5.6.2008 | 11:22
Ábyrgðarlausar kröfur
Mótmæli franskra sjómanna og útgerðarmanna og nú síðar starfsbræðra þeirra í nokkrum ESB löndum vegna olíuverðhækkana gefa okkur innsýn inn í þann hugarheim sem umlykur sjávarútvegsstefnuna sem fylgt er í ýmsum löndum. Þegar verðhækkanir dynja yfir á tilteknum aðföngum er kallað eftir ríkisstyrkjum. Það þarf ekki að koma á óvart í löndum þar sem ekki er litið til sjávarútvegs sem alvöru atvinnugreinar.
Hækkun aðfanga þar með talið olíu mun hafa afleiðingar í för með sér fyrir sjávarútveginn. Við þær aðstæður er ekki óeðlilegt að menn leiti allra leiða til þess að stuðla að verðlækkunum, svo sem eins og með því að horfa til opinberrar skattlagningar. Það er að vísu ekki einfalt mál og lýtur líka að spurningum á sviði umhverfismála og útblásturs á óæskilegum efnum, eins og allir þekkja.
En mótmæli fiskimannanna í Frakklandi og víðar snúast ekki um þetta. Þar á bæ er kvartað yfir því að ekki sé strax brugðist við með niðurgreiðslum.
Við Íslendingar höfum unnið gegn niðurgreiðslum í sjávarútvegi og flutt fram margvísleg rök. Meðal annars þau að niðurgreiðslurnar stuðli að því að menn stundi rányrkju. Haldi úti skipum til veiða úr stofnum langt umfram afrakstursgetuna og það geti menn með opinberum stuðningi. Þegar fiskistofnar minnka verður veiði úr þeim almennt óhagkvæm. Við slíkar aðstæður er ríkisstyrkur stórhættulegur og algjörlega ábyrgðarlaus.
Hér er nauðsynlegt að vísa til þess sem ég gerði meðal annars að umræðuefni í Sjómannadagsræðunni minni, þar sem ég dró upp mynd af íslenskum sjávarútvegi sem alvöru atvinnugrein og sjávarútvegi í ýmsum öðrum löndum sem ekki lýtur slíkum lögmálum. Í ræðunni sagði ég meðal annars:
"Þegar þessi mál eru rædd er afar mikilvægt að undirstrika að sjávarútvegur okkar er undirstöðuatvinnugrein sem verður að lúta sömu hagræðingarkröfum og aðrar atvinnugreinar. Ella verður hann einfaldlega undir og laðar ekki til sín það fólk sem hann þarf á að halda. Víða um heim má einmitt sjá dæmi um sjávarútveg sem orðið hefur þeim örlögum að bráð. Sjávarútveg sem ekki hefur verið álitin alvöru atvinnugrein og er því ekki áhugaverður sem vettvangur lífsstarfs."
2.6.2008 | 22:42
Fiskifræði sjómannsins eða fiskifræði sjómannanna
Ég gerði fiskifræði sjómannsins að umræðuefni í ræðu minni á Sjómannadaginn. Þar vakti ég í raun athygli á því að ekki er það alveg réttnefni að tala um fiskifræði sjómannsins. Nær er að tala um fiskifræði sjómanna. Því sannleikurinn er sá að einnig á meðal sjómanna er sýn manna á ástandið í hafinu mismunandi og sjómenn leggja til breytilegar aðgerðir þegar kallað er eftir tillögum um uppbyggingu fiskistofna.
Um þessi mál hafði ég eftirfarandi að segja í Sjómannadagsræðunni:
"Það hefur verið kallað eftir því að við tökum meira og betra tillit til fiskifræði sjómannsins. Það er sjálfsagt að virða það viðhorf og það hef ég reynt að gera með samtölum við fjölmarga sjómenn og útvegsmenn víða að af landinu. En jafnvel það gefur ekki eina eða einhlíta niðurstöðu. Sýn manna á hvað skynsamlegast sé að gera er alls ekki alls staðar hin sama. Veturinn í vetur var gott dæmi um það. Á meðan sumir sjómenn og útvegsmenn hvöttu mig til að auka loðnuveiðar, fékk ég áskoranir frá öðrum um banna þær með öllu. Hér á það við sem oft hefur verið sagt. Sínum augum lítur hver á silfrið; silfur hafsins, svo ég yfirfæri viðurkennt hugtak yfir á alla fiskistofna."
Þá vék ég að því hvernig stjórnmálamaður geti brugðist við þegar tillögurnar og ráðgjöfin sem berst er ekki öll á eina lund. Ef farið er bil beggja er líklegt að niðurstaðan verði hvorki hrá né soðin. Við skröltum í sama farinu og miði hvorki lönd né strönd. Ef öllum á að gera til hæfis sveiflast menn til eftir því sem vindurinn blæs og verða algjörir pólitískir vinglar.
En hvað á þá að gera ? Þeirri spurningu svaraði ég í Sjómannadagsræðunni, þannig:
"Við slíkar aðstæður gildir það eitt að fylgja meginreglum og taka þá ákvörðun sem telst skynsamlegust. Í stjórnmálum á hið sama við og þegar skipstjóri stýrir skipi sínu. Í báðum tilvikum verða menn að vita hvert þeir ætla og styðjast við þau bestu siglingatæki og kort sem fáanleg eru. Einungis þannig komast menn heilir í höfn að lokum."
1.6.2008 | 19:01
Veiðireglan ákveðin til lengri tíma
"Á þessari stundu vitum við ekki hvað framundan er varðandi hámarksafla komandi fiskveiðiárs. Tillögur fiskifræðinga liggja ekki fyrir, - hvað þá ákvörðun stjórnvalda. Nema að því leiti, að á síðasta ári var ákveðið hvernig nýtingarstefnu næsta fiskveiðiárs yrði háttað, hvað þorskinn áhrærði. Við tókum sem sé ekki bara ákvörðun um þriðjungs lækkun þorskafla þessa fiskveiðiárs, heldur var einnig ákveðið að á komandi árum verði veiðihlutfallið í þorski 20% af viðmiðunarstofni og að á næsta fiskveiðiári yrði aftur tekin upp sú sveiflujöfnun sem hefur verið við ákvörðun heildarafla. Þá var sú ákvörðun jafnframt tekin í fyrra að aflamark í þorski yrði aldrei lægra á næsta fiskveiðiári en 130 þúsund tonn. Þannig var stefnan mörkuð í fyrra til lengri tíma. Það er í samræmi við óskir manna í sjávarútvegi, sem kallað hafa eftir því að dregið yrði úr óvissu og menn vissu sem mest og best um leikreglurnar sem ynnið yrði eftir á komandi árum."
Á þetta lagði ég meðal annars áherslu í Sjómannadagsræðu minni sem ég flutti við Reykjavíkurhöfn í dag. Umræðuefnið var þó margvíslegt. Fiskveiðiráðgjöfin, mannréttindaálitið, Sjómannadagurinn og staða sjómannsfjölskyldna.
II
Góður samhljómur var annars á margan hátt í ræðum okkar sem þarna töluðum þótt ekki værum við að öllu leyti sammála, eins og eðlilegt var. Við Guðmundur Ragnarsson fulltrúi sjómanna vékum til dæmis báðir að mikilvægi þess að þannig sé búið að sjávarútveginum og sjómannastéttinni að sjómannsstarfið verði alltaf eftirsóknarvert. Um það sagði ég meðal annars:
"Þegar þessi mál eru rædd er afar mikilvægt að undirstrika að sjávarútvegur okkar er undirstöðuatvinnugrein sem verður að lúta sömu hagræðingarkröfum og aðrar atvinnugreinar. Ella verður hann einfaldlega undir og laðar ekki til sín það fólk sem hann þarf á að halda. Víða um heim má einmitt sjá dæmi um sjávarútveg sem orðið hefur þeim örlögum að bráð. Sjávarútveg sem ekki hefur verið álitin alvöru atvinnugrein og er því ekki áhugaverður sem vettvangur lífsstarfs. Við þurfum að tryggja að okkar sjávarútvegur verði alltaf eftirsóttur starfsvettvangur, hvort sem er til sjós eða lands. Þar þurfum við á okkar besta fólki að halda. Slíkt mun hins vegar ekki verða, ætli menn að sækja fyrirmyndir að skipulagi hans til landa sem glutrað hafa niður sóknarfærum á þessu sviði. Við eigum eingöngu að horfa til þeirra landa sem hafa náð bestum árangri í leit að fyrirmyndum. Við getum ekki leyft okkur neitt annað en að keppa að því að vera alltaf í fremstu röð."
18.5.2008 | 18:48
Þrír fundir á tveimur dögum
Við sjálfstæðismenn nýttum kjördæmadagana vel í síðustu viku. Við blésum til funda víða um land og fengum þannig tækifæri til þess að hitta fólk að máli á opnum stjórnmálafundum. Þessir fundir féllu vel on í fundaprógramm okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Ég sótti þrjá fundi þessa tvo daga. Á þriðjudagskvöld var ég með Kjartani Ólafssyni alþm á fundi á Hvolsvelli, þar sem umræður voru að sjálfsögðu um matvælafrumvarpið. Daginn eftir fórum við Geir H. Haarde á fund í hádeginu í Varmahlíð í Skagafirði. Þar voru málin rædd nokkuð almennt en þó var mikilli athygli beint að matvælafrumvarpinu, enda skiptir efni þess miklu máli fyrir héraðið.
Við Geir ókum svo af stað vestur til Ísafjarðar, skoðuðum framkvæmdir sem eru miklar á mörgum sviðum um þessar mundir. Á Ísafirði hittum við Herdísi Þórðardóttur alþm. og sátum mjög fjölmennan fund á Ísafirði, þar sem umræðuefnin voru af mörgum toga.
Daginn eftir fórum við út í Bolungarvík á meðan við biðum flugs; á því var nokkur töf vegna þoku - sem er mjög óalgengt hjá okkur fyrir vestan. Við skoðuðum fyrirhugað jarðgangastæði, heimsóttum nýjan bæjarstjóra Elías Jónatansson á fyrsta starfsdegi hans, og hittum fólk á förnum vegi, meðal annars þau Hálfdán Einarsson fyrrv. skipstjóra og Hildi Einarsdóttur.
Þetta voru góðir og afkastamiklir dagar og sýndu enn einu sinni gildi þess að eiga fundi.
12.5.2008 | 20:49
Barist gegn aðstoð við þegna sína
Birtingarmyndir mannvonskunnar geta orðið margvíslegar. En það þarf alveg einstakt hugmyndaflug til að ímynda sér annað eins og það sem hefur birst okkur síðustu dægrin frá Burma. Þar er það einfaldlega að gerast að stjórnvöld þessa hræðilega grimmdarríkis leggja sig öll fram um að afstýra því að hrjáðum íbúunum sé veitt aðstoð að loknum hamförum sem þar gengu yfir á dögunum og við höfum heyrt af í fjölmiðlum.
Verra er varla hægt að hugsa sér. Stjórnvöld sem gera sitt til að afstýra því að þegnum þess sé bjargað frá dauða, verða varla nefnd nema hinum hrikalegustu nöfnum.
Mannskepnan getur verið sérkennileg. Og sjálfsagt er innræti landsstjórnendanna alla vega austur þar. En fyrst og fremst er þetta til marks um það þjóðfélag sem þarna hefur verið skapað í aldarfjórðungs harðstjórn herforingjanna. Í hugann kemur síðan nafn Aung San Suu Kyi frelsishetjunnar sem landsmenn kusu til forystu, en hefur verið haldið í stofufangelsi æ síðan. Hún er táknmynd frelsishugsjónar í ríki harðræðisins.
Burma er eitt illræmdasta harðstjórnarríki heims. Ekki er nema ríflega hálft ár síðan að þar átti sér stað hljóðlát bylting, þar sem hinir friðsömu Búddamunkar voru mjög áberandi.
Nú er þessi barátta gleymd umheiminum. Við sinnum okkar daglegu störfum og hyggjum sjaldan austur þangað eða veltum fyrir okkur örlögum frelsisunnandi fólks þar í landi. Safron byltingin er runnin út í sandinn, en vegna hamfaraveðursins á dögunum fáum við þó aftur innsýn inn í það furðulega ríki harðýðgisstjórnarinnar, sem hvorki getur komið þegnum sínum til bjargar þegar þörf er á, né treystir sér til að greiða hjálparsamtökum eða öðrum þjóðum leið sem koma vilja til aðstoðar þegar neyðin er stærst.
Hið umtalaða alþjóðasamfélag sem stundum er ákallað af minna tilefni er bjargarlítið og afskiptalaust þegar örlög manna í einhverju lokaðasta og versta samfélags heims á í hlut.
4.5.2008 | 15:37
Talað út frá mikilli reynslu
Það var skemmtilegt tilbreyting frá dægurumræðunni að hlusta á þá Ragnar Arnalds og Jón Baldvin Hannibalsson ræða Evrópusambandsmál í Sifri Egils í nú áðan. Einkenni þjóðfélagsumræðunnar þar sem álitsgjafar hafa látið ljós sitt skína í ljósvakamiðlunum er einsleitnin. Ekki vegna þess að þátttakendurnir hafi verið svo sammála; það hafa þeir alls ekki verið. Heldur hitt að sjónarhóllinn er svo fyrirsjáanlegur og svipaður þótt hið pólitíska útsýni hafi verið mismunandi.
Það hefur til dæmis grátlega oft blasað við manni mikil vanþekking á pólitískri sögu og þar með skilningsskortur á því samhengi umræðunnar sem er þó svo nauðsynlegt. Þess vegna var það svo fróðlegt að fá svo reynda menn til þess að tala saman um þau miklu álitamál, Evrópumálin, sem svo vinsælt er til viðfangs í stjórnmálaumræðunni. Þó að ég segi það hér og segi það enn, að framboðið af slíkri umræðu er almennt meiri en eftirspurnin. (Nú sé ég reyndar að þetta sjónarmið er farið að pirra geðslag manna sem hafa aðra skoðun en ég!!!)
Jón Baldvin og Ragnar hafa þá sérstöðu að hafa stöðu sinnar vegna verið beinir þátttakendur og gerendur í stjórnmálaumræðunni og ákvarðanatöku sem mestu máli hefur skipt á síðustu áratugum. Sjálfur sat ég með þeim báðum á Alþingi á frumbýlingsárum mínum við Austurvöll. Það var lærdómsríkt. Því þótt ég væri í pólitískri andstöðu við þá báða var mikill lærdómur í því fólgin að vinna með mönnum með svo mikla pólitíska reynslu.
Báðir eru fyrrum flokksformenn. Báðir hafa sopið marga fjöruna í pólitískum skilningi. Ragnar hefur meiri þingreynslu, en pólitísk afskipti Jóns spanna líka langa sögu, en sumpart á ólíkum vettvangi.
Jón er minn gamli lærimeistari, fræddi mig í Menntaskólanum á Ísafirði fyrir margt löngu um furður samtímastjórnmálanna og um hið stóra samhengi við hugmyndir útlendar og innlendar, sem vitandi og óafvitandi ráða nú yfirleitt mestu um gjörðir manna þegar upp er staðið.
Og með Ragnari starfaði ég í hinni ágætu Evrópunefnd forsætisráðherra undir forystu Björns Bjarnasonar dóms og kirkjumálaráðherra. Það var góður tími og þar nýttist ekki síst hin gríðarlega mikla reynsla Ragnars til þess að varpa ljósi á hluti sem ekki blöstu við ella.
Síðan er rétt að minna á - samhengisins vegna - að við Björn, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Evrópunefndinni skrifuðum undir sameiginlegt álit með fulltrúm VG, þeim Ragnari og Katrínu Jakobsdóttur, þar sem sérstaklega var fjallað um sjávarútvegsmálin, við lok nefndarstarfsins.
13.4.2008 | 10:27
Gore og trukkabílstjórarnir
Al Gore setti upp glæsilega sýningu og flutti boðskap sinn í Háskólabíói á dögunum. Liðin er sú tíð að menn fari um og haldi ræður. Boðskapur Gores var ekki í gamaldags ræðuformi en var skreyttur mikilli grafík og myndskeiðum; ekki skrýtið heldur, Gore er orðinn verðlaunaður kvikmyndaframleiðandi.
Ekki er þó hægt að mæla með því að menn sæki sýningar hans oft. Sjálfur sat ég svona sýningu úti í Færeyjum á ráðstefnu þar sem ég var með erindi. Las svo í frásögnum þegar heim var komið að allt var eins á báðum stöðum. Meira að segja brandarinn sem sagður var í upphafi sýningarinnar úti í Færeyjum var sá sami í Háskólabíói.
Endurnýtingin er góð og göfug og hendir okkur víst líka fleiri. En það er annað mál.
Hitt er það að Gore lagði fram tillögu um hvernig draga megi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Tillaga hans var sú að lækka skatt á neyslu og tekjur, en auka skattheimtu á mengandi útblástur. Þetta er einföld og þekkt hugsun. Með því væri það gert dýrara að nota bíla og önnur mengandi tól. Ergo: útblástur minnkar.
Á sama tíma fluttu aðrir mál sitt hér á landi og eru bersýnilega algjörlega á móti boðskap Gores. Þetta eru vörubílstjórarnir sem hafa með ýmsum ólöglegum aðgerðum reynt að vekja athygli á skoðunum sínum. Fyrir utan athugasemdir við tilskipanir frá Brussel, kvarta þeir undan háu eldsneytisverði. Það vita þó allir að hækkað eldsneyti á fyrst og fremst rætur að rekja til heimsmarkaðsaðstæðna sem við ráðum ekkert við og þess að gengi gjaldmiðilsins hefur lækkað í ólgusjó alþjóðlegra peningavandræða.
Nú hefur hins vegar verið upplýst að skattlagning á eldsneyti sé lægra hér en víða í nágrannalöndum okkar. Þar er því að minnsta kosti ekki að leita aðalástæðu hækkandi eldsneytisverðs.
Nú vill Gore hins vegar breyta þessu. Hann vill að ríkið hækki skatta á bensín og olíur. Hækka álögur á menn eins og trukkabílstjórana.
En skaði er á því að svo lítið hefur verið fjallað um þennan þátt í máli Gores frá komu hans hingað. Því þetta er þó alla vega klár og kvitt tillaga sem vel má taka afstöðu til. Nú bíðum við þess að einhver komi fram með þennan þátt úr boðskap Gores.
Hver verður til þess skal ósagt látið. En það verða alla vega ekki trukkabílstjórarnir... Svo mikið er alla víst að minnsta kosti.
11.4.2008 | 15:55
Jákvæð afstaða almennings til landbúnaðar
"Það hefur nokkuð borið á því í umræðunni undanfarna daga, að menn óttist að með hinni nýju löggjöf (um matvæli, innskot hér ) séu allar varnir landbúnaðarins brostnar og nú muni alls konar kjötafurðir flæða yfir án heilbrigðisskoðunar og tollverndar. Þetta er auðvitað ekki þannig vaxið.Í fyrsta lagi felur þessi lagabreyting ekki í sér neinar breytingar á tollvernd "
Þannig komst ég að orði í ræðu sem ég flutti á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda í gær, eða 10. apríl sl. Þar fór ég meðal annars yfir viðhorf mín varðandi tollvernd landbúnaðarins, svo sem eins og ég hafði áður gert á öðrum vettvangi. Um þau mál sagði ég ennfremur:
"Ég hef engin áform uppi um að ganga hraðar fram í lækkun tolla en alþjóðlegar skuldbindingar munu krefjast, nema gagnkvæmar tollaívilnanir fáist í staðinn til að styrkja útflutningsmöguleika landbúnaðarins í breyttum heimi. Það er nauðsynlegt að árétta að íslenskum stjórnvöldum ber að reyna að stuðla að því að greiða leið fyrir íslenskar framleiðsluvörur inn á erlenda markaði. Það hafa stjórnvöld alltaf og ævinlega gert og þannig verður það. Slíkt verður hins vegar ekki gert nema með gagnkvæmum samningum og eru hinir fjölmörgu fríverslunarsamningar okkar við aðrar þjóðir glöggt dæmi um það. Ég held líka að enginn sá sem til dæmis hefur átt í samskiptum við ESB, - sem ég tek þó fram að hafa verið almennt góð, - velkist í vafa um að þar á bæ muni menn nokkurn tíma opna glufur í tollmúra sína fyrir íslenskar framleiðsluvörur nema að fá eitthvað í staðinn. Þess vegna miðast þær viðræður sem nú eiga sér stað við það að ná samkomulagi sem fela í sér gagnkvæmar tollalækkanir sem báðir aðilar telja hagkvæma."
Þá hvatti ég bændur til þess að taka höndum saman um merkingar á íslenskum landbúnaðarafurðum til þess að tryggja stöðu þeirra á markaði, með þessum orðum:
"Við vitum að íslenskir neytendur hafa afar jákvæða afstöðu gagnvart íslenskum landbúnaðarafurðum. Þær merkingar sem íslenskir garðyrkjubændur hafa á sínum afurðum og ég vék að hér að undan, hafa skilað þeim betri sölu auk þess sem þær hafa ótvírætt upplýsingagildi fyrir neytendur. Mér er kunnugt um að á vettvangi íslenskra bænda hefur verið að því hugað að taka upp sambærilegar merkingar almennt fyrir íslenskar landbúnaðarvörur. Það tel ég vera skynsamlega hugsun og lýsi því yfir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er reiðubúið til þess að vinna að slíku með bændum standi hugur manna til þess. Alveg óháð hinni nýju matvælalöggjöf tel ég að slíkar merkingar feli í sér markaðsleg tækifæri fyrir íslenskan landbúnað, sem menn eigi að reyna að nýta sér."
8.4.2008 | 10:34
Útflutningshagsmunirnir skipta líka máli
"Það er ekki svo, eins og stundum er haldið fram, að bændur starfi í vernduðu umhverfi og þurfi ekki að taka tillit til samkeppni eða aðstæðna að öðru leyti. Þvert á móti er landbúnaðurinn í margs konar samkeppni um fólk og fjármagn og í samkeppni við innfluttar matvörur ýmis konar og þarf þess vegna að beita öllum úrræðum til að hagræða og lækka kostnað."
Þannig komst ég að orði í ræðu sem ég flutti hjá Landssambandi kúabænda, sem haldinn var á Selfossi sl. föstudag.
Í ræðunni vék ég meðal annars að þeirri umræðu sem uppi hefur verið um innflutning á landbúnaðarafurðum og gerði grein fyrir sjónarmiðum mínum með eftirfarandi hætti:
"Þótt undarlegt sé að hugsa til þess og það blasi kannski ekki við okkur við fyrstu sýn, þá er það engu að síður svo að margt bendir til þess að þær hræringar sem orðið hafa á alþjóðlegum matvælamarkaði kunni að styrkja hlutfallslega samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Lægra gengi íslensku krónunnar, skapar útflutningsmöguleikum okkar líka nýja viðspyrnu og bætir almennt samkepppnisstöðu íslenskrar framleiðslu þar með talið landbúnaðarframleiðslu.
Í þeirri umræðu sem nú fer fram um efnahagsmál og í ljósi vaxandi krafna um aukin alþjóðleg viðskipti, meðal annars með landbúnaðarvörur, er mikilvægt að hafa það í huga. Gleymum því ekki að við erum útflutningsþjóð og þegar við gerum viðskiptasamninga við önnur ríki eða ríkjasambönd þá hljótum við ekki síður að hafa þá hagsmuni í huga, en hagsmuni innflutningsins. Þess vegna hef ég lagt á það ofuráherslu að við semjum ekki um einhliða tollalækkanir heldur gagnkvæmar, svo að útflutningsgreinar okkar njóti ávinningsins einnig."
30.3.2008 | 23:20
Talað í kross
Það getur stundum verið erfitt að vera sjálfum sér samkvæmur. Sérstaklega ef það felur í sér að menn verða að halda á lofti óvinsælum skoðunum í bland við þær sem til vinsælda geta fallist. Tökum dæmi.
Tveir þingmenn úr sama stjórnmálaflokknum hafa rætt við mig á Alþingi um tvö aðskilin mál sem snerta stefnumótun og hagsmuni landbúnaðarins. Kröfur þeirra beggja höfðu það yfirbragð að vera settar fram í þágu íslensks landbúnaðar. Báðir þessir ágætu og vel meinandi þingmenn settu mál sitt fram undir ljósi velvildar í garð bænda. Hins vegar er alveg ljóst að kröfur þessara ágætu þingmanna eru í hróplegri innbyrðis mótsögn, eins og nú skal rakið.
Nú ríður yfir mikil hækkun á áburðarverði. 80% hækkun á skömmum tíma. Þetta veldur miklum búsifjum. Talið er að kostnaðarauki íslensks landbúnaðar sé 1 til 1,2 milljarðar. Hvað er þá til ráða? Undir hverju rifi míns ágæta félaga úr Norð Vesturkjödæmi Jóns Bjarnasonar, mátti sjá glitta í ráðin. Ríkið á að koma til skjalanna, - mátti lesa úr ummælum hans í ræðustóli Alþingis - og létta þessar byrðar. Sannarlega efnislegt sjónarmið sem þó er umdeilt, en skýrt sjónarmið engu að síður.
Líða nú og bíða fáeinir dagar. Mætir þá ekki í hinn sama ræðustól Alþingis, félagi Jóns úr flokki Vinstri grænna, Þuríður Bachmann. Hennar erindi var að finna að því að ekki væri nægjanlega gert af ríkisins hálfu til þess að hvetja til lífrænnar ræktunar. En samkvæmt prinsippum slíkrar ræktunar má ekki nota tilbúinn áburð af þeirri sort sem Jón Bjarnason vill auðvelda mönnum kaupin á.
Blasa mótsagnirnar ekki við öllu hugsandi fólki? Er ekki öllum ljóst að það, að stuðla að lækkun áburðarverðs, dregur úr hvatanum til lífrænnar ræktunar? Er ekki alveg augljóst mál að slakna mun á áhuga manna á lífrænum landbúnaði ef aðgengi að tilbúnum áburði er betra en núna?
Látum vera að sinni að taka afstöðu til sjónarmiða þeirra flokkssystkina. En augljóst hlýtur það að vera þau tala algjörlega í kross. Nema að niðurstaðan eigi að vera að gera hvort tveggja og gleðja þannig alla. Lækka verð á áburði, sem dregur úr hvata til lífrænnar ræktunar og leggja síðan einnig aukið fé til lífrænnar ræktunar, sem fælir menn frá því að nota tilbúinn áburð. Þannig er hægt að leggja aukið fé til tvenns konar verkefna og toga með þeim aurum í tvær gagnstæðar áttir.
Það er nefnilega ekki alltaf hægt að gera svo öllum líki vel.