Sama verðbólga og á evrusvæðinu

euroVerðbólga hér á landi er hin sama og á evrusvæðinu. Þetta sést ef notaður er hinn samræmdi mælikvarði sem lagaður er til grundvallar á evrusvæðinu þegar verðbólgan er mæld. Þetta er athyglisvert, þó ekki sé það nýtt af nálinni; en stangast auðvitað á við umræðuna sem fer oft fram hér á landi um að verðlagsþróun sé ekki í samræmi við það sem er að gerast í Evrópu.

Verðbólgan í september, mæld á 12 mánaða kvarða var 2,1 prósent, rétt eins á evrusvæðinu. Við mælum hins vegar verðlagsbreytingar á húsnæði. Það hefur hækkað langt umfram allt sem þekkist og því er verðbólgan hér þetta há. Ef við notuðum sömu aðferðir og á hinu ástsæla og marglofaða evrusvæði væru verðlagsbreytingar hér á landi hinar sömu og suður í Evrópu.

Það sem meira er. Stór lönd á evrusvæðinu, svo sem Þýskaland og Spánn búa við mun meiri verðbólgu en við. Var þó Þýskaland eitt sinn talið hið óvinnandi vígi traustrar efnahagsstjórnar og gætilegra fjármála. Á Spáni hefur verið mikill vöxtur efnahagslífs og eftirspurn útlendinga eftir húsnæði á sólbökuðum ströndunum við Miðjarðarhaf ýtt upp verðlagi á húsnæði. Þar telst það þó ekki til verðlagstbreytinga.

Hér á landi heldur Seðlabankinn vöxtum sínum í hæstu hæðum, trúr lögbundnu verðlagsmarkmiði sínu. Á evrusvæðinu þar sem sömu prinsípp gilda eru viðmiðin önnur, vextirnir lægri og gengið sligar ekki útflutningsgreinarnar eins og við höfum bitra reynslu af hér á landi.

Evrusinnar lofsyngja hina evrópsku mynt og telja að við eigum ekki annars úrkosta en kasta gjaldmiðli okkar fyrir borð. Í fyrirmyndarríkinu Evrulandi sé allt með öðrum og betri róm. Þó er verðbólgan þar sú hin sama og hér. Ef við notuðum sama viðmið má ætla að vextirnir væru aðrir og skaplegri, gengið veikara og stöðugra.

Það er engin þörf á því að yfirgefa gjaldmiðilinn okkar, til þess að afhenda efnahagsstjórntæki okkar í hendur annarra þjóða, þegar við blasir að hér er hagvöxtur betri en í samkeppnislöndunum okkar, lífskjörin batna hraðar og verðbólgan - mæld á samanburðarhæfan kvarða - hin sama og í löndum þeim sem brúka evruna.




Rýtingsstunga í bak Halldórs Ásgrímssonar

bingihalldorSegja má að koss Alfreðs Þorsteinssonar á tárvota hvarma Björns Inga Hrafnssonar og sem þjóðin varð vitni að í sjónvarpinu - hafi verið innsigli hins nýja meirihluta í Reykjavík. Þetta var viðeigandi. Alfreð er sjálfur guðfaðirinn( skrifað hér með litlum staf) og slæmir kossi á sitt pólitíska sköpunarverk.

Upphafið markar svo framhaldið. Það var ofið svikum af hálfu Björns Inga Hrafnssonar og snúið utan um hagsmuni en ekki hugmyndir, né málefni. Það hefur komið vel í ljós undanfarna daga og er nú alveg óumdeilt.

Björn Ingi Hrafnsson lýsir svo eftirfarandi yfir á vakningafundi Framsóknarflokksins í Reykjavík í gær: "Mér hefur fundist á undanförnum árum og kannski einhverjum fleirum að oftar hefði mátt standa í lappirnar í erfiðum málum og segja hingað og ekki lengra." Þess ber að geta þessum orðum var fagnað með lófataki í hópi trúnaðarmanna Björns Inga í Reykjavík í gær.

Hverjum eru nú þessi skeyti ætluð?

Það er augljóst. Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra verður fyrir þessum örvum Björns Inga Hrafnssonar fyrrum aðstoðarmanns síns. Það var Halldór Ásgrímsson sem stofnaði til hins farsæla stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Síðustu árin sín í stjórnmálum var hann forsætisráðherra. Björn Ingi Hrafnsson er að segja núna að allt hafi þetta verið of dýru verði keypt. Forsætisráðherrastóllinn þá væntanlega líka. Engum manni öðrum geta því verið ætluð þessi eitruðu skot.

Svona er ekki sagt í hita leiksins, heldur meðvitað. Það er verið að kynda undir tiltekinni skoðun.

Þetta er líka drengilega mælt af hinum gamla aðstoðarmanni eða hitt þó heldur. Úti í Kaupmannahöfn situr Halldór Ásgrímsson á friðarstóli og er ekki gerandi í stjórnmálum dagsins í dag. Nú má hann sæta þessum lymskulegum árásum frá Birni Inga Hrafnssyni; í atburðarrás þar sem Halldór er víðsfjarri.

Hvað gengur honum eiginlega til, meintum framtíðarfoingjanum í Framsókn? Hvers vegna þarf hann að vega svona úr launsátri sínu í garð síns gamla læriföður? Er svarið kannski það að honum megi bara fórna á sigurstundinni, þegar að baki er tvöfeldnin í garð Sjálfstæðisflokksins, einleikirnir í hinni pólitísku skák; á sigurstundinni sé  því í lagi að niðurlægja sómamanninn Halldór Ásgrímsson.

Staða Björns Inga Hrafnssonar sem aðstoðarmanns formanns Framsóknarflokksins, lyfti honum í upphafi til þeirra metorða sem hann nýtur svo sæll og glaður í dag. Nú launar kálfurinn ofeldið.




Ásakanir um nasískt hugarfar og hatur

Þráinn BertelssonÉg heimsótti fyrir skemmstu útrýmingarbúðirnar í Sachsenhausen skammt frá Berlín. Heimsókn á þennan vettvang grimmdarverka nasista lætur engan ósnortin. Þarna skynjaði maður svo vel grimmdina og las frásagnir af því hvernig lífið var murkað með skipulögðum hætti úr fórnarlömbum nasista. Það tekur á allt fólk með ærlega taug að skynja þessi voðaverk í því umhverfi sem þau voru unnin. Eitt er vitaskuld að lesa og heyra af hryllingnum sjálfum, pyntingunum, slátruninni á saklausum borgurum og öllu því sem við höfum vitneskju frá þessum voðalegu tímum. En hitt er ekki síður hrollvekjandi að skynja hugarfarið sem leiddi til helfararinnar og hinna skipulegu þjóðarmorða.

Fyrir okkur stendur frásögn Leifs Muller lifandi fyrir hugskotssjónum. Saga unga Íslendingsins sem fangelsaður var í Noregi sendur til Sachsenhausen, var skráð á ógleymanlega bók Garðars Sverrissonar, Býr Íslendingur hér. Gamall maður gaf sig á tal við mig þar sem ég stóð við innganginn í Sachsenhausen og þekkti sögu Mullers. Það var merkileg upplifun.

Þarna, eins og fyrr og síðar, gerði maður sér grein fyrir óþverra Nasismans. Þessi helstefna var skipuleg aðferð við að útrýma tilteknum þjóðfélagshópum, þjóðum og þjóðarbrotum. Það var sjálf hugmyndafræðin; þessi skipulega, úthugsaða og fyrirfram útreiknaða stefna sem er grundvöllur alls óhugnaðarins. Útrýmingarherferðin gegn gyðingum stendur mann næst hugskotssjónum þegar þessir tímar eru rifjaðir upp.

Því er maður sleginn óhug að lesa grein Þráins Bertelssonar rithöfundar í Fréttablaðinu, útbreiddasta dagblaði landsins í gær, sunnudag. Þar segir hann að óskilgreindur hópur samsærismanna sem hann kallar svo og ristjóri Morgunblaðsins hafi haft það að ætlunarverki að klekkja á andstæðingum Sjálfstæðisflokksins, "en þó með snyrtilegri aðferðum en nasistar notuðu við gyðinga þótt hatrið og hugarfarið væri það sama".

Hér fer ekkert á milli mála. Hinn gamli ritstjóri Þjóðviljans líkir starfsaðferðum tiltekinna manna hér á landi við þann hugsunarhátt sem bjó að baki helfararinnar. Sá hugsunarháttur bjó til hugmyndafræði hatursins þar sem  útrýma átti þjóðum og þjóðarbrotum, fólki með tilteknar skoðanir, af tilteknum uppruna, með stjórnmálaskoðanir sem ekki voru þóknanlegar og með kynhneigð sem ekki féll í kramið. Er þá ekki allt upptalið. Það er þessi hugmyndafræði hatursins sem lagði grunn að öllum skelfingunum.

Þessi skrif Þráins Bertelssonar eru þess vegna með því óhugnanlegra sem ratað hefur inn á síður dagblaðanna síðari árin. Kannski hefur mátt lesa viðlíka í skrifum augljósra kverúlenta og erkifífla. En þegar þessi orð hrjóta úr penna virts listamanns, sem við alþingismenn höfum sett á bekk með helstu andans jöfrum okkar og sæmt listamannalaunum, þá setur að manni ansi illan hroll.

Það er þó bót í máli að þótt liðnir séu nær tveir sólarhringar frá því að þessi skrif birtust i Fréttablaðinu hafa þau enga athygli vakið. Orð skáldmæringsins hafa sennilega ekkert vægi. Það virðast engir taka mark á Þráni Bertelssyni. Það hlýtur að vera aumt hlutskipti rithöfundar.

 




Út og suður þrumustuð

Ósamstæð stjórnarandstaða á AlþingiÞað er sennilega til þess að æra óstöðugan að fara einhverjum orðum um afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna til einstakra mála. Frá því var greint í gær að þeir ætluðu að stilla saman strengi sína og koma samstæðir til þings, sem sett var í dag. Ósanngjarnt væri hins vegar að segja að upphaf þess samstarfs lofi góðu. Samstaðan virðist engin vera og sundurtættir mæta flokkarnir til leiks nú í þingbyrjun.

Tökum mótvægisaðgerðirnar. Þar syngur hver með sínu nefi. Einn talar um að ekkert hefði átt að hlusta á vísindamennina og gera í rauninni þveröfugt við það sem þeir lögðu til. Þetta er vitaskuld Frjálslyndi flokkurinn. Framsóknarflokkurinn vill sitja klofvega á girðingunni og fara svona bil beggja. Vinstri grænir lögðu til að fylgt yrði ráðum fiskifræðinga.

Athygli hefur hins vegar vakið að fulltrúi þeirra síðast nefndu, Jón Bjarnason alþm. vill að auknar verði enn veiðar á öðrum tegundum, en þar var aflaákvörðunin í flestum tilvikum umfram ráðleggingar Hafró. Er þetta einnig í hróplegri mótsögn við það sem margir hafa sagt, að erfitt kunni að vera við óbreyttar aðstæður að ná tilsettu aflamarki í sumum öðrum tegundum, td ýsu. Þetta stangast líka á við málflutning flokksbræðra hans og margra annarra úr stjórnarandstöðunni.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar í sambandi við fjárlögin er sama marki brennd. Téður Jón taldi upp ótal málaflokka þar sem hann taldi að meira fjármagn þyrftu. Framsóknarmaðurinn Bjarni Harðarson var allt annarrar skoðunar. Hann taldi að í fjárlagafrumvarpið skorti aðhald. Það verður því fróðlegt að fylgjast með átökum þeirra félaga um þessi mál á Alþingi á næstunni.

Alla vega er það ljóst að þegar til stykkisins kemur varðandi þessi stóru mál eru stjórnarandstæðingar algjörlega út og suður. Einn talar í austur en annar í vestur. Það er því ljóst að allt þeirra tal um samstöðu stjórnarandstöðunnar er gjörsamlega innistæðulaust.




Þeir eru til sem vilja rýra eignir bænda

Blessuð sértu sveitin mínHækkun á verði bújarða hefur kallað á umræður. Það er eðlilegt. Verðhækkun á bújörðum er breyting frá ástandi sem forðum ríkti þegar verðmæti þeirra var lítið. Ekki eru mörg ár síðan að hið opinbera varð að leysa til sín jarðir bænda. Þeir voru staddir í einhvers konar úlfakreppu - gildru - sem þeir ekki komust út úr. Nú þegar svo bregður við að þróunin er á annan veg fara menn að velta fyrir sér hinu nýja ástandi.

Verðhækkunin er jákvæð. Menn hafa velt þvi fyrir sér hvort hátt jarðaverð stuðli að fólksfækkun í sveitum. Má þá ekki spyrja hvort lágt verðgildi á bújörðum hafi stuðlað að því að fólk flutti í sveitirnar. Við vitum að svo var ekki. Hið lága verð endurspeglaði einmitt að eftirspurnin var lítil.

Við vitum að eignaverð í landinu hefur hækkað mikið undanfarin ár. Menn kalla það auðsáhrif og þau hafa meðal annars stuðlað að því að fólk og fyrirtæki hafa getað tekist á við stærri verkefni sem hafa síðan aukið almenna velferð í landinu. Húsnæðisverð hefur víða hækkað. Hlutabréf hafa hækkað í verði. Ávöxtun á margs konar fjárfestingum í hlutabréfum og skuldabréfum hefur verið góð. Hækkun á verði bújarða hefur örugglega ekki verið úr samhengi við aðrar hækkanir á eignum í landinu. Má raunar efast um að verðhækkanir á jörðum hafi einu sinni náð að halda í við ávöxtun á ýmsum öðrum eignum hér á landi.

Búháttabreytingarnar sem hafa orðið í landbúnaðinum okkar hafa átt sinn þátt í því að auka eftirspurn eftir jörðum og hafa stuðlað að bættri eignamyndun til sveita. Skógrækt, þar sem bændur eru helstu gerendurnir hefur til dæmis aukið verðmæti jarðanna. Nýrri framleiðslugreinar, sem laða að sér fólk úr þéttbýli, hafa sömuleiðis ýtt í sömu átt. Margt fólk hefur flutt úr þéttbýli í sveitirnar, vegna möguleika á slíkri nýrri atvinnustarfsemi. Það er góð þróun.

Þess vegna eiga menn ekki að hryggjast yfir því að eignamyndun á sér stað á meðal bænda. Öðru nær. Þeir sem láta í ljósi gagnrýni á þá þróun sem hefur orðið til sveita, hljóta að hafa þá skoðun í raun, að nauðsynlegt sé að rýra eignir bænda og jarðeigenda. Það eiga þeir þá að segja. Menn sem sjá skrattann í hverju horni þegar fréttist af hækkun jarðaverðs, eiga að vera sjálfum sér samkvæmir og leggja til aðferðir við að lækka jarðaverð og rýra þar með eignir bænda.

Þeir mega þá jafnframt vita að slíku verður ekki tekið þegjandi. Nær er nefnilega að gleðjast yfir aukinni eignamyndun í sveitum heldur en að hafa allt á hornum sér yfir slíku.




Saffron byltingin

Saffron byltinginÞað er vart hægt að hugsa sér hógværari og friðsamlegri mótmæli. Hljóðlátir búddamunkarnir ganga um götur Rangoon, höfuðborgar Myanmar, sem forðum hét Burma. Í gær slógust svo nunnur með í hópinn, til þess að leggja áherslu á kröfur um einhvern vísi að lágmarksmannréttindum. Þetta fallega land, sem býr að gríðarlegum náttúruauðlindum, hefur verið höfuðsetið af harðstjórum áratugum saman, sem rænt hefur íbúana sjálfsögðustu mannréttindum og dæmt þjóðina til skelfilegrar fátæktar og harðstjórnar. Landið var undir breskri stjórn til ársins 1948 og þar voru lífskjör góð.

Herforingjar hafa verið við völd allt frá árinu 1962 og afleiðingarnar eru þetta skelfingar stjórnarástand og sár fátækt.

Eins og stundum hendir við slíkar aðstæður gerist einn atburður sem hrindir af stað mikilli atburðarrás. Skyndileg hækkun eldsneytisverðs, reyndist dropinn sem fyllti mælinn. Hinir friðsælu búddamunkar fóru út á göturnar, þeir njóta virðingar og stjórnvöld - þótt grimm séu - hafa hikað við að láta til skarar skríða gegn þeim

Munkarnir ganga um göturnar klæddir saffronrauðum búningum sínum. Sagt er að þetta sé skírskotun til helgs litar í trúabrögðunum. Nú kallast andófið austur í Burma Saffron byltingin og vísar til litar kuflanna sem munkar bera í Suðaustur Asíu. Það er dálítið merkilegt að slíkir atburðir fá hversdagsleg heiti oft sinnis. Saffron bylting er eitt slíkt, vekur upp í hugann vísbendingu um litinn og kannski kryddtegundina heimsfrægu. Hvorutveggja markað sakleysislegu og friðsælu yfirbragði. Og hvorutveggja svo viðeigandi þegar við gætum að því að það eru munkar og nunnur sem leiða andófið - byltinguna - þar eystra.

Öllum er svo ljóst að það er Aung San Suu Kyi friðarverðlaunahafi Nóbels sem gefur þessari miklu fjöldahreyfingu styrk. Hún fékk ríflega 60 % atkvæða í kosningum sem haldnar voru árið 1990, en var hneppt í gæsluvarðhald strax í kjölfarið. Hún  hefur með einstakri hugprýði staðið af sér tilraunir til herforingjanna til að brjóta hana niður. Siðferðisþrek hennar hefur verið öðrum styrkur, sem án nokkurs efa hefur haft mikla þýðingu núna.

Enginn veit hvað gerast mun. Margir spá því að herforingjastjórnin í Myanmar (Burma) láti til skarar skríða. Það hafa þeir svo sem gert áður. Nú er þeim þó meiri vandi á höndum. Munkar og nunnur hafa þannig stöðu í þessu búddíska ríki að það gæti reynst harðstjórunum dýrkeypt. Og þó að blaðamönnum sé meinaður aðgangur að landinu, gerir nútíma tækni það að verkum að auðveldara er að skrásetja atburðina fyrir heimsbyggðina. Stafræn myndavélatækni flytur myndir af ofbeldisverkum herforingjanna út fyrir landamærin, inn á síður blaðanna og um útsendingar sjónvarpsstöðvanna um heim allan.

Slíkt hefur áður reynst fallvöltum harðstjórum hættulegt. Við skulum því ekki útiloka að Saffron byltingin,  sem nú er fremur andóf,  leiði til þess að friðsamlegar aðgerðir búddamunka og nunna brjóti á bak aftur einhverja lífseigustu herforingjastjórn í heimi




Jákvæðar fréttir

Ungir nemendurMenntun er lykilhugtak í nútímasamfélagi. Við höfum séð það hvernig menntun á öllum skóastigum hefur verið að eflast og taka gagngerum breytingum. Skólahald er í mikilli þróun. Rekstrarform skólanna er að breytast, skólahald markast af þeim breytingum sem hafa átt sér stað í tækniumhverfi okkar. Hugmyndafræði útrásar er farið að einkenna skólastarfið og stjórnendur háskólanna okkar miða sig hiklaust við það besta sem er að gerast í menntamálum í umheiminum.

Rannsóknarstarf Háskóla Íslands margefldist við ákvörðun um að stórefla fjármagn í þann þátt skólans. Við sáum á dögunum að háskólarnir stóðust með glans að fara í gegn um matskerfið sem menntamálaráðuneytið stóð fyrir. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskólinn og Landbúnaðarháskólinn fengu lofsverða umsögn í þessu ferli. Það segir gríðarlega mikla sögu.

Nú síðast voru stórtíðindi að gerast í gær, þegar Róbert Wessman kom með heilan milljarð inn í HR, sem ætlað er að efla innri starfsemi skólans. Þess má vænta að atvinnulífið og vel megandi einstaklingar láti frekar að sér kveða á þessu sviði. Það er afar þýðingarmikið að þeir miklu fjármunir sem urðu til við gjörbreytingu íslensks atvinnulífs rati einmitt inn í menntamál okkar og efli þau. Slíkt hefur orðið lykillinn að uppgangi háskóla úti í heimi, eins og kunnugt er. Umræður um þessi mál fara nú víða fram og öllum er orðið ljóst að háskólum er það brýnt að tengjast atvinnulífinu.

Það er í sjálfu sér ekki nýtt að atvinnulífið komi til liðs við skólana. Alþekkt er að fyrr meir voru ýmsar stöður í háskólum greiddar af fyrirtækjum. Sú þróun ætti því ekki að koma nokkrum á óvart.

Það sem nú er að gerast er til marks um mikla deiglu, sem er í skólastarfsemi okkar. Jákvæð teikn sem ber að fagna.




Skilað auðu - að mestu

Afla landaðÞví miður voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar við mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar óskaplega fyrirsjáanleg. Hefðbundin gagnrýni án nokkurra tillagna. Við þessu mátti svo sem búast, en innst inni var samt til vonarneisti um að í þetta skipti tækju menn hlutverk sitt dálítið hátíðlegar. Málið er af þeirri stærðargráðu að gera má þær kröfur til alvöru stjórnarandstöðu að hún hafi hugmyndir um aðrar leiðir. Svo er því miður ekki.

Menn tala meira að segja út og suður. Einn þingmanna Frjálslyndra finnur að því að of miklu fjármagni sé varið til þessara aðgerða. En almennt er tónninn sá að meira vanti hér og þar. Það er líka fyrirsjáanlegt.

Hitt er öllu lakara að ekki bólar á því að menn leggi til hugmyndir í hvað fjármunirnir eigi að fara. Helst er á að skilja að leggja hefði átt fjármuni með beinum hætti til fyrirtækjanna, í formi ríkisstyrks. Er það þó í algjörri andstöðu við forsvarsmenn útgerðanna sem hafa þvert á móti talað gegn slíkum hugmyndum.

Öllum öðrum hugmyndum um ný atvinnutækifæri sem ákveðnar eru í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar er síðan mætt með tortryggni og hæðni. Er þó ljóst að atvinnutækifærum fækkar í fiskvinnslu og sjómennsku. Einnig vegna þess að tæknibreytingar leiða til færri starfa. Þess vegna er ennþá dapurlegra að verða vitni að því þegar reynt er að gera lítið úr hugmyndum um ný atvinnutækifæri. Á sama tíma er kallað eftir aukinni fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni, kallað efrtir frekari möguleikum á menntun, kallað eftir uppbyggingu fjarskipta og samgangna. Því vekja viðbrögð stjórnandstöðunnar undrun.

Formaður Framsóknarflokksins Guðni Ágústsson, markaði þó afdráttarlausa stefnu að einu leyti og því ber að fagna. Hann hvatti í raun til þess að stjórnvöld lýstu því skýrt yfir að veiðirétturinn yrði hjá útgerðinni og að þeir sem nú tækju á sig skerðinguna nytu batans þegar þorskstofninn braggaðist. Þetta er gott að heyra. Hann þarf þó ekki að brýna okkur í þessum efnum. Sjálfur hef ég marglýst þessu yfir, til dæmis eftir að skýrsla Hafró kom út í júníbyrjun, en einnig þegar afstaða stjórnvalda um heildaraflamark lá fyrir. Forsætisráðherra hefur einnig talað mjög afdráttarlaust í þessum efnum á nákvæmlega sama hátt og ég.

Orð Guðna verðum við því að skoða sem ádrepu í garð forystumanns Framsóknarflokksins í Reykjavík, Björns Inga Hrafnssonar, sem talað hefur um að aflahlutdeildinni verði að skipta öðruvísi og koma í veg fyrir að þeir sem nú taka á sig skellinn njóti ábatans af auknum veiðiheimildum. Þess vegna skiptir máli að Guðni hefur talað. Orð formanns Framsóknarflokksins hafa vægi og hljóta að endurspegla afstöðu flokks hans. Því ber að líta svo á að orð Björns Inga hafi verið léttvæg fundin á mælikvarða formanns flokksins. Þá vitum við það að minnsta kosti.




Valgerður vegur að Guðna

Formaður og varaformaður FramsóknarflokksinsEvrópumálin verða enn um sinn mikið ágreiningsmál í Framsóknarflokknum. Allir vita um andstöðu Guðna Ágústssonar við áherslur flokksins í þeim málum á umliðnum árum. Þegar hann varð formaður mátti ætla að sveigt yrði af leið flokksins í þessum efnum. Það verður þó ekki gert ef Valgerður Sverrisdóttir varaformaður flokksins fær nokkru um ráðið. Hún hefur óbifandi skoðun á málinu, eins og heyra mátti í fréttum Stöðvar 2 í fyrradag, 11. september.

Hún lætur sem hún sé að skamma Sjálfstæðisflokkinn. Öllum er þó ljóst að þangað er spjótunum ekki beint. Hún veit sem er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið virkan þátt í evrópuumræðunni, leiddi starf sérstakrar nefndar um evrópumálefni, sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka og sem sendi frá sér ítarlega skýrslu. Þar kom fram hvílík kynstur hefur verið skrifað og fjallað um þessi mál. Þar á meðal um evruna. Þau mál hafa því lengi verið uppi á borðinu, skoðanir sannarlega skiptar en margir málsmetandi menn hérlendis og erlendis beinlínis lagst mjög hart gegn því að við köstuðum krónunni og tækjum upp evruna. Þar á meðal eru þekktir fræðimenn, innlendir og erlendir.

Hér er því einfaldlega um að ræða málefnalegan ágreining, sem teljast má eðlilegur í opnu lýðræðislegu þjóðfélagi.

Orð Valgerðar verða að skoðast í þessu ljósi. Engum er þetta betur ljóst en henni. Sjálfum utanríkisráðherranum fyrrverandi, sem gegndi því starfi einmitt þegar Evrópunefndin skilaði af sér.

Þess vegna blasir auðvitað við að spjótum hennar er fyrst og fremst beint til formanns hennar, að sjálfum Guðna Ágústssyni. Það er við hann sem hún á greinilegt erindi, með orðum sínum. Svona aðferð sem Valgerður Sverrisdóttir notar er alþekkt. Oft kölluð Albaníuaðferðin, svo sem kunnugt er og á rætur sínar aftur um marga áratugi. Til þessarar margreyndu aðferðar grípur varaformaður Framsóknarflokksins nú í málflutningi sínum. En enn athyglisverðarar er að  að formaðurinn svarar köpuryrðum varaformanns síns í engu. Á hann þó bersýnilega næsta leik í þessu tafli.




Vegagerð er öflug mótvægisaðgerð

Vegaframkvæmdir framundanÞað hefur vakið athygli margra - og undrun - að ýmsir hafa orðið til að gera lítið úr áformum ríkisstjórnarinnar um flýtingu vegagerðar. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var hluti af þeim mótvægisaðgerðum sem nú líta dagsins ljós ein af annarri. Og í ljósi þess að bættir vegir hafa löngum verið áhugamál almennings og stjórnmálamanna hefur það sætt undrun að ákvörðun um aukna vegagerð skuli hafa verið mætt af tortryggni og að reynt hafi verið að gera lítið úr henni af ótrúlegustu aðilum.

Í fyrsta lagi er vegagerð atvinnuskapandi þegar á henni stendur. Til dæmis er á Vestfjörðum öflugt verktakafyrirtæki í jarðvinnu og vegagerð, KNH verktakar, sem er með 70 til 80 manns í vinnu, þegar ritari kynnti sér þau mál síðast. Við þekkjum fleiri dæmi um slíka atvinnusköpun í héruðunum. Nefna má til dæmis öfluga verktaka í Skagafirði sem nú voru að ljúka við lagningu bundins slitlags á Þverárfjallsveginn, heilu ári á undan áætlun. Það er ástæða til hamingjuóska af slíku tilefni.

Framundan eru jarðgangaframkvæmdir til Bolungarvíkur. Við þær framkvæmdir munu ábyggilega starfa 50 til 100 manns, auk hinna afleiddu starfa. Ætli það muni ekki skipta máli þegar þungi minnkandi aflaheimilda gerir vart við sig á norðanverðum Vestfjörðum sem og víðar. Sama verður uppi á teningnum víðar um landið, þar sem vegagerð verður flýtt.

En hitt skiptir ekki síður máli að bættar samgöngur eru liður í því að styrkja innviði samfélags okkar. Góðir vegir skapa ný tækifæri í atvinnumálum. Eða halda menn til dæmis að bætt vegasamband við Snæfellsnes, svo dæmi sé tekið, hafi ekki átt þátt í því að skapa því landsvæði byggðalega viðspyrnu. Nú er einmitt framundan flýting á vegagerð um Fróðarheiðina, sem hefur verið áralangt baráttmál manna á utanverðu Nesinu. Íbúum Snæfellsness er vel ljós þýðing þess máls.

Við vitum að lélegir vegir eiga mikinn þátt í því að halda uppi flutningskostnaði. Flutningskostnaður til Ísafjarðar er sagður fjórðungi hærri vegna lélegra vega, en flutningskostnaður um sömu vegalengd á öflugum slitlögðum vegi.

Það er því einhver óskapleg meinloka þegar reynt er að gera lítið úr margra milljarða áformum ríkisvaldsins um flýtingu á vegagerð. Þvert á móti  hljótum við að fagna slíkri ákvörðun.

Það er því holur hljómur í málflutningi þeirra sem tala niður þýðingu vegagerðar út um landsins byggðir. Sveitarstjórnarmennirnir sem kallað hafa eftir aukinni vegagerð, alþingismennirnir sem lagt hafa áherslu á hið sama og almenningur sem krafist hefur vegabóta, hafa haft á réttu að standa. Úrtölumennirnir sem reyna núna að slá pólitískar keilur og keilur af öðrum toga, með öfugmælatali sínu varðandi vegagerð í landinu ,eiga það eitt skilið að við svörum þeim fullum hálsi. Og almenningur á að bregðast hart við þegar slíkur málflutningur er hafður í frammi. Við eigum ekki að láta það líðast að reynt sé að gera lítið úr sanngjörnum framfaramálum sem fólk hefur lengi kallað eftir.

 




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband