Í fiskimannaþorpum suður í Cornwall

IMG_1015Ég hef verið fjarri bloggheimum um hríð; nú síðast vegna vikulangs sumarfrís í Englandi. Við hjónin ákváðum að fara í sumarleyfi út fyrir landsteinana; nokkuð sem við ella höfum treglega gert endranær. Fórnuðum þar með íslenskum sólardögum og fögrum sumarnóttum og tókum meira að segja áhættuna af því að fara til Englands, sem plagað hefur verið af stanslítilli úrkomu í sumar. Vætan hefur verið þreföld á við það sem meðaltölin segja, sá ég í einhverjum fjölmiðlunum úti.

Þó við séum ágætlega kunnug í Bretlandi höfðum við aldrei komið á Cornwallskagann og þangað héldum við hjónin ásamt mágkonu minni og svila. Það var mikið ævintýri. Komumst alla leið til Landsend, sem er vestasti hluti Englands og heimsóttum einnig syðsta hluta landsins, þar sem heitir í Lizard Héldum okkur einkanlega í gömlu fiskimannabæjunum og sjávarþorpunum við ströndina, sunnan og norðanmegin á Cornwallskaganum.

Sjávarútvegurinn er ekki nema svipur hjá sjón þess sem áður var. Ferðaþjónustan er hins vegar þeim mun öflugri; og það lika núna þrátt fyrir votviðrið. Vorum raunar sjálf ágætlega heppin með veður. Rigningin sem brast á einhverja dagana var ekkert úrhelli og auðveldur leikur að klæða hana af sér.

Þó sjávarútvegurinn sé óvíða áberandi í þessum gömlu verstöðvum þarna suður frá, angar sagan af alls konar minnum frá þessari gengnu tíð. Ekki þar fyrir, bátar voru í höfnunum og maður varð var við að sjávarútvegurinn skiptir enn máli. Í stöku höfnum mátti líka sjá öfluga báta sem gerðir voru út á fjarlægari mið. Víðar voru það þó litlir bátar, sem stunduðu ekki síst gildruveiðar á krabba og skelfiski.

En ferðamennskan er tvinnuð mjög saman við sjóinn, sjávarfangið og fiskveiðarnar. Veitingstaðirnir leggja áherslu á að bjóða fram fiskmeti af öllu tagi. Þeir eru gjarnan staðsettir ofan við hafnirnar svo að við gestirnir gætum notið útsýnis yfir sjóinn; sæjum bátana og lífið sem þeim fylgir. Rétt eins og nálægðin við hafið og fiskimiðin var forsenda byggðanna þarna fyrrmeir má segja að nærveran við sjóinn sé forsenda ferðaþjónustunnar núna.

Þessir litlu bæjir og þorp eru þannig uppbyggðir að byggðin er afskaplega þétt. Litlar, þröngar og krókóttar götur liðast upp frá höfninni og húsin setja skemmtilegan og sjarmerandi svip á umhverfið. Allt öðruvísi en í gömlu þorpunum okkar, þar sem rýmra var í kring um húsin, hvort sem þau stóðu á sjávarkambinum eða upp af honum. Maður gat að minnsta kosti ekki séð að þarna suður í fiskiþorpunum í Cornwall hefðu menn haft skepnur sér til viðbótarframfæris, eins og við þekkjum hér heiman að.

Og aldrei er það svo að maður læri ekki eitthvað af svona ferðalögum. Mér gæti komið ýmislegt í hug núna, en ætla bara að nefna eitt að sinni. Getum við ekki reynt að spinna betur saman ferðaþjónustu okkar, sem vex svo hratt og aðra atvinnustarfsemi, staðsett ferðaþjónustuna nær iðandi lífi sjávarbyggðanna okkar svo að þeir 500 þúsund erlendu ferðamenn sem brátt munu koma til landsins geti fengið að njóta þess. Við erum komin lengra á leið með þetta hvað varðar tengslin við sveitir landsins. Og þó stöku vísi megi finna í sjávarþorpunum okkar að einhverju viðlíka, hljóta að vera meiri tækifæri til slíks fyrir dugmikla einstaklinga við sjávarsíðuna.




Landbúnaðurinn er í harðri samkeppni

ForystugimburBúvörusamningnum verður ekki breytt. En mun ríkisstjórnin beita sér fyrir auknu frelsi í innflutningi landbúnaðarvara? Þessi spurning er lögð fyrir mig í nýjasta hefti Frjálsrar Verslunar. Svar mitt sem hér fer á eftir er birt undir fyrirsögninni Stórfelldur innflutningur ekki skynsamlegur. Það fer hér á eftir.

Íslenskur landbúnaður hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Greinin er í harðri samkeppni innanlands, bæði á milli einstakra búgreina og við aðra matvælaframleiðslu. Breytt fyrirkomulag búvörusamninga hefur skapað grundvöll til hagræðingar sem samkeppnin á innanlandsmarkaði hefur síðan ýtt undir. Inn í samningana er síðan byggð hagræðingarkrafa sem leiðir til lægri framlaga ríkisins vegna þeirra. Sams konar hagræðing hefur orðið hjá úrvinnslugreinunum.

Landbúnaðurinn hefur tekið á sig innlendar kostnaðarhækkanir án þess að þeirra gæti í verði til neytenda. Í nýjum sauðfjársamningi er gert ráð fyrir að útflutningsskylda hverfi, sem mun auka enn samkeppni innanlands á kjötmarkaðnum.

Landbúnaðurinn býr ekki við það verndaða umhverfi sem oft er látið í veðri vaka. Til viðbótar við það sem þegar hefur verið sagt er ljóst að starfsumhverfi hans mun ráðast í vaxandi mæli af alþjóðlegum viðskiptasamningum sem við erum aðilar að og verðum aðilar að í framtíðinni. Við þessar aðstæður er ekki skynsamlegt að hefja stórfelldan innflutning landbúnaðarafurða. Nú er mikilvægt að landbúnaðurinn fái tóm til þess að takast á við vaxandi samkeppni.




Framfarirnar fækka störfunum

FiskurAfköst í fiskvinnslu og fiskveiðum hér á landi hafa aukist gríðarlega mikið á síðustu árum. Þessi afkastaaukning hefur verið meiri og hraðari núna en hér áður og fyrr. Þetta veldur mestu um að störfum hefur fækkað í sjávarútvegi og þar með stuðlað að því að þessi þáttur atvinnusköpunar okkar skipar annan sess en fyrrum.

Þetta kemur glögglega fram í skýrslu Hagfræðistofnunar um Þjóðhagsleg áhrif aflareglu. Á blaðisíðu 60 - 61 er fjallað um þessi mál. Vakin er athygli á því að á árunum 1991 - 1997 hafi framleiðni í fiskvinnslu aukist um 1,3% árlega í fiskveiðum en um 4% í fiskvinnslu. Þegar við skoðum þróunina nær okkur í tíma er ljóst að framleiðniaukningin hefur svo orðið ennþá hraðari. Þannig má sjá að á árunum 1998 til 2006 var framleiðniaukning í fiskveiðum 3,1% á hverju ári en 5,5% í fiskvinnslunni.

En hvað .þýðir þessi framleiðni?

Jú,  henni er ætlað að mæla fjölda starfa annars vegar og verðmætis þess sem þessar atvinnugreinar búa til. Þannig fáum við fram mælikvarða á afköst. Það sem hefur gerst í sjávarútvegi - sem nýtir takmarkaða auðlind - er það að færri hendur þarf til að búa til verðmætin. Ekki vegna þess að verðmætin séu minni. Heldur vegna þess að afköstin hafa aukist með tæknibreytingum. Við sjáum þetta hvarvetna.

Við sjáum þetta í ævintýralegum afköstum sjómanna. Tökum bara dæmin af sjómönnunum á krókaaflamarksbátunum, sem  hafa aflað allt að 1500 tonnum, tveir menn á. Þetta er örugglega heimsmet. Svo getum við velt fyrir okkur afkastaaukningunni í fiskvinnslunni. Tökum  dæmi úr rækjuverksmiðjunum, í uppsjávarvinnslu og raunar hvar sem litið er. Allt er á sama veg, aukin tækni, bætt stýring og vélvæðing og meiri afköst.

Allt þetta hnígur að hinu sama. Tæknin leysir málin. Það er verkefni fyrirtækja á borð við 3X, Skagann og Marel að finna slíkar lausnir sem leiða til færri starfa, aukinna afkasta og nýrra möguleika við vinnsluna. Þess vegna getum við samfara þessu aukið verðmætin, sem aftur stuðlar að aukinni framleiðni og verðmætasköpun.

Birgir Ármannsson alþingismaður leiddi þetta síðan fram í spurningu á Alþingi í vetur. Þar kemur fram að störfum í sjávarútvegi hefur fækkað mjög umtalsvert. Sjö þúsund sjómenn störfuðu við fiskveiðar árið 1995. Í fyrra voru þeir 4.300. Fækkunin nemur sem sé 37,8%.  Í fiskvinnslunni voru starfsmennirnir 9 þúsund árið 1995 en eru núna 4.100. Fækkunin er 54,8%. Þetta er sem sé að gerast á einum áratug.

Þessi afkastaaukning var sjávarútveginum bráðnauðsynleg. Þannig gat framleiðnin í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar haldið í við þróunina í öðrum atvinnugreinum - og það tókst. Ef ekki hefðu starfsmenn í sjávarútvegi einfaldlega horfið til annarra og betur launaðra starfa. En afleiðingarnar eru margar og ekki síst byggðalegar, eins og við þekkjum.  Sjávarútvegurinn er undirstaða atvinnulífsins á landsbyggðinni og fækkun starfa hefur fyrst og fremst afleiðingar þar. Svarið er hins vegar ekki að koma í veg fyrir framleiðniaukningu heldur að skjóta margháttaðri stoðum undir atvinnulífið á landsbyggðinni líkt og hefur gerst í þjóðarbúinu í heild. Það er stóra verkefnið okkar.




Kaflaskil í breskri sögu

Tony BlairÞegar Tony Blair kveður bústað breska forsætisráðherrans að Downingstræti númer 10 í Lundúnum kl. 13 í dag verða í rauninni kaflaskil í breskum stjórnmálum. Blair er eitt af stóru nöfnunum í breksum stjórnmálum; amk. á ofanverðri 20. öldinni og leiddi þjóð sína inn í 21. öldina. Hann markaði í raun þau tímamót, að brotthvarf hans úr breskum stjórnmálum kallast á enskri tungu, an end of an era; kaflaskil.

Gleymum því ekki að um árabil var breski Verkamannaflokkurinn í rauninni ekki kostur í stjórnmálum. Stefnumið flokksins voru svo gjörsamlega úr takti við þjóðfélagsþróun á ofanverðri 20. öldinni. Hann kunni svör á sinn hátt við spurningum fortíðarinnar, en var úti að aka þegar kom að samtímanum og hvað þá framtíðinni. Hin endanlega niðurlæging flokksins var veturinn 1978, óánægjuveturinn ( winter of discontent) ; þegar gamla heimsveldið varð leiksoppur óvæginna verkalýðsfélaga og ekki var einu sinni hægt að hreinsa ruslið af götum og torgum höfuðborgarinnar. Eyðimerkurgangu Verkamannaflokksins, sem hófst með kjöri Margrétar Thatcher, lauk ekki fyrr en Blair leiddi flokkinn til sigurs.

Lykillinn að sigurgöngu Verkamannaflokksins var sýn John Smith, Tony Blair og Gordons Brown. Þeir voru holdgervingar þeirra breytinga sem flokkur þeirra gekk í gegn um, þó færa megi rök að því að Neil Kinnock forveri þeirra hafi rutt veginn að einhverju marki. Flokkurinn söðlaði um, hvarf frá gömlum skoðunum sínum og þess vegna fóru menn að tala um New Labour - nýja Verkamannaflokkinn. - Til þess að aðgreina hann frá þeim gamla.

Blair fylgdi stefnu sem Thatcher hafði mótað, um aukið efnahagslegt svigrúm atvinnulífsins. Hann hvarf ekki til baka heldur fylgdi stefnu sem hann útfærði byggða á grunni þeirra breytinga sem Thatcher hafði gert á bresku þjóðfélagi. Þegar hann tók við, var hann spurður um áhersluatriði sín. Svar hans var að þrennt myndi marka stjórnarstefnuna; menntun, menntun og menntun.

Tæplega varð þetta þó lýsingin á því sem seinna gerðist, enda fremur hugsað sem myndræn útlistun á kaflaskilunum sem hann vildi móta í stefnu flokks síns.

Leiðtogar eru umdeildir og Blair er núna einkum nefndur í tengslum við hið umdeilda Íraksstríð. Þegar tímar líða verða það þó önnur atriði sem standa munu upp úr. Við höfum flest skammtímaminni þegar kemur að mati á pólitískri sögu og fjarlægðin mun því auðvelda okkur að gera upp það tímabil sem kennt verður við Blair. Því þannig verður það. Blair-tímabilið.

Menn spyrja um áherslubreytingar núna þegar Gordon Brown tekur við. Þær verða einhverjar vitaskuld. Hann hefur ekki hinn pólitíska sjarma Blair. Honum er nauðsyn á að búa til skil. En gleymum ekki einu. Gordon Brown var hinn aðalhönnuðurinn að Ný-Verkamannaflokknum, eins og Michael Portillo fyrrum vonarstjarna Íhaldsflokksins skrifar í The Times í dag.  Brown  er höfundurinn að skattalækkunum til þeirra betur stæðu sem ríkisstjórnin bjó til og mun ekki undir nokkrum kringumstæðum sjá á eftir kjósendahópnum á miðjunni til Íhaldsflokksins. Það er því ekki mikilla breytinga að vænta í Bretlandi. Íhaldsflokkurinn þarf hins vegar að búa til nýja herstjórnarlist til þess að sigrast á nýja hershöfðingjanum í Downingstræi númer 10.




Það tókst - að sinni í það minnsta

Sjóræningjar á ReykjaneshryggSjávarútvegurinn er í senn innlend og alþjóðleg atvinnugrein. Hið fyrrnefnda skýrir sig sjálft, en um hið síðarnefnda má hafa nokkur orð. Sjávarútvegurinn er vitaskuld íslenska atvinnugreinin sem fyrst fór í alvöru útrás. Hann keppir á alþjóðlegum mörkuðum og ákvarðanir erlendis hafa áhrif á stöðu hans. Ákvarðanir okkar hér á landi hafa líka áhrif á stöðu greinarinnar á erlendum mörkuðum.

Svo erum við líka háð erlendu samstarfi við nýtingu einstakra fiskistofna. Þess vegna störfum við í svæðisbundnum stofnunum eins og NEAFC og NAFO. Slíkt svæðisbundið samstarf er nauðsynleg þegar innlend veiðistjórnun dugir ekki til og tekur alþjóðlegri fiskveiðistjórnun langt fram, eins og allir sjá.

Í samstarfi okkar á vettvangi NEAFC höfum við náð góðum árangri við að bægja útlendum sjóræningjum frá veiðum á Reykjaneshrygg. Sannarlega stóðum við Íslendingar framarlega í þeirri baráttu og höfðum margvíslegt frumkvæði. Það hefði þó ekki dugað til nema vegna þess að okkur tókst að fylkja liði með félögum okkar á vettvangi hinnar svæðisbundnu fiskveiðistjórnar NEAFC.

Nú er árangurinn sá að sjóræningjarnir sem veiddu árlega tugi þúsunda tonna af veikum stofni úthafskarfans, komu ekki til veiða. Það er væntanlega vegna þess að við gerðum þeim lífið leitt, jukum kostnað þeirra við veiðarnar, lokuðum höfnum fyrir þeim, torvelduðum þeim að fá vistir, veiðarfæri og eldsneyti. Neyddum fragtskipið sem sigldi með afurðirnar til þess að þvælast á milli hafna í fjarlægri heimsálfu og gerðum öllum ljóst að aðstoð við hinar ólöglegu útgerðir hefði alvarlega afleiðingar í för með sér.

Þetta þýðir hins vegar ekki að við getum slappað af í þessari baráttu. Þetta segir okkur bara að við náðum árangri og við þurfum að viðhalda þeim árangri með því að vera á varðbergi og tryggja að árangurinn vari.




Hefur ekkert breyst?

KýrMargt er skrifað um landbúnaðarmál daginn út og inn. - Á engu að breyta í þessum landbúnaðarmálum ? er spurt, eins og ekkert hafi breyst og ekkert hafi gerst. Þó hefur landbúnaðurinn tekið stórstígum breytingum, framleiðni aukist, búin stækkað og tæknivæðst, mikil vöruþróun átt sér stað og neyslumynstur breyst gríðarlega á undangengnum árum.

Vinsæll og virtur rithöfundur skrifar í Fréttablaðið í dag og kvartar undan því að ríkisstjórnin ætli að virða samninga, sem gerðir hafa verið við bændur og alþingismenn staðfest með atkvæðum sínum. Þetta eru þó samningar sem einnig hafa lagt grunn að miklum breytingum í starfsumhverfi þess, sem kallað hefur verið "hefðbundnar búgreinar". Eða hafa menn ekki tekið eftir breytingunum í mjólkurframleiðslunni, þar sem búin hafa stækkað og tæknivæðst og framboð mjólkurvara hefur margfaldast að fjölbreytni og gæðum. Og hefur það virkilega farið framhjá mönnum að sama þróun er hafin í sauðfjárrækt, sem nú er að færast frá þéttbýlli héruðunun, búin sömuleiðis að stækka og hagræðing í vinnsluþáttunum á sér stað.

Landbúnaðurinn hefur sumsé gjörbreyst. Við sjáum það birtast okkur í gjörbreyttu neyslumynstri, tilkomu nýrra afurða og áfram mætti telja.

Við erum einnig þátttakendur í alþjóðlegum viðskiptasamningum. Þeir munu hafa áhrif á stöðu landbúnaðarins, þar sem eitt meginmarkmið þeirra er að auka frelsi í viðskiptum, meðal annars með landbúnaðarvörur.

En við þurfum einnig að gæta þess að við njótum líka tækifæra sem geta falist í útflutningi okkar vara á erlenda markaði. Gleymum því ekki að Evrópusambandið harðlokar dyrum sinna markaða hvenær sem það fær því við komið. Ótal dæmi eru um slíkt. Þess vegna verður að gjalda varhug við þeirri hugsun að við opnum einhliða fyrir markaðsaðgang landbúnaðarvara hingað. Við eigum vitaskuld að skapa okkur sem sterkasta stöðu í samningum við erlendar þjóðir svo að möguleikar okkar til pólitískra ákvarðana á sviði viðskipta séu sem mestir.




Í fréttunum er þetta helst - eða hvað?

stod2-logoFréttayfirlit í ljósvökum geta verið lúmsk og draga ekki alltaf upp rétta mynd. Hér er ég meðal annars að vísa í tvö tilvik þar sem ruv-logoég kom við sögu.

Stöð 2 sagði í fréttayfirliti fyrir nokkru að ég teldi að vandinn á Flateyri hefði ekkert með kvótakerfið að gera. Þetta var ekki svo. Það sagði ég ekki. Í viðtali sem spilað var við mig í fréttinni sem svona var kynnt kom það einmitt í ljós að ég hafði ekkert sagt af þessu tagi. Hér var einfaldlega um að ræða orð fréttastofunnar sem byggðust ekki á viðtalinu.

Hitt atriðið var í gær í hádegisfréttum RÚV. Þar sagði: Hann hafnar þeirri aðferðafræði sem Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, boðaði í sjómannadagsræðu sinni að kvótakerfið verði notað til að efla byggðir landsins. Þetta voru heldur ekki mín orð eins og fram kom í fréttinni sjálfri. Í óbeinni frásögn RÚV í gær kom fram hið rétta, sem sagt að ég teldi ekki aðferðafræði Björns Inga vera þá skynsamlegustu, ýmsar aðrar leiðir séu til og stefna verði mótuð.

Síðan hef ég marg oft sagt að í fiskveiðistjórnarkerfinu væri sannarlega sú hætta til staðar að byggðir misstu veiðirétt. Þess vegna hefðu verið byggt inn í kerfið margvísleg úrræði. Við höfum stóraukið veiðirétt smábáta, vegna þess að útgerð þeirra væru á minni stöðunum og því væri það líkelgt til að styrkja stöðu þeirra. Við höfum um 18 þúsund tonn til byggðarlegra úrræða að auki, í formi línuívilnunar, aflabóta til til báta sem veiddu skel og rækju innfjarðar og loks byggðakvótann. Þannig gera stjórnvöld sér grein fyrir þeirri hættu sem er til staðar fyrir byggðirnar.

Fyrir nú utan það að vitaskuld er lang stærsti hluti aflaheimilda á landsbyggðinni, enda vita allir að sjávarútvegurinn vegur þyngst í atvinnulífi á landsbyggðinni.

Nú í vor samþykkti Alþingi frumvarp frá mér sem hafði það hlutverk að gera byggðakvótann skilvirkari. Þess gætir nú þegar í nýrri úthlutun. Nú þarf enn að skerpa þessa framkvæmd á grundvelli laganna.

Af þessu má sjá að fráleitt er annað en að við framkvæmd fiskveiðistjórnarlaga sé ekki tekið tillit til byggðarlega sjónarmiða.




Á Sjómannadag

KappróðurSjómannadagurinn er hvað sem öðru líður, ómetanlegur þáttur í lífi margra sjávarplássanna. Þar eru íbúarnir almennt virkir í hátíðarhöldunum og nánast hver verkfær maður mætir til leiks. Sums staðar hefur þetta orðið að nokkurra daga hátíðum sem skipta miklu máli fyrir byggðirnar og samfélög þeirra.

Því miður eru dæmi um að hátíðarhöld Sjómannadagsins hafi dregist saman á einstaka stað og jafnvel fallið niður. Það er mjög miður. Það er ástæða til þess að hvetja menn til dáða. Hátíðarhöld Sjómannadagsins eru svo einstæð að mikil ástæða er til þess að þau verði endurvakin þar sem þau hafa fallið niður og efld þar sem þau hafa farið fram með minni krafti en áður. Við eigum að stefna að því að Sjómannadagurinn verði hafinn til frekari vegs og virðingar þar sem þörf er á því, en sem betur fer eru hátíðahöldin víða um land kraftmikil og einstaklega skemmtileg.

Sjómannadagurinn er á vissan hátt hátíð, skerpir umræðuna um stöðu sjómanna og sjávarútvegsins í heild. En Sjómannadagurinn opnar fólki líka leið að sjávarútveginum sem ekki á þess kost að eiga dagleg samskipti við þessa undirstöðu atvinnugrein okkar. Þannig hefur Sjómannadagurinn í rauninni fræðslugildi, auk þess að vera skemmtilegur og að stuðla að aukinni samkennd íbúa og þess fólks sem í sjávarútvegi starfar.

Vel hefur tekist til við endursköpun Sjómannadagsins í Reykjavík með Hátíð hafsins. Við sjáum að þátttaka í dagskráratriðum er ótrúlega góð, þrátt fyrir að slæmt veður hafi sett sinn svip á hátíðarhöldin, síðustu tvö árin, en það eru einu skiptin sem ég hef verið í Reykjavík á Sjómannadaginn og það vegna ljúfra skyldustarfa minna sem sjávarútvegsráðherra.

Hátíðleg stund í kirkju í messu að morgni Sjómannadags er engu lík. Í morgun prédikaði ég í sjómannadagsmessu í Kópavogskirkju, þar sem starfsbróðir minn og félagi á Alþingi Sr. Karl V. Matthíasson messaði. Í fyrra flutti ég sömuleiðis prédikun í Hólskirkju í Bolungarvík. Sjómannadagsmessurnar eru víða vel sóttar og skipa þýðingarmikinn sess á Sjómannadaginn í sjávarbyggðum landsins.

 




Pólitísk hentugleikasjónarmið

RíkisráðsfundurEkki er alltaf því fyrir að fara að menn séu samkvæmir sjálfum sér þegar kemur að því að gagnrýna hina nýju ríkisstjórn. Það er kannski ekki endilega við því að búast svo sem. Gagnrýnendur reyna að finna sér einhverja handfestu og þá er ekki endilega víst að eitt styðji annað. Allt eins tala menn út og suður og ná ekki alveg rökrænu samhengi.

Tökum tvö dæmi.

Sagt hefur verið að með því að Sjálfstæðisflokkurinn gangi til samstarfs við Samfylkinguna sé henni lyft til öflugri stöðu en áður. Þátttaka í ríkisstjórn gefi flokknum ný færi og það geti gefið honum möguleika á að fá aðra stöðu í hinni pólitísku umræðu. Þetta er ein tegund af röksemdafærslu.

Svo kemur að hinu. Þeir eru til sem telja að samstjórn Samfylkingar með Sjálfstæðisflokki geti orðið hinum fyrrnefnda að fjörtjóni. Það mætti ætla að þeir sem svona tala telji að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sé eins konar banvænt faðmlag. Um þetta hefur verið mikið skrifað á bloggum og víðar svo sem

Hvorugt er þetta nú rétt. Það er engin slík pólitísk nauðhyggja til. Það er ekkert sem leiðir til óhjákvæmilegrar niðurstöðu af því tagi sem hér er vikið að. Niðurstaðan af þessu ríkisstjórnarsamstarfi fyrir Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu ræðst vitaskuld af því hvernig til tekst og því hvernig flokkarnir verða dæmdir af kjósendum sínum. Það er ekkert sem óhjákvæmilega leiðir til þess að Samfylking eflist á kostnað Sjálfstæðisflokks, eða að hið gagnstæða gerist, eins og haldið er fram af sumum.

Ríkisstjórnin fer nú af stað með öflugan þingmeirhluta, vel rökstuddan stjórnarsáttmála og gott gagnkvæmt traust. Árangur beggja flokkanna af þessu stjórnarsamstarfi hefur því allar forsendur til þess að verða góður. Hrakspár eru því ekki líklegar til að rætast. Framundan eru mörg spennandi verkefni sem flokkarnir hafa orðið einhuga um að takast á við af fullum heilindum.

Maður finnur líka að stjórnarsamstarfið á góðan stuðning í flokkunum, eins og glögglega kom fram í þeim mikla einhug sem ríkti í stofnunum flokkanna þegar afstaða var tekin til stjórnarinnar.

Það segir hins vegar sína sögu að þær spásagnir og hrakspár sem uppi eru hafðar stangast svo gjörsamlega á. Þær byggjast því augljóslega fremur af pólitísku hentugleikasjónarmiði en nokkru öðru og eru algjörlega án nokkurs rökrétts samhengis, eins og allir menn sjá.




Einhver missir?

StjórnarmyndunarviðræðurFurðulegt hefur verið að fylgjast með þeim sem hafa verið uppi með brigslyrði yfir því að ekki verði mynduð vinstri ríkisstjórn. Það er látið eins og tækifæri hafi gengið úr greipum vegna þess að vinstri stjórn verði ekki að veruleika núna. Þetta er skrýtið.

Er eftirsjá í þeim kosti að mynda vinstri stjórn? Hefur reynsla manna af margra flokka ríkisstjórn, með því mynstri sem vinstri stjórn kallast, verið sú að einhvern langi til að endurtaka það?

Ekki var það að heyra á kosninganótt eða á sólarhringunum sem í hönd fóru. Minni landsmanna er svo gott að allir geta rifjað upp svigurmælin sem gengu á milli og hefðu varla verið gott veganesti fyrir ríkisstjórnarsamstarf til fjögurra ára. Því það er einmitt kjarni málsins. Ríkisstjórnarsamstarf til fjögurra ára.

Við höfum reynsluna og hún er ólygnust. Margra flokka ríkisstjórn af vinstra tagi hefur aldrei lifað heilt kjörtímabil. Fyrr hefur hana þrotið örendið.

Öflug ríkisstjórn tveggja stærstu flokkanna verður í stakk búinn að takast á við þau brýnu verkefni sem bíða okkar í þeim breytilega heimi sem við lifum í. Slík ríkisstjórn byggir á trausti sem greinilega er að takast á milli flokkanna. Það er afskaplega mikilvægt.

Þess vegna er engin ástæða til þess að vera uppi með stóryrði eða brigsl. Athyglisvert er í þessu samhengi að lesa málefnaleg nálgun Björns Inga Hrafnssonar fyrrv. aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, sem er núna leiðtogi Framsóknarmanna í Reykjavíkurborg. Hann segir á heimasíðu sinni 19. maí síðast liðinn:

"Við framsóknarmenn eigum ekki að dvelja um of við ásakanir og vonbrigði vegna myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Vissulega eru mikil viðbrigði að fara í stjórnarandstöðu eftir tólf ára samstarf, en í því felast auðvitað allskonar tækifæri sem Framsóknarflokkurinn á hiklaust að nýta sér.

Nýrri ríkisstjórn fylgja auðvitað góðar óskir, ég vona að Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki auðnist að vinna landi sínu og þjóðinni gagn á næstu árum. Ég er hið minnsta staðráðinn í að veita henni öflugt og málefnalegt aðhald; hæla henni þegar vel er gert, en gagnrýna þegar það á við.

Í því er fólgin mikil breyting og áskorun fyrir mann sem um margra ára skeið hefur varið ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks af mikilli íþrótt. En tímarnir breytast og nú er flokkurinn minn utan landsstjórnarinnar."

Þetta eru ummæli sem vísa til framtíðar og eru eftirtektarverð í ljósi umræðu liðinna daga.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband