekkir samkeppnisstöðuna, eins og allir sjá og ekki þarf að orðlengja um. En hitt atriðið er að ríkisstyrkir geta leitt til rányrkju á fiksimiðunum. Þetta virkar þannig, að þegar fiskistofnar fara minnkandi, eykst sóknartengdur kostnaður. Við eðlilegar aðstæður gefast útgerðir upp við slíka veiði og því er hverfandi hætta á að fiskistofnar þurrkist algjörlega upp. Ríkisstyrkir í sjávarútvegi gera fyrirtækjunum hins vegar kleyft að sækja á slík mið og eyða þannig fiskistofnum. Um það eru mýmörg dæmi.

Í landbúnaði er þessu öðruvísi farið. Þar má heita að niðurgreiðslur séu regla í flestum löndum; amk. þeim flestum sem við þekkjum best. ESB er klassískt dæmi og í Bandaríkjunum fara sömuleiðis fram gríðarlega miklir ríkisstyrkir til landbúnaðar. Ef við myndum hverfa frá niðurgreiðslum okkar er afleiðingin augljós. Landbúnaðarafurðir frá ríkisstyrktum landbúnaði annarra þjóða yrðu hér alls ráðandi. Með öðrum orðum. Í því viðskiptaumhverfi sem ríkir á sviði landbúnaðarmála í heiminum væri afnám niðurgreiðslna og annars stuðnings við okkar landbúnað  til þess fallin að skekkja mjög samkeppnisstöðu okkar landbúnaðar.

Er það sanngjarnt? Það finnst skrifara þessarar síðu ekki. En Morgunblaðinu?

Í annan stað. Þau rök sem vísað er til hér að framan um tengsl ríkisstyrkja og rányrkju á hafinu eiga ekki við þegar til landbúnaðar kemur.

Hitt er hins vegar ljóst að miklar breytingar verða á stuðningskerfi landbúnaðarins ef og þegar DOHA lotunni lýkur innan vébanda WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Við Íslendingar eins og þær 152 aðrar þjóðir sem eru aðilar að stofnuninni, munum þurfa að aðlaga okkur að þeim veruleika þannig að þá megi segja að stuðningskerfið verði sambærilegra í þessum löndum.




Skipta þá sjávarútvegshagsmunirnir engu máli?

LöndunNú tala margir býsna gagnrýnislaust um möguleika þess að við Íslendingar gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Merkilegt er að þáttur sjávarútvegsmála er sjaldan ræddur þegar möguleg aðild Íslands er til umræðu. Þó er alveg ljóst að menn sækja sér ekki rök í sjávarútvegsstefnu ESB þegar kostir aðildar eru til umfjöllunar.

Enginn getur að minnsta kosti fullyrt með rökum að við værum betur sett með því að taka upp sjávarútvegsstefnu ESB. Þau mál blasa við. Sjálfur ræddi ég þennan þátt málsins á aðalfundi Heimsýnar þann 4. júní sl.

Nýlegar ákvarðanir ESB á sjávarútvegssviðinu styrkja þennan máflutning enn. Það blasir við að sjávarútvegsstefna eins og sú sem ESB framfylgir fæli í sér mörg skref aftur á bak fyrir okkur.

Á heimasíðu Landssambands íslenskra útvegsmanna hafa þessi mál verið rakin skilmerkilega. Nú síðast með nýrri færslu sem birtist í dag, þar sem fram kemur að ESB hafi ákveðið að styrkja sjávarútveg sinn með um 250 milljarða framlögum til ársins 2010.

Það er ljóst að þessar aðgerðir munu skekkja samkeppnisstöðu sjávarútvegs okkar og annarra þeirra þjóða sem ekki ríkisstyrkja sinn sjávarútveg. Um skaðsemi slíkra aðgerða má hafa mörg orð.

Sjálfur hef ég fjallað um þessi mál í tveimur nýlegum bloggfærslum, sem lesa má annars vegar hér  þann 5. júní sl.  og síðan í annarri bloggfærslu sem lesa má hér þar sem ég vek athygli á að hið merka vikurit The Economist skrifi á svipuðum nótum.

Ýmsir telja sig sjá stundarhag í ESB aðild. En er þá ekki rétt að hafa í huga heildarmyndina, svo sem með því að skoða áhrifin á sjávarútveg okkar? Eða telja menn kannski að þau mál skipti engu þegar svo stór og afgerandi mál sem ESB aðild eru rædd ?




Vel heppnuðu Landsmóti lokið

Hópreið á Landsmóti hestamannaNú er lokið vel heppnuðu Landsmóti hestamanna. Talið er að um 12 þúsund manns hafi sótt mótið, sem endurspeglar þann gríðarlega áhuga sem er á hestamennskunni í landinu.

Það sem einkennir landsmót af þessu tagi er sú mikla fagmennska sem sjá má öllum sviðum.

Fyrst og fremst sjáum við það í þeim framförum sem einkennir hestamennskuna. Þeir sem gleggst þekkja til, benda á að á milli landsmóta megi sjá og skynja endalausar framfarir. Ræktunarstarf og mikill og góður undirbúningur setur svip sinn á hestana sem leiddir eru fram á völlinn.

Svo er það þessi mikla breidd. Það eru einungis gæðingar sem maður ber augum á mótinu. Og manni verður hugsað til allrar þeirrar þrotlausu og einbeittu vinnu sem liggur hér að baki. Fjöldi fólks hefur lang tímum saman stefnt með gæðinga sína á mótið. Margir eiga á að skipa gífurlega góðum hestum, sem hlotið hafa látlausa þjálfun undir miklum aga. Síðan ræður auðna hversu hátt þeir ná. Mýmörg dæmi eru um hesta sem hafa allt til að bera, hafa fengið góða og vel undirbúna þjálfun, eru setnir af bestu knöpum - en ná samt ekki verðlaunasætum. Þetta segir okkur hve samkeppnin er í raun mikil.

Hestamennskan er svo sérstök að þvi leyti að hún sameinar marga kosti í senn. Þarna mætist fólk úr öllum stéttum, á öllum aldri, af báðum kynjum og úr sveit og borg og eiga það sameiginlegt að unna íslenska hestinum.

Síðan er það skipulag slíks móts. Það kostar engan smá undirbúning að taka á móti 12 þúsund manns, svo vel sé, eða sjá til þess að allur þessi mikli fjöldi hesta sé sýndur við góðar aðstæður.

Sjálfur átti ég þess kost að ríða í kjölfar fánaberanna þegar Landsmótið var sett sl. fimmtudag. Þetta var hátíðleg stund. Ég reið Braga, 15 vetra úrvalshesti sem ég fékk að láni frá góðu fólki. Hesturinn fór vel með mig, vanur sýningum og bar mig á góðu tölti um völlinn.

Og á síðasta degi Landsmótsins fékk ég það virðulega hlutverk að afhenda Sleipnisbikarinn, æðstu viðurkenningu sem nokkrum getur hlotnast í hrossaræktunni. Það var Hróður frá Refsstöðum sem vann bikarinn að þessu sinni og mér fannst það því hátíðleg stund þegar ég, - frammi fyrir 12 þúsund manns, -  rétti eiganda hans, Mettu Manseth á Þúfum í Viðvíkursveit í Skagafirði bikarinn, en ræktandi hestsins var Jenný Sólborg Franklínsdóttir sem lengi bjó á Refsstöðum í  Hálsasveit.




Í átt til jafnvægis

BarrarFlestir hafa verið sammála um að einn af hættuboðunum í íslensku efnahagslífi hafi verið viðskiptahallinn. Við vissum auðvitað að á meðan umfang stórframkvæmda væri hvað mest og uppgangur efnahagslífsins hvað mestur, myndum við búa við viðskiptahalla. Með fjárfestingum í áliðnaði fyrir austan og á Grundartanga var lagður grundvöllur að auknum útflutningstekjum, sem skipta auðvitað miklu máli nú og til framtíðar litið.

Nær allir sem tjáð hafa sig um efnahagsmálin hafa lagt á það áherslu að viðskiptahallinn yrði að minnka. Það gerist með tvennu, svo augljóst það er. Í fyrsta lagi með auknum útflutningstekjum og hins vegar með minni innflutningi.

Lækkun gengisins nú eykur tekjur á útflutningshliðinni, en dregur líka úr innflutningi. Það hefur verið að gerast síðustu mánuðina.

Nú hafa birst fréttir af því að hinn mikli halli sem hefur verið á vöruskiptum okkar sé nú sem óðast að hverfa. Það segir okkur að jafnvægið í þjóðarbúskapnum sem nær allir hafa kallað eftir er að verða til. Til þess að þetta jafnvægi næðist, var öllum ljóst sem að þessum málum gáfu gaum, að draga þyrfti úr innflutningi. Metinnflutningur á bílum og hvers konar neysluvörum hlaut að taka endi. Það er nú að eiga sér stað.

Nú hljóta þeir því að fagna sem hafa talað fyrir því að jafnvægi í vöruskiptum / viðskiptajöfnuði yrði að verða. Það á ekki síst við um stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu, hagsmunasamtök, hagfræðinga og álitsgjafa.

Í fréttum Glitnis í dag, er einmitt vikið að þessari þróun undir fyrirsögninni Vatnaskil í vöruskiptum. Þar segir orðrétt:

"Horfur eru á að vatnaskil séu orðin í viðskiptum með vöru og þjónustu við útlönd, og að tímar mikils halla á slíkum viðskiptum séu nú að baki í bili. Þar leggjast á eitt stóraukin framleiðslugeta álvera, hátt verð okkar helstu útflutningsvara á alþjóðamörkuðum og snarpur samdráttur í innlendri eftirspurn vegna versnandi efnahagshorfa, ásamt gengisþróun sem að öðru jöfnu ætti að bæta samkeppnisstöðu útflutningsgreina og draga úr eftirspurn eftir innfluttum vörum og þjónustu. Vöruskiptahalli mun að okkar mati verða lítill á næstu misserum í samanburði við það mikla ójafnvægi sem einkennt hefur utanríkisviðskipti undanfarin ár."

Þetta eru athyglisverð orð sem túlka vel þá (sársaukafullu) þróun í átt til jafnvægis sem mjög hefur verið kallað eftir.




Látið sem ekkert sé

DollararEkki þarf að lesa mikið í erlendum blöðum, eða hlusta mikið á erlendar sjónvarpsstöðvar til þess að uppgötva að vandamálin sem við er að etja í þróuðum löndum Vestur Evrópu í efnahagsmálum eru býsna lík því sem við glímum við. Stutt dvöl í Bretlandi á dögunum færði mér heim sanninn um þetta.

Forsíðufréttir stórblaðanna sögðu okkur frá kunnuglegum vandamálum. Lausafjárskortur í fyrirtækjum, lánsfjárskortur í bönkum. Aðgengi að lánsfé takmarkað og það sem fáanlegt er fæst á ofurvöxtum sem fyrirtækjum eru óárennileg.

Þetta þekkjum við af fjármálafréttum á Íslandi. Þetta eru frásagnir í nágrannalöndum okkar.

Jafnvel breska sterlingspundið sem oft hefur verið ankeri á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði glímir við mótvind. Svo ekki sé nú getið um bandaríkjadalinn, þá alþjóðlegu mynt sem nú siglir um brælusjói alþjóðlegs ofviðris á efnahagssviðinu. Þó eru menn ekki á þeim bæjum að tala um að leggja niður þessar myntir til að taka upp evru!! - Hér á landi tala sumir um slíkt, jafnt þegar krónan er veik og þegar hún er sterk.

Þegar allt þetta er haft í huga er stórfurðulegt að hlýða á málflutning þeirra sem reyna allt til þess að gera sem minnst úr áhrifunum af þessum örðugu alþjóðlegu skilyrðum, á þróun efnahagsmála hér á landi. Fyrir þá væri kannski ómaksins vert að líta í svo sem eitt erlent dagblað, eða kíkja á svo sem einn fréttatíma í alþjóðlegum fréttaveitum, til þess sjá hvaða augum er litið á þróun alþjóðlegra efnahagsmála.

Þá er kannski von að augu manna ljúkist upp; nema auðvitað að málflutningurinn sé einber leikaraskapur. Menn viti betur og líti á það sem einhvers konar leiktjöld í dramastykki að láta sem þeir viti ekki af því sem fer fram utan landsteinanna. - Það gæti svo sem vel verið og væri eftir öðru.

Látalæti eru í sjálfu sér ekki neitt fyrirbrigði í pólitískri umræðu. En það er alltaf verra þegar slíkt er viðhaft þegar rætt er um alvörumál. Við ættum að muna að við erum ekki eyland í pólitískum eða efnahagslegum skilningi. Það sviptir okkur vitaskuld ekki ábyrgð að taka á málum, enda hafa stjórnvöld ekki gert það. En að minnsta kosti er lágmarkið að menn viðurkenni staðreyndir sem blasa við og eru til opinberrar umræðu úti í hinum stóra heimi og allir gera sér grein fyrir, þó hér á landi telji sumir sér henta að sniðganga.




Á tindi Heklu hám

Kalt á toppnumÞú stóðst á tindi Heklu hám

og horfðir yfir landið fríða.

Þetta alþekkta upphaf úr kvæði Jónasar Kristin, Egill og Einar K. á toppi HekluHallgrímssonar, Til herra Páls Gaimards, kom oft upp í huga manns, aðfararnótt 21. júní á leið upp Heklu, með vini mínum Agli Guðmundssyni og konu Gufan yljarhans Kristinu Andersson, Kiki. Þetta var ekki undirbúið með miklum fyrirvara hvað mig áhrærði. Eitt símtal á fimmtudagskvöldið frá Agli vini mínu og ferðin var ákveðin.

Við lögðum í hann frá Heklurótum rétt fyrir miðnætti. Rétt í þann mund sem sólargangur var lengstur, samkvæmt því sem ég hafði heyrt Þór Jakobsson veðurfræðing greina okkur útvarpshlutendum frá um morguninn. Ekki það að við værum ein á ferð þessa fögru nótt. Þegar við vorum komin vel áleiðis upp hlíðar Heklu tókum við að mæta myndarlegum hópi fólks á vegum Ferðafélagsins; 120 manns í fylgd tíu fararstjóra höfðu verið upp á Heklutindi um eða eftir miðnættið. Fleiri og smærri hópar voru þarna á ferð um líkt leyti. Alls gæti ég því trúað upp undir 150 manns.

Það kom mér á óvart hversu fjalladrottningin var snæviþakin. Það var svo sem ekki erfiðara fyrir okkur göngufólkið. Spor mynduðst í fönnina sem ágætt var að ganga eftir, þar til ofar dró. Þá fór snjórinn að verða mýkri. Og á leiðinni niður hafði sólbráðin sýnilega haft sín áhrif. Snjórinn var mjúkur og þvælinn, þó það gerði ekki mikið til fyrir okkur, svona forbrekkis.

Það var kalt á toppnum. Vindurinn blés og kældi svitastorkið andlitið og hár. Þá var ekki annað að gera en setja á sig höfuðfat. Síðan var notalegt að leggjast niður, hvíla lúin beinin, drekka kaffi og borða flatkökur með hangikjeti og kæfu. Láta síðan gufuna, sem streymir heit úr iðrum Heklu þarna efst uppi, leika um sig og hlýja um stund, þó maður verði að vara sig á því að vökna ekki af rekjunni.

Þarna var útsýnið ómótstæðilegt og ógleymanlegt.

Það var líka skemmtileg tilhugsun að vera sporgöngumaður þeirra Eggerts og Bjarna, en þeir eru taldir hafa fyrstir klifið fjallið fyrir nær 160 árum.

Og svo eitthvað fleira sé tínt til af fróðleik um Heklu: "Hekla sem er megineldstöð, er ógurlegasta eldfjall á landinu, en einnig eitt hið óvenjulegasta. Hún er næstvirkasta eldfjall landsins á sögulegum tíma og hefur gosið að meðaltali á 55 ára frest síðan land byggðist. Að minnsta kosti 17 gos eru þekkt úr Heklu sjálfri á þessum tíma, en að auki er vitað um 5 gos í nágrenni hennar í sama eldstöðvakerfinu. Grímsvötn í Vatnajökli eru eina megineldstöðin sem hefur gosið oftar, eða um 40 - 50 sinnum. Aftur á móti er heildarrúmmál gosefna úr Heklu mun meira, eða um 7 km3 en innan við 2 km3 úr Grímsvötnum. Fjallið stendur á hinni 5,5 kílómetra löngu Heklugjá og úr henni hafa flest eldgosin komið."

Maður finnur vel kyngimagnaðan kraft Heklu. Kannski ekki síst í nálægð Jónsmessunnar, þegar landið blasir við manni á þeirri stundu ársins þegar birtan verður lengst og mest. Að sitja þá í hásæti sjálfrar Heklu verður aldrei með orðum, né í myndum lýst, þó veikburða tilraun sé hér gerð til slíks.




Economist tekur undir skrif www.ekg.is !!

ESB og sjómennAnnað hvort erum við tímaritið Economist, svo sammála, eða þeir hafa á ritstjórninni lesið blogg mitt á dögunum um kröfur sjómanna í ESB um niðurgreiðslur á olíu. Hvort heldur sem er má segja að skrif blaðsins í síðasta tölublaði sé nánast endurómur þess sem ritað var hér á heimasíðuna um þessi mál þann 5. þessa mánaðar.

Í skrifum blaðsins í föstum dálki sem kallast Karla Magnús, Charlemagne, er lýst þeim viðhorfum að óskynasmlegt væri fyrir stjórnvöld ESB eða aðildarríkja þeirra að taka undir kröfurnar um niðurgreiðslu á olíu til fiskiskipa. Kjarni málflutnings tímaritsins er að kröfunum verði að hafna - í þágu evrópsks sjávarútvegs.

Blaðið segir að niðurgreiðslur á olíu til skipa myndi gera út um vonir manna um uppbyggingu sjálfbærs sjávarútvegs í Evrópu. Þá vitnar tímaritið til mats framkvæmdastjórnar ESB um að 88% fiskistofna í lögsögum ESB ríkja séu ofveiddir. Skipum hafi sannarlega fækkað og sjómönnum einnig. Hins vegar sæki menn sjóinn á öflugri og afkastameiri skipum. Segir tímaritið að innbyggt sé í fiskiskipaflotann 2% árleg afkastaaukning sem taka verði tillit til þegar sóknarþunginn er ákveðinn.

Þetta hafi ekki verið gert segir tímaritið ennfremur. Því sé fiskiskipaflotinn í löndum ESB allt frá 20% til 60% of stór, miðað við það aflamagn sem heimilað er að veiða úr kvótum sambandsins. Það sé vandamálið sem við sé að eiga, í bland við áralanga ofveiði.

Það var því jákvætt að heyra að framkvæmdastjórn ESB og framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála ESB Joe Borge hafnar kröfunum um frekari niðurgreiðslur, en leggur þess í stað til að sjávarútvegurinn ESB verði fremur aðstoðaður við að aðlaga sig að þeim sóknarþunga sem skynsamlegur er.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband