Nordvesturland.is

nordvesturland.isVið sjálfstæðismenn í norðvesturkjördæmi höldum úti líflegum og áhugaverðum vef sem vert er að vekja athygli á, nordvesturland.is. Þar kennir margra grasa og er kappkostað að gera því sem hæst ber hverju sinni góð skil. Nýjar fréttir daglega, greinar, næstu fundir, upplýsingar um frambjóðendur og kosningaskrifstofur og margt fleira.

Blaðið okkar Nýtum sóknarfærin sem kom út í dymbilvikunni er aðgengilegt á vefnum og innan skamms verður næsta tölublað þar einnig. Því verður dreift um allt kjördæmið seinni part þessarar viku. Í blöðunum tveimur er fjallað um fjölmargt er snertir kjósendur okkar og verða samgöngumál þungamiðja næsta tölublaðs.

Í myndaalbúmi vefjarins getur að líta svipmyndir víðs vegar að úr kjördæminu og utan þess einnig; frá tugum funda og annarra viðburða sem efnt hefur verið til undanfarnar vikur. Alltaf bætist í safnið enda hvergi slegið slöku við.

Á morgun, þriðjudaginn 1. maí, verða t.d. tvær kosningaskrifstofur opnaðar í kjördæminu; á Hvammstanga og Blönduósi. Við ljúkum svo deginum með fundi Geirs H. Haarde forsætisráðherra í kosningamiðstöðinni á Akranesi annað kvöld klukkan 20:00.




Þegar verðmæti verða til

Klippt á borðannVígsla Þörungaverksmiðjunnar á Bíldudal sl. laugardag var hátíðleg og markaði upphaf að nýjum og betri tímum. Ég fékk þann heiður að flytja ávarp við opnunina og klippa á borða til þess að marka upphaf þessarar verksmiðjustarfsemi.

Verksmiðjan verður vinnustaður amk. tíu manna og mun hafa mikil og jákvæð áhrif á samfélagið allt á sunnanverðum Vestfjörðum. Með endurreisn fiskvinnslunnar á Bíldudal, undir kröftugri forystu fyrirtækjanna Odda á Patreksfirði og Þórsbergs á Tálknafirði, sem nú er í burðarliðnum, mun ennfremur setja mikinn mikinn afl í samfélagið á Bíldudal sem hefur mátt ganga í gegn um erfiðleika á umliðnum árum. Það var táknrænt að fyrstu fiskunum var rennt i gegn um flökunarvélarnar í fiskvinnslunni á Bíldudal daginn áður en að Kalkþörungaverksmiðjan var formlega opnuð.

Það eru liðin sjö ár frá ví að atburðarrásin hófst. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða seti sig í samband við Les Auchincloss og hans menn sem störfuðu meðal annars á þessu sviði. Samstarfsaðili þeirra hér á landi er fyrirtækið Björgun undir forystu Sigurðar Helgasonar. Að öllu var farið með gát og yfirvegun. Rannsóknir voru framkvæmdar í Arnarfirði og fengu til þess styrk af fjárlögum. Hið írska fyrirtæki skoðaði málið með augum hins alþjóðlega fjárfesta með þekkingu á þessu sviði. Stundum litu hlutirnir vel út, en stundum illa. En áfram miðaði. Og svo kom svarið að lokum. Við viljum fara í verkefnið. Þá létti okkur mörgum.

Síðan hafa staðið yfir miklar framkvæmdir. Upp er komið stórmyndarlegt verksmiðjuhús á hafnarbakkanum, búið að ráða mannskapinn og vélarnar hafa verið ræstar.

Stjórnvöld komu að verkinu með myndarskap. Undir forystu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra var afráðið að ríkið kostaði að mestu, en í samvinnu við sveitarfélagið, hafnargarðinn á Bíldudal, sem var forsenda verskiðjurekstrarins. Sú framkvæmd mun og nýtast annarri starfsemi á svæðinu.

Í rauninni er hér að gerast stórkostlegur hlutur. Kalkþörungarnir hafa legið ósnertir á hafsbotni; einskonar hugsanleg auðlind. Að eiginlegri auðlind urðu kalkþörungarnir ekki fyrr en þeirm var breytt í verðmæti, að frumkvæði heimamanna, með þátttöku aðila sem höfðu til að bera þekkingu, fjármuni, athafnasemi og tök á markaðnum. Þar með breyttust kalkþörungarnir í verðmæti.

Þess munu njóta allir starfsmenn fyrirtækisins, eigendur þess, samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum og í raun íslenska þjóðin. Ábatinn skilar sér í verðmætri vinnu, tekjum og útflutningsverðmætum. Það hefur svo verið eftirtektarvert að forráðamenn fyrirtækisins hafa lagt áherslu á að verða strax virkir þátttakendur í samfélaginu, með margs konar stuðningi við samfélagsleg verkefni, menningaratburði og þess háttar. Þannig verður verksmiðjan og atvinnureksturinn strax velkominn hluti af því umhverfi þar sem hún starfar.

Laugardagurinn, 28. apríl var góður dagur í atvinnusögunni. Til hamingju með þann dag.

 




Skattleysismörkin eru hæst á Íslandi

Axel HallEitt er vinsælt að segja í stjórnmálaumræðunni núna. Það er vísað til þess sem kallað er norræna módelsins, í efnahagsmálum og uppbyggingu velferðarkerfisins. Hér er meðal annars vísað til ágæts árangurs Norðurlandabúa í efnahagsmálum, góðra lífskjara og velferðarkerfis sem byggt hefur verið upp. Stundum er kosið að freista þess að draga upp þá mynd að á Íslandi sé þessu öfugt farið.

Þessu héldu til dæmis fram tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar sem skruppu í pólitískum erindagerðum til Danmerkur og sögðu þar allt með öðrum og betri róm. En er þetta þannig?

Alls ekki.

Tökum dæmi. Í nýrri þjóðhagsáætlun er greint frá miklum bata lífskjara hér á landi og hefur kaupmáttur almennings aukist um 75% frá árinu 1994. Aðeins í olíuríkinu Noregi er hægt að finna samsvarandi dæmi.

Hagfræðingarnir og háskólakennararnir Axel Hall og Ragnar Árnason hafa sýnt fram á að jöfnuður sé mikill hér á landi. Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram.

Í Fréttablaðinu á miðvikudag skrifar svo Axel Hall grein, þar sem hann dregur fram athyglisverðar staðreyndir um samanburð Íslands og annarra Norðurlanda.

Í fyrsta lagi kemur þar fram að hið opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu er hæst í Svíþjóð, þá Danmörku, Finnlandi og loks Íslandi og Noregi sem eru á svipuðu róli. Þetta er athyglisvert í ljósi þeirrar gagnrýni að vöxtur opinberra samskipta væri óeðlilegur.

Í annan stað kemur fram að hæsti og lægsti jaðarskattur er miklu lægri hjá okkur en í velsældarríki Samfylkingarinnar, Danmörku. Þar er greinilegt að sá flokkur ætlar að leita fyrirmynda. Það kom beinlínis fram í sjónvarpsviðtali við þá frambjóðendur flokksins sem fyrr eru nefndir.

Loks er að geta þess að skattleysismörk er þau hæstu á íslandi, af öllum Norðurlöndunum. Hjá okkur eru þau 900 þúsund. Lægstu skattleysismörk í Svíþjóð eru innan við eitt hundrað þúsund. Í Danmörku um 400 þúsund til 470 þúsund krónur.

Þetta er athyglisvert vegna þess að oft er gagnrýnt að skattleysismörkin hér á landi séu ekki hærri en raun ber vitni um.  Og það er líka athyglisvert að til Norðurlandanna er vísað sem sérstakrar fyrirmyndar í skatta og velferðarmálum. Það er í sjálfu sér sjónarmið og sannarlega er margt vel gert hjá frændum okkur á Norðurlöndunum. En tíðindi hljóta það að teljast að í fyrirmyndarríkjunum eru skattleysismörk allt að nífalt hærri hjá okkur,  en þar sem þau eru lægst á Norðurlöndunum.

Ætli menn séu að vísa til þessa norræna módels, með skattleysismörk oní 100 þúsund kalli í stað 900 þúsunda eins og hér?




Glæsileg umgjörð um glæsilega hesta

Inga Jóna, Einar Kristinn, Herdís og Guðný Helga.Hestamennska gegnir miklu hlutverki í mörgum héruðum landsins. Sem betur fer er þessi holla og skemmtilega íþrótt að hasla sér æ víðar Einar Kristinn og Þórólfur á Hjaltastöðumvöll. Þarna sameinast fjölskyldur í leik og starfi og þarna eiga íbúar þéttbýlis og dreifbýlis samleið. Aðstaða hestamanna batnar nú ár frá ári og það skilar sér í nýjum möguleikum hestaíþróttarinnar víða um land.

Gott dæmi um þetta er árviss samkoma hestamanna á Sauðárkróki í stórglæsilegri reiðhöllinni á Króknum, Tekið til kostanna. Ég hef sótt þessa glæsilega sýningu nú ár eftir ár og alltaf haft mjög gaman af. Það er eftirtektarvert að gæði sýningarinnar batna með hverju árinu sem líður og maður sér framfarirnar í hestamennskunni. Þar gegnir Hólaskóli sannarlega miklu hlutverki. Það menntastarf sem þar fer fram skiptir örugglega máli í þeim framförum sem maður sér í reiðmennsku og kynbótum.

Eins og ég hef áður vikið að er eftirtektarvert að konur gegna nú stærra hlutverki í reiðsýningum og hesamennskunni almennt en áður. Það á við á sýningunni sem hér er fjallað um. Þetta er enn eitt dæmið um vaxandi þátttöku kvenna á flestum sviðum og er það sannarlega vel.

Eitt er það sem vekur athygli okkar sem sækjum þessa miklu sýningu. Og það er hve stöðugt er meira lagt í hana. Þátttakendur leggja sig fram um að fitja upp á nýjungum. Búnir eru til nánast leikþættir þar sem rifjuð er upp sagan sem hestamennskunni tengist. Þá eru þátttakendur í búningum við hæfi. Í öðrum sýningaratriðum er lagt upp úr glæsileika umgjörðarinnar auk fimi hestanna og það skapar sýningarhaldinu auðvitað skemmtilega og flotta umgjörð.

Í ár var Geir H. Haarde forsætisráðherra heiðursgestur og flutti stutt ávarp í upphafi sýningarinnar. Hann sagði þar meðal annars frá skemmtilegri hestaferð sinni úr Borgarfirði í Skagafjörð fyrir fáeinum árum, þó ekki segðist hann vera vanur hestamaður. Hann er dæmi um einn þeirra tugþúsunda sem nýtur þess að fara á bak góðum hesti, njóta íslenskrar náttúru af hestbaki; upplifun sem ekki verður lýst með orðum fyrir þeim sem ekki hafa átt þess kost að njóta þess, en gefur tilefni til þess að hvetja sem flesta til þess að þeirrar skemmtilegu reynslu.




Skrímsli með menningarbrag

Einar og Elvar LogiÞað var sannkallaður menningarbragur í Baldri, félagsheimili Bílddælinga, síðdegis sumardaginn fyrsta. Ekki í fyrsta skipti. Menningarstarfsemi stendur á sérlega gömlum og grónum merk á Bíldudal og í ófá skipti hef ég skemmt mér undir leiklist og tónlistarflutningi Bílddælinganna í félagsheimilinu.

Nú stóð hins vegar sérlega mikið til. Elvar Logi Hannesson, Logi, eins og Bílddælingarnir kalla hann, var mættur til þess að frumflytja einleik um skrímslafræðinginn Jónatan og sló auðvitað algjörlega í gegn. Hann er alveg ótrúlega snjall og verkið var bráðskemmtilegt. Örn Gíslason frændi hans rifjaði það upp við sýningarlok að einmitt þarna hafði Logi stigið sín fyrstu leiklistarskref, ábyggilega í kompaníi við þá bræður Örn og Áka og föður sinn Hannes og fleiri slíka snillinga.

Temað í leikritinu er skrímsli og fer vitaskuld einkar vel á því að verkið sé frumflutt í Arnarfirði, skrautlegustu heimkynnum skrímsla á Íslandi, að sögn þeirra sem best þekkja til. Og við lok sýningarinnar var síðan gerð grein fyrir Skrímslasetrinu á Bíldudal sem þar mun rísa. Valdemar Gunnarsson, Bílddælingur greindi frá því sem gert hefur verið við undirbúning. Menn eru að leita að hentugu húsnæði og síðan er ætlunin að uppbygging hefjist. Þarna eru allar forsendur til að gera eitthvað mjög skemmtilegt og sem nemur athygli ferðamannsins. Skrímslasetrið á Bíldudal á að hafa allar forsendur til þess að verða eitt af vörumerkjum svæðisins, líkt og Galdrasafnið er á Ströndum, Vesturfarasetrið á Hofsósi, Draugasafnið  á Stokkseyri og fleiri álíka eru smám saman að verða víðar um landið.

Bílddælingum er líka vel trúandi fyrir svona uppbyggingu. Þarna getur að líta stórsnjalla sögu-  og sagnamenn.  Þeim verður ekki skotaskuld úr því að klæða þetta menningarlegu yfirbragði.

Valdemar heiðraði mig með því að kalla mig til og afhenda mér flottan bol með nýju merki Skrímslasetursins. Kannski það hafi verið vegna þess að ég kom örlítið að málinu með honum í upphafi og reyndi að greiða því leið. Það er gaman að taka þátt í slíku með hugmyndaríku og duglegu fólki.

Annars var einstaklega ánægjulegt að koma á Bíldudal núna. Þar ríkir mikil bjartsýni. Nýja Kalkþörungarverksmiðjan er að fara af stað. Þar verður til nýr og stabíll vinnustaður, sem skapar alveg nýja vídd í atvinnulífið í Vestur Barðastrandarsýslu. Svo eru Oddi og Þórsberg að byrja fiskvinnslu í frystihúsinu. Fólk fyllist bjartsýni og hyggur að fleiri tækifærum.

Skrímslasetrið og uppfærsla Elvars Loga eru dæmi um slíkt. Í sumar mun byggðin fagra við Arnarfjörð því væntanlega iða af lífi;  öflugu atvinnulífi og frísku mannlífi. Unga fólkið fær trú á byggðinni og það verður jafn gaman og fyrr að koma, setjast niður með góðum vinum og láta gamminn geysa; og skella sér svo á eftir á safnið hans Jóns Kr. eða í Skrímslasetrið á lognkyrrum sumarkvöldi við Bíldudalsvoginn. Tilhlökkunin hefur þegar tekið sér bólstað í hugskotinu.




Fallegur íslenskur siður

Skátar á Sumardaginn fyrstaÁ erlendri grundu í fjarlægu landi hitti ég fólk á sumardaginn fyrsta. Þetta var fyrir fáeinum árum og viðmælendur mínir þekktu Ísland bara af afspurn. Þau hváðu þegar ég sagði þeim frá þessum fallega íslenska sið; að fagna komu sumarsins. Í raun og sanni var sumarið löngu runnið upp, svona sunnarlega á hnettinum. Sól og hiti og það hljómaði því kannski dálítið ankannalega að tala um sumarbyrjun, í velgjunni þarna suður frá.

Við hér á Fróni látum slíkt þó ekki aftra okkur. Það er fallegur og góður siður að fagna sumarkomunni og snertir svo vel hina íslensku taug, sem við skulum varðveita umfram allt. Þeir eru til sem láta sér það sæma að tala með niðrandi hætti um íslenskrar venjur. Líkt eins og það veiti þeim lífsfyllingu að láta í veðri vaka að heimsborgarbragurinn sé hafinn yfir hversdagslegar íslenskar venjur og siði og hefðir þær sem hafa fylgt okkur í gegn um tíðina.

Menntamenn og hálfmenntamenn, sem tyllt hafa niður tá í útlandinu hafa það stundum fyrir sið - plagsið - að tala niður til góðrar venju. Af því er lítill sómi.

Sumardagurinn fyrsti er fallegur dagur og gaman að rifja upp þjóðtrú sem honum tengist. Einna kunnast má telja að samkvæmt íslenskri þjóðtrú boðar það gott sumar ef frjósa saman sumar og vetur. Ég sá að það var frost á hitamælinum í bílnum þegar ég ók heim af prýðilegum fundi sem ég efndi til á Suðureyri í kvöld. Mér fannst það boða gott um framtíðina. Þegar þjóðtrúin segir að við megum vænta gleðilegs sumars fögnum við og það að vonum.

Sumardagurinn fyrsti hefur svo sem ekki alltaf verið ýkja sumarlegur. Ég minnist snjókomu á sumardaginn fyrsta og ekki viðraði alltaf vel í messuferðum okkar þennan dag. Við ungir bolvískir skátar létum það ekki á okkur fá.

Samt er sumardagurinn fyrsti alltaf hátíðlegur og við eigum að halda honum í heiðri. Sumardagsins fyrsta er getið í elstu heimildum en frá árinu 1921 hefur hann verið barnadagur og gefið frí í skólum þennan dag. Hann er einn af ellefu löggiltum fánadögum íslenska lýðveldisins  og segir það væntanlega nokkuð um stöðu hans á meðal þjóðarinnar.




Jákvæð tíðindi úr sjávarútvegsumræðunni

Borgarafundur Sjónvarpsins á ÍsafirðiVandinn við umræður um sjávarútvegsmál er gjarnan sá að menn nálgast þær ekki alltaf eins og verið sé að tala um atvinnugrein, sem verði að lúta lögmálum atvinnulífs. Þó er það þannig núna að sjávarútvegur okkar hefur aldrei þurft að heyja jafn harða samkeppni hér innan lands og einmitt núna. Nýjar atvinnugreinar hafa komið til skjalanna, sem laða til sín mikið fjármagn. Fjárfestar leita í aðrar áttir til þess að ávaxta fjármuni sína. Ungt fólk hefur úr miklu að velja um störf og starfsmöguleika.

Það er í þessu umhverfi sem sjávarútvegurinn heyr nú samkeppni sína. Þess vegna verðum við að gæta þess þegar við ræðum sjávarútvegsmálin að það sé gert þannig að leiðarljósið sé ævinlega að treysta samkeppnislega stöðu þessarar undirstöðuatvinnugreinar. Ella verður sjávarútvegurinn einfaldlega undir. Það skaðar starfsfólk hans, eigendur og byggðarlögin sem allt sitt eiga undir velgengni sjávarútvegsins; rétt eins og þjóðarbúið sjálft, sem reiðir sig á velgengni sjávarútvegsins, bakhjarlsins í efnahagslífi okkar.

Í ljósi þessa var athyglisvert að nær allir talsmenn stjórnmálaflokkanna sem ræddu málin í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld voru þeirrar skoðunar að þær breytingar sem gerðar yrðu á sjávarútvegsstefnunni yrðu að vera sem þróun, ekki kollsteypa. Tóku þeir þannig undir það sem ég lagði áherslu á í málflutningi mínum. Frjálslyndir höfðu tiltekna sérstöðu, þó fulltrúi flokksins vildi lítið vita af stefnu flokks síns, sem felur í sér að færa einstaklingum fiskveiðirétt í formi daga, í stað magns.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar miklar breytingar á sjávarútvegsstefnunni, eins og ég hef til dæmis rakið í greinum að undanförnu og lesa má hér á heimasíðunni. Þar ber vitaskuld hæst að veiðiréttur smábáta hefur verið stóraukinn til þess að treysta grundvöll þess útgerðarforms sem mikilvægast er í minnstu byggðunum mörgum hverjum. Nú er kallað eftir því af útgerðarmönnum þessara báta að, trillukörlunum, að þeir fá tiltekinn stöðugleika, svo þeir geti sem best skipulagt atvinnurekstur sinn. Þeir gera kröfu til þess eins og aðrir í atvinnulífinu að reynt sé að draga úr óvissu.

Við vitum enda að óvissa er sérstaklega fjandsamleg einstaklingsútgerð, stuðlar að því að nýliðar hverfi úr atvinnugreininni og leiðir til frekari samþjöppunar. Þetta ber okkur að hafa í huga. Það var því einkar athyglisvert að bæði Samfylking og Vinstri grænir tóku í raun undir þessi sjónarmið; ekki síst Össur Skarphéðinsson sem setti fram hófsamari sjónarmið í sjávarútvegsmálum en oft hafa heyrst frá flokki hans. Það er sannarlega góðs viti og sætir tíðindum sem jákvæð hljóta að teljast.




Við hlökkum til næstu vikna

Frá LandsfundinumLandsfundurinn okkar hefur gengið sérlega vel. Það er mikill samhugur landsfundarfólks og greinilegt að allir hlakka nú til að takast á við kosningabaráttuna þann tæpa mánuð sem er til kosninga. Enginn vafi er á því að Landsfundurinn verður okkur öflugt vopn inn í þessa baráttu. Það skiptir okkur máli að koma til leiks með tillögur í fjölþættum málaflokkum og kröftuga stjórnmálaályktun sem jafnframt verður kosningayfirlýsing okkar.

Þetta er svo mikilvægt vegna þess að við höfum undirbúið þessa málefnavinnu með lýðræðislegum hætti. Í aðdraganda Landsfundarins unnu málefnahópar á flestum sviðum. Að þeirri vinnu kom fjöldi fólks. Haldnir voru opnir fundir, með fjarskiptatækni nútímans gafst enn fleirum kostur á því að leggja sitt af mörkunum. Þegar til Landsfundarins var komið, settust fulltrúarnir í málefnanefndir og réðu sínum ráðum. Lokaafgreiðsla málanna fór svo fram á fundinum sjálfum, en þar eiga seturétt upp undir tvö þúsund manns.

Tökum dæmi um Sjávarútvegsnefndina. Á Landsfundinum sátu 120 manns í nefndinni. Við ræddum drög að ályktun í þaula. Við leituðum lausna, unnum að samkomulagi og mótuðum stefnu, sem þessi breiði hópur gæti sameinast um. Það tókst okkur líka. Þannig fór svo tillagan inn á Landsfundinn og fékk þar góðar móttökur og var samþykkt samhljóða. Þarna sjáum við að stór hópur fólks hefur áhrif. Þarna eru allir jafn réttháir. Þetta eru dæmi um lýðræðisleg vinnubrögð. Stór hópur fólks með ólíkan bakgrunn vinnur saman að því að móta stefnuna, sem væntanlega á eftir að setja mark sitt á þjóðmálaumræðuna og vonandi stefnu þjóðfélagsins í framtíðinni. Þetta á við um Sjávarútvegsnefndina en einnig aðrar nefndir á Landsfundinum

Slík málefnavinna er í rauninni einstæð hér á landi. Slíkt getur ekki að líta í öðrum flokkum. Við sáum muninn á okkar Landsfundi og fundi Samfylkingarinnar sem haldinn var sömu helgi. Það er augljóst að þar fór ekki fram sama málefnavinnan. Í bakherbergjum var mótuð stefna í mikilvægum málaflokkum án þess að Landsfundur flokksins ætti að því aðkomu. Til dæmis í umhverfismálum - Fagra Íslands, málefnum ungmenna - Unga Ísland og svo skýrsla Jóns Sigurðssonar fyrrverandi bankastjóra og ráðherra. Tíminn á fundi þeirra var augljóslega ekki mikið nýttur til málefnavinnu, en fremur til að hlusta á ágætt fólk utan flokksins halda erindi.

Til fundarins var boðið tveimur flokksformönnum jafnaðarmannaflokka frá Danmörku og Svíþjóð, sem eiga tvennt sameiginlegt með formanni Samfylkingarinnar. Þær eru allar konur og síðan eru þær Ingibjörg Sólrún, Mona Sahlin og Helle Thorning Schmidt, allar í stjórnarandstöðu.  Þær mynda því eins konar stuðningshóp í þessum vandræðum sínum.

En við Sjálfstæðismenn höldum nú keikir út í vorið og höldum áfram kosningabaráttunni, tvíefldir, með öflugan Landsfund að baki og lýðræðislega mótaða og öfluga stefnu í farteskinu. Við hlökkum því til næstu vikna.




Öflugur Landsfundur okkar er hafinn

Geir H. Haarde setur landsfundinnLandsfundur Sjálfstæðisflokksins markar alltaf tímamót í stjórnmálum. Landsfundurinn er öflugasti stjórnmálafundur í landinu, enda æðsta vald í málum stærsta stjórnmálaflokksins þar sem stefnan er mótuð fyrir flokkinn til næstu ára. Nú er Landsfundurinn haldinn einum mánuði fyrir kosningar og hlutverk hans verður því að semja kosningayfirlýsingu flokksins.

Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa löngum verið öfundarefni andstæðinga okkar. Óteljandi eru þær nöldurs og neikvæðnigreinar sem þeir hafa sett á blað vegna þessa fundar. Það er skiljanlegt og vel fyrirgefanlegt. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hlýtur að vera tilefni til öfundar í hugum póltískra andstæðinga flokksins.

Ræða Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra var mjög yfirgripsmikil, málefnaleg og kröftug. Hann dró upp mynd af fortíðinni og setti þær gríðarlegu framfarir sem hafa orðið á flestum sviðum í eðlilegt sögulegt samhengi. Í ræðunni var brugðið skýru ljósi á breytingarnar sem hafa orðið í þjóðfélaginu, lífskjarabyltinguna, aukna fjölbreytni atvinnulífsins, stóraukna menntun, bætt kjör lífeyrisþega og aldraðra, svo dæmi séu tekin.

En hann horfði ekki síður til framtíðar. Því þótt andstæðingum okkar gangi illa að skilja það, þá lýkur viðfangsefnum stjórnmálanna seint. Þegar einum áfanga er náð, þá tekur annar einfaldlega við. Dæmi: Þegar gert hefur verið átak til þess að bæta kjör aldraðra eins og meðal annars hefur verið gert með samningum við samtök þeirra, þá horfum við til þess hvað gera beri frekar. Það boðaði formaður Sjálfstæðisflokksins.

Annars vegar með því að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri frá lífeyrissjóði, t.d. 25 þúsund krónur á mánuði, til hliðar við greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Þannig verði komið til móts við þá, sem ekki hafa getað aflað sér neinna eða einungis smávægilegra réttinda til greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Hitt atriðið sem formaður flokksins nefndi varðandi málefni aldraðra var  að minnka sem fyrst hinar almennu skerðingar í almannatryggingakerfinu úr um 40% í 35% og að þeir sem orðnir eru sjötugir geti unnið launaða vinnu, ef þeir vilja, án þess að launin skerði lífeyri frá Tryggingastofnun.

Þetta eru mikilvæg áhersluatriði, sem ástæða er til þess að fagna og undirstrika. Þetta sýnir skýran vilja okkar til þess að halda áfram á þeirri braut að bæta kjör eldra fólks. Annars vegar með áherslu á þá sem ekki áttu kost á að afla sér lífeyrisréttinda. Hins vegar að gefa eldra fólk kost á að vinna án þess að það skerði almennatryggingalífeyri. Slíkt er aðferðafræði Sjálfstæðismanna; að gefa fólki færi á að bjarga sér, en sinna jafnframt þörfum þess fólks sem þarf á sérstakri aðstoð að halda.




Kannski trúa þeir vitleysunni úr sjálfum sér

Vegagerð í ÍsafjarðardjúpiHvernig stendur á því að upplýstir þingmenn og frambjóðendur klifa á röngum fullyrðingum í stórum og mikilvægum málum? Getur það virkilega verið að einhver telji sér það henta að halda fram rangfærslum eða að einhver trúi því að séu þær endurteknar nógu oft, þá leiði það til þess að menn leggi trúnað á vitleysuna?

Þessar og viðlíka spurningar hafa komið upp í huga minn undanfarnar vikur, undir útsendingum frá framboðsfundum í ljósvakamiðlum héðan frá Norðvesturkjördæmi. Fyrst í sjónvarpsþætti Stöðvar 2 á dögunum og nú í dag í útvarpsþætti Rásar 2. Þar var því haldið fram, af endilöngum frambjóðendum stjórnarandstöðunnar að sú ákvörðun að stöðva útboð á ríkisframkvæmdum nú í sumar, hafi valdið töfum og bitnað á framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru á Vestfjörðum.

Þetta er rangt. Þetta er kolrangt og það eiga þessu ágætu frambjóðendur og þingmenn að vita.

Í sumar var ákveðið að stöðva útboð á vegum ríkisins. Jafnframt að óska eftir því við sveitarfélög að þau hægðu á í sínum framkvæmdum. Því tóku þau vel, enda ljóst að þeim hentaði vel að hægja á í því þensluástandi sem var á verktakamarkaði á þessum tíma. Hið sama gerðu til dæmis framkvæmdaaðilar tónlistar og ráðstefnuhúss í Reykjavík, eins og kom fram í yfirlýsingu frá þeim.

Áfram var þó haldið við tæknilegan undirbúning framkvæmdanna. Þar var í engu hægt á. Gefið var síðan grænt ljós á útboðin í októberbyrjun. Engar framkvæmdir fóru hins vegar af stað á Vestfjörðum fyrr en í nóvemberbyrjun. Ekki vegna þess að fjármagn hafi skort. Ekki vegna þess að ríkið heimilaði það ekki. Heldur vegna þess að tæknilegum undirbúningi var ekki lokið.

Þar var ekki við ríkisvaldið að sakast. Ríkisstjórnin verður ekki dregin til ábyrgðar. Staðan á málunum er hins vegar sú nú, að allar þær framkvæmdir sem um var rætt á Vestfjörðum, eru komnar af stað, eða útboðum lokið. Lokaáfangi Ísafjarðardjúps er vínnslu. Útboðsverkið í Gufudalssveitinni á fullri ferð og næsti áfangi boðinn út um leið og tæknilegum undirbúningi lýkur. Arnkötludalurinn er á samningsborði með verktaka. Óshlíðargöngin eru í tæknilegum undirbúningi, fjármagn tryggt og útboð fer fram jafnskjótt og hönnun lýkur. Dýrafjarðargöng eru í fyrsta sinn á samgönguáætlun.

Fullyrðingar stjórnarandstæðinganna eru því illskiljanlegar. Þessar staðreyndir hafa svo oft verið kynntar opinberlega. Því er ótrúlegt að þeim séu þær ekki kunnar. Það getur hins vegar ekki verið að þeir séu að fara vísvitandi með rangt mál. Því verður einfaldlega alls ekki trúað á svo ágætt fólk. Eina haldbæra skýringin er því sú að þeir hafi hreinlega bara gleymt hvernig búið var í pottinn; nema að þeir séu sjálfir farnir að trúa vitleysunni úr sjálfum sér !




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband