20.2.2007 | 17:40
Lægri verðbólga - betri lífskjör
Nú er það ljóst að verðbólgukúfurinn sem hér hefur verið, er að hjaðna. Aðgerðir ríkisvaldsins og Seðlabankans eru að hafa þau áhrif að smám saman dregur úr verðhækkunum. Landsbanki Íslands spáir því í nýju áliti sínu að verðlag lækki um 1 prósent á milli mánaða. Tillögur ríkisstjórnarinnar sem Alþingi hefur gert að lögum og fela í sér lækkun virðisaukaskatts á matvörum úr 14% í 7%, ásamt lækkun á vörugjöldum, munu leiða til þessa.
Þar með er lækkandi verðbólga í markvissu ferli. Bankinn spáir því að um mitt ár, eða í júní nk. verði verðbólgan komin niður fyrir verðbólgumark Seðlabankans. Það er mun fyrr en menn höfðu spáð, til dæmis á síðasta hausti. Þetta eru mjög góð tíðindi.
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir lausatök í hagstjórninni. Þeim ferst, eða hitt þó heldur ! Við sjáum það þessi dægrin að aldrei líður sá dagur að flokkar og þingmenn stjórnarandstöðunnar taki ekki undir kröfugerð sem leiðir til aukinna ríkisútgjalda og slaka í hagstjórninni, sem virkar sem olía á eld. Það er átakanlegt að sjá væna frambjóðendur meðtaka gagnrýnislaust alla kröfugerð og gera hana að sinni. Þeir sem þannig haga sér eru ekki líklegir til þess að sýna þá festu sem nauðsynleg er í hagstjórn og við landstjórnina.
Kannski má skilja stjórnarandstæðinga þá sem þannig vinna að einu leyti. Þeir vita sem er að hinn mikli vöxtur hagkerfisins og tekjuaukning þjóðarbúsins gerir okkur kleyft að takast á við verkefni sem áður voru okkur ofviða. Aukin útgjöld til velferðarmála ásamt skattalækkunum til almennings og fyrirtækja og góð staða ríkissjóðs, sýnir okkur það svart á hvítu. Þeir telja því kannski að það sé allt í lagi að vera rausnarlegur á loforð og taka undir allar kröfugerðarhugmyndir; hvaða nafni sem þær nefnast.
Það er þó fullkomið ábyrgðarleysi. Kannski ímynda menn sér líka að slíkur málflutningur sé fallinn til vinsælda. En það er rangt mat. Almenningur sér í gegn um loforðaflauminn. Menn vita til hvers slíks leiðir. Því þó efnahagslífið sé sterkt, þá er auðvelt að rústa því með ábyrgðarleysi. Við þekkjum það úr fortíðinni. Vinstri stjórnir fyrri tíðar ættu að vera okkur nægjanleg áminning.
18.2.2007 | 20:12
Eru þjóðaratkvæðagreiðslur felustaður?
Einn mesti galli við þjóðaratkvæðagreiðslur, er að þær eru mikil freisting fyrir stjórnmálamenn að skjóta sér undan því að taka afstöðu. Þetta er vel þekkt fyrirbrigði í öðrum löndum. Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa því tilhneigingu til að gera línur stjórnmálanna óskýrari. Þjóðaratkvæði geta þess vegna stuðlað að óskýrara og ólýðræðislegra vali fyrir vikið. Vegna þess að í stjórnmálum eiga kjósendur kröfu á að línur séu skýrar.
Helsta réttlæting stjórnmálaflokkanna og ástæðan fyrir því að þeir eru til, er að þeir skerpa hinar pólitísku línur og gera fólki betur kleyft að taka afstöðu til meginlína í stjórnmálum. Án stjórnmálaflokka væru kjósendur að taka afstöðu til 63 einstaklinga til setu á Alþingi og engar meginlínur væru sjáanlegar.
Þessa dagana erum við einmitt að verða vitni að því hvernig stjórnmálamenn eru að reyna að skáskjóta sér framhjá afstöðu með því að vísa til almennrar atkvæðagreiðslu. Ætlunin er að Hafnfirðingar kjósi um stækkun álversins í Straumsvík. Og sjá. Forystumenn í bæjarmálum Hafnarfjarðar, svo sem bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson, kemur í sjónvarpið og víkur sér undan því að taka afstöðu til málsins.
Þetta er auðvitað alveg fáránlegt. Vitaskuld hefur pólitískur forystumaður, eins og pólitískt kjörinn bæjarstjóri í Hafnarfirði, skoðun á því hvort stækka beri helsta atvinnufyrirtækið í bænum hans. Ekki síst þegar um er að ræða fyrirtæki á borð við álver, sem hafa ævinlega verið umdeild í samfélaginu. En nú er greinilegt að nýta á atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði eins og felustað, svo ekki þurfi að ljóstra upp skoðun sinni. Ástæðan er sú að framkvæmdin er umdeild, vitað um skiptar skoðanirr samfylkingarfólks í Hafnarfirði og hin yfirlýsta stefna Samfylkingarinnar er andstæð stækkuninni í Straumsvík.
Í prófkjöri Samfylkingarinnar í haust atti Þórunn Sveinbjarnardóttir alþm. kappi við keppinauta sem margir hverjir földu sig á bak við atkvæðagreiðsluna og gáfu ekki upp afstöðu sína í umdeildu máli. Þetta gagnrýndi Þórunn réttilega í athyglisverðri grein í Blaðinu 4. nóvember sl. Undir þá gagnrýni er rétt að taka.
Kjörnir fulltrúar í bæjarstjórnum og þjóðþingum eiga ekki að víkja sér undan afstöðu og skríða í skjól almennrarar atkvæðagreiðslu. Slíkar atkvæðagreiðslur geta í raun verið öndverðar lýðræðishugsjóninni og því er engan veginn gefið að kalla eigi eftir þeim hvenær sem leysa þarf úr viðkvæmu eða flóknu úrlausnarefni. Það er eðlilegt að íbúar Hafnarfjarðar fái að vita um afstöðu kjörinna fulltrúa sinna í máli sem verið er að kjósa um.
16.2.2007 | 08:45
Nú eigum við eina sál
Almennt er hinum nýju samgönguáætlunum sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mælti fyrir á Alþingi í gær vel tekið. Nema vitaskuld það fyrirsjáanlega og hefðbundna sífur nokkurra stjórnarandstæðinga. Það kippir sér þó enginn upp við það. Látum það ekki skyggja á ánægjuleg tímamót.
Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnar þessari stefnumótun í sérstakri ályktun sem gerð var og víðar hefur henni verið vel tekið.
Það er í þessu sambandi sérstaklega ánægjulegt að sjá hve mikill stuðningur er við fyrirhuguð Óshlíðargöng, eða Bolungarvíkurgöng, eins og þau eru líka nefnd. Til viðbótar við ánægju og fögnuð heimamanna hafa leiðarahöfundar tveggja dagblaða lýst yfir sérstakri ánægju sinni.
Morgunblaðið skrifar leiðara í fyrradag, miðvikudaginn 14. febrúar og segir: "Þá er sérstök ástæða til að fagna því að gert er ráð fyrir að ljúka jarðgöngum á milli Bolugnarvíkur og Hnífsdals á næstu þremur árum. Það er ekki lengur hægt að bjóða Bolvíkingurum og því fólki sem á leið til Bolungarvíkur upp á þá miklu slysahættu sem er jafnan til staðar á veginum milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Vestfirðingar hljóta að fagna því mjög að nú verður ráðist í þessa framkvæmd".
Blaðið skrifar í sama dúr: "Auðvitað er nauðsynlegt að bæta samgöngukerfið. Það mótmæla því fáir ef þá nokkrir. Það er til dæmis ekki lengur hægt að bjóða íbúum Bolungarvíkur upp á að keyra Óshlíðarveginn. Það má í raun teljast ótrúleg mildi að grjóthrun úr hlíðinni hafi ekki valdið meiri skaða en raun ber vitni. Þetta er stórhættulegur vegur og Óshlíðargöngin bráðnauðsynleg samgöngubót."
Áður hafði svo Fréttablaðið skrifað mjög í sama anda um þetta mál.
Það er því ljóst að mikill samhljómur er um þessa framkvæmd. Um hana er sannkölluð þjóðarsátt. Þetta fann maður einnig frá fyrsta degi.
Þegar ákveðið var á fyrsta ríkisstjórnarfundinum sem ég sat að setja sérstakt fjármagn til umræddra jarðganga má segja að teningunum hafi verið kastað. Æ síðan hefur verið unnið, með dyggum stuðningi heimamanna að þessu máli. Við þau tímamót skrifaði ég á þessa blogg síðu:
"Gamla bolvíska aðferðin að vinna án hávaða en með þrautseigju reyndist vel, eins og svo oft, fyrr og síðar. Þessu fögnum við Bolvíkingar. En það er ekki allt. Maður hefur fundið ótrúlegan stuðning við þetta mál úti í þjóðfélaginu. Ég hef varla hitt mann sem ekki hefur fært þetta í tal við mig upp á síðkastið. Og sem ég sit við gerð þessa pistils renna SMS sendingar með heillaóskum inn á símann minn. Þessi framkvæmd nýtur nefnilega ótrúlegs velvilja úti um allt þjóðfélagið. Fyrir það erum við afskaplega þakklátir, íbúar Bolungarvíkur."
Nú er ástæða til að gleðjast. Það gerðu bæjarstjórnirnar í Bolungarvík og Ísafirði á þessum tímamótum, algjörlega án tillits til pólitískra skoðana. Slíkt þjóðþrifaverk er ofar pólitísku dægurþrasi. Það er eins og sagði í kvæði þjóðskáldsins; nú eigum við eina sál.
13.2.2007 | 20:53
Allar dyr standa opnar
Það er ástæða til þess að taka undir með stjórnarandstöðunni úr umræðum um málefni Byrgisins á Alþingi í gær. Þeir sögðust enga ábyrgð vilja bera. Það er skiljanlegt. Hvenær hefur núverandi stjórnarandstaða verið tilbúin til að axla ábyrgð? Þeir eru tilbúnir til þess að tala og tala, en á orðum sínum vilja þeir litla ábyrgð taka.
Og það á alveg eins við þó þeir hafi hvatt til þess að aukið fjármagn yrði lagt til starfsemi Byrgisins og í rauninni fundið freklega að því að stjórnvöld væru ekki nægjanlega örlát á almannafé til Byrgisins.
Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálynda flokksins fór mikinn á Alþingi og brýndi menn mjög til þess að vera útbærari á almannafé til Byrgisins. "Ég hef trú á því að það sem menn hafa verið að gera í Byrginu vestur á Miðnesheiði sé þjóðfélagi okkar mjög verðmætt", sagði hann í þingræðu. Ræður hans af þessu tilefni voru samfelld hvatning til þess að meira yrði greitt úr ríkissjóði.
Félagar hans úr Vinstri Grænum Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson hvöttu og til þess að aukið fé yrði lagt í þessa starfsemi, þó fram kæmi að þeir þekktu ekki starfsemina að ráði. Voru engu að síður tilbúnir til þess að krefjast fjármagns til Byrgisins.
En látum þetta þó liggja á milli hluta. Þeir voru örugglega í góðri trú rétt eins og við hin á Alþingi sem vorum blekkt, eins og Jón Kristjánsson fyrrv. heilbrigðisráðherra benti á í umræðunni í gær.
Aðalatriði málsins er hins vegar það sem Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í þessari sömu umræðu. Fyrrum skjóllstæðingum Byrgisins - og sem við vitum nú að eru fórnarlömb þeirrar starfsemi - standa allar dyr opnar. Okkur ber skylda að bregðast við þegar við verðum vitni að annarri eins misneytingu og þarna hefur komið í ljós og það er verið að gera.
Félagsmálaráðherra Magnús Stefánsson brást líka strax við er honum varð ljóst að misfarið hefði verið með fjármuni Byrgisins. Málinu var komið til Ríkisendurskoðunar, það mál fer nú sína leið á vettvangi lögreglunnar og þar er líka verið að rannsaka hinar alvarlegu ásakanir sem hafa komið fram hjá konum sem þar dvöldu. Þau mál þarf að leiða til lykta - og þá væntanlega á vettvangi dómstóla að lokinni lögreglurannsókn.
Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að hér eru á ferðinni alvarlegir hlutir. Stjórnvöld hafa brugðist við þeim með þeim aðferðum sem tiltæk eru, á vettvangi félags og heilbrigðisþjónustu og með inngripum lögreglu í samræmi við eðli og alvarleika þessara mála.Geta menn nú ekki stillt sig í umræðunni og sameinast um uppbyggileg viðbrögð við þessum mikla harmleik, í stað þess að setja á enn eina ræðulotuna með hávaða og stóryrðum.
13.2.2007 | 20:53
Allar dyr standa opnar
Það er ástæða til þess að taka undir með stjórnarandstöðunni úr umræðum um málefni Byrgisins á Alþingi í gær. Þeir sögðust enga ábyrgð vilja bera. Það er skiljanlegt. Hvenær hefur núverandi stjórnarandstaða verið tilbúin til að axla ábyrgð? Þeir eru tilbúnir til þess að tala og tala, en á orðum sínum vilja þeir litla ábyrgð taka.
Og það á alveg eins við þó þeir hafi hvatt til þess að aukið fjármagn yrði lagt til starfsemi Byrgisins og í rauninni fundið freklega að því að stjórnvöld væru ekki nægjanlega örlát á almannafé til Byrgisins.
Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálynda flokksins fór mikinn á Alþingi og brýndi menn mjög til þess að vera útbærari á almannafé til Byrgisins. "Ég hef trú á því að það sem menn hafa verið að gera í Byrginu vestur á Miðnesheiði sé þjóðfélagi okkar mjög verðmætt", sagði hann í þingræðu. Ræður hans af þessu tilefni voru samfelld hvatning til þess að meira yrði greitt úr ríkissjóði.
Félagar hans úr Vinstri Grænum Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson hvöttu og til þess að aukið fé yrði lagt í þessa starfsemi, þó fram kæmi að þeir þekktu ekki starfsemina að ráði. Voru engu að síður tilbúnir til þess að krefjast fjármagns til Byrgisins.
En látum þetta þó liggja á milli hluta. Þeir voru örugglega í góðri trú rétt eins og við hin á Alþingi sem vorum blekkt, eins og Jón Kristjánsson fyrrv. heilbrigðisráðherra benti á í umræðunni í gær.
Aðalatriði málsins er hins vegar það sem Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í þessari sömu umræðu. Fyrrum skjóllstæðingum Byrgisins - og sem við vitum nú að eru fórnarlömb þeirrar starfsemi - standa allar dyr opnar. Okkur ber skylda að bregðast við þegar við verðum vitni að annarri eins misneytingu og þarna hefur komið í ljós og það er verið að gera.
Félagsmálaráðherra Magnús Stefánsson brást líka strax við er honum varð ljóst að misfarið hefði verið með fjármuni Byrgisins. Málinu var komið til Ríkisendurskoðunar, það mál fer nú sína leið á vettvangi lögreglunnar og þar er líka verið að rannsaka hinar alvarlegu ásakanir sem hafa komið fram hjá konum sem þar dvöldu. Þau mál þarf að leiða til lykta - og þá væntanlega á vettvangi dómstóla að lokinni lögreglurannsókn.
Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að hér eru á ferðinni alvarlegir hlutir. Stjórnvöld hafa brugðist við þeim með þeim aðferðum sem tiltæk eru, á vettvangi félags og heilbrigðisþjónustu og með inngripum lögreglu í samræmi við eðli og alvarleika þessara mála.Geta menn nú ekki stillt sig í umræðunni og sameinast um uppbyggileg viðbrögð við þessum mikla harmleik, í stað þess að setja á enn eina ræðulotuna með hávaða og stóryrðum.
12.2.2007 | 10:13
Ótrúleg sveifla
Tvær skoðanakannanir sem gerðar eru með um 5 daga millibili um afstöðu fólks til stjórnmálaflokkanna, draga upp gjörólíka mynd. Hver getur skýringin verið? Eru virkilega slíkar sveiflur í afstöðu fólks á milli þessara kannana að þær dugi til þess að skýra þennan mikla mun, eða er það eitthvað annað sem er hér á ferðinni?
Tökum fyrst fyrri könnunina, könnun Blaðsins frá 6. febrúar sl. Skv. þessari könnun er Sjálfstæðisflokkur með 45,4 prósent stuðning og eykur við sig fylgi. Framsókn á svipuðu róli og í fyrri könnunum með um 9 til 10 prósent. Vinstri grænir í sókn, með 23 prósent fylgi. Samfylking nánast í frjálsu falli komnir niður fyrir 20 prósentin ( 19,1%) og Frjálslyndir að dala mikið komnir ofan í 3 prósent.
En á sunnudaginn, 11. febrúar birti Fréttablaðið nýja könnun og þar getur að líta allt aðra niðurstöðu. Skv. þessari könnun styðja 37 prósent Sjálfstæðisflokk, Framsókn komin ofan í 4 prósent, Samfylking með 28 prósent, Vinstri Grænir með 23,7 prósent og loks Frjálslyndir með 7,3%.
Það er ljóst af þessu að það er himinn og haf á milli þessara kannana. Einungis í tilviki Vinstri grænna er staðan eitthvað svipuð í tilgreindum könnum. Sveiflan hjá Sjálfsæðisflokknum er 8 prósentustig og hjá Samfylkingu heil 9 prósentustig. Frjálslyndir fá ríflega 100 prósent meira fylgi í könnun Fréttablaðsins en hjá Blaðinu og Framsóknarflokkurinn með 40% þess fylgis í síðari könnuninni, sem flokkurinn fékk í þeirri fyrri.
Þessar sveiflukenndu niðurstöður verða tæplega skýrðar með skírskotun til einhverra pólitískra tíðinda, sem þarna áttu sér stað á milli kannana. Kaldhæðnir andstæðingar Samfylkingar segja að vísu að lítt hafi heyrst til forystumanna þess flokks síðustu dægrin og geti því skýrt fylgisaukningu flokksins á milli kannananna ! Það eru þó örugglega ýkjur.
Skoðanakannanir eins og þær sem Blaðið og Fréttablaðið gera geta verið afskaplega athyglisverðar, af því að þær mæla fylgi á mjög afmörkuðum tíma. Kannanir Fréttablaðsins hafa þannig stundum fært okkur ný pólitísk tíðindi. Nægir að nefna að sveiflan til Frjálslyndra sást fyrst í könnun blaðsins í haust, í kjölfar umdeilds máflutnings flokksins í málefnum innflytjenda. Gallup ( Capacent) mælir hinsvegar fylgið á heilum mánuði. En kannanir eins og blöðin tvö birtu, með lágu svarhlutfalli og gríðarlegri sveiflu á innan við viku, er ekki líkleg til að varpa skýrandi ljósi á stöðuna í stjórnmálunum. Við verðum því enn að bíða frekari mælinga.
5.2.2007 | 08:45
Helgi hinna miklu innanflokksuppgjöra
Nýliðin helgi var tími hinna miklu pólitísku innanflokksuppgjöra. Eigi færri en þrír forystumenn stjórnmálaflokka fóru í drottningarviðtöl í jafn mörgum dagblöðum til þess að gera upp innri mál flokka sinna. Það er athyglisvert hverjir þetta eru og hvar ástæða er talin til slíkra hreinlæatisaðgerða innanflokks.
Á laugardag birtust viðtöl við þær Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar í Fréttablaðinu og Margréti Sverrisdóttur fyrrv. framkvæmdastjóra Frjálynda flokksins í Blaðinu.
Viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu sneri mjög að innri málum Samfylkingarinnar, enda er þar tíðindasamt mjög, svo landsmenn vita. Slakt gengi í skoðanakönnunum, hið fræga útspil Jóns Baldvins ( sem einu sinni nefndi sig einhvers konar guðföður Samfylkingarinnar) og sú hrikalega staða flokksins að vera á pari við Vinstri Græna í fylgi, gerir það að verkum að forvitnilegt er að lesa viðtal við formann Samfylkingarinnar um þessar mundir.
Sama dag birtist viðtal við Margréti Sverrisdóttur, fyrrv. framkvæmdastjóra Frjálslyndra og varaformannskandidat í Blaðinu. Viðtalið var mikil útskýring á því sem gerst hefði og vörn fyrir stöðu hennar nú. Það var þó fyrst á bloggsíðu hennar sem hún kunngerði ákvörðun um sérstakt framboð sem hún myndi leiða ( ætli það hafi verið ákveðið í lýðræðislegu vali? ) og segir það verða hægra megin við miðju. Semsagt. Þessar hægri áherslur hafa ekki ennþá birst og komu amk. ekki fram í viðtalinu um helgina. Við hljótum því að bíða átekta og sjá þau áhersluatriði koma í ljós.
Loks er að nefna mikið uppgjörsviðtal í Morgunblaðinu við Guðjón A. Kristjánsson formann Frjálslyndra á sunnudag. Viðtalið var kynnt tveimur dögum fyrr og til þess vísað á forsíðu. Það viðtal er afar lýsandi fyrir þau gríðarlegu átök sem hafa staðið í þeim flokki og lyktaði með klofningi hans, þegar úr flokknum gengu einstaklingar sem hafa verið í forystu hans og ljáð honum styrk og tiltekna skírskotun frá stofnun. Það er ljóst af viðtalinu og aðdraganda klofnings Frjálslynda flokksins að flokkurinn og málflutningur hans breytist við þessi tíðindi.
Þessi viðtöl vörpuðu hver með sínum hætti nokkru ljósi á innanmein þeirra flokka sem í hlut eiga. Þau voru forvitnilegt uppgjör; ekki bara fyrir það sem þarna var sagt, heldur einnig vegna þess að þau leiddu í ljós hvar slíks uppgjörs var talin þörf um þessar mundir.
3.2.2007 | 18:03
Já, en hver lagaði kaffið?
Fátt var orðið eftir sem sameinaði flokkana þrjá sem mynduðu hið svo nefnda Kaffibandalag. Um flest var rifist og mörg dæmi voru um að flokkarnir beinlínis byggju til ágreiningsefni til þess að undirstrika sérstöðu sína. Það var helst þegar kom að því að vera samferða í málþófi um RÚV að samstöðumerkin birtust. Nú sjá allir að það ævintýri allt var Samfylkingunni til mikils tjóns. Nægir bara að nefna orð Jóns Baldvins sem fór mjög háðulegum orðum um þá feigðargöngu alla saman.
Afstaða Frjálslyndra til innflytjenda hafði valdið Samfylkingu og VG miklu hugarangri. Þessi tveir flokkar höfðu lagt sig fram um að tala í þveröfuga átt við það sem Frjálslyndir hafa nú gert að stefnu sinni og kristallast í alræmdri grein Jóns Magnússonar lögmanns, nýju stjörnunnar í Frjálslynda flokknum. Hann nefndi greinina Ísland fyrir Íslendinga og kemur ýmislegt upp í hugann við það að eitt að sjá heiti skrifanna.
Steingrímur J. var með moðkennd svör þegar spurt var um stöðu flokks með svona sjónarmið innan Kaffibandalagsins. Morgunblaðið særði hann hins vegar inn á völlinn með snaggaralegum Staksteinaskrifum. Steingrímur J. átti þá enga undankomuleið; nema þá náttúrlega þögnina. En hann er þekktur af öðru en því að þegja þegar til hans er talað.
Grein hans í Morgunblaðinu sl. föstudag þar sem hann bregst við skrifum Morgunblaðsins tekur þess vegna af öll tvímæli. Hann hefur sett fram slík skilyrði gagnvart Frjálslynda flokknum að óhugsandi hlýtur að teljast að flokkur hans og Frjálslyndir eigi samleið. Hann útilokar samstarf við flokka sem gerir út á andúð í garð erlends fólks. Þarna hlýtur hann að eiga við Frjálslynda. Eða skilja menn málflutning þeirra öðruvísi en sem tortryggnistal í garð útlendinga. Út á það gengur pælingin í stefnumótuninni, með liðstyrk hins Nýja afls.
Athyglisvert er á hinn bóginn að Ingibjörg Sólrún er snöggtum loðmæltari um þessi máli í viðtali við Fréttablaðið nú í dag, laugardag. Ekki er ótrúlegt að hún verði knúin til skýrari afstöðu til þessa.
Og svo eitt að lokum. Kaffibandalagið var svo nefnt af því að formenn flokkanna þriggja sátu saman að kaffidrykkju á heimili formanns Samfylkingarinnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þeim mun meinlegri er það sem Steingrímur J. segir í grein sinni og hefur innan sviga. "Hér skal reyndar upplýst að kaffi sem verið hefur á boðstólnum á tengdum fundum hefði oft mátt vera betra, en það er önnur saga".
Það þarf ekkert að leggja út af þessum orðum formanns VG. Þau tala nægjanlega skýrt fyrir sig sjálf og eru ótrúlega níðangursleg og kaldhæðin. Og getur tilgangurinn nokkuð hafa verið annar?
30.1.2007 | 13:15
Þöggunarstefnan sýnir andlit sitt
Síðasta vika hefur verið Samfylkingunni slæm. Það byrjaði með ræðu formannsins í Reykjavík þar sem gat að líta enn nýja yfirlýsinguna sem fékk flesta landsmenn til að sperra eyrun - af undrun. Síðan rak hvert annað. Fordæming Jóns Baldvins í Sifri Egils og óbein hótun frá honum um stofnun nýs stjórnmálaafls, af því að Samfylkingin dygði ekki til þeirra verka sem henni væru ætluð. Svo kom Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og fyrrv. formaður framkvæmdastjórnar flokksins og gagnrýndi Kaffibandalagið og málþófsæfingar Samfylkingarinnar í RÚV málinu.
Þetta er Samfylkingunni erfitt. Jón Baldvin hefur sérstaka stöðu innan Samfylkingarinnar; verið þar í raun á einhverjum hefðarstalli. Hann lagðist og í víking í kjöri Ingibjargar Sólrúnar sem flokksformanns og hafnaði þar með fráfarandi formanni. Stefán Jón var sömuleiðis einn af liðsforingjum formannsins. Nú gagnrýna þeir hvorutveggja; taktík og málatilbúnað flokksins síns.
En þá ber athyglisvert við, eins og Hrafn Jökulsson, fyrrv. ritstjóri Alþýðublaðsins bendir á í bloggi sínu á dögunum. Enginn hinna afkastamiklu bloggara úr þingliði flokksins æmtir, skræmtir, eða bregst til varnar. Svo telur hann upp skrif þingmanna samfylkingarinnar í kjölfar dóma Jóns Baldvins og Stefáns: "Össur Skarphéðinsson skrifar um Frjálslynda flokkinn, Mörður Árnason um RÚV (nema hvað?), Björgvin G. Sigurðsson um þjóðlendur, Jóhanna Sigurðardóttir um verðtryggingu og Helgi Hjörvar um að nú séu jólin loksins liðin...", segir Hrafn á síðu sinni. Einungis Karl V. Matthíasson og Helga Vala Helgadóttir frambjóðendur Samfylkingarinnar skrifa flokki sínum til varnar. En þau eru náttúrlega að vestan.
Og svo var það annað. Í gær var í þinginu vakið máls á eindreginni skoðun Frjálslyndra í innflytjendamálum og sérstaklega spurt um afstöðu Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna til þess máls vegna meints samstarfsvilja stjórnarandstöðunnar. Það vantaði ekki að þingmenn flokkanna mættu í ræðustól. En einungis til þess að skauta framhjá því sem spurt var um.
Í síðustu viku talaði formaður Samfylkingarinnar um eitthvað sem hún kallaði þöggunarstefnu. Þar var átt við viðleitni til þess að sneiða framhjá umræðum til tiltekin mál. Hún hafði á röngu að standa í því tilviki sem hún nefndi, eins og ég sýndi fram á í bloggi gærdagsins.
En nú erum við búin að sjá þöggunarstefnu í raun. Hún gildir innan Vinstri grænna og Samfylkingar þegar í hlut eiga vinir þeirra í Frjálslynda flokknum og hún gildir þegar uppi er höfð hörð gagnrýni á flokkinn þeirra og sú gagnrýni kemur úr ranni forystumanna þeirra. Nú höfum við séð hvernig þöggunarstefnan lítur út og hvar og hvernig henni er beitt.
29.1.2007 | 10:37
Engin þöggunarstefna vegna ESB umræðna
Af hverju er sífellt verið að halda því fram að í gangi sé einhver þöggun gagnvart umræðum um Evrópusambandið og tengda hluti? Er eitthvað sem bendir til þess að einhverjir óskilgreindir vilji ekki að þau mál séu rædd?
Þessi kenning er algjörlega órökstudd. Hún er bara dæmi um pólitískar dylgjur.
Fyrir það fyrsta þá er það ekki á færi nokkurs manns að þagga niður umræður um stórpólitískt mál, sé á annað borð áhugi á að setja þau mál á dagskrá. Að ekki sé nú talað um ef slík mál séu borin fram af fulltrúum öflugra stjórnmálaflokka. Samfylkingin er áhugasöm um að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga vegna hugsanlegra aðildarviðræðna við ESB. Það er vandræðalaust fyrir flokkinn að setja slík mál á dagskrá sé til þess vilji.
Í annan stað, þá sjáum við af reynslunni að áhugi stjórnmálamanna og fjölmiðla á umræðum um ESB mál er umtalsverður. Skemmst er að minnast nýliðinnar umræðu um Evruna. Að þeirri umræðu komu fjölmargir. Fulltrúar úr atvinnulífi, stjórnmálum, verkalýðshreyfingu, fræðasamfélaginu og svo framvegis. Var þar ríkjandi einhver þöggunarstefna ? Öldungis ekki.
Í þriðja lagi. Nú um árabil hefur starfað sérstök Evrópustefnunefnd á vegum forsætisráðherra undir forystu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Í nefndinni sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Nefndin hefur beinlínis haft frumkvæði að því að efna til umræðna um tiltekin mál á þessu sviði. Enginn vafi er á því að frumkvæði nefndarinnar hefur styrkt umræðuna og gert hana málefnalegri og markvissari. Athyglisvert hefur verið að þessir umræðufundirnir hafa ekki verið fjölsóttir af stjórnmálamönnum. Til dæmis ekki af þeim sem oft kvarta undan skorti á umræðu um þennan mikilvæga málaflokk.
Í fjórða lagi er augljóst að áhugi álitsgjafa og stjórnmálamanna á málefnum er snúa að ESB og Íslandi er langt umfram það sem maður finnur á meðal almennings. Á opinberum fundum berst talið sjaldnast að ESB málum. Engu að síður tölum við stjórnmálamenn um þessi mál. Þau eru enda spennandi og vekja upp spurningar um álitamál sem ögrandi er að fást við.
Loks má nefna að gríðarlegt magn upplýsinga, skýrslna, bóka, greinarskrifa og blaðaskrifa liggur fyrir um Ísland og ESB, út frá mörgum hliðum. Varla getur að líta meira magn um annað pólitískt álitaefni hér á landi. Þverhandarþykkar skýrslur og doðrantar eru ekki til marks um að ráðamenn stífli umræðu um Evrópusambandið.
Þess vegna er gagnrýni af því tagi sem sett var fram á Samfylkingarfundinum um helgina alveg tilhæfulaus og vitnar fremur um fátæklegan málatilbúnað en nokkuð annað.