Athyglisverð þróun í sláturhúsamálum

DilkakjötÞað er athyglisvert að sjá hvernig þróunin hefur orðið hér á landi, við sjáum þessa þróun varðandi stækkun framleiðslueininganna, mjólkurbúanna og sláturhúsanna. Það er líka merkilegt að mál skulu vera þannig hér á vestanverðu landinu að einungis þrjú sláturhús starfa nú í öllu norðvesturkjördæminu, og þau eru öll staðsett innan tiltölulega lítils radíuss hér á Norðvesturlandi. Þetta er mikil breyting á undraskömmum tíma.

Þannig komst ég að orði í ræðu sem ég flutti á 15. ársþingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra nú í ágúst. Þar fjallaði ég meðal annars um þá stöðu sem uppi er í sláturhúsamálunum og varpaði ljósi á þá þróun sem þar hefði átt sér stað. Orðrétt segir einnig í ræðu minni:

"Frá því að sláturhúsin urðu aðeins þrjú hafa þau öll aukið hlut sinn á landsvísu í sauðfjárslátrun, mismikið þó. Sölufélag Austur-Húnvetninga eða SAH Afurðir ehf. hafa aukið sýnu mest við sig. Árið 2003 var slátrað þar tæplega 66 þúsund fjár eða sem nam 11,8% á landsvísu. Í fyrra voru það liðlega 87 þúsund fjár og 16,3% landsframleiðslunnar. Á sama tíma jókst hlutur Kaupfélags Skagfirðinga um ríflega tvö prósentustig og nam í fyrra 19,7%. Hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga er breytingin lítil á þessum fjórum árum. Þar hefur verið lógað um og yfir 12% sláturfjár á ári, eða sextíu og eitt til sextíu og sjö þúsund kindum.

Í fyrra var því tæplega helmingi alls sláturfjár á landinu lógað í þessum þremur húsum og hefur hlutur þeirra vaxið um 17% frá 2003. Þetta er sem sagt veruleikinn. Nær annar hver dilkur sem bíður örlaga sinna í sláturhúsum á haustin fer um sláturhúsin hér á Norðvesturlandi. Þetta er athyglisvert og sýnir eftirtektarverða þróun. "

Í ræðunni vék ég einnig að þeirri umræðu sem orðið hefur um hugmyndir um sölu afurða beint frá búum. Þar er um athyglisverða hugmynd að ræða sem ástæða er til að ýta undir. Um það sagði ég:

"Ég á ekki von á því að þessi þróun breytist mikið. Við kunnum hins vegar að sjá vaxtarbrodda sem fela í sér hugmyndafræðina, framleiðsla beint frá býli. Það er þáttur sem ég hef áhuga á að styðja við eftir föngum á næstunni. En í stórum dráttum hygg ég að við munum sjá öflug stór úrvinnslufyrirtæki og tiltölulega fá smærri."




Öflug atvinnugrein í örri þróun

Sýningin settLandbúnaðarsýningin á Sauðárkróki, Sveitasæla 2007, sem þar fór fram um helgina, var stórskemmtileg og fróðleg. Þar gat að líta fjölbreytni greinarinnar og þar mátti sjá hversu tæknivædd hún er. Ég hafði sjálfur gaman að hitta marga vini og kunningja sem komið höfðu til sýningarinnar; bæði voru þar vitaskuld Skagfirðingar og næstu nágrannar þeirra, vestan og austan að, en svo hitti ég fólk sem komið var af Vesturlandi víða, vestan úr Arnarfirði, Bolungarvík og af Barðaströnd svo dæmi séu tekin.

Ég fékk það hlutverk að ávarpa og setja þessa miklu sýningu, sem hét fullu nafni Sveitasæla 2007, Landbúnaðarsýning og Bændahátíð og rita einnig ávarpsorð í dagskrá og kynningarrit sýningarinnar. Þau ávarpsorð fylgja hér með.

Gagnstætt því sem oft er haldið fram í almennri umræðu, er íslenskur landbúnaður atvinnugrein í örri þróun. Flest hefur breyst við hefðbundin landbúnaðarstörf, tækni leyst mannshöndina af hólmi og hlutverk atvinnugreinarinnar hefur breyst. Landbúnaður krefst þekkingar á margvíslegum sviðum og slíku verður einvörðunga svarað með öflugri sókn í menntunarmálum landbúnaðarins og með kröftugri rannsóknar og vísindastarfsemi.

Allt þetta sjáum við þegar við skyggnumst um gáttir hér í Skagafirði. Öflugur landbúnaður setur mark sitt á héraðið. Margvíslegar búháttabreytingar hafa átt sér stað, ný atvinnustarfsemi hefur skotið þar rótum. Skil milli þess sem stundum er kallaður hefðbundin landbúnaður og annarrar atvinnustarfsemi í sveitum, eru fyrir löngu orðin ógreinileg. Ganga má svo langt að segja að úrelt sé að tala með þeim hætti að eitt sé hefðbundinn landbúnaður og annað óhefðbundinn. Í sveitum landsins fer fram margháttuð atvinnustarfsemi þar sem byggt er á fjölþættum grunni sem umhverfið og framtak einstaklinganna hefur mótað.

Þessar breytingar krefjast nýrra viðhorfa. Þess vegna er svo nauðsynlegt að öflug mennta, rannsóknar og vísindastarfsemi styðji við þessar breytingar. Sú uppbygging sem átt hefur sér stað í háskólanum hér á Hólum og í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri eru einmitt góð dæmi um þetta.

Með landbúnaðarsýningunni sem hér fer fram fáum við að kynnast fjölbreytni íslensks landbúnaðar. Þetta er vettvangur bænda og annarra þeirra sem starfa að landbúnaði. En hitt skiptir líka máli að hér fær áhugafólk um landbúnaðinn, fólk sem starfar utan hans, einnig að kynnast þessari starfsemi. Það skiptir máli.

Á miklu ríður fyrir okkur að glæða skilning á starfi því sem unnið er að á vettvangi landbúnaðarins og leggja okkar þannig að mörkum til þess að glæða þann skilning sem þarf að ríkja í landinu á mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir landið allt, þjóðinni allri til heilla.




Alþjóðavæðing íslenska hestsins

15. Ekið til lokahátíðarinnar.Heimsmeistaramót íslenska hestsins var mikið ævintýri. Því lauk síðast liðinn laugardag og afraksturinn var glæsilegur fyrir okkur Íslendinga. Þarna suður í Hollandi gat að líta mikið safn gæðinga, frá fjölmörgum löndum. Íslenski hesturinn er ræktaður víða. Og þeir sem gleggst þekkja til eru á einu máli um að á síðustu árum hafi orðið gríðarleg framför í því ræktunarstarfi.

Ævintýrið fyrir okkur Íslendinga sem sækjum þessa heimsleika felst í því að skynja hvílíkur miðdepill íslenski hesturinn er. Jafnfram að gera sér grein fyrir hvílíkan hróður hann ber út um heimsins álfur. Aðdáun manna á íslenska hestinum út um allan heim fylgir aðdáun á Íslandi, íslenskum siðum, framleiðslu og háttum. Ekki er óalgengt að fá svar á íslensku þegar maður ávarpar útlendinga sem komnir eru á heimsmeistaramótið. Kannski vegna þess að viðkomandi hefur verið við nám á Hólum í Hjaltadal. En svo er ekki óalgengt að hitta fyrir fólk sem dvalið hefur í íslenskum sveitum við störf á bæjunum og numið íslensku.

Ég átti spjall við Jens Iversen formann FEIF sem er heimssamtök íslenskra hestaeigenda. Hann er danskur lögfræðingur og rekur íslenskt hestabú með konu sinni, snjöllum knapa. Sjálfur hafði Iversen dvalið í Skagafirði, við sveitastörf, eins og ég. Hann hjá Sveini á Varmalæk, en ég á Skörðugili hjá Dúdda og Sigrúnu. Ekki vorum við þar þó samtímis, en ætíð var mikill samgangur á milli Skörðugils og Varmalækjarheimilanna, enda húsbændurnir vinir og einlægir í hestamennsku sinni. Við höfðum því margt að spjalla um frá þeim dýrðardögum okkar í Skagafirði.

Bresk hjón sem eru í forystu fyrir samtökum hestamanna í Bretlandi og reka þar hestabúgarð með íslenskum hestum, búa líka með íslenskar kindur. Nú vantar þau hrút og færðu í tal við mig hvort nokkuð væri til fyrirstöðu af okkar hálfu að flytja slíkan frá Íslandi.

Og enn fleiri athyglisverð dæmi get ég tekið af því hvernig íslenski hesturinn hefur hnýtt eigendur sína á erlendri grundu vináttuböndum við allt það sem íslenskt er.

Heimsmeistaramótið sannaði mér enn hve mikilvægt það er að efla hestamennskuna og skapa henni enn frekari sess á erlendri grundu. Þar eru ýmis tækifæri. Ekki síst í löndum þar sem íslenski hesturinn er lítt kunnur ennþá. Við höfum náð prýðilegum árangri sums staðar og ævintýralegum árangri annars staðar. Það sýnir okkur að við getum gert hið sama víðar. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að það er skynsamlegt að leggja sig fram í þessum efnum á næstu árum.




Já, nýtt upphaf

PatreksfjörðurTímamót, gleðidagur, tilhlökkunarefni, nú er langþráðu markmiði náð. Þessi orð og þvílík heyrðum við á Patreksfirði í dag, þegar opnuð var ný framhaldsskóladeild í tengslum við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Allt eru þetta orð að sönnu. Sjálfur kallaði ég þessa ákvörðun Nýtt upphaf á sunnaverðum Vestfjörðum, þegar ég skrifaði grein um þessi mál hér á heimasíðunni, þremur dögum eftir að ríkisstjórnin hafði tekið ákvörðun um þetta mikilsverða mál.

Enginn vafi er á því að þessi ákvörðun mun breyta miklu fyrir íbúa Vestur Barðastrandarsýslu. Aðgengi til náms batnar. Viðbrögð heimafólks hafa heldur ekki látið á sér standa. Athyglisvert er að langflestir nemendur sem útskrifuðust úr 10. bekk í sýslunni hyggjast fara í framhaldsskóla, flestir í nýju deildinni. Þetta skiptir miklu máli.

Í annan stað má nefna að giska stór hópur fullorðins fólks sem ekki er með framhaldsskólanám að baki hefur sótt um skólavist. Þarna er sem sé verið að opna nýja leið fyrir þetta fólk; leið sem ella hefði verið ófær, nema að flytja á brott.

Tilkoma nýju deildarinnar mun breyta mannlífi á sunnanverðum Vestfjörðum. Unga fólkið mun setja mark sitt á byggðina. Það verður líflegra um að litast og væntanlega munu ungmennin verða virkir þátttakendur í félags- og menningarstarfi, rétt eins og reyndin hefur orðið þar sem framhaldsnám er í boði. Þetta skiptir ekki litlu máli fyrir mannlífið allt.

Fyrir fjölskyldur skiptir það svo miklu að geta verið saman. Það er erfið tilhugsun að senda börnin sín frá sér til náms réttra 16 ára. Enda hefur það reynst mörgum erfitt fjárhagslega og verið ofviða fyrir óharnaða unglinga að fara að heiman á ókunnar slóðir og hefja nám á nýju skólastigi við óþekktar aðstæður.

Við vonuðumst til þess að nýja deildin myndi laða að sér unga fólkið og eldra fólk einnig. Það hefur tekist. Brottfall úr námi á svæðinu hefur verið óviðunandi. Nú er þess að vænta að á því verði breyting. Til þessu eru allar forsendur, enda sýnir reynslan að nám í heimabyggð dregur úr brottfalli nemenda.

Menntun hefur ómetanlegt gildi, alltaf og alls staðar. Ekki síst í Íslandi samtímans. Að þessu vék ég í grein minni á blogginu á síðast liðnu hausti. Þar sagði: "Menntun er algjört grundvallaratriði í nútíma samfélagi. Hreinn lykill að framtíðinni. Samfélagið verður stöðugt flóknara og krefst æ meiri sérþekkingar. Án hennar dragast menn aftur úr. Menntunin er afl nýrra hugmynda og raunar sjálfsagður þáttur í samfélagi okkar."

Þetta er kjarni málsins. Þess vegna er dagurinn góður og markar nýtt upphaf á sunnanverðum Vestfjörðum.




Mjög eðlilegar aðgerðir

Logo ByggðastofnunarAlveg óskaplegur misskilningur hefur grafið um sig varðandi mótvægisaðgerðir þær sem ríkisstjórnin kynnti vegna niðurskurðar á þorskafla. Hluti þeirra aðgerða var að efla Byggðastofnun; nokkuð sem blasti í rauninni við fyrir, að þyrfti að gera. Það hefur legið fyrir að efnahag stofnunarinnar þyrfti að efla. Nú bættist við þorskniðurskurðurinn. Var þá öllum ljóst að enn brýnna var að styrkja stöðu Byggðastofnunar.

Allir sem vildu, sáu vitaskuld að engin leið er að komast í gegn um skafl eins og þann sem framundan er í sjávarútvegsbyggðunum nema að Byggðastofnun væri í sæmilegum færum. Það hefur hún ekki verið. Þess vegna þurfti að efla hana núna.

Það hefur komið fram að viðskiptabankarnir telja að lang flestir viðskiptavinir sínir muni ráða við þann tekjusamdrátt sem verður vegna minni þorskveiði. Hefur komið fram hjá forsvarsmönnum bankanna að þeir hyggist standa vel við bak sinna viðskiptavina. Þessu ber að fagna. Sjávarútvegurinn lýtur sömu lögmálum og aðrar atvinnugreinar og er almennt eftirsóttur til viðskipta í bönkunum. Tímabundinn samdráttur breytir því ekki í meginatriðum.

Engu að síður var það nauðsynlegt að hafa uppi viðbúnað af hálfu hins opinbera. Við viljum ekki að samsetning sjávarútvegsins bretytist í samdrættinum. Við viljum ekki að við sjáum á bak einyrkjaútgerðum, né að samdráttur í þorskveiðum auki á samþjöppun greinarinnar. Ekki heldur að vá verði í byggðum og að menn neyðist til að selja aflaheimildir. Þess vegna er eðlilegt að til staðar sé möguleiki að koma til skjalanna sé tilefni til. Við vitum líka að ungir menn og nýir í sjávarútveginum hafa fjárfest mikið í aflaheimildum sem minnka núna. Það er eðlilegt að ríkisvaldið hafi skoðun á því að slík nýliðun geti haldið áfram í sjávarútveginum. Það hefur enda marg oft komið fram að mjög almennur vilji er til þess að slík nýliðun geti áfram verið til staðar í sjávarútveginum.

Þessi skoðun hefur legið fyrir af minni hálfu frá upphafi, eins og ég greindi frá til dæmis í viðtali við RÚV.Þetta áréttaði ég í viðtali í Ríkisútvarpinu 9. júlí síðast liðinn í viðtali við Morgunútvarpið og úr því viðtali var síðan unnin frétt í hádegisútvarpinu þennan sama dag. 14. júlí greindi Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra frá því að Byggðastofnun yrði efld, en málefni stofnunarinnar heyra einmitt undir ráðherrann

Það að Byggðastgofnun fái til þess styrk að koma til skjalanna þegar þörfin kallar, með lánveitingum, frystingu vaxta og afborgana felur ekki í sér styrk. Það er enginn að tala um að fella niður þessar greiðslur, aðeins að fresta þeim. Aðgerð sem er algeng í bankaviðskiptum við aðstæður eins og þær sem nú ríkja.

Þess vegna er það helber misskilningur sem hefur komið fram, til dæmis í leiðara Morgunblaðsins nú á föstudaginn var að um sé að ræða gamaldags reddingar eða styrkveitingar. Þennan misskilning þarf að leiðrétta. Það er hins vegar lakara að blaðið virðist hafa dregið þessa ályktun algjörlega glórulaust og af nauðsynjalausu. En eins og allir vita er það þó ekki nýtt að fimbulfambað sé á leiðarasíðum þess blaðs og þess vegna engin ástæða til þess að rjúka upp til handa og fóta vegna skrifa blaðsins núna. En vegna þeirra sem kunna að hafa ályktað út frá skrifum blaðsins er nauðsynlegt að hið sanna sé leitt fram. Einhverjir kynnu nefnilega annars að leggja trúnað á það sem í leiðaranum segir. Það væri auðvitað lakara.




Perla örlaga og einstæðrar náttúru

Ómynd29tal sinnum hef ég ekið Dynjandisheiðina og hin síðari ár hef ég heitið mér því í hvert sinn að fara niður í Geirþjófsfjörðinn. Hann blasir við manni af heiðinni, ef grannt er skoðað og freistað mín. Þarna eru söguslóðir Gísla Súrssonar og þar háði hann sitt lokastríð á Einhamri skammt innan og ofan við bæjarstæðið í Langabotni. Það var svo fyrst núna, síðast liðinn mánudag, að ég átti þess kost að sækja fjörðinn heim í fylgd góðs fólks úr Landbúnaðarráðuneytinu og Landgræðslusjóði til þess að líta á aðstæður. Með mér í för var líka góðvinur minn Þórir Örn Guðmundsson frá Þingeyri. En um hann hef ég sagt -og stend við - að það sem hann ekki veit um Gíslasögu er ekki þess virði að vita.

Við félagarnir Þórir Örn og ég gengum af heiðinni ofan í Geirþjófsfjörðinn til móts við félaga okkar sem komu siglandi frá Bíldudal. Það er skemmst frá að segja. Geirþjófsfjörðurinn er ótrúleg náttúruperla, hefur verið í eyði frá árinu 1962, skógi vaxinn og sagan angar þarna nánast af hverjum hól og hverri þúfu. Leiðin er greiðfær og þægileg og auðvelt að átta sig á helstu sögulegu minjunum. Merkt hafa verið tvö fylgsni Gísla, Auðarbær og leiðin að Einhamri liggur um slóða og smekklegar stikur auðvelda manni að rata.

Þarna er enn ein perlan, sem kannski er ekki á svo margra vitorði. Þó er Gísla saga Súrssonar vel þekkt afar mörgum. lesin í skólum af heilum kynslóðum, ein glæstasta og örlagaríkasta frásögn Íslendingasagnanna, sem aukinheldur er uppistaðan í klassísku verki íslenskra kvikmyndabókmennta, Útlaganum, sem Ágúst Guðmundsson gerði hér fyrrmeir.

En það er ekki einasta að Geirþjófsfjörður geymi einstæða örlagasögu. Hann er náttúruperla, eins og þær gerast bestar. Og það er hann vegna hins fagra umhverfis, fossa, náttúrumynda, skógarins í bland við söguna sjálfa.

Svona er Ísland. Fullt af eftirsóknarverðum svæðum sem við þéttbýlisbúarnir  sækjumst eftir. Það hefur gildi í sjálfu sér en er líka grundvöllur atvinnustarfsemi, eins og dæmin sanna. Í Dýrafirði hefur atorkusamt fólk verið að leggja grundvöll að uppbyggingu og afþreyingu sem meðal annars byggir á minnum úr sögu Gísla Súrssonar. Þarna liggja mikil og vaxandi tækifæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Haukadalurinn í Dýrafirði var  völlur Gísla Súrssonar, en saga hins ógæfusama kappa teygir sig suður í Breiðafjörð og síðast en ekki síst - í hinn fagra Geirþjófsfjörð. Sú staðreynd skapar því samfellu sem er áhugaverð fyrir heimamenn og ferðamenn sem leggja nú leið sína á þessar slóðir í vaxandi mæli.

 

 




Vígfimur með orðsins brand að vopni

Þóra Þórðardóttir systir Ólafs við minnisvarðann. Mynd bb.is.Í gær minntumst við gamals og góðs vinar Ólafs Þ. Þórðarsonar alþingismanns sem lést árið 1998. Afhjúpaður var minnisvarði um hann, sem Árni Johnsen alþingismaður hafði gert. Minnisvarðinn er fallegur og vel við hæfi. Stuðlaberg, með áfestri glerplötu svo líkist ræðustóli. Á glerplötuna er letruð ívitnun í eina af ræðu Ólafs. Staðsetningin er líka við hæfi á bæjarhlaðinu á Stað í Súgandafirði, fæðingarstað Ólafs, þar sem útsýnið er vítt og vestfirsku fjöllinn ramma inn myndina.

Ólafur var mikill kappi. Hann var afburða ræðumaður og orðsins brandur var því hans öfluga vopn. Fyrir honum var ræðumennskan íþrótt og list og þar var hann í hvoru tveggja meðal hinna fremstu.

Ég tók fyrst eftir Ólafi þegar hann varð áberandi fyrirsvarsmaður í hópi vestfirskra sveitarstjórnarmanna. Hann talaði máli vestfirskra byggða og kunni vel að sækja og verjast. Á pólítískum fundum minnist ég hans fyrst í Félagsheimilinu í Bolungarvík og þar var hann í essinu sínu í bardaga við þá kappasveit sem var í framboði í Vestfjarðakjördæmi.

Ólafur var þingmaður sem virti vel og skildi, það sem ég hef stundum nefnt málstofuhlutverk Alþingis. Því það er þannig að þó oft finnist manni orðaflaumurinn keyra úr hófi, þá má aldrei gleyma því að Alþingi er einmitt til vegna þess að þar á að fara fram lýðræðisleg umræða. Þetta skildi Ólafur og þessi mál ræddum við því oft og sameiginlegri vegferð okkar. Að þessu vék ég raunar í minningargrein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 18. september árið 1998, að honum látnum og þar sagði meðal annars:

"Ólafi var ljóst mikilvægi orðræðunnar í stjórnmálum. Þau mál ræddum við stundum. Sumir líta svo á að stjórnmál séu eitthvert tæknilegt verkefni, sem menn eigi að nálgast með því hugarfari. Því fer þó víðs fjarri að svo sé. Stjórnmálin og hin pólitíska umræða eru afsprengi lýðræðislegrar hugsunar, sem byggir á orðræðu og umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. Stjórnmálin eiga ekki og mega ekki verða njörvuð niður svo að menn gleymi þessum þætti þeirra. Það getur að vísu haft í för með sér langa og á köflum ómarkvissa umræðu. En það er nú einu sinni afleiðing lýðræðislegra stjórnarhátta. Við vitum að oft fer þetta út í öfgar; skrumskælir stjórnmálabaráttuna. Það er hlutverk þeirra sem gegna stjórnmálastörfum að skilja hinn gullna meðalveg sem þarna þarf að feta."

Ólafur fór ekki alltaf troðnar slóðir. Þóra systir hans minntist þess einmitt þegar hún flutti frábært erindi um bróður sinn er hún minntist bernskuára þeirra úti á Stað. Þau ólust upp við ljóð og bókmenntir og einmitt þau minni og skírskotun til fornra sagna var Ólafi Þórðarsyni tamt.

Það var ekki alltaf auðvelt að hafa Ólaf Þórðarson að pólitískum andstæðingi. Svo eitursnjall var hann í rökræðunum. En það var engu að síður gott. Því það skiptir svo miklu máli að eiga við pólitískan mótstöðumann sem er í stjórnmálum af alvöru - þó glettnin hafi aldrei verið fjarri honum - og var svo snjall að maður leitaði í honum fyrirmyndar. Þannig er gott að minnast hans.




Góða veðrið er gott fyrir matvælaframleiðsluna

GrilladÞað er í rauninni merkilegt hversu veðurfarið hefur áhrif á margt. Meira að segja neyslumynstrið. Við vitum vel að veðrið ræður för ferðamanna. Einu sinni gátu menn treyst á það að útlensku ferðamennirnir kæmu óháð veðrinu. Þeir pöntuðu ferðir, fóru um í langferðabílum og í stórum hópum og urðu að hlíta fyrirframgefinni dagskrá, hvort sem skólin skein eða himnarnir helltu úr sér vætunni. En nú er þetta breytt. Ferðavenjurnar hafa breyst, útlendingar ferðast um á bílaleigubílum og eru því í jafn góðum færum og við innlendir að velja áfangastað með hliðsjón af veðurfari.

Sólríkt sumar hefur líka áhrif á það hvað við borðum. Hinir öflugu verslunarhringir landsins sem hafa getið farið sínu fram verða að játa sig sigraða fyrir veðurguðunum. Sólskin og sunnanvindur ræður neysluvenjunum í meira mæli en Baugur, Kaupás og Samkaup samanlagt. Það kom þá að því að einhver átti eitthvað í þessar verslunarkeðjur !

Í góðu veðri er það ómótstæðileg freisting að færa sig undan þakinu sem maður hefur jafnan yfir höfðinu og út í veðursældina. Grillið er þá freistingin og fátt jafnaast á við það að njóta þess að matbúa og helst að borða úti undir berum himni. Og við það breytast neysluvenjurnar.

Við sjáum af sölutölum að flestir hugsa eins og sækjast í að grilla. Það hefur jákvæð áhrif á kjötmarkaðinn. Það er kannski til marks um breytta samfélagshætti að nú hafa menn tekið upp á því að kalla yfirstandandi sumar, grillsumarið mikla. Hér áður og fyrr hefðu menn væntanlega kennt sumar sem einkenndist af þurrkum við eitthvað annað; sennilega við góða heyskapartíð eða annað svipað. En svona breytast tímarnir.

Og góða veðrið gleður einnig hvalveiðimenn. Nú berast fréttir af stóraukinni sölu á hrefnukjöti. Landinn er greinilega að átta sig á kostum þessa heilnæma fæðis; og einnig þarna er góða veðrið að spila stóra rullu. Hrefnan er góð á grillið og og funheitar glóðirnar fá því það hlutverk að breyta þessu hráefni í góðan mat, rétt eins og gildir um annað íslenskt gæðakjöt.

En með kjöti fylgir meðlæti, salöt, sósur sem búnar eru til úr mjólkurafurðum, kartöflur og annað slíkt góðgæti. Góða veðrið glæðir slíka neyslu því örugglega. Sem og  á fiskafurðum sem einnig eiga erindi á glóðirnar.

Af þessu leiðir að gott veður er almennt talað gott fyrir íslenska matvælaframleiðslu. Sem aftur rifjar það upp að minn gamli góði félagi Vilhjálmur Egilsson benti stundum á það að með því að flýta klukkunni á sumrin, til samræmis við það sem þekkist í helstu markaðslöndum okkar í Evrópu, lengdist sá tími sem menn gætu notið utanhúss, svo sem við grillhlóðirnar. Það yki því neyslu á lambakjöti og öðrum kjöttegundum. Eins og svo oft, fyrr og síðar, átti Vilhjálmur kollgátuna. Gott veður í sumar, þar sem fólk er meira utandyra, hefur nú sannað kenningu hans svo ekki verður um deilt.




Fjölgun ferðamanna - fagnaðarefni ekki áhyggjuefni

FerðamennErlendum ferðamönnum sem koma til Íslands fjölgar hratt og sjaldan eða aldrei sem núna. Hingað til hafa menn almennt talið þetta vera fagnaðarefni, en nú upp á síðkastið hafa einhverjir sett spurningamerki við þessa þróun. Spurt er hvort landið og íslensk náttúra ráði við þennan straum ferðamanna, hvort innri mannvirki okkar séu í færum til þess að glíma við þennan stóra hóp og svo framvegis.

Þetta eru óþarfa áhyggjur. Við getum auðveldlega ráðið við fyrirsjánlega fjölgun ferðamanna. Landið okkar býður upp á svo marga möguleika og er svo víðlent og strjálbýlt að við eigum ekki að líta á það sem vandamál að fólk sæki hingað sem ferðamenn. Verkefni okkar er bara að sjá til þess að þessi fjölgun gagnist sem flestum og byggðirnar sem víðast njóti ávaxtanna.

Fjölgun ferðamanna hefur verið ævintýraleg síðustu árin. Það lætur nærri að fjöldi ferðamanna hafi nær tvöfaldast á áratug, nú síðustu tvo áratugina. En í rauninni er ferðaþjónusta sem atvinnugrein ótrúlega ný af nálinni. Fyrir 50 árum voru erlendir ferðamenn sem hingað komu innan við 10 þúsund. Nú eru þeir um 400 þúsund. Miðað við reynslu síðustu ára má ætla að stutt sé í að þeir fari yfir hálfu milljónina.

Ferðamálaráð og nú Ferðamálastofa hafa fylgst grannt með þessum málum. Skoðað var sérstaklega á sínum tíma, hvort fjölsóttustu ferðamannastaðirnir réðu við þann fjölda sem þangað kom. Svarið var já. Við sjáum það enda erlendis að auðvelt er að taka á móti fjölda fólks á einstaka stöðum. Hins vegar er þá nauðsynlegt að skapa aðstöðu og það hefur verið gert hér á landi fyrir atbeina ferðamálayfirvalda. Þetta hefur tekist vel, verið gert af metnaði og skipulag fjölsóttra ferðamannastaða gert þannig úr garði að átroðningur verði sem minnstur.

Hitt verkefnið er síðan að tryggja dreifingu ferðamannastraumsins um landið. Það er eðlilegt að hið opinbera stuðli að því, rétt eins og við byggingu annarra slíkra innri mannvirkja samfélagsins. Þannig ráðum við auðveldlega við frekari fjölgun ferðamanna, opnum aðgengi að aukinni fjölbreytni - og síðast en ekki síst; tryggjum að uppbygging hinnar sívaxandi atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar  verði úti um hinar dreifðu byggðir. Á vegum Ferðamálasstofu hefur einmitt verið unnið að því að stuðla að dreifingu ferðamannastraumsins, með því að byggja upp aðstöðu og opna aðgengi fyrir ferðamenn víðar um landið. Landið okkar er víðlent og þolir auðveldlega aukinn ferðamannastraum.

Fjölgun ferðamanna hingað til lands er því fagnaðarefni, ekki áhyggjuefni.




Áfengisgjald og áfengisverð

ÁfengiUmræður um áfengisgjald hafa sett nokkuð svip sinn á umfjöllun fjölmiðla upp á síðkastið. Blaðið hefur gert þessum málum ágæt skil og Þorsteinn Pálsson ritaði leiðara í Fréttablaðið um skylda hluti. Í umræðunni hefur komið fram að áfengisverð er hátt hér á landi, meðal annars á veitingastöðum og síðan hitt að áfengisgjald er hér á landi með því hæsta sem þekkist. Hvort tveggja eru þekktar staðreyndir. Tvennt er ástæða til þess að bæta við í þessa umræðu.

Í fyrsta lagi varðandi áfengisgjaldið. Þannig er að í tíð Geirs H. Haarde sem fjármálaráðherra var mörkuð sú stefna að hækka gjaldið ekki í tilviki léttra vína og bjórs og hefur það því í rauninni lækkað mjög umtalsvert að raungildi undanfarin ár. Þetta kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni. Þar sást að raunvirði áfengisgjaldsins hefði lækkað um 30 prósent í tilviki léttvína og um fjórðung varðandi bjórinn.

 Síðar spurði Birgir Ármannsson alþingismaður um þróun áfengisgjaldsins á árunum 1999 til 2005. Svarið er afar skýrt. Áfengisgjald á bjór lækkaði um  29 prósent á þessu tímabili, á léttvíni um rúm 36% og á sterkum vínum um 14,4%. Þetta er mjög umtalsverð lækkun. Þá ætti styrking krónunnar núna að skila sér í lækkandi verði á þessum vöruflokkum eins og öðrum innflutningsvörum. Athyglisvert er hins vegar að í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgis er það sérstaklega nefnt að slíkar gengisbreytingar skila sér illa til lækkunar í vöruverði.

Hitt atriðið sem er vert að nefna er skýrsla sem unnin var á árinu 2005 að frumkvæði samgönguráðuneytisins  í tíð Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra um verðlagningu áfengis á Íslandi. Höfundur skýrslunnar er Reynir Ragnarsson MBA, löggiltur endurskoðandi. Þar kemur  vel fram að áfengisgjaldið skýrir ekki nema að takmörkuðu leyti hið háa verð á áfengi í veitingahúsum. Áfengisgjaldið er 12% af útsöluverði á rauðvíni, 19% af sterkum drykkjum og 11% af verði bjórs á veitingahúsum. Hlutur veitingahúsanna er hins vegar 51 til 60% af útsöluverði vörunnar.

Í skýrslunni segir ennfremur:

"Hægt er að fullyrða að hátt áfengisverð á Íslandi er ekki aðeins áfengisgjaldinu að kenna. Há álagning á vínveitingahúsum hefur hér veruleg áhrif. Engin afstaða er tekin til þesshvort sú álagning sé eitthvað óeðlileg. Á Íslandi er frjáls samkeppni og frjáls álagning þannig að verðlagning áfengis hlýtur að taka mið af markaðnum á hverjum tíma. Ef lækka á áfengisverðið á Íslandi verða hagsmunaaðilar, bæði ríkið og handhafar vínveitingaleyfa, að taka höndum saman í þeim efnum með því að lækka bæði áfengisgjaldið og álagningu hjá veitingahúsunum."

Þetta eru athyglisverðar staðreyndir. Annars vegar mjög umtalsverð raunlækkun á áfengisgjaldi, einkanlega á léttum vínum og bjór og að áfengisgjaldið skýrir ekki nema að mjög takmörkuðu leyti verðlagninguna á áfengum drykkjum á veitingahúsum




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband