ESB málin EKKI á dagskrá

ESBÞráfalldlega hefur verið kvartað undan því að svo kölluð Evrópumál séu ekki nægilega á dagskrá. Að það ríki þöggunarstefna af hálfu stjórnvalda og til séu öfl sem vilji koma í veg fyrir að þessi mál séu rædd.

Þetta er þó tóm vitleysa. Evrópumálin eru mikið rædd. Meira rædd en lítill áhugi almennings á þessum málaflokki gefur tilefni til. En þessi meinti áhugi á upplýstri umræðu um þessi mál hjá áhugafólki um ESB aðild er oft meiri í orði en á borði.

Tökum dæmi. Hingað til lands komu fyrirsvarsmenn sjávarútvegsmála hjá ESB og héldu erindi á opnum fundi á Hótel Borg, 50 metra frá Alþingishúsinu. Enginn þingmaður utan Evrópustefnunefndar forsætisráðherra mætti til fundarins. Var þó ekki langt að fara né, um torleiði að ræða. Þetta segir sína sögu.

Í gærkveldi voru svo eldhúsdagsumræður. Evrópusambandsmál bar ekki á góma í þeim umræðum. Ekki í eitt einasta skipti. Var þó ekki nema sólarhringur frá því að stórmerk skýrsla Evrópustefnunefndar kom út, en að henni komu fulltrúar allra þingflokka. Ætla mætti að sú skýrsla hefði gefið tilefni til umræðu. Svo var ekki.

Gleymum því ekki að reynt var fyrir síðustu kosningar að koma þessu máli inn á dagskrá kosningabaráttunnar, af hálfu Samfylkingarinnar. Þeir drógu svo í land. Og nú er svo komið að þeir virðast hreinlega ætla að forðast umræðuna, markvisst og vísvitandi. Þegar fortíð þeirra í þessu máli er höfð í huga er það ofur skiljanlegt.




Syrgir, tregar þjóðin öll

Hræðilegt sjóslys í mynni Ísafjarðardjúps er sorglegra en orð fá lýst. Tveir dugmiklir og hæfir ísfirskir sjómenn létust við störf sín. Við sem búum í sjávarplássunum og höfum alist upp við sjávarsíðuna, þekkjum þessa ógn og þann kvíða sem setti að okkur þegar veður voru hörð og bátar á sjó. Þegar sjóslys verður, er það sem þungt högg á allt samfélagið. Og við slíkar aðstæður verður samkenndin sterkust.

Hugur okkar er núna hjá aðstandendum sjómannanna sem létust við störf sín. Þeim eru sendar innilegar samúðarkveðjur.

“Þegar brotnar bylgjan þunga,

brimið heyrist yfir fjöll,

þegar hendir sorg við sjóinn,

syrgir, tregar þjóðin öll.”

Þennan áhrifaríka sálm syngjum við gjarnan á Sjómannadaginn, en einnig á kveðjustund sjómanna. Þessi sálmur hrærir við réttmætum tilfinningum okkar á sorgarstundum í sjávarplássunum okkar. Í þessum orðum skáldsins Jóns Magnússonar kristallast tilfinning okkar sem þjóðar þegar sjóslys verða. Engin orð kann ég sem lýsa þessu betur; “syrgir, tregar, þjóðin öll”.

Og það rifjast upp sárir tímar, þegar sjóslys urðu. Sem betur fer hefur margt áunnist í öryggismálum sjómanna. Betri bátar og skip, aukin vitneskja um veðurlag, reynsla og margs konar ráðstafanir í öryggismálum sjómanna hafa skilað árangri.

En hið hræðilega slys núna, minnir okkur engu að síður á að starf sjómannsins við erfiðar aðstæður er ekki hættulaust. Okkur ber því skylda að hafa öryggismálin sem fyrr í forgangi. Það er okkur öllum ljóst og það skulum við því gera.




Ekki hlægilegir; í þetta sinn

StaksteinarStaksteinar - eitt afbrigði ritstjórnargreina Morgunblaðsins bregst aldrei. Eða að minnsta kosti sjaldan. Í heimi hverfulleikans er óskaplega gott að geta reitt sig á eitthvað, sem vitað er að aldrei bregst. Höfundur Staksteina er einn þeirra sem alltaf er fyrirsjáanlegur; - það á við þegar fjallað  er um hvalveiðar með einhverjum þeim hætti sem hann hefur velþóknun á. Þetta er fyrir okkur gamla Morgunblaðslesendur orðið að sæmilega tíðri morgunskemmtan, sem hægt er að hlægja að.

Áður en menn setjast niður við þessar morgunskemmtan, er sjálfagt að gefa gott ráð. Eitt er það nefnilega sem nauðsynlegt er að temja sér við þessar aðstæður. Að vera ekki búinn að renna  upp í sig kaffisopa, áður en komið er að bls. 8 þar sem stjórnmálaskýrandi Staksteina fær afurðir sínar sínar birtar. Því þegar að manni setur hláturinn við lestur hinna fyrirsjáanlegu skrifa er ábyggilega illt að hafa uppí sér kaffisopann. Hláturroka  við slíkar aðstæður getur ábyggilega haft vondar afleiðingar; það sjá allir.

Staksteinar eru við sitt gamla og viðtekna heygarðshorn í morgun en er ekki  hlægilegur í þetta sinn; heldur  lýgur. Það er lítil skemmtan að því.  Hann reynir að halda því fram að stuðningsmenn hvalveiða vilji líka ganga of nærri náttúru landsins.

Þvílík ósvífni. Veit blaðið þetta? Er blaðið til dæmis þeirrar skoðunar að ég sé í þeirra hópi? Slíkt frábið ég mér. Ekkert í skrifum mínum, ákvörðunum, né skoðunum mínum, gefur blaðinu minnsta tilefni til svona ályktana. Og enn síður getur blaðið dæmt þann stóra hóp sem styður sjálfbæra nýtingu á hvalastofnum með þessum hætti. Þetta er ótrúlega ósvífið,  þetta eru staðlausir stafir, lýsir hroka og ber vott um óskammfeilni, sem ástæðulaust er að láta ósvarað.

Hvalveiðar eru stundaðar undir formerkjum sjálfbærrar auðlindanýtingar. Engum heilvita manni dettur í hug að þær feli í sér að gengið of nærri náttúru landsins. Greenpeace sem seint verða sakaðir um linkind í andstöðu við hvalveiðar, viðurkenna það til dæmis í raun í málflutningi sínum.

Þess vegna er það þeim mun ömurlegra að lesa svona ómerkilegan málflutning  í ritstjórnargrein Morgunblaðsins. Í þetta sinn voru Staksteinaskrif um hvalveiðar ekki hlægileg; aldrei þessu vant. Skrif blaðsins voru bara dapurleg. Ekki hlægileg í þetta sinn. Því miður.

 

 




Álitsgjafar í fílabeinsturnum

FílabeinsturnÞað er nokkuð sérstakt til þess að vita hversu álitsgjafar og fjölmiðlungar af alls konar tagi eru fjarri hugsun þjóðarsálarinnar þegar kemur að umfjöllun um ýmis mál. Skemmst er að minnast síbyljunnar í fjölmiðlum gegn hvalveiðum, sem tröllreið fjölmiðlum daginn út og daginn inn. Allra handa bloggarar riðu röftum í baráttu sinni gegn hvalveiðum okkar Íslendinga, heil sjónvarpsstöð, - Stöð 2, - var undirlögð af fréttum í heila viku gegn ákvörðun stjórnvalda, álitsgjafar fjölmiðlanna töluðu hér um bil í einum kór gegn þessari ákvörðun. Og fyrir vikið kiknuðu hnjáliðir ístöðulítilla stjórnmálamanna.

En svo gerðist það óvænta, sé síbyljan í fjölmiðlum höfð til hliðsjónar. Skoðanakönnun var birt og í ljós kom yfirgnæfandi stuðningur almennings í landinu við ákvörðun okkar um að hefja hvalveiðar. Álitsgjafarnir voru með öðrum orðum víðs fjarri skoðunum almennings.

Nú er komið upp annað mál, þessu líkt. Við höfum heyrt síbyljuna gegn landbúnaðinum. Hver mannvitsbrekkan af fætur annarri hefur ráðist gegn landbúnaðinum, reitt hátt til höggs gegn þessari mikilvægu atvinnugrein og haft uppi ómerkilegan og ómálefnalegan áróður gegn íslenskum landbúnaði. Hefur það ekki verið sparað að halda fram röngum fullyrðingum um opinberan stuðning við atvinnugreinina, landbúnaði kennt um hátt matvöruverð og þar fram eftir götunum.

En sjáum nú til. Gerist það ekki að birt er skoðanakönnun sem kunngerð var á Búnaðarþingi á dögunum, þar sem fram kemur afdráttarlaus stuðningur alls almennings við landbúnaðinn. Þvert ofan í skoðanir spekinganna.

Þarna kemur það sem sé enn einu sinni í ljós. Mannvitsbrekkurnar, spunameistararnir, álitsgjafarnir, oflátungarnir og þeir sem einir þykjast vita eru orðnir berir að því að himinn og haf skilur á milli þeirra og almenningsálitsins. Það er greinilegt að úr fílabeinsturnum þeirra er lítið útsýni, nema oná eigin nafla.

Þetta er ótrúlegt. Það er eins og að úr fílabeinsturnunum berist boðskapur sem er víðs fjarri skoðunum almennings í landinu. Samt er haldið áfram að kenna og prédika og látið sem prédikararnir viti allt á milli himins og jarðar. En á meðan gefur almenningur lítið fyrir boðskapinn úr fílabeinsturnunum og sendir turnbúunum langt nef í gegn um skoðanakannanirnar.




Fylgi kvenna á flótta og rúinn fylgi karla

SamfylkinginFréttaskýring Morgunblaðsins í dag, þriðjudag á fylgisþróun stjórnmálaflokkanna er athyglisverð. Greining blaðsins byggir á nýjustu skoðanakönnun Capacent Gallup. Sérstaklega er athyglisvert að sjá að verulegur og merkjanlegur munur er á tryggð karla og kvenna gagnvart stjórnmálaflokkunum. Fylgi kvenna færist meira á milli flokka en fylgi karla. Sú var tíðin að hjón kusu jafnan eins. Því er löngu lokið og könnunin nú sýnir svart á hvítu að því fer víðs fjarri að karlar og konur séu samferða á stjórnmálavettvangnum.

Þó Samfylkingin njóti hlutafallslega meira fylgis á meðal kvenna en karla þá er staðan á meðal kvenna áhyggjuefni fyrir flokkinn. 44% kvenna sem kusu flokkinn í síðustu könnun ætla ekki að gera það núna. Það þýðir semsagt að nær önnur hver kona sem kaus Samfylkinguna fyrir fjórum árum gerir það ekki núna. Flokkurinn hefur samt lagt áherslu á femíniskt yfirbragð sitt. Formaðurinn er kona og var kynnt til leiks sem sérstakt forsætisráðherraefni. Nú upp á síðkastið hefur kona gengið undir konu hönd í hræðslukenndum skrifum til styrktar foringja sínum  og halda úti sérstakri heimasíðu í þessum eina tilgangi !

Engu að síður þyrpast konurnar út úr fylgismannahópi flokksins. Þetta hlýtur að vera flokknum þeim mun meira áhyggjuefni þar sem hann er algjörlega rúinn fylgi karla. Flokkur sem annars vegar er svona fylgisrýr á meðal karla og sem býr við svona litla tryggð kvenkjósenda sinna hlýtur að teljast í vanda. Það er sennilega skýringin á þessum örvæntingarskrifum sem birtast þessi dægrin frá flokksmönnum.

Þessi tilraun flokksins er svona álíka og hið misheppnaða útspil um hið Fagra Ísland. Í því tilviki sáu flokksmenn fylgið skríða yfir til Vinstri Grænna og bjuggu þá til umhverfisstefnu þeim flokki til höfuðs. Gallinn var bara sá að kjósendur flokksins út um allt land voru þessari stefnumótun ósammála og yfirgáfu flokkinn sem aldrei fyrr. Nú fara kvenkjósendur flokksins yfir á flokk þeirra kunnu femínista, Steingríms J., Ögmundar og Jóns Bjarnasonar. Þá verður spennandi að sjá hvernig það agn verður útbúið sem ætlað er að tryggja að fyrrverandi kvenkjósendur Samfylkingarinnar að reyna að stuðla að því að konur hætti að kjósa karlanna  í VG og snúi til baka, föðurtúna til.

Vandinn er bara sá að þrátt fyrir allt eru allir framboðslistar Samfylkingarinn nema einn skipaðir körlum í efsta sæti. Það er því hæpið að hið glataða kvennafylgi kjósi að snúa til baka. Og í þessari stöðu engist flokkurinn núna. Með innan við fimmtungs fylgi karla og kvennafylgið á harðaflótta burt frá flokknum, svo mjög að nær önnur  hver kona sem flokkinn kaus síðast hefur nú ákveðið að kjósa aðra flokka.

 




Afskaplega skýrir kostir

Geir H. HaardeGeir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýtur lang mesta trausts almennings þegar spurt er hvern fólk vilji sjá á stóli forsætisráðherra. Fréttablaðið spurði í skoðanakönnun á dögunum og var niðurstaðan afgerandi í þessa veru.

Þetta er athyglisvert en kemur ekki á óvart. Forsætisráðherra hefur notið mikils og óskoraðs trausts. Þessi könnun rímar við aðrar sem gerðar hafa verið. Ljóst er að forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa alls ekki þetta traust almennings þegar spurt er um hvern fólk vilji sjá í forystu ríkisstjórnar.

Það er í þessu sambandi eftirtektarvert að skoðanakönnunin viðheldur þeirri togstreitu sem varð opinber á milli formanns Vinstri grænna og Samfylkingar í frægum Kryddsíldarþætti Stöðvar tvö á gamlársdag. Þá kristallaðist vel og vendilega að Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. geta alls ekki unnt hvoru öðru þess að skipa sess forsætisráðherra. Könnunin nú er á þann veg að bæði munu halda áfram þessari valdabaráttu innan hins lánlausa Kaffibandalags. Þarna er enn eitt sprengipúðrið á átakavelli vinstri flokkanna.

Vandi Kaffibandalagsins felst náttúrlega í því að kjósendur hafa ekki trú á slíku stjórnarsamstarfi. Það er heldur ekki að furða. Við þekkjum það af reynslunni að þriggja flokka vinstri stjórnir eiga skammvinna ævi og lifa ekki út kjörtímabilið. Það er því ekki að undra að þeir kjósendur sem krefjast breytinga og þeir sem kjósa einhvern stjórnarandstöðuflokkana þriggja geta almennt ekki hugsað sér að sjá þá saman í ríkisstjórn.

Andspænis vinstri valkostinum er á hinn bóginn Sjálfstæðisflokkurinn, samstæður og undir öflugri og vinsælli forystu. Að því leyti eru kostirnir í vor býsna skýrir, sem kosningabarátta komandi vikna á eftir að leiða enn betur í ljós.

 




Árangursríkur dagur

Matvörur lækka í verði1. mars 2007 er dagsetning sem skiptir máli. Nú í dag tekur gildi lækkun á matvörum og fleiri vöruflokkum svo um munar. Matvörur báru flestar 14 prósent virðisaukaskatt og nokkrar vörur voru í 24,5% flokki. Nú fara þessar vörur oní 7% flokk. Ennfremur verða vörugjöld af matvælum öðrum en sykri felld niður. Það verður með öðrum orðum ódýrara að versla í matinn. Þetta er skipulegasta og markvissasta ákvörðun stjórnvalda til lækkunar matarverðs, amk. á síðari árum Þetta er kjarabót í raun sem um munar og gríðarlegt átak til þess að bæta kjör almennings.

En það er ekki bara maturinn sem lækkar. Þessi lækkun nær líka til ferðaþjónustunnar, veitingarrekstrar, mötuneyta, fjölmiðlaáskriftar og húshitunarkostnaðar. Menningarefni mun ennfremur lækka í verði. Það á við um bækur og hljómdiska, en hið síðarnefnda hefur verið baráttumál tónlistarmanna um langt árabil.

Það er rétt að minna á að einmitt þessi skattalækkun var gagnrýnd af erlendum matsfyrirtækjum. Undir þá gagnrýni tók hin lánlausa stjórnarandstaða, sem hefur tamið sér að hirða upp allan gagnrýnisvott og gera að sínum, jafnvel þó svo sú gagnrýni verði ómarkviss og mótsagnakennd. Hún taldi þetta til marks um óábyrga fjármálastjórn.

Athyglisvert hefur það verið að í kjölfar þessarar verðlækkunar nú hefur verðvitund almennings skerpst greinilega. Fólk ræðir þessi mál meira en oft áður, menn eru betur meðvitaðir um verðþróun á hlutaðeigandi vöruflokkum og greinilegt að það hafði áhrif. Sú ætlaða hækkun á matarverði í aðdraganda virðisaukaskatts og vörugjaldalækkunar kom ekki fram í mælingu Hagstofunnar þegar hún var síðast gerð.

Það er afskaplega mikilvægt að unnt er að grípa til þessara aðgerða án þess að til kollsteypu komi hjá bændum. Það hefði hins vegar gerst ef farið hefði verið að ráðum Samfylkingarinnar nú í haust og sem flokksforystan hefur endurtekið nú nýlega. Þar getur að líta reginmuninn á aðgerðunum nú og tillögum Samfylkingarinnar.

Dagurinn í dag er til marks um góðan árangur ríkisstjórnarinnar í því verkefni að lækka matvælaverð. Árangur sem mögulegur varð vegna góðrar stöðu ríkissjóðs og ábyrgrar efnahagsstjórnar.




Styrkur okkar felst í krónunni

KrónaNýtt mat alþjóðlega matsfyrirtækisins Moodys á láshæfi íslensku viðskiptabankanna þriggja er afar jákvætt. Ekki bara fyrir bankana sjálfa, þó það skipti vitaskuld miklu máli, heldur einnig fyrir þjóðarbúið í heild.

Þetta mat gefur færi á betri lánskjörum bankanna og eðlilegt að viðskiptavinir þeirra njóti þess í framtíðinni.

Í umræðunni um bankana er ástæða til þess að undirstrika að styrkur þeirra ræðst meðal annars af því efnahagsumhverfi sem þeir starfa í. Því þótt bankarnir hafi eflst mjög á eigin forsendum með útrás, nýbreytni og fleiri stoðum undir reksturinn, er ljóst að eitt og sér dygði það ekki.

Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbanka Íslands víkur meðal annars að þessu í viðtali við Fréttablaðið sl. sunnudag. Þar segir hann:

"Það kemur nú bönkunum til góða hversu mikilvægir þeir eru í íslensku efnahagskerfi í heild sinni og hvaða þýðingu þeir hafa í greiðslumiðlunarkerfi landsins. Moodys lítur meðal annars á það sem styrk að þeir skuli vera staðsettir í ríki þar sem seðlabanki fari með prentunarvald, það er eigin mynt"

Þetta er athyglisvert og verðskuldar að á það sé bent. Gagnstætt því sem ýmsir hafa sagt þá felst styrkleiki í íslensku krónunni. Hér ekki vísað í pólitískt mat, heldur álit alþjóðlegs matsfyrirtækis, sem nýtur slíks álits að skoðanir þess ráða lánshæfi banka, fjármálastofnana og heilla þjóðríkja. Eftir þessu ber því að hlusta og þessa staðreynd ber að undirstrika.




ÁFALL

Starfsstöð Marels á Ísafirði. Mynd bb.isLokun Marels á Ísafirði er áfall. Fyrst og fremst fyrir starfsmenn Marels á Ísafirði og fjölskyldur þeirra, en einnig fyrir samfélagið. Marel er burðarás í atvinnulífinu og það munar um minna fyrir samfélag á borð við Ísafjörð ef Marel hverfur úr bænum.

Marel keypti á sínum tíma fyrirtækið Póls sem fyrir löngu var orðið annálað fyrir frumkvöðulsstarfsemi sína á tilteknu sviði. Þessi hátækni starfsemi á Ísafirði hefur verið eitt af djásnum atvinnulífsins sem við höfum viljað byggja framtíð okkar frekar á. Fyrir vikið er þetta ennþá meira áfall.

Eins og Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar hefur bent á, skapast nú sú hætta að úr bænum hverfi einstök þekking, sem var ómetanleg fyrir samfélagið og vitaskuld fyrir þann atvinnurekstur sem þarna hefur farið fram.

Þessi ákvörðun Marels er að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins tekin á rekstrarlegum grunni. Vísað er til þess að fyrirtækið starfi á alþjóðavísu og hafi starfssemi út um allan heim. Þeir starfrækja 45 starfsstöðvar - af misjafnri stærð- í 22 löndum. Nú verður þeim fækkað um helming, eða þar um bil. Það er því ljóst að engar séríslenskar aðstæður, eða almenn rekstrarleg skilyrði hér á landi, valda þessari ákvörðun þeirra á Ísafirði. Starfsemi á vegum Marels verður aflögð í löndum með evrur, dollara og krónur og jafnt á hávaxta sem lágvaxtasvæðum.

En þetta breytir ekki veruleikanum. Tilkynnt hefur verið um lokun Marels á Ísafirði. Út frá því þurfum við að vinna.

Nú tekur við tími þar sem við þurfum að fara ofan í hvað hægt sé að gera. Fram hefur komið að hugsanlega megi vinna áfram amk. hluta þeirra starfa sem hafa verið hjá Marel á Ísafirði, á vegum annarra rekstaraðila, en á staðnum. Þetta þarf að athuga frekar. Til staðar er sérsniðið húsnæði, tækjabúnaður og þess háttar. Er hugsanlega hægt að nýta þessa aðstöðu og freista þess að lágmarka skaðann?

En umfram allt. Til staðar er hópur frábærs starfsfólks, einstök verkþekking, sem mikilvægt er að við reynum að tryggja að geti áfram verið til staðar á Ísafirði og hafi tækifæri til þess að vinna störf á sínu verksviði. Vegna starfsfólksins, vegna fjölskyldna þeirra, vegna samfélagsins og vegna þess að við trúum því að þannig megi tryggja mest og best til framtíðar þá miklu hagsmuni sem felast í því að starfsemin verði vestra, í þeim mæli sem unnt er.




Aukinn kaupmáttur

Kaupmáttur eykstÍ bloggi gærdagsins var á það bent að lækkandi verðbólga og lægra matarverð sem brestur á um næstu mánaðamót muni bæta lífskjörin í landinu. Það skiptir miklu máli.

Þess vegna var þýðingarmikið að lesa um það í gær í útreikningum Hagstofunnar að kaupmáttur launa hefði vaxið á síðustu tólf mánuðum og raunar í janúarmánuði einum um 3,2 prósent á milli mánaða. Sá síðarnefndi mælikvarði getur verið villandi, vegna þess að í janúar hækka laun oft vegna samningsbundinna ákvæða um áramót. Þess vegna er raunhæfara að líta á lengra tímabil.

Þar blasir svo við að kaupmátturinn hefur vaxið jafnt og þétt frá því um mitt síðasta ár. Með lækkun verðbólgu er þess að vænta að framhald geti orðið á þessari þróun. Einkum vegna áhrifa frá lækkandi matarverði sem gæta mun um næstu mánaðarmót.

Athyglisvert er einnig að matarverð hækkaði ekki í síðustu vísitölumælingu. Það er gagnstætt því sem margir höfðu álitið. Ekki er ólíklegt að mikil umræða um matarkostnað heimilanna, stóraukið verðlagseftirlit, sem ríkisstjórnin hafði frumkvæði að og vaxandi verðvitund almennings eigi þarna mikinn hlut að máli

Verðlagsvitund almennings skiptir vitaskuld miklu. Það eykur aðhald og stuðlar að því að verðlag hækki síður. Sem tæki í þeirri viðleitni, eru verðkannanir eins og þær sem verkalýðshreyfingin hefur staðið fyrir, mjög nauðsynlegar. Er í því sambandi þess skemmst að minnast að ríkisstjórnin hvatti til þess og ræddi það við verkalýðshreyfinguna, að hún stæði að slíkri verðgæslu; einmitt til þess að bæta betur verðskyn almennings í landinu.

Nú virðist margt benda til þess að slíkt hafi tekist og það lofar sannarlega góðu um vænlegan árangur af lækkun virðisaukaskatts sem kemur til framkvæmda nú eftir viku.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband