Svarið er auknar, fjölbreyttari og betri rannsóknir

Hafrannsóknir aukast með áherslu á þorskÉg gerði grein fyrir nokkrum þeirra aðgerða sem snúa að sjávarútvegsráðuneytinu og við erum nú að hrinda í framkvæmd í kjölfar niðurskurðar á þorskafla í ræðu við upphaf þings Farmanna og fiskimannasambands Íslands, sem hófst í dag. Þegar litið er yfir sviðið er alveg ljóst að þessar aðgerðir eru af margs konar toga og eru hugsaðar sem viðbrögð við ábendingum margra þeirra sem hafa gegnrýnt ákvörðunina um niðurskurð aflaheimilda. Hér eru líka á ferð hlutir sem segja má að hafa komið fram vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið á umliðnum árum um fiskveiðiráðgjöfina meðal annars.

Það sem ég nefndi var meðal annars þetta:

Nú er verið að auka verulega fjármuni til hafrannsókna. Menn greinir á um áreiðanleika þeirra eins og sakir standa. En um hitt held ég menn séu þó sammála, að svarið sé ekki að draga úr þessum rannsóknum. Þvert á móti. Svarið er að efla þær á alla lund. Sérstaklega hafa menn fundið að því að forsendur og fyrirkomulag togararallsins sé orðið úrelt þing. Svar okkar er að leggja 150 milljónir aukalega á þriggja ára tímabili til að efla þessar grundvallarrannsóknir vegna stofnstærðarmatsins. Það er að mínu mati engin smáupphæð og enginn getur haldið því fram með rökum að það muni ekki um annað eins.

Hafrannsóknastofnunin hefur nú það verkefni að vinna að undirbúningi hins nýja togararalls, með sjómönnum og útvegsmönnum – þ.e, þeim sem gleggst vita um þessi mál. Nýlega var skipað í faghóp um þetta verkefni. Af hálfu Farmanna og fiskimannasambandsins voru Páll Halldórsson og Birgir Sigurjónsson tilnefndir. Frá LÍÚ eru Guðmundur Kristjánsson og Kristján Vilhelmsson og frá LS er Arthúr Bogason. Þá sitja fjórir fulltrúar Hafrannsóknastofnunarinnar í hópnum, Björn Ævar Steinarsson, Höskuldur Björnsson, Þorsteinn Sigurðsson og Jón Sólmundsson sem leiðir starfið.

Enn fremur veit ég að á næstu dögum kemur saman samstarfshópur um þorskrannsóknir sem hefur á að skipa sérfræðingum frá Hafrannsóknastofnuninni og mönnum úr útveginum, þ.m.t. fulltrúum skipstjórnarmanna allt í kringum landið og af mismunandi skipum. Hópurinn hittist árlega á tveggja daga fundi til að ræða gang þorskveiðanna á árinu og horfur. Slíkt samráð er afar vel til þess fallið að auka samhljóm í atvinnugreininni sem nauðsynlegt er að skapa.

Þá vek ég athygli á því að með okkar sértæku aðgerðum verða rannsóknir fjölbreyttari. Verið er að styrkja þau sjávarrannsóknasetur sem komið hefur verið á laggirnar úti um landið sem og útibú Hafrannsóknastofnunarinnar. Sérstakur samkeppnissjóður á sviði hafrannsókna sem ég beitti mér fyrir strax og ég settist í stól sjávarútvegsráðherra haustið 2005, verður nú tvöfaldaður og áherslum sérstaklega beint að þorskrannsóknum.

Umsóknarfrestur vegna þessara rannsókna á yfirstandandi ári er liðinn og vænti ég mikils af því starfi. Þetta leiðir af sér tvennt: Í fyrsta lagi eykst fjölbreytni rannsókna og þeim ábendingum er mætt að opna þurfi fleirum leiðir en hingað til að hafrannsóknum hér við land. Í annan stað verður þetta til þess að við löðum fram aukið rannsóknafjármagn, sem á að geta orðið til að auka heildarumfang hafrannsókna við landið.

Þetta er aðeins hluti af þeim verkefnum sem við höfum efnt til á vettvangi Sjávarútvegsráðuneytisins. Margt annað mætti nefna, svo sem þær aðgerðir sem beinlínis var gripið til í framhaldi af ábendingum skipstjórnarmanna. Um það verður fjallað síðar, en um þessi mál má lesa í ræðu minni á þingi FFSÍ í dag.




Jákvæð stórtíðindi og afneitun sumra

Það er gott að búa á ÍslandiÞær fréttir að að Íslendingar njóti bestra lífsgæða samkvæmt viðurkenndum staðli sem Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur unnið, eru auðvitað jákvæð stórtíðindi. Við skákum meira að segja hinum olíuauðugu nágrönnum okkar í Noregi. Þetta er mikil viðurkenning á íslensku samfélagi, sem ætla má að almennt hefðu menn fagnað.

Hér er ekki spurning um stjórn eða stjórnarandstöðupólitík. Hér er heldur ekki mál sem ætti að draga menn í einhverja aðra skoðanalega dilka. Ætla mætti að Íslendingar almennt, fögnuðu því þegar í ljós kæmi að þjóðfélag okkar væri þannig að hér séu bestu lífsgæði í heimi.

En það er ekki svo, því miður og kemur á óvart.

Það gekk fram af manni neikvæði nöldurtónninn sem birtist í þessari umræðu. Þingmenn úr Vinstri grænum og Frjálslynda flokknum fóru til dæmis í hefðbundna neikvæðni-gírinn sinn, þegar þessi mál voru rædd á Alþingi á þriðjudaginn. Undarlegt að menn geti aldrei haft sig í að skyggnast yfir sína pólitísku hundaþúfu.

Íslenska þjóðfélagið hefur tekið stórstígum framförum. Það hefur skapað okkur ný og algjörlega óþekkt færi. Við getum nú tekist á við viðfangsefni sem voru okkur svo gjörsamlega ofviða. Er skemmst að minnast þess hvernig íslenska hagkerfið í heild hefur ráðið við svo gríðarleg áföll sem skerðingu þorskafla, hvernig við höfum getað stóraukið framlög okkar til heilbrigðis og menntamála, samfara því að bæta lífskjör og stórhækka kaupmátt almennings.

Sem dæmi um stöðu okkar á þessum samanburðarskala þjóðanna má nefna, að velferðarríkið Danmörk, sem eitt sinn ríkti yfir okkur, vermir 14. sætið. Gamla breska heimsveldið er í 16. sætið, hin alþjóðlega fjármálamiðstöð Luxembourg er í því 18. Þýskaland sem menn kenndu einu sinni við efnahagsundur, er í því 22.

En við erum í því fyrsta, sem vekur þau viðbrögð helst í tilteknum ranni, að gera lítið úr og fara í stórfellda afneitun, eins og sá sem ekki vill viðurkenna raunveruleikann. Er þetta ekki dapurlegt?

Skýrslan segir ekki að allt sé í lagi í voru landi. Enda er það ekki þannig. Við vitum að fjölmargt má miklu betur fara, ekki síst á sviði byggðamála. En skýrsla Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir okkur að við búum í góðu samfélagi sem er í betri færum til þess að taka á slíkum viðfangsefnum, en aðrar þjóðir. Því eigum við að fagna.




Döpru vísindin minna á sig

Mynd IÞað er skemmst frá því að segja, að ef við notuðum sömu mælingu á verðlag og þjóðir Evrópusambandsins þá værum við á svipuðu róli og þær hvað verðlagsbreytingar áhrærir.Eins og ég benti á í ræðu á aðalfundi LÍÚ 25. október sl. Úti í Evrópusambandinu taka menn ekki tillit til þróunar húsnæðisverðs. Það gerum við hins vegar. Verðlag á húsnæði hefur þróast hér langt umfram annað. Knúið áfram af auknu lánsfjármagni úr bönkum og Íbúðalánasjóði og niðurgreitt með 5 til 6 milljarða vaxtabótum frá ríkinu. Allt í góðum tilgangi, en hefur orðið til þess að erfiðara er fyrir fólk - einkanlega ungt fólk - að eignast húsnæði. Þetta er gamla sagan um veginn til glötunar sem varðaður er góðum ásetningi.

Þegar það er rætt að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni er einkanlega bent á eitt gegn því. Semsagt að verðhækkun á húsnæði (eignum) sé vísbending um aukna einkaneyslu síðar. Eignamyndunin gefi með öðrum orðum færi á því að fá frekari fjármagnsfyrirgreiðslu til þess að nýta til alls konar annarra hluta. Við þekkjum það svo sem. Stórir og stöðugt stærri bílar, ennþá betra húsnæði, utanlandsferðir og sitthvað annað.

Nú hillir undir breytingar. Seðlabankinn hefur knúið upp stýrivexti sína. Vísar í umsvif þjóðarbúsins, vekur athygli á verðbólgunni eins og við mælum hana. Þess vegna eru stýrivextirnir svona háir. Og þeir eru farnir að bíta. Vextir hér á landi hafa hækkað í kjölfarið. Og til viðbótar eru aðstæður þannig á erlendum mörkuðum að það stuðlar einnig að hærri vöxtum. Það ríkir varúðarástandi á erlendum fjármálamörkuðum. Íslensku bankarnir þurfa að greiða gríðarlega hátt álag á fjármagn sem þeir sækja sér til útlanda. Sumir þeirra eru mjög háðir slíku fjármagni. Þetta fjármagn verða þeir að forvalta og bjóða það viðskiptavinum sínum við háu afgjaldi - vöxtum. Þetta er farið að taka í.

Auðsáhrifin sem einu sinni sköpuðust vegna hækkandi hlutabréfa og hærra húsnæðisverðs hafa gengið til baka hvað varðar hlutabréfin og nú spá menn því að húsnæðisverð muni hækka með hóflegri hætti. Skuldugir hlutabréfaeigendur eru farnir að selja bréfin sín, sem leiðir líka til lækkunar á verði þeirra núna.

Húsnæðisliðurinn fer þess vegna væntanlega að hækka með skaplegri hætti og meir í takt við annað verðlag. Hann hættir að verða sérstakt fóður til stýrivaxtahækkana. Réttlæting til aukinnar einkaneyslu og misgáfulegra fjárfestinga, sem hefur fundist með skírskotun til hærra húsnæðisverðs og hlutabréfahækkana er á förum úr hagkerfinu okkar. Þess hlýtur því að fara að gæta á verðbólgutölum og stýrivöxtum. Þessa mun einnig gæta á vinnumarkaðnum sem stuðlar að meira jafnvægi

Hagfræðin virkar nefnilega í báðar áttir í þessum fræðum eins og öðrum þáttum hinna döpru vísinda.




Blekkingartjöld og ímyndarsköpun

Kim Jong Il leiðtogi Norður-KóreuBeint fyrir framan mig á fundi hjá FAO á dögunum, sátu fulltrúar frá Norður Kóreu. Þeir virtust ekki vinamargir, en fögnuðu hins vegar innilega þegar vinir þeirra frá Burma ( Myanmar) gengu að borði þeirra. Sækjast sér um líkir. Þarna var greinilega fagnaðar- og vinafundur og undireins spurt hvort Kínverjar væru á næstu grösum.

Það er með Norður Kóreu eins og ýmis önnur ríki, þar sem mannréttindi eru fótum troðin og virðing fyrir einstaklingunum engin, að heiti ríkisins er skrautlegt. Það er svo að sjá að í þeim ríkjum þar sem orðspor á sviði mannréttinda er verst sé reynt að hafa heitin þannig að telja megi að þar sé sem himnaríki á jörð. Democratic People's Republic of Korea , eða Lýðræðislega alþýðulýðveldið í Kóreu, er til dæmis nafn Norður Kóreu, þar sem hvorki fer þó vel um alþýðu manna né ríkið á nokkurn hátt lýðræðislegt.

Við þekkjum þetta svosem frá tímum gömlu austurblokkarinnar. Alþýðulýðveldin voru alræðisríkin í Austur Evrópu kölluð. Ætli þetta sé ekki dæmi um tilraun til ímyndasköpunar, sem hvert mannsbarn sér þó í gegn um.

Lýðræðisríkin skreyta sig ekki með þess konar heitum. Þar sem ástand mannréttinda er gott, þurfa menn ekkert að dylja sig með felulitum eða sveipa sig blekkingartjöldum, fráleitrara nafngifta.

Okkar fámenna ríki nýtur á vettvangi eins og FAO mikils álits. Árangur okkar við auðlindanýtingu og uppbyggingu sjávarútvegs sem atvinnugreinar skapar okkur gott orðspor. Eftir að ég hafði til að mynda flutt ræðu mína sem fjallaði um sjávarútvegs og landbúnaðarmál, kom til okkar fulltrúi fiskimáladeildar FAO, til þess að fá eintak af ræðunni. Orð Íslendinga vigta í umræðunni sagði hann, sem gladdi vissulega.

Á fjölþjóðlegum vettvangi getum við látið til okkar taka á efnislegum forsendum og það eigum við sannarlega að gera. Samstarf okkar við FAO er gott og þar má sjá ýmislegt sem við höfum haft áhrif á til góðs. Við þurfum hins vegar ekki að skreyta okkur með stolnum eða vafasömum fjöðrum. Okkur nægir bara að koma til dyranna þar eins og við erum klædd og leggja með okkur í umræðuna eitthvað af því sem við höfum að miðla.




Svona er pólitíska lífið afstætt

Mjólkurframleiðsla - mynd: www.bbl.isUmræður um frumvarp sem ég mælti fyrir á Alþingi í dag, endurspegluðu á vissan hátt afstöðu og stöðu stjórnmálaflokkanna sem áttu fulltrúa í umræðunni. Frumvarpið gengur út á að hverfa frá úreltu og þarflausu millifærslukerfi í mjólkuriðnaðinum. Annars vegar erum við að falla frá tilgangslausu verðmiðlunarkerfi, sem átti sína réttlætingu, en er alveg þarflaust í dag. Hins vegar - og efnislega skiptir það meira máli - er verið að afnema verðtilfærslukerfi, þar sem á vettvangi verðlagsnefndar búvara var verið að taka ákvarðanir sem höfðu bein áhrif á verðhlutföll á milli einstakra framleiðsluvara í mjólk.

Slík verðtilfærsla átti sömuleiðis sína réttlætingu, en ekki lengur. Þessi verðmiðlun hafði ekkert með heildarreikning fjölskyldna til kaupa á mjólkurafurðum að gera. Einungis var þessu kerfi ætlað að færa fjármuni á milli einstakra vöruflokka þannig að leiddi til verðhækkunar á einum lið á kostnað annars.

Samkomulag er um að breyta þessu á milli bænda og verkalýðshreyfingar og afurðastöðvanna.

Í umræðunum á Alþingi í dag mátti sjá allan sjóndeildarhringinn í afstöðunni til þessa máls. Fulltrúi Samfylkingar, Árni Páll Árnason, vildi ganga enn lengra og afnema meðal annars umdeilda 71. grein sem undanþiggur mjólkuriðnað frá ákvæðum samkeppnislaga. Framsóknarmaðurinn Höskuldur Þórhallsson talaði af gætni og með málefnalegum hætti, spurði um einstök atriði frumvarpsins, en var í meginatriðum býsna jákvæður í garð frumvarpsins.

En lífið getur verið afstætt. Það sannaðist í kvöld.

Því kom nú ekki röðin að Jóni mínum Bjarnasyni. Og þvílík afturhaldsræða! Ég hafði á orði að þegar maður væri búinn að hlusta á málflutning Jóns míns blessaðs, þá virkaði málflutningur Framsóknar sem hið argasta markaðshyggjutrúboð! Ræðan var samfelldur óður til fortíðarinnar og skemmti ég mér dável undir henni.Svona purkunarlaus og einlæg ræða í þessum fortíðartóni er mikið fágæti sem ekki er hægt annað en kætast yfir. Skap mitt var ágætt þegar ég gekk til umræðunnar síðdegis í gær, en ég var bókstaflega kátur eftir að hafa heyrt í félaga Jóni.

Svona efasemdir gagnvart breytingum geta verið upplífgandi á stundum. Kannski vegna þess að þær eru dálítið fágæti og fágæta hluti vill maður varðveita. Svona sjónarmið hafa eins konar verndargildi. Og vel getur maður verið rólegur. Slík rarítet verða til staðar á meðan VG vermir bekki þingsins.




Orð í tíma töluð

SparnaðurÞegar forsætisráðherra hvetur til sparnaðar í þjóðfélaginu, þá ætti það að hljóta almenna velþóknun. Orð Geirs H. Haarde forsætisráðherra í útvarpinu nú á dögunum í þessa veru, voru sannarlega í tíma töluð. Vextir eru háir, sparnaðarhlutfall of lágt, ójöfnuður í viðskiptum við útlönd, landsmenn að verða aðhlátursefni fyrir verslunaræði í útlendum verslunarútibúum á höfuðborgarsvæðinu og umsvif í framkvæmdum umfram það sem vinnumarkaður okkar ræður við.

Þess vegna var það afskaplega sérstakt að lesa neikvæði viðbrögð einstakra álitsgjafa í fjölmiðlum í dag vegna orða forsætisráðherra.

Við þurfum á minni eyðslu að halda og meiri sparnaði. Víst er að ekki eru allir í færum til þess að rifa sín segl. Þeir sem lökust hafa kjörin munu vísast ekki eiga þess kost að leggja mikið til hliðar. Enda beindi forsætisráðherra orðum sínum til þeirra sem hefðu borð fyrir báru.

En í þjóðfélagi sem einkennist af mikilli neyslugleði, metinnflutningi á lúxusjeppum, margföldun utanlandsferða og þvíumlíku, er sannarlega rúm til aukins aðhalds.

Í sumum löndum er forsjálni almennings vandamál. Þó vextir séu lækkaðir ofan í nánast ekkert, taka Japanir að sögn, ekki upp pyngju sína til þess að eyða. Þeir safna til hinna mögru ára. Hjá okkur eru þessu öfugt farið, eins og við vitum. Þegar vextir hækka innanlands sækjum við okkur bara aukinn neyslueyri í formi erlendra lána, af því þar eru vextirnir lágir. Fyrir ofan okkur dinglar svo Damóklesarsverð gengisáhættunnar. Greiningardeildirnar í bönkunum eru allar sammála um að gengi krónunnar muni lækka á næsta ári og hækka þá skuldir þeirra sem skulda í erlendri mynt. Slíkri hækkun lána verður ekki mætt með auknum kaupmætti, því við svoleiðis aðstæður myndast misgengi, sem enginn ætti að gleyma.

Þrátt fyrir þetta erum við lukkuleg þjóð. Hér er atvinnustig hátt, lífskjör hafa batnað, störfum fjölgað í heildina tekið og möguleikar þjóðarinnar til þess að njóta velsældar hafa aldrei verið svona miklir.

En orð forsætisráðherra voru í tíma töluð. Þau voru mælt af gefnu tilefni. Og jafnvel þeir sem vernda vilja stundarhagsmuni sína, verða að sýna umræðunni þá virðingu að hefja sig upp úr sérhagsmununum sínum. Ofhitnun efnahagslífsins, þensla og skortur á sparnaði hjá þeim sem tvímælalaust geta dregið úr útgjöldum sínum, hefnir sín að lokum. Og þá mega glataðir stundarhagsmunir sín lítið né stoðar mönnum að beita lítt dulbúinni  vörn í umræðunni í þágu sérhagsmuna sinna.




Hver er skoðun VG á samþykkt Landsvirkjunar?

Búrfellsvirkjun í ÞjórsáSú skynsamlega og rökrétta ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar frá því fyrir helgi, um að selja ekki orku að sinni til stóriðjufyrirtækja á suðvesturlandi var rædd í þinginu í gær. Upp úr umræðunni stóð að Vinstri grænir höfðu ekki burði til þess að segja frá afstöðu sinni til þessa máls. Flestum lék forvitni á að heyra af skoðun flokksins til málsins. Um er að ræða ákvörðun sem ætla hefði mátt að félli VG vel í geð. Hætta við að selja orku til álverksmiðja, en selja þess í stað til annarra kaupenda; svo sem netþjónabúa. Við slíka iðju starfar vel menntað fólk, konur og karlar, þangað má sækja margvísleg störf. Þetta virðist manni eins konar uppskrift að stefnu sem VG hefði fallið í geð.

En er það svo?

Ekki glitti í það að VG lýsti ánægju sinni með þessa stefnumótun. Það var bara á ferðinni sama gamla sífrið. Vantaði þó ekki að stórkanónur VG í tækju þátt í þessum umræðum um orku og stóriðjumál. Væru á vettvangi umræðunnar. Bæði Steingrímur J. ( sem raunar hóf umræðuna) og Kolbrún Halldórsdóttir tóku til máls.

Kannski stafar þetta af því að í raun er VG eini flokkurinn sem núna heldur úti virkri stóriðjustefnu, eins og flokkurinn hefur nefnt stuðning við uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Flokkurinn hefur öll tögl og hagldir í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Svo er manni að minnsta kosti sagt þegar kemur að stórmálum eins og REI og skyldum hlutum. Nú vitum við að Orkuveita Reykjavíkur ætlar að sjá nýrri stóriðju í Helguvík fyrir orku. Annarri álverksmiðjuuppbyggingu er hins vegar ekki til að dreifa næstu árin í landinu. Stóriðjustefnan er þess vegna þessi dægrin ær og kýr VG. Þar er rekin "stóriðjustefnan" á Íslandi í dag. Í ljósi þess ber því að skoða hik talsmanna flokksins þegar kemur að því að tjá sig um stefnumörkun stjórnar Landsvirkjunar.

Flóknara er það mál því ekki. Álverksmiðjan á Bakka við Húsavík er ekki á framkvæmdastigi fyrir en að liðnum einhverjum árum og samþykkt stjórnar Landsvirkjunar snertir þau framkvæmdaáform ekki.

Svo var blessaður borgarstjórinn spurður í sjónvarpinu í gærkveldi út í áhrifin af stefnumörkun stjórnar Landsvirkjunar á áform OR. Svarið var í anda hins skýra vörumerkis borgarstjórans. Fullt af fallegum orðum, en lítil merking. Fyrir þá sem hafa gaman af getraunum og spurningakeppnum er ábyggilega áhugavert að velta fyrir sér merkingum þessara fögru orða-umbúða. Áhugaleysi höfundar þessara lína á slíkri ágiskanakeppni meinar hins vegar að hér verði þess freistað að ráða í orð borgarstjórans.




Hver vill yfirgefa dalinn í landi Sáms frænda?

Sámur frændiÞað er ekki nóg með að krónan sýni alltof mikinn styrk þessi misserin. Gengissveiflur á erlendum mörkuðum ýkja svo til viðbótar stöðu krónunnar. Hinn bandaríski dalur er óvenjulega ræfilslegur gagnvart öðrum myntum, svo mjög að slíkt er farið að hafa áhrif um víða veröld. Til dæmis blasir við að hið lága gengi bandaríkjadals hefur áhrif á verðþróun á olíu. Innflytjendur sem vinna á Asíumörkuðum og hafa selt varning sinn til Bandaríkjanna eru komnir í standandi vandræði. Og svo þekkjum við það héðan, að hlutur Bandaríkjanna í útflutningi frá Íslandi hefur snarminnkað á sama tíma og bandarískir bensínhákar eru fluttir hingað til lands í stórum stíl.

Við sjáum á þessu að sveiflur geta líka verið miklar á stóru og öflugu myntsvæði. Það er því engin allra-meina-bót að spyrða sig við stórt myntbandalag. Það ættu menn að hafa í huga sem daginn út og inn ákalla evruna.

Ég vék raunar að þessu í ræðu minni á LÍÚ þinginu 25 október. Þar sagði ég eftirfarandi:

"Gengissveiflur eru í sjálfu sér ekki nýjar meðal þjóða og þótt íslenska krónan sé lítill gjaldmiðill þá sjáum við að sveiflurnar eru líka til staðar í öðrum gjaldmiðlum. Bandaríkjadalur hefur til dæmis aldeilis ekki verið laus við sveiflurnar. Sé hann borinn saman við aðrar mynttegundir sjáum við það glöggt. Telst þó myntsvæði dalsins ekki vera neitt smáræði. En þrátt fyrir þessar sveiflur hef ég ekki heyrt þess getið að málsmetandi menn í landi Sáms frænda hvetji til þess að hverfa frá gjaldmiðlinum sínum, eins og nú er svo tíðkanlegt hér á landi.

 Ef við svo lítum á þróun einstakra mynta gagnvart krónunni okkar þá er eftirfarandi að segja. Bandaríkjadalur er um 13% veikari gagnvart íslensku krónunni en hann var um síðustu áramót, sterlingspundið tæplega 10% veikara og evran 7% veikari. Gengisvísitalan sjálf sýnir að krónan hefur að meðaltali styrkst um 9% en þó er þess að geta að ýmsir gjaldmiðlar hafa lotið annarri sveiflu. Kanadadalur hefur t.d. styrkst gagnvart íslenskri krónu á þessu ári og norska krónan aðeins veikst lítilsháttar. Þannig að við sjáum að sveiflurnar geta verið á marga vegu."

Breytingin er orðin ennþá ýktari frá því að þessi orð voru þau sögð. Gengi dalsins gagnvart krónu hefur breyst um ríflega 16% frá áramótum, gengið gagnvart evru helmingi minna, eða um 8%. Og merkilegt nokk; kanadíski dalurinn hefur styrkst um 4% gagnvart krónunni. Sjálf gengisvísitalan hefur breyst um 10 prósent ríf.

Sveiflur einkenna því gjaldeyrismarkaðina, sem ýkja því hina stekru stöðu okkar gegnvart einstökum myntum.




Kvöldstundir með Gísla

Elfar Logi Hannesson túlkar Gísla í rómuðum einleikVegna þess að ég er sem betur fer ekki þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn, né framsóknarmaður yfirhöfuð get ég óhræddur ljóstrað því upp að ég sæki núna tíma hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, þar sem snilldarverkið Gísla saga Súrssonar er viðfangsefnið. Í Framsóknarflokknum mega þingmenn ekki stunda nám eins og kunnugt er, öðruvísi en verða undirorpnir gagnrýni flokkssystkina sinna fyrir tiltækið. Þessu er sem betur fer ekki svona farið í flokknum mínum. Þess vegna fer ég á þriðjudagskvöldum með Sigrúnu konu minni í tíma í Gísla sögu

Magnús Jónsson leiðir þennan góða hóp sem kemur saman á þriðjudags og miðvikudagskvöldum til þess að kryfja söguna af útlaganum vestfirska, sem hrífur hvern þann sem söguna les. Textinn er mergjaður, fullur af snjöllum orðatiltækjum, myndrænum lýsingum hvar sem borið er niður.

Fyrir nú utan atburðarrásina sjálfa. Ást og afbrýði, lýsing á miklum görpum, persónusköpun og frásögn þar sem spunnið er saman ótrúlegustu fléttum mannlegra örlaga.

Svo spillir það ekki fyrir að vettvangur sögunnar er svæði sem ég þekki vel. Vestfirðir eru sögusviðið. Haukadalur í Dýrafirði, Breiðafjörður og loks Geirþjófsfjörður, svo nokkrir landfræðilegir hápunktar sögunnar séu nefndir.

Fyrir nokkrum árum gengum við Sigrún með vini okkar Þóri Erni Guðmundssyni á Þingeyri um sögusviðið í Haukadal. Hann er manna kunnugastur; jafnt sögunni sem sögusviðinu. Þetta var ógleymanlegur eftirmiðdagur og frásögnin birtist manni sem ljóslifandi mynd. Í sumar bætti ég svo um betur. Við Þórir gegnum saman oní Geirþjófsfjörð í sumar og áttum þar góðan tíma, í þeirri einstöku náttúruperlu þar sem sagan drýpur af hverju strái. Um Þóri vin minn hef ég sagt og segi hvenær sem er, það sem hann ekki veit um Gísla  sögu er ekki þess virði að vita. Þessari ferð okkar í Geirþjófsfjörð lýsti ég í bloggi 2. ágúst síðast liðinn.

En aftur að tímunum hjá Magnúsi, í Gísla sögu. Þarna er notalegt að verja kvöldstund vikulega. Verð þó að játa að fundir hafa spillt nokkuð fyrir mér tímasókninni, en það breytir því ekki að þetta hafa verið lærdómsríkar kvöldstundir. Mörg andlit nemendanna eru kunnugleg frá fyrri násmskeiðum sem ég hef sótt; jafnvel alveg frá þeim tíma sem ég sótti námskeið Jóns Böðvarssonar í Njálu forðum tíð.

Það segir svo heilmikla sögu um hvernig Íslendingasögurnar lifa í hugum okkar nútímafólks að námskeiðið í Gísla sögu var svo vel sótt að Magnús kennari okkar mátti bæta við nýrri kvöldstund, til þess að geta hleypt okkur öllum, áhugasömum nemendunum að. Þökk sé honum, þökk sé Endurmenntunarstofnun.

En umfram allt, snilldarsagan af Gísla Súrssyni er sígilt snilldarverk. sem mun eiga erindi við lesendur um ókomna tíð.

 




Vel heppnað útboð

Matvörur lækka í verðiNýtt útboð á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum sem fram fór um síðustu helgi tókst vel. Árangurinn var sá sem að var stefnt. Þetta útboð tryggir það sem ætlunin var, að auka fjölbreytni í matvöruúrvali, stuðla að lægra vöruverði, en án þess að raska stöðu íslensks landbúnaðar.

Þannig var að tollkvótar voru boðnir út í vor. Þá gerðist það, sem aldrei hefur hent áður, að tiltekin fyrirtæki blokkeruðu í raun þennan innflutning. Það var klárlega í blóra við ásetning stjórnvalda og þau markmið sem sett voru varðandi innflutninginn. Því brugðum við á það ráð að hefja nýtt ferli. Lýst var eftir áhugasömum sem bjóða vildu að nýju í ónotaða kvóta. Jafnframt voru settar strangar reglur til þess að koma í veg fyrir að leikurinn frá því í vor endurtæki sig. Niðurstaðan var sú að tollkvótarnir gengu út, þeir verða staðgreiddir. Tilboðsupphæðirnar voru verulega lægri en í vor. Dæmi voru um að allt að 66% lægra hafi verið boðið í þess kvóta.

Að öllu óbreyttu á þetta að leiða til lægra vöruverðs. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig það skilar sér í vasa neytenda. Ekki er ástæða til annars en að ætla að svo verði. Innflytjendur hafa talað með þeim hætti. Vonandi tryggir samkeppni að svo verði.

Athyglisvert er hins vegar að fjölmiðlar hafa sýnt máli þessu lítinn áhuga - ennþá að minnsta kosti. Hafa þeir þó ýmsir sýnt innflutningsmálum landbúnaðar töluverðan áhuga, auk þess sem umræðan um lægra matvöruverð er sífellt vakandi.

En aðalatriðið er þó það að vel tókst til. Ferlið sem leiddi til þessarar niðurstöðu var gagnsætt. Allir aðilar sitja við sama borð og niðurstaðan sú sem að framan er lýst.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband