9.4.2007 | 22:10
100 milljarða loforð á tveimur mínútum
Sjónvarpsumræður forystumanna stjórnmálaflokkanna nú áðan drógu upp skýra mynd af kostum stjórnmálanna um þessar mundir. Fyrst og fremst vegna þess að ráð Vinstri grænna, Íslandshreyfingarinnar, Samfylkingar og Frjálslyndra voru öll á eina leið. Aukin útgjöld og helst í bland við snarlækkun ríkistekna. Þetta er óábyrgt tal, sem útilokað er annað en að almenningur sjái í gegn um.
Einn sagði, án þess að depla auga. Skattleysismörkin upp í 150 þúsund krónur. Annar sagði burt með allar tekjutengingar í velferðarkerfinu. Og þetta gekk upp úr mönnunum á tveimur þremur mínútum í sjónvarpsþættinum. Líklega dýrustu mínútur í samanlagðri sögu íslensks sjónvarps. Líklegt er að þessar og álíka tillögur sem fram komu hjá þessum fulltrúum stjórnmálaflokkanna slagi upp í svona 100 milljarða.
Þetta er auðvitað fáránlegt tal.Tökum aðeins dæmi af tekjutengingunum. Þeim er ætlað að stuðla að jöfnuði og að nýttir séu fjármunir sem fara til almannatrygginga í því skyni að bæta kjör þeirra sem helst þurfa á því að halda. Nýta peninga sem ríkissjóður ætlar til almannatryggingabóta með þeim hætti að það dreifi tekjum - jafni þær. Tillagan um að afnema tekjutengingar færir ríkum sem hinum lakar settu bætur, sem betur væru komnar hjá þeim sem lakast hafa kjörin. Hitt ber þó að játa. Tekjutengingarnar eru vandmeðfarnar og verða örugglega eilífðar úrlausnarefni stjórnmálanna. En þær hafa þann tilgang að nýta fjármuni til almannatrygginga sem best fyrir þá sem á þurfa að halda - og - að jafna kjörin.
Hér er þó einungis verið að vísa til afmarkaðs hluta þess loforðaflaums sem út hefur gengið af vörum vinstri manna. Fráleitt er hér allt upp talið. Frá því verður greint síðar, til þess að varpa ljósi á þann valkost sem stjórnarandstaðan er.
Svo gerðist það enn á ný að Kaffibandalagið var huslað. Sent niður á fetin sex. Harkan sem greinilega er hlaupin í umræðurnar gagnvart Frjálslyndum af hálfu Samfylkingar og VG talaði sínu máli. Steingrímur talaði skýrt. Sagði hrygglengju bandalagsins vera í flokki sínum og Samfylkingu. Þar með var Frjálslyndum hent út í myrkrið. Þetta bandalag verður því varla á dagskrá sem póltískur möguleiki, nema verið sé að slá ryki í augu kjósenda.
Gegn þessuðum sundraða hópi gengur Sjálfstæðisflokkurinn öflugur, samhentur og keikur, undir forystu þess manns sem mests trausts nýtur í hópi forystumanna íslenskra stjórnmála, Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Festa hans, hógværð og málefnaleg framganga í sjónvarpsþættinum sýndi sjónvarpsáhorfendum svart á hvítu af hverju hann nýtur slíkrar hylli almennings.
8.4.2007 | 12:50
Gleðilegir páskar - gleðilega páska
Páskarnir eru ein helsta trúarhátíð okkar kristinna manna. Messur eru sungnar og guð lofaður. En páskarnir eru einnig fjölskylduhátíð; eins og raunar allar trúarhátíðir okkar. Við eigum þess kost, flest hver, að njóta samveru með fjölskyldum okkar. Í erli nútímasamfélags er það einkar mikilvægt og nokkuð sem við getum seint fullþakkað.
Í ati kosningabaráttunnar er það sérlega gott að fá til þess tækifæri að vera saman með fjölskyldunni. Eiga saman næðisstundir, borða góðan mat, njóta útiveru á skíðum eða í gönguferðum, fara í kirkju og heimsækja vini, frændfólk og kunningja.
Þannig hafa raunar páskar okkar fjölskyldu jafnan verið. Páskar hér í Bolungarvík og Ísafirði eru markaðir fjölbreytni og öllu því sem maður óskar sér á þessari stundu. Páskavikan á Ísafirði hefur löngum laðað til sín fjölda fólks, sem komið er til þess að njóta skíðaíþróttarinnar, menningarviðburða, trúarþátttöku og heimsækja vini og aðstandendur.
Mér er í ljúfu barnsminni þegar sjálfur Gullfoss sigldi inn í Ísafjarðarhöfn um páska og bærinn fylltist af fólki að sunnan, sem bjó um borð í þessu glæsilega flaggskipi og setti svip á mannlífið. Nú kemur Gullfoss ekki lengur, en fólkið streymir vestur á skíði og í öðrum erindagjörðum um páska. Bærinn fyllist af lífi sem einkennir hann þegar ókunnugt fólk og brottfluttir stika um hinn glæsilega og einstaka miðbæ á Ísafirði, skellir sér kannski í sund í bæjunum í kring og nýtur náttúrufegurðarinnar.
Og nú er annað einkennismerki reist á Ísafirði um páska. Hátíðin mikla Aldrei fór ég suður dregur að sér fjölda fólks; þúsundir heyrði ég í fjölmiðlum og það getur svo sem alveg verið satt, miðað við allan fjöldann sem maður hittir hvarvetna þessa dagana hér fyrir vestan.
Þessi hátíð er alveg ótrúleg. Menn geta svo sem haft ýmsar skoðanir á tónlistinni; hún er satt best að segja nokkuð hávær fyrir okkur fimmtuga, karla og kerlingar. En stemmingin; maður lifandi, hún er ólýsanleg. Umgjörðin, skemman hans Aðalsteins Ómars vinar mín niðri á höfn, fellur einstaklega vel að hátíðinni og ekkert síðri til þessa brúks en sjálft Edinborgarhúsið, svo flott sem það er nú annars orðið. Þeir feðgar Guðmundur Magnús Kristjánsson, Muggi og Örn Elías Guðmundsson, Mugison, eiga þakkir skildar fyrir framtakið. Það hefur vakið þjóðarathygli. Enginn sem vill teljast með í rokksamfélagi Íslands sleppir því að koma vestur, ýmist til að spila eða fylgjast með. Þeir feðgar eru sannir afreksmenn og eiga skilið þjóðarlof, ekkert minna, fyrir tiltækið
Þessir páskar hafa verið gleðilegir og ég sendi lesendum þessarar síðu bestu páska óskir. Gleðilega páska.
6.4.2007 | 13:21
Skáldið góða
Guðmundi Inga Kristjánssyni, önfirska skáldinu var sýndur mikill og verðskuldaður sómi nú í síðustu viku, þegar þess var minnst að öld var liðin frá fæðingu hans. Það var gaman að vera viðstaddur menningarvökuna í Íþróttahúsinu á Flateyri að kvöldi Pálmasunnudags og verða þess áskynja hvílíkrar virðingar skáldið okkar nýtur í samfélaginu hér fyrir vestan. Mættir voru líka ættingjar Guðmundar Inga, sem hafa sýnt honum og verkum hans mikla og góða ræktarsemi.
Þetta var hátíðarstund. Lesið og sungið úr verkunum og í tilefni aldarafmælisins var ljóðasafn skáldbóndans snjalla gefið út að nýju, með nokkrum viðbótarkvæðum. Formála að verkinu skrifar bróðursonur skáldsins Kristján Bersi Ólafsson fyrrv. skólameistari. Þá háðu hagyrðingar skemmtilegt mót og fór vel á því í minningu þess Vestfirðings sem best hefur ljóðað á seinni árum.
Bestu kvæði Guðmundar Inga eru með því besta sem ort var á 20. öldinni hér á landi. Til kvæða hans er gott að grípa hvenær sem færi gefst. Þangað má sækja djúpa speki, hnyttinn kveðskap, sveitalýsingar, ferðafrásagnir og einstaka sýn á hið hversdagslega.
Okkur Vestfirðingum ber að halda minningu hans á lofti og gæta þess að honum sé sýndur sá sómi og sú virðing sem honum ber.
Guðmundur Ingi var skáld. En hann var einnig bóndi sem erjaði hina vestfirsku jörð. Úr þessu samspili spann hann skáldþráð sinn. Hafði sýn á heiminn af vestfirskum sjónarhóli. Meitlaði góðar gáfur sínar með fróðleiksfýsn og lestri góðra bóka. Sótti innblásur víða, en var bundinn uppruna sínum traustum tryggðarböndum.
Sjálfur var ég svo heppinn að kynnast honum nokkuð. Hitti hann oft á förnum vegi. Heimsótti hann meðal annars ásamt konu minni og dóttur okkar, að Kirkjubóli með vini mínum og frænda hans Ólafi Þ. Harðarsyni, sem var árum saman sumarlangt hjá frændfólki sínu á þessu mikla menningarheimili. Ég minnist hans líka á Hrafnseyri að flytja kvæði, óð til Íslands á hátíðarstundu. Ógleymanlegur verður hann líka á aðalfundum Orkubús Vestfjarða, þar sem hann var hirðskáldið sem batt atburði fundarins og tengda hluti í ljóðstafi af stakri snilld.
Þeir sem stóðu fyrir menningarvökunni í Íþróttahúsinu á Flateyri, að kvöldi Pálmasunnudags eiga þakkir skildar. Okkar vestfirska skáld verðskuldar að við sýnum arfi hans og minningu virðingu og þökk.
5.4.2007 | 13:19
Einu sinni var.......
Það getur eiginlega ekki orðið mikið skýrara en þetta. Kaffibandalagið er í raun horfið úr raunveruleikanum og óhætt að tala um það skrýtna fyrirbrigði í þátíð. Nú er hægt að segja, einu sinni var... þegar um er að ræða hið pólitíska ástarsamband stjórnarandstöðuflokkanna.
Í rauninni þarf ekki mikla skarpskyggni, né kunnáttu í pólitískum djúpsálfræðipælingum til þess að gera sér ljóst að forystumenn Vinstri grænna og Samfylkingar hafa í raun blásið þetta bandalag af. Yfirlýsingar í Fréttablaðinu og víðar um málflutning Frjálslyndra í innflytjendamálum eru svo afdráttarlausar að ekki er um að villast.
Fulltrúi Samfylkingarinnar var meira að segja svo forhertur að setja upp bókstaflega kennslustund í því hvernig Frjálslyndir ættu að fara að því að víkja frá stefnu sinni. Hann benti á að flokkurinn hefði í stefnumótun sinni talað um að "freista" einhvers. Með því var hann auðvitað að benda á að þetta væri eins og hvert annað sjónarspil, þar sem tjöldin yrðu dregin fyrir bak kosningum.
Síðan hefur verið bætt um betur. Formaður Samfylkingar og þingflokksformaður hafa gert tilraun til þess að taka Frjálslynda í einhvers konar byrjendanámsskeið um Evrópska efnahagssvæðið. Þar með eru send þau skilaboð að forystumenn flokksins skilji ekki einu sinni aðalatriðið í gangverki þess alþjóðasamnings sem veigamestur hlýtur að teljast í þjóðfélagi okkar.
Það er í sjálfu sér ekki vonum seinna að rekunum sé kastað á þetta dauðadæmda kaffibandalag. Við vitum að frá upphafi hefur þjóðin hafnað svona samstarfi. Það hefur verið reist á skelfilegum brauðfótum. Ágreiningur hefur verið mikill innbyrðis, flokkarnir eru ósammála í stórmálum og sá ágreiningur hefur hvað eftir annað komið í ljós. Athygli vakti að í skoðanakönnun um daginn voru 2,2% fylgjandi ríkisstjórn þeirra þriggja flokka sem mynda Kaffibandalagið.
Við sáum vitaskuld að Vinstri grænir og Samfylking biðu þess með óþreyju að losna úr þessu banvæna faðmlagi, sem var að stórskaða þá. Nú hefur það sem sagt tekist án þess að formleg tilkynning sé gefin út. En einu má örugglega treysta; blóm og kransar verða afbeðnir
1.4.2007 | 18:14
Kosningaskrifstofa opnuð á Ísafirði
Opnun kosningaskrifstofunnar okkar á Ísafirði á föstudaginn var tókst mjög vel. Fjölmenni mætti og það var mikill hugur í mannskapnum. Við gerum okkur grein fyrir því að framundan er mikil vinna og við erum staðráðin í því að vinna vel og leggja hart að okkur til þess að ná árangri.
Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og frambjóðandi í alþingiskosningunum, setti opnunarathöfnina með snjallri hvatningarræðu og gaf mér síðan orðið. Því næst fluttu þau Helga Margrét Marsellíusardóttir og Birgir Sigurjónsson flott tónlistaratriði. Að því búnu flutti Elvar Logi Hannesson einleik eins og honum er einum lagið og kallaði svo til liðs við nokkra nærstadda gesti og við fluttum saman Kómedíu byggðastefnuna við góðar undirtektir. Loks flutti Einar Oddur hvatningarræðu.
Þetta er þriðja kosningaskrifstofan sem við opnum. Fyrsta skrifstofan var opnuð á Akranesi, þar sem Haraldur Helgason ræður ríkjum, því næst á Sauðárkróki þar sem Björn Björsson verður kosningastjóri og loks skrifstofan á Ísafirði undir stjórn Inga Þórs Ágústssonar. Við erum einnig búin að opna glæsilega heimasíðu, www.nordvesturland.is
Það gladdi okkur síðan og hleypti enn meiri krafti í mannskapinn, að inn á kosningaskrifstofuna bárust fréttir af góðri skoðanakönnun Capacent Gallup. Það eykur vígamóðinn. En við vitum að ekki er á vísan að róa. Það er árangurinn 12. maí sem máli skiptir.
Framundan er snörp kosningabarátta. Við höfum séð hvernig pólitískir andstæðingar móta málflutning sinn. Mikil gagnrýni, en fátt um tillögur. Jafnvel í málum sem rædd hafa verið í þaula örlar ekki á málefnalegri stefnumótun, en mikið getur að líta af pólitískum yfirboðum, þar sem milljarðatuga útgjöld spretta fram sem ekkert sé.
Við vitum hvað slíkt hefur í för með sér. Þenslu og verðbólgu til skemmri tíma litið, en skattahækkanir þegar fram í sækir.
Þessari þróun verðum við að afstýra. Því eru kostirnir svo skýrir.
Það verður gaman að taka þátt í baráttu komandi vikna og finna þann mikla og góða hug sem fylgdi okkur hjá öllu því fólki sem mætti til opnunarinnar. Við vitum nefnilega að við þurfum á hinum góða liðstyrka að halda til þess að ná þeim árangri sem við stefnum að
29.3.2007 | 18:26
Steinbíturinn boðar vorkomuna
Það var stundum haft eftir Einari afa mínum í Bolungarvík að það boðaði vorkomuna þegar steinbíturinn veiddist út af Skálavíkinni. Það má vel vera að fleiri séu bornir fyrir þessum orðum, en allavega þá kom þetta mér í hug þegar ég fór á dögunum on´á Brjót í Bolungarvík og sá bátana koma inn hlaðna af steinbít, sem þeir höfðu fengið út af Skálavíkinni, örskotsstund frá Bolungarvík.
Það er gaman að vera í kring um svona mikið líf, sem skapast á höfninni við þessar aðstæður. Afli krókaaflamarksbáta allt upp í 17 tonn eftir daginn, er náttúrlega alveg ævintýralegur og fyllir mann bjartari von. Körin fleytifull af sladdanum og ys og þys á Brjótnum. Lyftarar aka um og eins gott að vara sig. Gamlir sjómenn koma og spyrja eftir fiskiríi. Fjölskyldur kannski mættar on´eftir og svo spyrjast aflafréttirnar út um bæinn.
609 kíló á balann, var mér sagt í dag. Þetta er svo ævintýralegt að við getum ekkert sagt, en bara dáðst að þessum guðsgjöfum, þessu mikla fiskiríi.
Það verður vor í lofti og vor í sinni, á svona stundum, enda var Víkin eins falleg og hún getur verið, lognvær og kyrr.
Það er fallegt hér þegar vel fiskast, var eitt sinn líka sagt og ég hef heyrt menn heimfæra þau orð upp á ýmsa staði við sjávarsíðuna. Og það eru líka orð að sönnu svo víða.
Fiskifræðingar tala oft um veiðanleika fisks. Ekkert hefur vantað upp á slíkt þessi síðustu dægri. Eftir erfiðan vetur til hafsins, brælur og ótíð, hefur aflinn rokið upp svo nánast er einsdæmi. Margir spáðu vondri vertíð vegna ótíðarinnar, en nú er talað um góða vertíð vegna þessa skots sem orðið hefur í aflabrögðunum.
Við heyrum af góðum afla víða um land. Sjónvarpið hefur sýnt myndir frá bátum sem koma drekkhlaðnir að landi á Suðurnesjum. Bátar á Snæfellsnesi hafa mokfiskað svo mjög að þeir eru að því er mér er sagt sumir að draga upp; búnir með vertíðina og það jafnvel áður en hrygningarstoppið hefst nú í næsta mánuði. Sjómenn tala um að fiskurinn sé vel haldinn, enda gengur loðnan og síldin vestur fyrir land og nú er fiskurinn að leggjast í ætíð. Fullyrðingar um hin dauðu mið, sem skrifað var um í löngu máli í grein í Morgunblaðinu eftir upprennandi stjórnmálamann, eru í litlu samræmi við veruleika sjómannanna sem nú koma að landi með ígildi síldarhleðslna.
Það hefur verið hressandi að sjá fréttir af þessum góðu aflabrögðum rata inn á forsíður dagblaðanna og í fréttatíma útvarps og sjónvarps. Einhvern veginn hefur manni fundist að allt snerist nú um ávöxtun og kaup og sölu hlutabréfa. En þrátt fyrir allt slíkt tal veit þjóðin það vel að sjávarútvegurinn er burðarásinn okkar og það er fallegt um að litast þegar vel fiskast.
Og svo að lokum þetta: Vonandi hefur vorið nú hafið innreið sína með steinbítnum út af Skálavíkinni !
28.3.2007 | 20:09
Eitt risastórt 0
Einhver átakanlegasta málefnafátækt sem mætt hefur sjónvarpsáhorfendum mjög lengi, birtist í málflutningi stjórnarandstæðinga í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 þar sem oddvitar Norðvesturkjördæmis komu saman. Við vitum að það vantar ekki að stjórnarandstæðingum vefst ekki tunga um höfuð sér þegar kemur að því að gagnrýna. En í þætti Stöðvar 2 var hins vegar knúið á um svör stjórnarandstæðinga við einfaldri spurningu. Spurt var: Herrar mínir ( því allt voru þetta karlar í þættinum) hvað viljið þið gera?
Og svörin voru skýr. Eitt risa stórt 0. Engin svör, mörg orð svo sem, en gjörsamlega innistæðulaus. Þetta er ótrúlegt. Stjórnarandstaða sem hefur haft allan þennan tíma til undirbúnings er skoðanalaus, þegar kemur að úrlausnum.
Tökum þann þingmann, Jón Bjarnason, sem hlotið hefur þann vafasama heiður að hafa talað allra manna mest; raunar sólarhringum saman á Alþingi í vetur. Svo málglaður maður hefði væntanlega átt að geta svarað einfaldri spurningu um hvað hann vilji gera, til dæmis í atvinnumálum á Vestfjörðum, eins og spurt var. En þarna fataðist hinum málglaða stjórnmálamanni flugið. Í bögglingi sínum nefndi hann þó tvo til þrjú dæmi um atvinnutækifæri á Vestfjörðum. Þau áttu eitt sameiginlegt; semsé að vera tillögur um atvinnutækifæri sem skapa myndu störf fáeina mánuði á ári. Hvað íbúar Vestfjarða eiga svo að gera hinn hluta ársins var hins vegar í svörtustu þokumóðu. Um það hafði sá ágæti Jón ekkert að segja.
Með öðrum orðum, vinna í þrjá mánuði á ári, en frí í 9 !!
Aðrir stjórnarandstæðingar sigldu svo í kölfarið og skiluðu einnig stóru 0.
Þetta verður þeim dapurlegra þegar hugsað er til þeirra stóru yfirlýsinga og hinna miklu svardaga sem uppi hafa verið, í sambandi við atvinnumálin. Við vitum að það er mjög auðvelt að gagnrýna. Það hlutverk hefur stjórnarandstaða hverju sinni og slíkt er afskaplega mikilvægt. En.... og það skiptir líka miklu máli. Stjórnarandstaðan á að geta boðið upp á nýja kosti. Þær kröfur á almenningur að geta sett fram gagnvart stjórnarandstöðu hverju sinni. Nú hafa málin skýrst. Stjórnarandstaðan ætlar að halda sífri sínu áfram, en eiga engar lausnir til að færa fram. Það er dapurlegt hlutskipti.
22.3.2007 | 09:16
Jöfnuður mikill - fátækt lítil
"Fullyrðingar um ójafnari tekjudreifingu og meiri fátækt á Íslandi en í nágrannalöndunum, sem settar hafa verið fram á opinberum vettvangi undanfarin misseri, eru einfaldlega rangar. Raunar eru þær ekki einungis rangar heldur þveröfugar við hinar samræmdu mælingar Hagstofunnar og Eurostat. Gagnstætt við það sem fullyrt hefur verið virðist dreifing ráðstöfunartekna á Íslandi vera með því jafnasta sem gerist í Evrópu og fátækt með allra minnsta móti."
Þannig er komist að orði í ákaflega athyglisverðri grein eftir tvo hagfræðinga og fræðimenn, þá Ragnar Árnason prófessor við Háskóla Íslands og Axel Hall aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík í Morgunblaðinu sl. mánudag. ( 20. mars) Hér eru hagfræðingarnir að bregðast við þeirri umræðu sem haldið hefur verið á lofti um meintan ójöfnuð og fátækt í þjóðfélaginu. Vitna þeir til samevrópskrar athugunar sem leiðir í ljós að allar þær fullyrðingar sem haldið hefur verið á lofti um mikinn ójöfnuð í samfélaginu eru kolrangar og fullyrðingar um mikla fátækt hér á landi eru sömuleiðis staðlausar.
Ragnar og Axel rekja eftirfarandi meðal annars í þessu sambandi:
1. Drefing ráðstöfunartekna var með því jafnasta árið 2004 - gagnstætt því sem haldið hefur verið fram.
2. Hlutfall þeirra sem er undir lágtekjumörkum er með því lægsta sem þekkist í Evrópu - gagnstætt því sem hefur verið haldið fram.
3. Gini stuðullinn sem á að mæla efnahagslegan jöfnuð, er lægri hjá okkur en vel flestum öðrum þjóðum. Við erum á svipuðu róli og Norðurlandaþjóðirnar og einungis þrjár þjóðir í Evrópu eru með meiri jöfnuð mælt á þennan kvarða. - Allt er þetta í hróplegu ósamræmi við það sem haldið hefur verið fram.
4. Aðeins ein þjóð, Svíar, hafa lægra lágtekjuhlutfall en við. 29 þjóðir eru með hlutfallslega stærri lágtekjuhóp en við Íslendingar. Þetta bendir til að fátækt sé minni hér en nánast alls staðar annars staðar í Evrópu. - Einnig þetta stangast á við hinar röngu fullyrðingar sem reynt hefur verið að þyrla upp.
Grein þeirra hagfræðinganna og háskólakennaranna hrekur eftirminnilega allar þær röngu staðhæfingar sem lesa hefur mátt í fjölmiðlum upp á síðkastið. Stjórnmálamenn hafa þyrlað upp moldviðri með slíkum rangfærslum og illt er til þess að vita að jafnvel einstaka fræðimenn háskólanna hafi lagst í þá lágkúru. En nú liggja staðreyndirnar fyrir og vonandi hætta menn þá að berja höfði sínu við steininn.
20.3.2007 | 14:40
Karlarnir borða það sem fyrir þá er lagt
Sú tíð er víst löngu liðin að Íslendingar borði fisk í hvert mál, flesta virka daga vikunnar. En nýjar niðurstöður um stórlega minnkun fiskneyslu eru vonbrigði. Rannsóknin var unnin af MATÍS og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Fiskurinn hefur látið undan síga í samkeppni við aðra matvöru. Það er slæmt af ýmsum ástæðum
Fyrir það fyrsta vegna þess að fiskur er hollmeti. Það er marg sannað að fiskurinn er ríkur af jákvæðum efnum, sem gerir heilsu fólks gott. Jafnvel hefur verið sýnt fram á félagslega þætti sem eru jákvæðir að þessu leyti.
Í annan stað vegna þess að fiskurinn er ákjósanlegur til matargerðar. Því ætti fiskurinn að geta verið hluti af þeirri fjölbreytilegu fæðu sem við eigum að leggja okkur til munns. Fábreytni í fæðuvali er ekki góð. Fiskurinn er kjörinn til þess að auka fjölbreytnina.
Þá er ástæða til þess að undirstrika að það gefur auga leið að fiskframleiðslu og fisksöluþjóð eins og við eigum vitaskuld líka að vera kunnug afurðunum okkar. Fyrir þessu má færa margvísleg rök, en vitaskuld blasa þau við hverjum manni.
Á liðnu hausti efndum við í sjávarútvegsráðuneytinu til mikils átaks í samvinnu við tugi veitingastaða um land allt, sem við kölluðum Fiskirí. Boðið var upp á fisk á veitingastöðum og efnt til sameiginlegrar markaðsherferðar. Þetta tókst vel.
Það er ljóst að fólk sem er alið upp við fiskneyslu er líklegra til þess að borða fisk þegar það vex úr grasi en þeir sem aldrei ólust upp við að borða fisk heima hjá sér. Nú eru skólaeldhús að ryðja sér til rúms. Þau munu hafa áhrif á fiskneyslu ungs fólks í framtíðinni. Ástæða er til að hvetja til þess að það verði haft í huga við starfrækslu slíkra skólaeldhúsa.
Fiskurinn er líka orðinn aðgengilegri, með tilbúnum fiskréttum víða. Það mun stuðla að aukinni fiskneyslu. Neysluhættir eru að breytast og fáir gefa sér tíma til eldhúsverka eins og áður. Þess vegna skiptir vöruþróun á þessum sviðum miklu máli sem áður.
Og svo eitt lítið fróðleikskorn að lokum. Í athugun MATÍS og Félagsvísindastofnunar kemur fram að karlmenn borða þann mat sem fyrir þá er lagður. Þetta er dálítið til umhugsunar og kannski eilítillar skemmtunar og segir væntanlega nokkra sögu um karlpening vorn.
16.3.2007 | 10:15
2,2% vilja stjórnarandstöðuna við ríkisstjórnarborðið
Kalt vatn hefur runnið á milli skinns og hörunds stjórnarandstöðunnar í morgun þegar hún leit í Moggann sinn. Þar er birt skoðanakönnun Capacent Gallup þar sem spurt var hvaða flokkar ættu helst að mynda ríkisstjórn. Stjórnarandstaðan fékk þar slíka falleinkunn að ótrúlegt verður að teljast. Þegar spurt var um óskaríkisstjórn nefndu 2,2% samstjórn núverandi stjórnarandstöðuflokka ! 2,2 prósent. Þetta er ótrúlegt - en þó satt. Hraklegri útreið getur engin stjórnarandstaða fengið.
Alveg sérstaklega vegna þess að hér erum við að ræða um Kaffibandalagið sjálft. Það er sumsé orðið algjört réttnefni sem bandalag þetta hið mikla er yfirleitt nefnt nú orðið; kaffibrandaralagið.
Að hugsa sér. Að stjórnarandstaðan, sem búin er stöðugt að fylkja liði í vetur, (svo!) hélt sameiginlegan blaðamannafund um sjálft stjórnarskrármálið á dögunum, bjó til sameiginleg þingmál og svona mætti lengi telja. Allt í því skyni að verða trúverðugur valkostur bak kosningum við stjórnarmyndun. Og svo fá þeir svona útreið.
Nú hljótum við að bíða þess að þessi stjórnarandstaða haldi einn blaðamannafundinn enn og útskýri það fyrir þessum 2,2 prósentum kjósenda hvernig þeir sjái samstarf sitt í framtíðinni. Hin 97,8% hafa bersýnilega hafnað þessum stjórnarmyndunarkosti. Ekki vegna þess að fólkið hafi ekki vitað af honum; heldur hitt að það hefur séð of mikið til hans.
Þetta er það sem kallast sneypuför og hún hefur amk. staðið allan þennan vetur, eða allt frá því að Kaffibandalaginu var komið formlega á fót.
Og svo er það annað. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem menn nefna helst þegar í skoðanakönnuninni er spurt hvaða flokka menn vilji sjá í ríkisstjórn. Þegar skoðað er hlutfall þeirra sem spurðir voru, kemur í ljós að 61,3% vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn, 59% vinstri græna, 44% Samfylkinguna, 29% Framsóknarflokkinn og 9% Frjálslynda.
Það er augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mikils trausts þegar kjósendur taka afstöðu til þess hverja þeir vilja sjá við landstjórnina. Það er einnig í samræmi við þá góðu stöðu og þann mikla stuðning sem Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýtur. Þannig er gott samhengi í vilja kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn er verður trausts að mati kjósenda og formaður hans einnig. Sömu sögu er ekki að segja um ýmsa aðra stjórnmálaflokka, eins og kunnugt er.