23.3.2008 | 17:21
Ómissandi hátíð og öflugri Skíðavika
Fólkið streymdi að strax upp úr kl. 7 niðrí skemmunni hans Aðalsteins Ómars, niður við höfn á Ísafirði. Hafnarstjórinn var vitaskuld mættur til leiks; Muggi sem setti hátíðina með nokkrum vel völdum orðum og kynnti fyrstu hljómsveitina til leiks. Þar með byrjaði þéttur tónlistarflutningurinn á hinni rómuðu hátíð, Aldrei fór ég suður sem stóð þindarlaust til miðnættis og hófst síðan um miðjan dag á laugardag og var fram yfir miðnættið.
Maður skynjaði að hátíðin var í nánd með því að aka eða ganga um götur ( og gangstéttir) Ísafjarðar. Ungt fólk sem skar sig úr með yfirbragði sínu, en kurteislegri framkomu, fyllti stræti og torg og boðaði nærveru hinnar miklu hátíðar. Þetta einstaka framtak þeirra feðga Arnar Elíasar Guðmundssonar og Guðmundar Magnúsar Kristjánssonar, sem landsmenn þekkja sem Mugison og Mugga föður hans hefur fyrir löngu fest sínar kyrfilegu rætur í alþýðumenningu landsins og aukið hróður Ísafjarðar og Skíðavikunnar. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega í tónlist eða tónlistaráhuga lætur þessa góðu hátíð framhjá sér fara sem hefur meira að segja hlotið sjálfa Eyrrarrósina við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Ég missti að vísu af Listaskáldinu góða, Megasi, en bætti mér það aðeins upp með því að fara inn á heimasíðu hátíðarinnar, aldrei.is og hlustaði á afrek hans. Hins vegar mætti ég samviskusamlega til þess að njóta tónlistarflutnings Eivarar og síðan Karlakórsins Ernis og Óttars Proppé, sem fjölmiðlar kölluðu hátind hátíðarinnar. Það gladdi mitt gamla karlakórshjarta og ég samgladdist öllum þeim stóra hópi vina minna sem syngja í þessum stórgóða karlakór. Við náðum að vísu aldrei svona langt þegar ég söng á sínum tíma í þessum góða kór og það er ekki fjarri því að mig dreymi dagdrauma um að eiga afturkvæmt í kórinn.
En það var dálítið sérkennilegt að vera þarna viðstaddur hátíðina miklu í hópi gríðarlegs fjölda, upplifa kátur og glaður fínan tónlistarflutning og fíla hann vel og gera sér síðan grein fyrir að hinir virðulegu, miðaldra karlar sem skipa Karlakórinn Erni eru menn af minni kynslóð, en hinir ungu frísku strákar sem á undan komu og eftir all miklu yngri ( svo ekki sé nú tekið dýpra í árinni) En þetta sýnir að gott rokk þekkir engin kynslóðabil, heldur rýfur þau.
En aðalatriðið er þá þetta. Skíðavikan á Ísafirði er frábær áratuga hefð sem hefur nú gengið í kröftuga endurnýjun lífdaga með þessari frábæru hátíð. Fjölþætt dagskrá, frábær aðstaða til skíðaiðkunar og helgi páskanna helst vel í hendur og er einhvern vegin algjörlega ómissandi þáttur hvers ár, í lífi okkar heimamanna.
19.3.2008 | 08:57
Gefið og tekið
Í þeirri miklu efnahagsbrælu sem nú gengur yfir heimsbyggðina koma enn á ný upp í hugann orð Björgólfs Thors Björgólfssonar sem hann lét falla í viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins: "Að hluta til má segja að fólk hafi of mikið horft á fjármálamarkaðinn og um leið fjármálafyrirtækin og því gleymt rekstrarfélögunum. Núna held ég að það muni breytast og áherslan verði á þau fyrirtæki sem skila hagnaði og skapa verðmæti".
Þetta eru greinilega orðin áhrínsorð. Ólgusjóirnir svipta til jafnt alþjóðlegum stórfyrirtækjum og hagkerfum. Hinir miklu kraftar sem eitt sinn toguðu allir í eina átt, í krafti mikils aðgengis að ódýru fjármagni, líkjast núna helst mikilli brælu til sjós, þar sem brotsjóirnir koma að úr öllum áttum. Þetta sjáum við allt í kring um okkur út um allan heim.
Í þessu ástandi eru upp runnir tímar mikillar tekjumyndunar fyrir rekstrarfélög á Íslandi sem stunda útflutning.
Þó svo að veiking krónunnar hafi verið bæði kærkomin og löngu tímabær, felur hið mikla fall í sér mikla ógn. Um það má hafa langa upptalningu, en nægjanlegt er í sjáfu sér að nefna verðlagsáhrifin. Og mikilvægt er að undirstrika að enginn gerir lítið úr þeim háska sem steðjar að í efnahagslífi heimsins við þær miklu sviptingar sem orðið hafa.
En jafnvel þarna glittir auðvitað líka í jákvæða þætti sem sjálfsagt er líka að halda til haga.
Gleymum því ekki að við erum útflutningsþjóð, með agnarsmáan heimamarkað. Gengisfellingin skapar því ekki bara tap, eins og ætla má af umfjöllun. Hún stóreykur tekjur fjölmargra atvinnugreina.
Sjávarútvegur er skýrasta dæmið sakir stærðar sinnar í efnahagslífinu. Ofan í umtalsverðar verðhækkanir á ýmsum sjávarafurðum (alls ekki öllum þó, því miður) eykur veikari króna tekjur greinarinnar. Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur LÍÚ taldi í viðtali við RÚV í gær að ávinningurinn miðað við núverandi stöðu gengisins væri um 25 milljarðar; sem er vel að merkja mjög umtalsvert hærri tala, en nam áætluðum tekjubresti vegna þorskaflaskerðingarinnar. Hér er þó nauðsynlegt að slá þann varnagla að fáir ef nokkrir gera ráð fyrir að þetta gengisstig haldist til nokkurrar frambúðar. Það skiptir líka máli að þessi þróun kemur beint ofan í loðnuvertíð; framleiðsluafurðirnar verða seldar á hagstæðu gengi og skila því hærri tekjum inn til fyrirtækjanna.
Sama lýsing á við um stóriðju, ferðaþjónustu, ýmsar tæknigreinar; og yfirhöfuð allar samkeppnis- og útflutningsgreinar. Þær hafa framundan þessu með réttu kvartað undan of sterku gengi. Og þó öllum sé ljóst að svona ýktar gengissveiflur séu engum til góðs til lengdar, er óneitanlegt að þær spýta miklum tekjum inn í íslenskt þjóðarbú.
Björgólfur Thor hefur nefnilega hitt naglann á höfuðið, eins og svo oft. Orðin sem vitnað var til í upphafi eru orð að sönnu.
16.3.2008 | 16:27
Offramboð á Evrópuumræðu, en lítil eftirspurn
Það er eðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er slíkt álitaefni að það hlýtur að kalla á mikla umræðu þeirra sem hafa áhuga á stjórnmálum. Spurningin um ESB aðild er líka þess konar að hún vekur spurningar um grundvallarviðhorf; spurningar sem lúta að fullveldi þjóðar og stöðu okkar í alþjóðlegu samfélagi.
Þessi spurning leiðir líka fram sitthvað um efnahagsmál, fríverslun og ýmislegt af því tagi sem menn hafa togast á um á hinum póltíska vettvangi.
Fleira má nefna í þessu sambandi sem örvar hugsun þeirra sem pólitískt eru meðvitaðir. Fyrir vikið hafa áhugamenn um stjórnmál og stjórnmálamenn í fullu starfi, mjög gaman af því að ræða um hin svo kölluðu Evrópumál - með stórum staf og stundum einnig með greini. Því getur að líta í blöðunum greinar og skrif sem fylla ekki bara heilu dálksentrimetrana, heldur dálk - metrana í mánuði hverjum. - Vandinn er bara sá að svo fáir hafa áhuga á eða nennu til að hlusta á blessaða Evrópuumræðuna.
Þess vegna er alveg stórfurðulegt þegar einhverjir æpa alltaf öðru hvoru upp fyrir sig að NÚNA verði að hefja Evrópuumræðuna. Það sé kominn tími NÚNA á upplýsta Evrópuumræðu. Eða hvað er átt við? Hefur allt þetta óendanlega kynstur af umræðu um Evrópumál ekki hlotið athygli þeirra sem svona tala og skrifa? Eða líkar þeim ekki umræðan og telst hún ekki á nægjanlega háu plani?
Ætli þetta sífur stafi ekki frekar af því að þeir sem svona láta, líkar ekki niðurstaðan; semsé sú að við erum ekki á leið inn í ESB?
Sá sem hér stýrir tölvubendli sat í hinni ágætu Evrópunefnd undir forystu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra, sem Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra skipaði okkur í þann 8. júlí árið 2004. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra flokka. Nefndin skilaði af sér mjög greinargóðri skýrslu um málið sem hvetja þarf til að sem flestir kynni sér. Handhægt er að nálgast hana á netinu, með því að smella á þessi bláleitu orð.
Og ef einhver ætlar rétt einu sinni að byrja fimbulfambið um að það skorti á umræður um ESB mál vil ég biðja þann hinn sama að fletta upp á bls. 132 í skýrslunni, Heimildir og ítarefni. Þar getur að líta lista yfir heimildir og helstu gögn sem lögð voru fram á fundum nefndarinnar.
Þessi "helstu gögn " voru 60 skýrslur og rit ! - Ýmis þeirra þverhandarþykk. !!
Og svo kvarta menn undir skorti á efni í umræðuna, skorti á umræðu eða að stjórnvöld, ( sem staðið hafa fyrir mörgu af téðum gögnum og heimildum) hafi þvingað burtu alla umræðu. Þvílík della!
Vandinn í Evrópuumræðunni er ekki skortur á framboði af umræðu. En það er ríkir hins vegar lítill áhugi á þessari umræðu á meðal alls almennings. Það er með öðrum orðum skortur á eftirspurn.
10.3.2008 | 14:36
Sjálfstæðisflokkurinn í NV-kjördæmi
Ný heimasíða Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hefur verið opnuð á slóðinni www.nordvesturland.is. Þar ber margt forvitnilegt á góma - fréttir úr flokksstarfinu, greinar frá þingmönnum og ráðherrum og upplýsingar um stefnu flokksins og kjördæmið. Hægt er að nálgast helstu vefmiðla Norðvesturkjördæmis á einu bretti, heimasíður sveitarfélaga og upplýsingar um stjórnir sjálfstæðisfélaga í kjördæminu svo nokkuð sé nefnt.
Fyrir þá sem vilja rifja upp skemmtilega kosningabaráttu í máli og myndum má benda á að fundum og mannfögnuðum síðasta vors er vel til haga haldið í myndaalbúmi vefjarins. Áhugamenn um pólitík ættu ekki að láta síðuna fram hjá sér fara enda getur þar margt fleira athyglisvert að líta - sjón er sögu ríkari.
Þetta eru ánægjuleg tímamót í starfi okkar og mikilvægur vettvangur til að fylgja stefnumálunum eftir. Eins og sjá má á vefnum snýst hann þó ekki einungis um NV-kjördæmi og heldur hefur mun breiðari skírskotun.
Brynhildur Einarsdóttir framkvæmdastjóri kjördæmisráðsins hefur veg og vanda af framtakinu og fylgdum við þingmennirnir síðunni úr hlaði við hátíðlega athöfn á Hótel Hamri í Borgarnesi á hlaupársdag.
5.3.2008 | 22:07
Sproksett ei meir
Spurningin um matvælaöryggi kom upp í ræðum okkar þriggja sem töluðum við setningu Búnaðarþings, Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, Haraldar Benediktssonar formanns Bændasamtakanna og mín. Umfjöllun okkar kallaði á all nokkrar umræður í fjölmiðlum. Hér fer á eftir kafli úr ræðu minni sem um þessi mál fjallaði
"Öryggi matvæla verður nú sem sagt æ þýðingarmeira og það er af sem áður var þegar menn reyndu að hlæja út af borðinu alla umræðu sem fram fór hér á landi um matvælaöryggi þjóðarinnar. Menn sáu fyrir sér stórar frystigeymslur fullar af fiski og kjöti og spurðu í forundran, hvort við Íslendingar þyrftum að velta fyrir okkur hugtakinu matvælaöryggi að þessu leytinu. Víðast hvar um heiminn eru menn hættir að sproksetja slíkar umræður. Þær eru dauðans alvara. Spurningin er ekki lengur sú hvernig eigi að koma í lóg öllum þeim matvælum sem framleidd eru í heiminum. Heldur er spurningin þessi: Hvernig ætlar landbúnaðurinn og aðrir matvælaframleiðendur að anna þeirri miklu eftirspurn sem nú er um allan heim eftir matvöru. Þessi umræða hefur auðvitað líka áhrif hér á landi. Það er ekki ólíklegt að þróun matvælaverðs í heiminum hafi margvísleg áhrif á matvælaframleiðslu hér. Líklegt má telja að hlutfallslegar breytingar á verði á matvælum leiði til þess að samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar almennt verði betri. Þegar sjást ýmis teikn um þetta, þrátt fyrir hækkandi verð á aðföngum. Til viðbótar eykst stöðugt skilningur á mörkuðum á nauðsyn þess að framleiða hreina og heilnæma vöru. Oftar en ekki er spurt um uppruna vörunnar og gæði og þar höfum við Íslendingar ekkert að fela, öðru nær, í því felst okkar styrkur.
Langt hagvaxtarskeið með stöðugri kaupmáttaraukningu hefur fært íslenskum bændum stærri markað en áður. Í þessu felast heilmikil tækifæri sem tvímælalaust á að reyna að nýta. Samtímis hefur verið unnið með markvissari hætti en áður að útflutningi bæði á kjöti og mjólkurvörum þar sem hollusta, gæði og heilbrigðir framleiðsluhættir eru lagðir til grundvallar. Því miður hefur gengisþróunin á margan hátt tafið þetta mikilvæga starf, en þó felast þarna ýmis tækifæri. Við Íslendingar getum því litið svo á, að aukin fríverslun færi landbúnaðinum tækifæri eins og við höfum séð á undanförnum árum. Gagnkvæmir tollkvótar Íslands og Evrópusambandsins eru gott dæmi um það. Þeir hafa fært okkur möguleika á nýjum sviðum, sem vonandi getur orðið frekara framhald á.
Það er einnig ánægjulegt fyrir einn sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra að skynja hvar hagsmunirnir liggja sameiginlega hjá þessum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði. Báðar byggja atvinnugreinarnar á matvælaframleiðslu. Báðar framleiða þær úrvalsvöru. Báðar geta vísað með stolti til hreins uppruna vörunnar. Báðar nýta náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti."
4.3.2008 | 23:24
Því miður hafði Smári rétt fyrir sér
Smári Geirsson forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð sagði athyglisverðan hlut á ráðstefnunnni um atvinnumál á Ísafirði um daginn. Umræðuefnið var hugsanleg uppbygging stóriðjufyrirtækis á Vestfjörðum og Smári hafði fengið það hlutverk að fræða okkur um reynsluna fyrir austan af slíkri uppbyggingu. Margt minnisstætt kom fram hjá Smára, en í samhengi umræðunnar sem síðan hefur farið fram um þessi mál er sérstaklega eitt atriði sem á erindi inn í umræðuna núna.
Það var þegar Smári sagði okkur að búast við miklum árásum og mikilli gagnrýni frá hinum talandi og skrifandi stéttum gegn uppbyggingu atvinnulífs af þessu tagi á landsbyggðinni. Hann fullyrti að slík mótmæli heyrðust ekki þegar um væri að ræða sambærilega uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu eða i næsta nágrenni þess. En öðru máli gegndi þegar um væri að ræða hugmyndir er lytu að atvinnuuppbyggingu fjær stór - höfðuborgarsvæðinu.
Og mikið rétt. Svona er þetta. Því miður.
Menn fara hamförum gegn hugmyndum um olíuhreinsistöð fyrir vestan og virðast ekki einu sinni telja að þann kost megi skoða sem aðra. En uppbyggingu í Helguvík t.d er ekki mætt með sambærilegri gagnrýni. Þar gilda greinilega önnur sjónarmið.
Ekki er efnt til sérstakra funda gegn þeirri uppbyggingu. Og hið algjörlega hlutlausa Ríkisútvarp flytur manni ekki einhliða áróðursfrétt gegn atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, líkt og við lögskipaðir afnotagjaldsgreiðendur fengum að heyra í Ríkissjónvarpinu sl sunnudag. Sú frétt var nú meiri skandallinn. Þar voru leiddir fram í einni prósessíu Árni Finnsson, Mörður Árnason og Bergur Sigurðsson hjá Landvernd. Krítíklausir andsstæðingar þessarar hugmyndar og fréttin í samræmi við það. Þarna fauk hlutleysisgríma sjónvarpsins út í buskann.
Það er mikið umhugsunarefni þetta. Atvinnuuppbygging úti á landi er tekin öðrum tökum, en sú sem á höfuðborgarsvæðinu á sér stað. Við munum það sem fylgdumst með átökunum um stóriðjuna fyrir austan og við sjáum það núna í því undarlega trúboði sem nú fer fram gegn því að menn láti á það reyna hvort uppbygging olíuhreinsistöðvar geti fallið að lögum og reglum sem við höfum um slíka starfsemi hér á landi.
Smári Geirsson hafði sem sé á réttu að standa. Því miður.
2.3.2008 | 10:41
Mótsagnakenndar efnahagsaðstæður
Staða efnahagsmála er ákaflega mótsagnakennd. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að fjármögnunarvandinn á alþjóðamörkuðum er fyrir löngu farinn að setja svip sitt á fjármálalífið hér á landi sem annars staðar. Allir vita að það þrengir að lánsfjármögnun og umsvif á ýmsum sviðum hafa dregist saman.
Skemmst er að minnast þess að mikið hefur dregið úr fasteignaviðskiptum. Hagtölur sýna það. Nú sér fyrir endann á miklum framkvæmdum í tengslum við uppbygginguna fyrir austan vegna álversins. Það minnkar umsvif. Og í raun er þetta hollt. Við vitum að þenslan var of mikil. Þar hafði kúplast margt saman í einu; stórframkvæmdir vegna stóriðju, gríðarleg umsvif í tengslum við fasteignamarkaðinn, fjárfestingar opinberrra aðila og síðast en ekki síst gríðarlegar fjárfestingar einkafyrirtækja og einstaklinga, sem birtast manni í frumskógi byggingakrana út um allt höfuðborgarsvæðið. Eitthvað er farið að grisjast í þeim skógi.
Þrátt fyrir að við vitum að þrengst hafi um á fjármagnsmarkaði, eru enn gífurlega mikil umsvif í efnahagslífinu. Fyrirtækin eru þó farin að hægja á sér. Einstaklingar sömuleiðis. Í pípunum eru á hinn bóginn heilmiklar framkvæmdir af öllu tagi. Þær bremsast aldrei niður svona einn, tveir og þrír.
Svo eru opinberir aðilar með mikil umsvif. Við ákváðum að auka framkvæmdir ríkisins á þessu ári til þess að vega gegn samdráttaráhrifum sem ella hefðu orðið vegna minnkandi umsvifa. Nú vitum við að tímasetningin er rétt, líkt eins og við héldum fram. Þegar þessara framkvæmda verður farið að gæta má ætla að dregið hafi úr öðrum umsvifum, eins og hagspár segja. Auk þess sem samdráttur vegna minni þorskafla verður farinn að vega þyngra..
En stóra mótsögnin í þessu öllu saman er að einkaneysla blómstrar og blómstrar. Kreditkorta og debetkortanotkun eykst á milli mánaða. Ekki getur það allt skýrst af jólaeyðslunni, eins og einhver var með tilgátur um í kring um áramótin. Þá er vaxandi bílainnflutningur og íbúðaverð hækkar áfram - þó í minni mæli sé - þrátt fyrir spár um annað.
En kjarni málsins er þá þessi: Þrátt fyrir erfiðleika, er efnahagsgrundvöllurinn sterkur. Góðir kjarasamningar eru að baki. Fjármálamarkaðurinn hefur eflst, fólk hefur aukið eignir sínar og tekjur. Fyrirtæki eru fjölþættari og síðast en ekki síst eigum við firnasterkan ríkissjóð og mikinn gjaldeyrisforða. Við ráðum við mótblástur og aðgerðir ríkisvaldsins í tengslum við kjarasamninga eru til þess fallnar að bæta grundvöll atvinnulífsins.
19.2.2008 | 21:59
Sum orð eru of dýr til þess að nota þau
Það væri heillaráð að koma fyrir eintaki af Brekkukotsannál eftir Halldór Laxness í einkaþotunum sem löngum prýða Reykjavíkuflugvöll um þessar mundir. Þetta er sagt vegna þess að í þeirri bókmenntaperlu getur að líta hin fleygu orð; "Í Brekkukoti voru orðin of dýr til þess að nota þau - af því þau þýddu eitthvað; okkar tal var einsog óverðbólgnir peníngar:"
Á sama tíma og atvinnulífið siglir krappan dans og orð sem hrjóta af vörum stjórnmálamanna og áhrifamanna í atvinnulífi eru lesin, krufin og út af þeim lagt, er eins gott að vanda orðfæri sitt, þegar kemur að því að fjalla um svo vandmeðfarna hluti sem hin djúpu tilvistarrök efnhagsgangverksins.
Hver á fætur öðrum koma menn og segja að ímynd landsins skipti máli og geti hreinlega haft áhrif á viðskiptakjör okkar. Jón Ásgeir, einn helsti og áhrifamesti kaupsýslumaður landsins segir landið okkar búa við ímyndakreppu og væri gaman að vita hvernig sú kreppa hafi orðið til. Líka af því að nýleg ummæli um fjárhagslega stöðu bankanna voru kannski ekki alveg beinlínis fallin til að bæta þessa ímynd. Þau orð voru því miður ekki byggð á misskilningi okkar sem lásum þau og heyrðum. Misskilningur var það sem sé ekki, en mistök svo sannarlega og þá er bara að viðurkenna það. Það er stórmannlegast.
Þegar gefur svona á bátinn í viðskiptalífinu er þess vegna eins gott að menn gangi fram af fyllsta gagnsæi og gefi ekki færi á neinum efasemdum um að allt sé með felldu. Það verður að liggja algjörlega fyrir að allir séu jafnir; stórir sem litlir hluthafar. Þegar stór hluthafi kaupir hlutabréf með fjórðungsafslætti frá markaðsverði og annar er síðan keyptur út á yfirverði í kjölfarið vakna spurningar. Eðlilega.
Einnig þegar út spyrst að hægt sé að lækka rekstrarkostnað fyrirtækis í Kauphöllinni um meira en helming. Þá spyr hinn litli hluthafi (og sá stóri örugglega líka); hvað voru stjórnarmenn að aðhafast, til þess að gæta hagsmuna okkar? Sé hægt að lækka rekstrarkostnað um milljarða vaknar hin eðlilega spurning um ástæður þess að rekstrarkostnaðurinn var svona hár í fyrstunni.
Þetta er nefnilega spurning um ímynd, það er mikið rétt. En einnig um fleira. Hluthafar verða að geta treyst upplýsingum og einnig því að upplýsingar séu veittar. Ella skapast tortryggni sem ekki má eiga sér stað í opnum félögum, þar sem hagsmunir margra eru svo ríkir. Allra síst núna, þegar þörf er á trausti.
Það er nefnilega þannig þegar allt kemur til alls að atvinnulífið hefur miklar skyldur. Bæði gagnvart sjálfum sér, en einnig fólkinu sem hefur lagt eigur sínar að veði, í trausti á stjórnendur og í trausti þess að upplýsingarnar sem berist séu gagnsæjar og áreiðanlegar.
18.2.2008 | 22:27
Kjarasamningar valda þáttaskilum
Nýju kjarasamningarnir voru mikið afrek. Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ segir að þeir séu einstæðir í þeim skilningi að fara þurfi áratugi aftur í tímann til þess að finna sambærilega samninga. Séu samningarnir skoðaðir annars vegar og útspil ríkisstjórnarinnar hins vegar, er ljóst að saman leiðir þetta til verulegs kaupmáttarauka fyrir þá sem lægst hafa launin. Það þurfti kjark og þroska til þess að gera slíkan samning. Þeir sem stóðu fyrir samningunum nú eiga því hrós skilið.
Vilhjálmur Egilsson frkvstj. SA bendir einnig á að lækkun verðbólgu sem samningarnir leggja drög að, stuðli líka að bættum lífskjörum. Það er varanlegur bati sem skiptir gríðarlega miklu máli.
Það er mikilvægt að þetta verði leiðarljós í kjaramálum á næstunni. Það er enginn að tala um að taka nokkurn rétt af einum né neinum. En öllum hlýtur að vera ljóst að samningar sem leggja aðallega áherslu á að hækkun lægstu launa, stuðla að lægri verðbólgu og kalla ekki óhóflegan kostnað yfir atvinnulífið, eru gott fordæmi til að fylgja. Það getur ekki verið að nokkrum detti í hug að þegar slíkir samningar eru orðnir að veruleika þá geti meginlínur annarra samninga orðið þvert á þessa.
Með innsiglun kjarasamninga núna hefur ramminn utan um afskaplega mikilvægar hagstærðir verið markaður. Við höfum þarna því fastara land undir fótum. Ýmislegt sem gera þarf til þess að bregðast við ölduróti alþjóðlegra fjármálamarkaða hefði orðið giska ómarkvisst án niðurstaðna í kjaraviðræðunum. Þess vegna voru skynsamlegir kjarasamningar svo gríðarlega þýðingarmiklir, einmitt núna og forsenda annarra ákvarðana.
Staðan er á margan hátt margræð. Við vitum að lækkun eignaverðs, einkanlega á hlutabréfamörkuðum, hefur verið mjög umtalsverð. Að öllu jöfnu ætti það að skila sér í minni einkaneyslu, lægri eyðslu á kredit og debetkortum, minni innflutningi og lækkun annars eingaverðs. Fátt af þessu hefur þó gerst. Lúxuseignir virðast að vísu vera að lækka í verði. Einkaneyslan heldur þó áfram, innflutningur bíla - hið sígilda merki neyslugleðinnar - veður nú upp að nýju og fjárfesting er enn mikil.
Kjarasamningarnir hafa hins vegar dregið úr óvissu, lagt línur, jafnað kjör og markað stefnu sem taka ber fullt mark á. Þess vegna skipta þeir svo miklu máli.
14.2.2008 | 08:25
Atvinnulífið kallar alls ekki á ESB aðild
Niðurstaða Viðskiptaþings varðandi evrumál í gær var kannski ekki frumleg. En hún skipti samt miklu máli. Það má heita að öllum hafi verið ljóst eftir umfjöllun á Viðskiptaþingi í gær að við Íslendingar stæðum bara frammi fyrir tveimur kostum varðandi gjaldeyrismálin. Áframhaldandi krónu eða upptaka evru, að undangenginni aðild að ESB og EMU.
Það er að vísu nærri komið ár síðan við bentum á þetta í skýrslu Evrópunefndar, Tengsl Íslands og Evrópusambandsins ( bls 90) En samt hafa einhverjir haldið áfram að tala eins og aðrir kostir séu í boði og þannig talaði einn fyrirlesaranna á Viðskiptaþinginu í gær, prófessor Portes.
Það var hins vegar skotið rækilega niður af Jurgen Stark stjórnarmanni í Evrópska Seðlabankanum. Vonandi skýrist þá umræðan og menn rata aftur út af villigötunum.
En fleira gerðist á Viðskiptaþingi. Þar var meðal annars kunngerð viðhorfskönnun á meðal félaga í Viðskiptaráði um Evrópumál og tengda hluti. Þarna gat að líta athyglisverða hluti. Sérstaklega í ljósi þess að mjög hefur verið haldið á lofti því sjónarmiði að í atvinnulífinu - og þá ekki síst félagar innan VÍ - séu óðir og uppvægir að ganga í Evrópusambandið. En er þetta svo?
Þarna voru forsvarsmenn aðildarfélaganna spurðir. Og svarið er skýrt. Menn hafna aðild að Evrópusambandinu. 31,7 prósent vilja ganga í Evrópusambandið, 17,7 % taka ekki afstöðu en 50,5% eru því andvíg. Þetta er afskaplega afgerandi og lóst að ef þeir eru teknir frá sem ekki taka afstöðu nálgast þau 60% innan VÍ sem ekki vilja ESB aðild.
Hitt er svo athyglisvert að VÍ félagar vilja að meirihluta kasta krónunni og taka upp annan lögeyri; flestir evru. Hins vegar má sjá að margir hafi talið þann kost í stöðunni að taka upp aðra mynt án þess að ganga í ESB. Það blasir því við að loknu Viðskiptaþingi að slíkt er ómögulegt og því má ætla að viðhorf manna breyttist fyrir vikið, í ljósi þess að meirihluti félagsmanna VÍ er andsnúinn ESB aðild.