28.1.2007 | 15:13
Staksteinar í vondum málum
Nú er Staksteinahöfundur Morgunblaðsins í vondum málum. Verulega vondum málum. Í dálki Staksteina var skrifað þann 20 janúar sl. sigri hrósandi að þeir Tony Blair forsætisráðherra og David Attenborough sjónvarpsmaður ætluðu í herferð gegn hvalveiðum Íslendinga.
Ekki var nákvæmninni fyrir að fara í Staksteinum, fremur en svo oft áður. Hin meinta herferð Breta var hugsuð sem viðleitni til þess að fjölga ríkjum í Alþjóðahvalveiðiráðinu sem andvíg yrðu hvalveiðum. Staksteinar áttuðu sig ekki á því og hrósuðu ótímabærum sigri í baráttu sinni gegn rétti Íslendinga til sjálfbærrar auðlindanýtingar.
Nú gerðist það að á mbl.is þann 26. janúar sl. birtist viðtal við Alp Mehmet sendiherra Breta hér á landi. Þar gerði hann skilmerkilega grein fyrir því að baráttu Breta væri ekki beint gegn íslenskum vörum. Mehmet sagði, að ekki stæði til af hálfu breskra stjórnvalda að hrinda af stað herferð gegn íslenskum vörum; slíkt væri ekki háttur siðaðra þjóð, sagði hinn háttprúði sendiherra. Markmiðið væri að fjölga meðlimaríkjum Alþjóðahvalveiðiráðsins. En í Staksteinum var það ekki talið athugavert að slíkri herferð væri beint gegn Íslendingum. Þvert á móti leyndi sér ekki velþóknunin.
Þetta er ekkert nýtt, sagði Mehmet sendiherra, engin ný stefna í gangi. Síðan vakti hann athygli á að það sem Bretar væru að gera hefði verið gert marg oft áður, meðal annars af öðrum þjóðum.
En hvernig ætli Staksteinar meðhöndli þetta mál núna, þegar ljóst er að þar á bæ hafa menn skrifað út frá fullkomnum misskilningi á meintri herferð Breta? Líklegt er að þeir láti sem ekkert sé, berji höfði sínu við steininn og klifi áfram á málflutningi sínum, án tillits til þeirra upplýsinga sem hafa birst á vef Morgunblaðsins, en einhverrra hluta vegna ekki í blaðinu sjálfu.
Það er að minnsta kosti reynslan af blaðinu þegar það ræðir þessi mál.
Löngu eftir að ljóst var að hvalveiðar voru ekki áhrifavaldur um sölu lambakjöts í útlöndum, héldu Staksteinar t.d áfram að klifa á þeim ósannindnum. Þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi aldrei staðið með sama blóma og nú, láta Straksteinar eins og hún hafi goldið fyrir hvalveiðarnar. Þrátt fyrir að ferðabókanir hingað til lands hafi aukist og slegið öll met í kjölfar hvalveiðanna, tala Staksteinar með gagnstæðum hætti. Þrátt fyrir að hvalaskoðunarmenn segi síðasta ár hafa verið metár, bókanir rúlli inn og það stefni í enn meiri aukningu, láta Staksteinamenn eins og ekkert slík eigi sér stað.
Það er þvess vegna við því að búast að þeir kæri sig kollótta um upplýsingarnar frá breska sendiherranum. Staksteinar hafa vondan málstað að verja.
25.1.2007 | 09:07
Vonbrigði ESB - daðrara
Skoðanakönnunin í Fréttablaðinu í gær, miðvikudaginn 24. janúar, sem leiddi í ljós minnkandi stuðning við ESB aðild og andstöðu við evruna, er mjög merkileg. Ekki hafa færri viljað ESB aðild skv. könnunum frá árinu 2003. Tveir af hverjum þremur vilja hvorki fara í ESB né taka upp evruna. Þessi niðurstaða veldur ESB döðrurum sárum vonbrigðum. Umræðan síðustu dægrin hafði lagst þannig að þeir höfðu örugglega vænst meiri stuðnings við aðild Íslands að ESB og upptöku evrunnar.
Þungavigtarfólk í stjórnmálum hafði talað fyrir evrunni. Það höfðu nokkrir merkishagfræðingar líka gert. Úr atvinnulífinu bárust einnig slíkar raddir og þekkt er að innan verkalýðshreyfingarinnar hafa öflugir menn lagst á evrusveifina.
En almenningur er bersýnilega annarrar skoðunar.
Menn hafa nefnt að sveiflur í gengi séu tilefni til að kasta krónunni og taka upp evru. En er nú ekki rétt að hafa í huga hversu vel gengur í efnahagslífi okkar? Mikill hagvöxtur, óvenju mikill lífskjarabati, ekkert atvinnuleysi, gríðarlegur fjárlagaafgangur, skuldlaus ríkissjóður, stóraukin útgjöld til velferðarmála, lækkun skatta almennings og atvinnulífs. Þetta er vitaskuld ávöxtur þeirrar pólitísku stefnumótunar sem hefur skapað skilyrði til þessa árangurs.
Sannarlega er hér viðskiptahalli, en hann fer ört minnkandi. Hér er verðbólga of mikil, en hún hjaðnar hratt. Við notum þau tæki og tól efnahagsstjórnunarinnar sem við höfum til þess að bregðast við ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Inni í hafti ESB og með upptöku evrunnar, ættum við færri kosta völ í efnahagsstjórnuninni.
Það er athyglisvert að einmitt hugmyndir um að varpa gjaldmiðlum þjóða á glæ, vekja víða ákaflega mikla mótspyrnu. Þar er nærtækt að minna á Bretland. Þrátt fyrir augljósan vilja stjórnvalda þar í landi, treysta þau sér ekki í slíkar aðgerðir. Íhaldsflokkurinn hefur meðal annars eflst vegna staðfastrar andstöðu gegn því að henda breska sterlingspundinu út í hafsauga.
Og svo má ekki gleyma því hvernig almenningur í Noregi, reis upp gegn fyrirætlunum verkalýðshreyfingar, atvinnulífs og áhrifamestu stjórnmálaaflanna sem ætluðu að leiða þjóðina inn í ESB. Getur verið að niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins sé að leiða eitthvað slíkt í ljós hér á landi?
23.1.2007 | 20:43
Óvanalegt varaformannskjör
Kastljósþátturinn í kvöld þar sem Margrét Sverrisdóttir fráfarandi frkvstj. Frjálslynda flokksins og Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður flokksins ræddust við vegna fyrirhugaðs varaformannskjörs, leiddi í ljós að pólitísk hyldýpisgjá er á milli þeirra. Þetta er líklega einsdæmi úr nýlegri fortíð stjórnmálaflokka. Þarna talaði nefnilega saman fólk sem er í innsta kjarna flokksins og málefnaágreiningurinn leyndi sér ekki.
Það er ekki óvanalegt að fólk sem býður sig fram í virðingarembætti í stjórnmálaflokkum komi saman í viðtalsþætti fjölmiðlanna. Jafnan birtist áherslumunur, en sjaldnast beinn skoðanaágreiningur. Þegar einstaklingar bjóða sig fram til forystu í stjórnmálaflokkunum, stendur valið um persónur og kannski áherslur; kjósendur taka svo afstöðu á þeim grundvelli.
Það á ekki við í Frjálslynda flokknum að þessu sinni.
Áherslumunurinn er sannarlega til staðar. Margrét telur flokkinn einsleitan og með áherslu á fá mál og þröngt sjónarhorn. Hún vekur athygli á því að flokkurinn höfði einkanlega til karla sem komnir eru af léttasta skeiði, eins og raunar hefur komið fram í skoðanakönnunum.
En ágreiningurinn er ekki bara um áhersluatriði eða áferð, heldur ríkir kristalklár málefnaágreiningur. Þar mætti ýmsilegt nefna.
Í umræðunni hefur ágreiningurinn um málefni innflytjenda borið hæst. Frjálslyndir hafa kosið að fiska þar í gruggugu vatni. Þeir hafa fetað sömu slóð og flokkar í Noregi og Danmörku sem náð hafa fótfestu með neikvæðri afstöðu sinni til innflytjenda. Þar reri í fyrirrúmi Jón Magnússon lögmaður nýjasta vonarstjarna flokksins. Þingflokkurinn hefur svo siglt í kjölfarið og leggst á sveif með Magnúsi Þór gegn Margréti. Stofnandi Frjálslynda flokksins Sverrir Hermannsson kallar afstöðu Jóns og þingmannanna. Segir hana einkennast sem sagt af kynþáttahatri.
Ágreiningurinn í varaformannskjörinu í Frjálslynda flokknum snýst því meðal annars um þetta mál. Þarna geta ekki tekist málefnalegar sættir. Menn semja ekki við þá sem þeir telja rasista. Annað hvort sigrast menn á þeim eða kjósa að eiga ekki samleið með þeim. Þarna er deilt um slíkt grundvallaratriði, að ekki getur orðið um málamiðlun að ræða. Enda eru rasískar skoðanir tengdar einhverjum verstu hryðjuverkum 20. aldar og kúgunum þjóða og þjóðarbrota.
Það er einmitt þessi skýri málefnaágreiningur sem gerir varaformannskjörið í Frjálslynda flokknum svo sérstakt núna. Þar takast einstaklingar á, með skírskotun til snarps málefnaágreinings. Í Frjárlslynda flokknum verður því ekki einasta kosið um persónur og áherslur, heldur um afstöðu í grundvallarmálum.
22.1.2007 | 17:45
Út úr banvænu tjóðurbandalagi
Samfylkingin er komin í þá vandræðalegu stöðu að vera í hugum fólks pólitískur taglhnýtingur Vinstri grænna. Ofuráherslan á pólitíska samstöðu flokkanna hefur gert markalínurnar á milli flokkanna óskýrari. Það skaðar Vinstri græna lítið. Flokkurinn er afdráttarlaus í sinni einstrengingslegu afstöðu til flestra mála. Í þessu kompaníi flokkanna tveggja líður Samfylkingin hins vegar fyrir þessa stöðu.
Skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær, var sem staðfesting á þessu. Fréttablaðið talar afdráttarlaust um könnunina sem vonbrigði fyrir Samfylkinguna. Fyrst í forsíðuuppslætti þegar könnunin var kynnt. Svo aftur í dag, í leiðara. Þetta er örugglega ekkert ofmælt. Fimmtungsfylgi - sem er svipað og Vinstri grænir fá - hlýtur að teljast vonbrigði og er þá ekkert ofmælt.
Það eru ýmsar vísbendingar um að forystufólk Samfylkingarinnar hafi gert sér grein fyrir þessu banvæna bandalagi sem tjóðrið við Vinstri græna var flokknum. Eðli málsins samkvæmt eiga Vinstri grænir hægara með að yfirbjóða á vinstri vængnum. Í þeim kappleik á Samfylkingarfólkið fá svör, sem eðlilegt er.
Í ljósi þessa verður að skoða útspil forystu Samfylkingarinnar í Evrópu og evrumálum. Þar var á ferðinni mál þar sem klárlega skilur á milli Samfylkingar og Vinstri grænna. Og hversu vitlaus sem sú umræða var af hálfu flokksins má til sanns vegar færa að hún hafi getað þjónað hagsmunum Samfylkingar við þessar aðstæður. Þarna var þá tilefni til að skerpa skilin - og það tókst; en bara um stundarsakir.
Því þá helltist útvarpsumræðan yfir. Þessi málþófsumræða hefur augljóslega skaðað Samfylkinguna. Í henni var flokkurinn í hlutverki þess sem dratthalaðist á eftir Vinstri grænum sem alltaf slá skjaldborg sinni utan um óbreytt ástand þegar kemur að ríkisrekstri. Fyrir vikið dofnuðu skilin á milli flokkanna og Samfylkingin hvarf í skuggann.
Og þetta gerðist þrátt fyrir að öllum væri ljóst sem skoðuðu málin, að ágreiningsefnin á milli Vinstri grænna og Samfylkingar eru óteljandi. En þegar eitt mál, frumvarpið um RÚV er látið drottna yfir umræðunni, hverfa þessi skil á milli flokkanna. Samfylkingin fellur í skuggan við þær aðstæður en Vinstri grænir dafna, rétt eins og Fréttablaðskönnunin sýndi okkur svart á hvítu.
Þess vegna varð það niðurstaðan í dag að láta af umræðum um þetta eftirlætismál VG. Þeir voru hvort sem er búnir að mjólka það út úr umræðunni sem þeir gátu og gátu látið sér á sama standa, þó félagarnir úr Kaffibandalaginu sitji eftir með sárt ennið.
16.1.2007 | 20:05
Endurbygging kútters Sigurfara er stórvirki
Það var ánægjulegt í dag að vera viðstaddur þegar undirritaður var samningur milli menntamálaráðuneytisins, sveitarfélaganna, Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar og svo Byggðasafnsins í Görðum á Akranesi um endurgerð og varðveislu kútters Sigurfara. Það voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Gunnar Sigurðsson forseti bæjarstjórnar Akraness, Einar Örn Thorlacius sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit og Björn Elíson formaður stjórnar byggðasafnsins sem undirrituðu samninginn í hálfgerðri nepju við hlið Sigurfara, að viðstöddum hópi góðra gesta.
Sigurfari á sér merka sögu og má telja að með ákvörðun um varðveislu og endurbyggingu hans sé stuðlað að varðveislu merkra menningarminja, sem ástæða er til að vekja athygli á. Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa lengi barist fyrir því að varðveisla skipsins yrði að veruleika. Það var svo tryggt með ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú í haust að leggja fjármuni til verksins, sem Alþingi staðfesti síðan í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár.
Það er í rauninni athyglisvert að verða vitni að þeirri bylgju áhuga í þá átt að varðveita mannvirki sem hafa sögulegt, eða menningarlegt gildi. Þessa sér mjög stað í fjárlögum Alþingis ár hvert. Þar getur að líta umtalsverðar fjárveitingar til endurgerðar og varðveislu merkra gamalla húsa; sum hafa skírskotun á landsvísu en önnur kannski frekar í héraði. Hvoru tveggja skiptir þó máli. Árangurinn lætur ekki á sér standa. Mörg hús sem eru orðin prýði síns samfélags vekja jákvæða athygli heimamanna og gesta og bera vitni um virðingu fyrir menningarlegri arfleifð.
Gaman er líka að geta þess sem þó fer kannski aðeins minna fyrir í umræðunni, en það er sá áhugi sem víða er fyrir varðveislu gamalla bíla. Þeir eru líka hluti af menningarsögu okkar; það er sögu 20. aldarinnar. Þar er á ferðinni einlægur áhugi margra einstaklinga sem gaman er að geta um.
En siglinga og sjávarútvegsþjóðin þarf líka - og alveg sérstaklega - að hyggja að skipakostinum. Mörg ómetanleg skip og bátar hafa farið forgörðum í fortíðinni, því miður, en ýmislegt hefur verið vel gert. Það er af nógu að taka í framtíðinni. Svo vindur sögunni fram og því spretta fram ný verkefni, sem við þurfum að takast á við í framtíðinni. Víða hafa einstaklingar og samtök þeirra, sem og sveitarfélög, gengið í varðveislu skipa og báta sem mikill sómi er að. Þar með er líka stuðlað að því að þekking fortíðarinnar verði til hjá komandi kynslóðum og það skiptir líka máli
Endurgerð Kútters Sigurfara sem nú er komin á undirbúningsstig verður örugglega eitt af stórvirkjunum á þessu sviði. Þetta er gríðarlega mikið verk. Það kallaði því á þjóðarátak og er sannarlega ánægjulegt til þess að vita að því verður nú hrundið í framtak. Framtak heimamanna, undir tryggri forystu í sveitarstjórnarmálum, skipti þarna lykilmáli, eins og svo oft þegar mál af svipuðum toga er til lykta leitt. Þeim ber því að þakka.
14.1.2007 | 21:22
Engar tilviljanir þarna
Útspil Samfylkingarinnar síðustu dagana um Evrópumál og evruna er ekki neinum tilviljunum háð. Afdráttarlausar yfirlýsingar stjórnmálaflokks um svo veigamikið grundvallarmál geta ekki verið annað en úthugsaðar og skipulagðar. Ætlaðar sem útspil í pólitíska umræðu sem forystumenn flokksins telja æskilegt að sé nú á dagskrá.
Það var vitað að slíkar umræður kölluðu á viðbrögð stjórnmálaflokkanna. Einkanlega Vinstri Grænna sem hafa gengið mjög hart fram í máflutningi sínum gegn frekari Evrópusamruna. Það varð og raunin. Formaður VG var afdráttarlaus að vonum þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða frá honum við skoðunum formanns Samfylkingarinnar, sem túlka ber sem afstöðu þess flokks. Og ekki skóf formaður þingflokks VG,Ögmundur Jónasson utan af lýsingum sínum.
Útspil forystumanna Samfylkingarinnar framkölluðu þau svör sem vænst var. Þarna var nefnilega á ferðinni tilraun til þess að draga skýr skil á milli Samfylkingar og Vinstri Grænna. Forystumenn fyrrnefnda flokksins telja það nauðsynlegt. Skoðanakannanir mæla Vinstri græna í sókn, á meðan algjör stöðnun ríkir í fylgi Samfylkingar að loknu fylgistapi. Ámátlegar tilraunir Samfylkingarinnar til þess að helga sér völl á vinstri helmingi stjórnmálasviðsins hafa reynst árangurslausar. Þar ber hæst hið misheppnaða útspil, Fagra Ísland sem fyrst og fremst ýfði upp mynd sundurþykkju og ágreinings á vettvangi flokksins.
Það er því að vonum að forystumenn Samfylkingar leiti leiða til þess að draga fram áherslumun Samfylkingar og Vinstri Grænna. Flokkurinn þolir augljóslega ekki að verða í þeirri stöðu að erfitt sé að greina mun á milli áhersluatriða flokkanna. Þess vegna brydda forystumenn hans upp á hinni stórfurðulegu umræðu um evruna. Þess vegna skerpa þeir evrópuáherslur sínar og þess vegna draga þeir enn á ný upp úr pússi sínu tillögur um miklar tollalækkanir á landbúnaðarafurðum. Þeir voru að vísu gerðir afturreka með slíkan málatilbúnað á sl. hausti; meðal annars vegna skýrra viðbragða bænda. Og skemmst er að minnast þeirra harkalegu hæðniskommenta sem formaður VG hafði um þá stefnu. Þegar mikið liggur við að draga sem skýrasta línu á milli Vinstri Grænna og Samfylkingar er það hins vegar talið þénugt að vekja upp gamlar kratatillögur í landbúnaðarmálum; jafnvel þó það kosti mótlæti í landsbyggðarkjördæmunum. Í húfi er nefnilega að losna undan skugga Vinstri grænna sem þessi dægrin byrgir hina pólitísku sýn Samfylkingarinnar.
Sú staðreynd víkur trúlega aldrei úr höfði forystumanna stjórnarandstöðuflokkanna, að fólkið í landinu vill ekki að þeir myndi ríkisstjórn. Þess vegna eru þeir í þeirri undarlegu stöðu að daðra hver við annan, en verða á sama tíma að skerpa skilin sín á milli. Þetta undarlega haltu-mér-slepptu-mér samband stjórnarandstöðuflokkanna er fyrir vikið orðið stórfurðulegt en einnig á köflum stórskemmtilegt ásýndar !
11.1.2007 | 10:46
Tvær blaðagreinar um sjávarútvegsmál
Á undanförnum dögum hafa birst eftir mig tvær blaðagreinar um sjávarútvegsmál. Báðar þessar greinar eru birtar hér á heimasíðunni í heild, í dálkinum Greinar/ræður.
Fyrri greinin birtist í Fréttablaðinu 5. janúar sl. og þar sem ég velti upp atriðum varðandi loðnuveiðarnar. Tilefnið þá voru fréttir og umræður um loðnumálin og þá staðreynd að rétt eins og undanfarin ár hefði ekki fundist mælanleg loðna í hefðbundnum haustleiðöngrum. Í greininni í Fréttablaðinu segir meðal annars:
"Sjávarútvegurinn hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni í gegn um tíðina. Menn hafa brugðist við sveiflum í lífríkinu með margvíslegum hætti og ótrúlegt í raun að sjá hvernig atvinnugreinin hefur leitað nýrra tækifæra þegar önnur hafa brugðist. Loðnuvertíðin á síðasta ári var gott dæmi um það. Þó aflinn í tonnum talið hafi einungis verið 27 prósent loðnuaflans árið 2003, varð verðmætisminnkunin langt um minni. Því veldur að sönnu hátt afurðaverð að nokkru. En lang helsta skýringin er sú að útgerðarmenn beittu skipum sínum í aukna vinnslu. Þannig var aflaverðmætið 2003 11,8 milljarðar, ári síðar 9,4 milljarðar, ári síðar varð verðmætið 9,3 milljarðar og í fyrra 6,3 milljarðar, eða um 53% verðmætisins þegar aflinn var þó hlutfallslega miklu meiri".
Síðari greinin var vegna umræðna sem hafa verið um dragnótaveiðar í Skagafirði, en þær eru umdeildar eins og kunnugt er. Sú grein birtist í Morgunblaðinu 9. janúar sl. og var svar við grein Steinars Skarphéðinssonar um þessi mál, sem birst hafði í Morgunblaðinu laust fyrir áramótin. Í grein minni segir meðal annars:
"Það er því ekki rétt sem Steinar Skarphéðinsson segir í máli sínu að óskir manna um takmörkun við dragnótaveiðum í Skagafirði hafi veið hundsaðar. Þvert á móti. Þegar hefur verið brugðist við með reglugerðinni frá 7. ágúst jafnframt því sem málin eru nú til meðferðar í nefnd þar sem sæti eiga fulltrúar hagsmunaaðila, auk þess sem ég hef greint frá því opinberlega að unnið sé að málinu í ráðuneytinu með það að markmiði að finna á því lausn sem ég voni að heimamenn geti sætt sig við."
7.1.2007 | 23:34
Úr herkví vondra vega
Úrskurður Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra um vegagerðina í Gufudalssveitinni markar tímamót og skiptir gríðarlega miklu máli. Úrskurður ráðherrans er vel unninn, málefnalegur og ítarlega rökstuddur. Þar með er höggvið á hnút og óvissu eytt í mikilvægu máli.
Í úrskurðinum er leitast við að sætta ólík sjónarmið sem sannarlega voru til staðar um þessa leið. Umhverfið þarna er fagurt og viðkvæmt. En hins vegar blasir við að hagsmunir íbúa Vestur Barðastrarnarsýslu og annarra sem leið eiga um veginn eru á einn veg. Það er að fara um sem næst sjávarmáli, í stað þess að vaða upp um holt heiðar hálsanna, Ódrjúgsháls og Hjallaháls.
Sjálfur gekk ég þessa leið í sumar. Þarna er fagurt um að litast. Skógurinn umræddi, Teigsskógur er sannarlega fallegur, útsýnið vítt og fagurt, og þegar út á Hallsteinsnesið kemur er sérkennilegt og stórbrotið yfir að líta. Það er því sjálfsagt að gengið sé um svæðið með gætni og virðingu. En á hinn bóginn er ljóst að vegur þarna um sem lagður verður í samræmi við skilyrði umhverfisráðherra opnar fjölda fólks leið sem ella væri því lukt. Þess vegna er þetta mjög í þágu almennings að þessi leið varð ofan á.
Heimamenn höfðu marg oft lagt áherslu á að þessi leið yrði valin. Vegleysurnar um þetta svæði eru með eindæmum. Ódrjúgsháls jafnvel ófær stórum trukkum í haustrigningum, vegurinn um Skálanes eins og hann er og þannig má áfram telja. Segja má að þeir sem hafa þurft að nýta þennan veg hafi verið í eins konar herkví vondra vega. Nú er þeirri herkví aflétt; amk. stórt skref stigið í þá átt. Með góðvegum um Gufudalssveitina styttist leiðin og við losnum við hálsana umræddu.
Ég vakti athygli á því í grein hér á heimasíðunni fyrir tæpum tveimur árum að skynsamlegasta leiðin væri sú sem nú hefur orðið ofan á. B leiðin (svo slæm sem hún er í stjórnmálum) er einstaklega vel fallin til vegagerðar þarna um slóðir og því afar ánægjulegt að hún varð fyrir valinu.
Þetta gerist ekki síst fyrir órofa samstöðu heimamanna, sveitarstjórnarmanna, almennings og sérstaklega ber að nefna nafn Þórólfs Halldórssonar sýslumanns í þessu sambandi. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur verið ásamt okkur öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis talsmaður þessarar leiðar enda skilið þýðingu hennar.
Það var því tilefni til að flagga í Vesturbyggð og Tálknafirði nú um helgina, líkt og menn gerðu svikalaust. Til hamingju með daginn !
4.1.2007 | 09:04
Virðulegt dagblað verður aðhlátursefni
Það er afskaplega freistandi - og auðvelt - að ímynda sér aðstæðurnar. Í höfuðstöðvum Baugs group úti í Lundúnum sitja menn þennan morgun og skellihlæja. Tilefni hlátursins er augljóst. Yfirlýsing fyrirtækisins um andstöðu við hvalveiðar hefur leitt inn í snöru þeirra sjálft Morgunblaðið; gamla erkióvininn. Þess vegna er hlegið dátt yfir ensku morgunverðarteinu. Úti í Bretlandi er þetta kallað side- benefits; einhvers konar aukageta sem fyrirtækið hafði upp úr yfirlýsingu sinni frá því í gær!
Baugur sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem lýst var yfir andstöðu fyrirtækisins við hvalveiðar Íslendinga. Fyrir fyrirtækinu vakir bersýnilega einvörðungu eitt. Það hefur fjárfest mikið í smásöluverslun í Bretlandi og fengið athugasemdir vegna hvalveiða okkar frá fólki þar ytra, en eins og menn vita eru slíkar fjöldapóstsendingar tíðkaðar víða um heim þegar upp koma ágreiningsefni. Til þess að losa sig frá slíku ónæði er hentugt að senda út yfirlýsingu sem dregur skýr skil á milli verka fyrirtækisins og pólitískra ákvarðana hér heima. Um það má að vísu hafa ýmis orð, en fyrir fyrirtækið er þetta þénug og fyrirhafnarlítil leið og í ljósi þrengstu hagsmuna þess kannski skiljanleg.
Á hinn bóginn kom skýrt fram af hálfu talsmanns fyrirtækisins í gær að Baugur hefði ekkert skaðast af hvalveiðunum, sem hlýtur að skipta mestu í þessu sambandi.
En Morgunblaðið blessað, gein við flugunni. Blaðið hefur farið miklum hamförum í baráttu sinni gegn hvalveiðum og farið miklar kollsteypur. Þetta er eitt dæmið um þegar blaðið fær einhver mál á heilann; en slík dæmi eru nokkur úr nýliðinni fortíð þess.
Kostulegt er hins vegar að hugsa til þess að blaðið, sem hefur á undanförnum árum hvað eftir annað mátt þola hnútusvipur Baugsmanna og svarað fyrir sig með mikilli hörku, kyssir nú hinn gamla vönd og það með sýnilegri gleði. Svo mikilli að það getur ekki hamið sig. Athygli vekur að blaðið slær fréttum af yfirlýsingu Baugs upp i fimmdálka baksíðuuppslátt, vísar í aðra frétt í blaðinu og fjallar um málið í ritstjórnargrein ! Fréttablaðið getur þessarar tilkynningar í lítilli frétt og Blaðið sömuleiðis. Og umfjöllun ljósvakamiðlanna var einnig með öðrum hætti; voru þeir þó að segja fréttina hálfum sólarhring á undan Morgunblaðinu.
Þess vegna kætast menn í höfuðstöðvum Baugs og víðar er hlegið að þessari skrýtnu stöðu sem Morgunblaðið er búið að koma sér í. En fyrir hið virðulega og góða dagblað hlýtur að vera einkar sárt að verða aðhlátursefni og leiksoppur í senn !
3.1.2007 | 09:00
Vondur kaffiuppáhellingur
Lítill bloggpistill dugar ekki til þess að tíunda öll ágreiningsefnin í stórmálum sem ríkir á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Þeir hafa kallað tilburði sína til samstöðu, Kaffibandalagið, með stórum staf og greini. Það er hins vegar deginum ljósara að þeir sem reyna að bergja á kaffibollanum sem hellt er upp á í því boði, fá bæði lapþunnan drykk, staðinn og vondan, enda er blandað í hann góðum skammti af ágreiningi sem ekki er skorinn við nögl í þessum uppáhellingi.
Strax sömu dagana og Kaffibandalagið var kunngert sl. haust blasti ágreiningurinn við hverjum manni. Heiftarlegar deilur og gagnkvæmar árásir Samfylkingar og Vinstri Grænna um stóriðju, sem staðið hafa yfir fram á þennan dag. Við sjáum líka að VG ætlar að velgja Samfylkingunni sérstaklega undir uggum í þessum málaflokki, með því að einn helsti forystumaður flokksins Ögmundur Jónasson fer í framboð í Kragann, til þess að geta barið á stóriðjusinnuðum Samfylkingarmönnum á þeim slóðum. Þar er af nógu að taka. Samfylkingin logar stafnana á milli í stóriðjumálum, eins og allir vita.
Skammt er og að minnast deilnanna um lækkun matarverðs nú í haust. Langt er síðan menn höfðu orðið vitni að svo níðangurslegum ummælum stjórnmálaforingja um tillögur annars stjórnmálaflokks og birtust okkur í máli Steingríms J. Sigfússonar um tillögur Samfylkingar á því málasviði. Var þó um að ræða það mál sem Samfylkingin ætlaði sér stóra hluti með í komandi kosningum.
Og muna menn hörkuna sem komu fram í ummælum talsmanna Samfylkingar og Vinstri Grænna í garð Frjálslyndra varðandi afstöðu til innflytjenda. Þar var þó stórmál á ferðinni fyrir þann stjórnmálaflokk . Þetta mál átti að vera bjarghringurinn sem flokkurinn ætlaði að krækja sér í, til þess að reyna að bjarga sér úr pólitískri hafnauð sinni, sem öllum var augljós og þeim sjálfum að sjálfsögðu langbest. Þetta mál, sem fyrir vikið verður grundvallarmál flokksins, hlaut slíka fordæmingu af hálfu Samfylkingar og Visntri grænna að eftir er tekið og augljóst að flokkarnir ætla sér ekkert svigrúm til þess að bakka.
Og nú er semsé komið eitt ágreiningsefnið enn. Deilan um forsætisráðherrastólinn sem kom fram í umræðuþættinum Kryddsíld á Stöð 2. Þar kristallaðist tortryggnin eins vel og unnt var og leyndist ekki nokkrum manni.
Þetta eru bara fern mál sem þó eru öll stórmál hvert um sig. Þarna blasir við hverjum manni ágreiningurinn sem ríkir í millum flokkanna á mikilvægum málasviðum. Snakkið um Kaffibandalagið er þess vegna ekki einasta orðið lúið, heldur bráðfyndið; eins konar pólitískt absúrdverk, fjarstæðuleikhús, sem gaman er að fylgjast með úr fjarska - en bara úr fjarska.