Reiðarslag

FlateyriUppsagnirnar í Kambi á Flateyri eru mikið reiðarslag fyrir byggðina og koma á óvart. Fyrirtækið hefur haldið úti mjög þróttmikilli starfsemi, keypt til sín aflaheimildir og leigt til sín aflamark. Það er vinnustaður fjölda fólks og skiptir miklu máli í samfélaginu öllu á norðanverðum Vestfjörðum. Þangað hefur fólk utan Flateyrar sótt vinnu og áhrifanna af starfsemi fyrirtækisins hefur því gætt víðar en á Flateyri einni.

Nú stöndum við frammi fyrir þessum veruleika. Vonir okkar eru bundnar við að sem mest af aflaheimildunum verði áfram til staðar á svæðinu. Við vitum að fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum hafa verið að afla sér aukinna veiðiréttinda og hafa að því leyti snúið neikvæðri þróun við. Það má því segja að Vestfirðingar hafi að undanförnu verið að njóta frjáls framsals aflaheimilda, þótt því hafi verið öfugt farið á árunum á undan. Sömu sögu er að segja um leigu aflaheimilda.

Ég hef verið spurður að samspili fiskveiðistjórnunarinnar og ákvörðunarinnar á Flateyri. Það er eðlilegt að spurt sé. Einmitt um þessi mál hafa umræðurnar um fiskveiðistjórnunarmálin snúist að talsverðu leyti undanfarin ár. Hvernig hægt sé að búa til úrræði fyrir byggðir þar sem fiskveiðiréttur er lítill, takmarkaður, eða hann hefur minnkað. Þetta er meginástæða þess að við fórum i gríðarlega harðan slag um fiskveiðistjórnarmálin fyrir nokkrum árum, með þeim afleiðingum að færður var til mjög umtalsverður fiskveiðiréttur frá stærri útgerðum til hinna smærri, frá stærri bátum til hinna smærri. Það blasir við að þetta skapaði minni byggðum, eins og til dæmis Flateyri, stóraukinn veiðirétt að nýju.

Við settum líka byggðakvóta í lög. Í vetur voru þau lög endurskoðuð og þeim breytt. Þannig breytt voru þau samþykkt samhljóða með atkvæðum allra alþingismanna. Það voru talsverð tíðindi, en vonandi segir það okkur þá sögu að í stjórnmálaflokkunum sé almennur vilji fyrir því að nýta fiskveiðistjórnunarkerfið meðal annars til úrræða fyrir byggðir sem búa við skertan fiskveiðirétt. Markmiðið var að gera byggðakvótann markvissari til þess að taka á vanda byggðanna. Ég vænti þess að það hafi tekist.

Línuívilnunin var einnig liður í þessu sama. Um sex þúsund tonn eru tekin frá til hennar. Það er ljóst að minni byggðirnar njóta hennar sérstaklega vel. Flateyri er til dæmis gott dæmi um byggðarlag sem hefur notið meiri veiðiréttar vegna línuívilnunar og er það sannarlega vel.

Það er þess vegna ekki rétt sem haldið er fram að menn hafi kært sig kollótta um hagmuni byggðanna. Þvert á móti. Við höfum gert okkur grein fyrir því að framsal aflaheimilda gæti haft neikvæð áhrif. Vestfirðingar hafa að vísu verið að uppskera meiri heimildir síðustu árin, en það breytir því ekki að dæmið frá Flateyri sannar að slíkt getur snúist við. Þess vegna þarf að byggja byggðarleg úrræði inn í fiskveiðistjórnarkerfið og það höfum við verið að gera.




Setið með Þorsteini á kosninganótt

Á kosninganóttKosninganætur eru jafnan æsispennandi. Það átti mjög vel við um síðustu kosninganótt. Þingmenn og frambjóðendur sveifluðust inn og út af þingi. Minn gamli góði vinur Ólafur Þ. Harðarson prófessor á kollgátuna því hann hefur sagt: Kosningakerfið hefur amk. ótvírætt skemmtigildi hvað sem menn segja um það að öðru leyti !

En til viðbótar við það að fylgjast með kosningatölum sem streyma inn má sjá sem í sjónhendingu upplýsingar um það hvernig þær breyta hinu pólitíska ástandi. Okkur voru líka birtar stjórnmálaskýringar, sem  eru eru svo sem upp og ofan, en þó jafnan skemmtilegar. Ólafur Þ. Harðarson hefur vitaskuld skapað sér algjöra yfirburðastöðu  á þessu sviði; vel að sér, yfirvegaður og  kann nægilega mikið í þessu fagi til þess að vita að kosningakerfið er til alls víst og því varhugavert að túlka of mikið fyrr en síðasti seðillinn hefur verið dreginn upp úr kjörkassanum.

Þegar Þorsteinn Pálsson ritstjóri birtist á skjánum lagði ég vel við hlustir. Ég veit það af meira en 30 ára reynslu að þegar hann tekur til máls um pólitískar greiningar, í bland við stjórnmálasagnfræði þá er ástæða til að hlusta. Hann hefur einstæða reynslu. Blaðamaður á hinu pólitíska sviði, ritstjóri Vísis, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, forystumaður í Sjálfstæðisflokknum, ráðherra - meðal annars forsætisráðherra og nú ritstjóri útbreiddasta blaðs landsins. Þeir finnast engir aðrir sem hafa þessa reynslu, sem bætist við skarpskyggni og áhuga á stjórnmálum.

Við kynntumst fyrst fyrir meira en 30 árum. Hann ungur laganemi í starfsnámi hjá sýslumanninum á Ísafirði. Ég ofurpólitískur menntaskólanemi og fékk hann til að tala um stjórnmál í MÍ. Síðan varð ég blaðamaður hjá Þorsteini á Vísi í tvö ár og fréttaritari blaðsins í einhver ár frá Bretlandi, félagi hans í Sjálfstæðisflokknum og samstarfsmaður á Alþingi.

Þetta skýrir hvers vegna ég lagði svo einkanlega vel við hlustir þegar Þorsteinn var kallaður til að tjá sig um stöðuna. Ég vissi að eftir miklu var að slægjast. Greining hans var sem vænta mátti yfirveguð og rétt.

Ég dró mig því  út úr skarkalanum á kosningaskrifstofunni okkar á Ísafirði, þar sem ríkti mikil stemming og hörkustuð, eftir því sem kosningasigur okkar varð skýrari er á nóttina leið. Þannig vildi ég  tryggja að ekkert færi fram hjá mér. Og þar sem ég sat þarna, með vökva lífsblómsins í forgrunni ( sem ég lét þó alls ósnertan) , X-D skiliríin á veggjum og upptekinn við að hlusta á Þorstein, smellti Sigrún María dóttir mín þessari mynd af mér - og raunar af okkur félögunum. Annar þiggjandinn og hinn veitandinn á pólitískar analýsur - eins og svo oft áður.




Alúðarþakkir, kæru vinir

Stuðningsmenn í SkagafirðiKosningabarátta er tími mikilla anna. Ekki síst í svo stóru og víðfeðmu kjördæmi eins og Norðvesturkjördæmið er. Heimsóknir vítt og breitt um kjördæmið eru hins vegar afskaplega gefandi og gaman að takast á við það að tala í þágu þess málstaðar sem við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins stöndum fyrir. Skemmtilegast þykir mér alltaf að standa í návíginu; standa til dæmis inni á vinnustað þar sem að manni þyrpist fólk sem hefur ákveðnar skoðanir og leggur fyrir mann beittar spurningar. Þetta er lýðræðisleg umræða í reynd.

Fundirnir eru líka fínir. Langt er síðan að menn fóru að spá andláti fundarformsins í samkeppni við fjölmiðlana. Reynslan sýnir annað. Það er áhugi og eftirspurn eftir slíkri umræðu. Fundarformið blívur vel; amk. þar sem ég þekki til.

En eftirminnilegast er mér þó alltaf að finna þær góðu móttökur og einlægu vináttu sem maður mætir svo víða í kosningabaráttunni. Að hitta fyrir fólk um allt kjördæmið sem kemur fúst og baráttuglatt til þess að leggja manni lið og vinna að heill Sjálfstæðisflokksins. Það er alltaf sama ævintýrið finnst mér. Ég hef háð marga kosningabaráttuna. En ævinlega fyllist ég dálítilli undran og auðmýkt þegar ég sé allan þann stóra hóp sem er tilbúinn til þess að fórna frítíma sínum, kvöldi með fjölskyldunni, laugardegi eða sunnudegi og jafnvel taka sér frí frá vinnu, til þess að leggja manni og framboðinu lið. Þetta er stórkostlegt og auðvitað svo langt frá því að vera sjálfsagt mál.

Maður á eiginlega aldrei orð. Verst þykir mér að geta aldrei almennilega flutt öllu þessu góða fólki þakkir eins og maður helst vildi geta gert. Vegna þess að það á þakkirnar svo margfaldlega skilið. Fólkið sem undirbýr fundina, aðstoðar mann í vinnustaðaheimsóknum, lagar kaffi, kemur með og bakar bakkelsi, stendur að glæsilegri á kjördag, greiðir manni leið, leggur manni góð ráð, aðstoðar á alla lund og sýnir manni svona mikla vináttu. Þetta er ómetanlegt.

Kosningabarátta er oft lýjandi og tekur á. Það koma líka leiðinlegir tímar. En þeir gleymast hjá öllu hinu. Sennilega allra helst vegna þess sem ég var að lýsa; því sem sagt, að maður finnur stuðninginn hjá öllu þessu góða fólki úti um allt kjördæmið. Það er ekki síst á þessum stundum sem maður skynjar hvílík forréttindi það eru að eiga þess kost að taka þátt í pólitísku starfi.




Gleðilegan kjördag

AtkvæðagreiðslaSkoðanakannanir kvöldsins voru hagstæðar Sjálfstæðisflokknum. En þær benda samt til að hættan á hreinræktaðri vinstri stjórn sé til staðar. Það er slæm tilhugsun. Einfaldlega vegna þess að reynsla okkar af slíku stjórnarsamstarfi er vond. Skelfilega vond, satt að segja. Margflokka vinstri stjórnir hafa aldrei tórt út eitt kjörtímabil. Þær hafa einkennst af sundurlyndi og togstreitu. Orkan hefur farið í innbyrðis deilum og alltaf hafa þær endað með ósköpum.

Við munum það hvernig ástandið var undir síðustu vinstri stjórn. Efnahagsleg óáran, deilur, verðbólga, lífskjaraskerðingar, halli á ríkissjóði, skuldasöfnun hins opinbera í útlöndum sem innanlands. Stöðnun í efnahags og atvinnulífi og vanmáttur til þess að takast á við verkefni á vegum hins opinbera sem í dag þykja sjálfsögð og eðlileg.

Í ljósi þessarar sögu er það ill tilhugsun að vita að enn koma foringjar stjórnarandstöðunnar fram og hóta okkur vinstri stjórn. Menn hafa vitaskuld sjálfsagðan rétt til þessara sjónarmiða, en nauðsynlegt er að minna enn og aftur á að þau njóta lítils stuðnings landsmnanna. Íslendingar vilja einfaldlega ekki vinstri stjórn, sporin hræða nefnilega.

Öflugur Sjálfstæðisflokkur getur einn afstýrt vinstra samstarfi. Þjóðin vill að flokkurinn verði kjölfesta stjórnarsamstarfs á næsta kjörtímabili. Við vitum auðvitað að foringjar stjórnarandstöðunnar eru þessu ósammála; þeir eru ósammála þjóðinni.

Við Sjálfstæðismenn göngum til kosninga með skírskotun til verka okkar og árangurs á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Við vísum einnig til stefnu okkar sem einkennist af trú á landið og þjóðina og einörðum vilja til þess að ná árangri; nýta sóknarfærin, eins og það er nefnt í kosningabaráttu okkar hér í Norðvesturkjördæmi.

---------------

Nú þegar kjördagur rennur brátt upp, vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem ég hef hitt að máli og átt samstarf við í kosningabaráttunni. Ég þakka góðar viðtökur fólks um allt kjördæmið. Í hvert sinn sem maður heyr kosningabaráttu kemur það á óvart og vekur þakklæti að hitta fólk sem er tilbúið að leggja á sig ómælda vinnu í þágu málstaðarins og vinna ótrúlega mikið og óeigingjarnt starf. Það er ekki síst á slíkum stundum sem maður finnur hver forréttindi það eru að eiga samstarf við allt þetta góða fólk og njóta þess að eiga vináttu þess. Fyrir það allt verður aldrei fullþakkað.

Kosningar eru lýðræðislegur réttur. Við skulum nýta hann til þess að hafa áhrif á þjóðfélag okkar.

Gleðilegan kjördag !




Þeir eru ósammála þjóðinni

Geir H. Haarde setur landsfundinnHvorki fleiri né færri en fernar skoðanakannanir munu birtast í dag, daginn fyrir kosningar. Helmingurinn hefur þegar birst og í gærkveldi birtist ein. Af því sem við höfum séð er bara eitt ljóst. Kosningaúrslitin eru fjarri því að vera ráðin. Allt getur í rauninni gerst. Enda ráðast kosningar ekki í skoðanakönnunum. Þær eru tæki sem félagsvísindi og tölfræði hafa búið til, svo nálgast megi aukna vitneskju um vilja kjósenda. Kosningarnar eru hinn lýðræðislegi og endalegi dómur um vilja fólksins í landinu.

Skoðanakannanirnar frá í gærkveldi og þær sem birtust nú í morgun gefa misvísandi mynd. En draga fram skýra kosti í rauninni. Það þurfum við að hafa í huga á morgun.

Staðan er þá þessi:

Eitt liggur fyrir. Í öllum könnunum sem hafa birst kemur fram afar skýr vilji til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn áfram. Þetta er mjög í samræmi við það sem við frambjóðendur flokksins verðum hvarvetna vör við. Fólk kemur til okkar á fundum, á vinnustöðum eða bara í erli dagsins og segir: Það er mjög mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn til þess að tryggja kjölfestu við landsstjórnina. Þetta eru ekki endilega stuðningsmenn flokksins. Maður mætir gallhörðum stuðningsmönnum annarra flokka sem segja þetta. Þeir vilja vitaskuld sinn flokk að stjórnarborðinu. En bæta svo við, en við viljum að Sjálfstæðisflokkurinn sé þar einnig, það tryggir farsæla stjórn.

Annað kemur líka glögglega fram. Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýtur gríðarlegs stuðnings og trausts almennings. Það finnur maður afar vel. Um þetta eru skoðanakannanirnar algjörlega sammála. Þær eru misvísandi um margt, en ekki það að Geir H. Haarde hafi yfirburðastöðu í samanburði við aðra stjórnmálaforingja. Á því ári eða svo sem hann hefur verið forsætisráðherra hefur hann áunnið sér þessa mikla trausts og það að verðleikum. Einnig þetta birtist okkur frambjóðendum á ferðum okkar um kjördæmin þar sem við hittum að máli stóran hóp fólks.

Eitt er hins vegar alveg jafn ljóst. Atkvæði greitt öðrum flokki en Sjálfstæðisflokknum eru ekki skilaboð um að flokkurinn fái aðild að ríkisstjórn. Ekki heldur skilaboð um að Geir H. Haarde leiði ríkisstjórn. Þótt þjóðin vilji að formaður Sjálfstæðisflokksins verði forsætisráðherra, vilja foringjar annarra flokka það ekki. Svo mikið er víst og það vitum við ofur vel. Þeir ætla sér sjálfum það sæti og eru þar algjörlega ósammála þjóðinni.

Þess vegna vil ég hvetja kjósendur til þess að hafa þetta í huga er þeir ganga að kjörborðinu á morgun.




Þátturinn þar sem Steingrímur sneri aftur

Ásjóna fyrir hvert tækifæriSteingrímur J. varð minnisstæður þegar hann gagnrýndi fyrrverandi formann Framsóknarflokksins fyrir að hafa sett upp sparibros fyrir síðustu kosningar og dregið upp aðra mynd en þá sem blasti við eftir kosningar. Um þetta hafði hann hin stærstu orð og hraklegustu.

Nú rifjast þetta upp að nýju. Ekki vegna einhvers sem snýr að Framsóknarflokknum. Heldur vegna hins að sjálfur skipti Steingrímur J. um ham í sjónvarpsþætti Stöðvar 2 í kvöld, þar sem formenn stjórnmálaflokkanna voru í aðalhlutverki. Hin áferðarfallega mynd þess rólega formanns, sem dregin hefur verið upp samviskusamlega undanfarnar vikur, hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þess í stað brast á gamalkunnugur orðaflaumur æsts manns, sem var nauðalíkur þeim Steingrími sem við félagar hans úr Alþingi þekkjum svo vel úr ræðustólnum, þegar hann stendur þar æstur á góðum degi

Svo var komið að manni virtist orðinn óravegur frá þeim Steingrími J. sem flaumósa hrópaði að þáverandi forsætisráðherra að hann væri gunga og drusla svo ekki sé nú talað um þann Steingrím sem uppvís varð að því að bölva og ragna í þingsölum þegar honum rann í skap.

Hinn nýji Steingrímur hafði allt aðra ímynd; sú ímynd einkenndist af ró og yfirvegun. Ögmundur Jónasson var orðinn alveg eins. Sallarólegur, sléttur og felldur í sjónvarpsþáttunum. Þessi háttur virtist skila flokknum ágætu fylgi. Flokkurinn þeirra var orðinn að hástökkvara í skoðanakönnunum og mældist upp í 25 til 30% fylgi.

En nú er öldin orðin  önnur. Fylgið dalar dag frá degi og nú birtist nýr Steingrímur í kvöld. Öllu æstari en sá sem við höfum vanist síðustu vikurnar; hann er farinn að líkjast þeim Steingrími  J. sem menn muna úr ræðustólnum á Alþingi. Mótlætið í skoðanakönnunum fælir rólegheitayfirbragðið frá.

Sá gamli Steingrímur J. hefur því bersýnilega snúið aftur úr hinni sjálfskipuðu útlegð. Kunnugleg ímynd hefur tekið við af rólegheitayfirbragði auglýsingastofanna.

Minn gamla starfsbróður býð ég velkominn úr útlegðinni. Nú finnst mér ég kannast við kappann !




Þjóðarviljinn komi fram í kosningunum

Geir H. Haarde formaður SjálfstæðisflokksinsGeir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýtur yfirburðatrausts þegar spurt er í skoðanakönnun Capacent Gallups: Hvaða stjórnmálamanni treystir þú best til að gegna starfi forsætisráðherra á næsta kjörtímabili ? Athyglisvert er að styrkur Geirs vex á milli kannana á meðan staða annarra stjórnmálaleiðtoga verður ýmist lakari eða stendur í stað.

Staðan er þessi, og tölur úr könnun 8. til 13. mars eru í sviga:


Geir H. Haarde, 54,0% ( 42,4)

Ingibjörg Sólrún, 17,0% (17,5)

Steingrímur J. Sigfússon 14,6% (22,0)

Jón Sigurðsson 4,1% (4,7)

Guðjón A. Kristjánsson, 0,4% ( 0,8)

Þetta eru mjög afgerandi úrslit. Sá stjórnmálaleiðtogi sem næstur kemur Geir, er ekki einu sinni hálfdrættingur. Ingibjörg Sólrún er sem sé með stuðning 17 prósenta og stuðningur við Steingrím J. hrapar. Þjóðin er með öðrum orðum að hafna þvi að þetta fólk og flokkar þeirra séu í forystu ríkisstjórna.

Við sjáum líka í könnun Fréttablaðsins að almenningur vill fyrst og síðast að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn og hvað eftir annað hefur það komið í ljós að kjósendur vilja ekki sjá það að stjórnarandstöðuflokkarnir sitji saman við ríkisstjórnarborðið.

Til þess að vilji almennings gangi eftir þarf Sjálfstæðisflokkurinn öflugan og órofa styrk. Þannig verður hægt að bægja frá stjórnarmynstri sem fólkið vill ekki sjá. Við sjáum að himinn og haf skilur að vilja almennings og ásetning stjórnarandstæðinga. Almenningur vill að Sjálfstæðisflokkurinn sé í aðili að ríkisstjórn og að formaður flokksins leiði það ríkisstjórnarsamstarf. Stjórnarandstaðan er því ósammála og er því í hróplegri andstöðu við fólkið í landinu. Hún hótar okkur sífellt með Kaffibandalagi, sem hér um bil enginn annar vill sjá og ógnar okkur með því að Steingrímur J. eða Ingibjörg Sólrún eigi að leiða ríkisstjórnir þó almenningur sé á annarri skoðun.

Afdráttarlaus stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn getur einn stuðlað að áframhaldandi stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins undir forystu Geirs H. Haarde. Til þess stendur ríkur vilji þjóðarinnar og sá vilji þarf að koma fram i kosningunum 12. maí.




Þeir eru aftur farnir að hóta Kaffibandalagi

Pallborðið á Ísafirði - mynd bb.isFramboðsfundir okkar í Norðvesturkjördæmi hafa leitt það í ljós að að flokkarnir sem mynduðu hið alræmda og óvinsæla Kaffibandalag eru enn við sama heygarðshornið. Að því bandalagi standa Vinstri Grænir, Frjálslyndir og Samfylking, eins og kunnugt er. Hvað eftir annað hótuðu talsmenn flokkanna að stefna að ríkisstjórnarmyndun ef þeir ættu þess kost. Þetta heyrðum við bæði á framboðsfundinum á Akranesi og á Ísafirði.

Þetta gerum við ef og þegar við verðum komin að ríkisstjórnarborðinu, sögðu fulltrúar og talsmenn flokkanna. Það er þess vegna enginn bilbugur á vinstra liðinu. Hótunin um vinstri stjórn sem varla nokkur maður vill sjá er raunveruleg og ekki annað að heyra en að baki þessu sé fullkomin alvara.

Fljótlega eftir að hið alræmda bandalag varð myndað kom í ljós að það naut afskaplega lítils álits almennings. Eftir því sem málin hafa þróast hefur andstaða fólks vaxið við tilhugsunina við vinstri stjórn.

En það láta talsmenn vinstri manna ekki aftra sér. Þeim er greinilega full alvara.

Margir álitu - og þar á meðal skrifari þessarar heimasíðu töldu að Kaffibandalagshugmyndin væri dauð. Spörk og pústrar á milli þeirra stjórnmálaafla sem mynda bandalagið höfðu bent til þess að forsendur stjórnmálasamstarfs þeirra væru úr sögunni. Ágreiningur um nánast allt sem tjáir að nefna nöfnum á pólitískum vettvangi var slíkur, að furðulegt mátti ætla að nokkrum manni dytti að mynda ríkisstjórn á slíku jarðsprengjusvæði.

Nú vitum við hins vegar að ekki finnst öllum þetta jafn galið. Talsmenn flokkanna sjálfa telja þetta greinilega hið besta mál.

Við þessu er bara eitt svar. Öflugur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn sendir þau öflugu skilaboð kjósenda að ekki komi til greina að mynda ríkisstjórn slíks tætingsbandalags. Kjósendur hafa svarað því skýrt - nú síðast í könnun Capacents Gallup - að þeir vilja ekki sjá Kaffibandalagið. Stuðningur þeirra er hins vegar mjög afdráttarlaus við að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Hin farsæla og vinsæla forysta Geirs H. Haarde er þjóðinni að skapi  en forsenda þess að þjóðin njóti hennar áfram er öflugur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn.




Stóriðjumálin voru varla nefnd á nafn

PallborðsumræðurFyrsti framboðsfundurinn af þremur, þar sem fulltrúar allra framboðslista mæta til sameiginlegra kappræðna, var haldinn í gær í Fjölbrautaskólanum á Akranesi. Efstu menn listanna hafa þó áður hist á nokkrum fjölmiðlafundum, eins og kunnugt er. Það getur verið gaman á slíkum fundum og gagnið af þeim felst væntanlega í skoðanaskiptunum.

Það vakti meðal annars athygli á þessum fundi að fulltrúar þeirra framboðslista sem harðast hafa talað gegn stóriðju í landinu, nefndu þær skoðanir sínar ekki á nafn á fundinum á Akranesi. Það er skiljanlegt. Á Grundartanga í næsta nágrenni við Akranes hefur stóriðjuuppbygging tekist vel og hefur átt mikinn þátt í þeirri jákvæðu íbúaþróun sem hefur átt sér stað á þessu svæði. Akranes nýtur þessarar uppbyggingar og sama má segja um ýmis önnur svæði kjördæmisins.

Í hugum íbúanna er stóriðja ekki til óþurftar eins og skilja hefur mátt á framboðunum sumum. Þar til í gær. Það örlaði aðeins fyrir stóriðjuandstöðu í einni ræðu frambjóðanda Vinstri grænna, en ekki var mikil alvara eða þungi í þeim málflutningi.

Vitaskuld er eðlilegt að við nýtum vatnsaflið til atvinnusköpunar í landinu. Við erum að nýta endurnýjanlega orkukosti sem ekki menga, gagnstætt því sem á við um ýmislegt annað. Álverin eru eftirsóttur vinnustaður, sem hefur sýnt sig í gegn um tíðina. Hér á landi erum við með mjög stranga umhverfislöggjöf, til þess að tryggja að nýting þessara náttúruauðlinda sé í samræmi við skoðanir okkar um sjálfbæra orkunýtingu. Með það að leiðarljósi er illskiljanleg þessi andstaða.

Þær hugmyndir sem hafa verið uppi um stóriðju þurfa vitaskuld að rúmast innan skynsamlegs efnahagsramma. Það er vandæðalaust að sjá svo um að slíkt gerist. Þannig virkar þessi atvinnuuppbygging ekki gegn annarri atvinnuþróun, en getur þvert á móti stutt við hana.

Þetta sýnir okkur að við eigum að sjálfsögðu að ræða þessi mál hispurs- og fordómalaust. Ekki útiloka eitthvað fyrirfram. Við eigum að nálgast þessa atvinnuumræðu eins og aðra, gera skynsamlegar kröfur til arðsemi af virkjunum, setja framkvæmdunum stranga umhverfisskilmála, hverfa frá ríkisábyrgðum og skapa þessum atvinnurekstri sömu starfsskilyrði og öðru atvinnulífi í landinu.




Eru vinstri menn handgengnastir fjármagnsöflunum?

KosningaféSú goðsögn hefur verið lífseig og vinstri menn haldið í henni lífinu að Sjálfstæðisflokkurinn hefði greiðan aðgang að fjármunum og gæti nýtt sér það flokknum til framdráttar í kosningabaráttu. En nú sjáum við það svart á hvítu að þetta er ekki raunin. Flokkarnir komu sér nefnilega saman um að fá Capacent Gallup til þess að fylgjast með fjármunum sem í auglýsingar færu eftir að hafa náð samkomulagi um tiltekð hámark í auglýsingabirtingar í fjölmiðlum. Hámarkið er 28 milljónir.

Nú hafa athuganir Capacent Gallup birst tvisvar. Og sjá. Það er Framsókn sem ver mestu fé til auglýsinga tæpum 7 milljónum króna, eða um fjórðungi hámarksins sem leyfilegt er að nota. Í kjölfarið koma svo Vinstri grænir með tæpar 6 milljónir, þá Frjáslyndi flokkurinn með tæpar 5 milljónir, Samfylking sömuleiðis með tæpar 5 milljónir og loks við Sjálfstæðismenn sem einungis höfum varið 3,4 milljónum eða helmingi minna en Framsóknarflokkurinn.

Þetta er afskaplega athyglisvert. Við verjum sem sé lang minnstu fjármagni til þessara auglýsinga. Vinstri menn sem hafa haft stór orð uppi um auglýsingaóhóf hafa notað snöggtum meira fjármagn til þess arna en Sjálfstæðisflokkurinn. Gagnstætt því sem goðsögnin hefur gengið út á; goðsögnin sem vinstri menn hafa búið til og klifað á áratugum saman.

Þetta er lærdómsríkt og lýsir kannski tilteknum tvískinnungshætti, ekki alveg ósvipuðum þeim sem vakti hlátur fólks er það upplýstist að vinir vistvæns umferðarmáta í hópi VG hefðu engir - með einni undantekningu þó - komið öðruvísi en á bíl til landsfundar síns.

Í umræðunni um auglýsingar og stjórnmálaflokka hefur temað verið einfalt. Þess hefur verið freistað að búa til tengsl meints aðgangs að fjármagni, auglýsinga og því að í krafti þess arna gætu tilteknir stjórnmálaflokkar keypt sér leið að góðum árangri í stjórnmálabaráttu. Nú kemur á daginn að það eru ekki síst þau stjórnmálaöfl á vinstri vængnum sem hafa haft uppi slíkan málflutning, sem eru rausnarlegust á auglýsingafé. Eru þessar upplýsingar til marks um að vinstri menn séu orðnir svona handgengnir fjármagnsöflunum? Við skulum ekki svara því hér, en við munum að VG sendi sem frægt var, bréf til 100 stærstu fyrirtækjanna í landinu, - svo sem álrisanna - og beiddu fjármagns.

Og næsta spurning sem vaknar er þá þessi: Eru tengsl á milli fjármuna til auglýsinga og árangurs í stjórnmálabaráttu? Svarið við þeirri spurningu fæst 12. maí.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband