6.2.2008 | 22:56
Gravel er minn maður
Á síðu Egils Helgasonar, Silfri Egils, er hægt að nálgast próf sem gefur til kynna hverjum hinna bandarísku forsetaframbjóðenda maður eigi mesta pólitíska samleið með. Þetta var eins konar krossapróf, í fjórtan tölusettum liðum. Þó játa beri að ekki voru allir efnisflokkarnir ofarlega í sinni mínu, þá freistaðist ég til þess að fara í gegn um allt prófið og fékk svo niðurstöðuna.
Minn maður er Mike nokkur Gravel, sem ég hafði aldrei nokkru sinni heyrt um, né séð nokkuð til hans. Strax í kjölfar hans fylgdi sá áhrifamikli ræðusnillingur Barak Obama, og síðan hlið við hlið Hilary Clinton og John McCain. Frjálshyggjumaðurinn Ron Paul kom þar næst og gladdi það mitt gamla frjálshyggjuhjarta að eiga þó einhverja samleið með honum. Lestina ráku svo hinir íhaldssömu Mike Huckabee og Mitt Romney. Það kom sjálfum mér lítt á óvart. Skoðanir þeirra eru svo víðsfjarri skoðunum verulegs hluta Íslendinga og sjálfsagt á hið sama við um drjúgan hluta Vestur Evrópubúa.
En hver er hann þessi Mike Gravel? Á því lék mér mikil forvitni. Satt best að segja var ég allt eins þeirrar skoðunar að Gravel þessi væri hreinn tilbúningur, en svo mun þó ekki vera.
Gravel var fæddur í Massachusettes fylki í Bandaríkjanna árið 1930, en flutti til Alaska á sjötta áratugnum og haslaði sér þar völl í stjórnmálum. Hann var kjörinn á þing Alaska og varð að lokum þingforseti. Kjörinn var hann til setu í Öldungadeild Bandaríkjaþings árið 1968 og sat til ársins 1980.
Án þess að hirða um að rekja feril hans, sem tíðum hefur augljóslega verið nokkuð skrautlegur, skal fernt þó nefnt. Hann barðist fyrir afnámi herskyldu í Bandaríkjunum; máli sem var ofarlega á baugi í Víetnamstríðinu. Þó ekki fengi hann sínu framgengt að sinni var herskyldan að lokum afnumin.
Í öðru máli var hann líka áberandi. Bygging umdeildrar olíuleiðslu til Alaska mætti gríðarlegri andstöðu umhverfisverndarssamtaka og á bandaríkjaþingi. Þar sneru þeir bökum saman, hann og Ted Stevens þingmaður frá Alaska sem hefur reynst okkur Íslendingum vel meðal annars í hvalamálum, eins og fleiri Alaskabúar, og höfðu sigur. Leiðslan var lögð Alaskabúum til mikilla hagsbóta.
Þá má nefna að hann gat sér frægðar fyrir að hafa hótað að gera svonefnd Pentagon skjöl opinber, en þau höfðu að geyma leyndardóma um Víetnamstríðið. Hótaði Gravel að lesa skjölin, sem voru 7 þúsund blaðsíður, í Öldungadeildinni og koma þeim þannig á framfæri.
Loks gaf hann kost á sér sem varaforsetaefni Demókrata árið 1972, en gjörsamlega árangurslaust
Þetta er sem sé minn maður í bandarísku forsetakosningunum, samkvæmt fyrrgreindu krossaprófi, sem ég lýsi hér með algjörlega óhæft til þess að draga mig inn í dilka forkosninganna þarna vestra !!
31.1.2008 | 22:23
Fjögur þúsunda manna fækkun í sjávarútvegi
Þegar að er gáð þá kemur í ljós að fækkun starfsfólks í sjávarútvegi undanfarin ár hefur verið stöðug. Ekki er því um að kenna að skorið hafi verið svo hraustlega niður í aflaheimildum á þessum tíma að það geti skýrt þróunina. Við vitum hins vegar að bætt skipulag fyrirtækjanna, aukin tækniþróun, sem sagt framfarir og aukin framleiðni vinnuafls, ráða þarna mestu um.
Hagstofan heldur utan um talnaefni um starfsfólk eftir atvinnugreinum. Fróðlegt er að sjá tölur yfir síðustu árin. Því miður ná tölurnar ekki nema til ársins 2005 og er það sannarlega bagalegt. Engu að síður sjáum við skýr merki um þróunina með því að líta á tölulegu þróunina.
Árið 1998 unnu um 14.700 manns í sjávarútvegi, - fiskvinnslu og fiskveiðum, - á landinu öllu. Nú er þessi tala komin oní 10.800. Fækkun um tæplega fjögur þúsund á ekki lengri tíma. Fækkun starfsfólks í fiskveiðum nemur um 2.300 og um 1.600 í fiskvinnslunni.
Slá verður örugglega einhverja varnagla þegar einstök ár eru skoðuð. Þetta eru þó tölur þeirrar stofnunar okkar sem mesta vigt hefur á sviði tölfræðilegra upplýsinga á þessum sviðum. Því er eðlilegt að við styðjumst við þessar tölur til þess að skoða þróunina til lengri og skemmri tíma. Athyglisvert er í þessu sambandi að kanna tölur frá árunum 1998 og 1999. Samkvæmt tölum Hagfstofunnar fækkaði starfsfólki í fiskvinnslu um 800 manns og síðan 600 manns á milli áranna 1999 og 2000.
Og þá vaknar spurningin. Hver var þróunin í aflamarki á þorski, okkar helstu nytjategund, á þessum árum? Því er skemmst frá að segja, að afar litlar breytingar urðu í aflamarkinu, en samt fækkaði starfsfólkinu svo mikið. Í ljósi umræðu síðustu daga má kannski spyrja hvort þessa fækkun starfsfólks megi líka rekja til skerðingar aflamarks á því herrans ári 2007?!!!!!
Ennfremur er afskaplega athyglisvert að á sama tíma og starfsfólkinu í fiskvinnslunni fækkaði þá hækkuðu heildarlaunin, þó þau hafi hins vegar lækkað í fiskveiðum; afar misjafnlega samt eftir landshlutum.
Nú tala sumir í hinni opinberu umræðu þannig að auðvelt sé að bregðast við uppsögnum í sjávarútvegi. Skollið er á yfirboðskapphlaup tveggja stjórnmálaflokka sem boða hókus - pókuslausnir sem allir vita þó að lítil innistæða er fyrir. Við sjáum hins vegar af hinni talnalegu þróun, að tilhneigingin er alveg skýr. Hin undirliggjandi þróun blasir við. Fækkun starfa og uppsagnir núna verða sannarlega að hluta raktar til minni aflaheimilda í þorski. En alls ekki að öllu leyti. Um það vitnar fortíðin og reynslan.
Og reynslan er jafnan ólygnust.
29.1.2008 | 23:03
Staðreyndir sem lítið hefur farið fyrir
Í aðdraganda utandagskrárumræðu um uppsagnir í fiskvinnslunni freistuðum við þess í Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu að afla sem gleggstra upplýsinga um umfang þeirra uppsagna sem hefðu orðið frá því að tilkynnt var um kvótaniðurskurð í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári. Niðurstaðan er sú að uppsagnir í bolfiskvinnslu nái til um 300 starfsmanna, þó svo að þær uppsagnir séu ekki allar varanlegar. Þetta er nógu há tala þó lægri sé en birst hefur í fréttum.
Í þessu sambandi benti ég einnig á eftirfarandi sem lítið hefur verið rætt um þegar fjallað hefur verið um uppsagnir í sjávarútveginum:
Í fyrsta lagi er ljóst að margar þeirra uppsagna sem rætt hefur verið um hafa ekki komið til framkvæmda og munu ekki koma til framkvæmda fyrr en síðar á árinu. Er það raunar í samræmi við það sem flestir álitu þegar ákvörðun var tekin um minnkandi aflaheimildir í þorski
Í annan stað verða menn að hafa í huga að ýmsar þessar uppsagnir eru tímabundnar og eru því ekki varanlegar. Gleymum því ekki að mjög algengt hefur verið í fiskvinnslunni undanfarin ár að fiskvinnsla liggi niðri um tímabundið skeið yfir sumartímann. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum og reglum um Atvinnuleysistryggingarsjóð gera slíkar ráðstafanir auðveldari núna.
Í þriðja lagi eru dæmi um að önnur sjávarútvegsfyrirtæki á sama atvinnusvæði hafi ráðið það fólk til starfa sem misst hefur vinnu sína vegna uppsagna. Þá eru dæmi um að ný fyrirtæki hafa risið á grunni þeirra sem hætt hafa starfsemi af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna gjaldþrots.
Í fjórða lagi er að nefna að sums staðar þar sem uppsagnir hafa átt sér stað í fiskvinnslu er til staðar umframeftirspurn eftir vinnuafli, sem hefur getað ráðið við að ráða það fólk til annarra starfa.
Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að minna á að uppsagnir í sjávarútvegi eru ekki nýtt fyrirbæri og dæmi um slíkt þekkjast fjölmörg áður en kom til ákvörðunar um minnkun þorskafla. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni fækkaði störfum í sjávarútvegi um tæplega fjögur þúsund á árunum 1998 til 2005.
Í umræðunni um uppsagnir er nauðsynlegt að hafa þessa þætti í huga. Ekki til þess að gera lítið úr vandanum heldur til þess að fá sem raunsannasta mynd og gleggsta af ástandi mála
22.1.2008 | 17:49
Gleðidagur í Bolungarvík
Fyrir okkur borna og barnfædda Bolvíkinga verður þessa dags, 22. janúar, einkanlega minnst fyrir að í dag voru opnuð tilboð í gerð Jarðganganna ( já með stórum staf og greini ! ) Hér er vitaskuld verið að tala um Bolungarvíkurgöngin sem liggja munu á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Þetta er stór stund og vekur með okkur mikla gleði.
Tíminn líður hratt. Á fyrsta ríkisstjórnarfundinum sem ég sat, var ákvörðun tekin um að ráðast í þessi göng. Um það fjallaði ég í pistli á heimasíðunni. Þar með má segja að ísinn hafi verið brotinn. Í hönd fóru athuganir á fyrirhuguðu jarðgangastæði. Ýmsir kostir voru skoðaðir og að lokum komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að láta göngin liggja á milli Ósbæjanna í Bolungarvík og að Skarfaskeri í Hnífsdal. Ákvörðunin um nýju Bolugarvíkurgöngin var svo innsigluð endanlega í Samgönguáætluninni sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hafði alla forystu um og mælti fyrir á Alþingi. Þar með má segja að nær öllum hindrunum hafi verið rutt úr vegi og verkefni samgönguyfirvalda eftir það að vinna að því að koma þessari ákvörðun á framkvæmdastig.
Þetta verður gríðarlegt mannvirki. Um er að ræða 8,7 m breið, 5,1 km löng jarðgöng, byggingu um 310 m langra steinsteyptra vegskála, gerð um 3,0 km langra vega og byggingu tveggja um 15 m langra steinsteyptra brúa, eins og segir í tilkynningu Vegagerðarinnar. Jarðgöngin leysa Óshlíðina af hólmi; mikið mannvirki á sinni tíð, sem rauf á sínum tíma landfræðilega einangrun Bolungarvíkur og hefur verið byggð upp gríðarmikið síðustu árin.
En vegurinn um Hlíðina var mikill tálmi við tilteknar aðstæður og hefur hamlað vexti byggðarinnar. Nú opnast hin greiðasta leið á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar. Á löglegum hraða verðum við sennilega um 10 mínútur á milli; og helminginn af leiðinni undir þaki, ef þannig má að orði komast.
Það var sérstaklega ánægjulegt að finna þann stuðning og hlýhug sem hvarvetna birtist þegar ákvörðunin um nýju Bolungarvíkurgöngin var tekin. Ég vék einmitt að þessu í fyrrnefndum pistli á heimasíðunni. Þar sagði meðal annars: "Gamla bolvíska aðferðin að vinna án hávaða en með þrautseigju reyndist vel, eins og svo oft, fyrr og síðar. Þessu fögnum við Bolvíkingar. En það er ekki allt. Maður hefur fundið ótrúlegan stuðning við þetta mál úti í þjóðfélaginu. Ég hef varla hitt mann sem ekki hefur fært þetta í tal við mig upp á síðkastið. Og sem ég sit við gerð þessa pistils renna SMS sendingar með heillaóskum inn á símann minn. Þessi framkvæmd nýtur nefnilega ótrúlegs velvilja úti um allt þjóðfélagið. Fyrir það erum við afskaplega þakklátir, íbúar Bolungarvíkur."
Nú er einhverra vikna eða mánaða bið þar til framkvæmdir hefjast. Þar með verða stóraukin atvinnuleg umsvif á svæðinu, sem ætti að geta hleypt miklu lífi í atvinnulífið á svæðinu. Þetta skiptir máli og mikilvægt að menn reyni að nýta sér þessi færi sem best. Meginávinningurinn er þó sá að fá göngin, því þá skapast ótal tækifæri til þess að byggja upp á öðrum sviðum á norðanverðum Vestfjörðum.
20.1.2008 | 19:53
Heimsfréttir sagðar af láti Fischer
Bobby Fischer naut gríðarlegs álits fyrir skáksnilli sína um víða veröld. Þrátt fyrir að ár og dagur sé liðinn frá velmektardögum hans við skákborðið, naut hann virðingar til dánardægurs fyrir einstaka snilli sína. Þetta endurspeglaðist í umfjöllun fjölmiðla á heimsvísu um lát hans.
Ég var staddur í Berlín, höfuðborg Þýskalands, þegar andlát snillingsins spurðist út. Tíðindin bárust mér í gegn um fréttir í þýskri útvarpsstöð þar sem þau voru sögð innan um stórfréttir dagsins. Síðar þann dag sá ég umfjöllun BBC World og CNN um andlát kappans frækna. Ferill hans var rakinn og hátindur þess talinn skákeinvígið í Reykjavík árið 1972. Síðan var það rakið nákvæmlega hvernig Íslendingar komu Fischer til bjargar á örlagastundu. Allar voru þessar fréttir sagðar af hlýhug og góðri meiningu og greinilegt að þær voru flokkaðar með helstu fréttum heimsins þennan dag.
Daginn eftir mátti sjá sams konar umfjöllun í dagblöðunum erlendis. Breska blaðið The Times, sem virðingar nýtur um allan heim, birti stóra mynd af Fischer á forsíðu, ítarlega umfjöllun inni í blaðinu og stóra minningargrein, eins og blaðið birtir bara um mektarfólk. Og aftan á þýsku stórblaði sá ég heilsíðu grein undir fyrirsögninni, Konungurinn er látinn.
Á næstu dögum skýrist væntanlega hvernig útför þessa mikla snillings verður háttað. Við viljum auðvitað sýna honum fullan sóma og slíkt megnum við vonandi að gera í samvinnu við nánustu ættingja og vandamenn hans.
En eitt er þó alveg ljóst. Lokið er merkum kafla í skáksögunni með láti Bobby Fischer. Nafn hans verður um ókomna tíð bundið Íslandi órjúfanlegum böndum. Af þeim ástæðum og af mannúðarástæðum einnig, var það sjálfsagt að veita honum skjól þegar mikið lá við. Það var ekki augljóst þegar þau mál komu fyrst til tals. En fyrir framgagn vina hans hér og vegna góðra undirtekta margra, ekki síst Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra, var málinu róið í heila höfn. Það var því kannski táknræn tilviljun að dánardagur snillingsins bar upp á 60 ára afmælisdag forsætisráðherrans fyrrverandi.
13.1.2008 | 14:26
Fiskveiðiréttindi og mannréttindi
Nýlegt álit mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna varðandi íslensk fiskveiðistjórnunarmál hefur kallað á nokkrar umræður, eins og eðlilegt er. Íslensk stjórnvöld taka sjónarmið nefndarinnar vitaskuld alvarlega og hafa þau nú til efnislegrar athugunar.
Það hefur marg komið fram að við erum ekki bundin áliti þessu að þjóðarrétti. Nefndin nýtur heldur ekki stöðu dómstóls né kveður upp dóma. Það breytir því þó ekki að við erum aðilar að þeim sáttmála sem er forsenda nefndarinnar og starfs hennar. Þess vegna erum við að fara yfir álit nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að við höfum allt að hálfu ári til slíks starfs og ræðst það af eðli máls og umfangi þess hvort þörf reynist á að nýta allan þann tíma.
Nefndin klofnaði í afstöðu sinni. Meirihlutinn sem skipaður var 12 af átján nefndarmönnum lagði fram það álit sem því telst í raun skoðun nefndarinnar. Þriðjungur nefndarmanna var algjörlega á öðru máli og gerði raunar mjög alvarlegar athugasemdir við meirihlutaálitið og það sem í því fólst. Fulltrúar meirihlutans voru frá eftirtöldum ríkjum: Kólómbíu, Egyptalands, Tunis, Frakklands, Indlands, Benin, Ekvador, Sviss, Mauritius, Írlands, Suður Afríku og Perú. Þeir sem skipuðu minnihlutann voru tveir af þremur varaformönnum nefndarinnar, fulltrúar Bretlands, Bandaríkjanna, Ástralíu, Japan og Svíþjóðar, en þaðan er eini fulltrúi Norðurlandanna í hópnum.
Vegna þess að við viljum taka fullt mark á áliti nefndarinnar og í ljósi þess að það er hins vegar lítt rökstutt og ekki að öllu leyti skýrt, er ástæða til þess að vanda sig við vinnubrögð. Margir hafa talið sig bæra til þess að skilja álitið til hlítar án þess að hafa legið yfir því lengi. Það er sannarlega gott að slík gáfumenni leynist í hópi vorrar þjóðar. En affararsælla er örugglega að skoða það vel og vandlega. Hér er um að ræða stórt mál, sem skiptir efnahag okkar miklu máli og viðbrögð okkar við áliti þessu getur því haft afleiðingar.
Ekki síst vegna þess að svo virðist sem álitið sé mjög í andstöðu við niðurstöðu Hæstaréttar sem tekið hefur fyrir svipuð úrlausnarefni og mælt á kvarða stjórnarskrár okkar. Við vitum líka að fiskveiðikerfi framseljanlegra fiskveiðiréttinda, líkt og okkar, er algengt víða um heim þar sem sjávarútvegur er þróaður.
3.1.2008 | 09:16
Tími hins þrönga sjónarhorns
Áramótin eru tími uppgjöra. Ekki er óalgengt að menn séu kvaddir til og þeir beðnir um að segja álit sitt á helstu atburðum líðandi árs. Þetta er oft fróðlegt. Bæði fyrir það sem sagt er og einnig í ljósi þess sem ekki er sagt. Það er kannski til marks um sjálfhverf viðhorf þess sem hér stýrir tölvubendli að athygli mín beindist ekki síst að því sem ekki var sagt. Þögnin getur nefnilega verið ótrúlega upplýsandi.
Sumpart má sjá af áliti manna að minni þeirra nær oft til ný liðinna atburða og því falla atburðir sem gerast fyrr á árinu frekar í gleymskunnar dá. Það skýrir væntanlega sumt, en verður varla sagt um allt. Skrýtið var til dæmis að lesa að í svörum álitsgjafa mátti sjá að ofar voru í sinni þeirra, hinir dramatísku dagar þegar borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík féll, en alþingiskosningarnar í vor og stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hefði þó mátt ætla að alþingiskosningar, lok 12 ára stjórnarsamstarfs og myndun ríkisstjórnar tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna gætu ratað inn í analýsur um minnisstæða atburði. Segja má að í umfjöllunum hafi þessari atburðir verið sem lítil neðanmálsgrein.
Annað vakti líka athygli - og furðu. Það var til dæmis áberandi að í uppgjöri um atvinnulíf og efnahagsmál, var samviskusamlega sneitt hjá því að leita álits allra helstu útflutningsgreinanna. Kastljósinu var nær eingöngu beint að skoðunum úr fjármálageiranum.
Hvergi gat til dæmis að líta viðhorf fólks í sjávarútvegi. Hefði þó mátt ætla að forvitnilegt væri að lesa eða heyra skoðanir manna í þeirri grein sem hefur mátt búa við gríðarlegar sviptingar á nýliðnu ári, sem hafa mun áhrif á framvindu hins nýja árs. Niðurskurður aflaheimilda og sviptingar á gjaldeyrismörkuðum hafa mikil áhrif á þessa burðargrein íslensks atvinnulífs. Það var þó ekki tilefni til hjá nokkrum fjölmiðli að fjalla um það, svo einhverju nemi.
Önnur stór og - og mjög vaxandi útflutningsgrein - stóriðjan, var heldur ekki til umfjöllunar. Var þó árið 2007 stórt ár á þessu sviði. Fjarðarál, stærsta stóriðjuverið okkar var til dæmis gangsett, Kárahnjúkavirkjunarframkvæmdum var nær lokið. Segja má að í fyrra hafi því verið brotið í blað á þessu sviði. Það vakti þó ekki áhuga fjölmiðla.
Þriðja stóra útflutningsgreinin - ferðaþjónustan - sló enn nýtt met á síðasta ári. Þar er vöxtur mikill og næsta stöðugur. Ekki var - með einni undantekningu þó - leitað eftir sjónarmiðum forystufólks úr þessari atvinnugrein.
Þess í stað var umfjöllun um atvinnulíf nær eingöngu bundin við skoðanir forystumanna úr fjármálageiranum og fjárfestingarfyrirtækjum. Árið í fyrra var sannarlega viðburðarríkt á þessu sviði og verðskuldaði því umfjöllun. En finnst engum full vel í lagt ,að kalla eftir viðhorfum fulltrúa nær allra fyrirtækja á þessu sviði, sem ná máli, en skeyta ekki um skoðanir annarra mikilvægra atvinnugreina?
26.12.2007 | 18:20
Gleðileg jól - góð bókajól
Jólahátíðin, hátíð ljóss og friðar hefur liðið hjá í minni fjölskyldu eins og vera ber. Við höfum átt hátíðlegar og yndislegar stundir saman; hist, glaðst, lesið, gert vel við okkur í góðum mat, treyst fjölskylduböndin og notið okkar í lestri góðra bóka. Og síðan gerðum við eitt sem aldrei hefur verið iðkað svo um jól á okkar heimili; við horfðum saman á dvd diska sem við höfðum keypt okkur. Það er góð og afar fjöslylduvæn iðkan.
Nú skal þessi vettvangur nýttur til þess að senda öllum þeim sem þessar línur les innilegar jólaóskir með ósk um farsæld og frið.
Sá prýðilegi siður að lesa góðar bækur hefur verið ágætlega nýttur. Að baki er bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalmann Stefánsson. Hreint mögnuð bók. Sjálfur þykist ég sannfærður um að sögusviðið sé utanvert Ísafjarðardjúpið um og fyrir aldamótin 1900. Þannig er verstöðin Bolungarvíkin sjálf, en Plássið í bókinni hlýtur að vera Ísafjörður. Þetta er gríðarlega áhrifarík bók, vel skrifuð og leiðir mann inn í þann harðneskjulega heim sem úræði á opnum, rónum sexæringi var við Íslandsstrendur. Bókin er skáldsaga, en það er greinilegt að höfundur hefur kynnt sér aðstæður þær sem hann skrifar um, afskaplega vel. Hugtök sem hann vitnar til, má lesa um í hinum frábæru ritum Jóhanns Bjarnasonar, Áraskip og Brimgnýr og styrktu mig í þeirri skoðun að sögusviðið sé heimabyggðin mín og nágrenni. Ýmsar lýsingar úr Plássinu má heimfæra á Ísafjörð. Það er þó ekkert aðalatriði og vel má vera að aðrir þykist kenna þar aðrar slóðir. Mestu máli skiptir að hér er á ferðinni athyglisverð og vel skirfuð bók.
Áður hafði ég lesið hina frábæru bók Hrafns Jökulssonar, Þar sem vegurinn endar, sem ég keypti mér strax við útgáfu hennar. Sú bók er sömuleiðis snilldarlega stíluð, skrifuð af mikilli kunnáttu en ekki síst af væntumþykju um þær fögru slóðir Árneshreppinn, sem höfundur ann bersýnilega. Um þá bók verður fjallað betur síðar hér á þessari síðu.
En síðast en ekki síst skal hér getið um stórvirkið hans Engilberts Ingvarssonar vinar míns, Undir Snjáföllum. Þættir um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd. Um þá bók ritaði ég á bb.is og einnig á Strandir.is. Þessa bók ætti enginn sá er áhuga hefur á byggðasögu; sérstaklega sögu byggðar við Djúp, að láta framhjá sér fara. Hún er í rauninni algjört afrek og hefur bjargað ómetanlegum upplýsingum frá glatkistunni.
Um þessa bók skrifaði ég í framangreindum miðlum: "Hún er holl lesning okkur nútímafólki sem ekki þekktum þessa tíma, nema af óljósri afspurn. Bókin er verðugur bautasteinn þess mannlífs sem á Snæfjallaströndinni var lifað og nægjanlegt þakklæti verður ekki fært í orð, til Engilberts Ingvarssonar fyrir að varpa ljósi á þessa einstæðu sögu, sem verðskuldar að vera minnst, með svo ágætri bók."
19.12.2007 | 23:53
Tröllasögunum vísað á bug
Brottkast á fiski er vitaskuld alltaf óviðunandi. Og þó að brottkastið sé lítill hluti heildaraflamagnsins, getum við vitaskuld ekki sætt okkur við að það eigi sér stað. Einhverra hluta vegna telja sumir sér henta að segja miklar tröllasögur af brottkasti og heimfæra þær sögur upp á heildina. Mælingar og athuganir sem hafa verið gerðar benda sem betur fer til hins gagnstæða. Sömuleiðis er það brottkast sem hér mælist aðeins lítið brot þess sem viðgengst víða annars staðar.
Nýleg birting á athugunum Hafrannsóknarstofnunar, undir forystu Ólafs Karvels Pálssonar fiskifræðings segja okkur að brottkastið sé ekki mikið á þeim tegundum sem mældar voru. Það breytir því þó ekki að óviðunandi er það engu að síður.
Samkvæmt tröllasögunum á brottkast hér á landi að nema tugum þúsunda tonna. Aldrei hafa verið færðar nokkrar sönnur á þetta, enda útreikningarnir fremur ættaðir úr reikningskúnstum Sólon Íslanduss en frá raunvísindum samtímans. Engu að síður hafa menn látið sig hafa það að bera slíkt á borð fyrir alþjóð; og það menn sem ætlast til að mark sé á þeim tekið.
Sé litið yfir lengri tíma bendir flest til að brottkast hafi minnkað. Það segja einnig starfandi sjómenn. Þannig hefur Örvar Marteinsson skipstjóri í Ólafsvík bent á að úrræðin sem fiskveiðistjórnarkerfið hafi til að bera, gefi mönnum kost á því að forðast brottkast. Við vitum líka að sjómenn og útvegsmenn ganga almennt vel um auðlindina og tal um annað er afskaplega ósanngjarnt.
Við vitum að brottkast getur sveiflast nokkuð á milli einstakra ára. Skv. mælingu Hafrannsóknarstofnunar er það ívið meira árið 2006 en árið 2005 í þorskinum. Brottkast á ýsu hefur einnig aukist og það hlutfallslega meira. Athyglisvert er einnig að brottkast á ýsu er meiri en í þorski. Þetta stangast mjög á við það sem menn segja oft í umræðunni um að minni aflaheimildir stuðli að brottkasti. Eins og kunnugt er hafa aflaheimildir í þorski minnkað verulega en aukist að sama skapi þegar kemur að ýsunni. Engu að síður er þróunin þessi á milli áranna.
Aðalatriðið er þó ekki að stara á einstök ár heldur horfa fremur á þróunina. Sama er að segja um brottkast sem mælt er eftir veiðiaðferðum. Þar eru sveiflurnar sömuleiðis umtalsverðar. Hér kunna þó að vera á ferðinni vísbendingar sem hafa ber í huga, þó heildarmyndin skipti þó mestu máli. Viðfangsefnið er viðvarandi og þar skiptir mestu að beita hagrænum aðferðum í bland við virkt og eðlilegt eftirlit.
10.12.2007 | 17:27
Hver lítur eftir hagsmunum litlu hluthafanna?
Þeir miklu sviptivindar sem nú ganga yfir íslenskt viðskiptalíf kalla á að menn sýni mikla gætni. Í húfi eru miklir hagsmunir. Hagsmunir þeirra sem eiga í fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði. Gleymum því ekki að umtalsverður hluti sparnaðar margra - svo sem almennings í landinu - er bundinn í þessum félögum. Í annan stað má nefna að geta lífeyrissjóðanna til að standa undir framtíðarskuldbindingum sínum ræðst af árangri á hlutabréfamarkaðnum; umtalsverðir fjármunir þeirra eru nefnilega bundnir í hlutabréfum. Nú reynir líka á trúverðugleika þeirra sem stýra ferðinni í þeim félögum sem eru á hlutabréfamarkaðnum. Og loks er ljóst að þróun hlutabréfanna getur haft áhrif á efnahagslíf okkar almennt.
Meðal annars af framangreindum ástæðum skiptir máli að allar ákvarðanir séu gagnsæjar og verði hafnar yfir alla gagnrýni. Hin venjulegu meðal- Jón og hún meðal-Gunna treysta því að fjármunir sem þau festa í félögum sem lúta eiga agavaldi skipulegs og lögbundins hlutabréfamarkaðar, séu meðhöndlaðir þannig að þau njóti hins sama og þess sem svo kallaðir fagfjárfestar búa við.
Þess vegna þarf að liggja fyrir að verðlagning nýs hlutafjár sé óumdeild og sanngjörn. Það þarf líka að vera óumdeilt þegar tengdir aðilar eru að selja og kaupa hlutabréf sín í millum, í almenningshlutafélögum. Uppgjörsreglur þurfa sömuleiðis að vera þannig að þær mæli eignir, skuldir, tekjur og gjöld með sambærilegum hætti, alltaf, ætíð og alls staðar. Það vakna undireins spurningar þegar verðlagning hlutafjár í slíkum viðskiptum rímar ekki við markaðsverðið
Það var nefnilega heilmikið afrek þegar almennur hlutabréfamarkaður varð að veruleika hér á landi. Það skipti máli fyrir atvinnulífið, það skapaði almenningi ný færi til eignamyndunar, það opnaði nýjar leiðir til fjármögnunar fyrir ýmis fyrirtæki og var auðvitað ástæða þess að menn gátu lagt af stað með nesti sitt og nýja skó út í heiminn; það sem menn kalla núna útrás.
Traust almennings var þess vegna forsenda þess hversu vel tókst til.
Hver á þá að gæta þessara hagsmuna. Sjálfur lagði ég fram frumvörp sem var ætlað að gæta hagsmuna litlu hluthafanna. Það var gert að gefnu tilefni. Hin gríðarlega valdasamþjöppun í atvinnulífi okkar, stærð fyrirtækjanna og það að þræðir þeirra tvinnast svo vítt um samfélagið gerir það að verkum að við þurfum að gæta trúverðugleikans, gagnsæisins og sanngirninnar núna, betur en nokkru sinni áður